Síða 2338

VG stærst

Katrín Jakobsdóttir formaður VG. Mynd: mbl.is / Árni Sæberg.

Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn njóta mest fylgis meðal landsmanna samkvæmt nýrri skoðanakönnun MRR. Munurinn á flokkunum er þó innan skekkjumarka. Vinstri-græn mælast með 27 prósenta fylgi, jafn mikið og í síðustu könnun í byrjun mánaðarins. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 24,4 prósenta fylgi, litlu meira en í síðustu könnun. Munurinn á fylgi VG og Sjálfstæðisflokks er innan skekkjumarka. Samfylkingin mælist með fylgi í tveggja stafa tölu í fyrsta skipti í rúmlega hálft ár, eða með 10,0% en mældist síðast með 7,8%. Stuðningur við ríkisstjórnina hækkaði milli kannana og kváðust 34,9% styðja ríkisstjórnina. Það er 2,3 prósentustiga hækkun frá síðustu könnun.

 

Fylgi við Pírata lækkar úr 13,6 prósentum í 11,9 prósent milli kannana. Fylgi Framsóknarflokksins fer úr 9,7 prósentum í 10,7 prósent. Breytingar á fylgi þessara flokka er innan skekkjumarka. Viðreisn mælist með 6,2 prósenta fylgi og Björt framtíð 5,4 prósent.

Útilokað að um sama fisk sé að ræða

Frá kvíum Arctic Sea Farm í Dýrafirði.

Matvælastofnun fór í eftirlit hjá Arctic Sea Farm á laugardag í kjölfar tilkynningar fyrirtækisins um gat á sjókví með regnbogasilungi í Dýrafirði. Búið er að loka gatinu en ekki er að svo stöddu vitað hve margir fiskar hafa sloppið. Ljóst er að sá regnbogasilungur sem slapp í umhverfið síðastliðið sumar kom ekki úr þessari sjókví og eru þær slysasleppingar áfram til rannsóknar hjá stofnuninni. Í tilkynningu Arctic Sea Farm til fjölmiðla kom fram að töluverður fjöldi fiska gæti hafa sloppið og að þarna hefði mögulega fundist skýring á veiðum á regnbogasilungi á Vestfjörðum síðastliðið sumar. Matvælastofnun útilokar að málin tengist og bendir í því ljósi á að flestir þeir fiskar sem veiddust af eftirlitsmanni Fiskistofu á Vestfjörðum síðasta sumar voru um hálft kíló að þyngd. Á sama tíma og þær veiðar stóðu yfir var fiskurinn í þeirri kví sem nú um ræðir um tvö kíló, en meðalþyngd fiska í kvínni er nú fjögur kíló.

 

Í fréttatilkynningu Matvælastofnunar kemur fram að enn er óljóst hvenær og hvernig gatið myndaðist, en líklegasta skýringin er sú að botnhringur og net hafi nuddast saman með þeim afleiðingum að núningsgat myndaðist á efri hluta þrengingar við botn kvíarinnar. Netið hefur verið lagfært og verður gatið stærðarmælt þegar kvíin verður tekin á land en áætluð stærð gatsins er um 80cm x 50cm. Fyrtækið hefur látið kafara yfirfara aðrar kvíar og búnaðinum verður öllum skipt út á þessu ári.

Góðir sigrar í blakinu

Karlalið Vestra í blaki fékk Aftureldingu B í heimsókn um helgina og voru spilaðir tveir leikir. Fyrri leikurinn fór fram á föstudagskvöldið strax á eftir körfuknattleiksleik sem var fyrr um kvöldið. Það var því sannkölluð Vestraveisla í íþróttahúsinu á Torfnesi. Seinni leikurinn var spilaður á laugardagsmorgni.

Vestri vann sannfærandi sigur í báðum leikjum 3-0. Afturelding átti þó góða spretti og sumar hrinurnar voru nokkuð jafnar og spennandi.  Vestri heldur þar með sæti sínu á toppi deildarinnar, en framundan er spennandi toppbarátta í deildinni.

Næstu leikir karla- og kvennaliða Vestra eru um næstu helgi, en þá verður stór blakhelgi í Torfnesi. Á laugardeginum tekur kvennaliðið á móti Aftureldingu B og karlaliðið á móti HK B. Á sunnudeginum spila bæði lið við HK B.

Góa gengin í garð

Góumánuður hófst í gær á konudaginn, en góa kallast fimmti og næstsíðasti mánuður vetrar að forníslensku tímatali. Hún tekur við af þorranum og hefst á sunnudegi á bilinu 18.-24. febrúar og stendur þar til einmánuður tekur við. Þorrinn og góan þóttu erfiðastir vetrarmánaðanna, bæði vegna þess að þá reis veldi vetur konungs hve hæst í vályndum veðrum og frosthörkum og ekki síður vegna þess að þá var oft farið að ganga á matarbirgðir á bæjum. Konudagur markar upphaf góu og eru fyrstu skjalfestu heimildir um þann ágæta dag frá miðri 19. öld, en gæti þó heitið verið talsvert eldra í talmáli. Á konudaginn fá konur gjarnan blóm frá mökum sínum, en sá siður hefur tíðkast allt frá því er blómasalar tóku að auglýsa konudagsblóm um miðjan sjötta áratug síðustu aldar.

Óvíst er hvað orðið merkir upphaflega en orðsifjafræðingar hallast helst að því að það eigi eitthvað skylt við snjó, sem fellur vel að stöðu hennar í ævintýralegri fornaldarsögu, þar sem faðir Góu er Þorri, afi hennar heitir Snær og langafinn Frosti en föðursystur Mjöll og Drífa. Þar er nafn hennar reyndar Gói. Eftir þeirri sögu strauk Gói brott með strák á Þorrablóti einu. Þorri lét halda blót til að leita um það frétta hvar hún væri niður komin. Það kölluðu þeir Góiblót. Seinna breyttist nafnmyndin úr Gói í Góa og er hún gjarnan persónugerð sem vetrarvættur í gömlum sögnum.

Í almennri þjóðtrú skipti góuveðrið máli. Átti sumarið að verða gott ef góa væri stormasöm og veður vont fyrstu góudaga og reynist það rétt megum við kannski búa okkur undir leiðinda tíð í sumar, þar sem veður við upphaf góu í ár er sérlega gott. Ýmsar veðráttuspár geymast í gömlum íslenskum vísum og eru margir sem enn styðjast við gamlar vísur í alþýðuveðurspám. Ein vísan um góu er svohljóðandi:

Ef hún Góa öll er góð,

öldin má það muna,

þá mun Harpa hennar jóð

herða veðráttuna.

Sighvatur Árnason fyrrverandi alþingismaður, gerði athuganir á því hvernig ýmsir veðráttuspádómar hefðu reynst á árunum 1840-1900 og skrifaði um það í Skírni 1907. Þar segir hann um þennan veðráttuspádóm: Þau árin, 6 að tölu, á þessu árabili, sem Góan var einmuna góð, stundum greri jörð, þá rættist þetta þannig, að tíðarfarið breyttist alltaf til hins verra á næstu mánuðum (Einmánuði og Hörpu) en þó einkum 3 árin í alvarleg harðindi.

Heimildir eru fengnar af Vísindavefnum og Wikipediu.

Mörg ágreiningsefni óútkljáð

Finnbogi (t.h.) við talningu atkvæða í Karphúsinu í gær. Mynd: mbl.is/ Eggert

Þrátt fyrir að sjómenn hafi samþykkt kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og 10 vikna verkfalli sé lokið eru mörg deiluefni óútkljáð. „Samningurinn er til desember 2019 og er rammaður inn með ítarlegum bókunum um hvernig við munum vinna úr okkar ágreiningsefnum,“ segir Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

 

Sem dæmi nefnir hann mönnunarmál flotans, bátaflokkanir og ráðningarsamninga. „Það var ekki endanleg lending í olíviðmiðinu í samningunum og olían er enn óútkljáð mál sem verður unnið í á samningstímanum. Þessi vinna hefst strax og verður undir verkstjórn sáttasemjara,“ segir Finnbogi.

 

Finnbogi gagnrýnir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútgsráðherra fyrir hennar aðkomu að deilunni. „Það sem hún bauð var að hluti sjómanna fengu skattaívilnanir af fæðispeningum en þeir sem róa skemur en 48 tíma áttu ekki að fá neitt. Þetta var skammarlegt tilboð og hleypti illu blóði í menn. Hennar framganga var henni til minnkunar ekki síst þegar maður heyrir hana í fjölmiðlum óska viðsemjendum til hamingju með samninginn þegar okkur var öllum ljóst að hún ætlaði að setja lög á okkur.“

 

Afar skammur tími var til kynningar og atkvæðagreiðslu um samninginn. „Í þessu ljósi verður að taka tillit til að við vorum með ítarlegan kynningarfund um stöðuna þann 20. janúar og svo hefur farið fram mikil umræða á samfélagsmiðlum eftir því sam samningaviðræðum hefur undið fram þannig að öllum var ljóst um hvað þessi samningur snýst.“

 

Hann gagnrýnir útgerðarmenn fyrir að boða menn til skips áður en atkvæðagreiðslu lauk. „Menn voru hundóánægðir með þetta. Það sýnir virðingarleysi útgerðarmanna í garð sjómanna að boða þá til skips strax í gærkvöldi, áður en niðurstöður voru ljósar. Menn fóru ekki í þennan hasar á togurunum hér á Ísafirði og þeir eru að fara á sjó í dag,“ segir Finnbogi.

Ódýrast í Bónus

Mestur verðmunur milli búða er á rauðum eplum, eða 177%. Voru þau ódýrust í Bónus, 198 kr/kg en dýrust í Iceland, 549 kr/kg. Þetta kemur fram í verðkönnun ASÍ á matvöru, sem gerð var í átta verslunum hinn 15. febrúar. Mestur var verðmunurinn á ávöxtum en einnig var mikill munur á kjúklingi, eða 135% milli Krónunnar sem var með hæsta verðið, 935 kr/kg og Bónus, 398 kr/kg. Minnsti verðmunurinn var á stórri dós af bláberjaskyri, eða um 11%. Lægsta verðið var hjá Bónus og Krónunni, 359 kr., en hæsta verðið var í Iceland, 399 kr. Verslunin Iceland var oftast með hæsta verðið á þeim vörum sem kannaðar voru, en Bónus var oftast með lægsta verðið. Verslunin Iceland var með besta úrvalið af þeim verslunum sem voru til skoðunar í verðkönnuninni, en þar var 61 af 63 vörum sem verð var kannað á.

Vestfirðingar dönsuðu gegn ofbeldi

Það var fjör í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í hádeginu á föstudag. Mynd: Matthildur Helgadóttir Jónudóttir.

Á síðasta föstudag fór fram víða um heim dansbyltingin Milljarður rís, þar sem fjöldi fólks brast í dans gegn kynbundnu ofbeldi, en með því að taka þátt í dansinum var fólk að taka afstöðu gegn ofbeldi gegn konum, sem er vandamál um allan heim. Á Íslandi var dansað á 12 stöðum í ár og var samtakamátturinn í dansinum áþreifanlegur er dansbyltingin reið yfir landið. Á Vestfjörðum var komið saman á tveimur stöðum, í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og í Hnyðju á Hólmavík. Á hvorum stað fyrir sig komu um 100 manns saman til að dansa og var mikill kraftur í mannskapnum.

Það er UN Women sem stendur fyrir dansbyltingunni og Íslandsdeild þeirra fyrir dansinum hér á landi en hér var með dansinum minning Birnu Brjánsdóttur heiðruð. Þá var vakin athygli á verkefninu Öruggar borgir þar sem UN Women vinnur að því að gera borgir öruggari fyrir konur og stúlkur víða um heim í samstarfi við borgaryfirvöld að einföldum og ódýrum aðgerðum sem miða að því að uppræta og draga úr ofbeldi gegn konum og stúlkum á almenningssvæðum. UN Women á Íslandi hvetur alla til að taka þátt í að gera borgir öruggari fyrir konur og stelpur með því að senda sms-ið Konur í 1900 (1000 kr.)

annska@bb.is

Hæglætis veður í dag

Á Vestfjörðum í dag verður hæg vestlæg átt og él og verður hitastigið í kringum um frostmark er fram kemur í spá Veðurstofu Íslands. Á morgun snýr vindur sér í norðaustan átt og síðar norðan 5-13 m/s og verða dálítil él á svæðinu norðanverðu. Útlit er fyrir að vetrarlegt verði í vikunni þó frostið fari ekki margar gráður undir frostmarkið, en heldur kaldara verður en verið hefur það sem af er mánuðinum.

Á Vestfjörðum er víða nokkur ofankoma, él eða snjókoma, og hálka eða snjóþekja á vegum. Þæfingsfærð er úr Bjarnarfirði norður í Árneshrepp.

annska@bb.is

Raforka hækkað langt umfram vísitölu

Raforkuverð hækkaði um 12,6- 22,63%, mismunandi mikið eftir hinum ýmsu seljendum raforku, frá því í janúar 2013 til janúar 2017. Þetta er samkvæmt upplýsingum sem stjórn Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum (SSKS) fékk frá Orkusetrinu og var greint frá í Morgunblaðinu á laugardag. Raforkuverð hjá Orkubúi Vestfjarða hækkaði um 21 prósent á tímabilinu, eða úr 4,70 kr. kílóvattsstund í 5,70 kr.

Stjórn SSKS lýsti yfir miklum vonbrigðum með hækkanirnar og sendi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu erindi vegna þeirra. Þar var bent á að þessi hækkun raforku væri langt umfram hækkun á neysluverðsvísitölu sem hækkaði um 8,85% á sama tímabili. „Svo virðist sem sölufyrirtækin hafi nýtt sér þá staðreynd að hækkun hefur orðið á niðurgreiðslum til íbúa á köldum svæðum og hækkað gjaldskrár sínar óhóflega sem kemur harkalega niður á íbúum sem búa á þeim svæðum,“ segir m.a. í bréfi stjórnar SSKS til ráðuneytisins.

 

Stjórn SSKS hefur farið þess á leit við stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga að hún beiti sér í málinu. Hún var minnt á þá stefnu sambandsins að það „skuli beita sér fyrir því að jafna raforkukostnað bæði hjá fyrirtækjum og íbúum, m.a. með jöfnun flutningskostnaðar á raforku og hærri greiðslum til jöfnunar á húshitunarkostnaði.“

smari@bb.is

 

 

Slysasleppingin lögreglumál sem leiði til leyfissviptingar

Regnbogasilungur.

Landssamband veiðifélaga telur einhlítt að umfangsmikil slysaslepping á regnbogasilungi úr sjókví Arctic Sea Farm í Dýrafirði leiði til þess að eldisfyrirtækið verði svipt rekstrarleyfi. Í tilkynningu frá sambandinu kemur fram að regnbogasilungur hafi veiðst í fjölda vatnsfalla á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðvesturlandi síðasa sumar og fram á haust og að sambandið hafi margoft gert eftirlitsstofnunum aðvart. Þá hafi málið verið kært til lögreglu.

„Átta mánuðum seinna er viðurkennt að það sé gat á kví. LV telur að hátterni þetta sé skýrt lögbrot sem eðlilegt sé að lögregla rannsaki til hlítar og vísað verði til ákæruvaldsins. Landssambandið telur þetta brot svo alvarlegt að það hljóti að leiða til sviptingar rekstrarleyfis,“ segir í tilkynningu Landssambandsins.

smari@bb.is

 

 

Nýjustu fréttir