Síða 2338

Skattfrjálsir dagpeningar auk eingreiðslu

Verkfallið hefur staðið í rúma tvo mánuði.

Samninganefnd sjómanna gerði samninganefnd Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) tilboð í kjaradeilunni á milli sjómanna og útgerða í gær og tekur SFS líklega afstöðu til tilboðsins í dag. Samkvæmt heimildum BB felur tilboðið í sér greiðslu dagpeninga auk eingreiðslu. Olíuverðsviðmið helst óbreytt. Dagpeningagreiðslur til sjómanna eru ekki skattfrjálsar og því þarf ríkisvaldið að breyta reglum til að svo verði en yfirskattanefnd hefur úrskurðað að dagpeningar sjómanna séu ekki frádráttarbærir enda sé ekki um að ræða tilfallandi ferðalög vegna vinnu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra ætlar ekki að grípa inn í kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna með lagasetningu eða með breytingum á skattalöggjöf. Deiluaðilum hafi verið falin umsjá með auðlind þjóðarinnar og beri þá ábyrgð að semja. Þetta sagði Þorgerður Katrín á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun. Aðspurð hvort hún hygðist grípa inn í verkfall sjómanna og kjaradeilu þeirra við útgerðina sagði Þorgerður Katrín: „Finnst þér að ég eigi að koma með sértækar aðgerðir, og eins og sumir eru að leggja til, að niðurgreiða laun fyrir útgerðarmenn? Ég er því mótfallin. Ég er mótfallin sértækum aðgerðum.“

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins, BBC, fjallaði í gær um áhrif sjómannaverkfallsins á Íslandi á fiskmarkaðinn í Bretlandi. Martyn Boyers, framkvæmdastjóri Grimsby Fish Dock Enterprises, segir að til greina komi að grípa til frekari uppsagna. Fiskmarkaðurinn í Grimsby er einn sá stærsti í Bretlandi en yfirleitt koma um 75% afurðanna sem þar eru á markaði frá Íslandi. Nú sé þó algengara að sjá aðeins um 100 kassa af þorski frá Íslandi í stað þúsund eins og venjulega, að því er segir í frétt BBC. „Þegar stór birgir eins og Ísland allt í einu staðnar þýðir það að fólk verður að leita að fiski annars staðar, það svo í kjölfarið þrýstir á verðið,“ segir Boyers í samtali við BBC.

Smari@bb.is

Bollywoodmyndinni frestað

Holt í Önundarfirði. Mynd: Ágúst Atlason.

Tökum á Bollywood mynd sem hefjast áttu í vikunni hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Búi Baldvinsson, framleiðandi myndarinnar hjá Hero Productions, segir í frétt RÚV að tökur frestist þar sem ráðast eigi í breytingar á handriti myndarinnar. Upptökur áttu að mestu að fara fram í Holti í Önundarfirði. Snjóleysið fyrir vestan hafði að sögn Búa einnig sitt að segja, en kvikmyndagerðarmennirnir höfðu vonast eftir snjó í tökunum.

Framleiðendurnir hafi ekki gefist upp á Íslandi og fyrirhuga tökur á tveimur öðrum myndum á Íslandi í sumar.

smari@bb.is

Neyðarbrautin verði opnuð án tafar

Reykjavíkurflugvöllur.

Bæjarstjórn Bolungarvíkurkaupstaðar hvetur borgarstjórn Reykjavíkur til að opna tafarlaust aftur NA/SV flugbraut á Reykjavíkurflugvelli, svokölluð neyðarbraut, meðan ekki hefur fundist önnur viðunandi lausn varðandi sjúkraflug. Þetta kemur fram í bókun sem Guðrún Stella Gissurardóttir lagði fram á síðasta bæjarstjórnarfundi og var samþykkt samhljóða. „Öllum ætti að vera ljóst að  lending á neyðarbrautinni hefur og getur skipt sköpum varðandi sjúkraflug utan af landi, oft í erfiðum tilfellum þar sem um líf eða dauða er að tefla. Lokun neyðarbrautarinnar er ógn við öryggi og heilsu þeirra sem búa og starfa utan höfuðborgarsvæðisins,“ segir í bókuninni.

Reykjavíkurflugvöllur er eitt mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar að mati bæjarstjórnar Bolungarvíkur og í bókuninni er áréttað mikilvægi þess að Reykjavík ræki hlutverk sitt sem höfuðborg og uppfylli skyldur við allt landið.

smari@bb.is

Leggur til kvótaskerðingu þangað til verkfallið leysist

Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor. Mynd: visir.is / GVA

Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, leggur til að stjórnvöld skerði fiskveiðikvóta næsta árs um allt að fimm prósent á viku meðan sjómannaverkfallið stendur yfir. Innkallaðan kvóta mætti síðan leigja út og nota andvirðið til að bæta stöðu þeirra sveitarfélaga sem hafi orðið hvað harðast úti í deilunni.

Þetta skrifar Þórólfur í aðsendri grein í Kjarnanum. Hann segir að nú þegar tveir mánuðir séu liðnir síðan sjómannaverkfallið hófst virðist deilendur fjær því að ná samkomulagi en við upphaf deilunnar, þvert á það sem ætla mætti. „Sé samningsvilji lítill leysast verkföll venjulega þegar annarhvor aðilinn eða báðir átta sig á að kostnaðurinn við áframhaldandi verkfall er þeim sjálfum of dýr,“ skrifar Þórólfur.

Verkfallið er byrjað að hafa áhrif á fjárhag sveitarfélaga sem treysta verulega á sjávarútveg og nefnir Þórólfur að þar hafi hægt á innstreymi útsvarstekna og hafnargjalda. „Þessi sveitarfélög geta ekki hægt á greiðslum til grunnskóla- og leikskólakennara sem dæmi séu tekin. Þau eru því í klemmu,“ skrifar Þórólfur.

Hann segir deiluna bitna harðast á þriðja aðila af meiri þunga en á bæði sjómenn og sjávarútvegsfyrirtæki. „Tekjuflæði sjávarútvegsfyrirtækja sem ekki eiga birgðir hægist eða stoppar meðan á verkfalli stendur. En þar sem þessi fyrirtæki hafa í höndum rétt til að veiða svo og svo mikið magn af fiski er aðeins um seinkun tekjuflæðis að ræða. Félög með góða eiginfjárstöðu eiga auðvelt með að leysa úr þeim fjárhagsvandræðum sem slík seinkun greiðsluflæðis kann að valda. Hugsanlega fæst lægra verð fyrir afurðir vegna tímabundins offramboðs þegar verfall leysist.“

Þá bendir hann á að sjómenn fái greiðslur úr verkfallssjóðum, og því leggist verkfallið af minni þunga á þá sem eru í verkfalli en á þriðja aðila. „Það eru því sterkar vísbendingar um að verkfallið geti staðið nokkrar vikur, jafnvel mánuði í viðbót,“ skrifar Þórólfur.

Ár­lega fá útgerð­ar­fé­lög bréf frá Fiski­stofu þar sem þeim er úthlutað rétti til veiða ákveð­ins magns af hinum ýmsu fiski­teg­und­um. Þórólfur segir að það sé ekkert sem banni stjórn­völdum að skil­yrða þá úthlutun sem fyrir dyrum stendur 1. sept­em­ber næst­kom­and­i.  Þannig gæti rík­is­stjórn og Alþingi ákveðið að kvóti næsta árs skerð­ist um t.d. 5% fyrir hverja viku sem verk­fall stendur lengur en 8 vik­ur. Inn­kall­aðan kvóta mætti síðan leigja út og nota and­virðið eða hluta þess til að bæta stöðu þeirra sveit­ar­fé­laga sem verða fyrir hvað mestum skaða vegna verk­falls­ins.

smari@bb.is

Keppa á Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar

Anna María, Pétur Tryggvi og Sigurður Arnar

Þrír keppendur frá Skíðafélagi Ísfirðinga eru nú staddir í Erzurum í Tyrklandi þar sem þeir taka þátt í Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar. Það eru þau Anna María Daníelsdóttir, Sigurður Hannesson, og Pétur Tryggvi Pétursson, sem öll keppa í skíðagöngu á ólympíuhátíðinni, auk þeirra er í gönguskíðahópnum Arnar Ólafsson frá Akureyri. Flokkstjóri gönguskíðahópsins er Steven Gromatka þjálfari hjá SFÍ og með hópnum er einnig Gunnar Bjarni Guðmundsson þjálfari.

Íslenski gönguskíðahópurinn sem keppir á Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar ásamt þjálfurum sínum

Á sunnudag var glæsileg setningarathöfn sem fram fór á knattspyrnuleikvanginum Kazim Karabekir í Erzurum í 1800 metra hæð yfir sjávarmáli og var frostið ein 17 stig. Setningarathöfnin hófst með því að þátttakendur frá 34 löndum gengu fram völlinn undir þjóðfánum sínum og síðan var ólympíueldurinn tendraður og mun hann loga fram á föstudag er hátíðinni líkur. Hópur 22 Íslendinga er í Erzurum, þar af  gönguskíðakrakkarnir fjórir, ásamt 10 keppendum í öðrum greinum, þjálfurum og öðru starfsfólki.

Fyrsti keppnisdagur var í gær er Anna María Daníelsdóttir reið á vaðið og keppti hún í  í 5km göngu með hefðbundinni aðferð, þar sem hún var 38. í mark  og þá Sigurður og Pétur Tryggvi í 7,5 km göngu, þar sem Sigurður varð í 36 sæti og Pétur Tryggvi í 51sta. Í dag keppir Anna María svo í 7km göngu og Sigurður og Pétur Tryggvi í 10km. Á morgun keppa þau svo í sprettgöngu.

Frá setningu leikanna

annska@bb.is

Húsasmíðanemar gera brautarskýli fyrir Fossavatnsgönguna

Í síðustu viku var lokið við að slá upp brautarskýlinu sem menntskælingarnir byggja. Mynd af Fésbókarsíðu MÍ.

Nemendur á húsasmíðabraut Menntaskólans á Ísafirði héldu í síðustu viku reisugildi vegna byggingar sem þeir hafa nýlokið við að slá upp á lóð skólans. Er það 21m2 hús sem mun Fossavatnsgangan hefur fest kaup á og mun það þjóna hlutverki brautarskýlis og verður því komið fyrir á Botnsheiði þar sem það verður aðstaða fyrir starfsfólk við drykkjarstöð að sögn Þrastar Jóhannessonar kennara við húsasmíðabraut MÍ. Húsið var teiknað af Tækniþjónustu Vestfjarða og hafa Vestfirskir verktakar yfirumsjón með verkinu. Vonir standa til að verkinu verði lokið fyrir páska, þá verður búið að klára húsið að utan, setja hurðir og glugga ásamt því sem það verður klætt með bárujárni.

Þröstur ásamt Fannari Þór Þorfinnssyni kenna við húsasmíðabraut skólans. Á fjórðu önn smíða nemendur á húsasmíðabraut hús og er þetta það fjórða sem smíðað er frá því er húsasmíðabrautin tók til starfa árið 2005. Fyrsta húsið reis tveimur árum síðar 50m2 sumarbústaður sem nú er í Arnardal. Tveimur árum síðar var byggt samskonar hús sem selt var í Skagafjörð. Árið 2010 var byggt 24m2 hús sem Ferðafélag Íslands keypti og setti upp í Nýjadal.

Sex nemendur taka þátt í húsbyggingunni, en nemendum við brautina hefur fækkað mikið frá því er hún fyrst tók til starfa er 10-12 nemendur hófu nám að hausti fyrstu árin. Í haust sóttist enginn nemandi eftir að komast á húsasmíðabraut. Þröstur segir breytinguna ansi mikla á skömmum tíma, en þróunin hafi tekið dýfu niður á við eftir hrun. Hann segir jafnframt mikla möguleika felast í því að hafa þau réttindi sem námsbrautin veitir. Það sé hægt um vik námslega séð að taka viðbótarnám sem skili nemendum einnig stúdentsprófi, en hann segir þróunina augljóslega vera í þá átt að sem flestir ljúki námi sem stúdentar. Það rímar fullkomlega við umræðu undanfarinna ára þar sem allt bendir til að verknám eigi undir verulegt högg að sækja. Þröstur segir að hér á landi vanti alltaf smiði og einnig ef fólk hyggur á vinnu á Norðurlöndum, þá sé á flestum stöðum þessara réttinda krafist. Þröstur segir marga sem útskrifast hafa af brautinni haldið áfram námi í iðn- og tæknifræði.

annska@bb.is

Aðgerðalítið veður

Það eru einmuna rólegheit í febrúarveðrinu og á matseðli dagsins hjá yfirvöldum veðurs og vinda má reikna með austlægri átt 5-10 og rigning eða súld með köflum í dag. Lægir síðdegis. Hiti 1 til 6 stig. Úrkomulítið í nótt og í fyrramálið. Norðaustan 3-8 síðdegis á morgun, léttir heldur til og kólnar.

bryndis@bb.is

Niður í skúffu með Brennivínsfrumvarpið!

Akademían á Þingeyri að störfum. Ljósm. Kristján Ottósson.

Morgunklúbburinn eða Akademían líkt og félagsskapurinn er iðulega kallaður sem reglulega kemur saman að morgunlagi í sundlauginni á Þingeyri lætur sig málefni líðandi stundar varða. Eitt af þeim málum sem rædd hafa verið í klúbbnum að undanförnu er það hvort heimila eigi áfengissölu í matvöruverslunum líkt og tekist er á um á Alþingi Íslendinga um þessar mundir. Ákvað Akademían að ekki dugi að ræða einungis þetta mikilvæga mál í heita pottinum, heldur samþykkti hún eftirfarandi ályktun með eiginlega öllum greiddum atkvæðum er fram kemur í fréttatilkynningu:

„Akademían á sundlaugarbakkanum á Þingeyri fordæmir Brennivínsfrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi. Þeir þingmenn sem að því standa, ættu að snúa sér að þarfari málum fyrir kjósendur sína. Það er grátlegt þegar dreifbýlisþingmenn telja þetta forgangsmál fyrir landsbyggðina.

Allir vita að það er auðveldara fyrir börn og unglinga að nálgast eiturlyf en að panta pizzu. Á það sama að gilda um áfengið? Akademían tekur undir með Birgi Jakobssyni landlækni, sem segir:

„Það er talað fyrir því að gera mjög áhættusama og kostnaðarsama tilraun með sölu á áfengi í matvöruverslunum. Þetta er stórhættulegt. Áhrif þessarar tilraunar verður ekki hægt að draga til baka.“

Niður í skúffu með Brennivínsfrumvarpið segjum við! Það getur vel verið að sú skoðun okkar sé afturhald. Það verður þá bara að hafa það og hana nú!“

annska@bb.is

Rækjuveiðar hafnar í Djúpinu

Rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi hófust í síðustu viku. Sjávarútvegsráðuneytið gaf út 460 tonna kvóta í haust en veiðar voru ekki leyfðar fyrr en í síðust viku vegna mikillar seiðagengdar í Djúpinu. Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. á stærsta hluta kvótans og koma 200 tonn í hlut fyrirtækisins. Kvóti Halldórs Sigurðssonar ÍS er 126 tonn og Ásdís fær þriðja mest í sinn hlut, eða 62 tonn.

smari@bb.is

Stefnir í óefni í málefnum MÍ

MÍ býður upp á fjögurra nám á starfsbraut en lítið er í boði eftir að því lýkur.

Það stefnir í óefni í rekstri Menntaskólans á Ísafirði en fjárframlög til skólans fara minnkandi samhliða færri nemendum. Frekari fækkun nemenda mun að óbreyttu leiða til fábreyttara námsframboðs og þá mun skólinn ekki geta innritað alla þá nemendur sem útskrifast úr grunnskólum á svæðinu, eins og honum ber þó að gera samkvæmt lögum. Þetta kemur fram í bréfi Jón Reynis Sigurvinssonar skólameistara til menntamálaráðuneytisins. Við blasir að nemendum skólans í dagskóla mun fækka nokkuð fram til 2020 og kemur þrennt til: Í fyrsta lagi vegna stöðugrar fækkunar íbúa á norðanverðum Vestfjörðum. Í öðru lagi vegna styttingar framhaldsskólans í þrjú ár. Þetta mun leiða til enn frekari fækkunar frá og með 2018 en þá munu þeir nemendur sem eru nú á 2. ári bóknáms útskrifast. Í þriðja lagi hafa nemendur eldri en 25 ekki verið innritaðir í bóknám frá vorönn 2015 nema pláss sé í hópum.

Þingmönnum kjördæmisins hefur verið gert kunnugt um stöðu og framtíðarhorfur skólans með bréfi skólameistara, Jónu Benediktsdóttur, formanns skólanefndar MÍ og Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. Í bréfinu er lýst þungum áhyggjum af stöðu skólans og er óskað liðsinnis þingmanna til að sjá til þess að skólinn geti haldið stöðu sinni sem einn af burðarásum í samfélaginu á norðanverðum Vestfjörðum.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir