Mánudagur 12. maí 2025
Heim Blogg Síða 2338

Bjartviðri í dag

Það verður austlæg átt 3-8 m/s á Vestfjörðum í dag og víða bjart veður. Það þykknar upp í kvöld og á morgun verður austan- og norðaustanátt 5-10 m/s og snjókoma með köflum. Áfram verður kalt í veðri og verður frost frá frostmarki að 8 stigum. Veðurhorfur fyrir landið á sunnudag kveða á um norðaustan 10-15 m/s norðan- og austanlands með snjókomu eða éljum og frosti á bilinu 1 til 5 stig. Mun hægari vindur á Suður- og Suðvesturlandi, bjart með köflum og hiti um frostmark að deginum.

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er allvíða á vegum á Vestfjörðum og eitthvað um éljagang.

annska@bb.is

Auglýsing

Jakob Valgeir með þriðja stærsta krókakvótann

Jakob Valgeir ehf. í Bolungarvík ræður yfir þriðja mesta krókakvótanum á landinu samkvæmt nýjum tölum frá Fiskistofu. Aflahlutdeild Jakobs Valgeirs er 4,13% eða rúmlega 1.800 tonn. Salting ehf., sem gerir út línubátinn Fríðu Dagmar ÍS frá Bolungarvík ræður yfir 4,11% af krókakvótanum, eða tæplega 1.800 tonn sem gerir útgerðina þá fjórðu kvótahæstu. Þórsberg ehf. á Tálknafirði sem gerir út Indriða Kristjáns BA er í níunda sæti listans, en aflahlutdeild fyrirtækisins er 2,9%, eða tæp 1.300 tonn. Bolvíska útgerðin Blakknes ehf. sem gerir út Einar Hálfdáns ÍS er í 12. sæti listans með 2,25% aflahlutdeild, eða tæp 1.000 þorskígildistonn.

Þegar skoðuð er krókaaflahlutdeild útgerða þá eru þar nokkrar breytingar á stærstu útgerðunum. Hjálmar ehf. á Fáskrúðsfirði er stærst með 4,3% hlutdeilda og síðan Grunnur ehf. í Hafnarfirði og Jakob Valgeir í Bolungarvík með um 4,1% hvor útgerð. Stakkavík í Grindavík sem verið hefur stærst í krókaaflahlutdeildum mörg undanfarin ár er nú 6. sæti á listanum,

Heildarkrókaaflahlutdeild einstakra eða tengdra aðila má ekki fara yfir 5% af samanlögðu heildarverðmæti krókaaflahlutdeilda. Þá má krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 4% í þorski og 5% í ýsu.

smari@bb.is

Auglýsing

Fataverslun dregst saman

Velta fataverslana var 12,4 prósentum minni í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Á því tólf mánaða tímabili lækkaði aftur á móti verð á fötum um 7,3 prósent. Þetta kemur fram í tilkynningu Rannsóknaseturs verslunarinnar. Í henni segir að velta í dagvöruverslun hafi aukist jafnt og þétt í febrúar og verið þremur prósentum meiri en í sama mánuði í fyrra. Velta áfengisverslunar jókst þá einnig eða um átta prósent. „Þess ber að geta að fataverslunum hér á landi hefur farið fækkandi frá áramótum, en það er mikilvægur hluti skýringarinnar,“ segir í tilkynningunni og þar tekið fram að skóverslun jókst um 23,7 prósent í febrúar.

smari@bb.is

Auglýsing

Sjötti hver lögreglumaður slasast

Álag og fjölgun slysa hjá lögreglu var umfjöllunarefni sameiginlegrar ráðstefnu Vinnueftirlitsins, Ríkislögreglustjóra, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Landssambands lögreglumanna og dómsmálaráðuneytisins sem haldin var á miðvikudag og greint var frá í Morgunblaðinu. Fram kom í erindi Guðmundar Kjerúlf frá Vinnueftirlitinu að á árunum 2005 til 2009 hefðu starfað tæplega700 lögreglumenn á Íslandi, en þeir hefðu verið um 650 á árunum 2010 til 2015. Færa mætti rök fyrir því að álag á lögregluna hefði aukist síðustu ár m.a. vegna þess að ferðamönnum hefði fjölgað mikið. Þeir hefðu verið innan við 400 þúsund árið 2005 en tæplega 1,8 milljónir í fyrra.

Á árunum fyrir hrun hefði verið algengast að starfsfólk í byggingariðnaði og fiskvinnslu slasaðist. Á árunum eftir hrun væri hins vegar algengast að lögreglumenn slösuðust. Um það bil sjötti hver lögreglumaður yrði fyrir tilkynningarskyldu vinnuslysi árlega en tuttugasti og fimmti hver starfsmaður í fiskvinnslu og áttugasti hver í byggingarvinnu.

smari@bb.is

Auglýsing

Vatnslaust í Mánagötu

Ekki þarf lengur að sjóða vatn á Hólmavík.

Lokað verður fyrir kalda vatnið í Mánagötu á Ísafirði á milli klukkan 10 og 12 vegna viðgerða á frárennslisröri.

annska@bb.is

Auglýsing

Mikil notkun lyfseðilskyldra lyfja hér á landi

Á Íslandi nota um 55% fólks lyfseðilsskyld lyf, sem er fjórða hæsta hlutfall þeirra Evrópulanda sem tóku þátt í evrópsku heilsufarsrannsókninni en Hagstofa Íslands birti í dag niðurstöður rannsóknarinnar þar sem Ísland var í fjórða sæti yfir fjölda fólks sem notar lyfseðilsskyld lyf. Fleiri konur en karlar nota slík lyf. Munur á kynjunum er mestur í aldurshópnum 15–24 ára en enginn í aldurshópnum 65 ára og eldri. Hlutfallið er hæst í Belgíu, um 60%, en lægst í Rúmeníu, tæp 23%. Af Norðurlöndunum kemst Finnland næst Íslandi með tæp 55%, þar á eftir er Noregur með 47,5% og Svíþjóð með um 47%. Danmörk er lægst Norðurlandanna með um 46%.

Tæp 63% kvenna á Íslandi nota lyfseðilsskyld lyf en tæp 48% karla. Mestur munur var á kynjunum í aldurshópnum 15–24 ára, en um 56% kvenna á þeim aldri notaði slík lyf samanborið við rúm 26% karla. Hlutfallið lækkar í rúm 45% kvenna í aldurshópnum 25–34 ára en hækkar í rúm 33% á meðal karla á þeim aldri. Notkun lyfseðilsskyldra lyfja eykst hratt með hækkandi aldri. Hlutfall notenda hækkar meira meðal karla en kvenna frá 45–64 ára, en skiptingin er nokkuð jöfn milli kynja í elsta aldurshópnum, eða um 87%.

Evrópska heilsufarsrannsóknin er samræmd rannsókn á heilsufari og heilsutengdri hegðun sem hagstofur á Evrópska efnahagssvæðinu framkvæma. Rannsóknin var gerð á Íslandi haustið 2015. Í úrtaki voru 5.700 einstaklingar sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. Af þeim svaraði 4.001 einstaklingur sem þýðir að svarhlutfallið var 70,2%. Þátttakendur voru spurðir hvort þeir hefðu notað lyf sem læknir ávísaði þeim undanfarnar tvær vikur og voru getnaðarvarnapillur ekki taldar með.

annska@bb.is

Auglýsing

Stefna á 10 þúsund tonna eldi í Eyjafirði

Eldislaxinn er drjúg tekjulind fyrir ríkissjóð.

Bílddælska fiskeldisfyritækið Arnarlax hf. hefur lagt fram drög að matsáætlun vegna 10.000 tonna laxeldis í Eyjafirði. Drögin eru unnin af verkfræðistofunni Verkís og eru aðgengileg á vefsíðu fyrirtækisins. Eldissvæðin verða fimm, beggja vegna fjarðar eins og sést á meðfylgjandi mynd. 

Í tillögu að matsáætlun er fyrirhuguðum framkvæmdum og framkvæmdasvæði lýst. Fjallað er um samræmi við gildandi skipulag og greint frá helstu áhrifaþáttum og hvaða umhverfisþætti áhersla verður lögð á í frummatsskýrslu. Lýst er fyrirliggjandi rannsóknum og gögnum er varða umhverfis- og áhrifaþætti framkvæmdar og greint frá fyrirhuguðum rannsóknum.

Fyrirtækið gerir ráð fyrir að koma sér upp aðstöðu til slátrunar og vinnslu eldislax á Eyjafjarðarsvæðinu. Þaðan verði lax sem slátrað verður fluttur á markaði. Arnarlax stefnir að því að hefja rekstur sjókvíaeldis í Eyjafirði vorið 2019 með fyrirvara um afgreiðslutíma leyfisveitinga.

smari@bb.is

Auglýsing

Einn blár strengur á Aldrei fór ég suður

Bubbi Morthens er meðal þeirra sem tónlistarmanna sem skartað hefur bláum streng og það munu tónlistarmenn á Rokkhátíð Alþýðunnar einnig gera.

Einn blár strengur er átaksverkefni til vitundarvakningar um kynferðislegt ofbeldi gegn drengjum. Verkefnið er leitt af kennurum og nemendum við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri og er það unnið í samstarfi við alþjóðleg samtök 1bluestring.org.  Nafn verkefnisins vísar til þess að erlendar rannsóknir sýna að einn af hverjum sex drengjum verða fyrir kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur, og segir Ísfirðingurinn Sigrún Sigurðardóttir sem er ein helsta hvatamanneskjan að verkefninu, ekkert í okkar samfélagi sem benda til þess að eitthvað minna sé um það hér á landi.

„Einn blár strengur kom til Íslands í águst 2016. Ég var þá að leita mér að rannsóknum um kynferðislegt ofbeldi gegn drengjum vegna doktorsrannsóknar minnar og fann upplýsingar um verkefnið á netinu.“ Segir Sigrún sem starfar sem lektor við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri, hefur skrifað doktorsritgerð við Háskóla Íslands sem fjallar m.a. um reynslu karlmanna af kynferðislegu ofeldi í æsku og áhrif þess á heilsufar og líðan. Sigrún hafði áður skoðað sömu mál í reynsluheimi kvenna í meistararitgerð sinni og í kjölfarið fór hún af stað með heildræn meðferðarúrræði, Gæfusporin, sem einnig er hluti af doktorsverkefni hennar.

„15 ára sonur minn er mikill gítarleikari og honum fannst verkefnið mikil snilld og bað mig að panta fyrir sig einn streng. Ég sendi póst út og fékk strax svar frá Gary Foster í Ástralíu sem bauðst til að senda mér ýmsan varning tengdan verkefninu. Þar með fór boltinn að rúlla. Sonur minn fór svo með bláa strenginn í gítartíma hjá Magna Ásgeirs sem fannst þetta svo flott hugmynd að hann var til í að vera með og kynna verkefnið og fékk því bláan streng. Þá benti ég nemendum mínum í námskeiðinu Sálræn áföll og ofbeldi við HA á hvað væri hægt að gera frábæra hluti í tengslum við mjög svo erfitt viðfangsefni og bauð þeim jafnframt að gera eitthvað með það. Þannig hélt boltinn áfram að rúlla.

Ég var áfram í tölvupóstsamskiptum við Gary og sagði honum að mikill áhugi væri fyrir verkefninu hér á landi og var í framhaldinu ákveðið að hafa ráðstefnu í Háskólanum á Akureyri 20.maí þar sem fjallað verður um kynferðislegt ofbeldi gegn drengum. Þá verður einnig vinnusmiðja með karlmönnum sem þolendum kynferðisofbeldið þann 22.maí.“ Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á heimasíðunni www.alltumofbeldi.is. og þá má einnig lesa um verkefnið á fésbókarsíðu þess.

Mikilvægt samstarf við tónlistarfólk

Margir tónlistarmenn hafa þegar lagt verkefninu lið með því að setja bláan streng í gítara sína og má þar nefna Bubba Morthens sem til að mynda spilaði með bláan streng á Þorláksmessutónleikum sínum í Hörpu og nú hefur rokkhátíðin Aldrei fór ég suður slegist í lið með átakinu:

„Það er mér því mjög kært að koma með einn bláan streing í minn heimabæ og hleypa þar af stað vitundarvakningu. Það er líka táknrænt fyrir mig því ég var búsett á Ísafirði þegar ég byrjaði að vinna rannsókn mína á karlmönnum sem þolendur kynferðislegs ofbeldis í æsku og tók fyrsta viðtalið þar fyrir sjö árum.“

Sigrún nefndi samstarf við AFÉS er hún hitti forsprakka hátíðarinnar Mugison, er hann hélt tónleika norðan heiða í haust. Tók hann vel í hugmyndina og það gerði einnig Kristján Freyr rokkstjóri í framhaldinu og mun Einn blár strengur vera á Aldrei fór ég suður og hafa tónlistarmenn tekið afar vel í það að leggja sín lóð á vogaskálar verkefnisins.

Sigrún Sigurðardóttir

„Það er mjög mikilvægt fyrir verkefnið að komast í samstarf við svo flotta rokkhátíð til að vekja athygli á þessum erfiðu málum sem kynferðislegt ofbeldi er, sérstaklega gegn drengjum. Með því að koma verkefninu á stað þar sem margt ungt fólk kemur saman náum við til fleiri, sérstaklega drengjanna og karlanna sem við viljum ná til. Kynferðislegt ofbeldi gegn drengjum og karlmönnum er mjög dulið því karlar segja síður frá en konur.“ Segir Sigrún og segir hún sem virðist fylgja þeim meiri skömm og sjálfsásökun: „Fordómar í samfélaginu og þeirra eigin gera það að verkum að þeir lifa oft í þrúgandi þögn. Þessi málaflokkur hefur einnig fengið frekar litla athygli hér á landi og meiri fókus verið á konur og því eru margir karlar þarna úti sem búa yfir þessu ljóta leyndarmáli sem litar allt þeirra líf og samskipti þeirra við vini, maka og börn sín.“

„Við erum mjög þakklát fyrir að komast í samstarf við Aldrei fór ég suður og sjáum þar möguleika að ná til fleiri einstaklinga en við gætum annars gert, tónlist er ein besta boðleiðin fyrir svona erfið mál og með þessu átaki vonumst við til þess að það verði hvatning fyrir karlmenn að leita sér hjálpar, í því felst frelsið og það er engin skömm af því.“ Segir Sigrún og bendir á að leita megi hjálpar víða:

„Stígamót kemur t.d. til Ísafjarðar og tekur á móti körlum jafnt sem konum, Aflið á Akureyri taka einnig á móti körlum jafnt sem konum og þar er opinn sími allan sólarhringinn og Drekaslóð í Reykjavík taka einnig á móti körlum jafnt sem konum. Hjálparsími Rauða krossins, 1717 er einnig opinn fyrir þolendur ofbeldis og Blátt áfram hefur nýlega stofnað stuðningshópa fyrir foreldrar barna sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.“

annska@bb.is

Auglýsing

Bæjarins besta komið á vefinn

Glöggir lesendur hafa væntanlega tekið eftir að vefútgáfa Bæjarins besta er nú farin að birtast á vefnum enda höfðu margir lesendur gert athugasemdir við að ekki væri hægt að nálgast blaðið á vefnum. Nýjasta blaðið birtist alltaf ofarlega hægra megin á síðunni og neðst á síðunni er lengri listi. Unnið er að því að setja inn eldri árganga.

Flestir virðast nú vera orðnir sáttir við nýja síðu en þessu verkefni er aldrei lokið.  Við munum breyta og bæta og njóta þess að nýtt kerfi skuli gera okkur kleift að bregðast við óskum lesenda.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Fimm skólar taka þátt í söfnun ABC barnahjálpar

Skóli ABC barnahjálpar í Búrkína Fasó.

Árleg söfnun ABC barnahjálpar, Börn hjálpa börnum, hófst formlega dag þegar Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands setti söfnunina af stað frá Áslandsskóla í Hafnarfirði. Söfnunin er í samstarfi við grunnskóla landsins og frá upphafi hafa nemendur um land allt safnað rúmlega 120 milljónum króna til styrktar fátækum börnum í fjarlægum löndum. Söfnunin fer þannig fram að börnum er úthlutað götum í sínu hverfi þar sem þau ganga í hús tvö og tvö saman og safna í söfnunarbauka. Söfnunarfénu verður ráðstafað til að styrkja innviði skólastarfs ABC í Afríku og Asíu.

Fimm grunnskólar á Vestfjörðum taka þátt í söfnuninni að þessu sinni. Þeir eru eru Auðarskóli, Grunnskólinn á Suðureyri, Patreksskóli, Bíldudalsskóli og Tálknafjarðarskóli.

Þetta er í 20 skiptið sem söfnunin er haldin. Í söfnuninni í fyrra söfnuðust tæpar 8 milljónir króna og fóru m.a. í uppbyggingu heimavistar í Pakistan, efnafræðistofu í ABC skólanum í Nairobi í Kenýa og til uppbyggingar heimavistar í ABC skólanum í Namelok í Kenýa.

smari@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir