Í síðustu viku sást karlkyns hvinönd í Önundarfirði. Hvinönd (Bucephala clangula) er sjaldséður flækingsfugl á Íslandi af andaætt en enska heitið hans er Common Goldeneye. Hvinöndin er meðalstór önd með kúpt höfuð og frekar stuttan háls. Karlfuglinn er með svart höfuð sem fær dökkrænan gljáa á varptíma, er með gul augu og áberandi hvítan blett á milli augna og svarta goggsins. Hann er með hvíta bringu og mjóar svartar línur eru einkennandi á hvítum fjöðrum. Kvenfuglinn er með gráa eða brúna fjaðrir og dökkbrúnan gogg en engan hvítan blett. Frá heimsókn hvinandarinnar er greint á heimasíðu Náttúrstofu Vestfjarða, þar er jafnframt sagt:
Hvinendur eru reglulegur vetrargestir á Íslandi og að jafnaði má finna um 50-150 fugla hér í vetursetu en varp hefur aldrei verið staðfest. Meirihluti þeirra er á ferskvatnsám og – vötnum á Suðurlandi en fáeinar hvinendur dvelja hér yfir sumarið og er þá oftast um steggi að ræða. Ekki er víst hvaðan fuglarnir koma en líklegt þykir að þær séu ættaðar frá Skandinavíu. Hvinendur eru líka að finna í N-Ameríku en þar er um stærri tegund að ræða.
Hagstofa Íslands spáir 4,3% hagvexti árið 2017 og um 2,5–3,0% árlega árin 2018–2022. Talið er að landsframleiðsla hafi aukist um 5,9% árið 2016 og að fjárfesting hafi aukist um 22,7% í fyrra. Hagstofa Íslands hefur í dag gefið út endurskoðaða þjóðhagsspá að vetri í ritröð sinni, Hagtíðindum. Spáin nær yfir árin 2016 til 2022.
„Mikil umsvif eru í íslenskum þjóðarbúskap um þessar mundir en neysla, fjárfesting og utanríkisverslun hafa verið í örum vexti undanfarin misseri. Nýjustu niðurstöður þjóðhagsreikninga sem spáin byggist á ná til þriðja ársfjórðungs 2016,“ segir í frétt Hagstofu Íslands.
Einkaneysla er talin hafa aukist um 7% árið 2016 en gert er ráð fyrir að hún aukist um 5,9% árið 2017, 3,9% árið 2018 og um 2,5–2,9% á ári seinni hluta spátímans. Reiknað er með að samneysluvöxtur verði áfram hóflegur eða sem nemur 1,5% árlega.
„Öll skilyrði hafa ýtt undir aukningu neyslu undanfarin misseri, kaupmáttur launa og ráðstöfunartekjur hafa aukist mikið og gengi krónunnar styrkst, olíuverð verið lágt og ýmis aðflutningsgjöld verið afnumin. Því er spáð að þessi þróun verði svipuð á næstunni, að kaupmáttur aukist umtalsvert og hækkun ráðstöfunartekna veiti svigrúm fyrir enn meiri aukningu neyslu,“ segir í þjóðhagsspánni.
Fjárfesting er talin hafa aukist um 22,7% árið 2016 og spáð er að hún aukist um 12,6% árið 2017 en úr henni dragi eftir það. Gert er ráð fyrir talsverðri aukningu íbúðafjárfestingar og opinberrar fjárfestingar árin 2017 og 2018.
Mugison á útgáfutónleikum Enjoy! á Ísafirði. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson.
Í síðustu viku var tilkynnt um tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir árið 2016. Þar má finna í fjórum flokkum tónlistarmanninn Mugison, eða Örn Elías Guðmundsson. sem tilnefndur er til verðlaunanna fyrir plötu ársins og sem textahöfundur ársins, en hann steig ferskur fram á sjónarsviðið að nýju á síðasta ári eftir nokkurra ára hlé frá plötuútgáfu með gæðagripnum Enjoy! Einnig er hann tilnefndur fyrir í flokknum tónleikar ársins fyrir útgáfutónleika sína í Hörpu og sem tónlistarflytjandi ársins og ættu þær tilnefningar að koma fáum á óvart sem hafa séð hann á sviði. Mugison hefur verið aðsópsmikill á verðlaunahátíðinni og þá sér í lagi vegna platnanna Mugimama is this monkey music og Hagléls er hann fékk fern verðlaun í hvort skipti.
Í umsögn dómnefndar um Enjoy! segir: Maður gengur að gæðunum vísum hjá Mugison. Aldrei lognmolla hjá þessum öfluga tónlistarmanni. Skemmtileg plata. Einnig fær hann góða umsögn sem textahöfundur, þar sem segir: Örn Elías Guðmundsson gerir upp ýmislegt úr fortíðinni í ansi nærgöngulum textum á Enjoy. Um leið horfir hann brattur í spegilinn og sættist við manninn sem hann hefur að geyma.
Íslensku tónlistarverðlaunin verða haldin hátíðleg í Hörpu fimmtudaginn 2. mars. Þau verða sýnd beinni útsendingu á RÚV. Þar verða alls veitt verðlaun í 29 flokkum að meðtöldum Heiðursverðlaunum Íslensku tónlistarverðlaunanna.
Alejandra á Bessastöðum ásamt forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessyni
Isabel Alejandra Díaz er Ísfirðingum og öðrum landsmönnum að góðu kunn. Á síðasta ári var hún fjallkona Ísfirðinga, ásamt því sem hún útskrifaðist sem stúdent úr MÍ, þar sem hún hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íslensku, ensku og erlendum tungumálum. Alejandra segir að nýr kafli í lífi hennar hafi þarna hafist, kafli sem hún sér ekki fyrir endann á og segist hún ekki eiga orð til að lýsa því hversu ævintýralegt lífið hafi verið og segist hún óendanlega þakklát öllu því góða fólki sem stutt hefur við bakið á henni og fjölskyldu hennar allar götur frá því er þau fluttust á Ísafjörð frá El Salvador er hún var einungis fjögurra ára gömul.
Ævintýrum Alejöndru er hvergi nærri lokið og í síðustu viku var henni, ásamt sendiherra El Salvador á Norðurlöndum Anitu Cristinu Escher boðið í heimsókn á Bessastaði þar sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson tók á móti þeim. Sendiherrann kom í síðustu viku til Íslands til að sinna embættisverkum og hafði Alejandra ráðgert að hitta hana í Reykjavík, en kynni höfðu tekist með þeim eftir að sendiherrann sendi henni fána El Salvador að gjöf og óskaði henni heilla í fyrrasumar. Klukkustund áður en Alejandra fór í flugið hafði Anita samband við hana og bað hana að hafa íslenska þjóðbúninginn sinn með í ferðina. Þrátt fyrir nauman tíma fór hún suður á leið með upphlutinn fallega í farteskinu, upphlut sem hún sjálf saumaði í þjóðbúningaáfanga í menntaskólanum síðasta vetur. Þegar til Reykjavíkur var komið bauð Anita henni að koma með sér til að sinna nokkrum embættisverkum, þar á meðal á Bessastöðum. Næstu daga var Alejandra í hinum ýmsu heimsóknum með sendiherranum og bar þar hæst heimsóknin á Bessastaði:
„Þetta var algjörlega dásamlegt! Ég bjóst aldrei við að þetta gæti gerst í lífi mínu og ég í raun enn að átta mig á að þetta hafi í alvörunni gerst. Ég veit hreinlega ekki hvort þetta geti orðið eitthvað betra því þetta var svo svakaleg upplifun og vona ég innilega að allir fái að upplifa þetta.“ Segir Alejandra er hún minnist heimsóknarinnar. „Við vorum sóttar á hótelið á fánaskreyttum forsetabílnum og á Bessastaði var virkilega gott að koma. Allt starfsfólkið þar var svo blítt og skemmtilegt og andrúmsloftið gott. Síðan var alveg frábært að hitta Guðna. Ég hafði hitt hann áður þegar hann kom til Ísafjarðar í sumar og fannst þá virkilega gott að hlusta á hann, enda sagnfræðingur og alveg frábær ræðumaður. Hann er auðvitað sami maðurinn og hann var þá, þó hann sé orðinn forseti, en ég er virkilega stolt af honum sem forseta okkar. Ég held að við getum öll verið stolt af honum, sérstaklega í ljósi viðbragða hans við því sem er að gerast í heiminum og hann er góð fyrirmynd fyrir aðra forseta.
Mín afrek eru ykkar afrek líka
Alejandra hefur búið stærstan hluta lífsins á Ísafirði og lítur hún eðlilega á sig sem Ísfirðing, en rætur hennar liggja í El Salvador: „Ég upplifði í heimsókninni á Bessastaði mikla viðurkenningu frá báðum löndunum mínum. Ég er eiginlega orðlaus yfir þessu öllu saman.“ Segir hún, en þrátt fyrir að hafa búið hér á landi stærstan hluta ævinnar gekk ekki þrautalaust fyrir hana að fá íslenskan ríkisborgararétt sem loksins fór í gegn árið 2014. Alejandra segist hafa lagt sérstaklega hart að sér í ljósi þessa: „Ég setti mér alltaf há markmið í náminu. Ég vildi sýna að ég hefði lagt mitt af mörkunum, þegar ég var enn að vinna í því að fá ríkisborgararéttinn. Það er mikilvægt fyrir okkur innflytjendur að sýna hvað í okkur býr og við systkinin lærðum af foreldrum okkar að við ættum að standa okkur vel í vinnu og námi og vera heiðarleg. Þegar allt gekk svona vel í fyrra, þá gat ég sagt við foreldra mína „mín afrek eru ykkar afrek líka“ og það á í raun við alla þá fjölmörgu sem hafa hjálpað mér á lífsleiðinni, því ég hef fengið mikinn stuðning og hvatningu frá fólkinu hér á Ísafirði.“
Alejandra segir mikilvægt að fólk uppfræði sjálft sig um málefni innflytjenda og til að mynda læri að þekkja orðin innflytjandi, flóttamaður og hælisleitandi og hvað er fólgið í hverju. Hún segist sjálf ekki hafa upplifað fordóma á eigin skinni, en hún segist sjá þá í kringum sig, til dæmis á samfélagsmiðlum og segist hún alltaf reyna að benda fólki á verði hún vör við fordóma: „Það er mjög mikilvægt að segja eitthvað. Fólk getur hreinlega haldið að það sé í lagi að segja og gera hluti sem eru í raun siðferðislega rangir ef enginn þorir að segja neitt, eða gefa þeim jafnvel „læk“ fyrir. Það er hægt að koma í veg fyrir alls konar mistök með fræðslu og fólk getur alveg rétt sig af ef það fær leiðsögn þegar það fer út af sporinu. Bara eins og að ávarpa fólk ekki á ensku, það er best að ávarpa bara alla á íslensku til að koma í veg fyrir að vera að ávarpa íslendinga á öðru máli.
Mig langar líka að benda á að í málefnum flóttafólks að það óskar sér enginn að að þurfa að flýja landið sitt vegna stríðs. Það er ekki eins og þetta sé eitthvað val fólks!“
Alejandra vinnur nú í Sjúkraþjálfun Vestfjarða. Hún segist ekki hafa verið alveg tilbúin að rjúka suður síðasta haust í Háskólanám, þó hugurinn stefni á það. „Það er svo margt sem þarf að gera og ég var bara ekki tilbúin að fara.“ En hún fer suður í Háskólann í haust og ætlar að leggja stund á spænsku og síðan hefur hún hug á að bæta við sig bæði sagnfræði og íslensku. Hún segist hafa saknað þess að læra og er tilbúin að hella sér út í námið. Hún segir þó að það verði skrýtið að fara frá Ísafirði: Ég er samt tilbúin núna og ég veit að ég á eftir að koma mikið heim samt. Ég á ekki nógu sterk orð til að lýsa þakklæti mínu til bæjarbúa hér, sem eru verulega góðhjartað fólk sem hefur aldrei látið mig finna neitt annað en ég sé Íslendingur – og ég er verulega mikill Íslendingur. Ég þakka líka Guði hvern dag og hugsa bara hvernig allt þetta gat hent litlu mig frá El Salvador.“
Alejandra og sendiherra El Salvador á Norðurlöndum Anita Cristina Escher með forseta Íslands Guðna Th. JóhannessyniAlejandra í einstakri febrúarblíðunni á Ísafirði í morgun
Golfklúbburinn Gláma á Þingeyri ráðgerir að halda golfmót á Meðaldalsvelli á sunnudaginn, fyrsta degi góumánaðar, ef næg þátttaka næst. Skráningar eru á vef Golfklúbbs Ísafjarðar. „Það er óvenjuleg tíð og það kom til tals að halda mót og eins og flestir þekkja þá er yfirleitt hlýrra í Dýrafirði og völlurinn í betra standi en hér á Ísafirði og því betra að vera þar,“ segir Salmar Jóhannsson, formaður mótanefndar Golfklúbbs Ísafjarðar.
Honum er ekki kunnugt um að golfmót hafi verið haldið á þessum árstíma. „Menn hafa verið að spila talsvert síðustu daga enda einmuna blíða en nú ætlum við að reyna að taka næsta skref og halda mót.“
MÍ vann sér sæti í undanúrslitum MORFÍS er ræðulið Menntaskólans á Ísafirði lagði lið Menntaskólans að Laugarvatni að velli í æsispennandi keppni í 8.liða úrslitum MORFÍS ræðukeppninnar sem fram fór í Gryfju MÍ í gærkvöldi. Liðin tókust hart á um leti, þar sem MÍ-ingar töluðu með þeirri höfuðsynd en ML á móti.
Heildarstig voru 2.759 (sem er mjög gott) – munurinn á liðunum var bara 39 stig (sem er mjög lítið) – Ingunn Rós, ræðumaður kvöldsins fékk 535 stig. Engin refstig voru – þar sem allir keppendur voru innan tímamarka. Nýttu tímann mjög vel því flestir töluðu í 3:55-4:00 mín en ramminn er (hjá öllum nema fyrri ræðum frummælenda) 3-4 mín
Ræðulið MÍ skipa þau Hákon Ernir Hrafnsson, Ingunn Rós Kristjánsdóttir, Veturliði Snær Gylfason og Þórður Alexander Úlfur Júlíusson og sýndu þau öll vaska framgöngu í gærkvöldi og fumlaust mál, fremst í flokki var þó Ingunn Rós sem valin var ræðumaður kvöldsins.
Þjálfari ræðuliðs Menntaskólans á Ísafirði er Sólveig Rán Stefánsdóttir.
Það er nóg um að vera í myndlistarlífinu á Ísafirði um þessar mundir er önnur sýning vikunnar opnar í Gallerí Úthverfu. Nú stendur yfir sýning bandaríska myndlistarmannsins Cale Coduti en það er Sigríður Ásgeirsdóttir sem opnar sýningu á verkum sínum á sunnudag. Sigríður sýnir þar vatnslitamyndir sem hún vann að í Siena á Ítalíu vorið 2016. Í þeim fæst hún við fræbera af ýmsum plöntum sem hún tíndi upp á leið sinni á vinnustofuna. Hún vatnslitaði hún plönturnar ferskar og svo aftur eftir því sem þær eltust þar til þær voru orðnar eins og kunningjar á vinnustofunni, málaðar á hinum ýmsu stigum þroskaferils síns. Nokkrir plöntuhlutanna eru einnig með á sýningunni.
Sigríður hefur allan sinn feril verið innblásin af náttúrunni og áhrifum náttúrunnar á mannssálina. En einnig af formunum sem náttúran er svo auðug af, yfirborði landsins og því óstjórnlega afli sem náttúran býr yfir. Þó Sigríður Ásgeirsdóttir hafi mest unnið í steint gler, þá hefur hún einnig notað margvísleg önnur efni til listsköpunar. Hún hefur unnið teikningar með títuprjónum, blýteikningar með lausu blýi, bókverk og skúlptúra.
Sigríður Ásgeirsdóttir lagði stund á myndlistarnám hér heima í Myndlistaskólanum í Reykjavik á árunum 1976-1978. Hún lauk BA Hon. prófi frá Edinburgh College of Art árið 1983 og Post Graduate Diploma frá sama skóla árið 1984.
Sýning Sigríðar opnar kl. 16 sunnudaginn 19. febrúar og stendur til sunnudagsins 19. mars. Hún er opin eftir hádegi virka daga og/eða eftir samkomulagi.
Ekki er hægt að slá föstu hversu mikill regnbogasilungur slapp út úr eldiskví Arctic Sea Farm í Dýrafirði. Sigurður Pétursson framkvæmdastjóri fyrirtækins segir að gert var ráð fyrir tæpum 200 tonnum af fiski kvínni og búið sé að slátra um 130 tonnum upp úr henni. „Það er of snemmt að fullyrða hvað fór mikið út en það sést að það er þónokkuð minna í kvínni en við gerðum ráð fyrir,“ segir Sigurður.
Fyrirtækið Arctic Sea Farm í Dýrafirði tilkynnti sleppinguna til Fiskistofu og Matvælastofnunar sem meta nú viðbrögð og aðgerðir og eftirlitsmaður Mast kemur vestur á morgun.
Í haust gaf Fiskistofa út tilkynningu um að regnbogasilungur veiddist víða í ám á Vestfjörðum. Sigurður segir of snemmt að fullyrða hvort að sá fiskur hafi komið úr sjókví Arctic Sea Farm í Dýrafirði. „En það er eðlilegt að menn velti því fyrir sér.“
Gat á kvínni kom í ljós í gær þegar unnið var við slátrun. Sigurður segir að fyrirtækið hafi sett í gang sína viðbragðsáætlun, meðal annars með netaveiðum í nánasta umhverfi en enginn fiskur kom í netin.
Hann segir þetta mikið högg fyrir fyrirtækið og starfsgreinina í heild. „Það eina sem við getum sagt er að við ætlum að læra af þessu. Við, eins og önnur fiskeldisfyrirtæki, erum að tækja okkur betur. Það er að koma inn í greinina fjármagn með mikla þekkingu á fiskeldi og menn eru að uppfæra sinn búnað,“ segir Sigurður.
Dagur tónlistarskólanna er haldinn hátíðlegur í febrúarmánuði ár hvert og hafa tónlistarskólar landsins í á þriðja áratug efnt til hátíðar til að vekja athygli á því öfluga og gróskumikla starfi sem fram fer innan þeirra. Viðburðir í tónlistarskólum landsins hafa í gegnum tíðina verið mjög fjölbreyttir og misjafnt er á milli skóla hvaða viðburði er boðið upp á hverju sinni og má þar nefna opið hús, tónleika, hljóðfærakynningar og ýmis konar námskeið.
Á morgun, kl. 14:00, heldur Tónlistarskóli Ísafjarðar Dag tónlistarskólanna hátíðlegan með stórtónleikum í Ísafjarðarkirkju. Dagskráin er fjölbreytt. Strengjasveitin leikur svítu, lúðrasveitir skólans þeyta lúðra í hressilegum lögum, tveir nemendur skólans syngja og leika siguratriði Sam-Vest söngvakeppninnar, söngnemendur koma fram auk barnakóra skólans, rytmasveit T.Í leikur tvö lög og Ísófónían mun svo enda tónleikana en í henni koma saman fjölmargir nemendur skólans svo úr verður heilmikið tónaflóð. Tónlistarskóli Ísafjarðar hefur á að skipa einvala liði kennara sem hafa verið samhentir í vinnu sinni ásamt nemendum til að tónleikarnir megi verða hin besta skemmtun.
Tónleikarnir verða í Ísafjarðarkirkju laugardaginn 18. febrúar og hefjast kl. 14:00. Við vonumst til að bæjarbúar komi og gleðjist með okkur í tilefni af Degi Tónlistarskólanna. Aðgangseyrir er 500 kr. og rennur ágóði óskiptur til hljóðfærakaupa fyrir samspilshópa skólans.
Í morgun sögum við frá mikilvægum körfuboltaleik Vestra í kvöld er liðið mætir Hamri á Torfnesi.
Öllum nemendum 7.-10. bekk á norðanverðum Vestfjörðum er sérstaklega boðið á leikinn. Tilefnið er að piltar á þessu aldursbili urðu bikarmeistarar KKÍ um síðustu helgi. Leikmenn meistaraflokks og Yngvi Gunnlaugsson, yfirþjálfari hafa kíkt í heimsókn í nokkra grunnskóla á svæðinu í dag og í gær og boðið þessa krakka sérstaklega velkomna á leikinn og vonumst við til að sem flestir mæti og styðji við bakið á meistaraflokki. Rétt er að geta þess að grunnskólanemendur fá alltaf frítt inn á heimaleiki Vestra. Strákarnir í 9. flokki koma svo fram í hálfleik og hampa bikarnum góða.