Mánudagur 21. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2338

Bærinn fær rafmagnsbíl

Jónas Guðmundsson, formaður Samgöngufélagsins, afhenti bænum þjónustumerki sem vísar á rafhleðslustöðina.

Ísafjarðarbær hefur fengið afhentan rafbíl sem tekinn er á langtímaleigu frá Bílaleigu Akureyrar. Bíllinn leysir af hólmi þann bílaleigubíl sem bærinn hefur haft á leigu undanfarin ár. Nýi rafbíllinn er hagstæðari á öllum mögulegum mælikvörðum; í leigu, eyðslu og síðast en ekki síst fyrir umhverfið. Bíllinn verður nær eingöngu notaður í akstur á norðanverðum Vestfjörðum og vonir standa til að hann henti vel til þeirra verkefna. Ísafjarðarbær hefur hlotið silfurvottun frá umhverfisvottunarsamtökunum EarthCheck og er notkun rafbílsins skref í átt að umhverfisvænna sveitarfélagi.

Jónas Guðmundsson, formaður Samgöngufélagsins, afhenti bænum þjónustumerki sem vísar á rafhleðslustöðina.

Ísafjarðarbær hefur jafnframt sett upp hleðslustöð frá Orkusölunni í samstarfi við húsfélag Stjórnsýsluhússins á Ísafirði. Enn fremur hefur Samgöngufélagið fært Stjórnsýsluhúsinu að gjöf þjónustumerki sem vísar á rafhleðslustöðina, enda mikilvægt fyrir alla að vita hvar stöðin er þar sem hún verður opin almenningi.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Hugi og Hilmir í unglingalandsliðið

Félagarnir Egill, Hugi og Hilmir.

Bræðurnir Hilmir og Hugi Hallgrímssynir voru í dag valdir í U-15 landslið Íslands í körfuknattleik. Þeir bræður voru seint á síðasta ári valdir í landsliðsúrtak ásamt Agli Fjölnissyni liðsfélaga sínum úr bikarmeistaraliði 9. flokks Vestra og tóku þátt í æfingum á milli jóla og nýárs. U-15 landslið Íslands tekur þátt í Copenhagen Invitation mótinu í Danmörku í júní og mun Ísland tefla fram tveimur níu manna liðum á mótinu. Þjálfari landsliðsins er Ágúst S. Björgvinsson og aðstoðarþjálfari Snörri Örn Arnaldsson.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Áfram fallegt vetrarveður

Það verður áfram kalt og fallegt í veðri á Vestfjörðum. Veðurstofa Íslands spáir austan golu eða stinningsgolu 3-8 m/s í landshlutanum í dag og áfram skín sól í heiði bróðurpart dags hið minnsta. Frost verður á bilinu 0-8 stig. Á morgun verður áfram gott vetrarveður á svæðinu með hægviðri.

Á Vestfjörðum er talsvert autt en þó sums staðar ýmist hálka eða hálkublettir, einkum á fjallvegum og útvegum. Búið er að opna norður í Árneshrepp á Ströndum.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Píratar vilja fækka landsbyggðarþingmönnum

Sjö þingmenn Pírata hafa lagt fram lagafrumvarp um að fækka landsbyggðarþingmönnum um fimm. Markmið frumvarpsins er að sögn flutningsmanna að jafna út misræmi í atkvæðavægi. Viktor Orri Valgarðsson er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Í frumvarpinu felst að þingmönnum Norðvesturkjördæmis fækkar úr átta í sex, þingmenn Norðausturkjördæmis verða átta í stað tíu og Suðurkjördæmi fær níu í stað tíu. Reykjavíkurkjördæmin tvö bæta við sig einu sæti, yrðu tólf í hvoru kjördæmi, en Kraginn fengi þrjá þingmenn til viðbótar. Yrðu þeir alls sextán.

Í tillögunni felst einnig að jöfnunarþingmönnum yrði fækkað um einn. Kjördæmin þrjú á höfuðborgarsvæðinu fengju tvo jöfnunarþingmenn hvert og Suður- og Norðausturkjördæmi fengju eitt sæti hvort. Norðvestur fengi ekki jöfnunarmann.

Gunnar I. Guðmundsson, þingmaður flokksins í Norðvesturkjördæmi og Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata í Norðausturkjördæmi, eru ekki meðflutningsmenn að frumvarpinu.

Norðurpíratarnir Einar Brynjólfsson og Gunnar I. Guðmundsson eru ekki meðflutningsmenn.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Lífshlaup Karítasar og fleira í bókaspjalli

Í næsta bókaspjalli Bókasafnsins á Ísafirði verða tvö athyglisverð erindi að vanda. Jóna Símonía Bjarnadóttir, sagnfræðingur og forstöðumaður Safnahússins á Ísafirði, fjallar um sínar uppáhaldsbækur í fyrra erindi spjallsins. Í seinna erindinu segir Helga Þórsdóttir, safnvörður á Byggðasafni Vestfjarða frá Karítas Skarphéðinsdóttur (1890 – 1972) verkakonu á Ísafirði, en hún er viðfang nýrrar sýningar safnsins. Karítas var fædd í Æðey en ólst upp á ýmsum bæjum við Ísafjarðardjúp. „Karítas er má segja táknmynd staðar og hugmyndafræðilegs samtíma, hún er líkami konu sem ekki var ætlað sjálfsyfirráð. Þannig var hún seld fyrir húsbyggingu aðeins 16 ára gömul, smábóndinn Skarphéðinn ekki svo aumur að hann gæti ekki selt stúlkuna. Karítas átti þó eftir að verða áberandi í samfélaginu, kona sem markaði spor í samtímann og þar af leiðandi hefur töluvert verið um hana skrifað sem og sagðar um hana sögur í margvíslegu samhengi,“ segir í kynningu.

Bókaspjallið verður á laugardaginn 4. mars og hefst kl. 14.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Bikarleikur á laugardaginn

Karlalið Vestra er komið í átta liða úrslit í Kjörísbikarnum í blaki og fær úrvalsdeildarliðið Þrótt R/Fylki í heimsókn. Leikurinn verður á Torfnesi kl. 15:30 laugardaginn 4. mars.

Eftir því sem elstu menn muna er þetta í fyrsta sinn sem Vestri (áður Skellur) tekur þátt í bikarmóti í blaki og undirbýr liðið sig af kappi fyrir leikinn á laugardaginn.  Á liðinni helgi fékk Vestri HKb í heimsókn í Íslandsmótinu og lagði það sannfærandi í tveimur leikjum og hlýtur það vera gott nesti fyrir þennan leik. Andstæðingurinn í þessum leik er Þróttur R/Fylkir, þeir spila í úrvalsdeild í Ísalandsmótinu en hafa aðeins unnið tvo leiki og verma þar neðsta sæti, okkar menn spila í 1. deild og tróna þar á toppnum með 8 stiga forskot á næsta lið og einn leik til góða.

Karlalið Vestra í blaki hefur verið á mikilli siglingu í vetur undir stjórn makedónska þjálfarans Tihomir Paunovski og virðist vera til alls vís.

Þéttsetnir bekkir á heimvígstöðvum eru alltaf styrkjandi og því upplagt að skella sér á leik og hverja okkar menn. Þetta er söguleg stund.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

450 milljónir í ljósleiðaravæðingu

Guðný G. Ívarsdóttir, sveitarstjóri Kjósarhrepps, og Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að undirskrift lokinni.

Fulltrúar fjarskiptasjóðs og 24 sveitarfélaga skrifuðu í vikunni undir samninga um styrki sjóðsins til sveitarfélaganna vegna ljósleiðaravæðingar þeirra í tengslum við landsátakið Ísland ljóstengt. Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, staðfesti einnig samningana með undirskrift sinni og fór athöfnin fram á skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Sveitarfélögin 24 fá samtals 450 milljónir króna í styrki, allt frá um 1,5 milljónum króna uppí nærri 63 milljónir. Auk styrkja frá fjarskiptasjóði þá leggja íbúar og sveitarfélög að lágmarki 350.000 kr. af mörkum vegna hverrar tengingar en í mörgum tilfellum er þörf á töluvert hærra framlagi heimamanna.

Tvö sveitarfélög á Vestfjörðum fengu úthlutað styrk að þessu sinni. Reykhólahreppur fékk 19 milljónir kr. og Strandabyggð 11 milljónir kr.

 

Úthlutunin í heild:

Akraneskaupstaður        2.936.250 kr.
Breiðdalshreppur      19.350.000 kr.
Dalabyggð        8.680.000 kr.
Djúpavogshreppur        8.474.661 kr.
Fjarðabyggð        9.280.079 kr.
Fljótsdalshérað        2.895.260 kr.
Grindavíkurbær      10.000.000 kr.
Grundarfjarðarbær      15.468.559 kr.
Hrunamannahreppur      24.860.000 kr.
Kjósarhreppur      25.000.000 kr.
Langanesbyggð        6.000.000 kr.
Rangárþing eystra      62.750.000 kr.
Rangárþing ytra      16.920.000 kr.
Reykhólahreppur      19.000.000 kr.
Skaftárhreppur        9.075.000 kr.
Skorradalshreppur og Borgarbyggð      16.417.191 kr.
Snæfellsbær      46.498.000 kr.
Strandabyggð      11.000.000 kr.
Sveitarfélagið Hornafjörður      26.395.000 kr.
Sveitarfélagið Skagafjörður      53.510.980 kr.
Sveitarfélagið Skagaströnd        1.489.020 kr.
Vopnafjarðarhreppur      25.000.000 kr.
Þingeyjarsveit      29.000.000 kr.
Auglýsing
Auglýsing

Ofhleðsla skipa verði refsiverð

Jón Hákon BA.

Í skýrslu Rann­sókn­ar­nefndar sam­göngu­slysa á því þegar Jóni Hákoni BA hvolfdi gerir nefndin þá tillögu til inn­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins að það verði af­drátt­ar­laust gert refsi­vert að of­hlaða fiski­skip og eft­ir­lit með því tryggt. Einnig að sigl­inga­lög­um verði breytt þannig að eig­end­um og vá­trygg­inga­fé­lög­um fiski­skipa verði gert skylt að taka upp flök skipa sem sökkva nema sýnt sé fram á að slíkt sé óger­legt.

Drag­nót­ar­bátn­um Jóni Há­koni BA 60 hvolfdi að morgni 7. júlí 2014 þar sem hann var að veiðum út af Aðalvík. Fjór­ir menn voru um borð og drukknaði einn þeirra, en hinum var bjargað um borð í nærstadd­an bát, Mar­dísi ÍS. Rannsóknarnefndin telur or­sök slyss­ins vera þá að skipið var of­hlaðið og með viðvar­andi stjórn­borðshalla. Þetta leiddi til þess að í velt­ingi átti sjór greiða leið inn á þilfar skips­ins bæði yfir lunn­ingu og um len­sport. Vegna óþétt­leika á lest­ar­lúgukarmi bætt­ist stöðugt sjór í lest­ina. Varð þetta til þess að skipið missti stöðug­leika og því hvolfdi þegar öldutopp­ur rann óhindrað yfir lunn­ingu þess.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Eðlilegt að skoða samstarf – sameining ekki í kortunum

Pétur G. Markan.

„Mér finnst afstaða sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps vera bæði ábyrg og skynsöm og lýsa sveitarfélagi sem líður vel í eigin skinni og er öruggt með sjálft sig,“ segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkuhrepps um samhljóða ákvörðun sveitarstjórnar um sameiginlega umsókn hreppsins og Ísafjarðarbæjar um fjárframlag úr Jöfnunarsjóði sem verður nýtt til að skoða frekara samstarf og sameiningu sveitarfélaganna. Í bókun sveitarstjórnar Súðavíkhrepps er tekið fram að kjörnir fulltrúar hafi ekki sérstakan áhuga á að sameinast Ísafjarðarbæ. „Það er miklu heldur vilji að vinna hlutina meira saman. Hvort heldur sem er, þá verða allar þessar ákvarðanir, stórar eða smáar, í höndum íbúa Súðavíkurhrepps,“ segir sveitarstjórinn.

Hann telur ekkert nema eðlilegt að sveitarfélög skoði reglulega umhverfi sitt og kanni hvort ekki sé hægt að gera  betur fyrir íbúa, hvort sem það er þjónusta, rekstur og almenn velferð. „Svo ekki sé  talað um þegar maður á jafn frábæra nágranna. Til þess er þessi styrkur ætlaður, að kanna á faglegan hátt hvort ekki sé hægt að gera betur, hvort sem það er meira samstarf eða möguleg sameining.“

Hann leggur áherslu á að hreinskiptin umræða sé öllum til góða og að íbúar séu best til þess fallnir að að taka sjálfir ákvörðun um sína framtíð. „En til þess að taka ákvörðun þarftu að vera upplýstur á besta mögulegan hátt og styrkurinn notaður til að afla þeirra upplýsinga. Svo leggjum við afurðina fyrir íbúa, höldum íbúafund og ræðum bjarta framtíð Súðavíkurhrepps og Vestfjarða,“ segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Einar Mikael mætir aftur með góðan gest

Einar Mikael töframaður

Töframaðurinn Einar Mikael mætir aftur á vestfirska grundu á morgun, en hann hefur verið duglegur við að opna heim töfranna fyrir börnum á öllum aldri með sýningum sínum. Hann hefur verið á ferð og flugi um hinn stóra heim síðustu mánuði en er nú mættur til landsins með fullt af nýju efni sem hann mun deila með gestum í félagsheimili Bolungarvíkur annað kvöld. Til dæmis frumsýnir hann þar flunkunýjan vestfirskan spilagaldur. Ekki er þar allt talið því á sýningunni mun galdramaðurinn John Tómasson einnig stíga á stokk og sína listir sínar, sem ku vera ekkert slor og kallar Einar Mikael hann besta galdramann Íslands.

Töfraheimur Einars Mikaels er troðfullur af ótrúlegum töfrabrögðum og mögnuðum sjónhverfingum. Einar leyfir áhorfendum að taka virkan þátt í sýningunni og oft fær hann einhver til þess að aðstoða sig á sviðinu. Fyrstu 10 sem mæta fá gefins töfradót. Sýningin hefst klukkan 19:30.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir