Þriðjudagur 1. apríl 2025
Síða 2338

Hægviðri í dag

Það verður hið ljúfasta veður á Vestfjörðum í dag, er Veðurstofan spáir hægri norðaustlægri eða breytileg átt og björtu veðri að mestu með hitastigi í kring um frostmark. Það þykknar upp í nótt og á morgun er gert ráð fyrir norðaustan m/s 8-13 er líður á daginn með rigningu og þá hlýnar nokkuð.

Nokkur hálka er á Vestfjörðum, einkum á fjallvegum.

annska@bb.is

Svarta gengið sýnd á Ísafirði

Á föstudagskvöldið verður sýnd í Ísafjarðarbíói heimildarmyndin Svarta gengið eftir Kára G. Schram. Í myndinni er sagt af Þorbirni Péturssyni, Bjössa, fjárbónda og einsetumanni á Ósi í Arnarfirði sem þurfti að bregða búi í kjölfar veikinda og var hann tilneyddur til að fella allt sitt fé. Þar á meðal var hópur kinda sem Bjössi kallaði Svarta Gengið sem hann hafði alið sérstaklega og náð sterku tilfinningasambandi við. Ekki kom til greina að senda Svarta Gengið í sláturhús og í kjölfarið ákvað hann að heiðra minningu mállausra vina sinna með þeim hætti sem honum fannst við hæfi og grafa þær í túninu heima. Jafnframt sótti hann um leyfi yfirvalda að fá að hvíla þeim við hlið þegar þar að kæmi.

Svarta Gengið, sem ber undirtitilinn saga um ást, dauða, bónda og fé er tæpur klukkutími að lengd og var hún frumsýnd í nóvember. Fékk myndin afar góða gagnrýni í Morgunblaðinu þar sem hún fékk fjórar og hálfa stjörnu. Gagnrýnandi myndarinnar Hjördís Stefánsdóttir sagði þar frásögnina einlæga og hún næði kærkominni nánd við persónu sína í hennar náttúrulega umhverfi. Jafnframt sagði hún: Kári varðveitir með myndinni dýrmæta arfleifð þjóðarinnar og dregur líkt og í fyrri verkum sínum upp lifandi lýsingu af einstakri persónu sem svo sannarlega á erindi við komandi kynslóðir. Þorbjörn reisti kindum sínum minnisvarða og Kári heiðrar svo ævistarf Þorbjörns og hverfandi lifnaðarhætti með þessari undurfallegu, raunsönnu mynd.

Nú eiga Vestfirðingar kost á því að berja myndina augum og hefst sýning hennar í Ísafjarðarbíói klukkan 19 föstudagskvöldið 17.febrúar. Aðstandendur myndarinnar koma með á Ísafjörð og bjóða gestum að sýningu lokinni til móttöku í Turnhúsinu í Neðstakaupstað.

Önnur sýning verður kl. 19:00 á laugardag.

annska@bb.is

Gísli á Uppsölum ílengist í Þjóðleikhúsinu

Nýjasta verk Kómedíuleikhússins, einleikurinn um einbúann Gísla á Uppsölum hefur hreiðrað vel um sig í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu. Gísli í líkama leikarans Elfars Loga Hannessonar hélt suður yfir heiðar í janúarmánuði er Kómedíuleikhúsinu hafði boðist að hafa þrjár sýningar á verkinu. Mjög fljótt seldist upp á þær sýningar og var þá þremur sýningum bætt við og þegar seldist upp á þær þremur til viðbótar bætt við, sýningarnar eru nú orðnar 12 á fjölum Þjóðleikhússins og hefur þremur verið bætt við til viðbótar og verða það síðustu sýningarnar á verkinu í leikhúsi þjóðarinnar. Sýnt var í gærkvöldi klukkan 19:30 og næstu sýningar eru á laugardag og sunnudag klukkan 17.

Sýningin um Gísla á Uppsölum hefur vakið mikla athygli og hefur hún fengið afbragðs dóma gagnrýnenda og hlýleg viðbrögð gesta sem keppst hafa við að hlaða hana lofi og segist Elfar Logi hræður, hissa og þakklátur yfir viðbrögðunum.

Þeir Elfar Logi og Þröstur Leó Gunnarsson leikstjóri sýningarinnar voru í viðtali á Bylgjunni í vikunni og má heyra það hér.

annska@bb.is

Hrognkelsi í sviðsljósi Vísindaports

Hrognkelsi verða í sviðsljósinu í Vísindaporti vikunnar hjá Háskólasetri Vestfjarða en þar mun James Kennedy, fiskiíffræðingur við Hafrannsóknastofnunina, flytja fyrirlestur um hrognkelsaveiðar við Ísland. James kennir um þessar mundir áfanga í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða.

Um aldir hafa hrognkelsi verið veidd við strendur Íslands og verið mikilvægur liður í fæðuöflun landsmanna eftir harða vetur. Veiðarnar hafa tekið breytingum í gegnum aldirnar og nú er svo komið að nær einvörðungu er sóst eftir kvenfiskinum, grásleppunni, vegna hrognanna. Þau eru söltuð, lituð og seld sem grásleppukavíar. Takmarkanir á veiðunum hófust á áttunda áratugnum en þær eru einstakar að því leyti að þær eru sóknarstýrðar en ekki stjórnað með aflamarki. Þar sem fiskurinn er fjarri ströndum landsins utan hrygningartíma hafa ýmsar hliðar líffræði hans verið vísindamönnum huldar. Lengst af hefur verið talið að fiskurinn væri að mestu aðgerðarlítill botnfiskur en nýlegar rannsóknar með merkingum benda til hins gagnstæða.

James Kennedy er sem áður segir sérfræðingur við Hafrannsóknastofnunina þar sem rannsóknir hans hafa beinst að líffræði hrognkelsa og ber hann m.a. ábyrgð á veiðiráðgjöf stofnunarinnar í tengslum við hrognkelsaveiðar við Íslands. Hann starfaði áður í Noregi og á eyjunni Mön þar sem hann vann einkum við rannsóknir á æxlunarlíffræði ýmissa fiskitegunda.

Að venju er Vísindaport í hádeginu á föstudögum og stendur frá 12.10-13.00. Erindi James verður flutt á ensku.

smari@bb.is

Kröfur sjómanna kosta hið opinbera einn milljarð

Verkfallið hefur staðið í rúma tvo mánuði.

Heildarkostnaður útgerðarinnar vegna greiðslu fæðispeninga sjómanna er 2,3 milljarður króna á ári miðað við gildandi kjarasamninga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í útreikningum ráðuneytisins er miðað við að fjöldi  lögskráningardaga sjómanna sé 1,5 – 1,6 milljónir daga á ári og að fæðispeningar séu að jafnaði 1.500 krónur á dag. Áætlað tekjutap ríkisins af þeirri fjárhæð, yrði hún undanþegin skatti, er um það bil 730 milljónir króna á ári, en því til viðbótar myndu sveitarfélögin tapa um það bil 330 milljónum króna í útsvarstekjum.

Sjómenn fá greidda fæðispeninga skv. kjarasamningum og eru þeir breytilegir eftir stærð skipa. Þeir greiða tekjuskatt og útsvar af reiknuðum fæðispeningum, sem eru skilgreindir sem sérstök hlunnindi. Fæðispeningar eru frádráttarbær rekstrarkostnaður hjá útgerðinni og af þeim er greitt tryggingagjald og iðgjald í lífeyrissjóð.

Dagpeningagreiðslur eru miðaðar við að verja þurfi dagpeningum að fullu til uppihalds, þ.m.t. kostnaðar vegna fæðis. Það er síðan skattyfirvalda að meta hvort á móti þessum dagpeningum standi nægilega há útgjöld með hliðsjón af árlegu skattmati.

Almennt háttar svo um aðra launþega að þeir borga fyrir fæði sem vinnuveitandi tryggir þeim, t.a.m. í mötuneytum, með tekjum sem þegar hafa verið skattlagðar.

smari@bb.is

Gæslan með þyrluæfingu

Mynd úr safni

Um kvöldmatarleytið kemur þyrla Landhelgisgæslunnar á Ísafjörð og ljósi reynslunnar þykir rétt að vara í íbúa við en hávaði frá þyrlum boðar sjaldan gott. Að þessu sinni er þó einungis um að ræða æfingu Landhelgisgæslunnar á björgun úr gúmmíbátum og að þessu sinni fer hún fram í Skutulsfirði, en æfingar sem þessar fara að jafnaði fram einu sinni í mánuði. Björgunarfélag Ísafjarðar og Tindar í Hnífsdal munu standa vaktina á æfingunni og hafa sér til fulltingis fleyin Gunnar Friðriksson og Helgu Páls. Hlutverk okkar manna er að útvega fjögur fórnarlömb sem komið verður fyrir út í hafi en áhöfn þyrlunnar er ætlað fiska þau upp og draga upp í þyrlu. Fórnarlömbin verða vel búin í viðeigandi klæðnað og björgunarsveitirnar verða til taks og gæta fyllsta öryggis.

Í júlí 2007 hrapaði TF Sif þyrla Landhelgisgæslunnar í sjóinn við Hafnarfjörð í samskonar æfingu og halda á í kvöld. Fjórir voru um borð í þyrlunni og komust þeir allir út en þyrlunni hvolfdi þegar hún féll í sjóinn.Um þetta var til dæmis fjallað á Vísi þennan dag.

bryndis@bb.is

Sjávarútvegurinn og ferðamenn samlegð eða samkeppni?

Guðrún Anna Finnbogadóttir

 Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi á Íslandi og verkfall sjómanna hefur staðið í á níundu viku án þess að mikið hafi gerst ákvað ég að taka saman nokkrar staðreyndir um sjávarútveginn og ferðaþjónustuna á Íslandi.

Af hverju spyrja væntanlega margir, en það er skemmst frá því að segja að báðar þessar atvinnugreinar eru orðnar okkur gríðarlega mikilvægar en fólki hættir til að tala um þær sem tvær aðskildar greinar. Það þarf þó ekki að kafa djúpt til að komast að því að þær eru algerlega óaðskiljanlegar í íslensku atvinnu- og mannlífi.

Samfélagið fyrr á öldum

Sjómenn hafa stundað sjóinn frá örófi alda og hafið hefur gefið og hafið hefur tekið. Síðustu tvær aldirnar hefur sjómennskan bætt lífskjör með þeim hætti að ekki eru mörg viðlíka dæmi í heiminum. Þessi hraði vöxtur og uppbygging í mjög harðbýlu landi hefði aldrei átt sér stað án þess að sjómenn og fjölskyldur þeirra hefðu lagt allt í sölurnar til að draga björg í bú.

Hvað varðar ferðamenn þá þóttum við mjög púkaleg fyrr á öldum á alþjóðamælikvarða og veittist okkur erfitt að bursta af okkur sveitamennskustimpilinn hjá erlendum þjóðum. Ferðamenn sem hingað komu áttu ekki orð yfir náttúrufergurðina en höfðu þó á orði að böð, hreinlæti og fágaðri framkomu mætti að ósekju setja í forgang þó fáum dyldist að hér fór gestrisið og vel innrætt fólk.

Staða sjávarútvegs

Ferðaþjónusta hefur svo verið að byggjast upp hægt og bítandi síðastliðin 20. ár en áður gekk illa að lokka erlenda gesti til landsins flugið var dýrt og landið erfitt yfirferðar.

Snúum okkur þá aftur að sjómennskunni og þróuninni þar. Fyrir tuttugu árum var nær allur fiskur frystur eða saltaður, settur í gám og fluttur með strandflutningaskipum frá öllum landshlutum til Reykjavíkur þar sem afurðum var safnað saman og sendar til útlanda. Íslenskur fiskur hefur alltaf haft á sér mjög gott orð sem hágæða fiskur en það er vinna að viðhalda góðu orðspori og krefst þess að fyrirtækin fylgist vel með nýjungum og tileinki sér allar breytingar á markaði.

Það eru margir þættir sem gera að sjávarútvegurinn stendur vel í alþjóðlegum samanburði. Fyrst og fremst má nefna áhersluna á gæði þar skiftir mestu máli, kæling, hreinlæti, vöruþróun og hraðir vinnsluferlar. Nýjasta tækni á sjó og landi hefur verið lykillinn að þeirri velgengni sem hefur átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi.

Hinsvegar hafa orðið stórstígar breytingar síðastliðin 20. ár og ekki er lengur nær eingöngu framleiddur frystur og saltaður fiskur heldur fluttur út ferskur fiskur í stórauknum mæli. En hvað þarf til að geta verið eins fjarri ferskfiskmarkaðnum og Ísland í rauninnni er en vera samt með sívaxandi ferskfiskútflutning og spila stórt hlutverk á þeim markaði í Evrópu og Bandaríkjunum. Þar kemur samlegð sjávarútvegs og ferðaþjónustunnar til sögunnar.

Fiskvinnslurnar eru dreyfðar um allt land. Til að geta flutt ferskan fisk til útlanda þarf fiskurinn að fara með flutningabíl daglega til Keflavíkur, svo hann sé kominn á völlinn að morgni. Lykillinn að því að senda 2-3 daga gamlan fisk til útlanda er þéttriðið net samgangna innanlands og til útlanda. Án bættra samgangna kæmust ferðamenn ekki til landsins né um landið okkar með góðu móti.

Samlegð fisk og ferðamanna

Til að þjóna öllum þeim ferðamönnum sem koma til landsins er nauðsynlegt að bjóða upp á hótel og veitingahús út um landið og það er ljóst að ef aðföng og afurðir í sjávarútvegi væru ekki uppstaðan í landflutningum yrði mjög dýrt fyrir ferðaþjóna og greiða raunkostnað við flutning aðfanga. Auk þess sem flutningsnetið væri líklega ekki eins þéttriðið og eins tíðar ferðir eins og raun ber vitni.

Snúum svo peningnum við, ferskur fiskur er fluttur út með skipum í gámum einu sinni í viku, en að stórum hluta er hann fluttur út með flugi og hefur fyrir vikið fengið nafnið „flugfiskur“ sem Gísla heitnum á Uppsölum lék mikil forvitni á að vita hvernig fiskur væri þessi „flugfiskur“ sem allir töluðu um.

Ferðamennirnir hafa streymt til landsins og það hefur skapað ótrúleg tækifæri til markaðssetningar á flugfiski. Í hvert sinn sem flugfélögin tilkynna um nýja áfangastaði fer fiðringur um fiskmarkaðs- og sölufyrirtækin sem hefja strax markaðssókn á nýjum mörkuðum. Auk þess sem tíðari ferðir á áður þekkta áfangastaði skapa líka ný tækifæri á þekktum mörkuðum. Án allra ferðamannanna hefði aukningin í flugfiski ekki orðið eins mikil og raun ber vitni.

Hagsmunir þessara útflutningsgreina hanga líka algerlega saman að öðru leyti. Það er mikið áhyggjuefni fyrir ferðaþjónustuna þegar krónan styrkist óeðlilega mikið vegna bólumyndunar á Íslandi, það sama á við um sjávarútveginn. Fiskurinn er greiddur í erlendum gjaldmiðli og það er erfitt að skýra hagsveiflur Íslands fyrir viðskiptavinum og því er styrking krónunar mikið áhyggjuefni.

Umræðan

Það sem veldur mér áhyggum er hinsvegar umræðan síðustu misserin. Það er alveg sama hvaða fréttir koma frá sjávarútvegsfyrirtækjunum um þessi hættumerki að sú umræða er kveðin niður með frasanum „ þessi helvítis sjávarútvegsmafía getur alveg tapað peningum, þeir eiga nóg af þeim.“ Hinsvegar gleymir fólk að á saman tíma og fæst minna fyrir afurðirnar vegna styrkingar krónunnar fá sjómenn lægra kaup því þeir eru á hlut, svar almennings við því er svolítið „ þeir eru hvort eð er á svo háu kaupi að það skiftir engu máli“.

Sú undarlega staða er því komin upp að samfélagið hefur í raun útilokað allar umræður um þennan stærsta atvinnuveg landsins sjávarútveginn, sem kom okkur úr moldarkofunum, með einhverskonar klisjum eða afneitun. Hinsvegar ef fiskveitingahúsaeigandi á Laugarveginum kemur í fréttirnar því hann getur ekki boðið upp á ferskan fisk sem rétt dagsins fyrir ferðamennina, gýs upp samúð og skilningur hjá landanum á stöðu mála. Gengi krónunnar má ekki ræða nema í sambandi við ferðmennsku allar umræður þar að lútandi varðandi sjávarútveg eru kurteislega slegnar út af borðinu.

Sjávarútvegsferðaþjónusta

Ferðaþjónustu tengd sjávarútvegi er mikilvægur þáttir í afþreyjingu ferðamanna og bera söfn landsins þess mikil merki, hvalasöfn, byggðasöfn og verbúðir um landið sem draga að sér ferðamenn auk hvalaskoðunar- og sjóstangveiðiferða.

Ferðamenn vilja sjá okkar aðal atvinnuveg til að skilja tilveru Íslendinga og hef ég sjálf farið með marga ferðamenn í gegnum minn vinnustað Odda hf á Patreksfirði sem er fiskvinnsla sem stendur fyrir fisk veiddan á línu, gæði og góða þjónustu. Finnst fólki það ótrúlegt og undravert hversu tengd við erum alþjóðamörkuðunum og hvernig við höfum skapað okkur sillu við sölu sjávarfangs í hinum stóra heimi.

Verum stolt yfir árangrinum sem hefur náðs í sjávarútvegi á Íslandi og hvernig okkur hefur tekist að nýta öll tækifærin sem aukin ferðaþjónusta hefur skapað en gleymum ekki að árangurinn þar er þéttofinn íslenskum sjávarútvegi og þeim grunnstoðum sem hann hefur skapað. Hvorutveggja byggir á sama grunninum auðlindinni Íslandi, samgöngum og dugnaði Íslendinga í að sjá og nýta sér ný tækifæri.

Sú deila sem nú hefur staðið í nær 9. vikur þarf að leysast, okkur kemur þetta öllum við og samningar þurfa að nást. Samningar nást því aðeins að allir aðilar hafi samningsvilja en ég sakna mest í allri umræðunni skilnings og stuðnings frá þjóðinni á því sem bæði sjómenn og sjávarútvegsfyrirtækin í landinu hafa áorkað. Það er lykillinn að áframhaldandi verðmætasköpun í öllum okkar útflugningsgreinum, bæði fiski og ferðamönnum, að við vinnum saman og samnýtum innviði til að efla íslenskt samfélag.

 

Guðrún Anna Finnbogadóttir

Sjávarútvegsfræðingur

Spyr ráðherra um úthaldsdaga varðskipanna

Gunnar Ingiberg Guðmundsson, þingmaður Pírata í Norðvesturkjördæmi, hefur beint fyrirspurn til Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra er varðar úthaldsdaga Landhelgisgæslunnar. Fyrirspurnin er í þremur liðum. Í fyrsta lagi er er spurt um fjölda úthaldsdaga á ári allt frá árinu 2013 og í svarinu verði tilgreint hversu marga daga skip Landshelgisgæslunnar hafa verið við eftirlitsstörf. Í öðru lagi hversu oft skip Landhelgisgæslunnar hafa tekið eldsneyti, sundurliðað eftir dagsetningu, löndum og magni. Í þriðja lagi vill Gunnar fá svör við því hvers oft Landhelgisgæslan hefur ekki getað sinnt eftirlitsstörfum vegna eldsneytistöku annars staðar en á Íslandi.

Í byrjun árs vakti athygli að varðskipið Þór sigldi til Færeyja og tók þar 550 þúsund lítra af olíu þar sem verð á skipaolíu er mun hagstæðara en á Íslandi.

Gunnar Ingiberg situr á þingi sem varamaður fyrir Evu Pandóru Baldursdóttur sem er í fæðingarorlofi.

smari@bb.is

Íslenskunámskeiði lauk með taílenskri veislu

Úrval taílenskra rétta í mötuneyti HG.

Eftir að starfsfólk botnfiskvinnslu Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. lauk fiskvinnslunámskeiðum fyrir áramót bauð  fyrirtækið starfsfólki sínu að sitja íslenskunámskeið í verkfallinu. Í síðustu viku luku 30 starfsmenn 30 stunda námi i íslensku á vegum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Haldið var upp á árangurinn með taílensku matarþema í gær þar sem nokkrir starfsmenn af taílenskum uppruna elduðu og kynntu fyrir samstarfsfólki sínu taílenska matargerð. Þeir starfsmenn sem höfðu áhuga á að bæta íslenskuþekkingu sína enn frekar hófu nýtt íslenskunámskeið í morgun.

Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. er fjölmenningarlegur vinnustaður og með íslenskunámskeiði er fyrirtækið að stuðla að bættri íslenskufærni starfsmanna sinna og auðvelda þar með aðlögun að bæði vinnustaðnum og samfélaginu.

smari@bb.is

Aukið atvinnuleysi í verkfallinu

At­vinnu­leysi jókst í sein­asta mánuði og voru að meðaltali 5.200 manns skráðir at­vinnu­laus­ir í mánuðinum skv. nýbirtri skýrslu Vinnu­mála­stofn­un­ar um vinnu­markaðinn. Fjölg­un at­vinnu­lausra má að stærst­um hluta rekja til upp­sagna fisk­verka­fólks í sjómannaverkfallinu. Fjöldi at­vinnu­lausra jafn­gild­ir 3% at­vinnu­leysi, sem hef­ur ekki verið hærra frá apríl 2015. Að meðaltali fjölgaði á at­vinnu­leys­is­skrá um 1.281 frá des­em­ber­mánuði.

Greiðslu­stofa at­vinnu­leys­is­bóta greiddi ríf­lega einn millj­arð í bæt­ur og aðrar greiðslur vegna at­vinnu­lausra í sein­asta mánuði. Auk fisk­vinnslu­fólks og sjó­manna var nokk­ur fjölg­un at­vinnu­lausra úr bygg­ing­ariðnaði, flutn­inga­starf­semi, versl­un og fleiri at­vinnu­grein­um, sem er í takt við hefðbundna árstíðasveiflu.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir