Laugardagur 22. febrúar 2025
Síða 2337

Lægir þegar líður á daginn

Það verður hvasst í veðri á Vestfjörðum fram yfir hádegið, með suðvestan 13-20 m/s og éljum, en lægir síðan smám saman er líða tekur á daginn. Hiti kringum frostmark. Í athugasemdum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar er varað við allhvassri eða hvassri suðvestanátt og éljagangi á landinu, með takmörkuðu skyggni í éljahryðjum og skafrenningi, einkum á fjallvegum. Þá lægir og styttir upp eftir hádegi, en vaxandi norðaustanátt með slyddu eða snjókomu sunnan- og austantil í kvöld. Aftur er svo búist við vestanhvassviðri með éljum á morgun og þá kólnar í veðri.

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja eru á vegum Vestfjörðum og  éljagangur, snjóþekja á Þröskuldum og hálka og skafrenningur á Steingrímsfjarðarheiði. Snjóþekja er á Klettsháls og þæfingur á Hjallaháls.

annska@bb.is

Tvö umferðaróhöpp í umdæminu

Tilkynnt var um tvö umferðaróhöpp í síðustu viku í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Annað þeirra varð á Súðavíkurhlíð að kveldi 12. janúar þegar  ökumaður missti stjórn á bíl sinni með þeim afleiðingum að hann rann út af veginum og fór veltur ofan vegar.

Ökumaðurinn, sem var einsamall í bifreiðinni, slapp án meiðsla, enda með öryggisbeltið spennt. Bifreiðin var óökufær eftir atvikið.

Hitt óhappið varð á Gemlufallsheiði um miðjan dag sama dag, en þá rann bifreið til og utan í vegrið sem er Bjarnadalsmegin við heiðina. Bifreiðin festist og þurfti að losa hana. Hvorki ökumann eða farþega sakaði.

Einn ökumaður var kærður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna í vikunni. Ökumaðurinn var stöðvaður í umferðareftirliti í miðbæ Ísafjarðar.

Lögreglan lagði hald á pakkasendingu sem send var frá höfuðborgarsvæðinu á ákveðinn aðila í Strandasýslu. Um var að ræða um 4 grömm af kannabisefnum. Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

smari@bb.is

Ítreka ósk um vetrarþjónustu í sveitum

Önundarfjörður í vetrardýrð.

Búnaðarfélagið Bjarmi í Ísafjarðarbæ fer fram á að bæjaryfirvöld taki til efnislegrar meðferðar ósk félagsins um vetrarþjónustu á sveitavegum í bæjarfélaginu. Í byrjun desember fundaði félagið með bæjarstjóra, embættismönnum og fulltrúum Vegagerðarinnar þar sem félagsmenn rökstuddu ósk sína um vetrarþjónustu alla virka daga. Í dreifbýli í Ísafjarðarbæ eru yfir 30 heimili með heilsársbúsetu. Með bréfi til bæjarstjóra dagsettu 9. janúar er erindi Bjarma ítrekað og farið fram á málið fá efnislega afgreiðslu hjá stjórnýslu sveitarfélagsins þar sem „fyrrgreind fundarhöld virðast ekki hafa dugað til að máli komist í efnislega afgreiðslu,“ eins og það er orðað í bréfi formanns Bjarma.

Í afgreiðslu bæjarráðs Ísafjarðarbæjar segir að mikill vilji sé hjá Ísafjarðarbæ til að leita leiða svo bæta megi snjómokstur umfram það sem hann er í dag. Sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs, forstöðumaður þjónustumiðstöðvar og bæjarstjóri hafa verið með þetta mál til skoðunar  og vonast bæjarráð er til að hægt verði að þoka þessum málum til betri vegar.

smari@bb.is

Bolvíkingum ráðlagt að sjóða neysluvatn

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða ráðleggur sem varúðarráðstöfun að Bolvíkingar sjóði neysluvatn. Við könnun á neysluvatni þann 12. janúar fundust e.coli gerlar í neysluvatni en bilun hafði komið upp í geislunartækjum. Geislabúnaður hefur verið gangsettur á ný og virkar eðlilega. Beðið er eftir niðurstöðu úr seinna sýni, en ekki hefur tekist að senda það í greiningu vegna veðurs.

Rekstur vatnsveitu Bolungarvíkur hefu  verið með eðlilegum hætti frá því á fimmtudag í síðustu viku og líklegt er að niðurstöður úr síðari sýni fáist á miðvikudag.

bryndis@bb.is

Fara fljótlega á reynsluveiðar

Togararnir sem Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. og Vinnslustöðin hf. í Vestmannaeyjum eru með í smíðum í Kína halda fljótlega til „veiða“ á miðin í næst við skipassmíðastöðinni í Shidao í Kína. Þetta kemur fram á vef Vinnslustöðvarinnar. Breki VE mun fara í prufuferð á undan Páli Pálssyni ÍS.

„Aðalatriðið er að kanna afl togskips með stærstu skrúfu íslenska fiskiskipaflotans. Auðvitað kostar verulega fjármuni og fyrirhöfn að senda veiðarfæri alla þessa leið en við viljum ganga úr skugga um að allur búnaður virki eins og til er ætlast áður en skipið verður afhent,“ segir Rúnar Helgi Bogason vélsmiður í frétt á vef Vinnslustöðvarinnar. Hann hefur verið í borginni Shidao í Kína í hálft annað ár og litið fyrir hönd útgerðanna eftir smíði systurskipanna ásamt Finni Kristinssyni vélfræðingi.

Fyrir liggur að láta reyna á ýmis tæki og tól í höfn í Kína, meðal annars átaksmæla aðalvélina með því að festa stálvíra úr skipinu í landi og láta skipið síðan toga.

Mikilvægasta þolraunin verður samt úti á sjó og Rúnar Helgi veit ekki til þess að svona nokkuð hafi verið gert áður með íslenskt fiskiskip hjá erlendri skipasmíðastöð fyrir afhendingu.

„Sjórinn er grunnur þarna úti fyrir. Við viljum gjarnan komast á 100 til 150 metra dýpi en það kostar allt að tveggja sólarhringa siglingu hvora leið og ekki víst að kínversk stjórnvöld leyfi slíka langferð. Meiningin er svo að færa trollið yfir í Pál Pálsson og prófa hann á sama hátt líka en ekki fyrr en séð er að allt sé með felldu í Breka. Ef eitthvað kemur upp á þar verður brugðist við í báðum skipunum áður en Páll fer í sína prófunarveiðiferð.“

smari@bb.is

Lyklarnir afhentir

 

Í dag kl. 13:00 fékk Ísafjarðarbær afhenta lykla að nýja leikskólahúsnæðinu í kjallara Tónlistarskólans. Það er fyrirtækið Gamla spýtan sem endurnýjaði og vann verkið og er það nú nánast tilbúið fyrir 45 fimm ára börn. Við sögðum frá því fyrir helgi að krakkarnir voru búin að taka aðstöðuna út fyrir sína parta og tóku lagið við glimrandi undirspil Gumma Hjalta.

Nú er fullorðna fólkið búið að fá lyklana og reiknað er með að börnin taki til starfa á fimmtudaginn.

Í meðfylgjandi myndbandi má hlýða á afhendingarræðu Magnúsar H. Jónssonar framkvæmdastjóra Gömlu spýtunnar, móttökuræðu Gísla H. Halldórssonar bæjarstjóra og stutt skot af húsnæðinu sem er afar vinalegt og alveg næstum tilbúið. Þetta myndband er frumraun okkar í myndbandagerð en vonir standa til að færni aukist með æfingunni.

Með nýrri heimasíðu kemur ný tækni.

Vilja ljósleiðaravæða í dreifbýli

Ísafjarðarbær er með í athugun gerð samninga um ljósleiðaravæðingu í dreifbýli í sveitarfélaginu er greint er frá á heimasíðu bæjarins. Ef af verður mun verkefnið verða unnið í áföngum, taka nokkur ár og felast í að koma að lágmarki á ljósleiðaratengingu á þá staði sem hverju sinni uppfylla skilyrði sem Fjarskiptasjóður setur um þátttöku sjóðsins á næstu árum.

Auglýsir sveitarfélagið eftir fjarskiptafélögum sem ætla sér, á markaðsforsendum, að bjóða ljósleiðaratengingar til lögheimila og annarra staða í dreifbýli í sveitarfélaginu næstu 3 ár. Sé fyrir hendi ásetningur um slíkt, óskar Ísafjarðarbær eftir upplýsingum um fyrirhugaða uppbyggingu en að öðrum kosti kemur til greina að styrkja, eða hafa milligöngu um styrkveitingu til verkefna sem uppfylla skilyrði. Óskað er eftir að þau fjarskiptafyrirtæki sem eru áhugasöm hafi samband við sveitarfélagið í gegnum netfangið taeknideild@isafjordur.is fyrir klukkan 12 miðvikudaginn 25. janúar 2017

Að því gefnu að ekki sé uppi ásetningur um ljósleiðaravæðingu í dreifbýli í sveitarfélaginu á markaðsforsendum hyggst Ísafjarðarbær gera samning við hæfan aðila sem lýsir yfir áhuga á  að hanna, byggja, reka og eiga ljósleiðarastreng ásamt því sem honum tilheyrir. Samningar munu fela í sér að Ísafjarðarbær veiti viðkomandi opinberan fjárhagslegan stuðning til verkefnisins eða einstakra áfanga þess. Ísafjarðarbær áskilur sér allan fyrirvara um hvort af einstökum áföngum verður þar sem ekki hefur verið fullmótuð stefna um verkefnið.

annska@bb.is

Vöntun á framtíðarsýn í fiskeldi

 

Það er skortur á heildstæðri framtíðarsýn varðandi fiskeldi í Ísafjarðardjúpi að mati skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar. Þetta kemur fram í umsögn nefndarinnar um frummatsskýrslu Háafells ehf. um 6.800 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi.

Nefndin gerir ekki athugasemd við frummatsskýrsluna en beinir því til ríkisvaldsins að veita fé til vinnu við strandsvæðaskipulags í Djúpinu. Sú vinna hófst fyrir nokkrum árum að frumkvæði sveitarfélaga og Fjórðungssambands Vestfirðinga. Sú vinna hefur hinsvegar legið í dvala í þónokkurn tíma vegna fjárskorts og áhugaleysis ríkisvaldsins.

„Það er sérhverju samfélagi, stóru sem smáu, nauðsynlegt að geta nýtt aðliggjandi auðlindir sér og íbúum sínum til hagsbóta. Í því samhengi skiptir gríðarlega miklu máli að sú auðlindanýting skapi störf á svæðinu og auki hagsæld íbúanna, fyrirtækjanna og samfélaganna í heild,“ segir m.a. í umsögninni og jafnframt er bent á að bæjaryfirvöld hafa áhyggjur af því að að ekki liggi fyrir umhverfismat á heildarálagi fiskeldis í Djúpinu og hver sammögnunaráhrifin verða. Með því er átt við samlegðaráhrif margra fiskeldisleyfa sem og afleidd áhrif, eins og efnahagsleg, samfélagsleg og umhverfisleg áhrif.

smari@bb.is

Skjöldur nýr framkvæmdastjóri Odda

Skjöldur Pálmason tekur við stjórnartaumum hjá Odda.

Skjöldur Pálmason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fiskvinnslunnar Odda hf. á Patreksfirði. Skjöldur tekur við af Sigurði Viggóssyni sem hefur látið af störfum að eigin ósk og var kjörinn formaður stjórnar félagsins á aðalfundi í byrjun janúar. Sigurður mun starfa áfram að hluta fyrir félagið sem starfandi stjórnarformaður og tekur við af Einari Kristni Jónssyni sem hefur verið stjórnarformaður í tæp 23 ár.  Skjöldur hefur starfað sem rekstrarstjóri Odda um árabil.

smari@bb.is

Nýr vefur

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir er fréttavefur bb.is kominn í nýjan búning, unglingurinn er orðinn 17 ára og komin tími til að fá ný föt. Gamli vefurinn hefur staðið sig vel, verið bæði snar og snöggur og sjaldan dottið út en afar úreltur, svona tæknilega séð.

Nýi vefurinn er byggður á Word Press eins og svo margir fréttavefir og það er Sturla Stígsson snillingur hjá Snerpu sem hefur átt veg og vanda að öllum tæknibrellum sem viðhafa þarf þegar nýr vefur fer í loftið.

Það á eftir að hnýta ýmsa spotta í verkinu, myndasafnið gamla er ekki komið inn og ekki heldur Bæjarins besta. Sömuleiðis er eftir að koma öllum gömlu fréttunum í skjól því í þeim felast mikil menningarverðmæti, hvernig við gerum það á eftir að koma í ljós.

bb.is er fyrst og fremst fréttavefur og því er mest áhersla lögð á einfalda framsetningu og birtingu á fréttum. Við aðgreinum fréttir af íþróttum og menningu lesendum til einföldunar en að öðru leyti eru ekki aðrar flokkanir. Margt var skilið eftir á gamla vefnum en við höldum að sjálfsögðu áfram að taka við aðsendum greinum og nýr dálkur „Viðburðir – kynning“ er leið til að kynna þá viðburði, fundi eða tónleika sem framundan eru. Í blaðinu verður viðburðadagatal þar sem fram kemur staður og stund en svo má nálgast hér á vefnum nánari upplýsingar um viðburðinn.

Með nýrri tækni er einfaldara að setja inn myndbönd og munum við nýta okkur það.

En breyting sem skiptir marga máli, nú er vefurinn orðinn farsímavænn og var nú tími til kominn.

Gjarnan er tekið við ábendingum um galla eða eitthvað sem betur má fara og um leið biðjumst við vægðar ef mikið verður um hökt svona á fyrstu skrefunum. Við reynum að taka á vandamálunum um leið og þau koma upp og leysa eins hratt og við getum.

bryndis@bb.is

Sturla Stígsson, tæknisnillingur hjá Snerpu

Nýjustu fréttir