Síða 2337

Íslenskunámskeiði lauk með taílenskri veislu

Úrval taílenskra rétta í mötuneyti HG.

Eftir að starfsfólk botnfiskvinnslu Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. lauk fiskvinnslunámskeiðum fyrir áramót bauð  fyrirtækið starfsfólki sínu að sitja íslenskunámskeið í verkfallinu. Í síðustu viku luku 30 starfsmenn 30 stunda námi i íslensku á vegum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Haldið var upp á árangurinn með taílensku matarþema í gær þar sem nokkrir starfsmenn af taílenskum uppruna elduðu og kynntu fyrir samstarfsfólki sínu taílenska matargerð. Þeir starfsmenn sem höfðu áhuga á að bæta íslenskuþekkingu sína enn frekar hófu nýtt íslenskunámskeið í morgun.

Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. er fjölmenningarlegur vinnustaður og með íslenskunámskeiði er fyrirtækið að stuðla að bættri íslenskufærni starfsmanna sinna og auðvelda þar með aðlögun að bæði vinnustaðnum og samfélaginu.

smari@bb.is

Aukið atvinnuleysi í verkfallinu

At­vinnu­leysi jókst í sein­asta mánuði og voru að meðaltali 5.200 manns skráðir at­vinnu­laus­ir í mánuðinum skv. nýbirtri skýrslu Vinnu­mála­stofn­un­ar um vinnu­markaðinn. Fjölg­un at­vinnu­lausra má að stærst­um hluta rekja til upp­sagna fisk­verka­fólks í sjómannaverkfallinu. Fjöldi at­vinnu­lausra jafn­gild­ir 3% at­vinnu­leysi, sem hef­ur ekki verið hærra frá apríl 2015. Að meðaltali fjölgaði á at­vinnu­leys­is­skrá um 1.281 frá des­em­ber­mánuði.

Greiðslu­stofa at­vinnu­leys­is­bóta greiddi ríf­lega einn millj­arð í bæt­ur og aðrar greiðslur vegna at­vinnu­lausra í sein­asta mánuði. Auk fisk­vinnslu­fólks og sjó­manna var nokk­ur fjölg­un at­vinnu­lausra úr bygg­ing­ariðnaði, flutn­inga­starf­semi, versl­un og fleiri at­vinnu­grein­um, sem er í takt við hefðbundna árstíðasveiflu.

smari@bb.is

Cale Coduti sýnir í Úthverfu

Eitt verkanna á sýningunni.

Í dag kl. 17 opnar Cale Coduti sýningu í Gallerí Úthverfu á Ísafirði. Cale Coduti er amerískur málari og útskrifaðist frá Pennsylvania State University 2016 með BFA í teiknun og málun. Hann hefur tekið þátt í samsýningum og haldið einkasýningar í Bandaríkjunum frá 2014 og hlotið fjölda tilnefninga og viðurkenninga fyrir verk sín.

Á sýningunni í Úthverfu verða teikningar og málverk sem hann hefur unnið á meðan á dvöl hans hefur staðið í gestavinnustofum ArtsIceland á Ísafirði. Mörg verka hans tjá tilfinningar sem liggja djúpt og eru ekki auðveldar að túlka með orðum. Verkin eru fagurfræðilegar tilraunir, stundum fullar af gleði og stundum þrungnar meiningu sem erfitt að skilgreina.

Allir eru velkomnir á opnun sýningarinnar í dag og þiggja þar léttar veitingar. Sýningin stendur til laugardagsins 18. febrúar og er opin eftir hádegi virka daga og/eða eftir samkomulagi.

smari@bb.is

90 prósent aflasamdráttur

Fiskafli íslenskra skipa í janúar  var 7.610 tonn og dróst saman um 90 prósent frá því í janúar 2016 – enda hefur sjómannaverkfall staðið yfir frá því um miðjan desember. Sjómenn á smábátum eru ekki í verkfalli og veiddu þeir um 94 prósent aflans. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar. Á tólf mánaða tímabili, frá febrúar 2016 til janúar 2017, dróst  heildarafli fiskiskipaflotans saman um 295 þúsund tonn eða 23 prósent samanborið við sama tímabil árið áður.

Þar munar mestu um uppsjávarafla sem hefur dregist saman um 34 prósent á tímabilinu sem um ræðir. Þar hefur veiði á loðnu til að mynda dregist saman um 68 prósent og veiðar á kolmuna um 33 prósent.

smari@bb.is

Súðavíkurskóli sigraði í Lífshlaupinu

Nemendur á yngsta stigi í Súðavíkurskóla

Súðavíkurskóli sigraði í flokki skóla að 90 nemendum í grunnskólakeppni Lífshlaupsins sem lauk í gær. Gríðarlega góð þátttaka var í skólanum þar sem allir voru skráðir til leiks og var skráð hreyfing tæpa 13 daga af þeim 14 sem keppnin stóð, eða 12,89 og var langt í annað sætið sem var með 9,39. Grunnskólakeppni Lífshlaupsins hófst 1.febrúar og í keppninni mátti skrá alla hreyfingu sem náði minnst 60 mínútum samtals á dag hjá nemendum.

Dagbjört Hjaltadóttir kennari við Súðavíkurskóla segir að hvert tækifæri hafi verið notað til að skoppa út um allar grundir og móa. Hin fjölbreyttustu verkefni voru framkvæmd sem fólu í sér hreyfingu og skiluðu stigum í pottinn. Til dæmis var í stærðfræðitíma mæld lengd steypireyðar, sem taldi eina 30 metra, farið var í myrkragöngu þar sem gengið var út úr upplýstu þorpinu út í myrkrið í kring og farið var í skólaskóginn, þar sem nemendur hafa plantað trjám og voru tré þar mæld, svo einhver dæmi séu tekin.

Vinnustaðakeppni Lífshlaupsins er í gangi allan mánuðinn og í flokki vinnustaða með 10-29 starfsmenn leiðir Súðavíkurskóli einnig. Góð þátttaka er í hreyfiátakinu og í gær voru skráðar hreyfimínútur komnar í 9 milljónir og dagar með lágmarkshreyfingu orðnir rétt rúmlega100 þúsund talsins.

Verðlaunaafhending Lífshlaupsins fer fram föstudaginn 24. febrúar í sal KSÍ þar fá þeir sem skarað hafa fram úr í keppninni glæsilega viðurkenningaplatta afhenta fyrir frammistöðuna.

annska@bb.is

 

 

Léttir til síðdegis

Veðurstofa Íslands spáir norðaustan 3-8 m/s, skýjuðu með köflum en þurru að mestu á Vestfjörðum í dag, síðdegis léttir heldur til. Bjart að mestu á morgun, en þykknar upp annað kvöld. Hiti verður um og yfir frostmarki. Á föstudag gengur í austan 8-15 m/s á landinu með rigningu, fyrst sunnantil, en slyddu norðantil upp úr hádegi. Hægari og dregur úr úrkomu sunnanlands síðdegis. Hiti yfirleitt 0 til 7 stig.

Á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir á fjallvegum og á kafla í Ísafjarðardjúpi.

Á meðfylgjandi myndskeiði sem tekin var í rökkrinu í morgun má sjá hvar lognið hefur lögheimili.

 

annska@bb.is

Frumkvöðlakonur funda

Í kvöld efna Vinnumálastofnun og frumkvöðlakonur á Vestfjörðum til fundar í Vestrahúsinu. Á fundinum verða styrkir til atvinnumála kvenna kynntir en á vegum Vinnumálastofnunar hefur styrkjum til kvenna til að sinna viðskiptahugmynd eða þróa verkefni, verið veitt frá árinu 1991. Styrkirnir eru veittir af Velferðarráðherra en það er Vinnumálstofnun sem hefur vistað verkefnið hin síðari ár. Opnað hefur verið fyrir umsóknir í ár og er umsóknarfrestur til 20. febrúar.

Á fundinum í kvöld verður einnig kynning á FREE verkefninu en það er samstarfsverkefni fimm þjóða um að styrkja frumkvöðlakonur á landsbyggðinni. Það eru Ísland, Bretland, Litháen, Króatía og Búlgaría sem standa að þessu verkefni. Aðalmarkmið FREE verkefnisins, sem er styrkt af Evrópusambandinu,  er að aðstoða frumkvöðlakonur á landsbyggðinni til að koma hugmyndum sínum og fyrirtækjum á framfæri með fræðslu og hvatningu auk þess að efla tengslanet kvenna.  Markhópur verkefnisins eru frumkvöðlakonur sem hafa nú þegar viðskiptahugmynd sem þær vilja hrinda í framkvæmd eða hafa nýlega stofnað fyrirtæki.

Tengslanet frumkvöðlakvenna á svæðunum verða sett upp og munu leiðtogar, frumkvöðlakonur sem eru í rekstri, stýra þeim á hverju svæði fyrir sig. Gert er ráð fyrir því að tengslanetið starfi í 10 mánuði að lágmarki á tilraunatímabilinu og að a.m.k. sex fundir verði haldnir á tímabilinu en þróun hvers tengslanets og framtíð er í höndum leiðtoganna sjálfra og netsins sem myndað verður og þannig því reynt að virkja grasrótina á hverjum stað.

Stofnaður hefur verið facebook hópur um verkefnið en fundurinn hefst kl. 20:00 í Vestrahúsinu.

Starfsleyfistillaga fyrir 10.700 tonna laxeldi

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir Fjarðalax ehf. til framleiðslu á allt að 10.700 tonnum á ári af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði. Fyrirtækið er með 3.000 tonna gilt starfsleyfi í sömu fjörðum og kemur starfsleyfistillagan til viðbótar því.  Fjarðalax er síðan í fyrra í eigu Arnarlax sem er stærsta fiskeldisfyrirtæki á landinu með sjókvíaeldi á Suðurfjörðum Vestfjarða og plön um stórfellt laxeldi í Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum. Þá er Arnarlax með umsókn í vinnslu í Eyjafirði.

Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 11. apríl 2017. Á vef Umhverfisstofnunar má finna auglýsta tillögu Umhverfisstofnunar, umsóknargögnin, tilkynningu til Skipulagsstofnunar og matsskylduákvörðun hennar.

smari@bb.is

Óskar eftir tilboðum í aurvarnargarð

Núverandi flóðafarvegur ofan Hjallavegs.

Framkvæmdasýsla ríkisins óskar eftir tilboðum í framkvæmdir við byggingu seinni áfanga aurflóðavarnargarðs ofan Hjallavegar og nyrsta hluta Urðarvegar á Ísafirði. Um er að ræða um það bil 650 m langan aurvarnargarð og samsvarandi flóðafarveg ofan hans. Í fyrri áfanga, árið 2011, var nyrðri hluti garðsins formaður og eru nú um 170 m eftir af gerð hans. Þó á enn eftir að gera stóran hluta af farveginum í nyrðri hlutanum. Í verkinu felst einnig að leggja um 570 m langan vegslóða eftir botni flóðafarvegar og meðfram vegslóðanum skal gera lækjarfarveg. Jafnframt lagning um 170 m af göngustígum sem eftir er að leggja, mótun skeringa flóðmegin við garða og frágangur. Aurvarnargarðurinn gegnir því hlutverki að stöðva grjót og verður um 5 m á hæð þ.e. frá botni í flóðafarvegi og upp á topp garðs. Garðurinn er 1,5 m breiður í toppinn og breidd flóðafarvegar í botninn er um 4 m. Í garðinn þarf nú um 7 þús. m3 efnis. Magnið sem kemur upp úr farveginum er hins vegar um 23 þús. m3. Umframefni skal ekið á tipp í Grænagarðsnámu um vegslóða ofan varnargarða sem þegar hafa verið byggðir ofan byggðar á Ísafirði, neðan Gleiðarhjalla. Verkinu skal vera að fullu lokið eigi síðar en 31. október 2017.

smari@bb.is

Landsbyggðin andsnúnari áfengisfrumvarpinu

Alls eru 61,5 pró­sent Íslend­inga mót­fallnir nýju áfeng­is­frum­varpi sem felur í sér að heim­ilt verður að selja áfengi í versl­unum frá og með næstu ára­mót­um. Ein­ungis 22,8 pró­sent eru hlynntir þeirri ráða­gerð en 15,7 pró­sent eru hvorki hlynntir eða mót­fallnir ráða­gerð­inni. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Zenter rann­sóknir fram­kvæmdi dag­anna 9. til 14. febr­úar síð­ast­lið­inn og greint er frá í Kjarnanum. Íbúar á landsbyggðinni eru marktækt andsnúnari frumvarpinu en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Nokkur munur er á afstöðu Íslend­inga gagn­vart frum­varp­inu eftir aldri. Yngri ald­urs­hópar eru almennt hlynnt­ari því að áfengi verði selt í versl­unum en eldri ald­urs­hóp­ar. Þá eru karlar mun hlynnt­ari því að frum­varpið verði að lögum en konur.

Níu þing­menn úr fjórum flokkum lögðu fram frum­varpið. Verði það að lögum verður einka­leyfi ÁTVR á áfeng­is­sölu afnumið frá og með næstu ára­mót­u­m, sala á því heim­iluð í sér­­versl­un­um, í sér­­­rýmum innan versl­ana eða yfir búð­­ar­­borð, áfeng­is­aug­lýs­ingar inn­lendra aðila heim­il­aðar og leyfi­legt verður að aug­lýsa það í inn­lendum fjöl­miðl­u­m.

Þing­­menn­irnir sem leggja frum­varpið fram koma úr Sjálf­­stæð­is­­flokki, Við­reisn, Bjartri fram­­tíð og Píröt­­um. Þeir eru Teitur Björn Ein­­ar­s­­son, Áslaug Arna Sig­­ur­­björns­dótt­ir, Vil­hjálmur Árna­­son og Hildur Sverr­is­dóttir úr Sjálf­­stæð­is­­flokki, Pawel Bar­toszek úr Við­reisn, Nichole Leigh Mosty úr Bjartri fram­­tíð og Pírat­­arnir Jón Þór Ólafs­­son, Ásta Guð­rún Helga­dóttir og Viktor Orri Val­­garðs­­son.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir