Fimmtudagur 10. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2337

Nóg um að vera í Fræðslumiðstöðinni

Það er alltaf nóg um að vera við Fræðslumiðstöð Vestfjarða og er þar boðið upp á hvert áhugaverða námskeiðið á fætur öðru og er óhætt að segja að fjölbreytni námskeiðanna spanni vítt áhugasvið. Á mánudag hefst þar námskeiðið WordPress – vefurinn minn, þar sem Birgir Þór Halldórsson kennir heimasíðugerð með litlum tilkostnaði en WordPress er eitt vinsælasta vefumsjónarkerfið í heiminum í dag. Þá hefst námskeið í vefnaði á þriðjudag, þar sem Sigrún Guðmundsdóttir kennir grunn aðferðir í vefnaði og hvernig útfæra má þær á fjölbreyttan hátt í mismunandi efni. Námskeiðið verður haldið í vefstofu úr Húsmæðraskólanum Ósk sem er nú staðsett í Barnaskólanum í Hnífsdal. Á þriðjudag verður einnig námskeiðið Veðurfræði – Veðurspár, þar sem Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur fjallar um gagnsemi tölvuspáa og leiðir um frumskóg þeirra á vefnum. Hverjar þeirra eru hentugar og hvað ber að varast í þessum efnum, ekki síst fyrir vestan. Hversu langt fram í tímann er hægt að spá með þessum aðferðum? Námskeiðið miðast sérstaklega við sjómenn en er gagnlegt öllu áhugafólki um veður.

Þann 4. mars verður svo boðið upp á námskeið þar sem kennt verður að gera súrkál og annað sýrt grænmeti, en mjólkursýring er ævagömul náttúruleg leið til að geyma grænmeti. Kennslan verður bæði í formi fyrirlesturs Dagnýjar Hermannsdóttur og sýnikennslu. Boðið verður upp á smakka á um tuttugu útgáfum af sýrðu grænmeti og þátttakendur fá bækling þar sem tekin eru saman helstu atriði sem hafa þarf í huga auk nokkurra uppskrifta.

annska@bb.is

 

Auglýsing

Skortur á frjálsum óháðum fjölmiðlum á landsbyggðinni er stórhættulegt lýðræðisvandamál

Jón Ólafur Björgvinsson

Málefni venjulegs fólks á landsbyggðinni eru sjaldan birt í stærri fjölmiðlum á Íslandi. Einfaldlega vegna þess að í þeim vefmiðlum eða þeim örfáu prentuð blöðum sem fólk hefur aðgang að eru ekki birtar neinar “krítískar” greinar um bæjar og stjórnsýslumál eða umræða um málefni sem fólk er ekki sammála um. Fullt af tilkynningum og “fréttum um ekki neitt” birtast vissulega daglega og allt virðist á yfirborðinu vera í góðu lagi og auðvitað hafa stærri fjölmiðlar engan áhuga á að birtar fréttir um ekki neitt, en þeir eru svo sem ekkert sérstaklega duglegir eða áhugasamir um að afla sér frétta frá landsbyggðinni heldur.

Hér er ekkert að gerast, öll dýrin í skóginum eru vinir og allir eru sammála, eða hvað ?

En þegar maður er á kaffihúsi, í matarboðum eða bara í kaffipásu í vinnunni þá er fólk að tala um málefni dagsins og um það sem er á “bæjarlínunni” þessa stundina. En í dag getur maður virkilega spurt sjálfan sig hvaðan fréttirnar sem fólk er að tala um koma, sérstaklega í litlum bæjarfélögum út á landi. “Neiiiii, é dúdda mía, hvar heyrðurðu þetta ? Svarið er oftast: Las þetta á “Gróa á Leiti.is” eða “Skúli fúli” var að blogga um þetta og svo birti “Fúll á móti (öllu)” meira segja mynd af þessu á Facebook ! “ Guð minn almáttugur er þetta SATT ? Já, einmitt ER ÞETTA SATT ?

Það eru ekki margir sem hafa það fyrir atvinnu á landsbyggðinni að spyrja bæjarstjórann, nefndarformenn eða aðra ráðamenn spurninga, leita að sannleikanum og sjá til að hann sé birtur á þann hátt að almenningur geti byggt sér skoðanir sem byggja á áreiðanlegum heimildum.

Það er einnig mikilvægt að þeir sem gefa sig inní pólitísks störf hafi möguleika að útskýra sínar ákvarðanir án þess að vera rakaðir niður í kjaftasögum og ósannindum sem fer eins og eldur um sinu á bæjarlínunni og á Facebook. Allir virðast eiga “sannleikan” í dag, eða að minnsta kosti taka sér það bessaleyfi að birta: “Alternative news og alternative truth”

Hver vill svo sem bjóða sig fram í ábyrgðarstöður í nefndum og önnur lýðræðislega mikilvæg störf, eyða sínum frítíma í eitthvað sem maður fær bara skít og skömm fyrir og taka þá áhættu að fólk getir ekki gert greinarmun á lýðræðislegu sjálfboðastarfi og persónu.

Í dag er það þannig að þegar Gróa á Leiti.is er þegar búinn að segja öllum “sannleikann” hefur fólk sem lendir í kjaftinum á henni enga möguleika að verja sig eða útskýra sína hlið á málinu. Það fólk á sér ekki viðreisnar von ! Hvar? Eða hver á svo sem að birta það? Hver hefur svo sem áhuga á að heyra “sannleikann” ? Þetta er þegar orðinn gömul frétt, allir eru nú þegar búnir að heyra sannleikan. Gróa er svo góður og afkastamikill ritstjóri og vegna skorts á samkeppni er hún alltaf fyrst út með “fréttirnar og sannleikan”.

Það er kannski ekki svo skrítið að fólk á Íslandi “neyðist” til að kjósa yfir sig sömu vitleysuna aftur og aftur á fjögra ára fresti. Samt er enginn skortur á hæfileikaríkum konum og körlum á Íslandi. Lýðræði felst ekki í því að bara kjósa og fara síðan heim og nöldra á Facebook í fjögur ár, virkir ríkisborgarar taka þátt í uppbyggingu samfélagsins hvort sem það er stutt í kosningar eða ekki.

En svo þarf náttúrulega einhvern / einhverja í það að “þora” að spyrja, þora að birta og opna umræðu um hluti sem við erum ekki sammála um án þess að tapa auglýsingatekjum, án þess að fá á sig persónulegan skít og ásakanir um til dæmis að hafa einhvern persónulegan ávinning af birtingu frétta.

En að sjálfsögu er mikilvægt að skrif minni landsbyggðamiðla snúist aldrei um að ráðast á persónu annarra, því það er verulegur munur á persónu fólks og því opinbera hlutverki sem sú manneskja sinnir í samfélaginu. Það er mjög sárt og leiðinlegt að heyra niðrandi orð um fólk sem hefur setið í nefndum og unnið óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins, eftir bestu getu, það á náttúrulega þakkir skilið.

En markmið opinnar umræðu í réttu formi er að fá fram nýjar hugmyndir og nýjar lausnir og við erum ekki óvinir þegar við skiptumst á skoðunum. Við erum bara samála um að vera ósammála. Því það getur líka verið lausn í hinu góða formi af lýðræðissamfélagi að nefndir og stjórnir sem telja sig ekki geta fjárhagslega, stjórnsýslulega eða hreint af lagalega sinnt sínum verkum að þá þarf það hvorki að vera ósigur eða niðurlæging að segja af sér ábyrgð og láta aðra nýja krafta koma með lausnir, nýja forgangsröðun og hugmyndafræði.

Stundum fá fréttaritarar minni landsbyggðamiðla ásakanir á sig um að með því að birta neikvæðar grein um “okkar” annars svo fallega fjörð/bæjarfélag sé verið að skapa sundrung og ósætti. En því miður liggur það oft í manneskjulegu eðli að “Skjóta frekar saklausan boðberann” það er miklu auðveldara en horfast í augu við kaldann veruleikann.

Það er líka svo létt að vera “Skúli fúli” sem er almennt á móti öllu, bara öllu, án útskýringa á netinu og telja sig ekki þurfa að standa fyrir neinu sem maður hrækir út úr sér. Það hlýtur að vera hlutverk minni bæjarmiðla/landsbyggðamiðla að birta myndir og skrifa um hluti sem íbúar svæðisins eru ekki ánægðir með og ekki bara tilkynningar, myndir af fallegu sólarlagi og fréttir af skemmtanalífi og hátíðum.

Nei, og hér fer ekki fram rannsóknar blaðamennska á háu stigi heldur, en skoðanafrelsi verður að ríkja hér í réttu formi og þó að við búum í litlum bæ út á landi þar sem allir eru sammála um það mesta. Þá getur því miður líka ríkt hættulega sterkur andi í óskrifuðum lögum að það sé nú best að: “Öll dýrin í skóginum séu vinir”. Þó getur það líka verið jafn hættuleg hugmyndafræði eins og hún er falleg, því þá verður enginn þróun, ekkert sem rekur okkur áfram, enginn vilji til að gera betur, allir eru bara sammála um að allt sé gott eins og það er núna.

Minni landsbyggðamiðlar eiga að vera sá miðill þar sem ekkert er of smátt eða ómerkilegt eða of stórt til að skrifa um, lífið og fólkið á svæðinu er grunnur þessa miðils. Það getur ómögulega verið svo að málefni venjulegs fólks úti á landi séu svo ómerkileg og lítil að það sé ekki áhugavert fyrir stærri fjölmiðla landsins að birta fréttir um slík málefni. Þar eru bara birtar fréttir um stórar og mikilvægar ákvarðanir sem að mestu leiti eru teknar og ræddar langt frá þeim veruleika sem flestir úti á landi lifa í. Þess vegna er það lýðræðislega stórhættulegt að mikil skortur er á frjálsum óháðum miðlum úti á landi og þeim fer fækkandi vegna stuðnings- og skilningsleysis ríkisvaldsins.

Að endingu vill greinarhöfundur vitna í meistararitgerð frá 2014 sem skrifuð var við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands og fjallar um vinnuaðstöðu fréttaritara á minni miðlum landsbyggðarinnar þar sem þeir eru spurðir um eigið frelsi til að skrifa gagnrýnar fréttir.

“Hluti blaðamanna þorir vart að skrifa gagnrýnar greinar um nærsamfélagið, einmitt vegna ótta um að verða fyrir aðkasti.” Greinarhöfundur er Íslenskur ríkisborgari fæddur og uppalinn á Siglufirði, búsetur í Svíþjóð.

Lifið heil

Jón Ólafur Björgvinsson (Nonni Björgvins)

Auglýsing

Ritsmiðja í skapandi skrifum á Ísafirði

Í byrjun marsmánaðar verður haldin fjögurra daga ritsmiðja í skapandi skrifum í Skóbúðinni á Ísafirði. Leiðbeinandi er Emma Beynon, sem er þaulreyndur kennari og rithöfundir frá Wales. Emma kennir skapandi skrif í fræðslu- og listamiðstöðinni Arts Alive í Wales. Í miðstöðinni er list notuð til að virkja, hvetja og bæta lífsgæði íbúa í hinum dreifðu byggðum á svæðinu. Hún leggur þar áherslu á að nota skapandi skrif til að auka sjálfstraust nemenda og þekkingu á velskri ljóðlist. Emma heimsótti Ísafjörð síðasta haust og dvaldi hér um hríð, þar komst hún í samband við Björgu og Vaidu í Skóbúðinni og úr varð þetta samstarf. Til gamans má geta að Emma vinnur nú að skáldsögu um ævintýri sín á norðurslóðum.

Í ritsmiðjunni fá þátttakendur leiðsögn og hvatningu í hugmyndavinnu og vinnulagi þar sem gerðar verða margskonar æfingar sem efla sköpunarkraftinn og veita innblástur. Ritsmiðjan hentar þeim sem vilja auka ritfærni sína, fá hugmyndir og innblástur. Einnig getur hún hentað kennurum sem hafa áhuga á að nota skapandi skrif í sinni vinnu. Ritsmiðjan hefst 2.mars og lýkur henni þann 5.mars. Kennt verður á ensku en þátttakendum er frjálst að skrifa á öðru tungumáli. Nánari upplýsingar og skráning: skobudin.sogur@gmail.com

annska@bb.is

Auglýsing

Eduardo Abrantes sýnir hljóðlistaverk í Edinborgarhúsinu

Hljóðlistamaðurinn Eduardo Abrantes hefur dvalið á listavinnustofu ArtsIceland á Ísafirði undanfarinn mánuð og á laugardagskvöld býður hann til kynningar í Bryggjusal Edinborgarhúss á því sem hann hefur unnið að með því að bjóða upp á verkið Horn eru beygjur / Corners are curves, sem er fjölóma innsetning/hljóðverk sem fléttar saman hljóðum sem listamaðurinn hefur safnað saman meðan á Ísafjarðardvöl hans hefur staðið. Einnig verður gestum boðið í stutta göngu og að verða vitni að spunakór.

Horn eru beygjur er samsett af stýrðum vettvangsupptökum sem framkvæmdar voru víðsvegar um Ísafjörð, í einkarýmum sem opinberum rýmum. Þær fela í sér hljóð landslags fjarðarins, sem á sama tíma, er bæði opinbert og afar persónulegt er segir í umfjöllun um verkið. Titillinn vísar í landfræði fjarðarins, hvernig horn hans verða að beygjum og leikur hans að því sem er virðist bæði ögrandi og aðlaðandi leiðangur – sem reynir á líkamann og frelsar sálina. Hann hefur einnig tilvísun í innra landslag manneskjunnar sem hún deilir með öðrum, þar sem glímur nútíðar og fortíðar birtast í sterkari sannfæringu um hvernig lífið og undur þess afneita beinum línum.

Eduardo Abrantes er fæddur árið 1979 í Lisbon í Portúgal. Hann er listrænn fræðimaður, hljóðlistamaður og kvikmyndagerðarmaður. Hann býr nú í Kaupmannahöfn þar sem undanfarið hann hefur lagt áherslu á að kanna hvernig reynslu hversdagsins getur verið mætt af aukinni athygli í gegnum aðferðir gjörningslistar.

Um dvöl sína og störf á Ísafirði segir Eduardo: „Mánaðarlöng dvöl mín á listavinnustofunni á Ísafirði birtist í röð óvæntra samfunda fullum andagiftar. Milli alltumvefjandi landslagsins – kraftmikils og flæðandi – og fólksins sem það fóstrar, hef ég fengið færi á að vefa inn hljómfall eigin lífs, verið boðinn velkominn, mætt gamansömum áskorunum, og öðru fremur fengið að taka þátt af einskærum áhuga.“ Frekari upplýsingar um verk Eduardo Abrantes er að finna á: www.pairsofthree.org

annska@bb.is

 

Auglýsing

Skattaspor Arnarlax 616 milljónir

Samkvæmt úttekt PwC var skattaspor Arnarlax hf. á Bíldudal 616 milljónir kr. á síðasta ári. Skattaspor sýna með einföldum hætti þær skattgreiðslur og gjöld sem fyrirtæki greiða til samfélagsins. Mest, eða 377 milljónir kr., var greitt í tekjuskatt starfsfólks. Á síðasta ári var meðalfjöldi starfsmanna Arnarlaxi og tengdum félögum um 118 starfsmenn. Til viðbótar starfa þar verktakar við ýmis verkefni.

Innlegg í umræðuna

Skipting skattaspors Arnarlax.

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, segir að úttekt PwC sé mikilvægt innlegg í umræðuna um fiskeldi. „Núna höfum við svart á hvítu hvað þetta eina fiskeldisfyrirtæki skilar til samfélagsins. Þetta er mikilvægt innlegg í umræðuna sem hefur allt of oft verið á villigötum,“ segir Víkingur og bendir jafnrframt á að síðasta ár var fyrsta ár þar sem fyrirtækið hafði tekjur.

 

Umtalsverð hafnagjöld

Arnarlax er með starfsemi í þremur sveitarfélögum, Vesturbyggð, Ölfusi og Tálknafirði. Í tengslum við þessar starfsstöðvar greiðir félagið ýmis gjöld sem renna til þessara sveitarfélaga sem alls nema 55 milljónum kr. og eru stærsti hlutinn afla- og hafnargjöld, eða 48 milljónir kr.

30 milljónir í umhverfissjóð

Á síðasta ári greiddi Arnarlax 30 milljónir kr. í umhverfissjóð sjókavíeldis. Sjóðurinn var stofnaður með lögum árið 2008 og í hann greiða fyrirtæki sem stunda sjókvíaeldi í samræmi við umfang fyrirtækjanna. Sjóðurinn fjármagnar verkefni sem lúta að því að aðlaga fiskeldi á Íslandi sem best að umhverfisskilyrðunum á Íslandi. Sjóðurinn sinnir þessu hlutverki sínu með þeim hætti að hann greiðir kostnað við rannsóknir vegna til dæmis burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður auk þess sem sjóðnum er heimilt að veita veiðirétthöfum styrki til að mæta kostnaði eða tekjumissi sem ekki er hægt að rekja til ákveðinnar eldisstöðvar.

Fyrsta ár með tekjur

Víkingur segir að fólk eigi að hafa í huga að þarna er bara verið að tala um skattaspor eins fyrirtækis. „Það er viðbúið að skattaspor Arnarlax stækki á næstu árum enda erum við í vexti. Að auki höfum við verið í mjög fjárfrekri uppbyggingu og vorum fyrst að fá tekjur í fyrra. Það ræður því að fyrirtækið sjálft er ekki að greiða tekjuskatt vegna uppsafnaðs skattalegs taps af rekstrinum.“

Miðað við tekjuáætlun Arnarlax mun skattinneign klárast á næsta ári og að óbreyttu mun fyrirtækið þá greiða tekjuskatt.

Um skattaspor

Skattaspor er tæki fyrir íslensk fyrirtæki til að sýna með einföldum hætti þær skattgreiðslur og gjöld sem fyrirtækið greiðir til samfélagsins. Skattaspor fyrirtækis samanstendur af öllum þeim sköttum og gjöldum sem fyrirtæki greiðir til ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða. Skattar skiptast venjulega í tvennt, annars vegar skattar fyrirtækisins (s.s. tekjuskattur og virðisaukaskattur) og svo skattar mannauðs fyrirtækisins (tekjuskattur, útsvar, tryggingagjald). Auk þess greiða félög ýmis opinber gjöld til ríkis og sveitarfélaga. Er í skattasporinu einnig gerð grein fyrir þessum gjöldum.

 

Auglýsing

Bátaeigendur treysti landfestar

Bátaeigendum í Ísafjarðarbæ er bent á að huga að bátum sínum og treysta landfestar. „Við vitum ekki hvort það verði eitthvað af veðrinu hér, en það er aldrei of varlega farið,“ segir Björn Jóhannsson, hafnsögumaður. Mesti veðurhamurinn verður á sunnanverðu landinu. Veðurstofan spáir vaxandi austanátt með snjókomu á Vestfjörðum í dag. 18-25 m/s seint í dag og slydda og hlýnar. Lægir nokkuð í kvöld. Suðvestan 10-18 og él í nótt, en dregur smám saman úr vindi á morgun og frystir.

smari@bb.is

Auglýsing

Mikill meirihluti á móti áfengisfrumvarpinu

74,3 prósent Íslendinga eru mótfallnir því að sterkt áfengi verði selt í matvörubúðum og 56,9 prósent eru mótfallin sölu á á léttu áfengi og bjór í slíkum búðum. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR.

Aðeins 15,4 prósent svarenda sögðust fylgjandi því að sterkt áfengi væri selt í matvörubúðum en 32,7 prósent sögðust hlynnt sölu á léttu áfengi og bjór í búðum.

Konur eru almennt líklegri en karlar til að vera á móti sölu sterks áfengis í matvöruverslunum. 70 pró-sent kvenna sögðust vera mjög andvígar því, en 58 prósent karla. 14 prósent karla voru mjög hlynntir sölu á sterku áfengi í búðum en aðeins fimm prósent kvenna.

Stuðningsmenn VG eru hvað líklegastir til að vera á móti sölu sterks áfengis í búðum, 89 prósent þeirra eru andvíg. Minnst andstaða var hjá stuðningsmönnum Pírata, 55 prósent, Sjálfstæðisflokks, 65 prósent, og Bjartrar framtíðar, 65 prósent.

Stuðningsmenn Viðreisnar eru hlynntastir sölu á léttu áfengi og bjór í matvöruverslunum, eða 58 pró-sent. Af stuðningsmönnum Bjartrar framtíðar voru 49 prósent hlynnt sölu bjórs og léttvíns í búðum og 48 prósent Pírata. 40 prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins vilja að bjór og léttvín sé selt í búðum.

Einungist 19 prósent stuðningsmanna VG voru hlynnt sölu á bjór og léttu áfengi í matvörubúðum.

smari@bb.is

Auglýsing

Bankar halda fasteignaverði niðri

Húsnæðisskortur er víða landsbyggðinni og þrátt fyrir það hefur fasteignaverð ekki hækkað í samræmi við eftirspurnina. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag. Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri og fyrrv. stjórnarformaður Byggðastofnunar, tekur Bíldudal sem dæmi, en þar hefur um nokkurt skeið verið uppgangur í atvinnulífinu. „Bankarnir, sérstaklega Íbúðalánasjóður, hafa verið rosalega tregir. Ef þú kemur með kaupsamning sem er með hærra verði en hugmynd bankans um hvað hús á þessu svæði kostar, þá neita þeir að viðurkenna hann. Vítahringurinn sem þú situr svo fastur í er að á meðan fasteignaverðið er lægra en byggingakostnaðurinn þá byggir enginn.“

Friðbjörg Matthíasdóttir, starfandi sveitarstjóri í Vesturbyggð, nefnir dæmi um fasteignakaup á Bíldudal. „Jafnvel þó komið væri á samkomulag á milli seljanda og kaupanda upp á 20 milljónir þá sagði bankinn að honum þætti húsið ekki meira virði en 15 milljónir og lánaði þá bara fyrir því.“ Undanfarið hafa ýmis störf verið auglýst í Vesturbyggð en húsnæðisskortur er viðvarandi. „Það er dálítið erfitt að horfa upp á að það vantar húsnæði fyrir íbúa en á meðan sjáum við góð fjölskylduhús notuð sem sumarhús í eina til tvær vikur á ári.“

smari@bb.is

Auglýsing

Vonskuveður á landinu

Í dag verður vonskuveður á landinu og er óveðrið heldur fyrr á ferðinni en gert var ráð fyrir. Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar eru í viðbragðsstöðu vegna veðursins og þegar byrjaðir að sinna útköllum og hefur öllu innanlandsflugi hjá Flugfélagi Íslands verið aflýst í dag. Veðurhamurinn verður einna minnstur á Vestfjörðum, þó talsvert blási með ofankomu að auki, en Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir vaxandi austanátt með snjókomu, 18-25 m/s seint í dag, þá hlýnar og ofankoma breytist í slyddu. Það lægir nokkuð í kvöld og má búast við suðvestan 10-18 m/s og éljum í nótt, en dregur smám saman úr vindi á morgun og frystir. 

Vegagerðin hefur vaðið fyrir neðan sig og hefur gefið út tilkynningu um lokanir á vegum í dag. Á Kjalarnesi skefur og þar verða hviður 35-40 m/s frá hádegi. Hvessir fljótlega austur undir Eyjafjöllum og í Mýrdal og fljótlega hviður þar allt að 40-50 m/s í A-áttinni. Útlit er fyrir að versni á Reykjanesbraut upp úr kl. 12 og þar vindur um 25 m/s þvert á, með hviðum allt að 35-40 m/s samfara krapa og vatnsaga. Á Holtavöruheiði og Bröttubrekku gerir síðan hríðarveður um miðjan dag. Á Austfjörðum mun smámsaman gera stórhríðarveður og hvessir með skafrenning austan- og norðaustanlands einnig. Hríðarveður eins á fjallvegum Vestfjarðar þegar kemur fram á daginn. SV-lands má reikna með að það lægi í kjölfar skilanna á milli kl. 16 og 17.

Lokanir í dag verða sem hér segir:

09:00 – 18:00 Eyjafjöll og Hellisheiði

11:00 – 18:00 Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði

12:00 – 17:00 Reykjanesbraut

12:00 – 18:00 Kjalarnes og Hafnarfjall

15:00 – 21:00 Holtavörðuheiði og Brattabrekka

16:00 og fram á kvöld Mývatns- og Möðrudalsöræfi, Fjarðarheiði, Fagridalur og Oddsskarð.

annska@bb.is

Auglýsing

Framtíð unga fólksins á Vestfjörðum

Í nýlegri  grein Magnúsar Reynis Guðmundssonar í BB fjallar hann um hagsmuni í fiskeldi og bendir réttilega á að huga þurfi að stjórnsýslunni og hagsmunum. Ég tek undir með Magnúsi og við höfum bent á að verði fiskeldisáform að veruleika á Vestfjörðum muni meiri hagsmunum fórnað fyrir minni. 

Engin heildarstefnumótun liggur fyrir frá ríkisstjórn eða sveitarfélögum um fiskeldi yfirhöfuð né um stærðarmörk atvinnugreinarinnar. Engin virðing er borin fyrir 8. gr. laga um náttúruvernd  sem nær til vatnasvæða og hollustuverndar hafsins.  Í dag er brotið á eða farið á svig við fjölda laga, reglugerða og opinberra siðvenja auk skerðingar fiskveiða og siglingaleiða til þess eins að því er virðist að skapa óskilgreind verðmæti.

Sveitarfélögin sitja uppi með allan kostnað við undirbúning, rannsóknir, mengunarvarnir, eftirlit, hafnar- og vegaframkvæmdir.

Þannig græða fáeinar fjölskyldur og milliliðir á tá og fingri, ekki síst vegna sofandaháttar íslenskra yfirvalda sem stunda þá iðju að veita aflandsfyrirtækjum eldisleyfi gegn óverulegu gjaldi.  Í  Noregi kostar 1.000 tonna leyfi  1,3 milljarða króna en nánast ekkert á Íslandi.

 Sveitarstjórnir á Vestfjörðum virðast ekki hafa  áttað sig á aðalatriðum þessa máls.

 Lax- og silungveiði á Íslandi er atvinnugrein sem byggist á sjálfbærni í hreinni og óspilltri náttúru. Greinin veltir árlega 15 – 20 milljörðum  króna og skapar um 1200 störf. Í kringum greinina hefur skapast mikil fagþekking, menning, hefðir og náttúrunytjar sem standa undir mjög verðmætri alþjóðlegri ímynd sem byggist á trúverðugleika.  Allar vörur frá landinu og ferðaþjónustan geta notið góðs af slíkri ímynd í sinni markaðssetningu.  Við teljum því að gangi fyrirhuguð fiskeldisáform eftir sitji Vestfirðingar eftir með sárt ennið og eigendur veiðihlunninda á öllu Íslandi muni stórskaðast, eins og dæmin sanna af slysafréttum undanfarinna daga.

Magnús víkur að kaupum breskra auðkýfinga á íslenskum bújörðum. Sjálfur hef ég aldrei selt neina jörð en reynt að kaupa jarðir og oftar en ekki orðið af kaupunum vegna bullandi samkeppni að því ég tel vegna gjaldeyrisútboðs Seðlabanka. Jarðakaup erlendra aðila á NA-landi eru mér gjörsamlega óviðkomandi.  Í einu tilfelli hef ég aðstoðað erlendan fjárfesti við að koma upp ferðamannaðstöðu í Fljótum í Skagafirði einkum vegna áforma hans um að bjóða græna og vistvæna ferðaþjónustu í takt við alþjóðlega hágæðaímynd.

Á Vestfjörðum eru fimmtán hundruð börn og unglingar á skólaskyldualdri.  Stóru tækifæri þeirra liggja í ferðaþjónustu og skapandi greinum sem byggja á óspilltri nátttúrunni.  Öflugir fjárfestar vilja vera með í slíkri uppbyggingu og framtíð komandi kynslóða á Vestfjörðum.

Orri Vigfússon

 

Auglýsing

Nýjustu fréttir