Síða 2336

Þungfært í Árneshrepp

Fram eftir degi verður norðan 5-13 m/s á Vestfjörðum, en hægari vindur seint í dag. Það verða stöku él og hiti um eða undir frostmarki er segir í spá Veðurstofunnar. Á morgun má búast við suðaustan 5-10 m/s og dálítilli snjókomu síðdegis. Á fimmtudag verður austlæg átt á landinu 5-13 m/s, frost og víða snjókoma eða él.

Í morgunsárið er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum leiðum á Vestfjörðum. Þæfingsfærð og skafrenningur eru á Klettsháls og þungfært er úr Bjarnarfirði á Ströndum norður í Árneshrepp.

annska@bb.is

Síðan skein sól kemur saman á ný

Ísfirðingurinn og poppstjarnan Helgi Björns ásamt félögum sínum í hljómsveitinni Síðan skein sól hafa blásið til 30 ára afmælistónleika í Háskólabíói þann 25.mars. Miðar á tónleikana fóru í sölu í síðustu viku og varð fljótt ljóst að uppselt yrði, er æstir aðdáendur sveitarinnar tóku yfir miðasölukerfi Tix um tíma, þá var smellt í aukatónleika sama kvöld til að sem flestir gætu komið og til að sjá og heyra hina goðsagnakenndu sveit sem tryllti lýðinn á níunda og tíunda áratug síðustu aldar.

Á tónleikunum stíga allir upprunalegu meðlimir hljómsveitarinnar saman á svið í fyrsta sinn í langan tíma, auk flestra annarra sem komið hafa við sögu sveitarinnar á þessum 30 árum, eins og: Ingólfur Sigurðsson, Hafþór Guðmundsson, Jakob Smári Magnússon, Eyjólfur Jóhannsson, Hrafn Thoroddsen, Stefán Már Magnússon, Atli Örvarsson og auðvitað sjálfur Helgi Björnsson. Auk þessa frábæra gengis munu góðir gestir líta við.

Það var í Hlaðvarpanum í Kvosinni í þykkri snjókomu, þann 25. mars 1987 að hljómsveitin Síðan Skein Sól hélt sína fyrstu tónleika. Í framhaldinu upphófst stíft tónleikahald í félagsmiðstöðvum, skólum og á tónleikastöðum borgarinnar. Síðan fóru þeir í hringferð um landið í svokallaðan kassatúr 1989, þar sem þeir léku að mestu órafmagnað. Þá tóku við ár með mikilli spilamennsku bæði á böllum og tónleikum og útgáfu mikils fjölda af lögum sem þjóðin hefur tekið ástfóstri við, eins og lögin: Blautar varir, Geta pabbar ekki grátið, Ég verð að fá að skjóta þig, Halló ég elska þig, Ég stend á skýi og Vertu þú sjálfur, svo einhver dæmi séu tekin. Ófá danssporin voru stigin undir þessum lögum á vestfirskum dansgólfum er sveitin spilaði reglulega á heimaslóðum framvarðarins Helga og nokkuð víst að einhverjir geri sér ferð suður yfir heiðar til að rifa upp gamlar minningar undir tali og tónum Síðan skein sólar.
annska@bb.is

Meistaraprófsvörn um vistvæn veiðafæri

ann Rouxel ver ritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun í dag.

Í dag mun Yann Rouxel verja meistaraprófsritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Ritgerð Yann ber titilinn Best Practices for Fishing Sustainability: Fishing Gear Assessment in the Newfoundland Inshore Northern Cod Fishery.
Leiðbeinandi verkefnisins er William Alan Montevecchi, rannsóknarprófessor við Memorial University á Nýfundnalandi. Pródómari er dr. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum.

Eins og titilinn gefur til kynna fjallar ritgerð Yann um mat á veiðafærum til að tryggja sjálfbæra nýtingu fiskistofna við Nýfundnaland. Stærsta fiskistofnahrun sögunnar átti sér stað við Nýfundnaland og nú hafa veiðar verið leyfðar á ný í takmörkuðu mæli. Nýfundnaland stendur því frammi fyrir verulegum áskorunum þegar kemur að vistfræðilegri og efnahagslegri sjálfbærni. Í ritgerðinni er lagt mat á þrjár veiðiaðferðir þorsks við Nýfundnaland, netaveiðar, handfæraveiðar og körfuveiðar. Veikleikar og styrkleikar hverrar veiðiaðferðar fyrir sig eru kannaðar til að komast að raun um hver þessara aðferða gæti verið besta fyrirmyndin við stjórnun veiðanna í framtíðinni.

Erindi Yann hefst kl. 14 í stofu 1 í Háskólasetrinu og er opið öllum áhugasömum.

Áfengis sjaldnar neytt á Íslandi

Niðurstöður evrópskrar heilsufarsrannsóknar sýna að áfengis er sjaldnar neytt á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Óhófleg drykkja er hins vegar nokkuð tíðari hér en annars staðar. Ísland er með sjöunda lægsta hlutfallið sem drekkur að minnsta kosti einu sinni í viku eða oftar, eða rétt rúmlega 20%. Hlutfallið er hæst í Bretlandi, 52,5%. Af Norðurlöndunum er Danmörk með hæsta hlutfallið, rúmlega 51%, sem er þriðja hæsta hlutfallið af þeim löndum sem tóku þátt í rannsókninni. Ef eingöngu er horft til þeirra sem drekka áfengi daglega er hlutfallið á Íslandi 0,6%, sem þýðir að Ísland er ásamt Litháen með næstlægsta hlutfallið. Hlutfallið mælist hæst í Portúgal, rúmlega 24%.

Á Íslandi er hlutfall fólks sem drekkur einu sinni í mánuði eða oftar (en þó ekki vikulega) það annað hæsta, eða rúmlega 39%. Hæst er það í Noregi, rúmlega 49%. Þá er hlutfall fólks á Íslandi sem drekkur sjaldnar en einu sinni í mánuði nokkuð hátt, tæplega 22%, sem er sjöunda hæsta hlutfallið í rannsókninni.

Hlutfall óhóflegrar drykkju var það fjórða lægsta á Íslandi, rúmlega 42%, en óhófleg drykkja er skilgreind sem neysla 60 gramma af hreinum vínanda í einni setu sem jafngildir 3 stórum bjórum eða 5 vínglösum. Með tíðni er átt við hversu oft á síðustu 12 mánuðum neysla áfengis samsvarar óhóflegri drykkju. Ísland er með annað hæsta hlutfallið sem neytir þetta mikils magns af áfengi sjaldnar en einu sinni í mánuði (tæplega 32%) og fjórða hæsta hlutfallið sem drekkur slíkt magn nokkrum sinnum í mánuði (en þó ekki í hverri viku), eða tæp 24%. Aftur á móti er Ísland með áttunda lægsta hlutfallið sem drekkur slíkt magn í hverri viku, rétt rúm 2% sem er vel undir meðaltali Evrópusambandsins sem er rúm 5%.

Evrópska heilsufarsrannsóknin er samræmd evrópsk rannsókn á heilsufari og heilsutengdri hegðun sem er framkvæmd af hagstofum á Evrópska efnahagssvæðinu. Íslenski hluti rannsóknarinnar var framkvæmdur haustið 2015. Í úrtaki voru 5.700 einstaklingar valdir af handahófi úr þjóðskrá. Af þeim svaraði 4.001 einstaklingur sem þýðir að svarhlutfallið var 70,2%.

Um þetta var fjallað á vef Hagstofu Íslands þar sem nálgast má frekari upplýsingar um rannsóknina.

annska@bb.is

Alþýðan vill og fær sitt rokk

Risaeðlan í hörkufílíng á síðustu hátíð.

Aldrei fór ég suður – rokkhátíð alþýðunnar er handan við hornið, en að vanda verður hún haldin um páskana á Ísafirði. Líkt og í fyrra verður hátíðin haldin í skemmu rækjuverksmiðjunnar Kampa við Ásgeirsgötu. „Það var hreinlega dýrðlegt að vera í Kampaskemmunni í fyrra. Húsnæðið sem Kampi lætur okkur í té hentar vel að öllu leyti. Mjög vel staðsett á eyrinni, hæfilega rúmgott og sándar rosalega vel. Við höfum verið að skoða nýjar útfærslur á húsinu því lengi getur gott batnað og það verður spennandi að sjá hvað kemur úr því,” segir Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri Aldrei fór ég suður í tilkynningu frá hátíðinni.

„Við erum ákaflega glöð að fá færi til að endurtaka leikinn í ár. Þessi velvild Kampamanna, Jóni Guðbjartssyni og öllu hans fólki er ákaflega gleðileg og um leið undirstrikar hún að AFÉS er ekki bara rokktónleikar og djamm, heldur líka metnaðarfullt samfélagsverkefni sem virkjar Ísfirðinga og nærsveitunga til ítrekaðra stórvirkja af ýmsu tagi,” segir Kristján.

Stóra spurningin hvert ár þegar líður fram á þennan tíma er: hverjir spila svo í ár? Kristján vill lítið láta upp að svo stöddu. „Eins og er get ég bara staðfest að hátíðin mun svo sannarlega eiga sér stað í ár og gott betur, í skemmu Kampafólks á Ísafirði, alveg lengst niður á höfn. Jú og að prógrammið sem við höfum verið að smíða er alveg til fyrirmyndar og það styttist í að við getum hent prógramminu í loftið,” segir Kristján og bætir við að dagskráin sé fullbókuð í ár og komust færri að en vildu.

VG stærst

Katrín Jakobsdóttir formaður VG. Mynd: mbl.is / Árni Sæberg.

Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn njóta mest fylgis meðal landsmanna samkvæmt nýrri skoðanakönnun MRR. Munurinn á flokkunum er þó innan skekkjumarka. Vinstri-græn mælast með 27 prósenta fylgi, jafn mikið og í síðustu könnun í byrjun mánaðarins. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 24,4 prósenta fylgi, litlu meira en í síðustu könnun. Munurinn á fylgi VG og Sjálfstæðisflokks er innan skekkjumarka. Samfylkingin mælist með fylgi í tveggja stafa tölu í fyrsta skipti í rúmlega hálft ár, eða með 10,0% en mældist síðast með 7,8%. Stuðningur við ríkisstjórnina hækkaði milli kannana og kváðust 34,9% styðja ríkisstjórnina. Það er 2,3 prósentustiga hækkun frá síðustu könnun.

 

Fylgi við Pírata lækkar úr 13,6 prósentum í 11,9 prósent milli kannana. Fylgi Framsóknarflokksins fer úr 9,7 prósentum í 10,7 prósent. Breytingar á fylgi þessara flokka er innan skekkjumarka. Viðreisn mælist með 6,2 prósenta fylgi og Björt framtíð 5,4 prósent.

Útilokað að um sama fisk sé að ræða

Frá kvíum Arctic Sea Farm í Dýrafirði.

Matvælastofnun fór í eftirlit hjá Arctic Sea Farm á laugardag í kjölfar tilkynningar fyrirtækisins um gat á sjókví með regnbogasilungi í Dýrafirði. Búið er að loka gatinu en ekki er að svo stöddu vitað hve margir fiskar hafa sloppið. Ljóst er að sá regnbogasilungur sem slapp í umhverfið síðastliðið sumar kom ekki úr þessari sjókví og eru þær slysasleppingar áfram til rannsóknar hjá stofnuninni. Í tilkynningu Arctic Sea Farm til fjölmiðla kom fram að töluverður fjöldi fiska gæti hafa sloppið og að þarna hefði mögulega fundist skýring á veiðum á regnbogasilungi á Vestfjörðum síðastliðið sumar. Matvælastofnun útilokar að málin tengist og bendir í því ljósi á að flestir þeir fiskar sem veiddust af eftirlitsmanni Fiskistofu á Vestfjörðum síðasta sumar voru um hálft kíló að þyngd. Á sama tíma og þær veiðar stóðu yfir var fiskurinn í þeirri kví sem nú um ræðir um tvö kíló, en meðalþyngd fiska í kvínni er nú fjögur kíló.

 

Í fréttatilkynningu Matvælastofnunar kemur fram að enn er óljóst hvenær og hvernig gatið myndaðist, en líklegasta skýringin er sú að botnhringur og net hafi nuddast saman með þeim afleiðingum að núningsgat myndaðist á efri hluta þrengingar við botn kvíarinnar. Netið hefur verið lagfært og verður gatið stærðarmælt þegar kvíin verður tekin á land en áætluð stærð gatsins er um 80cm x 50cm. Fyrtækið hefur látið kafara yfirfara aðrar kvíar og búnaðinum verður öllum skipt út á þessu ári.

Góðir sigrar í blakinu

Karlalið Vestra í blaki fékk Aftureldingu B í heimsókn um helgina og voru spilaðir tveir leikir. Fyrri leikurinn fór fram á föstudagskvöldið strax á eftir körfuknattleiksleik sem var fyrr um kvöldið. Það var því sannkölluð Vestraveisla í íþróttahúsinu á Torfnesi. Seinni leikurinn var spilaður á laugardagsmorgni.

Vestri vann sannfærandi sigur í báðum leikjum 3-0. Afturelding átti þó góða spretti og sumar hrinurnar voru nokkuð jafnar og spennandi.  Vestri heldur þar með sæti sínu á toppi deildarinnar, en framundan er spennandi toppbarátta í deildinni.

Næstu leikir karla- og kvennaliða Vestra eru um næstu helgi, en þá verður stór blakhelgi í Torfnesi. Á laugardeginum tekur kvennaliðið á móti Aftureldingu B og karlaliðið á móti HK B. Á sunnudeginum spila bæði lið við HK B.

Góa gengin í garð

Góumánuður hófst í gær á konudaginn, en góa kallast fimmti og næstsíðasti mánuður vetrar að forníslensku tímatali. Hún tekur við af þorranum og hefst á sunnudegi á bilinu 18.-24. febrúar og stendur þar til einmánuður tekur við. Þorrinn og góan þóttu erfiðastir vetrarmánaðanna, bæði vegna þess að þá reis veldi vetur konungs hve hæst í vályndum veðrum og frosthörkum og ekki síður vegna þess að þá var oft farið að ganga á matarbirgðir á bæjum. Konudagur markar upphaf góu og eru fyrstu skjalfestu heimildir um þann ágæta dag frá miðri 19. öld, en gæti þó heitið verið talsvert eldra í talmáli. Á konudaginn fá konur gjarnan blóm frá mökum sínum, en sá siður hefur tíðkast allt frá því er blómasalar tóku að auglýsa konudagsblóm um miðjan sjötta áratug síðustu aldar.

Óvíst er hvað orðið merkir upphaflega en orðsifjafræðingar hallast helst að því að það eigi eitthvað skylt við snjó, sem fellur vel að stöðu hennar í ævintýralegri fornaldarsögu, þar sem faðir Góu er Þorri, afi hennar heitir Snær og langafinn Frosti en föðursystur Mjöll og Drífa. Þar er nafn hennar reyndar Gói. Eftir þeirri sögu strauk Gói brott með strák á Þorrablóti einu. Þorri lét halda blót til að leita um það frétta hvar hún væri niður komin. Það kölluðu þeir Góiblót. Seinna breyttist nafnmyndin úr Gói í Góa og er hún gjarnan persónugerð sem vetrarvættur í gömlum sögnum.

Í almennri þjóðtrú skipti góuveðrið máli. Átti sumarið að verða gott ef góa væri stormasöm og veður vont fyrstu góudaga og reynist það rétt megum við kannski búa okkur undir leiðinda tíð í sumar, þar sem veður við upphaf góu í ár er sérlega gott. Ýmsar veðráttuspár geymast í gömlum íslenskum vísum og eru margir sem enn styðjast við gamlar vísur í alþýðuveðurspám. Ein vísan um góu er svohljóðandi:

Ef hún Góa öll er góð,

öldin má það muna,

þá mun Harpa hennar jóð

herða veðráttuna.

Sighvatur Árnason fyrrverandi alþingismaður, gerði athuganir á því hvernig ýmsir veðráttuspádómar hefðu reynst á árunum 1840-1900 og skrifaði um það í Skírni 1907. Þar segir hann um þennan veðráttuspádóm: Þau árin, 6 að tölu, á þessu árabili, sem Góan var einmuna góð, stundum greri jörð, þá rættist þetta þannig, að tíðarfarið breyttist alltaf til hins verra á næstu mánuðum (Einmánuði og Hörpu) en þó einkum 3 árin í alvarleg harðindi.

Heimildir eru fengnar af Vísindavefnum og Wikipediu.

Mörg ágreiningsefni óútkljáð

Finnbogi (t.h.) við talningu atkvæða í Karphúsinu í gær. Mynd: mbl.is/ Eggert

Þrátt fyrir að sjómenn hafi samþykkt kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og 10 vikna verkfalli sé lokið eru mörg deiluefni óútkljáð. „Samningurinn er til desember 2019 og er rammaður inn með ítarlegum bókunum um hvernig við munum vinna úr okkar ágreiningsefnum,“ segir Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

 

Sem dæmi nefnir hann mönnunarmál flotans, bátaflokkanir og ráðningarsamninga. „Það var ekki endanleg lending í olíviðmiðinu í samningunum og olían er enn óútkljáð mál sem verður unnið í á samningstímanum. Þessi vinna hefst strax og verður undir verkstjórn sáttasemjara,“ segir Finnbogi.

 

Finnbogi gagnrýnir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútgsráðherra fyrir hennar aðkomu að deilunni. „Það sem hún bauð var að hluti sjómanna fengu skattaívilnanir af fæðispeningum en þeir sem róa skemur en 48 tíma áttu ekki að fá neitt. Þetta var skammarlegt tilboð og hleypti illu blóði í menn. Hennar framganga var henni til minnkunar ekki síst þegar maður heyrir hana í fjölmiðlum óska viðsemjendum til hamingju með samninginn þegar okkur var öllum ljóst að hún ætlaði að setja lög á okkur.“

 

Afar skammur tími var til kynningar og atkvæðagreiðslu um samninginn. „Í þessu ljósi verður að taka tillit til að við vorum með ítarlegan kynningarfund um stöðuna þann 20. janúar og svo hefur farið fram mikil umræða á samfélagsmiðlum eftir því sam samningaviðræðum hefur undið fram þannig að öllum var ljóst um hvað þessi samningur snýst.“

 

Hann gagnrýnir útgerðarmenn fyrir að boða menn til skips áður en atkvæðagreiðslu lauk. „Menn voru hundóánægðir með þetta. Það sýnir virðingarleysi útgerðarmanna í garð sjómanna að boða þá til skips strax í gærkvöldi, áður en niðurstöður voru ljósar. Menn fóru ekki í þennan hasar á togurunum hér á Ísafirði og þeir eru að fara á sjó í dag,“ segir Finnbogi.

Nýjustu fréttir