Mánudagur 21. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2336

Á annað hundrað manns á körfuboltamót

Hátt í 50 keppendur körfuknattleiksdeildar Vestra og fjölmennt fylgdarlið er nú óðum að leggja í hann á stærsta körfuboltamót landsins, Nettómótið í Reykjanesbæ, sem fram fer um helgina. „Það hafa aldrei farið fleiri frá okkur og auk keppenda er fjöldi foreldra með í för, samtals eitthvað á annað hundrað manns,“ segir Birna Lárusdóttir, formaður barna- og unglinaráðs körfuknattleiksdeildar Vestra. Birna hefur verið í eldlínu körfuboltans á Ísafirði um árabil og segir þá breytingu hafa orðið á mótum yngstu keppenda að foreldra vilja fylgja sínum börnum. „Það er lítið um að við sendum rútur með keppendur, foreldrar keyra bara með sínum börnum.“ Körfuboltinn á Ísafirði er í sókn að sögn Birnu og hún merkir strax jákvæð áhrif af sameinuðu íþróttafélagi, en Vestri varð til á síðasta ári þegar KFÍ, BÍ/Bolungarvík, Blakfélagið Skellur og Sunddeild Vestra sameinuðust. „Á síðasta ári réðum við þjálfara í fullt starf og það er að skila sér,“ segir Birna og þá er ekki úr vegi að minnast á að 9. flokkur drengja varð í síðasta mánuði bikarmeistari í sínum flokki.

Nettómótið er samstarfsverkefni Keflvíkinga og Njarðvíkinga og er nú haldið í 27. sinn. Þetta er langstærsta mót sinnar tegundar á landinu ætlað börnum í 1.-5. bekk. Keppendur verða hátt í 1.400 en alls hafa 23 félög boðað þátttöku sína á mótið með 238 keppnislið. Búið er að setja upp 548 leiki á 15 leikvöllum í 6 íþróttahúsum.

Tilhlökkunin er að vonum mikil í herbúðum Vestra en Nettómótið er gjarnan fyrsta alvöru mót margra körfuboltakappa. En

Engin stig eru talin og allir fara heim með verðlaun að móti loknu. Gestgjafarnir standa einstaklega vel að öllu mótshaldi og tryggja að ekki er dauð stund alla helgina hjá þessum vösku íþróttakrökkum. Löng hefð er fyrir þátttöku vestfirskra körfuboltakrakka á Nettó en þetta er þó í fyrsta sinn sem keppt er undir merkjum hins nýja íþróttafélags, Vestra.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Gufudalssveitin í forgangi

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Vegagerð í Gufudalssveit er í forgangi að sögn Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra. Í gær var greint frá að búið að er að skera niður samgönguáætlun og 1.200 milljónir kr. sem voru áætlaðar í Vestfjarðaveg 60 í Gufudalssveit eru gufaðar upp. Mikið misræmi var milli fjárlaga ársins 2017 og samgönguáætlunar, eða tæpir 10 milljarðarða og til að mæta því hefur samgönguráðuneytið skorið niður samgönguáætlun. Unnið er að umhverfismati á mismundandi veglínum í Gufudalssveit, en veglínan um Teigsskóg hefur verið val Vegagerðarinnar en sætt mikilli andstöðu vegna umhverfisáhrifa. Vegagerðin hefur skilað matsskýrslu til Skipulagsstofnunar og er álits stofnunarinnar að vænta í lok þessa mánaðar.

„Um leið og leið og þetta klárast, valið á vegstæðinu og undirbúningur að því þá verður hægt að hefja þar framkvæmdir. Það verður eitt af þeim málum sem verða klárlega í forgangi hjá okkur,“ sagði Jón Gunnarsson í hádegisfréttum RÚV í dag.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Algjör trúnaðarbrestur

Pétur G. Markan

Ákvörðun Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra að hætta við framkvæmdir í Gufudalssveit er óskiljanleg og óbilgjörn að sögn Péturs G. Markan, formanns Fjórðungssambands Vestfirðinga. Vegagerð í Gufudalssveit er gamalt þrætumál en Pétur bendir á að til þessa hefur vandamál framkvæmdarinnar verið skipulagsvandamál. „Og stjórnmálamenn hafa verið ódeigir við að berja á þeim sem með þau sýsla fyrir seinagang,“ segir Pétur.

Vegagerðin hefur skilað til Skipulagsstofnunar matsskýrslu vegna umhverfismats í Gufudalssveit og er endanlegs álits Skipulagstofnunar að vænta innan nokkurra vikna.

„Núna þegar hillir undir lok umhverfismatsins sem hefur verið samstíga barátta almennings og stjórnmálamanna er það algjör trúnaðarbrestur að kippa fjármagninu til baka á svo óbilgjarnarnan hátt,“ segir Pétur.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Missti troðarann í krapapoll

Mannleg mistök urðu til þess að nýkeyptur troðari skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar hafnaði í krapapolli á Seljalandsdal. Jarðýtu og beltavél þurfti til að losa hann. Óhappið gerðist á Seljalandsdal um kvöldmatarleytið á miðvikudagskvöld. „Aftari hlutinn á troðaranum fór á kaf. Við vorum alla nóttina og fram undir hádegi í gær að losa hann og þá tók við að draga hann niður eftir. Troðarinn var kominn í hús um miðnætti í gær,“ segir Hlynur Kristinsson, forstöðumaður skíðasvæðisins.

Ekki er búið að meta skemmdir á troðaranum. „Viðkvæmur vél- og rafmagnsbúnaður lá í vatni og við ræsum ekki troðarann fyrr en við erum búnir að fara yfir allt þannig að við vitum ekki enn um tjón,“ segir Hlynur.

Annað sem er í vinnslu að sögn Hlyns er hvort tryggingar dekki óhappið.

Troðarinn var keyptur í haust og kostaði 37 milljónir kr.

Auglýsing
Auglýsing

„Kaldar kveðjur til okkar“

Friðbjörg Matthíasdóttir.

Það ríkir reiði í Vesturbyggð með þá ákvörðun samgönguráðherra að skera niður allt fjármagns sem átti að fara í vegagerð í Gufudalssveit í ár, alls 1.200 milljónir kr. Greint var frá ákvörðun Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. „Þetta eru kaldar kveður til okkar, rétt fyrir niðurstöðu Skipulagsstofnunar um umhverfismat í Teigsskógi. Mín fyrstu viðbrögð var að brjálast en svo þegar maður róast þá sér maður að þetta hljóta að vera einhver mistök, það vinnur engin svona,“ segir Friðbjörg Matthíasdóttir, starfandi bæjarstjóri í Vesturbyggð. „Fólk er gríðarlega reitt og ég er viss um að margir sváfu ekki í nótt, þetta er mikið högg,“ segir Friðbjörg.

Samgöngumannvirki hringinn í kringum landið fara undir niðurskurðarhnífinn en Friðbjörg segir að sérstaða framkvæmdanna í Gufudalssveit sé mikil. „Þetta mál er búið að velkjast í kerfinu í áratug eða meira og á þeim tíma hefur umferð um þennan handónýta veg snaraukist, sérstaklega þungatraffík með auknum umsvifum fiskeldis.“

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Landsbankinn selur eignahluti

Búðin er í Álftaveri, þjónustumiðstöð Súðavíkur.
Fjármagnstekjur í Súðavík eru nálægt landsmeðaltalinu.

Lands­bank­inn aug­lýsti í gær til sölu eign­ar­hluti í tólf óskráðum félög­um. Hlut­irnir eru aug­lýstir í sam­ræmi við stefnu Lands­bank­ans um sölu eigna, sem var sam­þykkt fyrir ári síð­an. Hlut­irnir eru meðal ann­ars aug­lýstir í Frétta­blað­inu í dag, en þeir eru ýmist í eigu bank­ans eða Hamla fyr­ir­tækja ehf., dótt­ur­fé­lags bank­ans.

Meðal eignarhluta sem eru auglýstir eru 14% hlutur í fjárfestingarfélaginu Hvetjanda á Ísafirði, 21.3% hlutur í Grundarstræti ehf. sem er fasteignafélag um fasteignina Grundarstræti 1-7 í Súðavík, oft nefnt Álftaver. Einnig er auglýstur til sölu 8,5% hlutur í Vesturferðum.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Mesti niðurskurðurinn á Vestfjörðum

Dynjandisheiði.

Jón Gunnarsson samgönguráðherra hefur slegið af vegagerð í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði. Samkvæmt samgönguáætlun var ráðgert á þessu ári að setja 1.200 milljónir kr. í vegagerði í Gufudalssveit og 400 milljónir kr. í Dynjandisheiði. Samgönguáætlun sem Alþingi samþykkti þann 12. október, rétt fyrir þingkosningar, var tveimur mánuðum síðar orðin marklaus, með samþykkt fjárlaga. Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngumála, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að það muni tæpum tíu milljörðum króna. Þurft hefði 14 milljarða á fjárlögum til að fjármagna samgönguáætlun en um 4,5 milljarðar hefðu komið í fjárlagafrumvarpi til nýrra framkvæmda.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, bendir á á Facebooksíðu sinni að Jón Gunnarsson sjálfur var einn þeirra þingmanna sem samþykktu samgönguáætlun fyrir kosningar og fjarlög eftir kosningar þar sem samgönguáætlun var verulega skorin niður. Meðal annars átti að slá af framkvæmdir við Dýrafjarðargöng á síðustu stundu þegar örfáar vikur voru í opnun tilboða en með miklum þrýstingi tókst að snúa ofan af þeirri ákvörðun og gröftur Dýrafjarðarganga hefst í ár.

Framkvæmdir í Gufudalssveit (Teigsskógur) hafa dregist árum saman vegna deilna um vegastæðið. Vegagerðin er nú með framkvæmdina í umhverfismati í annað sinn og er álit Skipulagsstofnunar væntanlegt á næstu vikum.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Anna Lind í ársleyfi

Anna Lind Ragnarsdóttir.

Anna Lind Ragnarsdóttir, oddviti sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps, hefur fengið ársleyfi frá oddvita- og sveitarstjórnarstörfum. Anna Lind óskaði eftir leyfinu vegna anna í starfi skólastjóra Súðavíkurskóla. Í stað Önnu Lindar kemur inn í sveitarstjórn Steinn Ingi Kjartansson. Sveitarstjórnarkosningar verða eftir rétt rúmlega eitt ár, svo líklegast verður að telja að Anna Lind komi ekki meira við sögu sveitarstjórnar á þessu kjörtímabili. Steinn Ingi er öllum hnútum kunnugur í Súðavík og var sveitarstjóri hreppsins á árum áður.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Stórmálin þrjú og fjármálin góðu

Gísli Halldór Halldórsson.

Í-listinn hefur kostað kapps um það á þessu kjörtímabili að horfast í augu við verkefnin og takast á við þau – í stað þess að halda áfram að fresta öllum hlutum, eins og gert hefur verið frá því á síðustu öld. Horft er á almannahagsmuni en ekki sérhagsmuni í öllum þeim málum sem Í-listinn hefur tekist á við. Umræður hafa átt sér stað opinberlega um þessi mál, oft með mjög áberandi hætti, og þau oft tekið breytingum á grunni skoðana bæjarbúa og minnihluta bæjarstjórnar.

Nú reynir minnihluti sjálfstæðismanna mjög ákaft að gera öll mál tortryggileg, líklega má greina þarna upphaf undirbúnings fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018. Aðferðin er kunn og hefur einn þekktasti stjórnmálamaður Íslands stært sig af beitingu hennar.

Nú er því t.d. haldið fram að stór mál séu fullunnin í meirihlutanum og leidd til lykta bak við lokaðar dyr. Þrjú mál er nefnd sérstaklega og látið eins og þau komi sem þruma úr heiðskýru lofti. Málin þrjú sem eru t.d. nefnd eru sundlaugin, skjalageymslan og reiðskemman.

Reiðskemman

Á síðasta kjörtímabili lagði þáverandi bæjarstjóri og núverandi oddviti sjálfstæðismanna talsverða vinnu í að reyna að ná samkomulagi við Hestamannafélagið Hendingu, en málefni Hestamannafélagsins Hendingar hafa verið reglulega til umræðu frá því aðstaða þeirra í Hnífsdal var eyðilögð fyrir nærri áratug. Bæjarstjóri og formaður bæjarráðs á þeim tíma tóku þátt í þessum viðræðum og voru þær ekki uppi á borðum bæjarráðs, bæjarstjórnar eða bæjarbúa nema þegar taka þurfti afstöðu til tilboða eða skeytasendinga milli lögfræðinga. Því miður náðist ekki saman í þessum málum á síðasta kjörtímabili.

Á þessu kjörtímabili hefur mál Hendingar reglulega komið á dagskrá bæjarráðs og bæjarstjórnar – öllum mátti vera ljóst að áfram var unnið í lausn þess. Engu að síður hefur það komið oddvita sjálfstæðismanna ítrekað á óvart á síðustu mánuðum að loks skuli liggja fyrir drög að samkomulagi við Hestamannafélagið. Kannski það séu honum vonbrigði að Í-listinn sé að leiða málið til lykta?

Ekki var hægt að setja fjárhæðir í fjárhagsáætlun ársins 2017 vegna samkomulags við Hendingu, þar sem samningur lá ekki fyrir og viðræður stóðu enn yfir, til þess voru forsendur of óljósar og viðræður á of viðkvæmu stigi. Hinsvegar voru áætlaðir umtalsverðir fjármunir á ófyrirséðar fjárfestingar 2017 og samningurinn við Hendingu þannig úr garði gerður að hægt verður að gera ráð fyrir stórum hluta kostnaðarins í síðari fjárhagsáætlunum. Fjármögnun samningsins verður því ekki vandamál.

Málið hefur sumsé verið í umræðunni á liðnum kjörtímabilum og allir áttu að vita það. Málið hefur verið í umræðu á þessu kjörtímabili og allir áttu að vita það. Málið er enn í umræðunni, og þar með samkomulagið við Hendingu, og allir eiga að vita það. Það sem raunverulega hlýtur að hafa komið fólki í opna skjöldu er að Í-listinn virðist á góðri leið með að ljúka málinu í sátt – þar sem báðir aðilar þurfa þó að gefa nokkuð eftir.

Norðurtanginn

Á síðasta kjörtímabili gerðu forsvarsmenn safna Ísafjarðarbæjar þáverandi bæjarstjóra og núverandi oddvita sjálfstæðismanna ljósa grein fyrir geymsluvanda safnanna og bentu á Norðurtangann sem lausn. Á þeim tíma hefði Ísafjarðarbær getað keypt Norðurtangann sjálfur og byggt þar upp. Í því skyni að spara fé var þó frestað að horfast í augu við vandann.

Á þessu kjörtímabili bauðst bæjarstjórn aðstaða í Norðurtanganum til tíu ára á grunni þeirrar umræðu um söfnin sem ratað hafði í fjölmiðla á síðasta kjörtímabili. Forsvarsmenn safna lýstu þörf safnanna með ítarlegum hætti og skrifuðu þarfagreiningu safnanna sem svo varð grunnur að skilalýsingu vegna leigusamnings. Bæjarstjórn ákvað svo að bregðast við þörfinni – að vísu í andstöðu við minnihlutann.

Breytingar eiga sér alltaf einhverja óvildarmenn. Það er mikil breyting að nú skuli svo margt vera að gerast í Ísafjarðarbæ, þar sem framkvæmdir við Norðurtangann eru einn þáttur málsins en Hlíðarvegurinn annar þáttur. Kannski er eðlilegt að fólki bregði þegar eitthvað er farið að gerast og skyndilega er hægt að taka afstöðu til hinna ýmsu mála?

Sundlaugin

Á síðasta kjörtímabili gerði þáverandi bæjarstjóri og núverandi oddviti sjálfstæðismanna ágæta tilraun til að nálgast laugarmál á Ísafirði með því gera „skrifborðsathugun“ á því hvort hægt væri að koma fyrir heitum pottum við Austurveg eða á Torfnesi, í stað þess að ráðast strax á hið risavaxna verkefni, 25 metra sundlaug.

Laugarmál á Ísafirði hafa verið í umræðunni frá því á síðustu öld, oftast fremur umdeild og stundum hafa þau jafnvel verið heit kosningamál – aldrei hefur þó neitt markvert verið gert.

Meirihluti Í-listans hefur farið þá leið að láta kanna til þrautar mögulegar leiðir í að finna laugarmálum á Ísafirði farveg. Miklar umræður hafa átt sér stað – eldheitar – og allt fyrir opnum tjöldum. Í-listinn hefur ekki óttast að taka þá umræðu og mun heldur ekki óttast að taka niðurstöðunum, hverjar sem þær kunna að verða. Til að hægt sé að taka endanlega ákvörðun þarf þó að draga fram, með kristaltærum hætti, hvað sé í boði.

Sundhöllin á Ísafirði verður væntanlega ekki rifin – til þess telst hún of mikill dýrgripur. Sama hvort hún verður nýtt sem sundlaug eða sem bygging til annarra nota þá mun kostnaður við viðhald, endurbætur og breytingar hlaupa á hundruðum milljóna króna – við verðum að horfast í augu við það!

Síðari tíma verkefni bíður þó áfram og það er hið fokdýra verkefni að gera 25 metra æfingalaug eða 50 metra keppnislaug. Slík aðstaða er nauðsyn hér á norðanverðum Vestfjörðum og því fyrr sem hún kemur því betra – en verðmiðinn er stór og því hlýtur m.a. að verða horft til stækkunar þeirra lauga sem fyrir eru, t.d. á Flateyri eða í Bolungarvík.

Fjármálin góðu

Fjármál og rekstur Ísafjarðarbæjar eru nú í betra horfi en áður – þó einbeittur ásetningur Í-listans sé að gera enn betur. Staðreyndin er sú að meirihluti Í-listans hefur haldið skuldum bæjarins í góðu horfi þrátt fyrir mikinn dugnað í framkvæmdum og bættri þjónustu við bæjarbúa. Þannig hefur viðmið um skuldahlutfall sveitarfélagsins lækkað verulega á kjörtímabilinu og er nú nálægt 120% en ekki eru mörg ár síðan Ísafjarðarbær komst undir lágmarksviðmiðið 150%.

Vissulega er skuldaviðmiðið hlutfall af tekjum, enda er hlutfallinu ætlað að mæla getu bæjarsjóðs til að takast á við skuldir sínar til framtíðar. Tekjur bæjarins hafa aukist vegna þess að íbúafjöldi hefur haldist óbreyttur á kjörtímabilinu og laun skattgreiðenda hafa hækkað umtalsvert.

Í-listinn hefur unnið út frá þeim markmiðum að byggja hér betri framtíð – þar skortir ekki glæsta framtíðarsýn og bjartar vonir. Í-listinn hefur talið mikilvægara að ráðast í verkefni til framfara og í að bæta þjónustu fyrir langsvelta íbúa sveitarfélagsins, heldur en að greiða hratt niður skuldir. Við höfum hreinlega ekki efni á að bíða lengur eftir framtíðinni, eins og gert hefur verið undanfarna áratugi.

Framtíðin bíður ekki og við verðum að taka á móti henni opnum örmum.

Íbúalýðræði og leyndarhyggja

Í-listinn hefur tekist á við ýmis umdeild mál á kjörtímabilinu. Ætíð hafa þó fulltrúar Í-listans verið tilbúnir til að ræða málin, bæði við fulltrúa minnihlutans og við hinn almenna bæjarbúa. Stundum greinir fólk þó verulega á, þannig að ekki er hægt að ná sameiginlegri niðurstöðu. Auðvitað getur minnihluta bæjarstjórnar þótt súrt í brotið þegar hann fær ekki vilja sínum framgengt, en niðurstaða mála hlýtur á endanum alltaf að ráðast í bæjarstjórn og þá ræður meirihluti atkvæða úrslitum.

Ítrekað hafa sjálfstæðismenn í bæjarstjórn óskað eftir frestun mála til að fá að skoða þau betur, ítrekað hefur verið orðið við óskum þeirra um frestun og jafnvel stundum án þess að viðkomandi bæjarfulltrúar hafi aðhafst nokkuð frekar í viðkomandi málum þegar frestun fékkst.

Dæmi um stórmál þar sem meirihluti og minnihluti voru einhuga er skólamálið á Flateyri. Íbúar á Flateyri voru hinsvegar á annarri skoðun. Í framhaldi af opnu samtali við íbúa á Flateyri var hægt að koma málum í farveg sem íbúar og bæjarstjórn gátu sameiginlega unað við. Þetta gerðist vegna þess að meirihluti bæjarstjórnar er tilbúinn að hlusta á íbúa – og tilbúinn til að leita sátta.

Aldrei hafa bæjarfulltrúar Í-listans sýnt neina feimni við að taka opinbera umræðu um málin og þau geta tekið breytingum eftir skoðanaskipti við íbúana – og minnihluta bæjarstjórnar. Þannig er alvöru íbúalýðræði – málin uppi á borðum og til umræðu og íbúar geta haft áhrif.

Gísli Halldór Halldórsson

Bæjarstjóri

Auglýsing
Auglýsing

ASÍ og Vakinn í samstarf

Frá undirritun samningsins

Ferðamálastofa, fyrir hönd Vakans, og Alþýðusamband Íslands skrifuðu í vikunni undir samstarfssamning með það að markmiði að þátttakendur í Vakanum starfi eftir gildandi kjarasamningum. Með þessu er leitast við að styrkja það hlutverk Vakans að byggja upp samfélagslega ábyrgð innan ferðaþjónustunnar. Í samningnum er kveðið á um að þegar fyrirtæki sækir um þátttöku í Vakanum, verði aflað upplýsinga hjá ASÍ um hvort alvarlegur ágreiningur sé á milli viðkomandi fyrirtækis og stéttarfélaga sem starfsmenn þess tilheyra. Jafnframt mun ASÍ  í byrjun hvers árs fara yfir þátttakendalista Vakans þannig að tryggt sé, eins og kostur er, að þátttakendur séu ekki brotlegir við kjarasamninga og lög um réttindi starfsmanna. Séu gerðar alvarlegar athugasemdir vegna brota fyrirtækis á gildandi kjarasamningum, getur það ekki verið þátttakandi í Vakanum fyrr en úr hefur verið bætt.

Síðasta haust sendu ASÍ og Samtök atvinnulífsins yfirlýsingu um sameiginlega ábyrgð á uppbyggingu vinnumarkaðarins. Þar kemur m.a. fram að það sé sameiginlegt viðfangsefni aðila að fyrirtæki í framleiðslu og þjónustu greiði laun og starfskjör í samræmi við kjarasamninga og er þá verið að horfa til aukningu á starfskröftum sjálfboðaliða. Þá var sérstaklega rætt um mikilvægi þess að sameiginlegur skilningur ríkti um störf sjálfboðaliða og hvar þau geti átt rétt á sér, s.s. í þágu almannaheilla að góðgerðar-, menningar- eða mannúðarmálum. Áréttað er að það sé andstætt kjarasamningum og meginreglum á vinnumarkaði að sjálfboðaliðar gangi í almenn störf launafólks í efnahagslegri starfsemi fyrirtækja, eins og það er orðað. Hafa einnig Starfsgreinasamband Íslands og Bændasamtök Íslands undirritað sambærilegt samkomulag.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir