Veður á Vestfjörðum hefur verið sérlega gott það sem af er febrúarmánuði og með slíkum hætti að íbúum bregður í brún að ganga um marauðar götur dag eftir dag, og ekki sé nú talað um að hafa á stundum geta keyrt um snjólausar heiðar. Veðrið verður ekki til vandræða í dag og á morgun er Veðurstofa Íslands spáir suðaustan 5-10 m/s og éljum og hægviðri lengst af á morgun. Ekki verður allt autt þó og frost verður á bilinu 0 til 4 stig. Á föstudag má búast við vaxandi suðaustanátt og éljum á landinu, en þurru og björtu fram eftir degi norðanlands. Þá hlýnar í veðri og má búast við suðaustan stormur og talsverð rigning eða slydda um kvöldið, en snjókoma til landsins.
Á Vestfjörðum er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum leiðum. Þungfært er úr Bjarnarfirði á Ströndum norður í Árneshrepp.
Tryggingamiðstöðin hf. hefur selt 3,0% hlut í Kvitholmen, sem á 100% eignarhlut í fiskeldisfyrirtækinu Arnarlaxi hf., fyrir 35,7 milljónir norskra króna eða því sem nemur 473 milljónum króna. TM átti fyrir viðskiptin 7,4% eignarhlut í Kvitholmen og því jafngilda þessi viðskipti að eignarhlutur TM sé metinn á 89,1 milljón norskra króna eða 1.177 milljónir króna. Sé miðað við kaupverðið má áætla að Arnarlax sé metið á hátt í 16 milljarða króna. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins standa að baki kaupunum nokkrir norskir fagfjárfestar.
Arnarlax hefur verið í miklum vexti frá því fyrirtækið var stofnað á Bíldudal árið 2009 og í fyrra eignaðist fyrirtækið Fjarðalax hf. samhliða því sem norska stórfyrirtækið Salmar varð kjölfestufjárfestir í fyrirtækinu.
Í dagbók lögreglunnar á Vestfjörðum kemur fram að aðfaranótt 19. febrúar var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna nokkurra gesta á vínveitingastað á Ísafirði sem dyraverðir áttu í erfiðleikum með. Einn gestanna, áberandi ölvaður, var handtekinn eftir að hafa veist að lögreglumönnum sem komu til aðstoðar dyravörðum. Sá hinn sami var vistaður í fangaklefa og látinn sofa úr sér áfengisvímuna. Málið er til skoðunar hjá lögreglu.
Tuttugu og fimm ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Flestir voru stöðvaðir í Ísafjarðardjúpi en einnig í Strandasýslu og í Vesturbyggð. Sá sem hraðast ók var mældur á 127 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km.
Af og til hefur það gerst að ökumenn sem lögreglan stöðvar eru ekki með ökuskírteini á sér. Lögreglan bendir á að heilög skylda hvílir á ökumönnum að hafa slík skilríki á sér við akstur og framvísa við lögreglu sé þess óskað. Sekt liggur við. Ökumenn eru hvattir til að gæta vel að þessum.
Einn ökumaður var kærður í vikunni fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu á gatnamótum einum á Ísafirði.
Um miðjan dag þann 19. febrúar barst tilkynning um ammoníakslykt frá frystigeymslu einni á Ísafirði. Slökkvilið var kallað út ásamt starfsmönnum viðkomandi fyrirtækis. Greiðlega tókst að loka fyrir lekann. Ekkert tjón eða skaði varð af þessu.
Það voru prúðbúnir kirkjugestir í Hólskirkju á sunnudag. Mynd: Bjarni Benediktsson.
Á konudaginn síðasta sunnudag fór fram guðsþjónusta í Hólskirkju í Bolungarvík og í tilefni dagsins og upphafs góu voru kirkjugestir hvattir til að mæta í þjóðbúningum í messuna þar sem séra Ásta Ingibjörg Pétursdóttir sóknarprestur predikaði. Bolvískar konur brugðust vel við kallinu og mættu margar í sínu fínasta pússi; í upphlutum, peysufötum og jafnvel faldbúningi. Að guðsþjónustu lokinni var svo þjóðlegt kaffi í safnaðarheimilinu hjá kvenfélaginu Brautinni í Bolungarvík sem kirkjugestir sóttu.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði í desember síðastliðinn starfshóp til að móta stefnu stjórnvalda í fiskeldi á Íslandi. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók fyrir bréf frá starfshópnum á fundi sínum í vikunni þar sem óskað var eftir ítarlegum upplýsingum um hvaða áhrif fiskeldi hefur í sveitarfélaginu og á þau verkefni sem falla undir verksvið sveitarfélagsins.
Starfshópurinn óskar eftir upplýsingum um til dæmis hvort fiskeldi hafi áhrif á tekjur og gjöld sveitarfélagsins, hvort ráðist hafi verið í innviðauppbygginu vegna fiskeldisins og hvernig þau hafi verið fjármögnuð. Hvort störfum hjá þjónustustofnunum eða stjórnsýslu hafi fjölgað og hvort þjónustustig við íbúa hafi breyst.
Einnig spyr starfshópurinn um fólksfjölgun/fækkun vegna atvinnugreinarinnar og áhrif á byggðaþróun, hver staða sé á fasteignamarkaði og hvort bregðast þurfi við á þeim vettvangi. Hvort þörf sé á uppbyggingu samgöngumannvirkja og hvort búast megi við áhrifum á aðrar atvinnugreinar.
Óskað eftir afstöðu sveitarfélagsins til laga og reglugerða, aðkomu að umhverfismálum og skoðun á skipulagi haf- og strandsvæða. Á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku er bókað í umsögn um matsáætlun Arctic Sea Farm að bæjarstjórn telur að sveitarfélög eigi að hafa skipulagsvald út að 1 sjómílu út fyrir grunnlínu landhelginnar, sömuleiðis kallar bæjarstjórn eftir því að sveitarfélög fái heimildir til gjaldtöku af þeim aðilum sem nýta svæði í strandsjó til fiskeldis.
Harpa og Steff í dyragættinni á hinu nýopnaða Home Café í Vínarborg
Finna má ævintýraglaða Íslendinga víða um heim við hin ýmsu störf og framkvæmdir. Vestfirðingar eiga sannarlega til líkt og aðrir að finna sér sitt annað „heim“ í stóra heiminum og jafnvel bókstaflega. Fyrir skömmu sögðum við frá Bolvíkingnum Hauki Vagnssyni sem nú rekur Íslendingabarinn á Pattaya í Tælandi og nú hefur Ísfirðingurinn Harpa Henrysdóttir ásamt eiginkonu sinni Steff Hilty opnað kaffihús í Vínarborg í Austurríki og á báðum stöðum má næla sér í íslenskar veitingar í nýju umhverfi fjarri Fróni.
Í dag opnuðu þær Harpa og Steff kaffihúsið Home Café í menningarborginni Vín. Undanfarna mánuði hafa þær unnið hörðum höndum að því að koma staðnum í rétt horf, en áður var þar til húsa írsk krá og þurfti talvert að taka til hendinni til að gera staðinn að þeim huggulega stað sem þær dreymdi um.
Þær hjónin fluttu til Vínar síðasta sumar ásamt dætrunum Sigrúnu Aðalheiði og Hjördísi Önnu, sem báðar eru grunnskólanemar og byrjuðu í skóla á nýjum slóðum síðasta haust. Harpa og Steff voru með skýr markmið að opna sinn eigin veitingastað í borginni áður en þær héldu frá Ísafirði, þar sem Steff hafði um hríð glatt munna og maga viðskiptavina Bræðraborgar með eldamennsku sinni og Harpa kenndi við grunnskólann. Eftir að hafa fundið heppilegt húsnæði var ráðist í framkvæmdir upp úr áramótum. Þá voru þær þegar búnar að ráða starfsfólk með einni auglýsingu á Fésbókarsíðu Íslendingafélagsins í Austurríki. Hafa því allir starfsmenn Home Café tengingu við Ísland, annað hvort hafa þeir búið hér á landi eða eru Íslendingar, þeirra á meðal er Ísfirðingurinn, Elisabeth Þorbergsdóttir. Það er vel við hæfi þar sem áherslan í matnum er íslensk, með heimagerðar og huggulegar veitingar í fyrirrúmi að sögn Hörpu.
Það er alveg sama hvar maðurinn er í heiminum staddur, alls staðar er gott að eiga góða að og segir Harpa að framkvæmdirnar við staðinn hafi fyrst komist á almennilegan rekspöl er foreldrar hennar Henry Bæringsson, sem dóttirin kallar stórvirku vinnuvélina og Jóna Benediktsdóttir, sem tók að sér barnapíustörf, komu til þeirra eftir áramót
Íslenskar myndir úr Góða hirðinum prýða veggina
in. Framkvæmdirnar fóru á flug og var sóðalega búllan hreinsuð burt með öllu og hratt og örugglega fæddist fallegt kaffihús. Þær Harpa og Steff hafa báðar áhuga á því að gefa gömlum hlutum nýtt líf og voru því flest húsgögn og innanstokksmunir, sem eru frá sjöunda og áttunda áratugnum, meira og minna allt keypt í búð sem heitir Carla, sem er eins og austurrísk blanda af Góða hirðinum og Hjálpræðishersbúðunum. Veggina prýða svo íslensk landslagsmálverk og kort sem keypt voru í Góða hirðinum áður en haldið var frá Íslandi.
Steff við matseldina
Harðfiskur frá Finnboga og salt frá Saltverki
Í Vínarborg búa um 150 Íslendingar sem nú geta svalað hluta af heimþránni með því að komast í alvöru íslenskan mat á nýjum heimaslóðum. Íslendingafélagið verður með bókaklúbbinn sinn á staðnum og í framtíðinni fleiri viðburði á vegum félagsins. Staðurinn er þó sannarlega ekki einvörðungu hugsaður sem félagsmiðstöð Íslendinga í Vínarborg, heldur suðupottur þar sem menningarheimar mætast í mat og selskap.
Af þeim íslensku veitingum sem boðið er upp á má nefna að ferskan fisk fá þær sendan vikulega frá Íslandi, harðfisk frá Harðfiskverkun Finnboga á Ísafirði, salt frá Saltverki og rabbbarasultu frá Kjarnavörum fyrir bakkelsið. Svo geta gestir gætt sér á íslenska bjórnum Einstök, ásamt því sem boðið er upp á bjór frá bruggfyrirtækinu Brew age, sem rekur rætur sínar til fjögurra austurrískra stráka sem byrjuðu að brugga í bílskúrnum heima hjá sér með það góðum árangri að í dag reka þeir öflugt bruggfyrirtæki með fjölmörgum öltegundum. Vínið kemur frá fjölskyldu sem ræktar litla vínekru rétt fyrir utan borgina, en Steff komst í kynni við vínbóndann er hún beið einn daginn eftir sporvagninum sem hafði tafist vegna þess að einhver lagði bílnum sínum fyrir teinana. Hún settist þá inn á veitingastað hjá stoppistöðinni á meðan hún beið og fékk sér vínglas. Hún lendir þar á spjalli við mann sem kemur þar inn með vínsendingu og kom þá í ljós að þar var á ferðinni vínbóndinn sjálfur og úr varð nýtt viðskiptasamband og sér vínbóndinn þeim nú fyrir öllu því rauðvíni, hvítvíni og líkjörum sem boðið er upp á á Home Café. Þar er svo boðið upp á úrvals kaffi, sem er brennt og malað í kaffibrennslu Coffee pirates sem er staðsett í sömu götu og þá kemur mjólkin í kaffið beint frá býli rétt utan við borgina.
Staðurinn er hinn huggulegasti eftir miklar endurbætur
Kaffihúsið sem tekur um fimmtíu manns í sæti er í 9. hverfi Vínarborgar sem er frekar miðsvæðis, það liggur að miðborginni með mjög góðar samgöngur allt í kring svo ekki tekur nema um sjö mínútur að taka sporvagninn úr miðbænum til þeirra Steff og Hörpu í kaffi og kruðerí.
Aðlögun með ágætum
„Fjölskyldan er að aðlagast ágætlega í borginni. Það er búið að vera nokkuð undarlegt fyrir mig að vera ekki að kenna neitt, nema bara mínum eigin börnum, sem eru orðin afar leið á stærðfræðistöngli móður sinnar, en það stendur til bóta þar sem ég er aðeins að taka að mér smá kennslu í íslensku hérna svona til hliðar.“ Segir Harpa aðspurð að því hvernig fjölskyldan aðlagaðist að nýjum heimkynnum: „Stelpurnar eru að aðlagast ágætlega, þetta er auðvitað búið að vera dálítið erfitt, en þær eru núna farnar að skilja þýskuna mjög vel og báðar farnar að geta talað dálítið svo nú kemur þetta hratt.
Systurnar Sigrún og Hjördís eru báðar í tvítyngdum ensku/þýsku skólum sem eru mjög alþjóðlegir, í 20 barna bekk hjá þeirri yngri er til dæmis bara eitt barn sem á tvo austurríska foreldra og samtals tala börnin 12 tungumál: „eða eins og eitt foreldri í bekknum sagði við mig „það er ekki hægt að vera öðruvísi í þessum bekk, því það eru allir öðruvísi“ segir Harpa um hið nýja umhverfi dætranna, sem hafa verið afar liðtækar við að koma kaffihúsinu í stand og hönnuðu þær til að mynda barnamatseðil staðarins.
Hægt er að fylgjast með gangi mála á Fésbókarsíðu Home Café og áður en langt um líður fer í loftið heimasíðan home-cafe.at og að sjálfssögðu munu þær taka vel á móti Íslendingum á ferðinni á Home Café, heimili Íslendinga í Austurríki að heiman.
SIT-nemarnir við komuna á Ísafjörð í gærmorgun ásamt Jennifer Smith fagstjóra. Mynd: uw.is
Sautján bandarískir háskólanemar sem eru vettvangsnámi á vegum School for International Training (SIT) komu til Ísafjarðar í gærmorgun þar sem þeir munu dvelja í nokkrar vikur í vettvangsnámi í loftslagsfræðum. Frá komu nemanna er sagt á vef Háskólaseturs Vestfjarða sem hefur undanfarin tíu sumur átt í farsælu samstarfi við vettvangsskóla SIT en skólinn er staðsettur í Vermont í Bandaríkjunum. Í vettvangsnáminu hér á landi hefur sumarnámið snúist um endurnýjanlega orkugjafa og hafa hóparnir sem komið hafa á jafnan dvalið á Ísafirði í nokkrar vikur og stundað nám í Háskólasetrinu, ásamt því sem þau hafa dvalið í Reykjavík. Nemendur skólans hafa fengið tækifæri til að kynnast fólki og fjölskyldulífi á svæðinu nokkuð vel þar sem dvöl í heimahúsum hefur verið í boði frá því sumarið 2012 með góðum árangri.
Síðastliðið haust hleypti SIT af stokkunum nýrri námsleið í samstarfi við Háskólasetrið og mætti fyrsti hópurinn hingað til leiks í september 2016. Nemendurnir sem komu til Ísafjarðar í gær eru því annar hópurinn sem stundar þessa námsleið hér á landi. Námið er 15 vikur eða ein önn og er í boði bæði vor og haust. Nemendurnir koma úr hinum ýmsu skólum víðsvegar í Bandaríkjunum. Viðfangsefni vettvangsskólans eru loftslagsmál á Norðurslóðum og ferðast nemendur víða um Ísland en einnig er farið til Grænlands. Á Ísafirði dveljast nemendurnir í a.m.k fjórar fjórar vikur. Líkt og nemendur sumarskóla SIT fá þessir nemendur tækifæri til að kynnast fólki á svæðinu náið þar sem þeim er boðið að búa hjá fjölskyldum hluta af tímanum, sem gefur þeim færi á að kynnast lífinu á Ísafirði á persónulegan hátt.
Með tilkomu vettvangsskólans í haust urðu til tvö ný rannsóknar- og kennslutengd stöðugildi á Vestfjörðum. Jennifer Smith sem útskrifaðist úr haf- og strandsvæðastjórnun Háskólaseturs árið 2014, var nýverið ráðin fagstjóri skólans en hún gegndi stöðu aðstoðarmanns fagstjóra síðastliðið haust. Akademískur ráðgjafi á þessari önn er Daniel Govoni, doktorsnemi, en hann og Jennifer eru bæði búsett á Ísafirði.
Ef vel fiskast þá gæti vinnsla í frystihúsi Hraðfrystihúss – Gunnvarar í Hnífsdal hafist á morgun að sögn Kristjáns G. Jóakimssonar, vinnslustjóra HG. Engin vinnsla hefur verið í Hnífsdal frá því að verkfall sjómanna skall á um miðjan desember. Páll Pálsson ÍS hélt til veiða í gærmorgun, Júlíus Geirmundsson ÍS fór út um miðnætti í gær og ráðgert að Stefnir ÍS haldi á miðin í kvöld.
Þrátt fyrir að vinnslan hafi legið niðri í Hnífsdal hefur góður hópur starfsfólks HG verið við vinnslu á regnbogasilungi í Íshúsinu á Ísafirði. „Við erum búin að slátra okkar fiski og við höfum líka komið að vinnslu á fiski fyrir Arctic Fish. Þetta hefur verið samstarfsverkefni fyrirtækjanna,“ segir Kristján.
Hann hefur ekki fengið fregnir af skipunum um fiskirí, en í gegnum tíðin er reynslan að það sé gott eftir svo langa hvíld.
Gylfi Arnbjörnsson og Björgólfur Jóhannsson formaður SA kampakátir við undirritun síðustu kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Mynd: mbl.is / Árni Sæberg.
Forsendur kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins (SA) og Alþýðusambands Íslands (ASÍ) eru í hættu og verða forsendur metnar í vikunni. Svo gæti farið að samningar opnist um mánaðamótin. Eins og staðan er í dag er forsendubresturinn augljós að sögn Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ.
„Í forsendum við gerð kjarasamningsins var rætt um laun annarra hópa, húsnæðisfrumvörp ríkisstjórnarinnar, að þau frumvörp kæmust til framkvæmda og að verðbólga héldist stöðug,“ segir Gylfi í Fréttablaðinu í dag. Að hans mati hafa laun annarra hópa, eins og alþingismanna og ráðherra, hækkað umfram það sem menn ætluðu. Þá hafi ekki verið staðið við aðgerðir í húsnæðismálum
Forsendunefnd ASÍ og SA hittist í vikunni og fer yfir þessar forsendur. Nefndin þarf að skila niðurstöðu innan átta daga um hvort forsendurnar halda eða ekki. „Verði niðurstaðan að forsendur séu brostnar fer málið til samninganefndar ASÍ og næstu skref verða ákveðin,“ bætir Gylfi við.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar tekur undir umsögn hafnarstjórn um að ekki verður fallist á að eldiskvíar Arctic Sea Farm verði staðsettar á því svæði út af Arnarnesi sem lagt er til í matsáætluninni. Sú staðsetning myndi skerða aðkomu stærri skipa að Skutulsfirði og þrengja athafnasvæði þeirra, er í því sambandi aðallega átt við skemmtiferðaskip, flutningaskip og stærri olíuskip. Nú þegar eru eldiskvíar á Skutulsfirði sem skerða athafnarými og geta gert stærri skipum erfitt fyrir á akkerislægi. Bæjarstjórn segir að ekki verði unað við frekari skerðingu.
Bæjarstjórn telur að koma mætti í veg fyrir truflun á innsiglingu til Skutulsfjarðar ef umrætt svæði yrði fært að minnsta kosti lengd sína til suðausturs þannig að norðvestur mörk svæðisins sé í línu við Kirkjubólshlíð.
Bæjarstjórn ítrekar enn og aftur að afleitt sé að enga stefnumörkun stjórnvalda sé að finna um sjókvíaeldi á Vestfjörðum, fremur en annars staðar á landinu. Óheppilegt er að burðarþolsmat Ísafjarðardjúps skuli ekki liggja fyrir þegar leitað er umsagna um fiskeldisáform og verður til mikilla bóta þegar það verður gefið út en Ísafjarðarbær hefur upplýsingar um að matið sé hér um bil tilbúið.
„Rannsóknir á samlegðaráhrifum eldis og lífríkis í Ísafjarðardjúpi eru mikilvæg undirstaða í uppbyggingu fiskeldis við Djúp og skipulagningu þess og því er kallað eftir að stjórnvöld leggi fullan þunga í þann undirbúning sem nauðsynlegur er. Að frumkvæði sveitarfélaga á Vestfjörðum og Fjórðungssambands var unnin nýtingaráætlun fyrir Arnarfjörð sem vera mátti stjórnvöldum fordæmi. Það er því mjög miður að ríkisvaldið hafi ekki séð ástæðu til að samsvarandi skipulagsvinna færi fram á strandsvæði Ísafjarðardjúps, slík áætlun hefði auðveldað mjög framlagningu matsáætlana og gerð umsagna um þau,“ segir í umsögn bæjarstjórnar sem fagnar fyrirhuguðum áformum fiskeldisfyrirtækja um uppbyggingu fiskeldis í Ísafjarðardjúpi. Bæjarstjórn telur að fiskeldi muni styrkja undirstöður atvinnulífs í sveitarfélaginu og treysta tekjustofna Ísafjarðarhafna.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar ítrekar einnig þá áskorun sína að að sveitarfélög ráði skipulagi strandsjávar út að 1 sjómílu út fyrir grunnlínu landhelginnar. Einnig kallar bæjarstjórn eftir því að sveitarfélög fái heimildir til gjaldtöku af þeim aðilum sem nýta svæði í strandsjó til fiskeldis.
Þessi umsögn tekur yfir fyrri umsagnir nefnda Ísafjarðarbæjar og dregur þær saman í eina.
Bæjarstjórn gerir að öðru leyti ekki athugasemdir við framkomna tillögu að matsáætlun.