Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, studdi ekki eigin breytingartillögu við samning Ísafjarðarbæjar og Hestamannafélagsins Hendingar. Samningur við Hendingu var samþykktur af meirihluta Í-listans á fundi bæjarstjórnar fyrir helgi. Breytingartillaga Daníels var studd af Kristínu Hálfdánsdóttur (D), Jónasi Þór Birgissyni (D) og Marzellíusi Sveinbjörnssyni (B).
Breytingartillaga Daníels hljóðaði upp á að ganga til samninga við hestamenn um byggingu reiðskemmu og leggja til verksins 30 milljónir kr. auk jarðefnis undir bygginguna. Til viðbótar kæmi 20 milljóna kr. framlag Vegagerðarinnar vegna bóta fyrir skerðingu á aðstöðu félagsins í Hnífsdal. Að þessu leyti er tillagan nokkuð samhljóma samningi Í-listans við Hendingu. Það sem greinir tillöguna frá er að Daníel lagði til að skipa byggingarnefnd sem meðal annars gerði þarfagreiningu og skilalýsingu fyrir bygginguna og nákvæma kostnaðaráætlun.
Nefndin myndi einnig koma sér saman um verkframgang og áfangskiptingu reiðskemmunnar, sem er algjör forsenda svona framkvæmda, að mati Daníels samkvæmt breytingartillögunni. Þá átti nefndin að ákveða hvenær og að loknum hvaða verkþáttum greiðslu bæjarins til Hendingar væru inntar ef hendi.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi, hefur óskað eftir því að þingmenn kjördæmisins hittist hið fyrsta ákvörðunar Jóns Gunnarsonar samgönguráðherra um niðurskurð til samgöngumál sem mikið hefur verið rætt um í fjölmiðlum. Gunnar Bragi er í umhverfis- og samgöngunefnd og hefur einnig óskað eftir því að ráðherran verði kallaður fyrir nefndina. „Samgönguráðherra svíkur landsbyggðina,“skrifar Gunnar Bragi á Facebook.
Ljósleiðari plægður í jörð á Ströndum. Mynd: strandir.is
Sveitarstjórn Strandabyggðar áformar að stofna fyrirtækið Veitustofnun Strandabyggðar til að annast lagningu ljósleiðara í sveitarfélaginu. Sveitarstjórnin telur aðgang íbúa sveitarfélagsins að háhraða nettengingu vera þjónustu sem hefur almenna og efnahagslega þýðingu. Veitustofnun Strandabyggðar verður rekin sem deild innan sveitarfélagsins – svokölluð b-hluta fyrirtæki – og því alfarið á ábyrgð sveitarfélagsins.
Inntak hinnar opinberu þjónustu sem Veitustofnun Strandabyggðar er ætlað að framkvæma og veita, er að tengja heimili, fyrirtæki og sumarhús í sveitarfélaginu, sem svo kjósa, við ljósleiðaranet (FTTH, e. Fiber To The Home) og mun gera öllum íbúum sveitarfélagsins mögulegt að hafa aðgang að háhraða ljósleiðaratengingu a.m.k. næstu 25 árin. Það svæði sem verkefnið tekur til skal vera afmarkað við sveitarfélagið Strandabyggð. Ljósleiðarakerfið verður alfarið í eigu sveitarfélagsins.
Strandabyggð fékk nýverið 11 milljóna kr. styrk úr Fjarskiptasjóði vegna ljósleiðaratenginga í sveitarfélaginu.
Bolvíkingurinn Fjóla Bjarnadóttur hefur opnað nýjan vef sem heitir adstandandi.is en vefurinn er hugsaður sem hjálpartæki aðstandenda sem standa frammi fyrir því að ástvinir þeirra þurfa á meiri aðstoð og breyttum áherslum að halda eftir því sem árin færast yfir. Auk Fjólu hefur Eygló Valdimarsdóttir umsjón með vefnum, en þær eru báðar hjúkrunarfræðingar að mennt. Þær hafa starfað mikið með öldruðum og verið leiðbeinandur fyrir aðstandendur þeirra. Margvíslegar spurningar eru bornar upp daglega af aðstandendum og kviknaði sú hugmynd að gera aðgengilega síðu, einskonar miðlæga upplýsingaveitu, hvar finna mætti svör við hugðarefnum aðstandenda aldraðra, til að auðvelda fólki að auka lífsgæði ástvina og aðstoða þá við að mæta breytilegum þörfum.
Það er von umsjónarmanna vefsins að aðstandendur geti leitað svara við þeim spurningum sem helst brenna á þeim og geti einnig haft samband við þær ef frekari upplýsinga er þörf.
Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga segir ákvörðun Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra að skera niður öll fjárframlög til vegagerðar í Gufudalssveit vera pólitískt útspil sem er allt í senn: óvænt, óbilgjarnt og óskiljanlegt. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar sambandsins. „Barátta Vestfirðinga um eðlilegt vegstæði um Gufudalssveit, hefur staðið í áratug. Sú baráttan hefur fyrst fremst verið á skipulagsgrundvelli, þar sem tekist hefur verið á um umhverfissjónarmið. Um framkvæmdina hefur hinsvegar verið nokkuð breið pólitísk sátt og fjármögnun hennar ekki deiluefni. Nú hillir, vonandi, undir lok þeirra vinnu og baráttu. Þá kemur þetta óvænta og óbilgjarna pólitíska útspil ráðherra um niðurskurð á fjármagni til vegaframkvæmda. Óskiljanlegt,,“ segir í ályktuninni.
Stjórnin bendir á að Vestfjarðavegur 60 var opnaður árið 1959 og þó talsvert hafi áunnist í vegagerð á leiðinni á síðustu árum séu enn í notkun vegakaflar sem voru lagðir um miðja síðustu öld.
Samgönguráðherra sló einnig út af borðinu 400 milljóna kr. fjárframlag sem átti að fara í framkvæmdir á Dynjandisheiði. Í ályktuninni er bent á að hönnun vegar um Dynjandisheiði er langt kominn og nauðsynlegt að hefja framkvæmdir sem fyrst til að verklok þar verði á svipuðum tíma og verklok Dýrafjarðarganga.
Ályktuninni lýkur svo:
„Í gildi er samgönguáætlun sem kveður skýrt á um þessar löngu tímabæru framkvæmdir á þjóðvegi 60. Skilaboð ráðherra er að plaggið sé marklaust. Við þetta verður ekki unað. Vestfirðingar mótmæla allir!“
Í dag var Sólrisuhátíð Menntaskólans á Ísafirði sett. Venju samkvæmt gengu nemendur fylktu liði með fánabera í broddi fylkingar undir taktvissum trommuslættir frá menntaskólanum að Edinborgarhúsinu þar sem setningin fór fram þessu sinni. Þar var meðal annars boðið upp á atriði úr leiksýningunni Vælukjóla sem leikfélag MÍ hefur unnið hörðum höndum að í meira en mánuð. Vælukjói er söngleikur sem byggður er á kvikmyndinni Cry baby frá 1990 eftir John Waters.
Um verkið segir Emma Jóna Hermannsdóttir, formaður leikfélags Menntaskólans á Ísafirði: „Vælukjói Walker er skerjari og talinn vera vandræðaunglingur, Allison er kantari og algjör engill. Skerjararnir er hópur af fátæku fólki sem virða hvorki lög né reglur þegar skemmtun kemur við sögu. Þeim semur alls ekki við alla, en þeir sem bera skemmtun í skauti sér eru meira en velkomnir í félagsskap þeirra. Kantararnir eru mjög íhaldssamir, ríkari en skerjarar og eiga aðeins samskipti við aðra kantara. Þessir tveir félagshópar eru bersýnilega mjög ólíkir í fari og vilja helst ekki eiga mikil samskipti hvor við annan. Vælukjói, sem er hálfgerður leiðtogi skerjaranna, verður ástfanginn af Allison, sem er einmitt sætasta stelpan í hópi kantara. Og eins og í öllum góðum leikritum þarf Kjói að fara á móti áhyggjufullum þykjustu-kærasta, lauslátri ömmu sem og öllum könturum í heild sinni til að ná stelpunni. Svo er auðvitað spurningin hvort vondi gæinn hreppi loks góðu stúlkuna?“
Emma Jóna segir John Waters hafa sinn eigin stíl og verkið oft öðruvísi en fólk á kannski að venjast og gæti það þurft að opna sig fyrir stílbragðinu og reyna að hafa gaman að honum.
Leikstjórinn Ingrid Jónsdóttir hefur sett leikritið skemmtilega upp með einfaldri sviðsmynd en flóknari lýsingu og hljóðum með hjálp tæknimanna. Emma segir mikla vinnu hafa verið lagða í hverja persónu leikritsins: „Ingrid hefur hjálpað hverjum einasta leikara að ná fram sínum karakter, því ekki teljast þeir mjög venjulegir.“
Það eru þau Kristín Helga Hagbarðsdóttir og Pétur Ernir Svavarsson sem fara með aðalhlutverk sýningarinnar en Emma segir jafnframt öll hlutverkin mikilvæg og með mikinn karakter. Hún segir æfingar hafa gengið nokkuð vel, hópurinn flottur og vel samstilltur, en ekki sé alltaf auðvelt að setja upp leikrit í ríkjandi flensutíð: „Verst að þegar einn eða tveir veikjast þá veikist allur hópurinn því við erum alltaf saman.“
Hún segir leikhúsgesti ekki verða svikna af sýningunni sem hún segir ótrúlega skemmtilega. Frumsýning verður í kvöld klukkan 20 og önnur sýning á morgun laugardag á sama tíma. Á sunnudag verða svo tvær sýningar, annars vegar klukkan 16 og svo klukkan 20. Miðapantanir eru í síma 450 5555.
Þetta er í 42.sinn sem Sólrisuhátíðin er haldin og er hún ávallt einn af hápunktum skólaársins við M.Í. Útvarpsstöð skólans MÍ-flugan er farin í loftið á tíðninni FM 101,1. Í nótt er svo náttfatanótt í skólanum og er næsta vika yfirfull af spennandi dagskrá er Gróskudagar fara fram við skólann.
Sýnt var brot úr sýningunni Vælukjóa í hádeginu í EdinborgEmma Jóna Hermannsdóttir formaður leikfélags MÍSýnt var brot úr sýningunni Vælukjóa í hádeginu í Edinborg
Hátt í 50 keppendur körfuknattleiksdeildar Vestra og fjölmennt fylgdarlið er nú óðum að leggja í hann á stærsta körfuboltamót landsins, Nettómótið í Reykjanesbæ, sem fram fer um helgina. „Það hafa aldrei farið fleiri frá okkur og auk keppenda er fjöldi foreldra með í för, samtals eitthvað á annað hundrað manns,“ segir Birna Lárusdóttir, formaður barna- og unglinaráðs körfuknattleiksdeildar Vestra. Birna hefur verið í eldlínu körfuboltans á Ísafirði um árabil og segir þá breytingu hafa orðið á mótum yngstu keppenda að foreldra vilja fylgja sínum börnum. „Það er lítið um að við sendum rútur með keppendur, foreldrar keyra bara með sínum börnum.“ Körfuboltinn á Ísafirði er í sókn að sögn Birnu og hún merkir strax jákvæð áhrif af sameinuðu íþróttafélagi, en Vestri varð til á síðasta ári þegar KFÍ, BÍ/Bolungarvík, Blakfélagið Skellur og Sunddeild Vestra sameinuðust. „Á síðasta ári réðum við þjálfara í fullt starf og það er að skila sér,“ segir Birna og þá er ekki úr vegi að minnast á að 9. flokkur drengja varð í síðasta mánuði bikarmeistari í sínum flokki.
Nettómótið er samstarfsverkefni Keflvíkinga og Njarðvíkinga og er nú haldið í 27. sinn. Þetta er langstærsta mót sinnar tegundar á landinu ætlað börnum í 1.-5. bekk. Keppendur verða hátt í 1.400 en alls hafa 23 félög boðað þátttöku sína á mótið með 238 keppnislið. Búið er að setja upp 548 leiki á 15 leikvöllum í 6 íþróttahúsum.
Tilhlökkunin er að vonum mikil í herbúðum Vestra en Nettómótið er gjarnan fyrsta alvöru mót margra körfuboltakappa. En
Engin stig eru talin og allir fara heim með verðlaun að móti loknu. Gestgjafarnir standa einstaklega vel að öllu mótshaldi og tryggja að ekki er dauð stund alla helgina hjá þessum vösku íþróttakrökkum. Löng hefð er fyrir þátttöku vestfirskra körfuboltakrakka á Nettó en þetta er þó í fyrsta sinn sem keppt er undir merkjum hins nýja íþróttafélags, Vestra.
Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Vegagerð í Gufudalssveit er í forgangi að sögn Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra. Í gær var greint frá að búið að er að skera niður samgönguáætlun og 1.200 milljónir kr. sem voru áætlaðar í Vestfjarðaveg 60 í Gufudalssveit eru gufaðar upp. Mikið misræmi var milli fjárlaga ársins 2017 og samgönguáætlunar, eða tæpir 10 milljarðarða og til að mæta því hefur samgönguráðuneytið skorið niður samgönguáætlun. Unnið er að umhverfismati á mismundandi veglínum í Gufudalssveit, en veglínan um Teigsskóg hefur verið val Vegagerðarinnar en sætt mikilli andstöðu vegna umhverfisáhrifa. Vegagerðin hefur skilað matsskýrslu til Skipulagsstofnunar og er álits stofnunarinnar að vænta í lok þessa mánaðar.
„Um leið og leið og þetta klárast, valið á vegstæðinu og undirbúningur að því þá verður hægt að hefja þar framkvæmdir. Það verður eitt af þeim málum sem verða klárlega í forgangi hjá okkur,“ sagði Jón Gunnarsson í hádegisfréttum RÚV í dag.
Ákvörðun Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra að hætta við framkvæmdir í Gufudalssveit er óskiljanleg og óbilgjörn að sögn Péturs G. Markan, formanns Fjórðungssambands Vestfirðinga. Vegagerð í Gufudalssveit er gamalt þrætumál en Pétur bendir á að til þessa hefur vandamál framkvæmdarinnar verið skipulagsvandamál. „Og stjórnmálamenn hafa verið ódeigir við að berja á þeim sem með þau sýsla fyrir seinagang,“ segir Pétur.
Vegagerðin hefur skilað til Skipulagsstofnunar matsskýrslu vegna umhverfismats í Gufudalssveit og er endanlegs álits Skipulagstofnunar að vænta innan nokkurra vikna.
„Núna þegar hillir undir lok umhverfismatsins sem hefur verið samstíga barátta almennings og stjórnmálamanna er það algjör trúnaðarbrestur að kippa fjármagninu til baka á svo óbilgjarnarnan hátt,“ segir Pétur.
Mannleg mistök urðu til þess að nýkeyptur troðari skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar hafnaði í krapapolli á Seljalandsdal. Jarðýtu og beltavél þurfti til að losa hann. Óhappið gerðist á Seljalandsdal um kvöldmatarleytið á miðvikudagskvöld. „Aftari hlutinn á troðaranum fór á kaf. Við vorum alla nóttina og fram undir hádegi í gær að losa hann og þá tók við að draga hann niður eftir. Troðarinn var kominn í hús um miðnætti í gær,“ segir Hlynur Kristinsson, forstöðumaður skíðasvæðisins.
Ekki er búið að meta skemmdir á troðaranum. „Viðkvæmur vél- og rafmagnsbúnaður lá í vatni og við ræsum ekki troðarann fyrr en við erum búnir að fara yfir allt þannig að við vitum ekki enn um tjón,“ segir Hlynur.
Annað sem er í vinnslu að sögn Hlyns er hvort tryggingar dekki óhappið.
Troðarinn var keyptur í haust og kostaði 37 milljónir kr.