Náttúrubarnaskólinn er meðal þess sem fjallað verður um á málþinginu. Mynd af Fésbókarsíðu skólans.
Málþing um menningartengda ferðaþjónustu verður haldið á Restaurant Galdri á Hólmavík á morgun, fimmtudag. Á málþinginu láta bæði heimamenn á Ströndum og nemendur í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands ljós sitt skína og segja frá margvíslegum verkefnum. Málþingið er haldið í tengslum við heimsókn háskólanema í námskeiðinu Menningartengd ferðaþjónusta, en þeir dvelja tvær nætur á Ströndum, þar sem þeir skoða sig um, heimsækja söfn, sýningar og sögustaði.
Meðal fyrirlesara á málþinginu eru Skúli Gautason menningarfulltrúi Vestfjarða sem fjallar um uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu á Vestfjörðum, Esther Ösp Valdimarsdóttir mannfræðingur og tómstundafulltrúi Strandabyggðar sem fjallar um bæjarhátíðina Hamingjudaga og fleiri hátíðahöld í Strandabyggð, Hafdís Sturlaugsdóttir landnýtingarfræðingur sem fjallar um menningarverkefni á vegum Náttúrustofu Vestfjarða og Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur sem fjallar um Náttúrubarnaskólann. Einnig flytja nemendur í hagnýtri menningarmiðlun fjórar kynningar á verkefnum sem þeir hafa unnið í tengslum við námskeiðið syðra. Málþingið er opið öllum sem áhuga hafa, það hefst klukkan 12:10 og verður súpa frá Restaurant Galdri á boðstólum.
Það er Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa sem stendur fyrir móttöku hópsins og málþinginu í samvinnu við Strandagaldur og Sauðfjársetur á Ströndum. Frá þessu var greint á Strandavefnum.
Síðustu ár hefur fiskeldi á suðursvæði Vestfjarða vakið verðskuldaða athygli.Bjartsýni íbúa á þessu svæði hefur aukist og íbúar annarra svæða á Vestfjörðum hafa fylgst með áformum um frekara fiskeldi, m.a. í Ísafjarðardjúpi.
Enginn vafi virðist vera á því að fiskeldi í stórum stíl geti haft mjög jákvæð áhrif á byggðaþróun á Vestfjörðum. Strandlengja Vestfjarða er u.þ.b. 1/3 hluti af strandlengju Íslands, tæplega 2.000 km. af 6.000 km. Vestfirðingar hafa gert sér grein fyrir þeim miklu möguleikum sem firðir þeirra og flóar geta haft í framtíðinni, m.a. í fiskeldi og ferðamennsku. Sveitarstjórnir á Vestfjörðum og víðar um land hafa þó bent á, að úthlutun þessara gæða er ekki í þeirra höndum, heldur hjá ríkisstofnunum suður í Reykjavík. Þessu þarf að sjálfsögðu að breyta þannig, að sveitarstjórnirnar fái skipulagsvald og úthlutunarrétt gæðanna, sem liggja við bæjardyrnar. Ekki er verið að krefjast þess að faglega hliðin, t.d. varðandi fiskeldið, verði ekki háð almennum landslögum hvað varðar umhverfi og eftirlit, en ráðstöfunarréttur verði alfarið í höndum heimafólks í gegnum sveitarstjórnir sínar.
Töluvert hefur borið á því að sjálfskipaðir sérfræðingar á borð við Orra nokkurn Vigfússon, sem virðist hafa það sem aðaláhugamál þessi misserin að koma íslenskum bújörðum í hendur breskra auðkífinga, reki skefjalausan áróður gegn fiskeldi á Vestfjörðum og þar með gegn atvinnuuppbyggingu og jákvæðri þróun byggðar á svæðinu. Þingmenn Norðvesturkjördæmis og sveitarstjórnarfólk á Vestfjörðum verða nú að taka höndum saman og verjast óvinum landsbyggðarinnar á borð við Orra Vigfússon, „landsölumanninn“ sem kemur nú hverri laxveiðiánni á fætur annarri í hendur breskra milljarðamæringa.
Frá Act alone síðasta sumar er Elfar Logi Hannesson og Þröstur Leó Gunnarsson kynntu einleik sinn um einbúann Gísla á Uppsölum
Ef ekki kemur til aukins fjármagns til einleikjahátíðarinnar Act alone getur svo farið að hátíðin leggist af. Þetta kemur fram í bréfi Elfars Loga Hannessonar sem dregið hefur vagn hátíðarinnar sem tekið var fyrir á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í vikunni. Þar segir Elfar Logi reksturinn í járnum og allt benda til þess að dagar hátíðarinnar séu taldir. Hátíðin var haldin í þrettánda sinn síðasta sumar og segir Elfar Logi að þó hátíðin sé kominn á táningsaldur hafi fjármögnun hennar gengið erfiðlega. Segir hann jafnframt sárast að Menningarmálaráðuneytið hafi einungis styrkt hátíðina einu sinni, en það hafi á sama tíma styrkt aðrar listahátíðir á höfuðborgarsvæðinu og segir Elfar Logi vandamálið í raun risavaxið þar sem staða atvinnulistar á landsbyggðinni sé mjög bágborinn og njóti ekki skilnings innan ráðuneytisins og spyr hann hvort þetta sú byggðastefna sem við viljum viðhafa? Að hafa listalausa landsbyggð? Stjórnendur Act alone hafa óskað eftir fundi með Menningarmálaráðherra, en ekki borist svar við beiðninni.
Í bréfinu segir nú svo komið að Act alone verði ekki haldin nema fjárhagur þessi verði tryggður. Aðstandendur hafa rætt þann möguleika að færa hátíðina annað, fáist þar fjármagn, en segja jafnframt að þeir trúi að hátíðin skipti máli, ekki bara fyrir Vestfirði heldur og listalíf allt. Líkt og þeir vita sem sótt hafa hátíðina hefur mikill metnaður verið lagður í hana og hefur hún sett sterkan svip á menningarlíf á Vestfjörðum.
Í bréfinu leitar Act alone til Ísafjarðarbæjar um aukin fjárframlög með það fyrir augum að halda megi hátíðina í sumar líkt og síðustu sumur í sveitarfélaginu, en hún var fyrstu árin haldin á Ísafirði, en síðustu ár hefur hún verið haldin á Suðureyri. Bæjarráð fól bæjarstjóra að ræða við forsvarsmenn Act Alone um endurnýjun samnings vegna hátíðarinnar, en síðustu tvö ár hefur hátíðin hlotið 500.000.- króna styrk hvort ár.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti hefur sent út spurningarlista um áhrif fiskeldis á sveitarfélögin. Er það liður í stefnumótun stjórnvalda í fiskeldi á Íslandi sem þáverandi sjávarútvegsráðherra boðaði í haust. Starfshópur til að móta stefnuna var skipaður í desember. Liður í stefnumótuninni er að horfa til þess hvernig umfang og þróun fiskeldis hefur áhrif á sveitarfélögin með tilliti til þátta eins og samfélags-, umhverfis- og skipulagsmála, byggðaþróunar, tekna og gjalda svo fátt eitt sé nefnt.
Þegar skipun starfshópsins var tilkynnt var tekið fram að stefnumótun í fiskeldi væri sérstaklega brýn vegna hins hraða vaxtar greinarinnar. Í henni þarf m.a. að horfa til stjórnsýslu og rannsókna, almennra starfsskilyrða greinarinnar, umhverfismála, hættu á erfðablöndun við villta stofna, sjúkdóma og sníkjudýra, menntunarmála, gjaldtöku, markaðsmála og efnahagslegrar þýðingar fyrir þjóðarbúið.
Í starfshópnum eru:
Baldur P. Erlingsson formaður, skipaður af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
Sigurbjörg Sæmundsdóttir, tilnefnd af umhverfis- og auðlindaráðuneyti
Guðmundur Gíslason, tilnefndur af Landssambandi fiskeldisstöðva
Kjartan Ólafsson, tilnefndur af Landssambandi fiskeldisstöðva
Óðinn Sigþórsson, tilnefndur af Landssambandi veiðifélaga
Bryndís Björnsdóttir, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
Vinnu starfshópsins á að ljúka eigi síðar en 30. júní 2017 en bæjarráð Ísafjarðar tók fyrir spuningalista starfshópsins á fundi bæjarráðs í vikunni.
Veður á Vestfjörðum hefur verið sérlega gott það sem af er febrúarmánuði og með slíkum hætti að íbúum bregður í brún að ganga um marauðar götur dag eftir dag, og ekki sé nú talað um að hafa á stundum geta keyrt um snjólausar heiðar. Veðrið verður ekki til vandræða í dag og á morgun er Veðurstofa Íslands spáir suðaustan 5-10 m/s og éljum og hægviðri lengst af á morgun. Ekki verður allt autt þó og frost verður á bilinu 0 til 4 stig. Á föstudag má búast við vaxandi suðaustanátt og éljum á landinu, en þurru og björtu fram eftir degi norðanlands. Þá hlýnar í veðri og má búast við suðaustan stormur og talsverð rigning eða slydda um kvöldið, en snjókoma til landsins.
Á Vestfjörðum er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum leiðum. Þungfært er úr Bjarnarfirði á Ströndum norður í Árneshrepp.
Tryggingamiðstöðin hf. hefur selt 3,0% hlut í Kvitholmen, sem á 100% eignarhlut í fiskeldisfyrirtækinu Arnarlaxi hf., fyrir 35,7 milljónir norskra króna eða því sem nemur 473 milljónum króna. TM átti fyrir viðskiptin 7,4% eignarhlut í Kvitholmen og því jafngilda þessi viðskipti að eignarhlutur TM sé metinn á 89,1 milljón norskra króna eða 1.177 milljónir króna. Sé miðað við kaupverðið má áætla að Arnarlax sé metið á hátt í 16 milljarða króna. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins standa að baki kaupunum nokkrir norskir fagfjárfestar.
Arnarlax hefur verið í miklum vexti frá því fyrirtækið var stofnað á Bíldudal árið 2009 og í fyrra eignaðist fyrirtækið Fjarðalax hf. samhliða því sem norska stórfyrirtækið Salmar varð kjölfestufjárfestir í fyrirtækinu.
Í dagbók lögreglunnar á Vestfjörðum kemur fram að aðfaranótt 19. febrúar var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna nokkurra gesta á vínveitingastað á Ísafirði sem dyraverðir áttu í erfiðleikum með. Einn gestanna, áberandi ölvaður, var handtekinn eftir að hafa veist að lögreglumönnum sem komu til aðstoðar dyravörðum. Sá hinn sami var vistaður í fangaklefa og látinn sofa úr sér áfengisvímuna. Málið er til skoðunar hjá lögreglu.
Tuttugu og fimm ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Flestir voru stöðvaðir í Ísafjarðardjúpi en einnig í Strandasýslu og í Vesturbyggð. Sá sem hraðast ók var mældur á 127 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km.
Af og til hefur það gerst að ökumenn sem lögreglan stöðvar eru ekki með ökuskírteini á sér. Lögreglan bendir á að heilög skylda hvílir á ökumönnum að hafa slík skilríki á sér við akstur og framvísa við lögreglu sé þess óskað. Sekt liggur við. Ökumenn eru hvattir til að gæta vel að þessum.
Einn ökumaður var kærður í vikunni fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu á gatnamótum einum á Ísafirði.
Um miðjan dag þann 19. febrúar barst tilkynning um ammoníakslykt frá frystigeymslu einni á Ísafirði. Slökkvilið var kallað út ásamt starfsmönnum viðkomandi fyrirtækis. Greiðlega tókst að loka fyrir lekann. Ekkert tjón eða skaði varð af þessu.
Það voru prúðbúnir kirkjugestir í Hólskirkju á sunnudag. Mynd: Bjarni Benediktsson.
Á konudaginn síðasta sunnudag fór fram guðsþjónusta í Hólskirkju í Bolungarvík og í tilefni dagsins og upphafs góu voru kirkjugestir hvattir til að mæta í þjóðbúningum í messuna þar sem séra Ásta Ingibjörg Pétursdóttir sóknarprestur predikaði. Bolvískar konur brugðust vel við kallinu og mættu margar í sínu fínasta pússi; í upphlutum, peysufötum og jafnvel faldbúningi. Að guðsþjónustu lokinni var svo þjóðlegt kaffi í safnaðarheimilinu hjá kvenfélaginu Brautinni í Bolungarvík sem kirkjugestir sóttu.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði í desember síðastliðinn starfshóp til að móta stefnu stjórnvalda í fiskeldi á Íslandi. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók fyrir bréf frá starfshópnum á fundi sínum í vikunni þar sem óskað var eftir ítarlegum upplýsingum um hvaða áhrif fiskeldi hefur í sveitarfélaginu og á þau verkefni sem falla undir verksvið sveitarfélagsins.
Starfshópurinn óskar eftir upplýsingum um til dæmis hvort fiskeldi hafi áhrif á tekjur og gjöld sveitarfélagsins, hvort ráðist hafi verið í innviðauppbygginu vegna fiskeldisins og hvernig þau hafi verið fjármögnuð. Hvort störfum hjá þjónustustofnunum eða stjórnsýslu hafi fjölgað og hvort þjónustustig við íbúa hafi breyst.
Einnig spyr starfshópurinn um fólksfjölgun/fækkun vegna atvinnugreinarinnar og áhrif á byggðaþróun, hver staða sé á fasteignamarkaði og hvort bregðast þurfi við á þeim vettvangi. Hvort þörf sé á uppbyggingu samgöngumannvirkja og hvort búast megi við áhrifum á aðrar atvinnugreinar.
Óskað eftir afstöðu sveitarfélagsins til laga og reglugerða, aðkomu að umhverfismálum og skoðun á skipulagi haf- og strandsvæða. Á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku er bókað í umsögn um matsáætlun Arctic Sea Farm að bæjarstjórn telur að sveitarfélög eigi að hafa skipulagsvald út að 1 sjómílu út fyrir grunnlínu landhelginnar, sömuleiðis kallar bæjarstjórn eftir því að sveitarfélög fái heimildir til gjaldtöku af þeim aðilum sem nýta svæði í strandsjó til fiskeldis.
Harpa og Steff í dyragættinni á hinu nýopnaða Home Café í Vínarborg
Finna má ævintýraglaða Íslendinga víða um heim við hin ýmsu störf og framkvæmdir. Vestfirðingar eiga sannarlega til líkt og aðrir að finna sér sitt annað „heim“ í stóra heiminum og jafnvel bókstaflega. Fyrir skömmu sögðum við frá Bolvíkingnum Hauki Vagnssyni sem nú rekur Íslendingabarinn á Pattaya í Tælandi og nú hefur Ísfirðingurinn Harpa Henrysdóttir ásamt eiginkonu sinni Steff Hilty opnað kaffihús í Vínarborg í Austurríki og á báðum stöðum má næla sér í íslenskar veitingar í nýju umhverfi fjarri Fróni.
Í dag opnuðu þær Harpa og Steff kaffihúsið Home Café í menningarborginni Vín. Undanfarna mánuði hafa þær unnið hörðum höndum að því að koma staðnum í rétt horf, en áður var þar til húsa írsk krá og þurfti talvert að taka til hendinni til að gera staðinn að þeim huggulega stað sem þær dreymdi um.
Þær hjónin fluttu til Vínar síðasta sumar ásamt dætrunum Sigrúnu Aðalheiði og Hjördísi Önnu, sem báðar eru grunnskólanemar og byrjuðu í skóla á nýjum slóðum síðasta haust. Harpa og Steff voru með skýr markmið að opna sinn eigin veitingastað í borginni áður en þær héldu frá Ísafirði, þar sem Steff hafði um hríð glatt munna og maga viðskiptavina Bræðraborgar með eldamennsku sinni og Harpa kenndi við grunnskólann. Eftir að hafa fundið heppilegt húsnæði var ráðist í framkvæmdir upp úr áramótum. Þá voru þær þegar búnar að ráða starfsfólk með einni auglýsingu á Fésbókarsíðu Íslendingafélagsins í Austurríki. Hafa því allir starfsmenn Home Café tengingu við Ísland, annað hvort hafa þeir búið hér á landi eða eru Íslendingar, þeirra á meðal er Ísfirðingurinn, Elisabeth Þorbergsdóttir. Það er vel við hæfi þar sem áherslan í matnum er íslensk, með heimagerðar og huggulegar veitingar í fyrirrúmi að sögn Hörpu.
Það er alveg sama hvar maðurinn er í heiminum staddur, alls staðar er gott að eiga góða að og segir Harpa að framkvæmdirnar við staðinn hafi fyrst komist á almennilegan rekspöl er foreldrar hennar Henry Bæringsson, sem dóttirin kallar stórvirku vinnuvélina og Jóna Benediktsdóttir, sem tók að sér barnapíustörf, komu til þeirra eftir áramót
Íslenskar myndir úr Góða hirðinum prýða veggina
in. Framkvæmdirnar fóru á flug og var sóðalega búllan hreinsuð burt með öllu og hratt og örugglega fæddist fallegt kaffihús. Þær Harpa og Steff hafa báðar áhuga á því að gefa gömlum hlutum nýtt líf og voru því flest húsgögn og innanstokksmunir, sem eru frá sjöunda og áttunda áratugnum, meira og minna allt keypt í búð sem heitir Carla, sem er eins og austurrísk blanda af Góða hirðinum og Hjálpræðishersbúðunum. Veggina prýða svo íslensk landslagsmálverk og kort sem keypt voru í Góða hirðinum áður en haldið var frá Íslandi.
Steff við matseldina
Harðfiskur frá Finnboga og salt frá Saltverki
Í Vínarborg búa um 150 Íslendingar sem nú geta svalað hluta af heimþránni með því að komast í alvöru íslenskan mat á nýjum heimaslóðum. Íslendingafélagið verður með bókaklúbbinn sinn á staðnum og í framtíðinni fleiri viðburði á vegum félagsins. Staðurinn er þó sannarlega ekki einvörðungu hugsaður sem félagsmiðstöð Íslendinga í Vínarborg, heldur suðupottur þar sem menningarheimar mætast í mat og selskap.
Af þeim íslensku veitingum sem boðið er upp á má nefna að ferskan fisk fá þær sendan vikulega frá Íslandi, harðfisk frá Harðfiskverkun Finnboga á Ísafirði, salt frá Saltverki og rabbbarasultu frá Kjarnavörum fyrir bakkelsið. Svo geta gestir gætt sér á íslenska bjórnum Einstök, ásamt því sem boðið er upp á bjór frá bruggfyrirtækinu Brew age, sem rekur rætur sínar til fjögurra austurrískra stráka sem byrjuðu að brugga í bílskúrnum heima hjá sér með það góðum árangri að í dag reka þeir öflugt bruggfyrirtæki með fjölmörgum öltegundum. Vínið kemur frá fjölskyldu sem ræktar litla vínekru rétt fyrir utan borgina, en Steff komst í kynni við vínbóndann er hún beið einn daginn eftir sporvagninum sem hafði tafist vegna þess að einhver lagði bílnum sínum fyrir teinana. Hún settist þá inn á veitingastað hjá stoppistöðinni á meðan hún beið og fékk sér vínglas. Hún lendir þar á spjalli við mann sem kemur þar inn með vínsendingu og kom þá í ljós að þar var á ferðinni vínbóndinn sjálfur og úr varð nýtt viðskiptasamband og sér vínbóndinn þeim nú fyrir öllu því rauðvíni, hvítvíni og líkjörum sem boðið er upp á á Home Café. Þar er svo boðið upp á úrvals kaffi, sem er brennt og malað í kaffibrennslu Coffee pirates sem er staðsett í sömu götu og þá kemur mjólkin í kaffið beint frá býli rétt utan við borgina.
Staðurinn er hinn huggulegasti eftir miklar endurbætur
Kaffihúsið sem tekur um fimmtíu manns í sæti er í 9. hverfi Vínarborgar sem er frekar miðsvæðis, það liggur að miðborginni með mjög góðar samgöngur allt í kring svo ekki tekur nema um sjö mínútur að taka sporvagninn úr miðbænum til þeirra Steff og Hörpu í kaffi og kruðerí.
Aðlögun með ágætum
„Fjölskyldan er að aðlagast ágætlega í borginni. Það er búið að vera nokkuð undarlegt fyrir mig að vera ekki að kenna neitt, nema bara mínum eigin börnum, sem eru orðin afar leið á stærðfræðistöngli móður sinnar, en það stendur til bóta þar sem ég er aðeins að taka að mér smá kennslu í íslensku hérna svona til hliðar.“ Segir Harpa aðspurð að því hvernig fjölskyldan aðlagaðist að nýjum heimkynnum: „Stelpurnar eru að aðlagast ágætlega, þetta er auðvitað búið að vera dálítið erfitt, en þær eru núna farnar að skilja þýskuna mjög vel og báðar farnar að geta talað dálítið svo nú kemur þetta hratt.
Systurnar Sigrún og Hjördís eru báðar í tvítyngdum ensku/þýsku skólum sem eru mjög alþjóðlegir, í 20 barna bekk hjá þeirri yngri er til dæmis bara eitt barn sem á tvo austurríska foreldra og samtals tala börnin 12 tungumál: „eða eins og eitt foreldri í bekknum sagði við mig „það er ekki hægt að vera öðruvísi í þessum bekk, því það eru allir öðruvísi“ segir Harpa um hið nýja umhverfi dætranna, sem hafa verið afar liðtækar við að koma kaffihúsinu í stand og hönnuðu þær til að mynda barnamatseðil staðarins.
Hægt er að fylgjast með gangi mála á Fésbókarsíðu Home Café og áður en langt um líður fer í loftið heimasíðan home-cafe.at og að sjálfssögðu munu þær taka vel á móti Íslendingum á ferðinni á Home Café, heimili Íslendinga í Austurríki að heiman.