Síða 2334

Andlát: Ásgeir Guðbjartsson

Ásgeir Guðbjartsson.

Ásgeir Guðbjartsson, fyrrverandi skipstjóri á Ísafirði, lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á miðvikudag. Ásgeir fæddist árið 1928 og var um áratugaskeið meðal nafntoguðustu og fengsælustu skipstjórum landsins. Ásamt fleirum stofnaði hann útgerðarfélagið Hrönn hf. árið 1954 og var Ásgeir skipstjóri á sjö Guðbjörgum í röð. Fyrir störf sín hlaut hann fálkaorðuna árið 1991.

Ásgeir kvæntist Sigríði Brynjólfsdóttur árið 1949 og eignuðust þau fjögur börn. Sigríður lést árið 2009.

smari@bb.is

Vestri fékk Þrótt/Fylki í bikarnum

Dregið var í 8 liða úrslit Kjörísbikarkeppni karla í blaki í gær.  Allir leikirnir fjórir í karlaflokki fara fram á landsbyggðinni. Vestri fékk heimaleik gegn Þrótti/Fylki. Bikarmeistarar karla í KA drógust gegn Íslandsmeisturum HK. Aðrar viðureignir eru leikir Þróttar Nes og Stjörnunnar annars vegar og Hamars og Aftueldingar hins vegar.

smari@bb.is

 

Stækka við sig í bát og kvóta

Ásdís ÍS, áður Örn GK.

Ný Ásdís ÍS er komin í slipp í Stykkishólmi er væntanleg til heimahafnar í Bolungarvík um miðjan mars. Í byrjun árs festi útgerðarfyrirtækið Mýrarholt ehf. kaup á dragnótarbátnum sem bar áður nafnið Örn GK. „Þetta er mun stærri bátur, mælist 160 brúttótonn meðan hinn er 65 brúttótonn. Við erum að stækka við okkur, bæði í bát og í aflaheimildum“ segir Einar Guðmundsson, skipstjóri og einn eigenda Mýrarholts. Að sögn Einars fylgir bátnum kvóti upp á 4-500 tonn. Báturinn var smíðaður í Póllandi árið 1999.

Aflabrögðin hafa verið með eindæmum góð hjá áhöfninni á Ásdísi sem telur einungis þrjá menn og á síðasta almanaksári var aflinn um 1.900 tonn „Þetta er búið að vera ævintýralegt fiskirí síðustu tvö ár, en þetta getur fljótt farið í sama farið. Það eru gífurlegar breytingar í lífríkinu með hækkandi sjávarhita,“ segir Einar.

Auk þess að vera á dragnót hefur Ásdís fiskað rækju í Ísafjarðardjúpi og svo verður einnig með nýja bátinn.

smari@bb.is

Halda merki Núpsskóla á lofti

Hljómsveitin Rassar.

Þremenningunum í skólahljómsveitinni Rössum er mikið í mun að merki þeirra gamla skóla, Núpsskóla, sé haldið á lofti. Rassar eru mættir vestur á firði og ætla að skemmta Ísfirðingum og nærsveitungum. Hljómsveitin var stofnuð á Núpí í Dýrafirði veturinn 1969 og þá eins og nú eru í hljómsveitinni þeir Rúnar Þór Pétursson, Egill Ólafsson og Benedikt Helgi Benediktsson. „Við komum reglulega saman til að fagna vinskapnum og förum vestur til að halda uppi tengslum okkar við Núpsskóla og reynum af veikum mætti að halda uppi merkjum skólans,“ segir Egill.

Aðspurður segja þeir að vistin í skólanum hafi verið þeim góð. „Þetta var betrunarvist fyrir okkur alla. Sumir bera skólanum ekki sömu söguna, en fyrir okkur var þetta góða tími,“ segir Rúnar Þór.

Gamla skólahúsið á Núpi er illar farið og Egill segir að með því að koma saman og spila og segja gamlar sögur frá Núpi, sé möguleiki að ýta við fólki um að varðveita bygginguna. „Um leið og við minnum okkur sjálfa á við erum skuldbundnir þessari gömlu menntastofnun þá getum við kannski fengið fleiri með okkur í lið.“

Í haust fór Benedikt Helgi, trommari Rassa, með fríðum hópi manna og negldi fyrir glugga á gamla skólahúsinu. „Það virðist enginn vera að hugsa um húsið og ég fékk Fasteignir ríkisins til að greiða útlagðan kostnað við þetta. En til framtíðar verður að finna húsinu hlutverk,“ segir Benedikt. Aðspurður hvaða hlutverk það gæti verið segir Egill að til dæmis mætti hugsa sér safn um sögu héraðsskólanna, enda eru þeir ákaflega merkilegur kafli í sögu þjóðarinnar.

Rassar spila á Húsinu á Ísafirði í kvöld og annað kvöld og lofa ljúfum tónum úr gamla Rassaprógrammi auk þess sem þeir reyna að hafa þetta á léttu nótunum og bæta við hugrenningum og gamanasögum.

„Við tökum okkur góðan tíma þegar við komum vestur. Keyrðum að sunnan í gær og erum í góðu yfirlæti hjá Dóra og fáum efri hæðina á Húsinu, alveg eins og Led Zeppelin, þeir tóku alltaf heila hæð undir sig,“ segir Rúnar.

smari@bb.is

Bæjarins besta 8. tbl. 34. árgangur 2017

Íslendingarnir komust ekki áfram

Albert Jónsson, skíðagöngumaður frá Ísafirði, hafnaði í 123. sæti í sprettgöngu á heimsmeistaramótinu í norrænum greinum í Lathi í Finnlandi í dag. Sæv­ar Birg­is­son kom fyrst­ur í mark af ís­lensku kepp­end­un­um og hafnaði í 92. sæti og gekk hann vega­lengd­ina á 3:47,30 mín­út­um en þrjá­tíu efstu komust í úr­slit og til að ná því þurfti tím­ann 3:22,09 mín­út­ur.

Brynj­ar Leó Krist­ins­son hafnaði í 115. sæti á 4:00,98 mín­út­um og Al­bert varð í 123. sæti á 4:08,33 mín­út­um.

Besta tím­ann fékk Ser­gei Ustiugov frá Rússlandi en hann vann göng­una á 3:11,72 mín­út­um og var tæp­um þrem­ur sek­únd­um á und­an næsta manni, Finn Haagen Krogh frá Nor­egi.

smari@bb.is

Gamlir leikir og leikföng

Í dag kl. 17:00 á Sauðfjársetrinu mun Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðinemi segja frá gömlum leikjum og leikföngum sem gátu breyst í ótrúlegustu verur. Fyrirlestur Dagrúnar er í tengslum við sýninguna Sumardvöl í sveit sem nú stendur yfir á Sauðfjársetrinu. Fyrirhugaðir eru fleiri viðburðir og segir í frétt á strandir.is að búast megi við huggulegu síðdegi þar sem börn og foreldrar njóta sín saman í leik og borðað saman grjónagraut eftir leikina.

Sýningin Sumardvöl í sveit var opnuð í byrjun nóvember í fyrra og fjallar hún um reynslu þeirra sem fóru í sveit og þeirra sem tóku á móti sumardvalabörnum, einkum á Ströndum.

bryndis@bb.is

Atvinnuleysi mældist 4,1% í janúarmánuði

Atvinnuleysi hér á landi í janúarmánuði 2017 var 4,1% samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands og sýnir samanburður mælinga fyrir janúar 2016 og 2017 að atvinnuþátttaka dróst saman um 1,3 prósentustig á milli ára. Á landinu voru að jafnaði 193.100 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í janúar 2017, sem jafngildir 80,3% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 185.300 starfandi og 7.900 án vinnu og í atvinnuleit. Fjöldi starfandi jókst um 1.400 manns á milli mánaða en hlutfall starfandi af mannfjölda lækkaði hins vegar um 2,1 stig. Atvinnulausum fjölgaði um 2.600 manns og hlutfall þeirra af vinnuaflinu hækkaði um 1,3 prósentustig.

Þegar horft er til síðustu sex mánaða þá sýnir leitni vinnuaflstalna að atvinnuleysi stendur í stað, en á síðustu tólf mánuðum hefur það lækkað lítillega eða um 0,2 prósentustig. Hlutfall starfandi síðustu sex mánuði hefur lækkað lítillega eða um 0,3 stig, en aftur á móti aukist um 0,7 stig þegar horft er til þróunar síðustu tólf mánaða.

annska@bb.is

Albert í sprettgöngu HM í dag

Albert í brautinni.

Ísfirski gönguskíðakappinn Albert Jónsson er nú staddur í Lahti í Finnlandi þar sem hann tekur þátt í HM í skíðagöngu. Í gær fóru fram undankeppnir og í flokki karla þar sem 10 komust áfram máttu íslensku keppendurnir þrír, sem auk Alberts eru þeir Brynjar Leó Kristinsson og Sævar Birgisson bíta í það súra epli að komast ekki áfram, en Albert, sem er að keppa á sínu fyrsta heimsmeistaramóti var í 18.sæti. Eini keppandi Íslands í kvennaflokki, Elsa Guðrún Jónsdóttir gerði sér hins vegar lítið fyrir og sigraði undakeppni kvenna með yfirburðum. Í dag verður keppt í sprettgöngu og hefst keppni klukkan 15 að staðartíma eða 13 að íslenskum tíma þar sem Íslendingarnir fjórir keppa allir, Elsa Guðrún ræsir númer 67, Sævar nr. 89, Albert nr. 107 og Brynjar Leó nr. 114.

annska@bb.is

Grease í Bolungarvík

Úr kynningarmyndbandinu

Hápunktur allra vinnustaða er árshátíðin og alla jafna talsverð vinna lögð í að gera hana sem eftirminnilegasta. Vinnustaðir barnanna eru þar engin undantekning og í kvöld er árshátíð Grunnskóla Bolungarvíkur og þemað að þessu sinni er hin eftirminnilega og sígilda kvikmynd Grease þar sem Olivia Newton-John og John Travolta slógu í gegn sem Sandra og Danny. Undirbúningur hátíðarinnar er af flottara taginu og hafa nemendur búið til kynningarmyndband um hátíðina.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir