Síða 2334

Oddi hf fagnar fimmtíu ára afmæli

Það eru nú liðin fimmtíu ár frá því að Jón Magnússon, Lilja Jónsdóttir, Hjalti Gíslason, Helga Pálsdóttir og Sigurgeir Magnússon stofnuðu Odda hf á Patreksfirði og má því telja að fyrirtækið sé sem með þeim elstu í þessari atvinnugrein. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að félagið hafi gengið í gegnum margan öldudalinn en hefur ávallt reynt að halda uppi stöðugri starfsemi og þannig tryggt stöðuga vinnu og tekjuöflun. Félagið var stofnað sem fiskvinnsla og hélt því allt til ársins 1990 er félagið hóf sína fyrstu útgerð. Eftir það hefur félagið verið lykilfyrirtæki á Patreksfirði en í dag starfa þar um 75 manns.

Í mars ætla starfsmenn og eigendur að halda upp á afmæli fyrirtækisins og skella sér með manni og mús til Tenerife, í för verða bæði makar og börn og er gert ráð fyrir að í ferðina fari um 140 manns.

Fyrirtækið fyrirhugar að fagna tímamótunum síðar á árinu og gefa þar með bæjarbúum, starfsmönnum og viðskiptavinum félagsins tækifæri til að fagna með þeim.

bryndis@bb.is

 

Rassar skemmta á Ísafirði

Hljómsveitin Rassar gleður Ísfirðinga og nærsveitunga með tónum og tali í kvöld og annað kvöld, en hljómsveitin á rætur sínar að rekja til Héraðsskólans að Núpi þar sem hljómsveitarmeðlimir voru við nám veturinn 1969-1970. Sveitin starfaði einungis þetta eina skólaár, en segja má að hún hafi haft visst spádómsgildi fólgið í sér er tveir meðlima hennar; Egill Ólafsson og Ísfirðingurinn Rúnar Þór Pétursson lögðu báðir fyrir sig atvinnumennsku í tónlist, en þriðji félaginn Benedikt Helgi Benediktsson gerðist rannsóknarlögreglumaður.

Hátt í 50 ár eru liðin frá því þeir félagar trylltu lýðinn að Núpi og óhætt er að segja að líkt og sannra poppara er siður hafi þeir ekki alltaf fylgt settum reglum út í hörgul. Eitt sinn gerðu Rassarnir plakat þar sem þeir beruðu á sér afturendann, sem varð þess valdandi að félagarnir voru reknir úr skólanum í viku og eftir það hafði sveitin ekki leyfi til að leika utan skólalóðarinnar. Það kannski skýrir að hluta til að frægðarsólin hafi ekki risið hærra á sínum tíma, en minningin um stórgott skólaband lifði meðal Núpsverja og komu þeir félagar aftur saman undir merkjum Rassa á skólamóti á Núpi árið 2014. Þá notuðu þeir einnig tækifærið og spiluðu á Ísafirði við góðar undirtektir. Nú endurtaka þeir leikinn og spila á Húsinu í kvöld á tónleikum sem hefjast klukkan 21:15 og annað kvöld er þeir hefja leika klukkan 21:45. Von er á skemmtilegri dagskrá þar sem félagarnir leggja áherslu á að spila tónlistina sem þeir fíluðu á yngri árum ásamt því sem góðar sögur fá gjarnan að fylgja.

annska@bb.is

Saurgerlamengun: Trassaskapur eða ófullnægjandi innra eftirlit

Ekki þarf lengur að sjóða vatn á Hólmavík.

Á síðasta fundi Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða var tekin fyrir fyrirspurn frá eftirlitsstofnun EFTA um saurgerlamengun sem upp kom á Flateyri á síðasta ári og í kjölfarið sköpuðust umræður um vatnsmál á Vestfjörðum. Heilbrigðiseftirlitið hefur tekið saman niðurstöður sýnatöku fyrir árin 2013-­2016, en nokkur tilvik hafa komið upp síðastliðin ár þar sem saurmengun hefur mælst í neysluvatni á Vestfjörðum og segir Heilbrigðiseftirlitið að í flestum tilfella hafi verið um trassaskap að ræða eða að  innra eftirlit vatnsveitu ekki verið í lagi.

Vatnsveitur eru stærstu matvælafyrirtæki hvers byggðarlags og undirstaða þess að hægt sé að starfrækja önnur matvælafyrirtæki. Vatnsveitur er ábyrgar fyrir heilnæmi neysluvatns og eru þær eftirlits- og starfsleyfisskyldar og þurfa að uppfylla reglugerð um neysluvatn sem byggir á Evróputilskipun um gæði ef hún þjónar fleirum en 50 manns, eða 20 heimilum/sumarbústöðum eða matvælafyrirtækjum. Vatnsveitum er skylt að hafa virkt innra eftirlit til að tryggja neytendum öruggt neysluvatn og er vatnsveitan í raun ábyrg fyrir því að afhenda ógallaða vöru líkt og önnur matvælafyrirtæki.

Reglubundið opinbert eftirlit með vatnsveitum er á hendi heilbrigðisnefnda sveitafélaga. Í reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn er kveðið á um lágmarkstíðni sýnatöku og er tekið mið af þeim íbúafjölda sem veitan þjónar. Neysluvatn í þéttbýli á Íslandi á að vera 100% í lagi, og er það í langflestum byggðarlögum að sögn Antons Helgasonar heilbrigðisfulltrúa. Veitur sem þjóna 93% af íbúum landsins eru gæðin fullnægjandi í 99.9% tilvika sem er eins og best gerist í Evrópu og segir Anton því flokkast sem trassaskapur eða innra eftirliti er ekki sinnt nægjanlega vel ef fram koma sýni í reglubundnu eftirliti sem ekki standast kröfur.

Flestar veitur eru með niðurgrafna brunna, en í miklum leysingum og vatnsveðri getur yfirborðsvatn komist að og mengað.  Til að koma í veg fyrir að það hafi áhrif á gæði neysluvatnsins er vatnið geislað með UV geislum, við það drepast bakteríur en hefur að öðru leiti ekki áhrif á vatnið.  UV geislun er svipuð ljósaperum.  Perurnar endast bara ákveðinn tíma sem framleiðandi gefur upp og það þarf að fylgjast með að það sé kveikt á tækjum.  Tækin eru eins og önnur rafmagnstæki viðkvæm fyrir rafmagnstruflunum og geta slegið út.  Því þarf að fylgjast með að tækin séu virk og  varaperur á staðnum ef perurnar gefa sig. Mjög víða hafa verið sett upp geislunartæki þar sem neysluvatn er lýst með útfjólubláu ljósi. Í flestum tilfellum dugar það sem sóttvörn. Anton segir þó að þurfi að vera kveikt á tækjunum til að þau virki og hafa þurfi í huga að perurnar hafi einungis ákveðin líftíma, þannig að ef þessi lausn er notuð þá þarf að fylgjast vel með.

Í öllum stærri vatnsveitum á Vestfjörðum er sjaldgæft að sýni standist ekki kröfur. Í minni vatnsveitum, sér í lagi þeim sem ferðaþjónustufyrirtæki hafa yfir að ráða er oft mikilla úrbóta þörf. Niðurstöður sýnatöku áranna 2013 – 2016 hjá vatnsveitum þéttbýlisstaða sýna að 93% þeirra stóðust kröfur. Hjá kúabændum  eru 80% sýna í lagi og  hjá ferðaþjónustuaðilum í dreifbýli  þ.e. gisting og tjaldstæði stóðust einungis 71% sýna kröfur með tilliti til E.coli. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða hefur sent öllum vatnsveitum á svæðinu lokafrest til að koma á innra eftirliti með úrbótalista þar sem meðal annars þarf að skrá eftirlit með vatnsverndarsvæði, peruskipti í búnaði, viðhald og eftirlit með búnaði og hafa þær vatnsveitur sem eitthvað kann upp á að vanta hjá þrjá mánuði til úrbóta.

annska@bb.is

Háskólanámsferðir og áhrif þeirra í Vísindaportinu

Hér má sjá Back Hale ásamt nemendum í vettvangsferð á hans vegum í Þýskalandi. Mynd: uw.is

Í Vísindaporti vikunnar hjá Háskólasetri Vestfjarða fjallar Brack Hale, prófessor í umhverfisfræði við Franklin University í Sviss, um rannsóknarverkefni sitt þar sem hann kannar áhrif háskólanámsferða erlendis á umhverfi. Á síðustu áratugum hafa tvær stefnur verið að ryðja sér mjög til rúms í æðri menntastofnunum víða um heim; annarsvegar er það sjálfbærni, þar sem unnið er að því að gera jafnt háskólaumhverfi sem námsefni umhverfisvænna, hinsvegar eru það námsferðir, þ.e. námskeið þar sem nemendur ferðast til annarra landa, en þeim fjölgar stöðugt. Því miður hafa þessar stefnur fest sig í sessi óháðar hvor annarri. Kannanir benda til þess nemendur njóti góðs af slíkum ferðum til langs tíma en ekki er ljóst hvaða áhrif heimsóknirnar hafa á áfangastaðina og umhverfi þeirra.  Brack tekur Vestfirði sem dæmi í rannsóknarverkefni sínu til að skilja betur áhrif slíkra ferða á umhverfið.

Brack Hale er um þessar mundir í rannsóknarleyfi við Háskólasetur Vestfjarða. Hann er dósent í umhverfisfræði við Franklin University í Sviss þar sem hann er einnig forstöðumaður Sjálfbærnimiðstöðvarinnar við skólann. Hann kemur regulega með nemandahópa frá Franklin til Íslands og Vestfjarða.  Brack lauk M.E.M. frá Nicholas School of Environment við Duke University í Bandaríkjunum og hann er með doktorspróf frá Nelson Institute for Environmental Studies við University of Wisconsin-Madison.

Vísindaportið öllum opið og stendur frá 12.10-13.00. Að þessu sinni fer fyrirlesturinn fram á ensku.

annska@bb.is

Undirskriftasöfnun gegn áfengisfrumvarpi

IOGT á Íslandi hefur sett af stað undirskriftasöfnun gegn frumvarpi um að leyfa frjálsa sölu áfengis og áfengisauglýsingar. Yfirskrift söfnunarinnar er Allraheill, hugsum um heill okkar allra og er ætlunin að vernda haga barna og ungmenna gegn ágangi áfengisiðnaðarins.

Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir að rannsóknir sýni að aukið aðgengi að áfengi og áfengisauglýsingar stuðli að aukinni neyslu sem bitnar mest á börnum og unglingum. Málið snúast því jafnmikið um frelsi þeirra til að geta farið í matvöruverslun án þess að sjá þar áfengi og um frelsi í viðskiptum.

Í tilkynningunni kemur ennfremur fram að samkvæmt 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna beri okkur að setja hagsmuni barna í forgang þegar taka þarf ákvörðun sem hefur áhrif á börn með einum eða öðrum hætti. Hagsmunir barna af því að njóta verndar gegn skaðlegum áhrifum áfengis eiga því að vega þyngra en hugsanlegir hagsmunir fullorðinna af því að geta keypt áfengi í matvöruverslunum.

Hægt er að taka þátt í söfnuninni hér.

bryndis@bb.is

„Seyoum is my brother“

Það er talsvert langt á milli Patreksfjarðar og Eritreu, ekki bara í metrum talið heldur líka í menningu en það hindraði ekki börnin í Patreksskóla að setja sig í spor jafnaldra sinna í þessu fjarlæga landi. Rut Einarsdóttir hitti krakkana í skólanum og sagði þeim frá ástandinu í Eritreu, þar væru mannréttindi fótum troðin, jafnvel meira en í nokkru öðru landi í heiminum.

Árið 1991 fékk Eritrea sjálfstæði frá Eþíópíu (og alþjóðlega viðurkenningu árið 1993), eftir 30 ára borgarastyrjöld. Var því fögnuðurinn mikill og þjóðin bjartsýn á betri tíma. Isaias, var leiðtogi flokksins sem leiddi þjóðina til sjálfstæðis, og greip því völd var yfirlýstur fyrsti forseti Eritreu. Kosningar hafa ekki verið haldnar síðan og ræður flokkur hans ríkjum við mikla harðstjórn. Árið 2001 tóku Seyoum, og 10 aðrir blaðamenn saman skýrslu um ástandið í landinu, en sú skýrsla varð til þess að þeir voru allir settir í fangelsi og hefur ekki heyrst frá þeim síðan. Eiginkona Seyoum var komin 7 mánuði á leið þegar þetta átti sér stað, og hefur Seyoum því ekki enn séð 16 ára gamalt barn sitt, og það aldrei hitt föður sinn.

Til þess að vekja athygli á þessu talaði Rut við 5. – 10. bekk í Patreksskóla sem öllum fannst þetta einstaklega óréttlátt og vildu ólm leggja sitt af mörkum til þess að reyna að sporna við þessari þróun, og vekja athygli á málinu. Rut sagði nemendunum í Patreksskóla líka frá því þegar hún var sjálf í Egyptalandi í fyrra og kynntist þar manni sem hefur farið nokkrum sinnum til Eritreu í mannúðarstarf. Það er aftur á móti ólöglegt, og þarf hann því að bóka herbergi á að minnsta kosti 8 hótelum, og fara þeirra á milli til þess að vera ekki gómaður af ríkisstjórninni þar í landi fyrir að hjálpa fólkinu í landinu.

Krakkarnir tóku heilshugar þátt í verkefni sem kallað er „Seyoum is my brother“ og hér má nálgast myndir og myndbönd af þeim með skilaboð til Seyoums.

bryndis@bb.is

53 verkefni hljóta styrk úr Uppbyggingarsjóði

Úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða hefur nú lokið við að fara yfir umsóknir um styrki vegna ársins 2017 og stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga hefur staðfest tillögu nefndarinnar um úthlutun. Samtals eru um 65 milljónir til úthlutunar til margvíslegra verkefna og uppbyggingar á Vestfjörðum, en hluta þeirrar upphæðar hefur þegar verið ráðstafað í styrkjum sem eru ákveðnir til tveggja eða þriggja ára.

Á vef Fjórðungssambands Vestfirðinga segir að mörg verkefni sem fá framlög í ár séu sérstaklega áhugaverð og umsóknir fjölbreyttar. Fjármagn Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða er hluti af samningi Fjórðungssambands Vestfirðinga við stjórnvöld um framkvæmd Sóknaráætlunar Vestfjarða 2015-2019. Alls var úthlutað 45,1 milljón króna. Framlög þessarar úthlutunar skiptast þannig að kr. 32.700.000 kr. er ráðstafað í verkefnastyrki, þar af 8.300.000 kr. til atvinnu- og nýsköpunarverkefna, en 12.400.000 kr. eru merktar stofn- og rekstarstyrkjum til menningarstofnana. Ákveðið var að þessu sinni að veita samtals 53 styrki, en umsóknir voru 100. Framlögin skiptast í 49 verkefnastyrki og 4 stofn- og rekstrarstyrki til menningarstofnana. Styrktarupphæðir eru á bilinu 200 þúsund til 5 milljóna, en meðalupphæð framlaga er um 850.000 kr.

Auglýst verður eftir umsóknum í Uppbyggingarsjóð í vor vegna annarrar úthlutunar ársins 2017. Þá verða til ráðstöfunar um 10 milljónir króna.

Í flokki stofn- og rekstrarstyrkja eru til úthlutunar 12.400.000 kr. eru veittir 4 styrkir sem skiptast þannig:

  • 4.000.000 kr – Rekstur Edinborgarhússins ehf (til eins árs)
  • 3.500.000 kr – Galdrasýning á Ströndum (til eins árs)
  • 2.500.000 kr – Melrakkasetur Íslands (til þriggja ára)
  • 2.400.000 kr – Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum ehf (til eins árs)

Stærri verkefnisstyrkir(1.200.000 kr og stærri), 14 styrkir upp á alls 17.700.000 kr. sem skiptast þannig:

1.500.000 kr

  • Vöruþróun og aðlögun vöruframboðs fyrir nýja markaði (Hafkalk ehf)
  • Act alone 2017
  • Aldrei fór ég suður 2017

1.200.000 kr

  • Ég var aldrei barn, sýning um Karítas Skarphéðinsdóttur (Byggðasafn Vestfjarða)
  • Náttúrubarnaskóli – tilraunir og uppbygging (Sauðfjársetur á Ströndum)
  • Menningarmiðstöðin Edinborg
  • Listasafn Samúels (til þriggja ára)
  • Skóbúðin – hversdagssafnið (Björg Sveinbjörnsdóttir) (til tveggja ára)
  • Snjóflóða og fræðasýning á Ísafirði (Kristín Halfdánsdóttir)
  • Saga Flóka Vilgerðarsonar á Íslandi (Frændgarður ehf)
  • Steinshús og Snjáfjallasetur – menningarferðaþjónusta norðan Djúps (til þriggja ára)
  • Melódíur minninganna á Bíldudal (Jón Kr. Ólafsson)
  • Rekjanleiki lambakjöts frá beitilandi til neytenda (Náttúrustofa Vestfjarða) (til þriggja ára)
  • The Tank (Yasuaki Tanago og Simbahöllin)

Minni verkefnisstyrkir(undir 1.200.000 kr), 35 styrkir upp á alls 15.000.000 kr. sem skiptast þannig:

1.000.000 kr 

  • Vöruþróun og markaðssetning fyrir næringarefni og húðvörur úr þara og þangi (Gullsteinn ehf)

800.000 kr 

  • Frönsku fiskimennirnir og gamli tíminn – sýning, rannsóknir og heimildaöflun (Látraröst ehf)

700.000 kr

  • Sögur úr sjávarbyggð: Rafræn leiðsögn um Flateyri og Önundarfjörð (Hús og fólk, Flateyri)
  • Vestfirska vorið (Perlur fjarðarins ehf)
  • Þróun og markaðssetning á Litlabyli Adventures (Litlabyli Guesthouse ehf)

600.000 kr

  • Greining á þörf fiskeldisfyrirtækja fyrir rannsóknaþjónustu (Náttúrustofa Vestfjarða)
  • Síðasta haustið – heimildamynd (Síðasta haustið ehf)
  • Uppbyggingarstarf ungmenna í Vesturbyggð (Rut Einarsdóttir)

500.000 kr

  • Landsmót harmonikkuunnenda á Ísafirði 2017 (Harmonikkufélag Vestfjarða)
  • Landsmót Kvennakóra 2017 (Kvennakór Ísafjarðar)
  • Gísla saga – Víkingaskáli og upplifunarsetur (Marsibil G Kristjánsdóttir)
  • ArtsIceland og Gallerí Úthverfa (kol&salt ehf)
  • Skrímsli í 3-D (Félag áhugamanna um skrímslasetur)

400.000 kr

  • Tónleikaröð Tónlistarfélags Ísafjarðar
  • Sumarskóli í vistvænum arkitektúr (Stofnun Rögnvaldar Á Ólafssonar)
  • Gamanmyndahátíð Flateyrar 2017 (Kvikmyndafélagið Gláma)
  • Blús milli fjalls og fjöru (Sigurjón Páll Hauksson)
  • Þegar vatnið fraus – sérsýning um heita vatnið á Drangsnesi (Aðalbjörg Óskarsdóttir)
  • Tengsl Íslands og Grænlands á fyrri hluta 20. Aldar (Safnahúsið Ísafirði)
  • Sumardagskrá Minjasafnsins að Hnjóti
  • Hjartanshjallur (Halla Ólafsdóttir)

300.000 kr

  • List á Vestfjörðum, kynningarrit Félags vestfirskra listamanna.
  • Tónlist með bátavélum (Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum ehf)
  • Sætt & Salt súkkulaði (Elsa G Borgarsdóttir)
  • Vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar Þingeyri
  • Hornstrandir – myndir og minningar (Johanne Verbockhaven)
  • Fjölskyldan saman, 5 steinar í Reykhólahreppi (Jóhanna Ösp Einarsdóttir)
  • Arnbjörn – Kvikmyndahandrit í fullri lengd (Eyþór Jóvinsson)
  • Vestfirska þjóðfræðivefjan (Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa)

200.000 kr

  • Yfirfærsla gamalla hljóðrita vestfirskra tónlistarmanna á stafrænt form (Tónlistarskóli Ísafjarðar)
  • Allt annað en drasl – POP-UP endurvinnslustöð (Hanna Jónsdóttir)
  • Morð fyrir tvo (Kómedíuleikhúsið)
  • Dýrin í Hálsaskógi (Höfrungur leikdeild)
  • Þjóðleikur á Vestfjörðum 2017 – leiklistarverkefni ungs fólks
  • Uppsetning á leikriti (Litli leikklúbburinn)

annska@bb.is

 

Fasteignamat sumarbústaða og öryggisnúmer

Mynd úr safni

Þjóðskrá Íslands hefur frá árinu 2009 unnið að endurskoðun á aðferðarfræði fasteignamats fyrir allar tegundir eigna sem endurspeglar betur en eldri aðferðir markaðsverð fasteigna á hverjum tíma. Árið 2009 var tekin upp ný aðferðarfræði fyrir íbúðareignir og árið 2014 voru nýjar aðferðir teknar upp við mat á þorra atvinnuhúsnæðis. Aðferðir fasteignamats fyrir sumarbústaði verða endurskoðaðar í næsta fasteignamati sem kynnt verður í júní 2017 og mun gilda fyrir árið 2018.

Nýjar matsaðferðir sumarbústaða fela í sér tengingu kaupsamninga við eiginleika sumar-bústaða svo sem stærðir og byggingarár. Helsta breyting frá núverandi matsaðferðum felst í því að staðsetning eigna og nálægð við þjónustu mun skipta meira máli en hún gerir nú.

Ástand og gæði sumarbústaða hafa einnig talsverð áhrif á markaðsverð þeirra. Gert er ráð fyrir að meðalástand og meðalgæða allra bústaða nema skoðun hafi nýlega farið fram.

Eigin skoðun eiganda

Eiganda sumarbústaðar verður gert kleyft að skila sjálfur inn upplýsingum um ástand og gæði með því að fylla út eyðublað á skrá.is.  Það á helst við ef ástandi er ábótavant eða ef bústaður hefur verið mikið endurnýjaður, mikið hefur verið gert fyrir lóðina eða ef byggt hefur verið við hann án þess að það sé skráð í fasteignaskrá. Eigandi skilar þá  inn textalýsingu ásamt ljósmyndum af bústaðnum. Þjóðskrá Íslands mun síðan nýta þessar upplýsingar til þess að endurbæta matsforsendur bæði fyrir fasteignamat og brunabótamat. En bunabótamat er vátryggingafjárhæð brunatryggingar og þarf því að endurspegla raunverulegt kostnaðarverð bústaðarins.

Landssamband sumarhúsaeigenda og Þjóðskrá Íslands hafa tekið höndum saman að kynna eigin skoðun sumarbústaða fyrir eigendum þeirra.

 Hægt er að nálgast skoðunareyðublaðið hér

Eigandi getur skilað útfylltu eyðublaði beint úr sumarbústaðnum ef nettenging er til staðar.

 Öryggisnúmer sumarbústaða

Öryggi neyðarnúmeranna hefur margoft sannað sig og að mati Þjóðskrár Íslands og Landsambands sumarhúsaeigenda er nauðsynlegt er að koma á skyldu samkvæmt lögum að hafa öryggisnúmer á öllum sumarbústöðum á landinu. Eftir er að merkja rúma 6 þúsund bústaði af þeim 13 þúsundum bústaða sem eru á landinu.

bryndis@bb.is

Þungatakmörkunum aflétt

Slitlag getur farið illa í tíð eins og hefur verið ríkjandi í vetur.

Þeim sérstöku þungatakmörkunum sem verið hafa í gildi á þjóðvegum á Vestfjörðum og í Dölum verður aflétt fimmtudaginn 23. febrúar kl. 8.  Vegna hættu á slitlagsskemmdum hefur ásþungi verið takmarkaður við 10 tonn frá því byrjun mánaðarins á nær öllum vegum á Vestfjörðum.

smari@bb.is

Hæpið að tala um lélega kjörsókn sjómanna

Þátttaka í atkvæðagreiðslu sjómanna um kjarasamningin getur ekki talist lág að mati Sjómannasambands Íslands. Eftir atkvæðagreiðslu um kjarasamning sjómanna og útvegsmanna hefur verið nokkur umræða um þátttökuna í atkvæðagreiðslunni og því haldið fram að þátttakan hafi verið léleg þar sem 53,7% þeirra sem voru á kjörskrá tók þátt í kosningunni. Tíminn sem menn höfðu til að greiða atkvæði var stuttur, en sjómenn voru í verkfalli og því flestir tiltækir enda gat deilan leysts með stuttum fyrirvara.

Að mati Sjómannasambands Íslands er hæpið að tala um lélega kjörsókn í atkvæðagreiðslunni þegar kjörsókn er borin saman við fyrri atkvæðagreiðslur.

Áður en sjómenn samþykktu kjarasamninginn höfðu þeir tvívegis fellt samninga. Í ágúst lauk mánaðarlangri atkvæðagreiðslu um kjarasamning sem var undirritaður í júní. Kjörsókn var 38,5% og sjómenn felldu samninginn með 66% atkvæða.

Atkvæðagreiðsla um verkfall var mánaðarlöng og lauk þann 17. október með 54,2% þátttöku og var verkfall samþykkt með miklum meirihluta atkvæða.

Þann 14 nóvember var undirritaður annar kjarasamningur og atkvæðagreiðslu sjómanna lauk með 60,4% þátttöku þar sem samningarnir voru felldir.

Að framansögðu segir Sjómannasambandið að það teljist hæpið að tala um dræma þátttöku í atkvæðagreiðslu sjómanna um helgina.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir