Föstudagur 18. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2334

Sveinn tekinn við Reykhólavefnum

Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli.

Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli í Geiradal hefur tekið við sem vefstjóri Reykhólahrepps. Hann tekur við af Hlyni Þór Magnússyni sagnfræðingi sem sagði starfinu lausu í haust en hefur aðstoðað sveitarstjóra með vefinn allt til þessa dags. Sveinn tekur við vef sem notið hefur vinsælda, þá sérstaklega fyrir vönduð vinnubrögð fyrrum vefstjóra.

Heima á Svarfhóli rekur Sveinn verkstæði. Hann er fyrrverandi sveitarstjórnarmaður, fyrrverandi og núverandi göngugarpur og annálaður áhugaljósmyndari, allavega í heimabyggð og líka þó víðar væri leitað.

smari@bb.is

Auglýsing

16,8% minna aflaverðmæti

Í nóvember 2016 var aflaverðmæti íslenskra skipa 10,2 milljarðar króna sem er samdráttur um 16,8% samanborið við nóvember 2015. Verðmæti botnfiskafla nam 7,7 milljörðum og dróst saman um 14,2% frá fyrra ári. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar. Uppistaðan í verðmæti botnfiskaflans var þorskur en verðmæti hans nam 5,5 milljörðum sem er 2,6% minna en í nóvember 2015. Verðmæti uppsjávarafla dróst einnig saman á milli ára, nam tæpum 1,9 milljörðum sem er 21,2% minna en í nóvember 2015. Verðmæti flatfiskafla dróst saman um 25,5% og nam 522 milljónum króna í nóvember. Aflaverðmæti skelfisks dróst saman um 50,8% og nam um 88 milljónum samanborið við tæpar 179 milljónir í nóvember 2015.

Á 12 mánaða tímabili frá desember 2015 til nóvember 2016 var aflaverðmæti 134,9 milljarðar króna sem er 10,5% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr. Verðmæti botnfiskafla dróst saman um 7,4 milljarða á milli tímabila. Verðmæti uppsjávartegunda dróst einnig saman á milli þessara 12 mánaða tímabila, vegur þar þyngst 7,7 milljarða samdráttur á verðmæti loðnuafla.

smari@bb.is

Auglýsing

Vildi kyngja upphæðinni í skiptum fyrir betri vinnubrögð

Ætlaði að bæta málið, segir Daníel.

„Ég setti þessa tillögu fram til að bjarga því sem bjargað varð,“ segir Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, um breytingartillögu við samning Ísafjarðarbæjar við Hestamannafélagið Hendingu. Daníel lagði tillöguna fram á fundi bæjarstjórnar fyrir helgi og þegar til atkvæðagreiðslu kom um tillöguna sat Daníel hjá.

„Ég var að reyna að búa til leið fyrir Í-listann að bæta málið en það kom fljótlega í ljós að Í-listinn vildi ekki styðja breytingarnar og því sat ég hjá,“ segir Daníel sem hefur talað eindregið gegn samningnum og finnst hann meðal annars vera allt of dýr. „Ég hefði verið til í að kyngja upphæðinni í skiptum fyrir betri vinnubrögð.“ Samflokksmenn hans í Sjálfstæðisflokknum studdu breytingartillöguna auk bæjarfulltrúa Framsóknarflokks. Tillagan var felld með atkvæðum Í-listans.

Ísafjarðarbær lætur í té 30 milljónir kr. til að reisa reiðskemmu í Engidal og til viðbótar koma 20 milljóna kr. bætur frá Vegagerðinni fyrir aðstöðumissi Hendingar á Búðartúni í Hnífsdal.

„Þetta er allt of opinn samningur og of margt sem er óljóst,“ segir Daníel. Ísafjarðarbær og Hending ætla að stofna með sér einkahlutafélag um byggingu reiðskemmunnar. „Það er ekki búið að ákveða hvernig hús á að byggja. Engin þarfagreining liggur fyrir og hvað þá skilalýsing. Það liggur ekki fyrir hvernig það á að koma sjálfboðavinnu hestamanna inn í einkahlutafélag því hún er skattskyld. Verður stofnuð byggingarnefnd eða mun stjórn einkahlutafélagsins ráða för er annað sem vekur upp spurningar. Ég óttast að bærinn sé að skrifa upp á óútfylltan tékka,“ segir Daníel.

smari@bb.is

 

Auglýsing

Júllinn í 50 ár

Júlíus Geirmundsson ÍS er undir meðalaldri flotans en í nóvember voru 28 ár frá því hann kom til heimahafnar á Ísafirði.

Skipsnafnið Júlíus Geirmundsson ÍS 270 hefur nú verið samfleytt við lýði í hálfa öld og fjögur skip borið það hingað til. Fyrsta skipið með þessu nafni kom til heimahafnar á Ísafirði þann 2. mars 1967 eða fyrir fimmtíu árum. Í samantekt Kristjáns G. Jóhannssonar, stjórnarformanns Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. kemur fram að lauslega áætlað hafa þessi fjögur skip að borið landi að landi rúmlega 200 þúsund tonn af fiski.

Fyrsta skipið var smíðað í Boizenburg í Austur-Þýskalandi. Fimm árum síðar kom næsta skip, sem var 407 lesta skuttogari sem var byggður í Flekkefjord í Noregi. Þriðja skipið sem bar nafnið Júlíus Geirmundsson ÍS 270 var 497 tonna skuttogari, sem fyrst kom til heimahafnar á Ísafirði 15. júní 1979. Tíu árum síðar kom núverandi Júlíus til Ísafjarðar og fyrsti flakafrystitogarinn en hann var smíðaður í Stettin í Póllandi.

Samantekt um Júllana fjóra

smari@bb.is

Auglýsing

Vekja athygli á endómetríósu

Gula slaufan til styrktar Samtaka um endómetríósu

Vika endómetríósu stendur nú yfir á landsvísu, en um er að ræða vitundarvakningu á samnefndnum sjúkdómi sem einnig er þekkt sem legslímuflakk. Zontasamtökin og þar á meðal Zontaklúbburinn Fjörgyn á Ísafirði er meðal þeirra sem styðja samtök um endómetríósu við framkvæmd vikunnar. Fjörgyn hefur að auki ákveðið að styrkja samtökin fjárhagslega og þá munu Safnahúsið og höfuðstöðsvar Orkubús Vestfjarða á Ísafirði vera með gula lýsingu af þessu tilefni dagana 4.-10. mars auk fleiri bygginga bæði á höfuðborgarsvæði og um landið.

Um 10% kvenna hafa endómetríósu eða um 176 milljónir kvenna í heiminum. Sjúkdómnum geta fylgt miklar kvalir og ýmsir erfiðir fylgikvillar, þar á meðal meltingarvandræði og ófrjósemi og er greiningartími sjúkdómsins almennt langur, en meðalgreiningartími er 7-8 ár. Stuðningur og fræðsla er meginverkefni Samtaka um endómetríósu sem vinna ötullega að því að fræða almenning og heilbrigðisstarfsfólk um sjúkdóminn. Margar konur með endómetríósu finna fyrir vantrú annarra og þurfa enn þann dag í dag að berjast fyrir viðurkenningu á líðan sinni og einkennum.

Nánari upplýsingar um sjúkdóminn og viku endómetríósu er að finna á vef samtakanna endo.is. Þar má kaupa söluvarning líkt og gulu slaufuna til styrktar samtökunum og þar má einnig finna upplýsingar um málþing sem haldið er í tilefni vitundarátaksins í hringsal Landspítalans á miðvikudag. Einnig er hægt að styrkja samtökin beint með því að leggja inn á 0336-26-2650 og kennitala: 711006-2650.

annska@bb.is

Auglýsing

Gefa frá sér unglingameistaramótið

Skíðasvæðið í Tungudal.

Unglingameistaramót Íslands á skíðum verður ekki haldið á Ísafirði. „Við treystum okkur ekki til að halda það vegna snjóleysis og neyðumst til að gefa það frá okkur. Það eru frábærar aðstæður á gönguskíðasvæðinu en það vantar talsverðan snjó til að halda mót í alpagreinum og snjóbrettum,“ segir Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, formaður Skíðafélagsins. Hólmfríður Vala segir þetta vissulega vera leiðinlega niðurstöðu því undirbúningur var kominn vel af stað og hugur í fólki. „Við erum búin að sækja um að halda landsmót á næsta ári og geri ráð fyrir að við sækjum um unglingameistaramót 2019,“segir hún.

smari@bb.is

Auglýsing

Telja sig vita hvaðan fiskurinn slapp

Regnbogasilungur veiddist í ám víða Vestfjörðum síðasta sumar og fram á haust.

Matvælastofnun hefur rökstuddan grun um hvaðan regnbogasilungur slapp úr kvíum síðasta sumar, en fiskur veiddist í ám víða á Vestfjörðum. Matvælastofnun telur að regnbogasilungurinn hafi ekki sloppið í gegnum göt á netum kvía. „Við höfum grun um hvaðan fiskurinn sem veiddist í sumar er ættaður en bíðum slátrunar úr kvíum til að fá haldbærari niðurstöður,“ segir Soffía Katrín Magnúsdóttir, eftirlitsmaður Matvælastofnunar með búnaði og kvíum eldisfyrirtækja í samtali við blaðamann Vísis. Málið er enn til rannsóknar hjá Matvælastofnun og er beðið átekta eftir því að fyrirtæki slátri fiski, þá koma afföll í kvíum í ljós.

Matavælastofnun telur ósennilegt að fiskurinn hafi sloppið í gegnum göt á kvíum. Ef stór göt væru á kvíum regnbogasilungs telur Matvælastofnun nær öruggt að það kæmi fram þegar kafarar kanna kvíarnar. „Við teljum frekar að einhvers konar handvömm starfsmanna hafi verið valdur þess að regnbogi slapp í sumar,“ segir Soffía Katrín.

smari@bb.is

Auglýsing

Norðaustanáttin ræður ríkjum næstu daga

Veðurstofa Íslands spáir norðaustan 8-15 m/s á Vestfjörðum í dag, en mun hægari vindi í kvöld og nótt. Á morgun verður veður með svipuðum hætti er gert er ráð fyrir norðaustan 8-13 m/s, en bætir í vind yfir daginn og annað kvöld má búast við 10-15 m/s. Það verða él og hiti í kringum frostmark. Svipaða sögu er að segja af spánni fyrir miðvikudag er spáin kveður á um norðaustan 10-15 m/s og snjókomu á Vestfjörðum.

Á vegum á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir. Eitthvað er um éljagang á fjallvegum og snjóþekja og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði.

annska@bb.is

Auglýsing

Reiðin kraumar í fólki

Flutningabílar lenda oft í vanda á Hjallahálsi í Gufudalssveit.

Niðurskurður ríkisstjórnarinnar á samgönguáætlun er áfall fyrir fyrirtæki og almenning á sunnanverðum Vestfjörðum. Niðurskurðurinn kemur langharðast niður á Vestfjörðum þar sem 1.200 milljónir króna sem voru á þessu ári eyrnamerktar Vestfjarðavegi um Gufudalssveit eru skornar niður að fullu, auk þess sem slegnar eru út af borðinu 400 milljónir króna sem fara áttu í vegbætur í Dynjandisheiði.

„Slegnar eru af framkvæmdir sem full sátt var um að þyrfti að ráðast í, og beðið hefur verið eftir árum saman, vegna Vestfjarðavegar,“ segir í ályktun Samtaka atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum. Þar segir einnig að samfélagið á sunnanverðum Vestfjörðum kraumi af reiði.

„Þótt 95 prósent af leiðinni til sunnanverðra Vestfjarða  sé malbikuð, þá eru þau 5 prósent sem út af standa í raun ófær og útiloka nánast flutninga með fólk og vörur. Helst mætti líkja þeim hluta við Kjalveg eins og hann var fyrir 30 árum síðan. Þannig eru þær vegbætur sem beðið hefur verið eftir alvarlegur þröskuldur í vegi áframhaldandi uppbyggingar og viðgangs bæði atvinnulífs og mannlífs á svæðinu,“ segir í ályktuninni.

Að mati Samtaka atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum skýtur það skökku við að ríkisvaldið ætli að draga lappirnar í vegagerð í landshluta sem er einn af fáum á landsbyggðinni þar sem ríkt hefur uppgangur eftir langvarandi stöðnun og íbúum hefur tekið að fjölga að nýju. „Íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum láta ekki bjóða sér þessa niðurlægingu,“ segir í lok ályktunarinnar.

smari@bb.is

Auglýsing

Meðalnemandinn kostar 1.750 þúsund

Meðal­rekstr­ar­kostnaður á hvern nem­anda í grunn­skól­um árið 2015 var 1.651.002 krón­ur og veg­in meðal­verðbreyt­ing rekstr­ar­kostnaðar frá 2015 til mars 2017 er áætluð 6,3%. Þetta kem­ur fram í út­reikn­ing­um Hag­stofu Íslands. Niður­stöður út­reikn­ings­ins eru því þær að áætlaður ár­leg­ur rekstr­ar­kostnaður á hvern nem­anda í grunn­skól­um, sem rekn­ir eru af sveit­ar­fé­lög­um, sé 1.755.187 krón­ur í mars 2017.

smari@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir