Föstudagur 11. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2334

Fjallað um málefni flóttafólks

Harfnhildur Kvaran

Hrafnhildur Kvaran, verkefnastjóri Reykjavíkurdeildar Rauða krossins í málefnum flóttafólks verður með erindi um málefni flóttafólks á aðalfundi Rauða krossins á Ísafirði á morgun, fimmtudag. Hrafnhildur kynntist móttöku flóttamanna fyrst árið 2007 er hún gerðist sjálfboðaliði við móttöku hópa frá Kólumbíu. Hún hefur því reynslu af málaflokknum bæði sem starfsmaður Rauða krossins og sem sjálfboðaliði. Víða um heiminn vinnur Rauði krossinn að málefnum flóttafólks og er málsvari þess. Á Íslandi vinnur félagið með stjórnvöldum að móttöku flóttafólks í samvinnu við sveitarfélög og vinnur fjöldi sjálfboðaliða Rauða krossins við að aðstoða fjölskyldur við að fóta sig í nýju samfélagi.

Á aðalfundi Ísafjarðardeildarinnar verður farið yfir þau fjölmörgu verkefni sem deildin vinnur að og má þar nefna skyndihjálp, neyðarvarnir, fatasöfnun, starf með heimsóknavinum, starf með eldriborgurum, starf í Vesturafli og fleiri verkefni í þágu samfélagsins.

Fundurinn hefst klukkan 18 í Fræðslumiðstöð Vestfjarða og eru allir velkomnir. Erindi Hrafnhildar verður í upphafi fundar.

annska@bb.is

Auglýsing

Kæru vegna slysasleppingar vísað frá

Kæru frá Landssambandi veiðifélaga, þar sem farið var fram á rannsókn á því hvort lög um fiskeldi hafi verið brotin í ljósi fjölda regnbogasilungs í ám á Vestfjörðum, hefur verið vísað frá lögreglurannsókn. Frá þessu er greint á vef RÚV. Kærunni var vísað frá meðal annars vegna þess að eftirlitsaðilar laganna, Matvælastofnun og Fiskistofa, hafa meintar sleppingar til rannsóknar.

Í kærunni vísaði Landssambandið til þess að samkvæmt lögum ber að tilkynna slysasleppingar án tafar til Fiskistofu en engin slík tilkynning barst og taldi sambandið óhugsandi að fiskur sleppi úr sjókvíum í þeim mæli sem vísbendingar eru um án vitundar rekstrarleyfishafa.

Fyrir skemmstu tilkynnti Arctic Sea Farm um talsverða slysasleppingu í Dýrafirði eftir að gat fannst á botni einnar kvíar fyrirtækisins. Var í fyrstu talið að regnbogasilungurinn sem veiddist í ám víða á Vestfjörðum hefði sloppið úr þessari kví. Við rannsókn útilokaði Matvælastofnun að um sama fiskinn sé að ræða, vegna mismunar á stærð  sem veiddist í ánum og þess sem var í kvínni.

smari@bb.is

Auglýsing

Smári lætur af störfum hjá Fræðslumiðstöðinni

Smári var leystur út með gjöfum er hann lét af störfum forstöðumanns Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Mynd: frmst.is

Smári Haraldsson forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða vann sinn síðasta dag hjá stofnuninni í gær, eftir tæp 16 ár í starfi. Smári tók við formannskeflinu árið 2001 af Jóhönnu Guðrúnu Kristjánsdóttur sem var fyrsti forstöðumaður Fræðslumiðstöðvarinnar sem stofnuð var árið 1999. Samstarfsfólk Smára kvaddi sinn gamla yfirmann með góðum gjöfum, fögrum orðum og ómældu knúsi er frá segir á vef Fræðslumiðstöðvarinnar. Svo var boðið til kaffisamsætis þar sem gestir gæddu sér á snittum og alvöru rjómatertum sem Smári hefur dálæti á frá kaffiboðum í Grunnavík.

Starfsfólk Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða kvaddi sinn góða yfirmann, Smára Haraldsson, er hann lét af störfum í gær. Mynd: frmst.is

Við starfi Smára tekur nýráðinn forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða Elfa Svanhildur Hermannsdóttir.

annska@bb.is

Auglýsing

Öskudagur í dag

Öskupokar. Mynd: Klæðakot

Öskudagur er í dag. Nafn hans má finna í handritum frá 14. öld, en þó má ætla að það sé eldra og er hann fyrsti dagur lönguföstu og hefur hann lengi verið mikilvægur í kaþólska kirkjuárinu. Nafnið er dregið af þeim sið að ösku af brenndum pálmagreinum frá árinu áður var dreift yfir höfuð iðrandi kirkjugesta, til að minna þá á forgengileikann og hreinsa þá af syndum sínum, en askan var talin búa yfir heilnæmum hreinsunarmætti. Það er kannski minna um hádramatískan hátíðleika á öskudegi Íslands í dag og hafa seinni tíma siðir falið í sér öllu meira fjör.

Vinsælt var á árum áður að hengja öskupoka aftan í fólk og var þá helsta trixið að gera það án þess að viðkomandi tæki eftir. Líklega var góð lukka fólgin í öskunni svipað og í kaþólskunni, og var henni haganlega komið fyrir í skrautlegum heimasaumuðum pokum. Eftir að aska hætti að vera aðgengileg á heimilum landsins var henni bara sleppt, en áfram saumaðir skrautlegir pokar, sem voru þannig útbúnir að í þá var hengdur spotti, oft úr tvinna, sem í var festur títuprjónn sem var hitaður yfir eldi og beygður til svo auðveldara reyndist að hengja hann aftan í fólk. Það má segja að þessi ágæti siður, sem telst ekki til tökusiða heldur er talinn eiga rætur sínar hér á landi, hafi nánast dáið út er farið var að framleiða títuprjóna sem ekki beygðust, sem gerði verknaðinn nánast ómögulegan.

Víða um landið er mikið fjör á öskudag þar sem börnin klæða sig upp í búninga og ganga í verslanir og fyrirtæki sérstaklega og fá sælgæti að launum fyrir söng. Þá eru oft grímuböll og kötturinn sleginn úr tunnunni, þar sem sælgætisfyllt fígúra er hengd í loftið og slegin með priki eða öðru barefli þar til hún gefur sig og sælgætið streymir út.

annska@bb.is

Auglýsing

Súðvíkingar vilja frekara samstarf

Súðavíkurhreppur verður neyddur til sameiningar verði tillögurnar að veruleika. Mynd: Mats Wibe Lund.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps tekur vel í ósk Ísafjarðarbæjar um að kanna möguleika á nánara samstarfi eða sameiningu sveitarfélaganna. Sótt verður um styrk úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem verður notaður til að gera úttekt á kostum og göllum sameiningar og samstarfs.

Í bókun áréttar sveitarstjórn Súðavíkurhrepps að á þessu stigi málsins er enginn sérstakur vilji sveitarstjórnar til sameiningar sveitarfélaganna.

Sveitarstjórn samþykkti samhljóða að sækja um fyrrgreindan styrk Jöfnunarsjóðs með Ísafjarðarbæ enda sé það „ábyrgt og faglegt að skoða reglulega möguleika í kringum sveitarfélagið til að efla það , auka þjónustu og velferð við íbúana. Afurð þessarar vinnu verður notuð til þess að rýna í þessa möguleika alla,“ segir í bókuninni og bent á að ákvörðun um sameiningu og verði alltaf tekin af íbúunum sjálfum.

Niðurstöður vinnunnar verður síðan kynnt á íbúafundi í Súðavík.

smari@bb.is

Auglýsing

Kjarasamningum verður ekki sagt upp

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ og Björgólfur Jóhannsson formaður SA kátir eftir undirritun kjarasamnings á almennum vinnumarkaði. Mynd: mbl.is

Niðurstaða forsendunefndar ASÍ og Samtaka atvinnulífsins vegna endurskoðunar kjarasamninga er að tvær af þremur forsendum standast en ein gerir það ekki. Sú snýst um launaþróun annarra hópa. Samninganefnd ASÍ hefur engu að síður, m.a. að undangengnum fundarhöldum í baklandi stéttarfélaganna, ákveðið að segja ekki upp núgildandi kjarasamningi.

Forsendurnar sem voru til skoðunar eru þessar:

  1. Fjármögnun stjórnvalda á stofnframlögum ríkisins til 2.300 almennra íbúða á árunum 2016-2019 eða að hámarki 600 á ári.
  2. Mat á því hvort sú launastefna og þær launahækkanir sem í samningnum fólust hafi verið stefnumarkandi fyrir aðra á vinnumarkaði (32% hækkun frá nóv 2013 – des 2018).
  3. Aukinn kaupmáttur á samningstímanum.

Að áliti nefndarinnar er ljóst að liðir 1 og 3 standast skoðun en liður 2 er forsendubrestur.

Rök samninganefndar ASÍ fyrir því að segja ekki upp samningum eru að ákveðin verðmæti séu í núgildandi samningi en samkvæmt honum verður 4,5% almenn launahækkun 1. maí og 1,5% hækkun á mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð þann 1. júlí. Að auki er lítill áhugi á því að almenni markaðurinn fari fyrstur í þeim kjaraviðræðum sem framundan eru, en mörg opinberu félaganna eru með lausa samninga síðar á þessu ári.

smari@bb.is

Auglýsing

Skyldu bræður öskudags verða átján?

Kalt og fallegt veður verður á Vestfjörðum í dag, en spáð er austan 3-8 m/s og léttskýjuðu á Vestfjörðum og verður frost á bilinu 0 til 8 stig. Í dag er öskudagur og gamlar, íslenskar alþýðuveðurspár kveða á um að öskudagur eigi sér átján bræður í veðurfari og ættu því Vestfirðingar að horfa glaðir fram veginn – veðurfarslega. Veðurspá Veðurstofu Íslands tekur nánast undir þetta með spá sinni næstu tvo daga þar sem áfram á að vera hæg austlæg eða breytileg átt og víða léttskýjað. Frost verður 0 til 10 stig og má segja að hver dagur þessa vikuna sé afrit af hinum fyrri. Helgarveðrið virðist ætla að vera með svipuðu sniði á Vestfjörðum þó það taki meiri breytingum annarsstaðar á landinu.

Þessa vísu um öskudag má finna í Íslenzkum þjóðháttum eftir Jónas Jónasson:

Öskudagsins bjarta brá

bætti úr vonargögnum,

þar hann bræður átján á,

eptir gömlum sögnum.

annska@bb.is

Auglýsing

Kerecis sækir um þrjár lóðir

Lækningavörufyrirtækið Kerecis hf. hefur sótt um þrjár lóðir á Suðurtanga á Ísafirði. Lóðirnar eru við Æðartanga 6, 8 og 10, en Æðartangi eru gata í nýlegu deiliskipulagi á Suðurtanga. Guðmundur Fertram Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Kerecis, segir að ekki hafi verið tekið endanleg ákvörðun um húsbyggingar. „Lóðirnar eru veittar með skilyrðum sem við eigum eftir að fara yfir og athuga hvort að eru ásættanlegar,“ segir Guðmundur. Starfsemi Kerecis á Ísafirði er í Íshúsinu. Verði af húsbyggingu á Suðurtanga verður húsnæðið í stað þess sem fyrirtækið er með í Íshúsinu, en Guðmundur segir að nokkuð sé farið að þrengjast um Kerecis með meiri umsvifum í húsinu tengdu fiskeldi.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur mælt með við bæjarstjórn að fyrirtækið fái lóðirnar. Lóaúthlutunin fellur úr gildi hafi teikningar ekki borist Ísafjarðarbæ innan 6 mánaða og framkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá úthlutun.

smari@bb.is

Auglýsing

Gistinóttum á Vestfjörðum og Vesturlandi fjölgar um 62%

Gistinætur á hótelum hér á landi í janúarmánuði voru 281.400 sem er 43% aukning miðað við janúar 2016. Gistinætur erlendra gesta voru 89% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 47% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 17%. Í tölum Hagstofunnar sem birtar voru í dag má sjá að aukningin á Vesturlandi og Vestfjörðum sem teknar eru saman í flokki var 62% á milli ára, í fyrra voru skráðar gistinætur í janúarmánuði 3.901        og í ár voru þær 6.311, ekki er boðið upp á sundurliðaðar tölur á milli landshlutanna og nær talningin einungis til hótela sem opin eru allt árið.

Flestar gistinætur á hótelum í janúar voru á höfuðborgarsvæðinu eða 206.500 sem er 30% aukning miðað við janúar 2016. Um 73% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu. Á tólf mánaða tímabili frá febrúar 2016 til janúar 2017 var heildarfjöldi gistinátta á hótelum 3.907.600 sem er 34% aukning miðað við sama tímabil árið áður. Á sama tíma var aukningin á Vestfjörðum og Vesturlandi 42%, þar sem skráðum gistinóttum fjölgaði úr 122.921 í 173.945.

Nánar um gistináttafjölda má lesa á vef Hagstofunnar.

annska@bb.is

Auglýsing

Bolvíkingar andsnúnir opinberri umræðu um sameiningarmál

Gísli Halldór Halldórsson.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, vísar á bug gagnrýni Baldurs Smára Einarssonar, formanns bæjarráðs Bolungarvíkur, á vinnubrögð sín varðandi þreifingar sveitarfélaganna við Djúp um aukna samvinnu og mögulega sameiningu. Gísli Halldór segir í samtali við bb.is að upphaf málsins megir rekja til þess að ráðgjafafyrirtæki í Reykjavík hafi sent erindi til sín þar sem á það var bent að mögulegt væri að sækja um fjárframlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að láta fara fram vinnu þar sem kostir og gallar sameiningar og samvinnu sveitarfélaga yrðu dregnir fram. Hann segir að sveitarstjórnarfólk hafi verið að ræða sín á milli möguleika til samstarfs og sameiningar mest allt kjörtímabilið. „Að minnsta kosti hafa sveitarstjórnarmenn frá Ísafjarðarbæ og Súðavíkurhreppi gert það. Þegar þessi tillaga berst frá ráðgjafarfyrirtækinu þá þótti mér engin ástæða til að stinga henni undir stól eða fela hana með einum eða öðrum hætti. Ég kynnti hana því í tölvupósti fyrir sveitarstjóranum í Súðavík og bæjarstjóranum í Bolungarvík. Þá kom í ljós að ekki virtist mega ræða málið opinberlega án þess að valda óánægju ráðamanna í Bolungarvík,“ segir Gísli Halldór.

Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í gær var samþykkt að sækja um fyrrgreint fjárframlag Jöfnunarsjóðs og bjóða Súðavíkurhreppi til samstarfs. „Það átti að taka tillöguna fyrir fyrr, en við frestuðum því til að geta fundað óformlega með Bolvíkingum.  Á hinum óformlega fundi var ég af Bolvíkingum rukkaður um svör við því hvernig tillagan hefði borist mér og athugasemdir gerðar við aðdraganda málsins. Ég reyndi bara að útskýra fyrir fundinum hvaðan og hvernig fyrirliggjandi tillaga að nálgun hefði borist,“ segir Gísli Halldór og hafnar því að hafa mætt á fundinn með „allt tilbúið“ fyrir Bolvíkinga að kvitta uppá eins og Baldur Smári sagði í samtali við bb.is í gær.

Gísli Halldór segir að tillagan ráðgjafafyrirtækisins sé eins og hver önnur tillaga sem sveitarstjórnarmönnum er frjálst að taka afstöðu til eins og þeim sýnist. „Ég á enga persónulega hagsmuni í þessum sameiningarmálum, nema sem almennur íbúi. Þar að auki hef ég engin völd til að taka ákvarðanir í slíkum málum. Hinsvegar hef ég sem bæjarstjóri tillögurétt fyrir bæjarstjórn og nefndum og ráðum bæjarins. Ef einhverjum líður betur með að ráðast á sendiboðann heldur en að þurfa að horfast í augu við skilaboðin þá verður bara svo að vera.“

Að sögn Gísla Halldórs hefur í samtölum sveitarstjórnarfólks í Ísafjarðarbæ og í Súðavíkurhreppi komið skýrt fram að sveitarfélögin eiga mikla sameiginlega hagsmuni af því að vel takist til með fyrirliggjandi uppbyggingu í ferðaþjónustu og fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. „Ísafjarðarbær er með stóra og öfluga stjórnsýslu í samanburði við nágrannasveitarfélögin og hefur auk þess náð frábærum árangri í skólastarfi og félagsþjónustu.“

Gísli Halldór segir að það sé alveg réttmæt að gagnrýna hvernig til tókst með sameiningarnar 1996 þegar sex sveitarfélög sameinuðust í Ísafjarðarbæ. „Við erum á þessu kjörtímabili að gera eins og hægt er til að bæta fyrir það sem ekki hefur heppnast nógu vel,“ segir hann og bætir við að ef fram fer skoðun á kostum og göllum sameiningar á yfirstandandi kjörtímabil þá verður fyrri reynsla af sameiningum alveg örugglega notuð sem mælistika og þess gætt að falla ekki aftur í sömu gryfjurnar.

„Það er hinsvegar nauðsynlegt að horfast í augu við verkefnið og leita allra leiða sem færar kunna að vera til að færa íbúum aukna hagsæld, betra samfélag og betri þjónustu. Hvort það felst í sameiningu eða ekki verður bara að koma í ljós og endanleg ákvörðun liggur auðvitað alltaf hjá íbúunum, en ekki einhverjum bæjarstjórum,“ segir Gísli Halldór Halldórsson að lokum.

smari@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir