Síða 2334

Háskólanámsferðir og áhrif þeirra í Vísindaportinu

Hér má sjá Back Hale ásamt nemendum í vettvangsferð á hans vegum í Þýskalandi. Mynd: uw.is

Í Vísindaporti vikunnar hjá Háskólasetri Vestfjarða fjallar Brack Hale, prófessor í umhverfisfræði við Franklin University í Sviss, um rannsóknarverkefni sitt þar sem hann kannar áhrif háskólanámsferða erlendis á umhverfi. Á síðustu áratugum hafa tvær stefnur verið að ryðja sér mjög til rúms í æðri menntastofnunum víða um heim; annarsvegar er það sjálfbærni, þar sem unnið er að því að gera jafnt háskólaumhverfi sem námsefni umhverfisvænna, hinsvegar eru það námsferðir, þ.e. námskeið þar sem nemendur ferðast til annarra landa, en þeim fjölgar stöðugt. Því miður hafa þessar stefnur fest sig í sessi óháðar hvor annarri. Kannanir benda til þess nemendur njóti góðs af slíkum ferðum til langs tíma en ekki er ljóst hvaða áhrif heimsóknirnar hafa á áfangastaðina og umhverfi þeirra.  Brack tekur Vestfirði sem dæmi í rannsóknarverkefni sínu til að skilja betur áhrif slíkra ferða á umhverfið.

Brack Hale er um þessar mundir í rannsóknarleyfi við Háskólasetur Vestfjarða. Hann er dósent í umhverfisfræði við Franklin University í Sviss þar sem hann er einnig forstöðumaður Sjálfbærnimiðstöðvarinnar við skólann. Hann kemur regulega með nemandahópa frá Franklin til Íslands og Vestfjarða.  Brack lauk M.E.M. frá Nicholas School of Environment við Duke University í Bandaríkjunum og hann er með doktorspróf frá Nelson Institute for Environmental Studies við University of Wisconsin-Madison.

Vísindaportið öllum opið og stendur frá 12.10-13.00. Að þessu sinni fer fyrirlesturinn fram á ensku.

annska@bb.is

Undirskriftasöfnun gegn áfengisfrumvarpi

IOGT á Íslandi hefur sett af stað undirskriftasöfnun gegn frumvarpi um að leyfa frjálsa sölu áfengis og áfengisauglýsingar. Yfirskrift söfnunarinnar er Allraheill, hugsum um heill okkar allra og er ætlunin að vernda haga barna og ungmenna gegn ágangi áfengisiðnaðarins.

Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir að rannsóknir sýni að aukið aðgengi að áfengi og áfengisauglýsingar stuðli að aukinni neyslu sem bitnar mest á börnum og unglingum. Málið snúast því jafnmikið um frelsi þeirra til að geta farið í matvöruverslun án þess að sjá þar áfengi og um frelsi í viðskiptum.

Í tilkynningunni kemur ennfremur fram að samkvæmt 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna beri okkur að setja hagsmuni barna í forgang þegar taka þarf ákvörðun sem hefur áhrif á börn með einum eða öðrum hætti. Hagsmunir barna af því að njóta verndar gegn skaðlegum áhrifum áfengis eiga því að vega þyngra en hugsanlegir hagsmunir fullorðinna af því að geta keypt áfengi í matvöruverslunum.

Hægt er að taka þátt í söfnuninni hér.

bryndis@bb.is

„Seyoum is my brother“

Það er talsvert langt á milli Patreksfjarðar og Eritreu, ekki bara í metrum talið heldur líka í menningu en það hindraði ekki börnin í Patreksskóla að setja sig í spor jafnaldra sinna í þessu fjarlæga landi. Rut Einarsdóttir hitti krakkana í skólanum og sagði þeim frá ástandinu í Eritreu, þar væru mannréttindi fótum troðin, jafnvel meira en í nokkru öðru landi í heiminum.

Árið 1991 fékk Eritrea sjálfstæði frá Eþíópíu (og alþjóðlega viðurkenningu árið 1993), eftir 30 ára borgarastyrjöld. Var því fögnuðurinn mikill og þjóðin bjartsýn á betri tíma. Isaias, var leiðtogi flokksins sem leiddi þjóðina til sjálfstæðis, og greip því völd var yfirlýstur fyrsti forseti Eritreu. Kosningar hafa ekki verið haldnar síðan og ræður flokkur hans ríkjum við mikla harðstjórn. Árið 2001 tóku Seyoum, og 10 aðrir blaðamenn saman skýrslu um ástandið í landinu, en sú skýrsla varð til þess að þeir voru allir settir í fangelsi og hefur ekki heyrst frá þeim síðan. Eiginkona Seyoum var komin 7 mánuði á leið þegar þetta átti sér stað, og hefur Seyoum því ekki enn séð 16 ára gamalt barn sitt, og það aldrei hitt föður sinn.

Til þess að vekja athygli á þessu talaði Rut við 5. – 10. bekk í Patreksskóla sem öllum fannst þetta einstaklega óréttlátt og vildu ólm leggja sitt af mörkum til þess að reyna að sporna við þessari þróun, og vekja athygli á málinu. Rut sagði nemendunum í Patreksskóla líka frá því þegar hún var sjálf í Egyptalandi í fyrra og kynntist þar manni sem hefur farið nokkrum sinnum til Eritreu í mannúðarstarf. Það er aftur á móti ólöglegt, og þarf hann því að bóka herbergi á að minnsta kosti 8 hótelum, og fara þeirra á milli til þess að vera ekki gómaður af ríkisstjórninni þar í landi fyrir að hjálpa fólkinu í landinu.

Krakkarnir tóku heilshugar þátt í verkefni sem kallað er „Seyoum is my brother“ og hér má nálgast myndir og myndbönd af þeim með skilaboð til Seyoums.

bryndis@bb.is

53 verkefni hljóta styrk úr Uppbyggingarsjóði

Úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða hefur nú lokið við að fara yfir umsóknir um styrki vegna ársins 2017 og stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga hefur staðfest tillögu nefndarinnar um úthlutun. Samtals eru um 65 milljónir til úthlutunar til margvíslegra verkefna og uppbyggingar á Vestfjörðum, en hluta þeirrar upphæðar hefur þegar verið ráðstafað í styrkjum sem eru ákveðnir til tveggja eða þriggja ára.

Á vef Fjórðungssambands Vestfirðinga segir að mörg verkefni sem fá framlög í ár séu sérstaklega áhugaverð og umsóknir fjölbreyttar. Fjármagn Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða er hluti af samningi Fjórðungssambands Vestfirðinga við stjórnvöld um framkvæmd Sóknaráætlunar Vestfjarða 2015-2019. Alls var úthlutað 45,1 milljón króna. Framlög þessarar úthlutunar skiptast þannig að kr. 32.700.000 kr. er ráðstafað í verkefnastyrki, þar af 8.300.000 kr. til atvinnu- og nýsköpunarverkefna, en 12.400.000 kr. eru merktar stofn- og rekstarstyrkjum til menningarstofnana. Ákveðið var að þessu sinni að veita samtals 53 styrki, en umsóknir voru 100. Framlögin skiptast í 49 verkefnastyrki og 4 stofn- og rekstrarstyrki til menningarstofnana. Styrktarupphæðir eru á bilinu 200 þúsund til 5 milljóna, en meðalupphæð framlaga er um 850.000 kr.

Auglýst verður eftir umsóknum í Uppbyggingarsjóð í vor vegna annarrar úthlutunar ársins 2017. Þá verða til ráðstöfunar um 10 milljónir króna.

Í flokki stofn- og rekstrarstyrkja eru til úthlutunar 12.400.000 kr. eru veittir 4 styrkir sem skiptast þannig:

  • 4.000.000 kr – Rekstur Edinborgarhússins ehf (til eins árs)
  • 3.500.000 kr – Galdrasýning á Ströndum (til eins árs)
  • 2.500.000 kr – Melrakkasetur Íslands (til þriggja ára)
  • 2.400.000 kr – Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum ehf (til eins árs)

Stærri verkefnisstyrkir(1.200.000 kr og stærri), 14 styrkir upp á alls 17.700.000 kr. sem skiptast þannig:

1.500.000 kr

  • Vöruþróun og aðlögun vöruframboðs fyrir nýja markaði (Hafkalk ehf)
  • Act alone 2017
  • Aldrei fór ég suður 2017

1.200.000 kr

  • Ég var aldrei barn, sýning um Karítas Skarphéðinsdóttur (Byggðasafn Vestfjarða)
  • Náttúrubarnaskóli – tilraunir og uppbygging (Sauðfjársetur á Ströndum)
  • Menningarmiðstöðin Edinborg
  • Listasafn Samúels (til þriggja ára)
  • Skóbúðin – hversdagssafnið (Björg Sveinbjörnsdóttir) (til tveggja ára)
  • Snjóflóða og fræðasýning á Ísafirði (Kristín Halfdánsdóttir)
  • Saga Flóka Vilgerðarsonar á Íslandi (Frændgarður ehf)
  • Steinshús og Snjáfjallasetur – menningarferðaþjónusta norðan Djúps (til þriggja ára)
  • Melódíur minninganna á Bíldudal (Jón Kr. Ólafsson)
  • Rekjanleiki lambakjöts frá beitilandi til neytenda (Náttúrustofa Vestfjarða) (til þriggja ára)
  • The Tank (Yasuaki Tanago og Simbahöllin)

Minni verkefnisstyrkir(undir 1.200.000 kr), 35 styrkir upp á alls 15.000.000 kr. sem skiptast þannig:

1.000.000 kr 

  • Vöruþróun og markaðssetning fyrir næringarefni og húðvörur úr þara og þangi (Gullsteinn ehf)

800.000 kr 

  • Frönsku fiskimennirnir og gamli tíminn – sýning, rannsóknir og heimildaöflun (Látraröst ehf)

700.000 kr

  • Sögur úr sjávarbyggð: Rafræn leiðsögn um Flateyri og Önundarfjörð (Hús og fólk, Flateyri)
  • Vestfirska vorið (Perlur fjarðarins ehf)
  • Þróun og markaðssetning á Litlabyli Adventures (Litlabyli Guesthouse ehf)

600.000 kr

  • Greining á þörf fiskeldisfyrirtækja fyrir rannsóknaþjónustu (Náttúrustofa Vestfjarða)
  • Síðasta haustið – heimildamynd (Síðasta haustið ehf)
  • Uppbyggingarstarf ungmenna í Vesturbyggð (Rut Einarsdóttir)

500.000 kr

  • Landsmót harmonikkuunnenda á Ísafirði 2017 (Harmonikkufélag Vestfjarða)
  • Landsmót Kvennakóra 2017 (Kvennakór Ísafjarðar)
  • Gísla saga – Víkingaskáli og upplifunarsetur (Marsibil G Kristjánsdóttir)
  • ArtsIceland og Gallerí Úthverfa (kol&salt ehf)
  • Skrímsli í 3-D (Félag áhugamanna um skrímslasetur)

400.000 kr

  • Tónleikaröð Tónlistarfélags Ísafjarðar
  • Sumarskóli í vistvænum arkitektúr (Stofnun Rögnvaldar Á Ólafssonar)
  • Gamanmyndahátíð Flateyrar 2017 (Kvikmyndafélagið Gláma)
  • Blús milli fjalls og fjöru (Sigurjón Páll Hauksson)
  • Þegar vatnið fraus – sérsýning um heita vatnið á Drangsnesi (Aðalbjörg Óskarsdóttir)
  • Tengsl Íslands og Grænlands á fyrri hluta 20. Aldar (Safnahúsið Ísafirði)
  • Sumardagskrá Minjasafnsins að Hnjóti
  • Hjartanshjallur (Halla Ólafsdóttir)

300.000 kr

  • List á Vestfjörðum, kynningarrit Félags vestfirskra listamanna.
  • Tónlist með bátavélum (Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum ehf)
  • Sætt & Salt súkkulaði (Elsa G Borgarsdóttir)
  • Vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar Þingeyri
  • Hornstrandir – myndir og minningar (Johanne Verbockhaven)
  • Fjölskyldan saman, 5 steinar í Reykhólahreppi (Jóhanna Ösp Einarsdóttir)
  • Arnbjörn – Kvikmyndahandrit í fullri lengd (Eyþór Jóvinsson)
  • Vestfirska þjóðfræðivefjan (Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa)

200.000 kr

  • Yfirfærsla gamalla hljóðrita vestfirskra tónlistarmanna á stafrænt form (Tónlistarskóli Ísafjarðar)
  • Allt annað en drasl – POP-UP endurvinnslustöð (Hanna Jónsdóttir)
  • Morð fyrir tvo (Kómedíuleikhúsið)
  • Dýrin í Hálsaskógi (Höfrungur leikdeild)
  • Þjóðleikur á Vestfjörðum 2017 – leiklistarverkefni ungs fólks
  • Uppsetning á leikriti (Litli leikklúbburinn)

annska@bb.is

 

Fasteignamat sumarbústaða og öryggisnúmer

Mynd úr safni

Þjóðskrá Íslands hefur frá árinu 2009 unnið að endurskoðun á aðferðarfræði fasteignamats fyrir allar tegundir eigna sem endurspeglar betur en eldri aðferðir markaðsverð fasteigna á hverjum tíma. Árið 2009 var tekin upp ný aðferðarfræði fyrir íbúðareignir og árið 2014 voru nýjar aðferðir teknar upp við mat á þorra atvinnuhúsnæðis. Aðferðir fasteignamats fyrir sumarbústaði verða endurskoðaðar í næsta fasteignamati sem kynnt verður í júní 2017 og mun gilda fyrir árið 2018.

Nýjar matsaðferðir sumarbústaða fela í sér tengingu kaupsamninga við eiginleika sumar-bústaða svo sem stærðir og byggingarár. Helsta breyting frá núverandi matsaðferðum felst í því að staðsetning eigna og nálægð við þjónustu mun skipta meira máli en hún gerir nú.

Ástand og gæði sumarbústaða hafa einnig talsverð áhrif á markaðsverð þeirra. Gert er ráð fyrir að meðalástand og meðalgæða allra bústaða nema skoðun hafi nýlega farið fram.

Eigin skoðun eiganda

Eiganda sumarbústaðar verður gert kleyft að skila sjálfur inn upplýsingum um ástand og gæði með því að fylla út eyðublað á skrá.is.  Það á helst við ef ástandi er ábótavant eða ef bústaður hefur verið mikið endurnýjaður, mikið hefur verið gert fyrir lóðina eða ef byggt hefur verið við hann án þess að það sé skráð í fasteignaskrá. Eigandi skilar þá  inn textalýsingu ásamt ljósmyndum af bústaðnum. Þjóðskrá Íslands mun síðan nýta þessar upplýsingar til þess að endurbæta matsforsendur bæði fyrir fasteignamat og brunabótamat. En bunabótamat er vátryggingafjárhæð brunatryggingar og þarf því að endurspegla raunverulegt kostnaðarverð bústaðarins.

Landssamband sumarhúsaeigenda og Þjóðskrá Íslands hafa tekið höndum saman að kynna eigin skoðun sumarbústaða fyrir eigendum þeirra.

 Hægt er að nálgast skoðunareyðublaðið hér

Eigandi getur skilað útfylltu eyðublaði beint úr sumarbústaðnum ef nettenging er til staðar.

 Öryggisnúmer sumarbústaða

Öryggi neyðarnúmeranna hefur margoft sannað sig og að mati Þjóðskrár Íslands og Landsambands sumarhúsaeigenda er nauðsynlegt er að koma á skyldu samkvæmt lögum að hafa öryggisnúmer á öllum sumarbústöðum á landinu. Eftir er að merkja rúma 6 þúsund bústaði af þeim 13 þúsundum bústaða sem eru á landinu.

bryndis@bb.is

Þungatakmörkunum aflétt

Slitlag getur farið illa í tíð eins og hefur verið ríkjandi í vetur.

Þeim sérstöku þungatakmörkunum sem verið hafa í gildi á þjóðvegum á Vestfjörðum og í Dölum verður aflétt fimmtudaginn 23. febrúar kl. 8.  Vegna hættu á slitlagsskemmdum hefur ásþungi verið takmarkaður við 10 tonn frá því byrjun mánaðarins á nær öllum vegum á Vestfjörðum.

smari@bb.is

Hæpið að tala um lélega kjörsókn sjómanna

Þátttaka í atkvæðagreiðslu sjómanna um kjarasamningin getur ekki talist lág að mati Sjómannasambands Íslands. Eftir atkvæðagreiðslu um kjarasamning sjómanna og útvegsmanna hefur verið nokkur umræða um þátttökuna í atkvæðagreiðslunni og því haldið fram að þátttakan hafi verið léleg þar sem 53,7% þeirra sem voru á kjörskrá tók þátt í kosningunni. Tíminn sem menn höfðu til að greiða atkvæði var stuttur, en sjómenn voru í verkfalli og því flestir tiltækir enda gat deilan leysts með stuttum fyrirvara.

Að mati Sjómannasambands Íslands er hæpið að tala um lélega kjörsókn í atkvæðagreiðslunni þegar kjörsókn er borin saman við fyrri atkvæðagreiðslur.

Áður en sjómenn samþykktu kjarasamninginn höfðu þeir tvívegis fellt samninga. Í ágúst lauk mánaðarlangri atkvæðagreiðslu um kjarasamning sem var undirritaður í júní. Kjörsókn var 38,5% og sjómenn felldu samninginn með 66% atkvæða.

Atkvæðagreiðsla um verkfall var mánaðarlöng og lauk þann 17. október með 54,2% þátttöku og var verkfall samþykkt með miklum meirihluta atkvæða.

Þann 14 nóvember var undirritaður annar kjarasamningur og atkvæðagreiðslu sjómanna lauk með 60,4% þátttöku þar sem samningarnir voru felldir.

Að framansögðu segir Sjómannasambandið að það teljist hæpið að tala um dræma þátttöku í atkvæðagreiðslu sjómanna um helgina.

smari@bb.is

Málþing um menningartengda ferðaþjónustu á Hólmavík

Náttúrubarnaskólinn er meðal þess sem fjallað verður um á málþinginu. Mynd af Fésbókarsíðu skólans.

Málþing um menningartengda ferðaþjónustu verður haldið á Restaurant Galdri á Hólmavík á morgun, fimmtudag. Á málþinginu láta bæði heimamenn á Ströndum og nemendur í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands ljós sitt skína og segja frá margvíslegum verkefnum. Málþingið er haldið í tengslum við heimsókn háskólanema í námskeiðinu Menningartengd ferðaþjónusta, en þeir dvelja tvær nætur á Ströndum, þar sem þeir skoða sig um, heimsækja söfn, sýningar og sögustaði.

Meðal fyrirlesara á málþinginu eru Skúli Gautason menningarfulltrúi Vestfjarða sem fjallar um uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu á Vestfjörðum, Esther Ösp Valdimarsdóttir mannfræðingur og tómstundafulltrúi Strandabyggðar sem fjallar um bæjarhátíðina Hamingjudaga og fleiri hátíðahöld í Strandabyggð, Hafdís Sturlaugsdóttir landnýtingarfræðingur sem fjallar um menningarverkefni á vegum Náttúrustofu Vestfjarða og Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur sem fjallar um Náttúrubarnaskólann. Einnig flytja nemendur í hagnýtri menningarmiðlun fjórar kynningar á verkefnum sem þeir hafa unnið í tengslum við námskeiðið syðra. Málþingið er opið öllum sem áhuga hafa, það hefst klukkan 12:10 og verður súpa frá Restaurant Galdri á boðstólum.

Það er Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa sem stendur fyrir móttöku hópsins og málþinginu í samvinnu við Strandagaldur og Sauðfjársetur á Ströndum. Frá þessu var greint á Strandavefnum.

annska@bb.is

Um fiskeldi – meiri hagsmunir fyrir minni sérhagsmuni.

Magnús Reynir Guðmundsson

Síðustu ár hefur fiskeldi á suðursvæði Vestfjarða vakið verðskuldaða athygli.Bjartsýni íbúa á þessu svæði hefur aukist og íbúar annarra svæða á Vestfjörðum hafa fylgst með áformum um frekara fiskeldi, m.a. í Ísafjarðardjúpi.

Enginn vafi  virðist vera á því að fiskeldi í stórum stíl geti haft mjög jákvæð áhrif á byggðaþróun á Vestfjörðum. Strandlengja Vestfjarða er u.þ.b. 1/3 hluti af strandlengju Íslands, tæplega 2.000 km. af  6.000 km. Vestfirðingar hafa gert sér grein fyrir þeim miklu möguleikum sem firðir þeirra og flóar geta haft í framtíðinni, m.a. í fiskeldi og ferðamennsku. Sveitarstjórnir á Vestfjörðum og víðar um land hafa þó bent á, að úthlutun þessara gæða er ekki í  þeirra höndum, heldur hjá ríkisstofnunum suður í Reykjavík. Þessu þarf að sjálfsögðu að breyta þannig, að sveitarstjórnirnar fái skipulagsvald og úthlutunarrétt  gæðanna, sem liggja við bæjardyrnar. Ekki er verið að krefjast þess að faglega hliðin, t.d. varðandi fiskeldið, verði ekki háð almennum landslögum hvað varðar umhverfi og eftirlit, en ráðstöfunarréttur verði alfarið í höndum heimafólks í gegnum sveitarstjórnir sínar.

Töluvert hefur borið á því að sjálfskipaðir sérfræðingar á borð við Orra nokkurn Vigfússon, sem virðist hafa það sem aðaláhugamál þessi misserin að koma íslenskum bújörðum í hendur breskra auðkífinga, reki skefjalausan áróður gegn fiskeldi á Vestfjörðum og þar með gegn atvinnuuppbyggingu og jákvæðri þróun byggðar á svæðinu. Þingmenn Norðvesturkjördæmis og sveitarstjórnarfólk á Vestfjörðum verða nú að taka höndum saman og verjast óvinum landsbyggðarinnar á borð við Orra Vigfússon, „landsölumanninn“ sem kemur nú hverri  laxveiðiánni á fætur annarri í hendur breskra milljarðamæringa.

Magnús Reynir Guðmundsson

Framtíð Act alone í hættu

Frá Act alone síðasta sumar er Elfar Logi Hannesson og Þröstur Leó Gunnarsson kynntu einleik sinn um einbúann Gísla á Uppsölum

Ef ekki kemur til aukins fjármagns til einleikjahátíðarinnar Act alone getur svo farið að hátíðin leggist af. Þetta kemur fram í bréfi Elfars Loga Hannessonar sem dregið hefur vagn hátíðarinnar sem tekið var fyrir á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í vikunni. Þar segir Elfar Logi reksturinn í járnum og allt benda til þess að dagar hátíðarinnar séu taldir. Hátíðin var haldin í þrettánda sinn síðasta sumar og segir Elfar Logi að þó hátíðin sé kominn á táningsaldur hafi fjármögnun hennar gengið erfiðlega. Segir hann jafnframt sárast að Menningarmálaráðuneytið hafi einungis styrkt hátíðina einu sinni, en það hafi á sama tíma styrkt aðrar listahátíðir á höfuðborgarsvæðinu og segir Elfar Logi vandamálið í raun risavaxið þar sem staða atvinnulistar á landsbyggðinni sé mjög bágborinn og njóti ekki skilnings innan ráðuneytisins og spyr hann hvort þetta sú byggðastefna sem við viljum viðhafa? Að hafa listalausa landsbyggð? Stjórnendur Act alone hafa óskað eftir fundi með Menningarmálaráðherra, en ekki borist svar við beiðninni.

Í bréfinu segir nú svo komið að Act alone verði ekki haldin nema fjárhagur þessi verði tryggður. Aðstandendur hafa rætt þann möguleika að færa hátíðina annað, fáist þar fjármagn, en segja jafnframt að þeir trúi að hátíðin skipti máli, ekki bara fyrir Vestfirði heldur og listalíf allt. Líkt og þeir vita sem sótt hafa hátíðina hefur mikill metnaður verið lagður í hana og hefur hún sett sterkan svip á menningarlíf á Vestfjörðum.

Í bréfinu leitar Act alone til Ísafjarðarbæjar um aukin fjárframlög með það fyrir augum að halda megi hátíðina í sumar líkt og síðustu sumur í sveitarfélaginu, en hún var fyrstu árin haldin á Ísafirði, en síðustu ár hefur hún verið haldin á Suðureyri. Bæjarráð fól bæjarstjóra að ræða við forsvarsmenn Act Alone um endurnýjun samnings vegna hátíðarinnar, en síðustu tvö ár hefur hátíðin hlotið 500.000.- króna styrk hvort ár.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir