Síða 2333

Bankar halda fasteignaverði niðri

Húsnæðisskortur er víða landsbyggðinni og þrátt fyrir það hefur fasteignaverð ekki hækkað í samræmi við eftirspurnina. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag. Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri og fyrrv. stjórnarformaður Byggðastofnunar, tekur Bíldudal sem dæmi, en þar hefur um nokkurt skeið verið uppgangur í atvinnulífinu. „Bankarnir, sérstaklega Íbúðalánasjóður, hafa verið rosalega tregir. Ef þú kemur með kaupsamning sem er með hærra verði en hugmynd bankans um hvað hús á þessu svæði kostar, þá neita þeir að viðurkenna hann. Vítahringurinn sem þú situr svo fastur í er að á meðan fasteignaverðið er lægra en byggingakostnaðurinn þá byggir enginn.“

Friðbjörg Matthíasdóttir, starfandi sveitarstjóri í Vesturbyggð, nefnir dæmi um fasteignakaup á Bíldudal. „Jafnvel þó komið væri á samkomulag á milli seljanda og kaupanda upp á 20 milljónir þá sagði bankinn að honum þætti húsið ekki meira virði en 15 milljónir og lánaði þá bara fyrir því.“ Undanfarið hafa ýmis störf verið auglýst í Vesturbyggð en húsnæðisskortur er viðvarandi. „Það er dálítið erfitt að horfa upp á að það vantar húsnæði fyrir íbúa en á meðan sjáum við góð fjölskylduhús notuð sem sumarhús í eina til tvær vikur á ári.“

smari@bb.is

Vonskuveður á landinu

Í dag verður vonskuveður á landinu og er óveðrið heldur fyrr á ferðinni en gert var ráð fyrir. Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar eru í viðbragðsstöðu vegna veðursins og þegar byrjaðir að sinna útköllum og hefur öllu innanlandsflugi hjá Flugfélagi Íslands verið aflýst í dag. Veðurhamurinn verður einna minnstur á Vestfjörðum, þó talsvert blási með ofankomu að auki, en Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir vaxandi austanátt með snjókomu, 18-25 m/s seint í dag, þá hlýnar og ofankoma breytist í slyddu. Það lægir nokkuð í kvöld og má búast við suðvestan 10-18 m/s og éljum í nótt, en dregur smám saman úr vindi á morgun og frystir. 

Vegagerðin hefur vaðið fyrir neðan sig og hefur gefið út tilkynningu um lokanir á vegum í dag. Á Kjalarnesi skefur og þar verða hviður 35-40 m/s frá hádegi. Hvessir fljótlega austur undir Eyjafjöllum og í Mýrdal og fljótlega hviður þar allt að 40-50 m/s í A-áttinni. Útlit er fyrir að versni á Reykjanesbraut upp úr kl. 12 og þar vindur um 25 m/s þvert á, með hviðum allt að 35-40 m/s samfara krapa og vatnsaga. Á Holtavöruheiði og Bröttubrekku gerir síðan hríðarveður um miðjan dag. Á Austfjörðum mun smámsaman gera stórhríðarveður og hvessir með skafrenning austan- og norðaustanlands einnig. Hríðarveður eins á fjallvegum Vestfjarðar þegar kemur fram á daginn. SV-lands má reikna með að það lægi í kjölfar skilanna á milli kl. 16 og 17.

Lokanir í dag verða sem hér segir:

09:00 – 18:00 Eyjafjöll og Hellisheiði

11:00 – 18:00 Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði

12:00 – 17:00 Reykjanesbraut

12:00 – 18:00 Kjalarnes og Hafnarfjall

15:00 – 21:00 Holtavörðuheiði og Brattabrekka

16:00 og fram á kvöld Mývatns- og Möðrudalsöræfi, Fjarðarheiði, Fagridalur og Oddsskarð.

annska@bb.is

Framtíð unga fólksins á Vestfjörðum

Í nýlegri  grein Magnúsar Reynis Guðmundssonar í BB fjallar hann um hagsmuni í fiskeldi og bendir réttilega á að huga þurfi að stjórnsýslunni og hagsmunum. Ég tek undir með Magnúsi og við höfum bent á að verði fiskeldisáform að veruleika á Vestfjörðum muni meiri hagsmunum fórnað fyrir minni. 

Engin heildarstefnumótun liggur fyrir frá ríkisstjórn eða sveitarfélögum um fiskeldi yfirhöfuð né um stærðarmörk atvinnugreinarinnar. Engin virðing er borin fyrir 8. gr. laga um náttúruvernd  sem nær til vatnasvæða og hollustuverndar hafsins.  Í dag er brotið á eða farið á svig við fjölda laga, reglugerða og opinberra siðvenja auk skerðingar fiskveiða og siglingaleiða til þess eins að því er virðist að skapa óskilgreind verðmæti.

Sveitarfélögin sitja uppi með allan kostnað við undirbúning, rannsóknir, mengunarvarnir, eftirlit, hafnar- og vegaframkvæmdir.

Þannig græða fáeinar fjölskyldur og milliliðir á tá og fingri, ekki síst vegna sofandaháttar íslenskra yfirvalda sem stunda þá iðju að veita aflandsfyrirtækjum eldisleyfi gegn óverulegu gjaldi.  Í  Noregi kostar 1.000 tonna leyfi  1,3 milljarða króna en nánast ekkert á Íslandi.

 Sveitarstjórnir á Vestfjörðum virðast ekki hafa  áttað sig á aðalatriðum þessa máls.

 Lax- og silungveiði á Íslandi er atvinnugrein sem byggist á sjálfbærni í hreinni og óspilltri náttúru. Greinin veltir árlega 15 – 20 milljörðum  króna og skapar um 1200 störf. Í kringum greinina hefur skapast mikil fagþekking, menning, hefðir og náttúrunytjar sem standa undir mjög verðmætri alþjóðlegri ímynd sem byggist á trúverðugleika.  Allar vörur frá landinu og ferðaþjónustan geta notið góðs af slíkri ímynd í sinni markaðssetningu.  Við teljum því að gangi fyrirhuguð fiskeldisáform eftir sitji Vestfirðingar eftir með sárt ennið og eigendur veiðihlunninda á öllu Íslandi muni stórskaðast, eins og dæmin sanna af slysafréttum undanfarinna daga.

Magnús víkur að kaupum breskra auðkýfinga á íslenskum bújörðum. Sjálfur hef ég aldrei selt neina jörð en reynt að kaupa jarðir og oftar en ekki orðið af kaupunum vegna bullandi samkeppni að því ég tel vegna gjaldeyrisútboðs Seðlabanka. Jarðakaup erlendra aðila á NA-landi eru mér gjörsamlega óviðkomandi.  Í einu tilfelli hef ég aðstoðað erlendan fjárfesti við að koma upp ferðamannaðstöðu í Fljótum í Skagafirði einkum vegna áforma hans um að bjóða græna og vistvæna ferðaþjónustu í takt við alþjóðlega hágæðaímynd.

Á Vestfjörðum eru fimmtán hundruð börn og unglingar á skólaskyldualdri.  Stóru tækifæri þeirra liggja í ferðaþjónustu og skapandi greinum sem byggja á óspilltri nátttúrunni.  Öflugir fjárfestar vilja vera með í slíkri uppbyggingu og framtíð komandi kynslóða á Vestfjörðum.

Orri Vigfússon

 

Andlát: Ásgeir Guðbjartsson

Ásgeir Guðbjartsson.

Ásgeir Guðbjartsson, fyrrverandi skipstjóri á Ísafirði, lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á miðvikudag. Ásgeir fæddist árið 1928 og var um áratugaskeið meðal nafntoguðustu og fengsælustu skipstjórum landsins. Ásamt fleirum stofnaði hann útgerðarfélagið Hrönn hf. árið 1954 og var Ásgeir skipstjóri á sjö Guðbjörgum í röð. Fyrir störf sín hlaut hann fálkaorðuna árið 1991.

Ásgeir kvæntist Sigríði Brynjólfsdóttur árið 1949 og eignuðust þau fjögur börn. Sigríður lést árið 2009.

smari@bb.is

Vestri fékk Þrótt/Fylki í bikarnum

Dregið var í 8 liða úrslit Kjörísbikarkeppni karla í blaki í gær.  Allir leikirnir fjórir í karlaflokki fara fram á landsbyggðinni. Vestri fékk heimaleik gegn Þrótti/Fylki. Bikarmeistarar karla í KA drógust gegn Íslandsmeisturum HK. Aðrar viðureignir eru leikir Þróttar Nes og Stjörnunnar annars vegar og Hamars og Aftueldingar hins vegar.

smari@bb.is

 

Stækka við sig í bát og kvóta

Ásdís ÍS, áður Örn GK.

Ný Ásdís ÍS er komin í slipp í Stykkishólmi er væntanleg til heimahafnar í Bolungarvík um miðjan mars. Í byrjun árs festi útgerðarfyrirtækið Mýrarholt ehf. kaup á dragnótarbátnum sem bar áður nafnið Örn GK. „Þetta er mun stærri bátur, mælist 160 brúttótonn meðan hinn er 65 brúttótonn. Við erum að stækka við okkur, bæði í bát og í aflaheimildum“ segir Einar Guðmundsson, skipstjóri og einn eigenda Mýrarholts. Að sögn Einars fylgir bátnum kvóti upp á 4-500 tonn. Báturinn var smíðaður í Póllandi árið 1999.

Aflabrögðin hafa verið með eindæmum góð hjá áhöfninni á Ásdísi sem telur einungis þrjá menn og á síðasta almanaksári var aflinn um 1.900 tonn „Þetta er búið að vera ævintýralegt fiskirí síðustu tvö ár, en þetta getur fljótt farið í sama farið. Það eru gífurlegar breytingar í lífríkinu með hækkandi sjávarhita,“ segir Einar.

Auk þess að vera á dragnót hefur Ásdís fiskað rækju í Ísafjarðardjúpi og svo verður einnig með nýja bátinn.

smari@bb.is

Halda merki Núpsskóla á lofti

Hljómsveitin Rassar.

Þremenningunum í skólahljómsveitinni Rössum er mikið í mun að merki þeirra gamla skóla, Núpsskóla, sé haldið á lofti. Rassar eru mættir vestur á firði og ætla að skemmta Ísfirðingum og nærsveitungum. Hljómsveitin var stofnuð á Núpí í Dýrafirði veturinn 1969 og þá eins og nú eru í hljómsveitinni þeir Rúnar Þór Pétursson, Egill Ólafsson og Benedikt Helgi Benediktsson. „Við komum reglulega saman til að fagna vinskapnum og förum vestur til að halda uppi tengslum okkar við Núpsskóla og reynum af veikum mætti að halda uppi merkjum skólans,“ segir Egill.

Aðspurður segja þeir að vistin í skólanum hafi verið þeim góð. „Þetta var betrunarvist fyrir okkur alla. Sumir bera skólanum ekki sömu söguna, en fyrir okkur var þetta góða tími,“ segir Rúnar Þór.

Gamla skólahúsið á Núpi er illar farið og Egill segir að með því að koma saman og spila og segja gamlar sögur frá Núpi, sé möguleiki að ýta við fólki um að varðveita bygginguna. „Um leið og við minnum okkur sjálfa á við erum skuldbundnir þessari gömlu menntastofnun þá getum við kannski fengið fleiri með okkur í lið.“

Í haust fór Benedikt Helgi, trommari Rassa, með fríðum hópi manna og negldi fyrir glugga á gamla skólahúsinu. „Það virðist enginn vera að hugsa um húsið og ég fékk Fasteignir ríkisins til að greiða útlagðan kostnað við þetta. En til framtíðar verður að finna húsinu hlutverk,“ segir Benedikt. Aðspurður hvaða hlutverk það gæti verið segir Egill að til dæmis mætti hugsa sér safn um sögu héraðsskólanna, enda eru þeir ákaflega merkilegur kafli í sögu þjóðarinnar.

Rassar spila á Húsinu á Ísafirði í kvöld og annað kvöld og lofa ljúfum tónum úr gamla Rassaprógrammi auk þess sem þeir reyna að hafa þetta á léttu nótunum og bæta við hugrenningum og gamanasögum.

„Við tökum okkur góðan tíma þegar við komum vestur. Keyrðum að sunnan í gær og erum í góðu yfirlæti hjá Dóra og fáum efri hæðina á Húsinu, alveg eins og Led Zeppelin, þeir tóku alltaf heila hæð undir sig,“ segir Rúnar.

smari@bb.is

Bæjarins besta 8. tbl. 34. árgangur 2017

Íslendingarnir komust ekki áfram

Albert Jónsson, skíðagöngumaður frá Ísafirði, hafnaði í 123. sæti í sprettgöngu á heimsmeistaramótinu í norrænum greinum í Lathi í Finnlandi í dag. Sæv­ar Birg­is­son kom fyrst­ur í mark af ís­lensku kepp­end­un­um og hafnaði í 92. sæti og gekk hann vega­lengd­ina á 3:47,30 mín­út­um en þrjá­tíu efstu komust í úr­slit og til að ná því þurfti tím­ann 3:22,09 mín­út­ur.

Brynj­ar Leó Krist­ins­son hafnaði í 115. sæti á 4:00,98 mín­út­um og Al­bert varð í 123. sæti á 4:08,33 mín­út­um.

Besta tím­ann fékk Ser­gei Ustiugov frá Rússlandi en hann vann göng­una á 3:11,72 mín­út­um og var tæp­um þrem­ur sek­únd­um á und­an næsta manni, Finn Haagen Krogh frá Nor­egi.

smari@bb.is

Gamlir leikir og leikföng

Í dag kl. 17:00 á Sauðfjársetrinu mun Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðinemi segja frá gömlum leikjum og leikföngum sem gátu breyst í ótrúlegustu verur. Fyrirlestur Dagrúnar er í tengslum við sýninguna Sumardvöl í sveit sem nú stendur yfir á Sauðfjársetrinu. Fyrirhugaðir eru fleiri viðburðir og segir í frétt á strandir.is að búast megi við huggulegu síðdegi þar sem börn og foreldrar njóta sín saman í leik og borðað saman grjónagraut eftir leikina.

Sýningin Sumardvöl í sveit var opnuð í byrjun nóvember í fyrra og fjallar hún um reynslu þeirra sem fóru í sveit og þeirra sem tóku á móti sumardvalabörnum, einkum á Ströndum.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir