Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2333

Bolvísk og frönsk ungmenni öðlast vitund um eigið vistspor

Ungmennin í slagviðri í Holti

Í febrúarlok heimsóttu Bolungarvík ungmenni frá Lyon í Frakklandi á vegum Erasmus+ áætlunarinnar, sem sem er stærsta mennta- og æskulýðsáætlun í heiminum og mörgum hér á landi af góðu kunn. Er til að mynda tekið þátt í ungmennaskiptaverkefnum á þeirra vegum mátti lesa um eitt skemmtilegt slíkt verkefni á síðum Bæjarins besta í fyrra sem nemendur við Grunnskóla Bolungarvíkur tóku þátt í.

Franski hópurinn taldi 10 ungmenni á ferð með Bolvíkingnum Guðmundi Arngrímssyni og dvaldi sex daga í Bolungarvík þar sem þau hófu samstarf með 10. bekk grunnskólans. Þau fóru um víðan völl að kynnast svæðinu, heimsóttu meðal annars Holtsfjöru í slagviðri, skoðuðu Ósvör, skelltu sér á kaffihús á Ísafirði, fóru í sund á Suðureyri og urðu vitni að stórkostlegum dansi norðurljósanna. Einnig fengu þau að kynnast íslenskum hefðum líkt og að maska, og fengu þau til að mynda að smakka rjómabollur, plokkfisk og hákarl, svo fátt eitt sé nefnt og segir Guðmundur dvölina hafa verið mikla upplifun og mikinn lærdóm fyrir ungmennin.

Ungmennin á fyrsta vinnufundi í Einarshúsi í Bolungarvík

Guðmundur á fyrirtækið Cursus Iceland sem sérhæfir sig í alls kyns námskeiðum er lúta að sjálfbærni og meðhöndlun náttúru. Hann hefur talvert komið að ungmennaskiptaverkefnum áður, en þá í formi þess að þjálfa starfsmenn, en þetta er í fyrsta sinn sem hann er sjálfur með hóp á vegum áætlunarinnar sem hann segir gefandi og skemmtilegt verkefni. Það sem hópurinn vinnur að er að rannsaka sitt eigið vistspor og hvernig þau hafa áhrif í gegnum sína eigin neyslu og kauphegðun. Guðmundur segir verkefnið afar brýnt, það sé mikilvægt að ná til unga fólksins ef við viljum í raun sjá viðhorfs – og atferlisbreytingar í veröldinni og það í raun ákvarði hvernig okkur reiðir af yfir höfuð. Hann segir gífurlega mikilvægt að ungmennin öðlist vitund um eigið vistspor og hvernig við í sameiningu sköpum gríðarlega eftirspurn eftir drasli.

Guðmundur Arngrímsson leiddi hópinn. Mynd af Fésbókarsíðu Einarshússins.

Ungmennin vinna í fjórum hópum sem hver svo velur sér tiltekið verkefni eða sjónarhorn til umfjöllunar sem þau svo túlka í gegnum stuttmyndir og segist Guðmundur binda miklar vonir við að þær hafi áhrif á ungmenni víða og veki þau til aukinnar vitundar í þessum skilaboðum frá jafnöldrum: „Vonandi verður hugvekjan það öflug að hún verði boðberi nýrra neysluviðmiða og nýrrar hugmyndafræði til framtíðar. Stuttmynd sem færi víða er sterkt vopn og mikilvægt fyrir þau sem að verkefninu koma að koma skilaboðunum áfram, því það skiptir engu máli hversu merkilegt það er sem þú hefur að segja ef enginn heyrir það.“

Guðmundur gerir mikið af því að teikna upp og gera náttúruleiksvæði og segir hann þetta allt tengjast saman: „Það er gott að skoða hvernig maður hagar sér í náttúrunni og hvernig við sköpum merkingu í umhverfinu okkar. Fyrir framtíðina er mikilvægt að finna þessa tengingu hjá sem flestum, því það er ekki hægt að sýna hollustu ef fólki finnst það ekki vera hluti af umhverfinu.“

Hópurinn kemur aftur saman í júlí er íslensku ungmennin halda út til Frakklands þar sem þau skoða sig um í Lyon ásamt því að halda áfram að vinna að stuttmyndagerðinni.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

„Ákall til allra landsmanna“

Hjallaháls í Gufudalssveit er erfður farartálmi, sér í lagi að vetrarlagi.

Undirskriftasöfnun er hafin á netinu til mótmæla ákvörðun stjórnvalda að skera niður allt framkvæmdafé til vegagerðar í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði. Þegar þetta er skrifað hafa tæplega 1.500 manns skrifað undir áskorunina. Vestfirðingar hafa um áratugaskeið barist fyrir bættum vegsamgöngum um sunnanverða Vestfirði. Eftir örfáar vikur er von á áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismati vegna vegagerðar í Gufudalssveit og fólk vongott um að senn hefjist framkvæmdir „ákvað samgöngu- og sveitastjórnaráðherra skyndilega og upp úr eins manns hljóði að ógilda fyrri ákvörðun með þeirri skýringu að fjármagn væri ekki fyrir hendi. Þessa ákvörðun tók ráðherrann án nokkurs samráðs við þingmenn kjördæmisins eða Alþingi yfir höfuð,“ segir í greinargerð með undirskriftasöfnuninni.

„Íbúar á Vestfjörðum senda nú ákall til allra landsmanna um að skrifa undir áskorun til ríkisstjórnar Íslands og Alþingis þess efnis að staðið verði við þau fyrirheit sem gefin voru fyrir síðustu alþingiskosningar hvað varðar boðaðar framkvæmdir í vegsamgöngum í Gufudalssveit. Því verði framkvæmdirnar boðnar út um leið og framkvæmdaleyfi liggi fyrir.

Mikið er í húfi.  Byggð á sunnanverðum Vestfjörðum á allt sitt undir því að helsta lífæð samfélaganna til höfuðborgarsvæðisins byggist á heilsársvegi í ætt við aðra helstu þjóðvegi landsins. Leiðin um Ódrjúgsháls og Hjallaháls er með hættulegri fjallavegum landsins og gjarnan farartálmi um vetur. Krafan er einföld. Hnekkið ákvörðun ráðherra og tryggið fjármagn til þessara framkvæmda strax.“

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Enn eykst ferðamannafjöldinn

Um 148 þúsund er­lend­ir ferðamenn fóru frá land­inu í fe­brú­ar síðastliðnum sam­kvæmt taln­ing­um Ferðamála­stofu í Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar eða 47.600 fleiri en í fe­brú­ar á síðasta ári. Aukn­ing­in nem­ur 47,3% milli ára.

Ferðamönn­um fjölgaði jafn­framt mikið milli ára, árin á und­an en aukn­ing­in var 31,2% frá 2013-2014, 34,4% frá 2014-2015 og 42,9% frá 2015-2016.

Frá ára­mót­um hafa 284 þúsund er­lend­ir ferðamenn farið úr landi um Kefla­vík­ur­flug­völl sem er 59,5% aukn­ing miðað við sama tíma­bil í fyrra. Greint er frá þessu á vef Ferðamála­stofu.

Þar kem­ur jafn­framt fram að Bret­ar og Banda­ríkja­menn voru um helm­ing­ur ferðamanna en Bret­ar voru 31,9% og Banda­ríkja­menn 19,5% af heild­ar­fjölda. Tíu þjóðerni sem röðuðust þar á eft­ir voru eft­ir­far­andi, Kín­verj­ar með 5,7%, Frakk­ar með 4,5%, Þjóðverj­ar 4,4%, Kan­ada­menn 3,3% og Hol­lend­ing­ar með 2,1%.

Fjöldi erlendra ferðamenna sem fara um Leifsstöð hefur nærri fjór­fald­ast í fe­brú­ar á fimm ára tíma­bili. Þannig hafa fjöldi N-Am­eríkan­a nærri sex­fald­ast, Mið- og S-Evr­ópu­bú­ar meira en þre­fald­ast. Breskir ferðamenn er þrisvar sinnum fleiri en fyrir fimm árum. Norður­landa­bú­um hef­ur hins veg­ar fjölgað minna eða um 47,3% á tíma­bil­inu 2013-2017.

smari@bb.is

 

Auglýsing
Auglýsing

Háskóladagurinn á Ísafirði

Háskóladagurinn verður á Ísafirði á morgun, en viðburðurinn hefur fest sig í sessi síðustu ár þar sem boðið er upp á kynningu á öllu því háskólanámi sem í boði er hér á landi. Gildir einu þá hvort hinir fróðleiksþyrstu séu nemendur sem eru að klára framhaldsskóla og leita að námi til að búa sig undir framtíð sína á fullorðinsárum eða fólk sem vill sækja sér frekari menntun hvar á ævistigum sem það kann að vera statt. Háskóladagurinn var í Reykjavík um nýliðna helgi og nú fer lestin ferð um landið þar sem fulltrúar sjö háskóla kynna yfir 500 námsbrautir, en það eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Háskólinn í Reykjavík, Landbúnaðarháskóli Íslands og Listaháskóli Íslands.

Háskóladagurinn verður í Menntaskólanum á Ísafirði, þann 9. mars á milli klukkan 11 og 13.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Hlýtt og vætusamt í febrúar

Febrúar átti fallega daga

Áfram halda mánuðirnir áfram að skipa sér í röð þeirra hlýjustu í mælingum Veðurstofu Íslands og var nýliðinn febrúarmánuður hlýr og vætusamur. Einkum var hlýtt á norðan- og austanverðu landinu og vætusamt um sunnan- og vestanvert landið. Úrkoma var flesta daga á sunnan- og vestanverðu landinu og snjólétt um allt land þar til kyngdi niður snjó við Faxaflóa aðfaranótt þ. 26. og vöknuðu íbúar höfuðborgarinnar við 51 cm jafnfallinn snjó sem er næstmesta snjódýpt sem mælst hefur í Reykjavík til þessa en mest mældist hún hinn 18. janúar 1937, 55 cm.

Meðalhitinn í Reykjavík mældist 2,8 stig og er það 2,5 stigum ofan meðaltals áranna 1961-1990, en 1,8 stigum ofan meðaltals síðustu tíu ára. Í febrúar 2013 var hlýrra en þá var hitinn 3,8 stig. Á Akureyri var meðalhitinn 2,7 stig, 4,1 stigi ofan meðaltals 1961-1990 og 3,5 stigum ofan meðaltals síðustu tíu ára. Á Akureyri þarf að fara aftur til ársins 1965 til að fá heitari febrúarmánuð en þá var meðalhitinn 3,1 stig.

Í Reykjavík mældist úrkoma 126,3 mm sem er um 75% umfram meðallag 1961-1990 og þarf að fara aftur til ársins 2012 til að finna meiri úrkomu en þá mældist hún 135 mm. Veðurhæð var heldur minni en venja er. Meðalveðurhæð á sjálfvirkum stöðvum var 0,6 m/s minni en meðaltal síðustu tíu ára.

Nánar um tíðarfar í febrúar má lesa hér.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Mótmælir stefnu stjórnvalda í samgöngumálum

Hjallaháls í Gufudalssveit. Ekkert verður af framkvæmdum í Gufudalssveit í ár þó svo að framkvæmdaleyfi fáist.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar mótmælir þeirri stefnu stjórnvalda í samgöngumálum, en fyrir helgi kom í ljós hvaða verkefni samgönguáætlunar fara undir niðurskurðarhnífinn. Meðal annars verður engu fé varið í vegagerð í Gufuadalssveit og á Dynjandisheiði. Í ályktun bæjarráðs erþví mótmælt að stjórnvöld fjármagni ekki samgöngukerfi landsins með þeim hætti sem nauðsynlegt er og líta þar með framhjá þeirri miklu þörf sem er í uppbyggingu innviða. „Bætt samgöngukerfi er ein af forsendum þeirrar uppbyggingar sem þarf að eiga sér stað á Íslandi vegna vaxtar atvinnulífsins á sviði ferðamála og fiskeldis,“ segir í ályktun bæjarráðs.

Hávær mótmæli hafa verið um land allt eftir að Jón Gunnarsson samgönguráðherra skar niður fjölda verkefna á samgönguáætlun sem var samþykkt rétt fyrir kosningar í haust. Ástæða niðurskurðarins er að fjárlög ársins ná ekki að fjármagna þann fjölda þjóðþrifaverka sem þingmenn settu inn í samgönguáætlun kortéri fyrir kosningar.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Marianna og Kristján sigruðu á bogfimimóti skotíþróttafélagsins

Bogfimi hentar fólki á öllum aldri

Á laugardag hélt Skotíþróttafélag Ísafjarðarbæjar bogfimimót þar sem keppt í tveimur flokkum; unglingaflokki þar sem spreyttu sig keppendur undir 21.árs  aldri og opnum flokki. Í unglingaflokki sigraði Marianna Glodkowska, í öðru sæti var Lilja Dís Kristjánsdóttir og Guðmundur Brynjar Björgvinsson í því þriðja. Opna flokkinn sigraði Kristján G. Sigurðsson, þá var Björgvin Brynjarsson í öðru sæti og Leifur Bremnes í því þriðja.

Sigurvegararnir í unglingaflokki

Bogfimiiðkun er tiltölulega nýlega hafin á Ísafirði. Bogfimiæfingar hófust eftir að skotíþróttafélagið útbjó aðstöðu til slíkra æfinga undir stúkunni á fótboltavellinum á Torfnesi. Boðið er upp á opna tíma tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum á milli 17:15 og 19, sem hafa verið vel sóttir. Bogfimi er íþrótt sem hentar flestum og höfðar hún til breiðs aldurshóps. Skotíþróttafélagið er með nokkra sveigboga og skotmörk fyrir þá sem koma og því ekki nauðsynlegt að koma sér upp slíkum búnaði áður.

Sigurvegarar í opnum flokki

Hægt er að finna bogfimi á Ísafirði á facebook á slóðinni www.facebook.com/isboginn

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Spyr ráðherra út í heimaslátrun

Teitur Björn Einarsson.

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, hefur beint þeirri fyrirspurn til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur landbúnaðarráðherra hvort ráðherrann telji að leyfi eigi heimaslátrun, ekki aðeins til eigin nota á býli heldur einnig til sölu að því gefnu að vöruvöndun og öryggi séu í fyrirrúmi. Í fyrirspurn Teits Björns er ráðherrann spurður hvort hann telji að rýmka megi reglur til að efla vöruþróun og sölu beint frá býli með það fyrir augum að auka fjölbreytileika í matvælaframleiðslu fyrir neytendur og efla atvinnu í dreifbýli og einnig hvort ráðherrann hyggist beita sér fyrir breytingum í þessa átt á kjörtímabilinu.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Bolungarvíkurhöfn í öðru sæti í verkfallinu

Löndun í Bolungarvík.

Landaður afli í Bolungarvík fyrstu sjö vikur ársins eða þar til verkfalli sjómanna lauk 19. febrúar var 1.572 tonn og var Bolungarvík önnur stærsta löndunarhöfn landsins á þessum tíma. Þetta kemur fram á vefnum vikar.is. Aðeins Ólafsvík var með meiri landaðan afla eða 1.895 tonn. Fyrir sama tímabil í fyrra var landaður afli i Bolungarvík 1.987 tonn og því um 20% samdrátt að ræða milli ára.

Landaður afli í höfnum á Vestfjörðum fyrstu 7 vikur ársins 2017 var eftirfarandi:

Bolungarvík: 1.572 tonn
Tálknafjörður: 509 tonn
Suðureyri: 396 tonn
Patreksfjörður: 201 tonn
Flateyri: 201 tonn
Drangsnes: 191 tonn
Hólmavík: 181 tonn
Bíldudalur: 162 tonn
Ísafjörður: 118 tonn
Brjánslækur: 2 tonn
Súðavík: 2 tonn

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Bjóða til hljóðainnsetningar í ljósaskiptunum

Útsýnið frá Hnífsdalsvegi 10. Mynd: glamakim.is

Á fimmtudaginn kemur bjóða listakonurnar Ulla Juske og Ella Bertilsson gestum að upplifa hljóðinnsetninguna Órætt efni/Uncertain Matter á Ísafirði. Innsetningin fer fram í ljósaskiptunum í Króknum á heimili Kjartans Árnasonar arkitekts og fjölskyldu hans að Hnífsdalsvegi 10.

Órætt efni er frásagnarkennd hljóðinnsetning sem veltir því upp hvernig skynja má og skilgreina tíma. Í verkinu eru könnuð mörk staðreynda og skáldskapar þar sem skynjunin á tíma er skoruð á hólm sem og staðsetning okkar í alheiminum og framtíð okkar innan hans. Allt frá iðnbyltingu hefur fólk verið háð klukkum og tímavörslu. Við skiljum öll tíma af praktískum ástæðum, en upplifunin af honum getur einnig verið huglæg. Mínútur geta verið sem klukkustundir og mánuðir geta liðið svo hratt að hönd fær vart á fest.

Hljóðverkið byggir á fjölda viðtala við áhuga-stjörnufræðinga, stjarneðlisfræðinga og grasafræðinga frá Reykjavík og nágrenni. Sagan sem er sögð gefur innsýn í hugarheim viðmælendanna. Verkið var unnið er listamennirnir dvöldu um þriggja mánaða skeið í listavinnustofum Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM).

Órætt efni er samstarfsverkefni þeirra Ellu og Ullu. Í samstarfi sínu leitast þær við að vera með frásagnarmiðaða túlkun sem lýsir huglægri reynslu af tíma í tengslum við ákveðin samfélög, stað eða umhverfi. Samtöl við fólk sem tengist viðfangsefni þeirra hverju sinni eru þar mikilvægasti hlekkurinn sem setur stefnuna við þróun hvers verks.

Viðburðurinn, sem hefst klukkan 18, er skipulagður af Gallerí Úthverfu í samvinnu við Kjartan Árnason arkitekt og fjölskyldu sem opna heimili sitt fyrir kynninguna á verkinu sem tekur 22 mínútur í flutningi. Listakonurnar verða á staðnum og boðið verður upp á léttar veitingar og spjall á eftir.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir