Blómstrandi fjallavíðir í Kaldalóni
Hið stórundarlega tíðarfar sem hefur verið ríkjandi síðustu misseri tekur á sig ýmsar myndir. Starfsmaður Náttúrustofu Vestfjarða var á ferð í Kaldalóni í gær og varð var við að fjallavíðirinn (Salix arctica) í neðri hluta Kaldalóns var útsprunginn á nokkrum stöðum. Á vef Náttúrustofunnar segir að þetta komi mjög á óvart, þar sem fjallavíðir ætti ekki að springa út fyrr en í maí í fyrsta lagi. Mjög snjólétt er á þessum slóðum og veðurfar að undanförnu hefur verið gott og líklegt að hann hafi ruglast í ríminu. Ekki sást á fjalldrapa eða birki á þessu svæði að það væri að springa út eða brum farin að þrútna og ekki heldur á bláberja eða aðalbláberjalyngi.
smari@bb.is
Almenningur tilkynni óeðlilegan fugladauða
Töluverðar líkur eru á því að alvarlegt afbrigði fuglaflensu, sem greinst hefur í fuglum víða í Evrópu, berist hingað til lands með farfuglum. Þetta er mat starfshóps sérfræðinga hjá Matvælastofnun og Háskóla Íslands, tilraunastöð HÍ að Keldum og sóttvarnalæknis. Ekki er vitað til að fólk hafi veikst af völdum þessa afbrigðis.
Samkvæmt Matvælastofnun hefur fuglaflensan, H5N8, breiðst hratt út í Evrópu frá því í október á síðasta ári, bæði í villtum fuglum og alifuglum, meðal annars á þeim slóðum sem íslenskir farfuglar halda sig á að vetri til. Sýkingin er þannig að fuglar sem hafa smitast stuttu áður en þeir leggja af stað yfir hafið geta náð til landsins áður en þeir veikjast. Samkvæmt MAST er faraldurinn frábrugðinn þeim sem geisaði í Evrópu á árunum 2006-2008 þar sem hann nær í meira mæli til villtra fugla sem virðast jafnframt vera helsta smitleið alifugla.
Matvælastofnun segir fuglaeigendur þurfa að að vera undir það búnir að geta hýst fuglana sína eða haft þá í girðingu undir þaki til að draga úr smithættu. Þá er almenningur beðinn um að tilkynna til Matvælastofnunar verði hann var við óeðlilegan fugladauða.
smari@bb.is
Teigsskógur: Vegagerðin velur ódýrasta kostinn
Vegagerðin telur að leið Þ-H um Gufudalssveit sé besti kosturinn við val á nýrri leið um Gufudalssveit. Sú leið liggur meðal annars um Teigsskóg í Þorskafirði. Í matsskýrslu sem Vegagerðin hefur nú lagt fram vegna umhverfismats kemur fram að vegagerðin hafi óhjákvæmilega neikvæð áhrif á umhverfið og er leið Þ-H önnur af tveimur leiðum sem hafa mest áhrif á landslagið. Þegar Skipulagsstofnun hefur gefið út álit sitt á matsskýrslunni sækir Vegagerðin um framkvæmdaleyfi til Reykhólahrepps. Stefnt hefur verið að því að hefjast handa í ár. Samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar er álits Skipulagsstofnunar að vænta í síðasta lagi 27. mars 2017.
Leið Þ-H þverar Þorskafjörð, fer um Teigsskóg og þverar Djúpafjörð og Gufufjörð. Hún styttir Vestfjarðaveg um helming, eða rúma 20 km, á þessum kafla og liggur öll um láglendi.
Samkvæmt matskýrslunni mun vegagerðin hafa veruleg neikvæð áhrif á landslag og verndarsvæði.
Kostnaður við mismunandi leiðir vegur þungt við ákvörðun Vegagerðarinnar um val á vegstæði. Áætlað er að Þ-H kosti 6,4 milljarða kr. sem er 4 milljörðum minna en næstódýrasti kosturinn. Einnig hefur það áhrif á valið að gert er ráð fyrir Þ-H leiðinni í skipulagi sveitarfélagsins og áætlunum ríkisins um gerð jarðganga.
smari@bb.is
Heilsa og hreyfing í Vísindaportinu
Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða þessa vikuna verður sjónum beint að samhengi hreyfingar og heilsu. Hannes Hrafnkelsson, sérfræðingur í heimilislækningum, fjallar í erindi sínu um fylgni lífsstíls við ýmsa sjúkdóma nútímans og fer hann yfir helstu rannsóknir sem tengjast sjúkdómum og hreyfingu.
Á síðustu áratugum hefur komið æ betur í ljós að lífsstíll hefur verulega fylgni við marga af helstu sjúkdómum sem vestrænar þjóðir glíma við. Fjölbreytilegar rannsóknir hafa í áranna rás verið gerðar á tengslum sjúkdóma og hreyfingar og mun Hannes í erindi sínu fara yfir helstu rannsóknir á því sviði ásamt því að fjalla um ráðlagða hreyfingu og áhrif hreyfingar á ýmsa sjúkdóma og lífslengd.
Hannes Hrafnkelsson er búsettur í Reykjavík og starfar sem heimilislæknir við Heilsugæsluna á Seltjarnarnesi. Hann fluttist til Ísafjarðar ungur að aldri og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði. Að því loknu lá leiðin í læknisfræði við Háskóla Íslands og síðar í sérfræðinám í heimilislækningum, m.a. í Noregi. Hannes varði doktorsritgerð sína í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2012. Ritgerðin fjallar um áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma og tengsl líkamsbyggingar við bein hjá 7-9 ára börnum.
Vísindaportið stendur frá 12.10-13.00 á morgun og er öllum opið. Að þessu sinni fer fyrirlesturinn fram á íslensku.
smari@bb.is
Bærinn fær rafmagnsbíl

Ísafjarðarbær hefur fengið afhentan rafbíl sem tekinn er á langtímaleigu frá Bílaleigu Akureyrar. Bíllinn leysir af hólmi þann bílaleigubíl sem bærinn hefur haft á leigu undanfarin ár. Nýi rafbíllinn er hagstæðari á öllum mögulegum mælikvörðum; í leigu, eyðslu og síðast en ekki síst fyrir umhverfið. Bíllinn verður nær eingöngu notaður í akstur á norðanverðum Vestfjörðum og vonir standa til að hann henti vel til þeirra verkefna. Ísafjarðarbær hefur hlotið silfurvottun frá umhverfisvottunarsamtökunum EarthCheck og er notkun rafbílsins skref í átt að umhverfisvænna sveitarfélagi.

Ísafjarðarbær hefur jafnframt sett upp hleðslustöð frá Orkusölunni í samstarfi við húsfélag Stjórnsýsluhússins á Ísafirði. Enn fremur hefur Samgöngufélagið fært Stjórnsýsluhúsinu að gjöf þjónustumerki sem vísar á rafhleðslustöðina, enda mikilvægt fyrir alla að vita hvar stöðin er þar sem hún verður opin almenningi.
smari@bb.is
Hugi og Hilmir í unglingalandsliðið
Bræðurnir Hilmir og Hugi Hallgrímssynir voru í dag valdir í U-15 landslið Íslands í körfuknattleik. Þeir bræður voru seint á síðasta ári valdir í landsliðsúrtak ásamt Agli Fjölnissyni liðsfélaga sínum úr bikarmeistaraliði 9. flokks Vestra og tóku þátt í æfingum á milli jóla og nýárs. U-15 landslið Íslands tekur þátt í Copenhagen Invitation mótinu í Danmörku í júní og mun Ísland tefla fram tveimur níu manna liðum á mótinu. Þjálfari landsliðsins er Ágúst S. Björgvinsson og aðstoðarþjálfari Snörri Örn Arnaldsson.
smari@bb.is
Áfram fallegt vetrarveður
Það verður áfram kalt og fallegt í veðri á Vestfjörðum. Veðurstofa Íslands spáir austan golu eða stinningsgolu 3-8 m/s í landshlutanum í dag og áfram skín sól í heiði bróðurpart dags hið minnsta. Frost verður á bilinu 0-8 stig. Á morgun verður áfram gott vetrarveður á svæðinu með hægviðri.
Á Vestfjörðum er talsvert autt en þó sums staðar ýmist hálka eða hálkublettir, einkum á fjallvegum og útvegum. Búið er að opna norður í Árneshrepp á Ströndum.
Píratar vilja fækka landsbyggðarþingmönnum
Sjö þingmenn Pírata hafa lagt fram lagafrumvarp um að fækka landsbyggðarþingmönnum um fimm. Markmið frumvarpsins er að sögn flutningsmanna að jafna út misræmi í atkvæðavægi. Viktor Orri Valgarðsson er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Í frumvarpinu felst að þingmönnum Norðvesturkjördæmis fækkar úr átta í sex, þingmenn Norðausturkjördæmis verða átta í stað tíu og Suðurkjördæmi fær níu í stað tíu. Reykjavíkurkjördæmin tvö bæta við sig einu sæti, yrðu tólf í hvoru kjördæmi, en Kraginn fengi þrjá þingmenn til viðbótar. Yrðu þeir alls sextán.
Í tillögunni felst einnig að jöfnunarþingmönnum yrði fækkað um einn. Kjördæmin þrjú á höfuðborgarsvæðinu fengju tvo jöfnunarþingmenn hvert og Suður- og Norðausturkjördæmi fengju eitt sæti hvort. Norðvestur fengi ekki jöfnunarmann.
Gunnar I. Guðmundsson, þingmaður flokksins í Norðvesturkjördæmi og Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata í Norðausturkjördæmi, eru ekki meðflutningsmenn að frumvarpinu.
Norðurpíratarnir Einar Brynjólfsson og Gunnar I. Guðmundsson eru ekki meðflutningsmenn.
smari@bb.is
Lífshlaup Karítasar og fleira í bókaspjalli
Í næsta bókaspjalli Bókasafnsins á Ísafirði verða tvö athyglisverð erindi að vanda. Jóna Símonía Bjarnadóttir, sagnfræðingur og forstöðumaður Safnahússins á Ísafirði, fjallar um sínar uppáhaldsbækur í fyrra erindi spjallsins. Í seinna erindinu segir Helga Þórsdóttir, safnvörður á Byggðasafni Vestfjarða frá Karítas Skarphéðinsdóttur (1890 – 1972) verkakonu á Ísafirði, en hún er viðfang nýrrar sýningar safnsins. Karítas var fædd í Æðey en ólst upp á ýmsum bæjum við Ísafjarðardjúp. „Karítas er má segja táknmynd staðar og hugmyndafræðilegs samtíma, hún er líkami konu sem ekki var ætlað sjálfsyfirráð. Þannig var hún seld fyrir húsbyggingu aðeins 16 ára gömul, smábóndinn Skarphéðinn ekki svo aumur að hann gæti ekki selt stúlkuna. Karítas átti þó eftir að verða áberandi í samfélaginu, kona sem markaði spor í samtímann og þar af leiðandi hefur töluvert verið um hana skrifað sem og sagðar um hana sögur í margvíslegu samhengi,“ segir í kynningu.
Bókaspjallið verður á laugardaginn 4. mars og hefst kl. 14.
smari@bb.is