Föstudagur 11. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2332

Hlýr og vætusamur mánuður

Febrúarmánuður var hlýr og vætusamur. Einkum var hlýtt á norðan- og austanverðu landinu og vætusamt um sunnan- og vestanvert landið. Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofunnar um veðrið í febrúar. Úrkoma var flesta daga á sunnan- og vestanverðu landinu og snjólétt um allt land þar til kyngdi niður snjó við Faxaflóa aðfaranótt 26. febrúar og vöknuðu íbúar höfuðborgarinnar við 51 cm jafnfallinn snjó þann dag. Er það næstmesta snjódýpt sem mælst hefur í Reykjavík til þessa en mest mældist hún hinn 18. janúar 1937, 55 cm.

Óvenjuhlýtt var á landinu þann 12. febrúar og fór hitinn víða yfir 15 stig á norðaustanverðu landinu. Heitast var á tveim fjallastöðvum; Eyjabökkum 19,1 stig og Brúðardal 17,8 stig. Mestur hiti á láglendi var á Seyðisfirði., 16,3 stig.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Gerð verði úttekt á sleppibúnaði skipa

Jón Hákon BA.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur beint því til Samgöngustofu að þegar verði hafin endurskoðun á reglum um losunar- og sjósetningarbúnað um borð í íslenskum skipum og heildarúttekt á þeim búnaði sem er í notkun í dag. Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar um sjóslys sem varð út af Aðalvík að morgni 7. júlí 2015. þegar dragnótabátnum Jóni Hákoni BA 60 hvolfdi þegar hann var á veiðum og báturinn sökk skömmu síðar. Einn maður fórst en þrír björguðust í nærstaddan bát.

Tveir gúmmíbjörgunarbátar voru í sjálfvirkum sleppibúnaði á þakisttýrishúss Jóns Hákons en eftir að bátnum hvolfdi skilaði hvorugur bátanna sér upp á yfirborðið.

Þann 22. júlí 2015 var farið með neðansjávarmyndavél niður að flaki Jóns Hákons þar sem hann lá á um 80 metra dýpi. Í ljós kom að minni björgunarbáturinn hafði losnað úr stól sínum og lá óopnaður skammt frá flakinu en fangalína lá úr hylkinu og í flakið. Stærri björgunarbáturinn sat óhreyfður í sleppigálga á þaki stýrishússins. Þegar Jón Hákon var tekinn upp í júní 2016  var tekið upp var þessi gúmmíbjörgunarbátur ekki á flakinu og hefur ekki fundist.

Eðli sjósleppiloka, sem gúmmíbjörgunarbátar skipsins voru búnir, er það að þegar hann er kominn á a.m.k. 4-6 m dýpi á hann að sleppa festingum bátanna. Þegar bátnum hvolfdi og hann flaut á hvolfi hafa sjósleppilokarnir verið á um 3,6 m dýpi. Af þessum sökum komu gúmmíbjörgunarbátarnir ekki upp á yfirborðið meðan skipverjar voru á kili skipsins.

Nefndin telur að eftir að báturinn tók að sökkva hafi sleppiloki minni gúmmíbjörgunarbátsins virkað, festingar losnað en hann haldist undir bátnum og ekki komist frá honum fyrr en báturinn snérist við á niðurleið. Þá hafi gúmmíbjörgunarbáturinn verið kominn á það mikið dýpi að uppdrift gúmmíbátahylkisins hafi ekki verið nægjanlega mikil til að öll fangalínan, sem ræsir uppblástur gúmmíbjörgunarbátsins, næðist að dragast út.

Stærri gúmmíbjörgunarbáturinn var í sjálfvirkum losunar- og sjósetningarbúnaði en búnaðurinn virkaði ekki. Nefndin skoðaði búnaðinn sérstaklega og telur að skakkt átak á milli lykkjunnar og kólfsins í sleppilokanum hafi komið í veg fyrir að búnaðurinn virkaði og losað kólfinn. Ljóst er, bæði af rannsókn Rannsóknarnefndarinnar á flakinu og reynslu skoðunarmanna losunar- og sjósleppibúnaðar, að það skiptir miklu máli að átakið sé alveg beint upp og skekkja valdi þvingun sem haldi kólfinum föstum. Nefndin telur það með öllu óásættanlegt að við endurnýjun á jafn mikilvægum öryggisbúnaði og sjósleppiloki er aðeins skipt um hluta hans eins og var í þessu tilfelli þegar ekki var skipt um kólfinn. Nefndin átelur harðlega að ekki sé fylgt eftir kröfum um virkniprófun losunar- og sjósetningabúnaðar á fimm ára fresti eins og kveðið er á um í reglugerð.

Í tillögu í öryggisátt vill RNSA að það verði skoðað sérstaklega hvort núverandi búnaður sé að skila björgunarförum á þann hátt sem til er ætlast. Nefndin telur nauðsynlegt að búnaðurinn sé þannig gerður að gúmmíbjörgunarbátar losni frá skipum ef þeim hvolfir, óháð stærð þeirra. Tillögum nefndarinnar hefur þegar verið komið til Samgöngustofu.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Óstöðug snjóalög á norðanverðum Vestfjörðum

Snjóflóð í Önundarfirði.

Snjóalög í fjöllum í nágrenni Ísafjarðar eru nú mjög óstöðug. Ekki er mikill snjór á svæðinu, en til fjalla er nýr snjór ofan á gömlum, hörðum snjó og neðarlega í nýja snjónum er veikleiki sem gerir það að verkum að fólk á ferð um brattar, snævi þaktar hlíðar getur sett af stað snjóflóð. Búast má við því að veikleikinn viðhaldist í köldu, björtu veðri næstu daga og því er þeim tilmælum beint til fólks á ferð um fjalllendi (t.d. fjallaskíðafólk og vélsleðamenn) að fara að öllu með gát og forðast brattar brekkur þar sem nýi snjórinn hefur safnast saman. Ekki er búist við stórum flóðum, en þó nægjanlega stórum til að skapa hættu fyrir fjallafólk. Tvö flóð fóru af stað af mannavöldum í gær en engin slys urðu á fólki. Margir hafa tilkynnt um „vúmp“ hljóð í snjóþekjunni, sem er merki um veikleika.

Þetta kemur fram á vefsíðu Veðurstofu Íslands í dag

bryndis@bb.is

 

Auglýsing
Auglýsing

Ferðamannavegir á Vestfjörðum verði skilgreindir

Vegurinn um Svalvoga gæti fallið undir skilgreininguna, enda vinsæll meðal ferðamanna þó hann geti á köflum verið ógnvekjandi.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi, hefur lagt fram þingályktunartillögu um að Alþingi feli samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að skipa starfshóp til að móta stefnu og framkvæmdaáætlun um uppbyggingu akvega á Vestfjörðum sem hafa sérstöðu með tilliti til útsýnis, náttúrufegurðar og menningartengdrar ferðamennsku.

Í greinargerð segir að lagt sé til hérlendis verði haldið á þá braut sem ýmis ríki í Evrópu og Vesturheimi hafa fylgt um alllangt skeið og felst í því að gefa gildi akvega fyrir ferðamennsku sérstakan gaum, skipuleggja þá og gera þá úr garði með tilliti til ferðamanna sem vilja njóta náttúrufegurðar og dýralífs og fræðast um menningu og mannlíf á þeim slóðum sem þeir fara um.

Sem dæmi um slíka vegi má nefna Atlanterhavsveien í Noregi, Romantische Straße  í Suður Þýskalandi  og Vínleiðina – La Route des Vins d’Alsace um Alsace-hérað í Frakklandi.

Slíkir vegir gegna þannig ekki einungis því hlutverki að vegfarandinn komist greiðlega á milli áfangastaða heldur verði förin sjálf til skemmtunar, fróðleiks og yndisauka. Í þessum tilgangi er m.a. tekið tilliti til útsýnis við val á vegstæði, áningar- og útsýnisstaðir eru fleiri en ella væri og gerðar eru ráðstafanir til að kynna ferðafólki náttúru, sögu og menningu þess landsvæðis sem farið er um.

Ástæða þess að lagt er til að uppbyggingu á Vestfjörðum verði sérstaklega sinnt í þessu tilliti er að þar er margt enn ógert í vegagerð og því næg tækifæri til að koma sjónarmiðum varðandi fagrar ferðaleiðir að í hönnun og uppbyggingu vega og mannvirkjum sem þeim tengjast. Ekki skortir á náttúrufegurð í landshlutanum og má ætla að mjög víða sé hægt að finna staði og svæði þar sem unnt er að raungera væntingar um vegagerð sem í senn virði íslenska náttúru og veiti ferðamönnum tækifæri til að njóta hennar sem best. Þyki aðferðin gefa góða raun á Vestfjörðum er að sjálfsögðu rétt að beita henni einnig við vegagerð í öðrum landshlutum.

Samkvæmt þingsályktunartillögunni verða í starfshópnum fulltrúar opinberra aðila á sviði vegagerðar og skipulagsmála, fulltrúar sveitarfélaga í landshlutanum og enn fremur fulltrúi frá Skipulagsfræðingafélagi Íslands, Arkitektafélagi Íslands og Félagi leiðsögumanna og gert er ráð fyrir að niðurstöður starfshópsins liggi fyrir í árslok 2017.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Aflaverðmæti dróst saman

Í nóvember 2016 var aflaverðmæti íslenskra skipa 10,2 milljarðar króna sem er samdráttur um 16,8% samanborið við nóvember 2015 er fram kemur í frétt á vef Hagstofunnar. Verðmæti botnfiskafla nam 7,7 milljörðum og dróst saman um 14,2% frá fyrra ári. Uppistaðan í verðmæti botnfiskaflans var þorskur en verðmæti hans nam 5,5 milljörðum sem er 2,6% minna en í nóvember 2015. Verðmæti uppsjávarafla dróst einnig saman á milli ára, nam tæpum 1,9 milljörðum sem er 21,2% minna en í nóvember 2015. Verðmæti flatfiskafla dróst saman um 25,5% og nam 522 milljónum króna í nóvember. Aflaverðmæti skelfisks dróst saman um 50,8% og nam um 88 milljónum samanborið við tæpar 179 milljónir í nóvember 2015.

Á 12 mánaða tímabili frá desember 2015 til nóvember 2016 var aflaverðmæti 134,9 milljarðar króna sem er 10,5% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr. Verðmæti botnfiskafla dróst saman um 7,4 milljarða á milli tímabila. Verðmæti uppsjávartegunda dróst einnig saman á milli þessara 12 mánaða tímabila, vegur þar þyngst 7,7 milljarða samdráttur á verðmæti loðnuafla.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Bæjarins besta 9. tbl. 34. árgangur 2017

Auglýsing
Auglýsing

Blómstrandi fjallavíðir í Kaldalóni

Útsprunginn fjallavíðir í Kaldalóni. Háafell í baksýn. Mynd: nave.is

Hið stórundarlega tíðarfar sem hefur verið ríkjandi síðustu misseri tekur á sig ýmsar myndir. Starfsmaður Náttúrustofu Vestfjarða var á ferð í Kaldalóni í gær og varð var við að fjallavíðirinn (Salix arctica) í neðri hluta Kaldalóns var útsprunginn á nokkrum stöðum. Á vef Náttúrustofunnar segir að þetta komi mjög á óvart, þar sem fjallavíðir ætti ekki að springa út fyrr en í maí í fyrsta lagi. Mjög snjólétt er á þessum slóðum og veðurfar að undanförnu hefur verið gott og líklegt að hann hafi ruglast í ríminu. Ekki sást á fjalldrapa eða birki á þessu svæði að það væri að springa út eða brum farin að þrútna og ekki heldur á bláberja eða aðalbláberjalyngi.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Almenningur tilkynni óeðlilegan fugladauða

Gæsir í oddaflugi.

Töluverðar líkur eru á því að alvarlegt afbrigði fuglaflensu, sem greinst hefur í fuglum víða í Evrópu, berist hingað til lands með farfuglum. Þetta er mat starfshóps sérfræðinga hjá Matvælastofnun og Háskóla Íslands, tilraunastöð HÍ að Keldum og sóttvarnalæknis. Ekki er vitað til að fólk hafi veikst af völdum þessa afbrigðis.

Samkvæmt Matvælastofnun hefur fuglaflensan, H5N8, breiðst hratt út í Evrópu frá því í október á síðasta ári, bæði í villtum fuglum og alifuglum, meðal annars á þeim slóðum sem íslenskir farfuglar halda sig á að vetri til. Sýkingin er þannig að fuglar sem hafa smitast stuttu áður en þeir leggja af stað yfir hafið geta náð til landsins áður en þeir veikjast. Samkvæmt MAST er faraldurinn frábrugðinn þeim sem geisaði í Evrópu á árunum 2006-2008 þar sem hann nær í meira mæli til villtra fugla sem virðast jafnframt vera helsta smitleið alifugla.

Matvælastofnun segir fuglaeigendur þurfa að að vera undir það búnir að geta hýst fuglana sína eða haft þá í girðingu undir þaki til að draga úr smithættu. Þá er almenningur beðinn um að tilkynna til Matvælastofnunar verði hann var við óeðlilegan fugladauða.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Teigsskógur: Vegagerðin velur ódýrasta kostinn

Veglínurnar sem eru bornar saman í matsskýrslunni. Vegagerðin vill fara leið Þ-H um Teiggskóg.

Vega­gerðin tel­ur að leið Þ-H um Gufu­dals­sveit sé besti kost­ur­inn við val á nýrri leið um Gufu­dals­sveit. Sú leið ligg­ur meðal ann­ars um Teigs­skóg í Þorskafirði. Í mats­skýrslu sem Vega­gerðin hef­ur nú lagt fram vegna um­hverf­is­mats kem­ur fram að vega­gerðin hafi óhjá­kvæmi­lega nei­kvæð áhrif á um­hverfið og er leið Þ-H önn­ur af tveim­ur leiðum sem hafa mest áhrif á lands­lagið. Þegar Skipu­lags­stofn­un hef­ur gefið út álit sitt á mats­skýrsl­unni sæk­ir Vega­gerðin um fram­kvæmda­leyfi til Reyk­hóla­hrepps. Stefnt hef­ur verið að því að hefjast handa í ár. Samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar er álits Skipulagsstofnunar að vænta í síðasta lagi 27. mars 2017.

Leið Þ-H þver­ar Þorska­fjörð, fer um Teigs­skóg og þver­ar Djúpa­fjörð og Gufu­fjörð. Hún stytt­ir Vest­fjarðaveg um helm­ing, eða rúma 20 km, á þess­um kafla og ligg­ur öll um lág­lendi.

Samkvæmt matskýrslunni mun vegagerðin hafa  veruleg neikvæð áhrif á landslag og verndarsvæði.

Kostnaður við mismunandi leiðir vegur þungt við ákvörðun Vegagerðarinnar um val á vegstæði. Áætlað er að Þ-H kosti 6,4 milljarða kr. sem er 4 milljörðum minna en næstódýrasti kosturinn. Einnig hefur það áhrif á valið að gert er ráð fyrir Þ-H leiðinni í skipulagi sveitarfélagsins og áætlunum ríkisins um gerð jarðganga.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Heilsa og hreyfing í Vísindaportinu

Dr. Hannes Hrafnkelsson.

 

Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða þessa vikuna verður sjónum beint að samhengi hreyfingar og heilsu. Hannes Hrafnkelsson, sérfræðingur í heimilislækningum, fjallar í erindi sínu um fylgni lífsstíls við ýmsa sjúkdóma nútímans og fer hann yfir helstu rannsóknir sem tengjast sjúkdómum og hreyfingu.

Á síðustu áratugum hefur komið æ betur í ljós að lífsstíll hefur verulega fylgni við marga af helstu sjúkdómum sem vestrænar þjóðir glíma við. Fjölbreytilegar rannsóknir hafa í áranna rás verið gerðar á tengslum sjúkdóma og hreyfingar og mun Hannes í erindi sínu fara yfir helstu rannsóknir á því sviði ásamt því að fjalla um ráðlagða hreyfingu og áhrif hreyfingar á ýmsa sjúkdóma og lífslengd.

Hannes Hrafnkelsson er búsettur í Reykjavík og starfar sem heimilislæknir við Heilsugæsluna á Seltjarnarnesi. Hann fluttist til Ísafjarðar ungur að aldri og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði. Að því loknu lá leiðin í læknisfræði við Háskóla Íslands og síðar í sérfræðinám í heimilislækningum, m.a. í Noregi. Hannes varði  doktorsritgerð sína í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2012. Ritgerðin fjallar um áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma og tengsl líkamsbyggingar við bein hjá 7-9 ára börnum.

Vísindaportið stendur frá 12.10-13.00 á morgun og er öllum opið. Að þessu sinni fer fyrirlesturinn fram á íslensku.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir