Laugardagur 19. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2332

Svartklæddir kennarar sýna samstöðu

Kennarar á leikskólanum Eyrarskjóli mættu svartklæddir til vinnu í morgun til að sýna samstöðu með konum um allan heim, samstöðu í baráttu sinni fyrir kvenfrelsi í hverri þeirri mynd sem hún birtist. Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna á síðasta ári mætti Marzena Glodkowska kennari á Bláakjarna svartklædd til að sýna samstöðu með konum í heimalandi sínu Póllandi en þá áformuðu pólsk yfirvöld að leggja algjört bann við fóstureyðingum með lagasetningu. Pólskar konur og kynsystur þeirra um víðan heim mótmæltu kröftuglega og var lögunum á endanum hafnað. En baráttunni fyrir frelsi kvenna yfir eigin líkama er ekki lokið. Víða um heim hafa komur ekki aðgang að getnaðarvörnum og ekki val um að stjórna barneignum sínum.

Í dag vilja kennarar á Eyrarskjóli standa við bakið á Marzenu með stuðningi í verki, jafnframt því sem þær standa með kynsystrum sínum í Póllandi og um heim allan. Í yfirlýsingu á heimasíðu skólans segja kennararnir vilja á alþjóðabaráttudegi kvenna leggja áherslu á eftirfarandi:

„Algjör grundvöllur kvenréttinda og jafnrétti kynjanna er sá að konur hafi yfirráð yfir eigin líkama, að konur hafi vald til að stjórna eigin lífi eins og þeim hentar best, að eignast börn þegar þeim hentar, að rjúfa þungun þegar þeim hentar. Kynfrelsi kvenna er því ein af grundvallarkröfum okkar allra sem berjumst fyrir jafnrétti kynjanna, grundvallarkröfum okkar allra sem berjumst fyrir mannréttindum og betra samfélagi.

Við stöndum nú frammi fyrir því að yfirvöld út um allan heim, líka í Evrópu, vinna skipulega og staðfastlega gegn þessum grundvallarmannréttindum kvenna, að stjórna eigin líkama. Yfirvöld út um allan heim hafa sett lög sem takmarka aðgang kvenna að læknisþjónustu, lög sem takmarka yfirráð kvenna yfir eigin líkama.“

annska@bb.is

Auglýsing

Atvinnuþátttaka kvenna aldrei verið meiri – fáséðir stjórnendur stórfyrirtækja

Konur hafa aldrei verið fleiri á vinnumarkaði hér á landi. Mynd úr safni frá kvennahlaupinu á Ísafirði.

Atvinnuþátttaka kvenna var tæp 80% árið 2016 og hefur aldrei mælst hærri samkvæmt tölum sem Hagstofan birtir í dag, á sama tíma var þátttaka karla rúm 87%. Tölur Hagstofunnar á þessum alþjóðlega baráttudegi kvenna birta í tali og tölum ýmsar upplýsingar um stöðu kvenna á vinnumarkaðinum á Íslandi. Þar kemur fram að óleiðréttur launamunur kynjanna hjá fullvinnandi launþegum var rúm 14% árið 2015. Tæplega helmingur kvenna 25-64 ára var með háskólamenntun árið 2016 samanborið við þriðjung karla á sama aldri. Þá voru 45% karla og 30% kvenna með starfs- og framhaldsmenntun. Konur eru nú 48% alþingismanna og 44% kjörinna sveitarstjórnarmanna en í mörgum öðrum áhrifastöðum er hlutur kvenna lægri. Hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra fer eftir stærð fyrirtækis, til dæmis var það 22%  hjá fyrirtækjum með 1-49 starfsmenn en 9% í fyrirtækjum með 250 starfsmenn eða fleiri árið 2015.

Hagstofa Íslands gefur í dag út bæklinginn Konur og karlar á Íslandi 2017 í samstarfi við Jafnréttisstofu og velferðarráðuneytið. Í honum eru samanteknar upplýsingar sem gefa vísbendingar um stöðu kvenna og karla í samfélaginu. Þar eru tölur og myndrit um mannfjölda, fjölmiðla, menntun, vinnumarkað, laun og áhrifastöður.

annska@bb.is

Auglýsing

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna í dag

Í dag, þann 8.mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna og nota konur um víðan heim daginn til að berjast fyrir bættum réttindum og minna á að þrátt fyrir að mikið hafi áunnist síðan hugmyndin að deginum kviknaði árið 1910, sé landi ekki náð og enn hlutir sem berjast þarf fyrir til að rétta hlut kvenna, þó áherslur og verkefni kunni að vera mismunandi eftir löndum. Hugmyndina að deginum átti þýska kvenréttindakonan Clara Zetkin, sem bar hana fyrst upp á fundi Alþjóðasamtaka sósíalískra kvenna sem haldinn var í Kaupmannahöfn árið 1910. Þá var talið brýnt að velja sunnudag þar sem það var eini frídagur verkakvenna í þá daga og því var dagsetningin ekki fastsett fyrstu árin, en þá voru helstu baráttumál kvennadagsins kosningaréttur kvenna og samstaða verkakvenna.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna var fyrst haldinn hátíðlegur meðal sósíalískra kvenna í Danmörku, Þýskalandi, Austurríki og Sviss þann 19. mars árið 1911. Svíþjóð, Frakkland og Holland bættust síðan við árið 1912 og árið 1913 var alþjóðlegs baráttudags kvenna einnig minnst í Tékkóslóvakíu og Rússlandi, er frá segir á vef Kvennasögusafnsins. Árið 1914 söfnuðust konur þúsundum saman í Þýskalandi 8. mars og var það upphafið að stórum mótmælafundum og kröfugöngum verkamanna og –kvenna sem stóðu í heila viku. Sama dag árið 1917 gerðu konur í Pétursborg verkfall til að krefjast betri kjara og friðar. Allir pólitískir leiðtogar lögðust gegn verkfallinu en konurnar héldu sínu striki. Fjórum dögum síðar sagði keisarinn af sér og bráðabirgðastjórn veitti konum kosningarétt og var þá rússneska byltingin hafin. Árið 1921 ákvað Alþjóðasamband kommúnista að samþykkja tillögu Clöru Zetkin um að 8. mars yrði þaðan í frá baráttudagur kvenna.

Misjafnt var eftir löndum hvort merkjum dagsins var haldið á lofti og fór æ minna fyrir honum eftir því sem árin liðu, en með tilkomu nýju kvennahreyfingarinnar um 1970 gekk 8. mars í endurnýjun lífdaga og ákváðu Sameinuðu þjóðirnar árið 1977 að 8. mars skyldi vera alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti.

Þennan dag árið 1989 ákváðu íslenskar konur frá fjölda kvennasamtaka og félaga að helga daginn baráttunni gegn kynferðisofbeldi á Íslandi. Á vef Stígamóta segir að sjaldan hafi myndast eins víðtæk samstaða um nokkurt mál meðal íslenskra kvenna. Hóparnir kynntu starfsemi sína á fjölmennum baráttufundi sem haldinn var í Hlaðvarpanum 8. mars 1989. Á fundinum var ákveðið að stofna Samtök kvenna gegn kynferðisofbeldi, sem leiddi af sér stofnun Stígamóta ári seinna, en þau opnuðu þennan dag árið 1990.

Í dag er dagsins minnst með ýmsum hætti. Til að mynda verður samstöðufundur í Iðnó klukkan 17 undir yfirskriftinni „Konur gegn afturför“ þar sem þemað í ár er hinn vaxandi þjóðernisfasismi og bakslag í réttindabaráttu kvenna og minnihlutahópa. Þar sem spurt er hvernig getur femínisminn verið andsvar við þeirri afturför.

annska@bb.is

Auglýsing

Hryllingur í Jökulfjörðum!

Fyrsta stikl­an úr kvik­mynd­inni Ég man þig vek­ur upp ótta og skelf­ingu. Kvik­mynd­in er gerð eft­ir bók Yrsu Sig­urðardótt­ur en henni er leik­stýrt af Óskari Þór Ax­els­syni, sem leik­stýrði Svart­ur á leik.

Hand­ritið var skrifað af Ottó Geir Borg, Óskari Þór Ax­els­syni og Yrsu Sig­urðardótt­ur en kvik­mynd­in fjall­ar um ungt fólk sem er að gera upp hús á Hesteyri á Jökulfjörðum. Á Ísaf­irði dregst nýi geðlækn­ir­inn í bæn­um inn í rann­sókn á sjálfs­morði eldri konu, en svo virðist sem hún hafi verið heltek­in af syni hans sem hvarf.

Með aðal­hlut­vert fara Ágústa Eva Er­lends­dótt­ir, Þor­vald­ur Davíð Kristjáns­son, Jó­hann­es Hauk­ur Jó­hann­es­son, Sara Dögg Ásgeirs­dótt­ir, Anna Gunn­dís Guðmunds­dótt­ir og Þröst­ur Leó Gunn­ars­son.

smari@bb.is

Auglýsing

Norðaustanáttin ræður áfram ríkjum

Veðurstofa Íslands spáir norðaustan 8-13 m/s og slyddu eða snjókomu á Vestfjörðum í dag, einkum verður ofankoman á svæðinu norðanverðu. Hiti verður nálægt frostmarki. Það léttir heldur til á morgun og þá kólnar í veðri. Á föstudag er búist við vaxandi austanátt á landinu, með 10-18 m/s síðdegis, hvassast verður við suðurströndina.

Á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir en hálka og éljagangur á Steingrímsfjarðarheiði og snjóþekja á Þröskuldum.

annska@bb.is

Auglýsing

Bolvísk og frönsk ungmenni öðlast vitund um eigið vistspor

Ungmennin í slagviðri í Holti

Í febrúarlok heimsóttu Bolungarvík ungmenni frá Lyon í Frakklandi á vegum Erasmus+ áætlunarinnar, sem sem er stærsta mennta- og æskulýðsáætlun í heiminum og mörgum hér á landi af góðu kunn. Er til að mynda tekið þátt í ungmennaskiptaverkefnum á þeirra vegum mátti lesa um eitt skemmtilegt slíkt verkefni á síðum Bæjarins besta í fyrra sem nemendur við Grunnskóla Bolungarvíkur tóku þátt í.

Franski hópurinn taldi 10 ungmenni á ferð með Bolvíkingnum Guðmundi Arngrímssyni og dvaldi sex daga í Bolungarvík þar sem þau hófu samstarf með 10. bekk grunnskólans. Þau fóru um víðan völl að kynnast svæðinu, heimsóttu meðal annars Holtsfjöru í slagviðri, skoðuðu Ósvör, skelltu sér á kaffihús á Ísafirði, fóru í sund á Suðureyri og urðu vitni að stórkostlegum dansi norðurljósanna. Einnig fengu þau að kynnast íslenskum hefðum líkt og að maska, og fengu þau til að mynda að smakka rjómabollur, plokkfisk og hákarl, svo fátt eitt sé nefnt og segir Guðmundur dvölina hafa verið mikla upplifun og mikinn lærdóm fyrir ungmennin.

Ungmennin á fyrsta vinnufundi í Einarshúsi í Bolungarvík

Guðmundur á fyrirtækið Cursus Iceland sem sérhæfir sig í alls kyns námskeiðum er lúta að sjálfbærni og meðhöndlun náttúru. Hann hefur talvert komið að ungmennaskiptaverkefnum áður, en þá í formi þess að þjálfa starfsmenn, en þetta er í fyrsta sinn sem hann er sjálfur með hóp á vegum áætlunarinnar sem hann segir gefandi og skemmtilegt verkefni. Það sem hópurinn vinnur að er að rannsaka sitt eigið vistspor og hvernig þau hafa áhrif í gegnum sína eigin neyslu og kauphegðun. Guðmundur segir verkefnið afar brýnt, það sé mikilvægt að ná til unga fólksins ef við viljum í raun sjá viðhorfs – og atferlisbreytingar í veröldinni og það í raun ákvarði hvernig okkur reiðir af yfir höfuð. Hann segir gífurlega mikilvægt að ungmennin öðlist vitund um eigið vistspor og hvernig við í sameiningu sköpum gríðarlega eftirspurn eftir drasli.

Guðmundur Arngrímsson leiddi hópinn. Mynd af Fésbókarsíðu Einarshússins.

Ungmennin vinna í fjórum hópum sem hver svo velur sér tiltekið verkefni eða sjónarhorn til umfjöllunar sem þau svo túlka í gegnum stuttmyndir og segist Guðmundur binda miklar vonir við að þær hafi áhrif á ungmenni víða og veki þau til aukinnar vitundar í þessum skilaboðum frá jafnöldrum: „Vonandi verður hugvekjan það öflug að hún verði boðberi nýrra neysluviðmiða og nýrrar hugmyndafræði til framtíðar. Stuttmynd sem færi víða er sterkt vopn og mikilvægt fyrir þau sem að verkefninu koma að koma skilaboðunum áfram, því það skiptir engu máli hversu merkilegt það er sem þú hefur að segja ef enginn heyrir það.“

Guðmundur gerir mikið af því að teikna upp og gera náttúruleiksvæði og segir hann þetta allt tengjast saman: „Það er gott að skoða hvernig maður hagar sér í náttúrunni og hvernig við sköpum merkingu í umhverfinu okkar. Fyrir framtíðina er mikilvægt að finna þessa tengingu hjá sem flestum, því það er ekki hægt að sýna hollustu ef fólki finnst það ekki vera hluti af umhverfinu.“

Hópurinn kemur aftur saman í júlí er íslensku ungmennin halda út til Frakklands þar sem þau skoða sig um í Lyon ásamt því að halda áfram að vinna að stuttmyndagerðinni.

annska@bb.is

Auglýsing

„Ákall til allra landsmanna“

Hjallaháls í Gufudalssveit er erfður farartálmi, sér í lagi að vetrarlagi.

Undirskriftasöfnun er hafin á netinu til mótmæla ákvörðun stjórnvalda að skera niður allt framkvæmdafé til vegagerðar í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði. Þegar þetta er skrifað hafa tæplega 1.500 manns skrifað undir áskorunina. Vestfirðingar hafa um áratugaskeið barist fyrir bættum vegsamgöngum um sunnanverða Vestfirði. Eftir örfáar vikur er von á áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismati vegna vegagerðar í Gufudalssveit og fólk vongott um að senn hefjist framkvæmdir „ákvað samgöngu- og sveitastjórnaráðherra skyndilega og upp úr eins manns hljóði að ógilda fyrri ákvörðun með þeirri skýringu að fjármagn væri ekki fyrir hendi. Þessa ákvörðun tók ráðherrann án nokkurs samráðs við þingmenn kjördæmisins eða Alþingi yfir höfuð,“ segir í greinargerð með undirskriftasöfnuninni.

„Íbúar á Vestfjörðum senda nú ákall til allra landsmanna um að skrifa undir áskorun til ríkisstjórnar Íslands og Alþingis þess efnis að staðið verði við þau fyrirheit sem gefin voru fyrir síðustu alþingiskosningar hvað varðar boðaðar framkvæmdir í vegsamgöngum í Gufudalssveit. Því verði framkvæmdirnar boðnar út um leið og framkvæmdaleyfi liggi fyrir.

Mikið er í húfi.  Byggð á sunnanverðum Vestfjörðum á allt sitt undir því að helsta lífæð samfélaganna til höfuðborgarsvæðisins byggist á heilsársvegi í ætt við aðra helstu þjóðvegi landsins. Leiðin um Ódrjúgsháls og Hjallaháls er með hættulegri fjallavegum landsins og gjarnan farartálmi um vetur. Krafan er einföld. Hnekkið ákvörðun ráðherra og tryggið fjármagn til þessara framkvæmda strax.“

smari@bb.is

Auglýsing

Enn eykst ferðamannafjöldinn

Um 148 þúsund er­lend­ir ferðamenn fóru frá land­inu í fe­brú­ar síðastliðnum sam­kvæmt taln­ing­um Ferðamála­stofu í Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar eða 47.600 fleiri en í fe­brú­ar á síðasta ári. Aukn­ing­in nem­ur 47,3% milli ára.

Ferðamönn­um fjölgaði jafn­framt mikið milli ára, árin á und­an en aukn­ing­in var 31,2% frá 2013-2014, 34,4% frá 2014-2015 og 42,9% frá 2015-2016.

Frá ára­mót­um hafa 284 þúsund er­lend­ir ferðamenn farið úr landi um Kefla­vík­ur­flug­völl sem er 59,5% aukn­ing miðað við sama tíma­bil í fyrra. Greint er frá þessu á vef Ferðamála­stofu.

Þar kem­ur jafn­framt fram að Bret­ar og Banda­ríkja­menn voru um helm­ing­ur ferðamanna en Bret­ar voru 31,9% og Banda­ríkja­menn 19,5% af heild­ar­fjölda. Tíu þjóðerni sem röðuðust þar á eft­ir voru eft­ir­far­andi, Kín­verj­ar með 5,7%, Frakk­ar með 4,5%, Þjóðverj­ar 4,4%, Kan­ada­menn 3,3% og Hol­lend­ing­ar með 2,1%.

Fjöldi erlendra ferðamenna sem fara um Leifsstöð hefur nærri fjór­fald­ast í fe­brú­ar á fimm ára tíma­bili. Þannig hafa fjöldi N-Am­eríkan­a nærri sex­fald­ast, Mið- og S-Evr­ópu­bú­ar meira en þre­fald­ast. Breskir ferðamenn er þrisvar sinnum fleiri en fyrir fimm árum. Norður­landa­bú­um hef­ur hins veg­ar fjölgað minna eða um 47,3% á tíma­bil­inu 2013-2017.

smari@bb.is

 

Auglýsing

Háskóladagurinn á Ísafirði

Háskóladagurinn verður á Ísafirði á morgun, en viðburðurinn hefur fest sig í sessi síðustu ár þar sem boðið er upp á kynningu á öllu því háskólanámi sem í boði er hér á landi. Gildir einu þá hvort hinir fróðleiksþyrstu séu nemendur sem eru að klára framhaldsskóla og leita að námi til að búa sig undir framtíð sína á fullorðinsárum eða fólk sem vill sækja sér frekari menntun hvar á ævistigum sem það kann að vera statt. Háskóladagurinn var í Reykjavík um nýliðna helgi og nú fer lestin ferð um landið þar sem fulltrúar sjö háskóla kynna yfir 500 námsbrautir, en það eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Háskólinn í Reykjavík, Landbúnaðarháskóli Íslands og Listaháskóli Íslands.

Háskóladagurinn verður í Menntaskólanum á Ísafirði, þann 9. mars á milli klukkan 11 og 13.

annska@bb.is

Auglýsing

Hlýtt og vætusamt í febrúar

Febrúar átti fallega daga

Áfram halda mánuðirnir áfram að skipa sér í röð þeirra hlýjustu í mælingum Veðurstofu Íslands og var nýliðinn febrúarmánuður hlýr og vætusamur. Einkum var hlýtt á norðan- og austanverðu landinu og vætusamt um sunnan- og vestanvert landið. Úrkoma var flesta daga á sunnan- og vestanverðu landinu og snjólétt um allt land þar til kyngdi niður snjó við Faxaflóa aðfaranótt þ. 26. og vöknuðu íbúar höfuðborgarinnar við 51 cm jafnfallinn snjó sem er næstmesta snjódýpt sem mælst hefur í Reykjavík til þessa en mest mældist hún hinn 18. janúar 1937, 55 cm.

Meðalhitinn í Reykjavík mældist 2,8 stig og er það 2,5 stigum ofan meðaltals áranna 1961-1990, en 1,8 stigum ofan meðaltals síðustu tíu ára. Í febrúar 2013 var hlýrra en þá var hitinn 3,8 stig. Á Akureyri var meðalhitinn 2,7 stig, 4,1 stigi ofan meðaltals 1961-1990 og 3,5 stigum ofan meðaltals síðustu tíu ára. Á Akureyri þarf að fara aftur til ársins 1965 til að fá heitari febrúarmánuð en þá var meðalhitinn 3,1 stig.

Í Reykjavík mældist úrkoma 126,3 mm sem er um 75% umfram meðallag 1961-1990 og þarf að fara aftur til ársins 2012 til að finna meiri úrkomu en þá mældist hún 135 mm. Veðurhæð var heldur minni en venja er. Meðalveðurhæð á sjálfvirkum stöðvum var 0,6 m/s minni en meðaltal síðustu tíu ára.

Nánar um tíðarfar í febrúar má lesa hér.

annska@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir