Þriðjudagur 8. apríl 2025
Síða 2331

450 milljónir í ljósleiðaravæðingu

Guðný G. Ívarsdóttir, sveitarstjóri Kjósarhrepps, og Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að undirskrift lokinni.

Fulltrúar fjarskiptasjóðs og 24 sveitarfélaga skrifuðu í vikunni undir samninga um styrki sjóðsins til sveitarfélaganna vegna ljósleiðaravæðingar þeirra í tengslum við landsátakið Ísland ljóstengt. Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, staðfesti einnig samningana með undirskrift sinni og fór athöfnin fram á skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Sveitarfélögin 24 fá samtals 450 milljónir króna í styrki, allt frá um 1,5 milljónum króna uppí nærri 63 milljónir. Auk styrkja frá fjarskiptasjóði þá leggja íbúar og sveitarfélög að lágmarki 350.000 kr. af mörkum vegna hverrar tengingar en í mörgum tilfellum er þörf á töluvert hærra framlagi heimamanna.

Tvö sveitarfélög á Vestfjörðum fengu úthlutað styrk að þessu sinni. Reykhólahreppur fékk 19 milljónir kr. og Strandabyggð 11 milljónir kr.

 

Úthlutunin í heild:

Akraneskaupstaður        2.936.250 kr.
Breiðdalshreppur      19.350.000 kr.
Dalabyggð        8.680.000 kr.
Djúpavogshreppur        8.474.661 kr.
Fjarðabyggð        9.280.079 kr.
Fljótsdalshérað        2.895.260 kr.
Grindavíkurbær      10.000.000 kr.
Grundarfjarðarbær      15.468.559 kr.
Hrunamannahreppur      24.860.000 kr.
Kjósarhreppur      25.000.000 kr.
Langanesbyggð        6.000.000 kr.
Rangárþing eystra      62.750.000 kr.
Rangárþing ytra      16.920.000 kr.
Reykhólahreppur      19.000.000 kr.
Skaftárhreppur        9.075.000 kr.
Skorradalshreppur og Borgarbyggð      16.417.191 kr.
Snæfellsbær      46.498.000 kr.
Strandabyggð      11.000.000 kr.
Sveitarfélagið Hornafjörður      26.395.000 kr.
Sveitarfélagið Skagafjörður      53.510.980 kr.
Sveitarfélagið Skagaströnd        1.489.020 kr.
Vopnafjarðarhreppur      25.000.000 kr.
Þingeyjarsveit      29.000.000 kr.

Ofhleðsla skipa verði refsiverð

Jón Hákon BA.

Í skýrslu Rann­sókn­ar­nefndar sam­göngu­slysa á því þegar Jóni Hákoni BA hvolfdi gerir nefndin þá tillögu til inn­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins að það verði af­drátt­ar­laust gert refsi­vert að of­hlaða fiski­skip og eft­ir­lit með því tryggt. Einnig að sigl­inga­lög­um verði breytt þannig að eig­end­um og vá­trygg­inga­fé­lög­um fiski­skipa verði gert skylt að taka upp flök skipa sem sökkva nema sýnt sé fram á að slíkt sé óger­legt.

Drag­nót­ar­bátn­um Jóni Há­koni BA 60 hvolfdi að morgni 7. júlí 2014 þar sem hann var að veiðum út af Aðalvík. Fjór­ir menn voru um borð og drukknaði einn þeirra, en hinum var bjargað um borð í nærstadd­an bát, Mar­dísi ÍS. Rannsóknarnefndin telur or­sök slyss­ins vera þá að skipið var of­hlaðið og með viðvar­andi stjórn­borðshalla. Þetta leiddi til þess að í velt­ingi átti sjór greiða leið inn á þilfar skips­ins bæði yfir lunn­ingu og um len­sport. Vegna óþétt­leika á lest­ar­lúgukarmi bætt­ist stöðugt sjór í lest­ina. Varð þetta til þess að skipið missti stöðug­leika og því hvolfdi þegar öldutopp­ur rann óhindrað yfir lunn­ingu þess.

smari@bb.is

Eðlilegt að skoða samstarf – sameining ekki í kortunum

Pétur G. Markan.

„Mér finnst afstaða sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps vera bæði ábyrg og skynsöm og lýsa sveitarfélagi sem líður vel í eigin skinni og er öruggt með sjálft sig,“ segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkuhrepps um samhljóða ákvörðun sveitarstjórnar um sameiginlega umsókn hreppsins og Ísafjarðarbæjar um fjárframlag úr Jöfnunarsjóði sem verður nýtt til að skoða frekara samstarf og sameiningu sveitarfélaganna. Í bókun sveitarstjórnar Súðavíkhrepps er tekið fram að kjörnir fulltrúar hafi ekki sérstakan áhuga á að sameinast Ísafjarðarbæ. „Það er miklu heldur vilji að vinna hlutina meira saman. Hvort heldur sem er, þá verða allar þessar ákvarðanir, stórar eða smáar, í höndum íbúa Súðavíkurhrepps,“ segir sveitarstjórinn.

Hann telur ekkert nema eðlilegt að sveitarfélög skoði reglulega umhverfi sitt og kanni hvort ekki sé hægt að gera  betur fyrir íbúa, hvort sem það er þjónusta, rekstur og almenn velferð. „Svo ekki sé  talað um þegar maður á jafn frábæra nágranna. Til þess er þessi styrkur ætlaður, að kanna á faglegan hátt hvort ekki sé hægt að gera betur, hvort sem það er meira samstarf eða möguleg sameining.“

Hann leggur áherslu á að hreinskiptin umræða sé öllum til góða og að íbúar séu best til þess fallnir að að taka sjálfir ákvörðun um sína framtíð. „En til þess að taka ákvörðun þarftu að vera upplýstur á besta mögulegan hátt og styrkurinn notaður til að afla þeirra upplýsinga. Svo leggjum við afurðina fyrir íbúa, höldum íbúafund og ræðum bjarta framtíð Súðavíkurhrepps og Vestfjarða,“ segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.

smari@bb.is

Einar Mikael mætir aftur með góðan gest

Einar Mikael töframaður

Töframaðurinn Einar Mikael mætir aftur á vestfirska grundu á morgun, en hann hefur verið duglegur við að opna heim töfranna fyrir börnum á öllum aldri með sýningum sínum. Hann hefur verið á ferð og flugi um hinn stóra heim síðustu mánuði en er nú mættur til landsins með fullt af nýju efni sem hann mun deila með gestum í félagsheimili Bolungarvíkur annað kvöld. Til dæmis frumsýnir hann þar flunkunýjan vestfirskan spilagaldur. Ekki er þar allt talið því á sýningunni mun galdramaðurinn John Tómasson einnig stíga á stokk og sína listir sínar, sem ku vera ekkert slor og kallar Einar Mikael hann besta galdramann Íslands.

Töfraheimur Einars Mikaels er troðfullur af ótrúlegum töfrabrögðum og mögnuðum sjónhverfingum. Einar leyfir áhorfendum að taka virkan þátt í sýningunni og oft fær hann einhver til þess að aðstoða sig á sviðinu. Fyrstu 10 sem mæta fá gefins töfradót. Sýningin hefst klukkan 19:30.

annska@bb.is

Fjallað um málefni flóttafólks

Harfnhildur Kvaran

Hrafnhildur Kvaran, verkefnastjóri Reykjavíkurdeildar Rauða krossins í málefnum flóttafólks verður með erindi um málefni flóttafólks á aðalfundi Rauða krossins á Ísafirði á morgun, fimmtudag. Hrafnhildur kynntist móttöku flóttamanna fyrst árið 2007 er hún gerðist sjálfboðaliði við móttöku hópa frá Kólumbíu. Hún hefur því reynslu af málaflokknum bæði sem starfsmaður Rauða krossins og sem sjálfboðaliði. Víða um heiminn vinnur Rauði krossinn að málefnum flóttafólks og er málsvari þess. Á Íslandi vinnur félagið með stjórnvöldum að móttöku flóttafólks í samvinnu við sveitarfélög og vinnur fjöldi sjálfboðaliða Rauða krossins við að aðstoða fjölskyldur við að fóta sig í nýju samfélagi.

Á aðalfundi Ísafjarðardeildarinnar verður farið yfir þau fjölmörgu verkefni sem deildin vinnur að og má þar nefna skyndihjálp, neyðarvarnir, fatasöfnun, starf með heimsóknavinum, starf með eldriborgurum, starf í Vesturafli og fleiri verkefni í þágu samfélagsins.

Fundurinn hefst klukkan 18 í Fræðslumiðstöð Vestfjarða og eru allir velkomnir. Erindi Hrafnhildar verður í upphafi fundar.

annska@bb.is

Kæru vegna slysasleppingar vísað frá

Kæru frá Landssambandi veiðifélaga, þar sem farið var fram á rannsókn á því hvort lög um fiskeldi hafi verið brotin í ljósi fjölda regnbogasilungs í ám á Vestfjörðum, hefur verið vísað frá lögreglurannsókn. Frá þessu er greint á vef RÚV. Kærunni var vísað frá meðal annars vegna þess að eftirlitsaðilar laganna, Matvælastofnun og Fiskistofa, hafa meintar sleppingar til rannsóknar.

Í kærunni vísaði Landssambandið til þess að samkvæmt lögum ber að tilkynna slysasleppingar án tafar til Fiskistofu en engin slík tilkynning barst og taldi sambandið óhugsandi að fiskur sleppi úr sjókvíum í þeim mæli sem vísbendingar eru um án vitundar rekstrarleyfishafa.

Fyrir skemmstu tilkynnti Arctic Sea Farm um talsverða slysasleppingu í Dýrafirði eftir að gat fannst á botni einnar kvíar fyrirtækisins. Var í fyrstu talið að regnbogasilungurinn sem veiddist í ám víða á Vestfjörðum hefði sloppið úr þessari kví. Við rannsókn útilokaði Matvælastofnun að um sama fiskinn sé að ræða, vegna mismunar á stærð  sem veiddist í ánum og þess sem var í kvínni.

smari@bb.is

Smári lætur af störfum hjá Fræðslumiðstöðinni

Smári var leystur út með gjöfum er hann lét af störfum forstöðumanns Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Mynd: frmst.is

Smári Haraldsson forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða vann sinn síðasta dag hjá stofnuninni í gær, eftir tæp 16 ár í starfi. Smári tók við formannskeflinu árið 2001 af Jóhönnu Guðrúnu Kristjánsdóttur sem var fyrsti forstöðumaður Fræðslumiðstöðvarinnar sem stofnuð var árið 1999. Samstarfsfólk Smára kvaddi sinn gamla yfirmann með góðum gjöfum, fögrum orðum og ómældu knúsi er frá segir á vef Fræðslumiðstöðvarinnar. Svo var boðið til kaffisamsætis þar sem gestir gæddu sér á snittum og alvöru rjómatertum sem Smári hefur dálæti á frá kaffiboðum í Grunnavík.

Starfsfólk Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða kvaddi sinn góða yfirmann, Smára Haraldsson, er hann lét af störfum í gær. Mynd: frmst.is

Við starfi Smára tekur nýráðinn forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða Elfa Svanhildur Hermannsdóttir.

annska@bb.is

Öskudagur í dag

Öskupokar. Mynd: Klæðakot

Öskudagur er í dag. Nafn hans má finna í handritum frá 14. öld, en þó má ætla að það sé eldra og er hann fyrsti dagur lönguföstu og hefur hann lengi verið mikilvægur í kaþólska kirkjuárinu. Nafnið er dregið af þeim sið að ösku af brenndum pálmagreinum frá árinu áður var dreift yfir höfuð iðrandi kirkjugesta, til að minna þá á forgengileikann og hreinsa þá af syndum sínum, en askan var talin búa yfir heilnæmum hreinsunarmætti. Það er kannski minna um hádramatískan hátíðleika á öskudegi Íslands í dag og hafa seinni tíma siðir falið í sér öllu meira fjör.

Vinsælt var á árum áður að hengja öskupoka aftan í fólk og var þá helsta trixið að gera það án þess að viðkomandi tæki eftir. Líklega var góð lukka fólgin í öskunni svipað og í kaþólskunni, og var henni haganlega komið fyrir í skrautlegum heimasaumuðum pokum. Eftir að aska hætti að vera aðgengileg á heimilum landsins var henni bara sleppt, en áfram saumaðir skrautlegir pokar, sem voru þannig útbúnir að í þá var hengdur spotti, oft úr tvinna, sem í var festur títuprjónn sem var hitaður yfir eldi og beygður til svo auðveldara reyndist að hengja hann aftan í fólk. Það má segja að þessi ágæti siður, sem telst ekki til tökusiða heldur er talinn eiga rætur sínar hér á landi, hafi nánast dáið út er farið var að framleiða títuprjóna sem ekki beygðust, sem gerði verknaðinn nánast ómögulegan.

Víða um landið er mikið fjör á öskudag þar sem börnin klæða sig upp í búninga og ganga í verslanir og fyrirtæki sérstaklega og fá sælgæti að launum fyrir söng. Þá eru oft grímuböll og kötturinn sleginn úr tunnunni, þar sem sælgætisfyllt fígúra er hengd í loftið og slegin með priki eða öðru barefli þar til hún gefur sig og sælgætið streymir út.

annska@bb.is

Súðvíkingar vilja frekara samstarf

Súðavíkurhreppur verður neyddur til sameiningar verði tillögurnar að veruleika. Mynd: Mats Wibe Lund.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps tekur vel í ósk Ísafjarðarbæjar um að kanna möguleika á nánara samstarfi eða sameiningu sveitarfélaganna. Sótt verður um styrk úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem verður notaður til að gera úttekt á kostum og göllum sameiningar og samstarfs.

Í bókun áréttar sveitarstjórn Súðavíkurhrepps að á þessu stigi málsins er enginn sérstakur vilji sveitarstjórnar til sameiningar sveitarfélaganna.

Sveitarstjórn samþykkti samhljóða að sækja um fyrrgreindan styrk Jöfnunarsjóðs með Ísafjarðarbæ enda sé það „ábyrgt og faglegt að skoða reglulega möguleika í kringum sveitarfélagið til að efla það , auka þjónustu og velferð við íbúana. Afurð þessarar vinnu verður notuð til þess að rýna í þessa möguleika alla,“ segir í bókuninni og bent á að ákvörðun um sameiningu og verði alltaf tekin af íbúunum sjálfum.

Niðurstöður vinnunnar verður síðan kynnt á íbúafundi í Súðavík.

smari@bb.is

Kjarasamningum verður ekki sagt upp

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ og Björgólfur Jóhannsson formaður SA kátir eftir undirritun kjarasamnings á almennum vinnumarkaði. Mynd: mbl.is

Niðurstaða forsendunefndar ASÍ og Samtaka atvinnulífsins vegna endurskoðunar kjarasamninga er að tvær af þremur forsendum standast en ein gerir það ekki. Sú snýst um launaþróun annarra hópa. Samninganefnd ASÍ hefur engu að síður, m.a. að undangengnum fundarhöldum í baklandi stéttarfélaganna, ákveðið að segja ekki upp núgildandi kjarasamningi.

Forsendurnar sem voru til skoðunar eru þessar:

  1. Fjármögnun stjórnvalda á stofnframlögum ríkisins til 2.300 almennra íbúða á árunum 2016-2019 eða að hámarki 600 á ári.
  2. Mat á því hvort sú launastefna og þær launahækkanir sem í samningnum fólust hafi verið stefnumarkandi fyrir aðra á vinnumarkaði (32% hækkun frá nóv 2013 – des 2018).
  3. Aukinn kaupmáttur á samningstímanum.

Að áliti nefndarinnar er ljóst að liðir 1 og 3 standast skoðun en liður 2 er forsendubrestur.

Rök samninganefndar ASÍ fyrir því að segja ekki upp samningum eru að ákveðin verðmæti séu í núgildandi samningi en samkvæmt honum verður 4,5% almenn launahækkun 1. maí og 1,5% hækkun á mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð þann 1. júlí. Að auki er lítill áhugi á því að almenni markaðurinn fari fyrstur í þeim kjaraviðræðum sem framundan eru, en mörg opinberu félaganna eru með lausa samninga síðar á þessu ári.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir