Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 2330

Þingmenn kjördæmisins funda vegna Teigsskógs

Vegagerðin vill fara leið Þ-H en Skipulagsstofnun mælir með leið D2.

Haraldur Benediktsson, fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis, hefur boðað til fundar hjá þingmönnum kjördæmisins í kvöld vegna álits Skipulagsstofnunar á vegagerð í Gufudalssveit. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri kemur til þingmannafundarins og þar á að ræða álit Skipulagsstofnunar og viðbrögð Vegagerðarinnar við honum. „Vandlega þarf að fara yfir úrskurðinn. Í mínum huga er samt skýrt að Vegagerðin mun geta sótt um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar Reykhólahrepps,“ segir Haraldur.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri kemur til þingmannafundarins og þar á að ræða álit Skipulagsstofnunar og viðbrögð Vegagerðarinnar við honum. „Vandlega þarf að fara yfir úrskurðinn. Í mínum huga er samt skýrt að Vegagerðin mun geta sótt um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar Reykhólahrepps,“ segir Haraldur.

Í tilkynningu Vegagerðarinnar í gær kom fram að stofnunin hyggst sækja um framkvæmdaleyfi til Reykhólahrepps.

Í áliti Skipulagsstofnunar kemur fram að óskaleið Vegagerðarinnar, sem er í gegnum Teigsskóg og þverar Djúpafjörð og Gufufjörð, sé líkleg til að hafa í för með sér talsverð til veruleg neikvæð umhverfisáhrif sem ekki sé hægt nema að takmörkuðu leyti að fyrirbyggja eða draga úr með mótvægisaðgerðum. Skipulagsstofnun mælir með jarðgöngum undir Hjallaháls og vegi yfir Ódrjúgsháls og segir þann kost best uppfylla markmið laga um mat á umhverfisáhrifum um að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum framkvæmda. Sú leið er hinsvegar rúmlega fjórum milljörðum dýrari en vegurinn í gegnum Teigsskóg.

smari@bb.is

Auglýsing

Hæg breytileg átt í dag

Það verður hæg breytileg átt fram eftir degi á Vestfjörðum, skýjað með lítilsháttar slyddu seinnipartinn samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Vindur gengur í norðaustan 3-10 í kvöld og nótt og á morgun má búast við norðaustan 3-8 m/s á morgun og þá léttir til seinnipartinn. Hiti í dag og á morgun verður að 5 stigum að deginum. Á föstudag kveður spáin fyrir landið á um hæga breytilega átt og úrkomulítið verður, en norðan kalda við norðurströndina og él um kvöldið. Hiti breytist lítið.

Á Vestfjörðum er víða hálka eða hálkublettir, einkum á fjallvegum.

annska@bb.is

Auglýsing

KK á Vagninum um páskana

Kristján Kristjánsson eða KK mun troða upp á Vagninum um páskana og er það ekki í fyrsta sinn sem þessi ástsæli og viðkunnanlegi tónlistarmaður heiðrar Flateyringa með nærveru sinni og list. Í frétt á bb.is árið 2012 er fjallað um tengsl Kristjáns við Flateyri og þar er eftirfarandi haft eftir honum „Ég var nýfluttur heim frá Svíþjóð, byrjaður að koma fram og það æxlaðist þannig að ég og KK-Bandið spiluðum mikið á Flateyri. Bærinn varð í raun okkar annað heimili. Við ákváðum að halda útgáfutónleikana á Vagninum, hjá vertinum Guðbjarti Jónssyni, og úr varð heilmikið partí. Við leigðum litla flugvél, buðum fjölmiðlafólki á staðinn og þetta var allt mjög skemmtilegt.“

Lagið „ I think of angels“ samdi Kristján á loftinu á Vagninum árið 1992 og fjallar textinn um systur hans, Inger, sem lést í bílslysi fyrr á því ári. Kristján lýsir tilurð lagsins svona í viðtali við Vísi í desember 2015 „Ég var staddur uppi á lofti á Vagninum á Flateyri og fer að strömma þetta á gítarinn. Ég næ bara sambandi og sit þarna með tárin og er að tala við Inger í fyrsta skipti eftir að hún dó. Allt í einu bankar sorgin upp á. Eftir allan þennan tíma. Rétt áður en ég á að fara inn á sviðið. Allir sýndu þessu skilning og ég fékk að jafna mig áður en ég fór á svið. Ég gaf ekki út lagið fyrr en tveimur árum seinna og þá söng Ellen það. Það hefur síðan verið sungið margoft í jarðarförum og ég er svo ánægður að lagið hennar Inger hafi orðið svo mörgum öðrum huggun.“

Síðast spilaði Kristján á Flateyri þann 26. október 2015, þegar Flateyringar komu saman, minntust þeirra sem fórust í snjóflóðinu árið 1995 og glöddust með þeim sem lifðu.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Vegagerðin heldur væntanlega sínu striki

Veglínurnar sem eru bornar saman í matsskýrslunni. Vegagerðin vill fara leið Þ-H um Teiggskóg.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Vegagerðinni mun hún nú rýna álit Skipulagsstofnunar og taka saman rök og skýringar við ýmsum ábendingum og álitaefnum sem fram koma í álitinu, og reiknar síðan með að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vegar samkvæmt leið Þ-H til sveitarstjórnar Reykhólahrepps

Fréttatilkynning Vegagerðarinnar:

Vegagerðin lagði fram matsskýrslu þar sem kynntir voru fimm kostir á lagningu vegarins, þar sem fram kom að markmið með framkvæmdunum er að bæta samgöngur um Vestfjarðaveg, stytta vegalengdir og tryggja öryggi. Allar leiðirnar voru taldar uppfylla umferðaröryggiskröfur og hafa veruleg jákvæð áhrif á samgöngur á svæðinu og umferðaröryggi. Allar leiðirnar hafa margvísleg neikvæð umhverfisáhrif eins og tíundað var í matsskýrslunni. Niðurstaða Vegagerðarinnar var að leggja til að nýr vegur verði lagður samkvæmt svokallaðri leið Þ-H um Teigsskóg.

Álit Skipulagsstofnunar er í meginatriðum í samræmi við niðurstöður Vegagerðarinnar á mati umhverfisþátta líkt og fram kemur í matsskýrslunni sem lögð var fram, þótt áherslur séu mismunandi eins og eðlilegt má teljast í jafn flóknu máli. Vegagerðin vísaði fyrst og fremst á efnahagslega þáttinn til að rökstyðja leiðarval, en um 4,0 milljarða króna munur er á áætluðum kostnaði við leið Þ-H og næstódýrustu leiðinni. Með leið D2 sem Skipulagsstofnun og Vegagerðin telja að muni hafa minnst neikvæð umhverfisáhrif, þ.e.a.s. að vegurinn yrði lagður með jarðgöngum undir Hjallaháls, lægi Vestfjarðavegur áfram yfir Ódrjúgsháls meðan leið Þ-H liggur öll á láglendi. Leið Þ-H er auk þess tveimur kílómetrum styttri en leið D2.

 Vegagerðin mun nú rýna álit Skipulagsstofnunar og taka saman rök og skýringar við ýmsum ábendingum og álitaefnum sem fram koma í álitinu, og reiknar síðan með að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vegar samkvæmt leið Þ-H til sveitarstjórnar Reykhólahrepps.

bryndis@bb.is

 

Auglýsing

Skipulagsstofnun ekki sammála Vegagerðinni

Veglínurnar sem eru bornar saman í matsskýrslunni. Vegagerðin vill fara leið Þ-H um Teiggskóg.

Skipulagsstofnun hefur lokið álitsgerð vegna Vestfjarðavegar (60) milli Bjarkalundar og Skálaness í Reykhólahreppi samkvæmt lögum nr. 106/2000. Að mati Skipulagsstofnunar er leið D2 sá kostur sem uppfyllir best markmið laga nr. 106/2000 um að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum framkvæmda.

Leið D2 fylgir núverandi vegi frá Bjarkalundi að Þorskafirði og þverar Þorskafjörð rétt utan við Mjólkárlínu. Hún liggur í jarðgöngum undir Hjallaháls og um botn Djúpafjarðar. Þaðan fer hún í nýju vegstæði yfir Ódrjúgsháls, þverar svo Gufufjörð skammt utan Hofstaða að Skálanesi. Leiðin er 22,0 km löng með 4,5 km jarðgöngum og styttir Vestfjarðavegum 19,6 km. Byggja þarf 260 m langa brú yfir Þorskafjörð, 28 m brú yfir Djúpadalsá í botni Djúpafjarðar og 70 m brú yfir Gufufjörð, samtals 358 m langar brýr. Mögulegt er að leggja af langa kafla á núverandi vegi. Heildarefnisþörf vegna leiðar D2 er 1.204 þúsund rúmmetrar.

Á því landsvæði sem framkvæmdin er fyrirhuguð gilda margvísleg verndarákvæði sem taka að einhverju marki til allra þeirra fimm veglína sem matsskýrsla Vegagerðarinnar fjallar um. Votlendi, leirur og sjávarfitjar ásamt sérstæðum eða vistfræðilega mikilvægum birkiskógum njóta verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga. Þá er hluti áformaðs framkvæmdasvæðis innan svæðis á náttúruminjaskrá. Einnig er nokkur fjöldi fornleifa sem njóta verndar samkvæmt lögum um menningarminjar á eða nærri framkvæmdasvæði allra veglína. Jafnframt er arnarvarp og æðarvarp nærri framkvæmdasvæðinu sem nýtur verndar samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Þá eru búsvæði fleiri verndaðra fugla- og gróðurtegunda á áhrifasvæði framkvæmdarinnar. Einnig er sérstök áhersla á verndun landslags í lögum um náttúruvernd og í lögum um vernd Breiðafjarðar.

Hafandi í huga markmið laga um mat á umhverfisáhrifum, sem er að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmda, og að teknu tilliti til þess að allar þær fimm veglínur sem lagðar eru fram í matsskýrslu Vegagerðarinnar uppfylla umferðaröryggiskröfur og markmið um styttingu, telur Skipulagsstofnun að velja beri þá leið sem hefur í för með sér minnst neikvæð umhverfisáhrif. Gildir það sérstaklega gagnvart raski á þeim vistkerfum og jarðminjum sem njóta verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga, en samkvæmt náttúruverndarlögum ber að forðast að raska þeim nema brýna nauðsyn beri til. Við mat á því hvenær það getur átt við skal horfa til verndarmarkmiða náttúruverndarlaga, mikilvægis minja og sérstöðu þeirra í íslensku og alþjóðlegu samhengi og varúðarreglu umhverfisréttar.

Allar framlagðar veglínur hafa neikvæð áhrif á náttúruminjar sem njóta verndar samkvæmt lögum. Jafnframt liggur fyrir að nauðsyn er talin á að bæta samgöngur um svæðið og að endurbygging núverandi vegar er ekki talinn vera raunhæfur valkostur.

Hér má nálgast álit Skipulagsstofnunar.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Vettvangsskóli Háskólaseturs Vestfjarða á Reykhólum

Mynd af vef Háskólaseturs Vestfjarða

Vettvangsskóli Háskólaseturs Vestfjarða og Nordplus-samstarfsnetsins SuWaCo (Sustainable Waters and Coastal Bodies) heimsótti Reykhólasveit fyrir helgi. Í vettvangsskólanum fást nemendur við nýsköpunarverkefni sem tengjast hafinu á einn eða annan hátt. Sjónir nemenda beindust einkum að sjávargróðri enda eru Reykhólar höfuðstaður nýtingar þangs og þara á Íslandi.

Nemendurnir unnu í heila viku undir handleiðslu Maríu Maack á Reykhólum að nýtingu sjávargróðurs og opnuðust augu þeirra fyrir ýmsu sem er lítið sem ekki notað í dag. Eitt verkefni snerist um „afeitrun“ skólps með hjálp þörunga, annar hópur þróaði hugmynd um ráðgjafafyrirtæki til að leiðbeina bændum og sveitarfélögum varðandi notkun þörunga til að uppfylla staðla Evrópusambands um skólp. Enn annar hópur vann að hugmynd um fyrirtæki sem sem myndi framleiða einnota hnífapör úr agar sem unnið er úr þangi.

Vettvangsskólinn er hluti af Nordplus-samstarfsneti SuWaCo (Sustainable Waters and Coastal Bodies), þar sem, auk Háskólaseturs Vestfjarða, taka þátt fagháskólinn Novia i Finnlandi, Eesti maaülikool, sem er Landbúnaðarháskóli Eistlands, Aleksadras Stulginskis-háskóli í Litháen og landbúnaðarháskóli Lettlands.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Fátækt – smánarblettur á ríkri þjóð!

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Umræðan um fátækt fólk kemur alltaf reglulega upp á yfirborðið. Öll erum við sammála um að sá er veruleikinn og einnig að það sé ekki líðandi að tæp 10 % barna líði skort á Íslandi.

En það virðist vera með fátækt í íslensku samfélagi eins og óhreinu börnin hennar Evu. Enginn vill vita af fátæktinni þrátt fyrir að 7 til 9 % þjóðarinnar búi við þetta böl og um 5.000 manns við sára fátækt.

Fátæktarböl

Mikil hætta er á að fátækt gangi á milli kynslóða og mörgum reynist erfitt að komast upp úr fátæktargildrunni, hafi þeir eitt sinn lent í henni. Helstu áhættuhópar eru tekjulágt einhleypt fólk og einstæðir foreldrar með börn og aldraðir og öryrkjar. Fátækt fólk er að finna í öllum aldurshópum en staða á húsnæðismarkaði , tekjur og heilsufar eru lykilþættir í því hvernig fólki gengur að framfleyta sér.

Afleiðingar fátæktar eru margvíslegar en allar vondar og þungbærar þeim sem fyrir þeim verða. Fátækt birtist meðal annars í því að fólk getur ekki búið í mannsæmandi húsnæði og fátækt leiðir til þess að fólk hefur ekki efni á hollu fæði eða ráð á tómstundaiðju. Þekkt er að efnaminna fólk lætur hjá líða að sækja ýmsa heilbrigðisþjónustu og það hefur ekki efni á að taka sér frí með fjölskyldu sinni. Ýmis efnisleg gæði sem flestum þykja sjálfsögð standa ekki fátæku fólki til boða eins og bíll og ýmis algeng heimilistæki.

Óvænt útgjöld, svo sem vegna veikinda eða atvinnumissis, setja fjárhag fátækra yfirleitt úr skorðum og hæglega myndast vítahringur skorts sem erfitt er að rjúfa því ekkert má útaf bregða svo skuldir safnist ekki upp.

Tregðulögmál kjarabótanna en tækin eru til

Það hefur reynst þrautin þyngri að ná fram kjarabótum fyrir þau lægst launuðu. Gjarnan er litið svo á að léleg kjör þeirra séu forsenda fyrir efnahagslegum stöðugleika og fátæktin þannig gerð að þannig velferðargrunni alls samfélagsins. Þetta viðhorf birtist til dæmis skýrt í ábendingum og aðvörunum Seðlabanka Íslands um að krafa verkalýðssamtaka um 300.000 króna lágmarkslaun ógnaði stöðugleika í íslensku hagkerfi. Þar er mönnum greinilega alveg ljóst hverjir eigi að bera byrðarnar.

Við höfum framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara og neysluviðmið Velferðarráðuneytisins sem gefa vísbendingar um hvað kostar að framfleyta sér. Þær upphæðir eru langt frá þeim raunveruleika sem fjöldi fólks býr við í kjörum svo þar fer ekki saman raunveruleg framfærsluþörf og kjör fjölda fátæks fólks og barna. En við höfum tækin til að afla vitneskju um fátækt meðal landsmanna og við höfum úrræðin til að vinna bug á henni. Notum þau.

Samábyrgð og jöfnuður eru óvinir fátæktarinnar – vantar vilja til breytinga?

Það getur enginn skorast undan ábyrgð þegar fátækt er annars vegar. Samfélag okkar er ríkt og við búum vel að verðmætum auðlindum. Það er nóg til skiptanna. Við hvorki eigum né þurfum að líða að fólk geti ekki lifað hér mannsæmandi lífi sökum fátæktar.

Við berum öll ábyrgð á því að gera betur og koma í veg fyrir fátækt í okkar ríka landi. Efnahagur þjóðarbúsins hefur sjaldan verið betri en misskiptingin hefur því miður aukist samhliða ofurgróða sumra þjóðfélagshópa.

Stjórnvöld, sveitarfélög, stéttarfélög, félagasamtök og hvert og eitt okkar verða að beita tiltækum úrræðum til að koma í veg fyrir félagslegan ójöfnuð og fátækt. Það er vissulega ekkert náttúrulögmál að einhver hluti þjóðarinnar þurfi að búa við fátækt eða örbirgð heldur er það samfélagsmein sem unnt er að uppræta.

Við getum upprætt fátækt hér á landi ef við svo kjósum. Við eigum til þau úrræði sem þörf er á og þekkingin á því hvernig unnt er að koma í veg fyrir fátækt liggur fyrir. Fjármagnið er til. Er það kannski svo að við höfum allt nema pólitískan vilja til að ganga rösklega til verka gegn þeirri þjóðarskömm sem fátækt er innan um ríkidæmi okkar?

Það yrði þó okkur öllum til góða að jöfnuður aukist og allt fólk geti búið hér við sómasamleg kjör og mannlega reisn.

Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Alþingismaður NV kjördæmis.

Auglýsing

Kúnstugt farartæki

Skjáskot af vef ruv.is

Stefáni Erni Stefánssyni bifreiðasmiði er ýmislegt til lista lagt og nú hefur hann föndrað saman hægindastól og sláttuvél og afurðin er þetta líka fína farartæki sem hann getur skondrast á um bæinn. Halla Ólafsdóttir fréttamaður RÚV á Vestfjörðum tók viðtal við kappann í dag og birti á ruv.is myndband af Stefáni aka um götur Ísafjarðar. Í viðtalinu við Stefán kemur fram að hann er safnari, á erfitt með að henda hlutum og vill gefa þeim nýtt líf.

Stefán ók á hægindasláttuvélinni í mat í hádeginu í dag og þakkar fyrir gott veður enda eru ekki vetrardekk á farskjótanum.

bryndis@bb.is

 

Auglýsing

Körfuboltabúðirnar á sínum stað

Körfuboltabúðir Vestra fara fram dagana 30. maí til 4. júní en búðirnar eru nú haldnar níunda árið í röð. Opnað var fyrir skráningar í síðustu viku en rúm er fyrir tæplega 150 iðkendur. Allt stefnir í að búðirnar fyllist á örskömmum tíma því skráningar streyma inn. Að sögn Birnu Lárusdóttur hafa tíu þrautreyndir aðalþjálfarar hafa verið ráðnir til leiks auk þess sem álíka margir aðstoðarþjálfarar munu koma að búðunum.

Yfirþjálfari í ár er Ingi Þór Steinþórsson, yfirþjálfari Snæfells en hann á að baki fjölda Íslandsmeistaratitla með liðum sínum. Aðrir þjálfarar eru: Yngvi Páll Gunnlaugsson, yfirþjálfari Vestra, Borche Ilievski frá Makedóníu, yfirþjálfari ÍR og einn af upphafsmönnum Körfuboltabúðanna á Ísafirði, Lárus Jónsson, yfirþjálfari Breiðabliks, Nebojsa Knezevic frá Serbíu, þjálfari og leikmaður Vestra, Natasa Angelic frá Serbíu, þjálfari, umboðsmaður og fyrrum landsliðskona Serbíu, Keegan Bell frá Bandaríkjunum, þjálfari hjá Alabama Basketball Academy, Fran Garcia frá Spáni, þjálfari Bembibre í efstu deild kvenna á Spáni, Stephanie Douglas frá Bandaríkjunum, þjálfari, fyrrverandi NCAA leikmaður og meðlimur í Harlem Globetrotters og loks Michael Mader frá Bandaríkjunum, þjálfari við Franklin D. Roosevelt High School í New York.

Körfuboltabúðir Vestra eru ætlaðar iðkendum á aldrinum 10-16 ára og hafa börn af öllu landinu sótt búðirnar heim í gegnum tíðina.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Listaverkauppboði Sigurvonar lýkur senn

Þessi ljósmynd eftir Ágúst Atlason er með hæsta boðið um þessar mundir – 200.000.- krónur.

Hátt í hálfa milljón króna hefur nú þegar safnast á listaverkauppboði Krabbameinsfélagsins Sigurvonar, en því lýkur á miðnætti þann 31. mars. „Uppboðið hefur farið fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Tinna Hrund Hlynsdóttir, gjaldkeri Sigurvonar og umsjónarmaður uppboðsins og bætir við: „Það er þó enn tími til að skoða verkin og freista þess að eignast fallega, tímalausa list eftir vestfirska listamenn og –konur.“ Níu verk hafa verið gefin á uppboðið og allur ágóði rennur til Sigurvonar. Listamennirnir að baki þeim eru Pétur Guðmundsson, Berglind Halla Elíasdóttir, Marsibil Kristjánsdóttir, Guðrún Sigríður Matthíasdóttir, Ólafía Kristjánsdóttir og Reynir Torfason ásamt ljósmyndaranum Ágústi G. Atlasyni.

Þá eru einnig til sölu bindisherðatré sem er hönnun eftir Odd Andra Thomasson undir merkjum O design en hann rekur hönnunarstofu í gamla líkhúsinu í Bolungarvík auk verslunar undir sama nafni.

Listaverkauppboðið er nýjung í fjáröflun hjá félaginu og mikil breidd er í þeim verkum sem boðin eru upp. Uppboðið fer fram á netinu og getur fólk tekið þátt með því að senda tölvupóst á netfangið sigurvon@snerpa.is eða í gegnum samfélagsmiðilinn Facebook. Í lok hvers dags eru svo hámarksboð í hvert verk upplýst á Facebook-síðu félagsins. Það getur því enn margt breyst á þessum dögum sem eftir eru.

Opið hús var haldið fyrr í mánuðinum þar sem fólk bauðst að koma og skoða verkin, og heppnaðist það mjög vel, enn má koma og bera verkin augum á opnunartíma þjónustumiðstöðvarinnar að Pollgötu 4, á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl. 16-18.

annska@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir