Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2329

Völu-Steinn og Þuríður Sundafyllir í nýrri bók

Höfundar bókarinnar, Guðrún Stella Gissurardóttir og Soffía Vagnsdóttir.

Ný vestfirsk bók hefur litið dagsins ljós, barnabókin „Mamma, mamma ég sé land,“ sem gefin er út af Þuríði Sundafylli ehf. sem þær Soffía Vagnsdóttir og Guðrún Stella Gissurardóttir standa á bak við. Bókin fjallar um Völu-Stein, 9 ára son Þuríðar sundafyllis, þar sem þau mæðgin auk áhafnar sigla frá Hálogalandi í Norður-Noregi, um miðja 10. öld, áleiðis til Íslands þar sem þau námu land í Bolungarvík. Guðrún Stella og Soffía skrifa bókina en um myndskreytingar, uppsetningu og frágang sér myndlistarkonan Nina Ivanova.

Aðspurð um hvernig hugmyndin kom til segir Soffía þær lengi hafa verið einlægir aðdáendur landnámssögunnar um Þuríði sundafylli og það séu mörg tækifæri fólgin í henni: „Við sjáum í henni svo mörg tækifæri tengd menningartengdri ferðaþjónustu. Við lítum á það sem mikilvægan hluta af sjálfsmynd íbúa Bolungarvíkur að þekkja vel til sögunnar og upphafs búsetu í Bolungarvík, svo er hún líka svo skemmtileg fyrir alla þá sem heimsækja svæðið. Ekki síst er þetta mikilvægt fyrir börnin, að þekkja sögu Bolungarvíkur.“

Í bókinni leituðust þær við að glæða tungumálið nýju lífi á gömlum grunni og nota ýmis orð sem áður voru notuð um ýmislegt sem tengist siglingum, fæðu, fatnaði og fleiru. Svo bókin getur bætt við orðaforðann og fylgja hinum flóknari orðum skýringar.

„Við höfum síðustu árin verið að þróa ýmsar hugmyndir í sambandi við landnámskonuna Þuríði og fyrir mörgum árum héldum við til dæmis viðburð sem við nefndum „Býr Þuríður í þér?“ Sem hafði það að markmiði að hvetja ungar konur á svæðinu til dáða, finna sína innri „Þuríði“ í formi krafts, áræðis og leiðtogahæfni.“

Soffía segir gerð bókarinnar eðlilegt og skemmtilegt framhald í þrá þeirra eftir að halda landnámssögunni á lofti, þar sem þær vilja vekja athygli á krafti, áræði og dugnaði Þuríðar, sem lét sér einstæðri móðurinni ekki muna um að fara af stað á vit nýrra ævintýra yfir land og haf um miðja tíundu öld.

„Við lítum á bókina „Mamma, mamma ég sé land“, sem fyrstu bókina af líklega þremur um Þuríði og Völu-Stein son hennar og landnám þeirra í Bolungarvík. Vonandi rætist sá draumur okkar.“ Segir Soffía og eru þær þegar byrjaðar að þýða bókina yfir á norsku: „Það finnst okkur mjög mikilvægt því í Norður-Noregi þekkja menn líka til sögu Þuríðar og fyrir fáeinum árum var einmitt vígður minnisvarði um hana fyrir utan ráðhúsið í bænum Leknes. Það verður því spennandi að kynna þessa fallegu bók fyrir frændum okkar Norðmönnum sem einnig hafa áttað sig hvílíkur kvenskörungur Þuríður var og svo tekst okkur vonandi að gefa hana út á fleiri tungumálum.“

Bókin kemur í verslanir á næstu dögum.

 

 

annska@bb.is

 

 

Auglýsing
Auglýsing

ASÍ mótmælir kostnaðarþaki á greiðsluþátttöku sjúklinga

Alþýðusambans Íslands kallar eftir því að staðið verði við fyrirheit stjórnvalda um 50.000 kr. kostnaðarþak sjúklinga. Í umræðu á Alþingi í liðinni viku um greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskostnaði kom fram í máli heilbrigðisráðherra að árlegt kostnaðarþak yrði á bilinu 50 til 70 þúsund ári frá og með 1. maí 2017. „Heilbrigðisráðherra verður að gefa út afdráttarlausa yfirlýsingu um fjárhæð þaksins á almennu gjaldi verði ekki hærri en 50.000 kr. og endurskoða þakið og reiknireglur í þeim drögum að reglugerð sem nú liggja fyrir. Samkvæmt þeim á þakið að verða 69.700 fyrir almenna sjúklinga en 45.300 kr. fyrir lífeyrisþega og börn. Þetta er allt of hátt þak,“ segir í umsögn ASÍ.

 

Samkvæmt útreikningum ASÍ  mun kostnaðarþátttaka aukast um 10-40% fyrir einstaka heimsóknir almennra sjúklinga og 70-125% hjá lífeyrisþegum. Börn munu fá gjaldfrjálsa þjónustu hjá sérgreinalæknum að því gefnu að þau fái fyrst tilvísun frá heimilislækni. Að öðrum kosti mun kostnaðarþátttaka þeirra hjá t.d. háls-, nef- og eyrnalæknum aukast um rúmlega 600%.

„Þessi kostnaðaraukning er óásættanleg og mun að öllum líkindum valda því að enn fleiri fresti nauðsynlegri læknisþjónustu vegna kostnaðar en þetta hlutfall er nú þegar mun hærra en á hinum Norðurlöndunum.

ASÍ studdi áform um nýtt greiðsluþátttökukerfi og taldi 50.000 kr. þak á ári fyrir almenna sjúklinga og 33.300 fyrir lífeyrisþega og börn ásættanlegt fyrsta skerf. Ný ríkisstjórn verður að standa við þau fyrirheit. Stefna ASÍ er að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls og yrði 50.000 kr. almennt þak fyrsta skrefið í þá átt.“

Auglýsing
Auglýsing

Yfir 5.000 undirskriftir komnar

Hjallaháls í Gufudalssveit er erfður farartálmi, sér í lagi að vetrarlagi.

Í fyrradag hófst á vefsíðunni www.60.is undirskriftarsöfnun undir yfirskriftinni „Ákall til Íslendinga!“ Þar er kallað eftir undirskriftum í baráttu Vestfirðinga fyrir bættum vegsamgöngum og taka undir áskorun þeirra til yfirvalda um að staðið verði við þau fyrirheit sem gefin voru fyrir síðustu alþingiskosningar hvað varðar boðaðar framkvæmdir í vegsamgöngum í Gufudalssveit. Í yfirlýsingu á síðunni segir að Vestfirðingar hafi um áratugaskeið barist fyrir bættum vegsamgöngum um sunnanverða Vestfirði. „Loksins þegar tekin hafði verið ákvörðun um framkvæmdir við lokaáfanga leiðarinnar um Gufudalssveit, frá Bjarkalundi til Flókalundar, ákvað samgöngu- og sveitastjórnaráðherra skyndilega og upp úr eins manns hljóði að ógilda fyrri ákvörðun með þeirri skýringu að fjármagn væri ekki fyrir hendi. Þessa ákvörðun tók ráðherrann án nokkurs samráðs við þingmenn kjördæmisins eða Alþingi yfir höfuð.“

Landsmenn hafa ekki legið á liði sínu og hafa yfir 5000 undirskriftir safnast frá því er ákallið fór í loftið. Haukur Már Sigurðsson á Patreksfirði er einn þeirra sem stendur að baki undirskriftarsöfnuninni og segist hann hreint orðlaus yfir hversu vel hefur gengið. Hann segir stefnan hafi verið sett á að ná 6000 undirskriftum, álíka fjölda og íbúatölu Vestfjarða og segir hann að þeir hafi gefið sér þrjár til fimm vikur til þess: „Þetta er alveg ótrúlegt! Maður veit aldrei hvað ber að garði í lífinu. Ég vissi svo sem að við nytum einhvers stuðnings, við fundum vel fyrir honum eftir útgöngufundinn, en ég átti ekki von á að þetta gerðist svona hratt. Undirskriftirnar voru í raun farnar að streyma inn áður en vefurinn fór formlega í loftið. Það er líka gaman að sjá að undirskriftir eru að koma allsstaðar að af landinu svo stuðningurinn liggur víða.“

Vestfirðingar sem aðrir hafa verið liðtækir á samfélagsmiðlum að benda á undirskriftarsöfnunina og taka undir orð forsvarsmannanna sem segja í yfirlýsingu: „Mikið er í húfi. Byggð á sunnanverðum Vestfjörðum á allt sitt undir því að helsta lífæð samfélaganna til höfuðborgarsvæðisins byggist á heilsársvegi í ætt við aðra helstu þjóðvegi landsins. Leiðin um Ódrjúgsháls og Hjallaháls er með hættulegri fjallavegum landsins og gjarnan farartálmi um vetur. Krafan er einföld. Hnekkið ákvörðun ráðherra og tryggið fjármagn til þessara framkvæmda strax.“

Í dag, föstudag, verður á Patreksfirði fundur með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins undir yfirskriftinni „Á réttri leið.“ Þar verður málið tekið fyrir og er búist við að íbúar fjölmenni á fundinn sem haldinn verður í Félagsheimili Patreksfjarðar klukkan 17. Þar munu ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins Haraldur Benediktsson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir nýsköpunar- iðnaðar- og ferðamálaráðherra, Teitur Björn Einarsson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins halda erindi og svara spurningum fundarmanna.

Haukur Már segir að ekki verði gefist upp fyrr en í fulla hnefana og baráttunni haldið áfram þar til fjármagn til vegframkvæmdanna verði tryggt. Undirskriftasöfnunin muni halda áfram og næstu skref verði þá borgarafundir og mótmæli. Hægt er að leggja undirskriftarsöfnuninni lið hér.

annska@bb.is

 

 

Auglýsing
Auglýsing

Fái strax kosningarétt til sveitarstjórna

Þingmenn Viðreisnar hafa lagt fram frumvarp um að kosningaréttur útlendinga til sveitarstjórna á Íslandi verði áþekkur því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Pawel Bartoszek. Ásamt Pawel standa að frumvarpinu þau Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson og Jóna Sólveig Elínardóttir.

Lagt er til að ríkisborgarar EFTA- og ESB-ríkja hljóti kosningarrétt strax við lögheimilisflutning en að ríkisborgarar ríkja utan EFTA og ESB öðlist kosningarrétt eftir að hafa verið búsettir á Íslandi í þrjú ár. Með þessu yrði staðan á Íslandi ámóta því sem tíðkast í Danmörku og Svíþjóð.

Í greinargerð frumvarpsins er bent á að erlendir ríkisborgarar séu nú um 8 prósent allra íbúa Íslands. „Þeir greiða hér skatta og leggja mikið til uppbyggingar samfélagsins, margir þeirra munu svo að öllum líkindum öðlast íslenskt ríkisfang þegar á líður. Flutningsmönnum þessa frumvarps þykir rétt að gefa þessum hópi aukið vægi og aukin völd þegar kemur að ákvörðunum sem varða nærumhverfi hans,“ segir í greingargerðinni.

Auglýsing
Auglýsing

Ferja skíðamenn upp í Miðfell

Ísfirskir skíðamenn hafa reytt hár sitt í allan vetur og skyldi engan undra í þessu fádæma snjóleysi sem hefur herjað á skíðasvæðið. Ákvörðun starfsmanna skíðasvæðisins á Ísafirði að hafa opið í Miðfellslyftu í dag og líklega um helgina líka, ætti að slá á allra mestu fráhvörfin. „Troðarinn mun ferja fólk frá Tungudal og upp í Miðfell þar sem bakki 2, 4, og 4 verða opnir. Það er ekki nægur snjór til að hafa opið í Tungudal og því verðum við að ferja fólk upp,“ segir Hlynur Kristinsson, forstöðumaður skíðavsæðisins. Skíðasvæðið verður opið í dag frá kl. 14 til kl. 19 og á morgun frá kl. 10 og fram eftir degi. Nánari upplýsingar eru á Facebook síðu skíðasvæðisins.

 

Starfsmenn skíðasvæðisins eru í óða önn að koma nýja troðara svæðisins saman eftir að hann hafnaði í krapapolli í síðustu viku. Að sögn Hlyns var tjónið ekki eins mikið og menn óttuðust. „Við þorðum ekki öðru en að skipta út aðaltölvunni og svo skiptum við út nokkrum skynjurum svo þetta er nokkuð vel sloppið. Sjálft tjónið er upp á sex til sjöhundruð þúsund krónur.

Auglýsing
Auglýsing

Petra ráðin starfsendurhæfingarráðgjafi á Vestfjörðum

Petra Hólmgrímsdóttir.

Petra Hólmgrímsdóttir hefur verið starfsendurhæfingarráðgjafa Virk hjá stéttarfélögunum á Vestfjörðum. Petra tekur formlega við keflinu af Fanneyju Pálsdóttur þann 1. júní, en þá mun Fanney fara í ársleyfi frá störfum. Petra var valin hæfust úr hópi sjö umsækjenda.

Petra er með háskólapróf í grunnskólafræðum frá Háskólanum á Akureyri. Hún útskrifaðist með B.Sc í Sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2014 og lauk M.Sc viðbótarmnámi í Klíniskri- og afbrigðasálfræði frá University of South Wales árið 2016. Petra hefur starfað sem kennari við Grunnskólann á Ísafirði frá árinu 2010.

Auglýsing
Auglýsing

Helmingur gjaldeyristekna frá ferðamönnum

Ferðaþjónustan dregur vagninn í auknum útflutningstekjum.

2,3 milljónir ferðamanna sækja Ísland heim á þessu ári, og fjölgar um 30% frá því í fyrra, gangi spá Íslandsbanka eftir. Bankinn spáir því að næstum helmingur af gjaldeyristekjum Íslands í ár, komi til vegna ferðamanna. Ferðaþjónusta verður sífellt fyrirferðarmeiri í hagkerfinu. Þannig keyptu íslensk bílaleigufyrirtæki 42% allra nýrra bíla á Íslandi í fyrra, fyrir um 30 milljarða króna.

Ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað ört undanfarin ár úr tæpri hálfri milljón árið 2010  í milljón 2014 og 1,8 milljónir í fyrra  2016. Fjöldi ferðamanna hefur þannig meira en þrefaldast á sex árum.

Í skýrslu Íslands banka um ferðaþjónustu, er því spáð að gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum verði um 560 milljarðar króna á þessu ári. Það eru 45% af gjaldeyristekjum Íslands. Ýmsar tölur koma fram í skýrslunni sem sýna hve umsvifamikil ferðaþjónusta er á Íslandi. Til að mynda keyptu bílaleigur fjörutíu og tvö prósent allra nýrra bíla í fyrra – ríflega 9000 bíla, fyrir um 30 milljarða króna. Þá telur Íslandsbanki að heildartekjur vegna útleigu íbúðarhúsnæðis á vefsíðunni AirBnb hafi numið 6,7 milljörðum króna í fyrra.

Auglýsing
Auglýsing

Auðbjörg Erna sigraði stóru upplestrarkeppnina

Frá vinstri: Lena Rut, Íris Embla og Auðbjörg Erna. Mynd af heimasíðu GÍ.

Í gær var lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar á norðanverðum Vestfjörðum haldin í Hömrum, sal Tónlistarskólans á Ísafirði. Þar stigu tólf nemendur úr 7. bekk á stokk og lásu sögubrot úr Bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason og ljóð eftir Steinunni Sigurðardóttur, auk þess sem allir lásu ljóð að eigin vali. Mikil gæði voru í upplestri krakkanna sem færði vanda á hendur dómaranna, sem að þessu sinni voru þau Baldur Sigurðsson, Anna Þ. Ingólfsdóttir, Heiðrún Tryggvadóttir og Kristín Ósk Jónasdóttir.

Það var Auðbjörg Erna Ómarsdóttir frá Grunnskólanum á Þingeyri sem bar sigur úr býtum, Íris Embla Stefánsdóttir frá Grunnskólanum í Bolungarvík hafnaði í öðru sæti og Lena Rut Ásgeirsdóttir frá Grunnskólanum á Ísafirði í því þriðja.

Guðrún Birgisdóttir skóla- og sérkennslufulltrúi Ísafjarðarbæjar hélt utan um dagskrána og Rósbjörg Edda Rúnarsdóttir, sem hafnaði í 2. sæti keppninnar í fyrra, las inngangstexta. Þá lék skólalúðrasveit Tónlistarskólans nokkur lög í upphafi og sá um að koma öllum í rétta gírinn. Frá þessu var greint á heimasíðu Grunnskólans á Ísafirði.

Stóra upplestrarkeppnin er árviss viðburður í skólastarfinu hjá 7.bekkingum um allt land. Markmið keppninnar er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði.

Auglýsing
Auglýsing

Notkun bílbelta verulega ábótavant

 

Ferðamönnum sem aka um Ísland hefur stórfjölgað og samfara því hefur fjöldi umferðarslysa þeirra margfaldast. Samkvæmt upplýsingum Samtaka ferðaþjónustunnar er fjölgun ferðamanna á Íslandi áætluð 20- 25% á ári. Í nýlegum skýrslum Rannsóknarnefndar samgönguslysa á tveimur banaslysum erlendra ferðamanna 2015 kemur í ljós að bílbelti voru ekki notuð. Í einu af þeim slysum sem átti sér stað 30. ágúst 2015 var límmiði í bílnum á hanskahólfinu þar sem bent var á mikilvægi þess að spenna bílbeltin. Konan sem lést var beltislaus farþegi í aftursæti.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa á 16 banaslysum í umferðinni 2015 kemur meðal annars fram að í fimm þessara slysa létust erlendir ferðamenn og líkt og fyrri ár var áberandi hve bílbeltanotkun er ábótavant meðal þeirra. Að mati Rannsóknarnefndarinnar þurfa viðvörunarlímmiðar að vera stærri og helst einnig sýnilegir farþegum í aftursæti. Notkun bílbelta í aftursæti er verulega ábótavant í slysum ferðamanna sem neffndin hefur rannsakað.

Auglýsing
Auglýsing

Matthías með sigurmarkið

Ísfirski knatt­spyrnumaður­inn Matth­ías Vil­hjálms­son skoraði sig­ur­mark norska liðsins Rosen­borg sem vann finnska liðið HJK Hels­inki í æf­inga­móti á Marbella í gær þar sem loka­töl­ur urðu 2:1. Matth­ías var í byrj­un­arliðinu hjá Rosen­borg og skoraði sig­ur­markið þegar komið var í upp­bót­ar­tíma.

FH, fyrr­ver­andi fé­lag Matth­ías­ar, leik­ur einnig á mót­inu en liðin mæt­ast á sunnu­dag­inn. Þar gæti danski sókn­ar­maður­inn Nicklas Bend­tner leikið sinn fyrsta leik eft­ir að hann gekk í raðir Rosen­borg eftir skrautlega feril á Englandi, Ítalíu og Þýskalandi.

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir