Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2328

Búðin í Súðavík sett á sölu

Búðin er í Álftaveri, þjónustumiðstöð Súðavíkur.
Fjármagnstekjur í Súðavík eru nálægt landsmeðaltalinu.

 

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur ákveðið að auglýsa matvöruverslunina í Súðavík til sölu. „Við ætlum að kanna hvort það er einhver áhugi á að kaupa búðina. Það er eðlilegt þegar svona rekstur er í opinberri eigu að það sé skoðað reglulega hvort að einkaaðili sé tilbúinn að taka við keflinu,“ segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps. Sveitarfélagið opnaði verslunina fyrir tæpum tveimur árum eftir að hreppurinn hafði verið verslunarlaus um nokkurra missera skeið.

Pétur segir að ákvörðun sveitarstjórnar um að auglýsa búðina til sölu sé í takt við það sem ákveðið var í upphafi þegar stofnað var til rekstursins. „Búðin rekur sig ágætlega þannig að þetta gæti verið fínt tækifæri fyrir einstaklinga sérstaklega í ljósi þess að ferðaþjónusta er alltaf að verða stærri atvinnugrein á svæðinu og í svona fyrirtæki leynast miklir möguleikar tengdir ferðaþjónustu og það fer best á því að einkaaðilar þrói það áfram,“ segir Pétur.

Auglýsing
Auglýsing

Atvinnuþátttaka kvenna aldrei meiri

Atvinnuþátttaka kvenna var tæp 80% árið 2016 og hefur aldrei verið meiri. Atvinnuþátttaka karla var rúm 87%. Í frétt á vef Hagstofunnar kemur fram að óleiðréttur launamunur kynjanna hjá fullvinnandi launþegum var rúm 14% árið 2015. Tæplega helmingur  kvenna 25-64 ára var með háskólamenntun árið 2016 samanborið við þriðjung karla á sama aldri.  Þá voru 45% karla og 30% kvenna með starfs- og framhaldsmenntun.  Konur eru nú 48% alþingismanna og 44% kjörinna sveitarstjórnarmanna en í mörgum öðrum áhrifastöðum er hlutur kvenna lægri. Hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra fer eftir stærð fyrirtækis, til dæmis var það 22%  hjá fyrirtækjum með 1-49 starfsmenn en 9% í fyrirtækjum með 250 starfsmenn eða fleiri árið 2015.

 

Auglýsing
Auglýsing

Lögreglan rannsakar fíkniefnamál

 

Lögreglan á Vestfjörðum handtók í síðustu viku mann sem grunaður er um neyslu og dreifingu fíkniefna á norðanverðum Vestfjörðum. Gerð var húsleit í tveimur íbúðum í Ísafjarðarbæ í tengslum við málið, en maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu vegna fíkniefnamála. Neysluáhöld fundust í íbúðunum en engin fíkniefni, en lögregla telur sig hafa vísbendingar um að dreifing hafi átt sér stað. Maðurinn var yfirheyrður en hefur verið sleppt lausum. Ætluð brot hans eru til rannsóknar, að því er segir í dagbók lögreglunnar um verkefni síðustu viku

Í vikunni hafði lögreglan afskipti af tveimur ungum drengjum á mótorhjólum sem keyrðu utan vegar í Dýrafiðri. Í ljós kom að drengirnir voru ekki með ökuréttindi til aksturs þessara farartækja auk þess sem þau voru ekki skráð né heldur tryggð. Sama dag voru höfð afskipti af öðrum ungum ökumanni, á öðrum stað, sem ekki hafði öðlast tilskilin ökuréttindi auk þess sem skráningarnúmer voru ekki á hjólinu.

Alls voru sex ökumenn kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Sá sem hraðast ók mældist á 125 km hraða.. Þessir ökumenn voru í akstri í Önundarfirði, Ísafjarðardjúpi og í Strandasýslu.

Númeraplötur voru teknar af fjórum ökutækjum í vikunni. Ástæðan var vangoldin iðgjöld vegna lögbundinna trygginga. Eigendur ökutækja eru hvattir til að tryggja að þetta sé í lagi.

Tilkynnt var um þrjú umferðaróhöpp í vikunni. Eitt þeirra varð í Arnkötludal þegar ökumaður missti stjórn á jeppabifreið sinni með afleiðingum að hún rann út af veginum og valt. Engin meiðsl hlutust af óhappinu, en bifreiðin var óökufær eftir atvikið. Snjóþekja var á yfirborði vegarins.

Annað óhappið varð í Skötufirði þegar lítil jeppabifreið rann út af veginum og hafnaði í vegrás ofan vegarins. Hvorki ökumann eða farþega sakaði en bifreiðin var óökufær eftir atvikið.

Þriðja óhappið varð á Klettshálsi þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og rann hún út af veginum og valt. Ökumann og farþega sakaði ekki.

Í öllum þessum tilvikum voru ökumenn og farþegar með öryggisbelti spennt. Minnt er á mikilvægi þeirra hvort heldur í lengri eða styttri ferðum.

Þrír ökumenn voru kærðir í vikunni fyrir að nota ekki öryggisbelti. Allir voru þessir ökumenn í akstri í Vesturbyggð.

Auglýsing
Auglýsing

Tillaga að starfsleyfi fyrir 10.700 tonna laxeldi

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir Fjarðalax ehf. til framleiðslu á allt að 10.700 tonnum á ári af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði. Fjarðalax ehf. er með leyfi til eldis á laxi í sjókvíum að 3.000 tonnum á ári í Patreksfirði og Tálknafirði. Fjarðalax er dótturfyrirtæki Arnarlax hf. Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 8.maí 2017. Á vef Umhverfisstofnunar má finna auglýsta tillögu Umhverfisstofnunar, umsóknargögnin, tilkynningu til Skipulagsstofnunar og matsskylduákvörðun hennar.

Auglýsing
Auglýsing

Þrettán hlutu styrk úr Afrekssjóði HSV

Auður Líf Benediktsdóttir er meðal þeirra sem hlutu styrk úr Afrekssjóði HSV, hún var einnig kosin efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar. Hér má sjá er hún keppti í strandblaki á Möltu síðasta sumar.

Þrettán hlutu styrk úr Afrekssjóði HSVBúið er að úthluta styrkjum til framúrskarandi ungra íþróttamanna úr Afrekssjóði HSV. Að þessu sinni bárust 13 umsóknir frá þremur félögum og var úthlutað styrkjum samtals að upphæð 1.120.000 krónum. Allir umsækjendur hlutu styrk úr sjóðnum og styrkþegarnir hafa allir verið valdir í landslið eða eru í undirbúning fyrir landsliðsferðir.

Frá Íþróttafélaginu Ívari hlaut Kristín Þorsteinsdóttir styrk. Frá blakdeild Vestra hlutu styrk þau: Auður Líf Benediktsdóttir, Birkir Eydal, Gísli Steinn Njálsson, Hafsteinn Sigurðsson, Katla Vigdís Vernharðsdóttir, Kjartan Óli Kristinsson. Frá Skíðafélagi Ísfirðinga fengu styrki: Albert Jónsson, Anna María Daníelsdóttir, Dagur Benediktsson, Pétur Tryggvi Pétursson, Sigurður Hannesson, Sólveig María Hallvarðsdóttir Aspelund.

Í frétt á vef HSV segir að fjöldi styrkumsókna sýni hve gott starf er unnið í barna og unglingastarfi hjá aðildarfélögum HSV og hefur fjöldi iðkenda sem valdir eru til verkefna innan sérsambandanna aukist frá ári til árs.

Stjórn sjóðsins getur veitt styrk ef viðkomandi keppir á eða hefur möguleika á þátttöku á Ólympíu-, Heims-, Evrópu- eða Norðurlandameistaramótum eða er valinn í landslið eða úrtök fyrir landslið. Ef hann er framarlega í íþróttagrein sinni á landsvísu eða hefur sýnt mjög góðan árangur og er líklegur til að komast í hóp bestu íþróttamanna landsins í íþróttagrein sinni. Einnig getur lið eða hópur geta fengið úthlutað ef það er framarlega í íþróttagrein sinni á landsvísu eða hefur sýnt mjög góðan árangur og líklegt til að komast í hóp bestu liða/hópa landsins í íþróttagrein sinni.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Kólnar á morgun

Það verður stinningsgola eða kaldi á Vestfjörðum í dag, vindar blása úr suðvestri 5-10 m/s og það verða skúrir eða slydduél fram yfir hádegið en þurrt að kalla eftir það. Vindur snýr sér og má búast við norðaustan 8-13 m/s og éljum í kvöld, en suðvestlægari átt á morgun. Hiti verður 1 til 4 stig í dag, en um og undir frostmarki á morgun.

Á vef Veðurstofu Íslands er varað við stormi syðst á landinu í nótt, en lægð nálgast landið úr suðvestri í dag með stífri austanátt og slyddu eða rigningu sunnan- og vestanlands síðdegis, en snjókomu norðantil í kvöld. Lægðin fer norðaustur yfir landið í nótt með allhvassri norðvestanátt og éljum. Fremur milt verður í veðri á landinu í dag, en kólnar á morgun. Víða frost annað kvöld.

Hálka eða hálkublettir eru á sumum fjallvegum á Vestfjörðum en víðast er greiðfært á láglendi. Snjóþekja og éljagangur er á Klettshálsi.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Leita að meiri fjármunum til vegamála

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

 

Á ríkisstjórnarfundi fyrir helgi var Jóni Gunnarssyni samgönguráðherra og Benedikt Jóhannessyni fjármálaráðherra falið að leita leiða svo veita megi til vegamála meiri fjármuni en nú eru fyrir hendi. Tíu milljarða króna vantar upp á til að samræmi sé á milli fyrirhugaðra verkefna á samgönguáætlun og fjárlaga þessa árs. Samgönguráðherra sagði í samtali við blaðamann Morgunblaðisins að málin skýrist vonandi í þessari viku. Þær framkvæmdir sem Jón telur mikilvægt að fara af stað með í ár eru til dæmis Teigsskógur og endurbætur á vegunum um Uxahryggi, Kjósarskarð, Skógarströnd á norðanverðu Snæfellsnesi og Dettifossvegur. Ekki megi heldur bíða að fara í vegabætur innst í Berufjarðarbotni, en íbúar hafa staðið fyrir táknræmum mótmælum vegna ákvörðunar samgönguráðherra að fresta framkvæmdum á veginum.

Sveitarstjórnir, landshlutasamtök og hagsmunasamtök hafa ályktað og mótmælt þessari stöðu sem er komin upp í samgöngumálum. Í Morgunblaðinu segist Jón skilja þessa gremju mjög vel. Hann treystir sér ekki til að segja hversu mikla fjármuni hann getist vænst til samgöngumála. „Mestu skiptir þó að geta koma verkefnum af stað og svo gildir bara það gamla góða, að hálfnað er verk þá hafið er,“ er haft eftir Jóni í Morgunblaðinu.

Auglýsing
Auglýsing

Vestri sigraði 1. deildina

Meistaralið Vestra í blaki.

Á laugardaginn tryggði Vestri sér deildarmeistaratitilinn í 1. deild karla með 3-1 sigri á Fylki á útivelli. Vestri er með 36 stig og á enn eftir að spila þrjá leiki en ljóst er að ekkert lið getur náð þeim. Þar með hefur liðið líka tryggt sér rétt til að spila í úrvalsdeild á næsta keppnistímabili. Í leiknum vantaði tvo leikmenn sem hafa verið í byrjunarliði í vetur. Kári Eydal spilaði stöðu frelsingja í stað bróður síns, en Kári er aðeins 12 ára gamall. Gautur Óli Gíslason, jafnaldri Kára, kom einnig við sögu í leiknum. Fylkir er í neðsta sæti 1. deildar með sex stig.

Um síðustu helgi vann Vestri úrvalsdeildarlið Þróttar R/Fylkis í átta liða úrslitum Kjörísbikarsins og eru því komnir alla leið í fjórðungsúrslitin sem verða spiluð í Laugardalshöllinni þann 7. apríl. Það er ansi óvænt staða fyrir Vestra og hefur vakið athygli í blaksamfélaginu á Íslandi og ljóst að Tihomir Paunovski er að gera góða hluti, bæði sem þjálfari og leikmaður.

Auglýsing
Auglýsing

Tilraunaverkefni um styttri vinnuviku

Fjór­ir vinnustaðir hafa verið vald­ir til að taka þátt í til­rauna­verk­efni rík­is­ins og BSRB um stytt­ingu vinnu­vik­unn­ar. Mark­miðið verk­efn­is­ins er að kanna hvort stytt­ing vinnu­viku leiði til gagn­kvæms ávinn­ings starfs­manna og viðkom­andi vinnustaða. Mik­ill áhugi var fyr­ir þátt­töku í verk­efn­inu sam­kvæmt upp­lýs­ing­um vel­ferðarráðuneyt­is­ins en niðurstaðan varð sú að þeir vinnustaðir sem hefja til­raun­ina að þessu sinni eru Lög­reglu­stjór­inn á Vest­fjörðum, Rík­is­skatt­stjóri, Útlend­inga­stofn­un og Þjóðskrá.

Til­rauna­verk­efnið mun standa í eitt ár, frá 1. apríl næst­kom­andi til 1. apríl 2018. Vinnu­stund­um starfs­manna verður fækkað úr 40 á viku niður í 36 stund­ir án þess að til launa­skerðing­ar komi. Rann­sakað verður hver áhrif stytt­ing­ar vinnu­tím­ans verða á gæði og hag­kvæmni þjón­ustu sem vinnustaðirn­ir veita, auk áhrifa á vellíðan starfs­manna og starfs­anda. Sam­bæri­leg­ar mæl­ing­ar verða gerðar á vinnu­stöðum þar sem vinnu­vik­an verður óbreytt til að fá sam­an­b­urð.
Verk­efnið kem­ur í kjöl­far vilja­yf­ir­lýs­ing­ar rík­is­stjórn­ar­inn­ar 28. októ­ber 2015 í tengsl­um við gerð kjara­samn­inga rík­is­ins við aðild­ar­fé­lög BSRB. Sam­kvæmt yf­ir­lýs­ing­unni skal sér­stak­lega skoðað hvernig megi út­færa stytt­ingu vinnu­tíma hjá ólík­um teg­und­um stofn­ana, þar á meðal þar sem unn­in er vakta­vinna. Af þeim fjór­um stofn­un­um sem nú hefja þátt­töku í verk­efn­inu er einn vakta­vinnustaður.  Unnið verður að því að bæta öðrum vakta­vinnustað inn í verk­efnið til að niður­stöður þess end­ur­spegli fjöl­breytni starfa hjá rík­inu.
Starfs­hóp­ur um til­rauna­verk­efnið er skipaður full­trú­um vel­ferðarráðuneyt­is, fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is og BSRB. Hlut­verk hóps­ins er m.a. að velja vinnustaði til þátt­töku í til­rauna­verk­efn­inu og meta ár­ang­ur þess.

Auglýsing
Auglýsing

Völu-Steinn og Þuríður Sundafyllir í nýrri bók

Höfundar bókarinnar, Guðrún Stella Gissurardóttir og Soffía Vagnsdóttir.

Ný vestfirsk bók hefur litið dagsins ljós, barnabókin „Mamma, mamma ég sé land,“ sem gefin er út af Þuríði Sundafylli ehf. sem þær Soffía Vagnsdóttir og Guðrún Stella Gissurardóttir standa á bak við. Bókin fjallar um Völu-Stein, 9 ára son Þuríðar sundafyllis, þar sem þau mæðgin auk áhafnar sigla frá Hálogalandi í Norður-Noregi, um miðja 10. öld, áleiðis til Íslands þar sem þau námu land í Bolungarvík. Guðrún Stella og Soffía skrifa bókina en um myndskreytingar, uppsetningu og frágang sér myndlistarkonan Nina Ivanova.

Aðspurð um hvernig hugmyndin kom til segir Soffía þær lengi hafa verið einlægir aðdáendur landnámssögunnar um Þuríði sundafylli og það séu mörg tækifæri fólgin í henni: „Við sjáum í henni svo mörg tækifæri tengd menningartengdri ferðaþjónustu. Við lítum á það sem mikilvægan hluta af sjálfsmynd íbúa Bolungarvíkur að þekkja vel til sögunnar og upphafs búsetu í Bolungarvík, svo er hún líka svo skemmtileg fyrir alla þá sem heimsækja svæðið. Ekki síst er þetta mikilvægt fyrir börnin, að þekkja sögu Bolungarvíkur.“

Í bókinni leituðust þær við að glæða tungumálið nýju lífi á gömlum grunni og nota ýmis orð sem áður voru notuð um ýmislegt sem tengist siglingum, fæðu, fatnaði og fleiru. Svo bókin getur bætt við orðaforðann og fylgja hinum flóknari orðum skýringar.

„Við höfum síðustu árin verið að þróa ýmsar hugmyndir í sambandi við landnámskonuna Þuríði og fyrir mörgum árum héldum við til dæmis viðburð sem við nefndum „Býr Þuríður í þér?“ Sem hafði það að markmiði að hvetja ungar konur á svæðinu til dáða, finna sína innri „Þuríði“ í formi krafts, áræðis og leiðtogahæfni.“

Soffía segir gerð bókarinnar eðlilegt og skemmtilegt framhald í þrá þeirra eftir að halda landnámssögunni á lofti, þar sem þær vilja vekja athygli á krafti, áræði og dugnaði Þuríðar, sem lét sér einstæðri móðurinni ekki muna um að fara af stað á vit nýrra ævintýra yfir land og haf um miðja tíundu öld.

„Við lítum á bókina „Mamma, mamma ég sé land“, sem fyrstu bókina af líklega þremur um Þuríði og Völu-Stein son hennar og landnám þeirra í Bolungarvík. Vonandi rætist sá draumur okkar.“ Segir Soffía og eru þær þegar byrjaðar að þýða bókina yfir á norsku: „Það finnst okkur mjög mikilvægt því í Norður-Noregi þekkja menn líka til sögu Þuríðar og fyrir fáeinum árum var einmitt vígður minnisvarði um hana fyrir utan ráðhúsið í bænum Leknes. Það verður því spennandi að kynna þessa fallegu bók fyrir frændum okkar Norðmönnum sem einnig hafa áttað sig hvílíkur kvenskörungur Þuríður var og svo tekst okkur vonandi að gefa hana út á fleiri tungumálum.“

Bókin kemur í verslanir á næstu dögum.

 

 

annska@bb.is

 

 

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir