Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2328

Óvenju illvíg flensa

Grunnskólinn á Ísafirði.

Illvíg flensa hefur herjað á Vestfirðinga sem og aðra landsmenn upp á síðkastið og hefur hún lagt óvenju marga í bólið. Hár hiti fylgir flensunni sem byrjar oft með höfuðkvölum og fylgja henni svo beinverkir og kvef í flestum tilfella þó eitthvað sé um ólík blæbrigði. Þeir sem grípa pestina liggja í flestum tilfellum lengi eða um vikutíma. Hallgrímur Kjartansson, framkvæmdastjóri lækninga við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, segir að flensan í ár sé skæð og við bætist að virkni bóluefnisins við inflúensu sem margir nýta sér er minni en oft áður. Hann segir bóluefnið þó draga úr einkennum og bjarga þannig því sem bjargað verður.

Talsvert hefur verið um innlagnir á sjúkrahúsið vegna flensunnar og fylgikvilla hennar og þá hafa aðrar pestir verið í gagni í bland sem hefur valdið auknu álagi. Flensan fer ekki í manngreinaálit og hefur starfsfólk HVest einnig fengið að kenna á henni og sama á við um kennara við Grunnskólann á Ísafirði en þar hafa sjaldan sést önnur eins forföll vegna veikinda og nú. Leggst flensan bæði á nemendur og starfsfólk skólans, en sérstaklega slæm hefur hún verið meðal nemenda í 1.-6.bekk.

Á föstudag í síðustu viku voru til að mynda rúmlega 60 nemendur veikir af þeim 340 sem stunda nám við skólann. Í dag eru 45 nemendur fjarverandi vegna veikinda og segir Henný Þorsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur við skólann að það sé engu líkara en þessi flensa ætli bara að fella alla, en hún segist þó vonast til að toppnum sé náð, þó fólk sé enn að veikjast.

 

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Óásættanlegt að hætta við framkvæmdir í Gufudalssveit

Veglínurnar sem eru bornar saman í matsskýrslunni. Vegagerðin vill fara leið Þ-H um Teiggskóg.

 

Sveitarstjórn Reykhólahrepps krefst þess að staðið verði að fullu við þau fyrirheit sem gefin eru í nýsamþykktri samgönguáætlun Alþingis. Þetta kemur fram í ályktun sveitarstjórnar og tilefnið er ákvörðun Jóns Gunnarssonar að hætta við framkvæmdir í Gufudalssveit á þessu ári þvert á samgönguáætlun. „Það er óásættanlegt eftir áralanga baráttu, að núna þegar loksins hillir undir að framkvæmdir geti hafist við þjóðveg 60 í Gufudalssveit, skuli óvissa ríkja um fjármögnun verksins,“ segir enn fremur í ályktuninni. Örfáár vikur eru í Skipulagsstofnun gefi álit sitt á umhverfismati nýrrar veglínu í Gufudalssveit en málið hefur eins og alþjóð veit velkst um í kerfinu í á annan áratug og ratað alla leið til Hæstaréttar.

 

Auglýsing
Auglýsing

Vestfirska vorið – málþing á Flateyri

Ný bæjarstjórn leggur áherslu á gott samstarf milli allra. Mynd: Mats Wibe Lund.

Málþingið Vestfirska vorið verður haldið á Flateyri dagana 5. – 6. maí. Á málþinginu ætla heimamenn á Flateyri, sem skipuleggja málþingið í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða og Fræðslumiðstöð Vestfjarða, spyrja hvort hægt sé að snúa núverandi byggðaþróun við því sá raunveruleiki blasir við að ef fram fer sem horfir muni margar sjávarbyggðir á Íslandi ekki ná vopnum sínum og jafnvel leggjast af. Á málþinginu verða því bornar fram brennandi spurningar um framtíð íslenskra sjávarbyggða og annarra byggða í dreifbýli og þær krufðar til mergjar.

 

Þrír fræðimenn munu flytja erindi á málþinginu en allir hafa þeir fjallað um byggðaþróun, hver frá sínum fræðasviði. Þeir eru dr. Guðmundur Hálfdánarson, sagnfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, dr. Kristinn Hermannsson, hagfræðingur og lektor við Háskólann í Glasgow og dr. Þóroddur Bjarnason, félagsfræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri. Heimamenn á Flateyri munu einnig fjalla um stöðu mála út frá reynslu og rannsóknum og eru það þau Jóhanna G. Kristjánsdóttir, menntunarfræðingur, Kristján Torfi Einarsson, sjómaður og útgerðarmaður og Sæbjörg Freyja Gísladóttir, þjóðfræðingur.

 

Umræðum um efni fyrirlestranna og stöðuna almennt verður gefið gott rými við lok fyrirlestra og í sérstökum pallborðsumræðum enda afar mikilvægt að sem flest sjónarmið og röksemdir komi fram.

Auglýsing
Auglýsing

Strandagangan fór fram í blíðskaparveðri

Frá Strandagöngunni í fyrra, Mynd: Mundi Páls.

Strandagangan var haldin í 23.sinn á laugardag undir bláum himni og skínandi geislum sólarinnar. Að þessu sinni fór gangan fram á Þröskuldum þar sem nægan snjó er að finna, reyndar það mikinn að fresta þurfti starti í göngunni um tvær klukkustundir vegna þess hversu mikið af blautum snjó kyngdi niður aðfaranótt laugardags og seinlega gekk að moka bílastæðin að nýju og troða brautina. Allt hafðist það þó að lokum og klukkan 14 var forstart í 20km gönguna og ræst í 1km göngu, klukkan 14:30 var svo ræst í 5, 10 og 20km.

Í 5km göngu kvenna sigraði Margrét Sigmundsdóttir og í karlaflokki var það hinn 14 ára Friðrik Heiðar Vignisson frá SFS sem bar sigur úr býtum. Í 10km göngu kvenna sigraði hin unga og efnilega Unnur Guðfinna Daníelsdóttir, en hún er fædd árið 2006. Í karlaflokki var einnig ungur skíðamaður sem hreppti gullið Stefán Snær Ragnarsson frá SFS sem fæddur er árið 2001.

Samhliða Strandagöngunni fór fram Íslandsgangan, en svo nefnist röð skíðagöngumóta sem trimmnefnd Skíðasambands Íslands hefur efnt til árlega síðan 1985. Í mótaröðinni er að finna sex skíðagöngumót sem haldin eru víðs vegar um landið, þar af tvö á Vestfjörðum, Strandagönguna og Fossavatnsgönguna. Keppt er í þremur aldursflokkum karla og kvenna.

Í kvennaflokki Strandagöngunnar sigraði Elsa Guðrún Jónsdóttir í aldursflokknum 15 til 34 ára, í flokki 35 til 49 ára sigraði Hólmfríður Vala Svavarsdóttir frá SFÍ og Kristina Andersen frá Ulli í flokki 50 til 59 ára. Í flokki karla 15 ára til 34 ára sigraði Sigurður Arnar Hannesson frá SFÍ og var hann jafnframt sá sem kom fyrstur í mark allra í göngunni og fékk hann að launum Sigfúsarbikarinn, veglegan farandgrip göngunnar. Í flokki 50 til 59 karla ára sigraði Kristbjörn R. Sigurjónsson frá SFÍ, í flokki 60 ára og eldri sigraði Egill Guðmundsson frá Ulli.

Sá veglegasti og merkilegast er án efa Sigfúsarbikarinn, en hann er farandbikar sem hlotnast þeim einstaklingi sem kemur fyrstur í mark í 20 km. göngu.

Fyrsta Strandagangan var haldin árið 1995. Gangan er fyrir alla aldurshópa, vana sem óvana. Vegalengdir eru 1 km. fyrir 12 ára og yngri og svo 5, 10 og 20km fyrir aðra aldurshópa. Keppt hefur verið í sveitakeppni í öllum vegalengdum frá árinu 2007. 88 manns tóku þátt í göngunni að þessu sinni.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Langflestir skólar með of litla verk- og listkennslu

 

Verulegur misbrestur er á því hvernig grunnskólar ráðstafa kennslumínútum í list- og verkgreinum, samkvæmt könnun menntamálaráðuneytisins. Þrír af hverjum fjórum grunnskólum bjóða upp á of litla kennslu í greinunum fyrir 5. til 7. bekk, miðað við lágmarksviðmið aðalnámskrár. Grunnskólanemendur fá víða ekki lögbundna kennslu í greinunum. Mennta- og menningarmálaráðuneytið bað Hagstofuna um að afla upplýsinga um fjölda kennslustunda í list- og verkgreinum í grunnskólum. Í ljós kom að verulegur misbrestur er á því að nemendur fái lögbundinn fjölda stunda – sem þeim ber samkvæmt lágmarksviðmiðum í aðalnámskrá frá 2011. Fögin eru tónmennt, myndmennt, sviðslistir, hönnun, smíði, textílmennt og heimilisfræði. Skólaárin frá 2013 til 2016 voru skoðuð og var kennsla öll árin undir lágmarksviðmiðum. Skólarnir ráða hvernig mínútum í verk- og listgreinum er ráðstafað og skila inn skýrslu þar um til Hagstofunnar.

Í fyrra uppfylltu 75 prósent grunnskóla ekki viðmið fyrir kennslu í 5. til 7. bekk. Hlutfallið er um 70 prósent fyrir 8. til 10. bekk og 46 prósent fyrir 1. til 4. bekk. Skólarnir sem ekki uppfylla lágmarksviðmiðin eru um allt land og dreifast misjafnlega eftir aldri nemenda. Í frétt á vef ráðuneytisins segir að þetta sé verulegur misbrestur og að ráðuneytið muni upplýsa sveitarfélög um þessa niðurstöðu, sem sé ekki ásættanleg, og ítreka mikilvægi þess að réttur nemenda til lágmarksfjölda kennslustunda í list- og verkgreinum samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla sé virtur.

Auglýsing
Auglýsing

Ný vefmyndavél á Flateyri

 

Vefmyndavél hefur verið komið fyrir á Flateyri og er uppsetning og útsending myndavélarinnar samstarfsverkefni Önfirðingafélagsins, Snerpu ehf. á Ísafirði og Græðis sf. Flateyri. Myndavélin er staðsett á fjarskiptamastri sem er við Símstöðina Ránargötu 1. Þaðan er hægt að sjá m.a. yfir höfnina og niður Hafnarstrætið. „Þetta vantaði alveg á Flateyri, það er komin vefmyndavél alla hina staðina hér í kring,“ segir Valdimar Jónsson, framkvæmdastjóri Græðis. „Þetta er bara til gamans gert, til dæmis fyrir brottflutta. Þeir geta þá horft á myndina og haldið áfram að sakna þorpsins,“ segir Valdimar og hlær.

Slóð á vefmyndavélina

Auglýsing
Auglýsing

Búðin í Súðavík sett á sölu

Búðin er í Álftaveri, þjónustumiðstöð Súðavíkur.
Fjármagnstekjur í Súðavík eru nálægt landsmeðaltalinu.

 

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur ákveðið að auglýsa matvöruverslunina í Súðavík til sölu. „Við ætlum að kanna hvort það er einhver áhugi á að kaupa búðina. Það er eðlilegt þegar svona rekstur er í opinberri eigu að það sé skoðað reglulega hvort að einkaaðili sé tilbúinn að taka við keflinu,“ segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps. Sveitarfélagið opnaði verslunina fyrir tæpum tveimur árum eftir að hreppurinn hafði verið verslunarlaus um nokkurra missera skeið.

Pétur segir að ákvörðun sveitarstjórnar um að auglýsa búðina til sölu sé í takt við það sem ákveðið var í upphafi þegar stofnað var til rekstursins. „Búðin rekur sig ágætlega þannig að þetta gæti verið fínt tækifæri fyrir einstaklinga sérstaklega í ljósi þess að ferðaþjónusta er alltaf að verða stærri atvinnugrein á svæðinu og í svona fyrirtæki leynast miklir möguleikar tengdir ferðaþjónustu og það fer best á því að einkaaðilar þrói það áfram,“ segir Pétur.

Auglýsing
Auglýsing

Atvinnuþátttaka kvenna aldrei meiri

Atvinnuþátttaka kvenna var tæp 80% árið 2016 og hefur aldrei verið meiri. Atvinnuþátttaka karla var rúm 87%. Í frétt á vef Hagstofunnar kemur fram að óleiðréttur launamunur kynjanna hjá fullvinnandi launþegum var rúm 14% árið 2015. Tæplega helmingur  kvenna 25-64 ára var með háskólamenntun árið 2016 samanborið við þriðjung karla á sama aldri.  Þá voru 45% karla og 30% kvenna með starfs- og framhaldsmenntun.  Konur eru nú 48% alþingismanna og 44% kjörinna sveitarstjórnarmanna en í mörgum öðrum áhrifastöðum er hlutur kvenna lægri. Hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra fer eftir stærð fyrirtækis, til dæmis var það 22%  hjá fyrirtækjum með 1-49 starfsmenn en 9% í fyrirtækjum með 250 starfsmenn eða fleiri árið 2015.

 

Auglýsing
Auglýsing

Lögreglan rannsakar fíkniefnamál

 

Lögreglan á Vestfjörðum handtók í síðustu viku mann sem grunaður er um neyslu og dreifingu fíkniefna á norðanverðum Vestfjörðum. Gerð var húsleit í tveimur íbúðum í Ísafjarðarbæ í tengslum við málið, en maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu vegna fíkniefnamála. Neysluáhöld fundust í íbúðunum en engin fíkniefni, en lögregla telur sig hafa vísbendingar um að dreifing hafi átt sér stað. Maðurinn var yfirheyrður en hefur verið sleppt lausum. Ætluð brot hans eru til rannsóknar, að því er segir í dagbók lögreglunnar um verkefni síðustu viku

Í vikunni hafði lögreglan afskipti af tveimur ungum drengjum á mótorhjólum sem keyrðu utan vegar í Dýrafiðri. Í ljós kom að drengirnir voru ekki með ökuréttindi til aksturs þessara farartækja auk þess sem þau voru ekki skráð né heldur tryggð. Sama dag voru höfð afskipti af öðrum ungum ökumanni, á öðrum stað, sem ekki hafði öðlast tilskilin ökuréttindi auk þess sem skráningarnúmer voru ekki á hjólinu.

Alls voru sex ökumenn kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Sá sem hraðast ók mældist á 125 km hraða.. Þessir ökumenn voru í akstri í Önundarfirði, Ísafjarðardjúpi og í Strandasýslu.

Númeraplötur voru teknar af fjórum ökutækjum í vikunni. Ástæðan var vangoldin iðgjöld vegna lögbundinna trygginga. Eigendur ökutækja eru hvattir til að tryggja að þetta sé í lagi.

Tilkynnt var um þrjú umferðaróhöpp í vikunni. Eitt þeirra varð í Arnkötludal þegar ökumaður missti stjórn á jeppabifreið sinni með afleiðingum að hún rann út af veginum og valt. Engin meiðsl hlutust af óhappinu, en bifreiðin var óökufær eftir atvikið. Snjóþekja var á yfirborði vegarins.

Annað óhappið varð í Skötufirði þegar lítil jeppabifreið rann út af veginum og hafnaði í vegrás ofan vegarins. Hvorki ökumann eða farþega sakaði en bifreiðin var óökufær eftir atvikið.

Þriðja óhappið varð á Klettshálsi þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og rann hún út af veginum og valt. Ökumann og farþega sakaði ekki.

Í öllum þessum tilvikum voru ökumenn og farþegar með öryggisbelti spennt. Minnt er á mikilvægi þeirra hvort heldur í lengri eða styttri ferðum.

Þrír ökumenn voru kærðir í vikunni fyrir að nota ekki öryggisbelti. Allir voru þessir ökumenn í akstri í Vesturbyggð.

Auglýsing
Auglýsing

Tillaga að starfsleyfi fyrir 10.700 tonna laxeldi

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir Fjarðalax ehf. til framleiðslu á allt að 10.700 tonnum á ári af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði. Fjarðalax ehf. er með leyfi til eldis á laxi í sjókvíum að 3.000 tonnum á ári í Patreksfirði og Tálknafirði. Fjarðalax er dótturfyrirtæki Arnarlax hf. Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 8.maí 2017. Á vef Umhverfisstofnunar má finna auglýsta tillögu Umhverfisstofnunar, umsóknargögnin, tilkynningu til Skipulagsstofnunar og matsskylduákvörðun hennar.

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir