Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2326

Áframhaldandi éljagangur

Fram eftir degi verður suðvestan átt 8-13 m/s á Vestfjörðum og él framan af degi samkvæmt spá Veðurstofunnar, en lægir smám saman er líða tekur á daginn. Á morgun snýr vindur sér í norðaustan átt og bætir aftur í vind og má búast við 8-15 m/s og éljum á morgun, hvassast á annesjum. Hiti í dag verður nálægt frostmarki, en kólnar fram til morguns og verður 0 til 5 stiga frost annað kvöld.

Á Vestfjörðum er víða hálka, snjóþekja eða hálkublettir, en þæfingur og éljagangur er á Klettshálsi samkvæmt vef Vegagerðarinnar.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Flúrun styrktaraðila

Laufey Hálfdánardóttir stýrði blaðamannafundinum með harðri hendi.

Hinn hefðbundni blaðamannafundur tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður fór fram á flugvellinum á Ísafirði í morgun. Þar voru mættir auk fjölmiðlamanna fulltrúar styrktaraðila hátíðarinnar og fengu þeir og rokkstjórinn Kristján Freyr Halldórsson merki Aldrei „húðflúrað“ á handlegginn. Þar með var samstarf þeirra innsiglað og undirritað.

Kristján Freyr Halldórsson rokkstjóri Aldrei fór ég suður.

Það voru þau Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, Kristján Freyr Halldórsson, Þórdís Sif Sigurðardóttir og Örn Elías Guðmundsson sem lýstu komandi hátíð, liðnum hátíðum og upplifun sinni af páskum á Ísafirði. Íbúafjöldinn hér á fjörðunum tvöfaldast um páska og fyrir utan opinbera dagskrá Aldrei fór ég suður á Ísafirði eru í farvatninu allskonar uppákomur á fjörðunum í kring. Þegar liggur til dæmis fyrir að á Suðureyri mun 66¨N bjóða upp á veglega tónleika á bryggjunni.

Bjarni Sólbergsson fjármálastjóri Orkubús Vestfjarða og Magnús Kristjánsson forstjóri Orkusölunnar kvitta undir samstarfið

Dagskrá Aldrei er að venju bæði fjölbreytt og skemmtileg og hefur nefndin gefið út myndband þar sem bæjarbúar kynna þau atriði sem boðið verður upp á.

Þórdís Sif Sigurðardóttir
Örn Elías Guðmundsson

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Fagnar burðarþolsmati Hafró

Ísafjarðardjúp ber 30 þúsund tonna framleiðslu samkvæmt burðarþolsmati Hafró.

Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish fagnar nýútkominni skýrslu Hafrannsóknastofnunar um burðarþolsmat Ísafjarðardjúps. Samkvæmt burðarþolsmatinu þá er gert ráð fyrir að heildarlífmassi í Ísafjarðardjúpi verði aldrei meiri en 30 þúsund tonn, en þetta leyfilega magn verði vaktað og metið svo út frá raungögnum á komandi árum. Í tilkynningu frá Arctic Fish kemur segir að burðarþolsmatið sé afar mikilvægt innlegg í því leyfisumsóknarferli sem fyrirtækið er statt í og nauðsynlegt skref fyrir framþróun greinarinnar í heild á norðanverðum Vestfjörðum.

Arctic Fish er að sækja um 8 þúsund tonna laxeldisleyfi í Ísafjarðardjúp, en er í dag með 4 þúsund tonna starfsleyfi fyrir regnbogasilung sem það áformar að skipta yfir í lax sem og tvö 200 tonna rekstrarleyfi. Sjókvíaeldi Arctic Fish er í dag í Dýrafirði og á næstu árum er gert ráð fyrir að setja út seiði á Patreksfirði og Tálknafirði þar sem leyfisveitingar eru á lokastigi. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í grundvallarstarfsemi félagsins í nýrri endurnýtingastöð fyrir seiðaeldi félagsins í Tálknafirði.

Í tilkynningu Arctic Fish segir: „Ef leyfismál félagsins fyrir Ísafjarðardjúp klárast á næstu misserum ætti félagið að hafa afkastagetu í seiðaeldinu þannig að mögulegt væri að byrja eldi í Ísafjarðardjúpi jafnvel á næsta ári. Frekari leyfisveitingar eru forsenda fyrir því að fyrirtækið nái stærðarhagkvæmni og verði samkeppnishæft á afurðamörkuðum. Nú þegar er fyrirtækið með talsverða starfsemi á Vestfjörðum, aðalskrifstofa félagsins og vinnsla er á Ísafirði, sjókvíaeldi í Dýrafirði, pökkun í samstarfi við verktaka á Flateyri og svo seiðaeldið í Tálknafirði. Í það heila starfa yfir 40 manns hjá fyrirtækinu beint og frá 10 til 30 starfsmenn í uppbyggingu á nýrri seiðaeldisstöð félagsins. Stefnt er á talsverða fjölgun og frekari fjárfestingar á komandi árum að því gefnu að leyfisumsóknir félagsins fái jákvæða afgreiðslu.“

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Skiladagur skattframtala í dag

Í dag er síðasti dagurinn til að vinna skattframtöl einstaklinga vegna síðasta launaárs og rennur frestur til að skila inn framtali út á miðnætti. Skilin hafa verið óvenju góð í ár og voru i gærmorgun á annað hundrað þúsunda framtala komin inn til ríkisskattstjóra, en dagurinn í dag, skiladagurinn, er iðulega sá dagur sem flest framtölin koma í hús. Aldrei hafa heldur eins margir skilað inn framtali fyrsta sólarhringinn sem opið var fyrir rafræn skil á skattaframtali er bárust yfir 4000 framtöl.

Skattframtölin hafa breyst mikið á undanförnum árum og í tilfellum venjulegs launafólks dugar oft að opna framtalið á vefsvæðinu skattur.is og staðfesta. „Nú er þetta orðið þannig að við erum með það góða upplýsingavinnslu að við getum útbúið framtal fyrir þorra gjaldenda. Okkar viðskiptavinir þurfa ekki að gera annað í mjög mörgum tilfellum en að opna framtalið, skoða það, yfirfara upplýsingarnar og síðan staðfesta,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri í samtali við Vísi í gær.

Þar segir Skúli Eggert einnig að í ár verði líkt og í fyrra álagningin lögð fram mánuði fyrr en áður tíðkaðist og verður hún tilbúin þann 30. júní núna.

Kunni einhverjir að vera í vandræðum með framtöl sín má fá framtalsaðstoð í síma 442 1414

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Kostnaður heimila vegna raforkukaupa lítið breyst

Höfuðstöðvar Orkubús Vestfjarða á Ísafirði.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur látið vinna skýrslu um þróun kostnaðar heimila við raforkuöflun, frá gildistöku raforkulaga 2005 til 2017. Sérstaklega er þar horft til heimila sem búa við rafhitun. Í skýrslunni er skoðuð þróun tekna og kostnaðar notenda fyrir kerfið í heild sinni. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru að heildarkostnaður meðal heimilis við raforkuöflun, á verðlagi við lok árs 2016, hefur breyst tiltölulega lítið frá 2005, en hann hefur þó ætíð verið meiri í dreifbýli en þéttbýli. Ef skoðaður er hver kostnaðarþáttur fyrir sig kemur í ljós að kostnaður notanda við orkukaup fór heldur minnkandi í byrjun tímabilsins en hefur verið að vaxa á undanförnum árum. Á móti kemur að kostnaður notanda vegna flutnings og dreifingar hefur farið lækkandi á allra síðustu árum vegna aukinna niðurgreiðslna og dreifbýlisframlags.

 

Sé horft til viðskiptavina Orkubús Vestfjarða í dreifbýli hefur kostnaður lítið breyst á þessu tímabili en hefur sveiflast frá um 250 upp í um 330 þús. kr. á ári, á föstu verðlagi. Kostnaðurinn var mestur á árunum 2010 til 2014 en nú er hann svipaður og við upphaf tímabilsins. Frá 2005 til 2017 hafa niðurgreiðslur og verðjöfnun aukist um 20% fyrir þennan notanda en árlegur kostnaður notandans er að mestu óbreyttur en tekjur veitufyrirtækjanna hafa aukist um 10% af þessum notanda. Niðurgreiðslur og verðjöfnun hafa að undanförnu verið um tvöfalt meiri en þær voru minnstar rétt fyrir mitt tímabilið.

 

Kostnaður notanda í þéttbýli á veitusvæði Orkubús Vestfjarða hefur breyst lítið en hann er nokkuð lægri en fyrir notandann í dreifibýlinu. Að meðaltali er kostnaður notandans í dreifbýlinu um 40 þús. kr. hærri á ári og mesti munurinn er rúmlega 60 þúsund kr. á ári á þessu tímabili en nú er munurinn 27 þúsund kr. á ári (janúar 2017). Niðurgreiðslurnar hafa aukist um 7% frá upphafi tímabilsins til 2017 og tekjur veitufyrirtækjanna hafa aukist um 6% á föstu verðlagi. Eins og í dreifbýlinu voru tekjurnar minnstar rétt fyrir mitt tímabilið (2009).

 

 

Auglýsing
Auglýsing

Starfsmannaleigur í örum vexti

Fjöldi starfs­manna sem eru á ís­lensk­um vinnu­markaði á veg­um er­lendra þjón­ustu­fyr­ir­tækja og starfs­manna­leigna hef­ur marg­fald­ast á milli ára. Þetta kem­ur fram í skýrslu Vinnu­mála­stofn­un­ar um ástandið á vinnu­markaði. Í sein­asta mánuði voru 40 er­lend þjón­ustu­fyr­ir­tæki starf­andi hér á landi en þau voru níu tals­ins í sama mánuði í fyrra. Alls voru 411 starfs­menn á veg­um þess­ara fyr­ir­tækja í fe­brú­ar, ná­lega tvö­falt fleiri en í sama mánuði í fyrra.

Þá voru starfs­menn starfs­manna­leigna, inn­lendra sem er­lendra, sam­tals 974 í sein­asta mánuði á veg­um 26 starfs­manna­leigna á vinnu­markaðinum og hafði þeim fjölgað úr 178 á einu ári. Yfir 20.000 er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar voru að jafnaði á ís­lensk­um vinnu­markaði á sein­asta ári.

Auglýsing
Auglýsing

Burðarþolsmat Ísafjarðardjúps 30 þúsund tonn

Mynd: Ómar Smári Kristinsson.

Hafrannsóknastofnun hefur birt mat á burðarþoli Ísafjarðardjúps með tilliti til sjókvíaeldis og er niðurstaða matsins að hámark lífmassa fiskeldis í Ísafjarðardjúpi verði 30 þúsund tonn. og er það meiri lífmassi en þegar hefur verið sótt um leyfi fyrir vegna fiskeldis í Ísafjarðardjúpi. Við gerð burðarþolsmats er einkum er horft til álags á lífríki sjávarbotnsins, súrefnisstyrk og styrk næringarefna í sjó. Þá er tekið tillit til stærðar fjarðanna og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif eldisins einkum á botndýralíf og súrefnisstyrk.

Á vef Hafrannsóknastofnunar kemur fram að við breytingu á lögum um fiskeldi árið 2014 voru sett inn ný ákvæði um að rekstrarleyfi skuli fylgja burðarþolsmat sem framkvæmt sé af Hafrannsóknastofnun.

Vegna aðstæðna í Ísafjarðardjúpi og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif áætlaðs eldis á vatnsgæði og botndýralíf, telur Hafrannsóknastofnun að hægt sé að leyfa allt að 30 þúsund tonna lífmassa í eldi í Ísafjarðardjúpi á hverjum tíma. Í þessu mati er gert ráð fyrir að heildarlífmassi í Ísafjarðardjúpi verði aldrei meiri en 30 þúsund tonn og að vöktun á áhrifum eldisins fari fram. Slík vöktun yrði forsenda fyrir hugsanlegu endurmati á burðarþoli fjarðarins, til hækkunar eða lækkunar, sem byggt yrði á raungögnum.

Hafrannsóknastofnun tekur fram að endanleg burðarþolsmörk fyrir ákveðna firði eða svæði verða seint gefin út enda hefur slíkt varla verið gert í nágrannalöndunum, heldur er alltaf tekið með í reikninginn hvaða staðsetningar og hvers konar eldi er um að ræða og fara umhverfisáhrifin eftir báðum þessum þáttum.

Því má búast við að burðarþol fjarða og annarra eldissvæða verði endurmetið á næstu árum ef þörf krefur.

Auglýsing
Auglýsing

Krossinn í Engidal lýsir að nýju

Krossinn er orðinn hin mesta prýði að nýju.

Fyrir síðustu jól glöddust margir á Ísafirði er þeir sáu að ljós var komið á krossinn við kirkjugarðinn í Réttarholt í Engidal að nýju en hann hafði verið ljóslaus um árabil. Það var Lionsklúbbur Ísafjarðar sem sá til þess að krossinn fengi tilhlýðilegar fegrunaraðgerðir og lagfæringar og fengu félagar klúbbsins einvalalið með sér í verkið, þar sem allir gáfu vinnu sína.

Lionsklúbbur Ísafjarðar gaf Sóknarnefnd Ísafjarðarkirkju krossinn árið 1984 og ári síðar var krossinum komið fyrir í Engidal að tillögu nefndar. Skipastál var pantað til smíðanna og sá Friðgeir Hrólfsson Lionsmaður i Vélsmiðju Ísafjarðar um verkið. Þá komu gott sem allir starfandi félagar klúbbsins að verkinu sem vakti ánægju bæjarbúa að sögn Bjarndísar Friðriksdóttur formanns Lionsklúbbsins. Eftir að hafa prýtt garðinn í nokkur ár fór að bera á bilun í ljósabúnaði, sem á endanum gaf sig.

Bjarndís segir Lionsfólk hafa rætt sín á milli að þyrfti að laga krossinn og bæjarbúar hafi haft orð á því að ljós vantaði á krossinn. Í haust var svo drifið í að taka krossinn niður og var farið með hann í sandblástur í Vélsmiðjunni Mjölni í Bolungarvík, svo lögðu Sævar og starfsfólk Pólsins í hann nýjan ljósabúnað sem kom frá fyrirtækinu Vestkraft og þá var plast yfir lýsinguna útbúið í Vélsmiðjunni  Þristi. Lionsfélagar máluðu síðan krossinn og settu hann aftur upp á sinn stað í Engidal á aðventunni „Lionsklúbbur Ísafjarðar vill koma hjartans einlægustu þökkum fyrir fallegar gjafir til þeirra sem komu að verkinu sem bæjarbúar kunna svo sannarlega að meta. Það var sannkölluð jólagleði er það kom ljós að nýju,“ Segir Bjarndís.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Sjálfstæðisflokkurinn stærstur

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn nýt­ur áfram mests fylg­is stjórn­mála­flokka á Íslandi sam­kvæmt niður­stöðum nýrr­ar skoðana­könn­un­ar MMR eða 25,4%. Vinstri­hreyf­ing­in – grænt fram­boð kem­ur næst með 23,5%. Stuðning­ur við rík­is­stjórn­ina mæl­ist 34,5%.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hlaut 29% fylgi í þing­kosn­ing­un­um í októ­ber og VG 15,9%. Rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir fengu sam­an­lagt 46,7% fylgi í kosn­ing­un­um.

Fylgi Pírata mæl­ist 13,7% en flokk­ur­inn hlaut 14,2% í þing­kosn­ing­un­um. Fylgi Fram­sókn­ar­flokks­ins er 11,4% sem er nán­ast það sama og þegar kosið var. Fylgi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar mæl­ist 8,8% miðað við 5,7% í kosn­ing­un­um.

Þá mæl­ist Viðreisn með 5,5% fylgi en flokk­ur­inn hlaut 10,5% í kosn­ing­un­um í októ­ber. Fylgi Bjartr­ar framtíðar mæl­ist 5% miðað við 7,2% í kosn­ing­un­um.

Auglýsing
Auglýsing

Suðupottur sjálfbærra hugmynda í Skóbúðinni

Gamla Skóbúð Leós sem nú hýsir hversdagssögusafnið Skóbúðina. Teikning: Marta Sif Ólafsdóttir.

Á miðvikudagskvöld fer fram skipulags- og vinnufundur í Skóbúðinni á Ísafirði fyrir verkefni sem hlotið hefur nafnið Suðupottur sjálfbærra hugmynda. Að baki verkefninu stendur áhugafólk um sjálfbærni og umhverfisvænan lífsstíl og vill það skapa vettvang þar sem fólk getur komið saman og rætt þau málefni ásamt því að leggja í púkkið hugmyndir um hvað íbúar Ísafjarðar og nágrennis geta tileinkað sér til að iðka megi slíkan lífsstíl með sem bestu móti.

Verkefnið mun standa fram í byrjun maímánaðar og verður hægt að koma við í Skóbúðinni mánudags til fimmtudagskvöld á milli klukkan 20 og 22. Þar geta gestir kynnt sér hvað aðrir í samfélaginu eru að gera, skoðað hugmyndir þeirra ásamt því að koma sínum eigin hugmyndum á framfæri og auðvitað fara saman í bland umræður um sjálfbærni og umhverfisvernd. Að sögn Hildar Dagbjartar Arnardóttur, sem leiðir verkefnið, munu eflaust spretta upp í kjölfarið vinnustofur, kynningarkvöld um ákveðin málefni ásamt framkvæmd einhverra hugmynda. Hún segir þó tímann leiða í ljós hvað íbúunum dettur í hug að gera á þessum stað sem er opinn fyrir öllu.

Á vinnufundinum sem hefst klukkan 20 á miðvikudagskvöld verður undirbúin opnun Suðupottsins sem fram fer á laugardag á milli klukkan 13 og 15. Allir áhugasamir um verkefnið eru velkomnir.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir