Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2324

Stefna á 10 þúsund tonna eldi í Eyjafirði

Eldislaxinn er drjúg tekjulind fyrir ríkissjóð.

Bílddælska fiskeldisfyritækið Arnarlax hf. hefur lagt fram drög að matsáætlun vegna 10.000 tonna laxeldis í Eyjafirði. Drögin eru unnin af verkfræðistofunni Verkís og eru aðgengileg á vefsíðu fyrirtækisins. Eldissvæðin verða fimm, beggja vegna fjarðar eins og sést á meðfylgjandi mynd. 

Í tillögu að matsáætlun er fyrirhuguðum framkvæmdum og framkvæmdasvæði lýst. Fjallað er um samræmi við gildandi skipulag og greint frá helstu áhrifaþáttum og hvaða umhverfisþætti áhersla verður lögð á í frummatsskýrslu. Lýst er fyrirliggjandi rannsóknum og gögnum er varða umhverfis- og áhrifaþætti framkvæmdar og greint frá fyrirhuguðum rannsóknum.

Fyrirtækið gerir ráð fyrir að koma sér upp aðstöðu til slátrunar og vinnslu eldislax á Eyjafjarðarsvæðinu. Þaðan verði lax sem slátrað verður fluttur á markaði. Arnarlax stefnir að því að hefja rekstur sjókvíaeldis í Eyjafirði vorið 2019 með fyrirvara um afgreiðslutíma leyfisveitinga.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Einn blár strengur á Aldrei fór ég suður

Bubbi Morthens er meðal þeirra sem tónlistarmanna sem skartað hefur bláum streng og það munu tónlistarmenn á Rokkhátíð Alþýðunnar einnig gera.

Einn blár strengur er átaksverkefni til vitundarvakningar um kynferðislegt ofbeldi gegn drengjum. Verkefnið er leitt af kennurum og nemendum við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri og er það unnið í samstarfi við alþjóðleg samtök 1bluestring.org.  Nafn verkefnisins vísar til þess að erlendar rannsóknir sýna að einn af hverjum sex drengjum verða fyrir kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur, og segir Ísfirðingurinn Sigrún Sigurðardóttir sem er ein helsta hvatamanneskjan að verkefninu, ekkert í okkar samfélagi sem benda til þess að eitthvað minna sé um það hér á landi.

„Einn blár strengur kom til Íslands í águst 2016. Ég var þá að leita mér að rannsóknum um kynferðislegt ofbeldi gegn drengjum vegna doktorsrannsóknar minnar og fann upplýsingar um verkefnið á netinu.“ Segir Sigrún sem starfar sem lektor við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri, hefur skrifað doktorsritgerð við Háskóla Íslands sem fjallar m.a. um reynslu karlmanna af kynferðislegu ofeldi í æsku og áhrif þess á heilsufar og líðan. Sigrún hafði áður skoðað sömu mál í reynsluheimi kvenna í meistararitgerð sinni og í kjölfarið fór hún af stað með heildræn meðferðarúrræði, Gæfusporin, sem einnig er hluti af doktorsverkefni hennar.

„15 ára sonur minn er mikill gítarleikari og honum fannst verkefnið mikil snilld og bað mig að panta fyrir sig einn streng. Ég sendi póst út og fékk strax svar frá Gary Foster í Ástralíu sem bauðst til að senda mér ýmsan varning tengdan verkefninu. Þar með fór boltinn að rúlla. Sonur minn fór svo með bláa strenginn í gítartíma hjá Magna Ásgeirs sem fannst þetta svo flott hugmynd að hann var til í að vera með og kynna verkefnið og fékk því bláan streng. Þá benti ég nemendum mínum í námskeiðinu Sálræn áföll og ofbeldi við HA á hvað væri hægt að gera frábæra hluti í tengslum við mjög svo erfitt viðfangsefni og bauð þeim jafnframt að gera eitthvað með það. Þannig hélt boltinn áfram að rúlla.

Ég var áfram í tölvupóstsamskiptum við Gary og sagði honum að mikill áhugi væri fyrir verkefninu hér á landi og var í framhaldinu ákveðið að hafa ráðstefnu í Háskólanum á Akureyri 20.maí þar sem fjallað verður um kynferðislegt ofbeldi gegn drengum. Þá verður einnig vinnusmiðja með karlmönnum sem þolendum kynferðisofbeldið þann 22.maí.“ Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á heimasíðunni www.alltumofbeldi.is. og þá má einnig lesa um verkefnið á fésbókarsíðu þess.

Mikilvægt samstarf við tónlistarfólk

Margir tónlistarmenn hafa þegar lagt verkefninu lið með því að setja bláan streng í gítara sína og má þar nefna Bubba Morthens sem til að mynda spilaði með bláan streng á Þorláksmessutónleikum sínum í Hörpu og nú hefur rokkhátíðin Aldrei fór ég suður slegist í lið með átakinu:

„Það er mér því mjög kært að koma með einn bláan streing í minn heimabæ og hleypa þar af stað vitundarvakningu. Það er líka táknrænt fyrir mig því ég var búsett á Ísafirði þegar ég byrjaði að vinna rannsókn mína á karlmönnum sem þolendur kynferðislegs ofbeldis í æsku og tók fyrsta viðtalið þar fyrir sjö árum.“

Sigrún nefndi samstarf við AFÉS er hún hitti forsprakka hátíðarinnar Mugison, er hann hélt tónleika norðan heiða í haust. Tók hann vel í hugmyndina og það gerði einnig Kristján Freyr rokkstjóri í framhaldinu og mun Einn blár strengur vera á Aldrei fór ég suður og hafa tónlistarmenn tekið afar vel í það að leggja sín lóð á vogaskálar verkefnisins.

Sigrún Sigurðardóttir

„Það er mjög mikilvægt fyrir verkefnið að komast í samstarf við svo flotta rokkhátíð til að vekja athygli á þessum erfiðu málum sem kynferðislegt ofbeldi er, sérstaklega gegn drengjum. Með því að koma verkefninu á stað þar sem margt ungt fólk kemur saman náum við til fleiri, sérstaklega drengjanna og karlanna sem við viljum ná til. Kynferðislegt ofbeldi gegn drengjum og karlmönnum er mjög dulið því karlar segja síður frá en konur.“ Segir Sigrún og segir hún sem virðist fylgja þeim meiri skömm og sjálfsásökun: „Fordómar í samfélaginu og þeirra eigin gera það að verkum að þeir lifa oft í þrúgandi þögn. Þessi málaflokkur hefur einnig fengið frekar litla athygli hér á landi og meiri fókus verið á konur og því eru margir karlar þarna úti sem búa yfir þessu ljóta leyndarmáli sem litar allt þeirra líf og samskipti þeirra við vini, maka og börn sín.“

„Við erum mjög þakklát fyrir að komast í samstarf við Aldrei fór ég suður og sjáum þar möguleika að ná til fleiri einstaklinga en við gætum annars gert, tónlist er ein besta boðleiðin fyrir svona erfið mál og með þessu átaki vonumst við til þess að það verði hvatning fyrir karlmenn að leita sér hjálpar, í því felst frelsið og það er engin skömm af því.“ Segir Sigrún og bendir á að leita megi hjálpar víða:

„Stígamót kemur t.d. til Ísafjarðar og tekur á móti körlum jafnt sem konum, Aflið á Akureyri taka einnig á móti körlum jafnt sem konum og þar er opinn sími allan sólarhringinn og Drekaslóð í Reykjavík taka einnig á móti körlum jafnt sem konum. Hjálparsími Rauða krossins, 1717 er einnig opinn fyrir þolendur ofbeldis og Blátt áfram hefur nýlega stofnað stuðningshópa fyrir foreldrar barna sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.“

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Bæjarins besta komið á vefinn

Glöggir lesendur hafa væntanlega tekið eftir að vefútgáfa Bæjarins besta er nú farin að birtast á vefnum enda höfðu margir lesendur gert athugasemdir við að ekki væri hægt að nálgast blaðið á vefnum. Nýjasta blaðið birtist alltaf ofarlega hægra megin á síðunni og neðst á síðunni er lengri listi. Unnið er að því að setja inn eldri árganga.

Flestir virðast nú vera orðnir sáttir við nýja síðu en þessu verkefni er aldrei lokið.  Við munum breyta og bæta og njóta þess að nýtt kerfi skuli gera okkur kleift að bregðast við óskum lesenda.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Fimm skólar taka þátt í söfnun ABC barnahjálpar

Skóli ABC barnahjálpar í Búrkína Fasó.

Árleg söfnun ABC barnahjálpar, Börn hjálpa börnum, hófst formlega dag þegar Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands setti söfnunina af stað frá Áslandsskóla í Hafnarfirði. Söfnunin er í samstarfi við grunnskóla landsins og frá upphafi hafa nemendur um land allt safnað rúmlega 120 milljónum króna til styrktar fátækum börnum í fjarlægum löndum. Söfnunin fer þannig fram að börnum er úthlutað götum í sínu hverfi þar sem þau ganga í hús tvö og tvö saman og safna í söfnunarbauka. Söfnunarfénu verður ráðstafað til að styrkja innviði skólastarfs ABC í Afríku og Asíu.

Fimm grunnskólar á Vestfjörðum taka þátt í söfnuninni að þessu sinni. Þeir eru eru Auðarskóli, Grunnskólinn á Suðureyri, Patreksskóli, Bíldudalsskóli og Tálknafjarðarskóli.

Þetta er í 20 skiptið sem söfnunin er haldin. Í söfnuninni í fyrra söfnuðust tæpar 8 milljónir króna og fóru m.a. í uppbyggingu heimavistar í Pakistan, efnafræðistofu í ABC skólanum í Nairobi í Kenýa og til uppbyggingar heimavistar í ABC skólanum í Namelok í Kenýa.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Tíu fyrirtæki með helming kvótans

Tvö útgerðarfyrirtæki ráða yfir tæplega átján prósentum af öllum aflaheimildum í íslenska kvótakerfinu. Tíu fyrirtæki ráða yfir helmingi allra aflaheimilda. HB Grandi og Samherji, sem hafa verið kvótahæstu fyrirtæki landsins undanfarin ár, tróna enn á toppnum. Þetta kemur fram í samantekt Fiskistofu. Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. í Hnífsdal er 11. kvótahæsta fyrirtækið með kvóta upp á 12 þúsund þorskígildistonn sem jafngildir 3,07% af heildarkvótanum. Jakob Valgeir ehf. í Bolungarvík er næsta vestfirska fyrirtækið á listanum, með rúmlega 6 þúsund tonna kvóta og 18. kvótahæsta fyrirtæki landsins. Oddi hf. á Patreksfirði er í 31. sæti listans með 2.600 tonna kvóta.

Kvóti HB Granda er 43 þúsund þorskígildistonn og kvóti Samherja er 25 þúsund tonn. Þá er vert að geta þess að Samherji allt hlutafé í Útgerðarfélagi Akureyringa (8 þús. þorskígildistonn) og rétt tæplega helming í Síldarvinnslunni hf. (16 þús. þorskígildistonn). Síldarvinnslan á svo Berg-Huginn ehf. (5.500 þorskígildistonn). Í samantekt Fiskistofu er miðað við eigendur skipa þann 1. mars en um áramótin gekk í gildi samruni Síldarvinnslunnar og Gullbergs ehf. á Seyðisfirði sem hafði yfir að ráða 2.900 þorskígildistonnum. Gullberg hafði verið í fullri eigu Síldarvinnslunnar í rúm tvö ár.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Fjárfest fyrir hálfan milljarð

FleXicut vélin í vinnslusal Odda.

Líkt og greint var frá fyrr í vikunni hefur fiskvinnslan Oddi hf. á Patreksfirði tekið í notkun FleXicut skurðarvél frá Marel. FleXicut er háþróuð skurðarvél sem greinir og sker burt beingarð, þunnildi og sporð með mikilli nákvæmni og hlutar svo flökin niður í bita samkvæmt óskum viðskiptavinar.

Í frétt frá Odda hf. segir að árangur í rekstri fyrirtækisins hafi verið verið viðunandi á síðustu árum.  Árið 2016  fór afkoman þó  versnandi sem rekja má alfarið til styrkingar íslensku krónunnar og hækkunar á rekstrarkostnaði s.s. launa. Vegna síversnandi afkomu, aukinnar samkeppni á öllum sviðum sjávarútvegsrekstrar,  hafi verið ákveðið að grípa til aðgerða til að styrkja reksturinn með því að ráðast í nokkrar kostnaðarsamar framkvæmdir.

Patrekur BA 64  var keyptur til að bæta hráefnisöflun. Skipið var  síðan útbúið með nýjustu tækni á sviði veiða með línu og meðferð hráefnis. Meðal annars var sett í skipið Mustad línukerfi,  Rotex kerfi frá 3X á Ísafirði, andveltitankur til að bæta aðstöðu skipverja og annan tæknibúnað.

Á sama tíma var farið í endurnýjun fiskvinnslubúnaðar í fiskvinnslu félagsins með nýjum tæknibúnaði. Má þar nefna flatningsvél og roðdráttarvél frá Baader, hausara og flökunarvél frá Curio.  Með þessu móti reynir fyrirtækið að ná fram sem mestri hagræðingu með aukinni nýtingu, meiri vinnsluhraða og meiri gæðum.

Kostnaður við allan þennan nýja tæknibúnað upp kominn er áætlaður tæplega 500 milljónir króna, sem verður að teljast talsverð upphæð fyrir fyrirtæki af þessari stærð.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Bæjarins besta 11. tbl. 2017, 34. árgangur

Auglýsing
Auglýsing

Segir Vegagerðina sýna dónaskap

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax. Mynd: mbl.is / Helgi Bjarnason.

Ákvörðun Vegagerðarinnar að láta Breiðafjarðarferjuna Baldur leysa Herjólf af lýsir dónaskap í garð íbúa og fyrirtækja á sunnaverðum Vestfjörðum. Þetta segir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax. Herjólf­ur fer í reglu­bundna slipp­töku í maí og á meðan siglir Baldur milli lands og Eyja. Bald­ur mun sigla sam­kvæmt áætl­un á Breiðafirði 30. apríl og hefji sigl­ing­ar frá Vest­manna­eyj­um 2. maí og er stefnt að því að Bald­ur verði aft­ur kom­inn aft­ur í áætl­un á Breiðafirði sunnu­dag­inn 21. Maí.

„Meðan vegirnir eru eins og þeir eru, hálsarnir snarbrattir og oft eitt drullusvað, þá hefur þó verið pínutrygging í þessari leið. Við höfum þurft að senda okkar afurðir með Baldri þegar hálsarnir eru hvað verstir. Svo má heldur ekki gleym að það er fólk sem treystir sér ekki til að keyra þessa leið og hefur því nýtt sér Baldur,“ segir Víkingur.

Mikil reiði er á sunnanverðum Vestfjörðum með þá ákvörðun samgönguráðherra að skera niður framkvæmdafé til Vegagerðar í Gufudalssveit, vegagerð sem á að leysa af vegina yfir Ódrjúgsháls og Hjallaháls. „Ofan í þessa umræðu kemur svo þessi ákvörðun að kippa ferjunni í burtu á svæði sem býr við vegakerfi sem er löngu úrelt.“

Víkingur segir að Vegagerðin hafi ekki verið í sambandi við fólk á svæðinu varðandi þessa ákvörðun. „Við lesum þetta bara í blöðunum,“ segir Víkingur.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Kuldi í kortunum

Veðurstofa Íslands spáir norðaustan 8-15 m/s og éljum á Vestfjörðum í dag, en hægri austanátt og bjartviðri á morgun. Frost í dag verður að 5 stigum, en á morgun kólnar heldur og verður frost þá á bilinu 3 til 8 stig. Á laugardag er spáð austlægri átt á landinu, víða 8-15 m/s og snjókoma eða él, en suðvestan 5-10 syðst. Áfram verður kalt í veðri og frost á bilinu 1 til 6 stig, en frostlaust við suðurströndina.

Éljagangur er á Vestfjörðum og snjóþekja eða hálka á flestum vegum, sumstaðar er skafrenningur, einkum á fjallvegum.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Ernir heldur hangikjétsveislu

Björgunarsveitin Ernir í Bolungarvík í Bolungarvík heldur á laugardagskvöld svokallaða hangikjétsveislu í félagsheimili Bolungarvíkur, þar verða veitingar með þjóðlegra móti er björgunarsveitarfélagar bjóða upp á úrvals hangikjöt í aðalrétt og ís með ávöxtum og rjóma í eftirrétt. Viðburðurinn er fjáröflun fyrir félagið og verður einnig happdrætti þar sem fjölda glæsilegra vinninga úr heimabyggð er að finna – og segja menn vinningslíkur góðar. Um veislustjórn sér bæjarstjóri þeirra Bolvíkinga, Jón Páll Hreinsson og verða þar skemmtiatriði að hætti Ernismanna.

Miðaverð er 4000 krónur. Húsið opnar klukkan 19 og hefst borðhald klukkan 20. Panta má miða á viðburðinn í síma 776-7798.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir