Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2324

Loðnuveiðar hífa upp heildarveiðina

Góðri og snarpri loðnuvertíð er að ljúka þessa dagana.

Fiskafli íslenskra skipa í febrúar var 85.678 tonn sem er 4% minna en heildaraflinn í febrúar 2016, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar. Botnfiskafli var 58 prósent minni en í febrúar 2016 eða 14,5 þúsund tonn og gætir þar enn áhrifa af sjómannaverkfallinu. Uppsjávarafli jókst um 65%, var 65 þúsund tonn, samanborið við 40 þúsund tonn í febrúarmánuði 2016 og samanstóð aflinn eingöngu af loðnu.

Á 12 mánaða tímabili frá mars 2016 til febrúar 2017 hefur heildarafli dregist saman um 165 þúsund tonn eða 14% samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr.

Sjómannaverkfall stóð nær allan mánuðinn, en það leystist 19. febrúar.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Steinunn sýnir Gleðina sem gjöf í Gerðubergi

Steinunn við tvær myndanna

Steinunn Matthíasdóttir opnar á laugardag ljósmyndasýninguna Gleðin sem gjöf í menningarhúsinu Gerðubergi, þar sem sýnd verða glaðleg portrett af eldri borgurum. Sýningunni er ætlað að draga athygli að virðingu fyrir þeim sem eldri eru og lífsgæðum þeirra, mikilvægi þess að finna gleðina sama hvernig lífið leikur okkur og vekja fólk til umhugsunar um hvernig við getum öll átt þátt í að veita gleði. Gleðin sem gjöf er hluti af Inside Out Project, sem gert er út frá New York af franska listamanninum JR í samvinnu við Ted Prize verðlaunin. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á völdum málstað með hjálp portrettljósmynda hvaðanæva að úr heiminum. Inside Out project Steinunnar var framkvæmt í Búðardal sumarið 2016 þar sem risamyndir af 64 eldri borgurum voru límdar á húsveggi við þjóðveginn. Einnig var 14 mynda úrtak sett upp við kirkjutröppur Akureyrarkirkju sem hluti af Listasumri og í nóvember síðastliðnum voru myndirnar til sýnis í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri.

Steinunn er fædd á Ísafirði 1976 og alir þar upp, móðir hennar er Björk Gunnarsdóttir frá Bolungavík og faðir hennar Ísfirðingurinn Matthías Zóphanías Kristinn Kristinsson. Hún er kennari að mennt en er sjálflærð í ljósmyndun. Steinunn býr ásamt eiginmanni og börnum í Búðardal þar sem hún starfar í fjölskyldufyrirtæki þeirra hjóna auk þess að stunda ljósmyndun og taka að sér verkefni sem fréttaritari fyrir Skessuhorn. Í heimi ljósmyndunar heillar fjölbreytileikinn Steinunni en hún hefur þó aðallega einbeitt sér að því að mynda fólk ásamt því að vinna með landslag. Sýningin stendur til 14.maí.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Gísli á Uppsölum ferðast um landið

Gísli á Uppsölum er nú orðin ein vinsælasta sýning Kómedíuleikhússins frá upphafi. Þegar hefur sýningin verið sýnd 36 sinnum þar af 14 sýningar í Þjóðleikhúsinu, oftast fyrir fullu húsi. Það er sveitungi Gísla, Elfar Logi Hannesson, sem túlkar einbúann víðfræga í leikstjórn annars sveitunga hans, Þrastar Leós Gunnarssonar. Sýningin hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda og áhorfenda, þar sem Halla Þórlaug Óskarsdóttir gagnrýnandi Víðsjár sagði meðal annars: „Elfar Logi er einstaklega sannfærandi í hlutverki Gísla og málar upp mynd af manninum af virðingu. Einleikurinn um Gísla á Uppsölum er næmt og fallegt verk sem snertir við áhorfendum. Viðfangsefninu er sýnd virðing og verður til þess að Gísli fær að ferðast um landið einsog hann hafði sjálfur viljað.“

Gísli Oktavíus fær sannarlega að ferðast áfram um landið. Á þriðjudag verður einleikurinn sýndur í Fella- og Hólakirkju og er uppselt á þá sýningu. Strax á eftir bregður hann sér á Hvammstanga þar sem verða sýndar tvær sýningar í Selasetrinu á miðvikudag og á fimmtudag verður sýning á Akranesi. Þá geta Vestfirðingar fengið að bera hann aftur augum í Dymbilviku er sýnt verður bæði á Þingeyri, sem og í Birkimel á Barðaströnd. Þá heldur hann austur á land og svo í leikferð um Suðurland. Í maímánuði verður hann aftur í Þjóðleikhúsinu og fleiri sýningar eru í kortunum í sumar, sem lesa má um á heimsíðu Kómedíuleikhússins.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Bolvíkingar sigruðu Vestfjarðariðilinn í Skólahreysti

Skólahreystilið Grunnskóla Bolungarvíkur sem sigraði Vestfjarðariðil keppninnar. Mynd:

Fyrsti keppnisdagur Skólahreysti 2017 fór fram í íþróttahúsinu Mýrinni í Garðabæ fyrir fullu húsi í gær. Í Vestfjarðariðli keppninnar tókust á fjórir skólar, Grunnskóli Bolungarvíkur, Grunnskólinn á Ísafirði, Grunnskólinn á Hólmavík og Grunnskólinn á Suðureyri. Það var Grunnskóli Bolungarvíkur fór með sigur af hólmi í riðlinum og tryggði sér þar með þátttökurétt í úrslitakeppninni. Liðið sigraði allar einstaklingsgreinarnar og varð í öðru sæti í hraðakeppninni. Vala Karítas Guðbjartsdóttir sigraði í armbeygjum og hreystigripi, Flóki Hrafn Markan sigraði í upphífingum og dýfum og Kristján Logi Guðbjarnason og Jónína Arndís Guðjónsdóttir urðu í öðru sæti í hraðakeppninni

Eftir fyrsta keppnisdag í Skólahreysti eru fjórir skólar komnir með þátttökurétt í úrslitakeppni Skólahreysti sem fram fer í beinni útsendingu í Laugardalshöll 26.apríl, áðurnefndir Bolvíkingar, Grunnskóli Stykkishólms, Lindaskóli og Laugalækjarskóli.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

41 milljón til ferðamannastaða á Vestfjörðum – Dynjandi með hæsta styrkinn

Dynjandi er eðlilega einn af vinsælustu áfangastöðum Vestfjarða.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála hefur staðfest tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um úthlutun úr sjóðnum. Alls eru veittir styrkir til 58 verkefna hringinn í kringum landið og nemur heildarfjárhæð styrkja 610 milljónum króna og 41 milljón kemur í hlut ferðamannastaða á Vestfjörðum. Hæsta styrkinn á Vestfjörðum fær Umhverfisstofnun til að gera útsýnispall á Dynjanda á stað þar sem ,,náttúrulegur“ pallur er fyrir nálægt fossinum, en styrkurinn hljóðar upp á 20 milljónir króna. Hæsti styrkurinn á landvísu er að upphæð 60 milljón kr. til verkefna í Landmannalaugum.

Þetta er sjötta árið sem Framkvæmdasjóður ferðamannastaða úthlutar styrkjum. Hlutverk sjóðsins samkvæmt lögum er í fyrsta lagi að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt. Í annan staða að leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins og í þriðja lagi fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði.

Með úthlutuninni í ár nemur heildarupphæð styrkveitinga úr sjóðnum 3,56 milljörðum króna.

Styrkir til ferðamannastaða á Vestfjörðum

  • Umhverfisstofnun – útsýnispallar við Dynjanda. Kr. 20.000.000,- styrkur til gera útsýnispall á stað þar sem ,,náttúrulegur“ pallur er fyrir nálægt fossinum. Innviðaverkefni á vinsælum ferðamannastað á Vestfjörðum. Verkefnið verndar náttúru og eflir öryggi.
  • Bolungarvíkurkaupstaður – öryggi og verndaraðgerðir á Bolafjalli. Kr. 2.800.000,- styrkur til að gera leiðbeinandi stíga á fjallinu, uppsetningu kaðalhandriðs og hönnun og uppsetningu viðvörunarskilta. Mikilvægt öryggisverkefni á frábærum útsýnisstað og vaxandi ferðamannastað á Bolafjalli.
  • Ísafjarðarbær – göngustígur við Buná í Tungudal. 858.000,- styrkur til að laga stíginn, stöðva gróðurskemmdir, framlengja stíginn, klippa kjarr, koma fyrir haldreipum og smíða tröppur upp að hinum sögufræga Siggakofa, kofa Sigurðar Sigurðssonar, sem fyrr á tímum var geitahirðir Ísfirðinga. Um tíu þúsund manns leggja land undir fót á þessu fallega svæði í Tungudal. Stígurinn er hinsvegar varasamur og gróður er farinn að troðast niður. Verkefnið er gott náttúruverndar- og öryggisverkefni.
  • Ísafjarðarbær – Naustahvilft, göngustígur og upplýsingaskilti. Kr. 4.344.000,- styrkur til að skipuleggja, hanna og útbúa göngustíg upp í Naustahvilft í Skutulsfirði. Vinsæl gönguleið er upp í Naustahvilft, en þar hefur náttúra látið á sjá vegna átroðnings. Verkefnið er sérstaklega mikilvægt vegna náttúrverndar en hefur einnig gildi fyrir öryggismál ferðamanna.
  • Reykhólahreppur – Reykhólar – Lagning stíga, merkingar og frekari hönnun Kúalaugar. Kr. 6.700.000,- styrkur til stíga- og áningarstaðagerðar, öryggismerkinga auk lítilsháttar hönnunar neðan við þorpið á Reykhólum. Umhverfi Reykhóla er áhugavert og varasamt í senn vegna hvera og votlendis. Verkefnið er til þess fallið að efla öryggi ferðamanna, auka aðdráttarafl og vernda náttúru.
  • Súðavíkurhreppur – áningarstaður við Hvítanes. Kr. 13.000.000,- styrkur til jarðvinnu, fyllinga og grjótvarnar, sem þarf til að gera áningarstað; bílastæði, útsýnispall og göngustíga. Selalátrið við Hvítanes í Skötufirði er nú þegar orðið að vinsælum skoðunarstað sela, en bæta þarf öryggi ferðamanna og tryggja þarf náttúrulega sjálfbærni staðarins. Verkefnið er því mikilvægt öryggis- og náttúruverndarverkefni.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Aldrei fór ég Suðurgata

Gísli Halldór svipti hulunni af skiltinu.

Í dag var hulunni svipt af nýju nafni á Suðurgötu á Ísafirði. Gatan hefur hlotið nafnið Aldrei fór ég Suðurgata og á nafnið vel við, þar sem tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður fer fram í húsnæði rækjuverksmiðjunnar Kampa sem stendur á horni Suðurgötu og Ásgeirsgötu. Það var Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, sem afhjúpaði götuskiltið sem er á frystigeymslu Kampa. Fjöldi blaðamanna var á svæðinu, enda var árlegur blaðamannafundur Aldrei fór ég suður haldinn í dag. Gísli Halldór sagði frá að forsvarsfólk rokkhátíðarinnar hafi komið að máli við bæjaryfirvöld með ósk um nýtt nafn á götuna, og það hafi verið bænum ljúft og skylt að verða við bóninni.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Mýrarboltinn verður í Bolungarvík

Evrópumeistaramótið í Mýrarbolta fer fram í Bolungarvík um verslunarmannahelgina. Mótið var fyrst haldið árið 2004 á Ísafirði, langoftast í Tungudal. Vísir greinir frá að mótið í sumar verði haldið á þremur völlum sem verða settir upp nærri tjaldsvæðinu í Bolungarvík, sem er við íþróttahúsið og sundlaugina. Búið er að staðfesta að hljómsveitin SSSól og rapparinn Emmsjé Gauti muni koma fram á hátíðinni en lokahófið verður í Félagsheimilinu í Bolungarvík ásamt dansleikjum hátíðarinnar.

Þá er búið að ganga frá ráðningu drullusokks, en það heiti ber mótsstjóri Mýrarboltans, sem verður enginn annar en altmúlígmaður Bolungarvíkur, sjálfur Benni Sig.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Kæra frávísun Lögreglunnar á Vestfjörðum

Regnbogasilungur

Landssamband veiðifélaga (LV) hefur kært frávísun Lögreglunnar á Vestfjörðum á kæru LV vegna slysasleppingar regnbogasilungs á Vestfjörðum til Ríkissaksóknara. Kæran laut að því hvort að lög um fiskeldi hafi verið brotin í ljósi fjölda regnbogasilungs sem veiddust í ám á Vestfjörðum síðla síðasta sumar. Lögreglan á Vestfjörðum vísaði kærunni frá meðal annars vegna þess að eftirlitsaðilar, þ.e. Matvælastofnun og Fiskistofa, hafi slysasleppingarnar til rannsóknar. Í fréttatilkynningu kemur fram að LV telur að Matvælastofnun hafi ekki sérstakar valdheimildir til að rannsaka málið sem opinbert mál. Þá teljist það ekki skilyrði fyrir opinberri rannsókn að kæra hafi komið frá Matvælastofnun.

Í kærunni vekur LV athygli Ríkissaksóknara á því að starfsemi Matvælastofnunar sætir nú úttekt í kjölfar gagnrýni á stofnunina um að sinna ekki ábyrgðarhlutverki sínu. Telur Landssambandið að mál þetta til marks um að stofnunin hafi ekki uppfyllt lögbundið eftirlitshlutverk sitt og því nauðsynlegt að opinber rannsókn fari fram á á öllum þáttum þess.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Óbreyttir stýrivextir

Óbreytt vaxtastig hjá Seðlabankanum.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5 prósentum. Segir í rökstuðningi nefndarinnar að of snemmt sé að segja til um efnahagsleg áhrif síðustu skrefa við losun fjármagnshafta og að hugsanlegt sé að betra jafnvægi skapist á milli inn- og útstreymis á gjaldeyrismarkaði. Skammtímahreyfingar kunni hins vegar að aukast eins og gerst hefur undanfarna daga.

Þetta er fyrsta stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans frá því tilkynnt var um losun fjármagnshafta.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að vísbendingar séu um að vöxtur muni halda áfram að aukast á árinu en hagvöxtur mældist 7,2% á síðasta ári. Störfum fjölgi hratt, atvinnuleysi sé lítið og atvinnuþátttaka meiri en þegar hún var sem mest fyrir hrun. Spenna í þjóðarbúinu fari því vaxandi.

1,9% verðbólga mældist í febrúar sem er svipað og verið hefur undanfarna sex mánuði. Varðandi horfur segir peningastefnunefnd að tveir kraftar togist á, meiri hagvöxtur en spáð var og hærra gengi krónunnar. Gengishækkunin sem og lág verðbólga í heiminum vegi á móti verðbólguþrýstingi af innlendum rótum. Þá hafi aðhaldssöm peningastefna skapað verðbólguvæntingum kjölfestu og haldið aftur af vexti útlána og eftirspurnar.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Byggðastofnun styrkir meistaranema

Byggðastofnun auglýsir styrki til meistaranema sem vinna að lokaverkefnum á sviði byggðaþróunar. Til úthlutunar er allt að 1.000.000 kr. og stefnt að því að veita fjóra styrki. Umsækjendur þurfa að stunda meistaranám við viðurkenndan háskóla. Í umsókn skal meðal annars koma fram greinargóð lýsing á verkefninu, markmiðum þess og hvernig það styður við byggðaþróun. Við mat á umsóknum verður fyrst og fremst litið til tengsla við byggðaþróun, nýnæmi verkefnis og hvort til staðar séu möguleikar á hagnýtingu þess. Kostur er ef verkefnin hafa skírskotun til byggðaáætlunar.

Þetta er í þriðja skipti sem Byggðastofnun veitir styrkir til meistaranema. Áður hafa allavega tvö verkefni sem tengjast byggðaþróun á Vestfjörðum hlotið styrki; Hagkvæmni nýtingar sjávarhita á norðurslóðum: raundæmi Önundarfjörður. Styrkþegi Majid Eskafi, Háskólasetur Vestfjarða og Eldri íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum: Athafnir, þátttaka og viðhorf til þjónustu. Styrkþegi Margrét Brynjólfsdóttir, Háskólinn á Akureyri.

Nánari upplýsingar og rafrænt umsóknarform er að finna á vef Byggðastofnunar. Umsóknafrestur er til miðnættis 9. apríl 2017.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir