Miðvikudagur 7. maí 2025
Heim Blogg Síða 2323

Leita að 6.107 leikföngum

Á Stóra sviði Þjóðleikhússins, í álfahöllinni miðri, sviðsetur Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri og samverkafólk hans þætti úr sögu íslenskrar leiklistar í leikritinu Álfahöllin sem frumsýnt verður þann 8.apríl. Nú er unnið að því hörðum höndum að fullkomna verkið áður en gestir setjast á bekki hins virðulega húss og bera leiksýninguna augum. Aðstandendur leita nú logandi ljósi að hinum ýmsu leikfangafígúrum til að nota sem hluta af heimi Álfahallarinnar og skal tala þeirra vera 6.107 sem er táknrænt fyrir þau börn sem líða skort á Íslandi um þessar mundir, samkvæmt rannsóknarskýrslu Unicef.

6.107 bangsar, brúður, playmokallar og þess háttar fígúrur óskast og eru án vafa margar slíkar að finna geymslum landsins, þar sem margt dótið endar dagana. Nú getur dótið gengið í gegnum endurnýjun lífdaga, fyrst með frægð á Stóra sviði Þjóðleikhússins, en það sem meira er, er sýningum Álfahallarinnar lýkur verður séð til þess að dótið fái heimili þar sem þess er þörf.

Rauði krossinn á Vestfjörðum býður þeim sem vilja ánafna dóti í þetta verkefni að koma með það á svæðisskrifstofuna sem er í Vestrahúsinu við Suðurgötu 12 á Ísafirði og verður þá séð til þess að það rati í Þjóðleikhúsið og í framhaldi af því aftur í dótakassa barna. Koma má með dótið í dag og á morgun á skrifstofutíma. Fyrir þá sem eru staddir sunnan heiða má koma með leikföngin í miðasölu Þjóðleikhússins á milli kl. 10 og 18 virka daga fram til mánudagsins 3. apríl.

annska@bb.is

Auglýsing

Hagnýt þekking í sögulegu samhengi

Simon Brown

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á morgun verður umræðuefnið hagnýt þekking og gagnsemi hennar í sögulegu samhengi. Simon Brown, bandarískur doktorsnemi í sagnfræði við Kaliforníuháskólann í Berkeley, mun flytja erindi og flétta saman sagnfræði, guðfræði og heimspeki. Simon er gestkomandi á Ísafirði um þessar mundir en unnusta hans stundar meistaranám við haf- og strandsvæðastjórnun Háskólasetursins.

Í erindi sínu mun Simon fjalla um sögu hugtaksins „hagnýt þekking“ á nýöld á Englandi. Sagnfræðingar hafa talið hugtakið tilheyra vísindabyltingu 16. og 17. aldar þegar heimspekingar tóku að skrifa um og halda á lofti hugtakinu „hagnýt þekking“  sem væri sú þekking á náttúrunni sem sérfræðingar gætu nýtt sér til efnahagslegs ávinnings. Þessi skrif hafa orðið til þess að hugtakið hefur helst verið tengt læknavísindum, málmiðnaði, landbúnaðarvísindum og öðrum þeim sviðum sem í dag teljast til nátttúruvísinda.

Simon er á annarri skoðun og telur að hugtakið „hagnýt þekking“ sé eldra og megi frekar rekja til siðaskiptanna á Englandi. Í því samhengi merki hugtakið þekking einstaklingsins á kenningum Biblíunnar og hvernig sú þekking þvingar einstaklinginn til að haga sér í samræmi við kristileg siðalögmál. Ávinningurinn af slíkri þekkingu er ekki efnislegur, heldur frekar siðferðilegur og andlegur.

Simon Brown ólst upp í Pittsburgh í Pennsylvania fylki í Bandaríkjum og lauk BA gráðum í sagnfræði og heimspeki frá Háskólanum í Pittsburgh. Hann hóf doktorsnám í sagnfræði við Kaliforníuháskólann í Berkeley árið 2015 þar sem hann rannsakar sögu nýaldar á Englandi með sérstaka áherslu á trúarbrögð og guðfræði í Bretlandi á 17. og 18. öld.

Vísindaportið fer að vanda fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða frá 12.10-13.00 á föstudag. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Fyrirlesturinn að þessu sinni fer fram á ensku.

Smári

Auglýsing

Hætta að reykja á Hornbjargsvita

Hornbjargsviti.

Valgeir Skagfjörð, leikar og markþjálfi, stendur fyrir námskeiði námskeiði í samvinnu við Ferðafélag Íslands, um það hvernig losna má frá nikótínfíkninni, á Hornbjargsvita í byrjun júlí. „Þarna verðum við að þrauka þessa daga og það þarf ansi mikla skuldbindingu að ákveða að fara á hjara veraldar til að takast á við verkefnið að hætta að reykja,“ segir Valgeir í Morgunblaðinu í dag. Námskeiðið byggir á því að reykingamaðurinn fari í burtu úr sínu venjulega umhverfi – út fyrir þægindarammann og takist á við verkefnið ótruflaður. „Þarna getur fólk ekki nálgast neinn varning og það fer enginn út í sjoppu.“ Hugmyndina sækir Valgeir til Halldórs vitavarðar Halldórssonar, sem er skálavörður Ferðafélagsins á Hornbjargsvita.

Smári

Auglýsing

Bæjarins besta 13. tbl. 34. árgangur

13. tbl 2017
13. tbl 2017
Auglýsing

Áhyggjur af stöðu útflutningsgreina

Staða útflutningsgreina hefur verið í kastljósi fjölmiðla þessa viku, ekki síst í ljósi áforma HB Granda að hætta bolfiskvinnslu á Akranesi og færa starfsemina til Reykjavíkur. Fyrirtæki í sjávarútvegi sjá fram á erfiða tíma vegna styrkingar krónunnar. Ekkert lát er á hækkun krónunnar og nú fer í hönd aðal ferðamannatíminn og búist við metfjölda ferðamanna með tilheyrandi innstreymi gjaldeyris. Atvinnuráð Vesturbyggðar lýsir í ályktun verulegum áhyggjum af stöðu útflutningsgreina í sveitarfélaginu vegna styrkingar krónunnar og óhagstæðum skilyrðum sem af henni leiða.

Smári

Auglýsing

Vertíðin fer rólega af stað

Drangsnes á Ströndum er einn af öflugustu útgerðarstöðum landsins á grásleppuvertíðinni. Vertíðin sem hófst á Ströndum í síðustu viku hefur farið rólega af stað. „Það byrjaði nú með leiðindaveðri eftir að menn lögðu fyrst og veiðin virðist vera minni og meðafli eitthvað sem er að angra menn líka. En þetta er samt allt í rétta átt og við vonumst til að þetta hressist núna þegar veðrið lagast og líður aðeins á tímann,“ segir Óskar Torfason, framkvæmdastjóri Fiskvinnslunnar Drangs í samtali við fréttamann RÚV.

Margir aðkomubátar gera út frá Drangsnesi á grásleppuvertíðinni og Óskar segir þetta halda samfélaginu gangandi á þessum árstíma. „Á þessum tíma fjölgar um helming hérna í frystihúsinu og bátunum sem eru að róa náttúrulega líka. Yfir veturinn eru kannski bara fjórir bátar, svo þrefaldast það eða meira.“

Smári

Auglýsing

Sveitarfélög verði studd betur til sameininga

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra vill efla sveitarstjórnarstigið og sagði á landsþingi Sambandi íslenskra sveitarfélaga á dögunum að hann vilji sjá ákveðna hvata innbyggða í tekjustofnakerfi sveitarfélaga sem styddi betur við sameiningu þeirra. Tryggja þurfi að reglur Jöfnunarsjóðs sveitafélaga hjálpi vel þeim sveitarfélögum sem vilja sameinast og leitað verði leiða til að tryggja að slíkar sameiningar styrki stöðu sveitarfélaga sem ein meginstoð velferðar íbúanna.

„Hér sé ég fyrir mér að setja megi frekari hvata í kerfið þannig að sveitarfélög sjái ávinning og hagræði af því að sameinast. Mín hugsun er sú að verulegir fjármunir gætu orðið til ráðstöfunar úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á næstu árum til að styrkja sveitarfélög við undirbúning sameiningar, endurskipulagningar og uppbyggingar í sameinuðu sveitarfélagi. Frumkvæði um þetta verður þó að koma frá sveitarfélögunum sjálfum,“ sagði samgönguráðherra en undir hann heyra málefni sveitarstjórnarstigsins.

Samgönguráðherra hefur ákveðið að setja á fót verkefnahóp sem ætlað er að vinna að stefnumörkun stjórnvalda á þessu sviði en sú vinna yrði unnin í beinu framhaldi af því að nefnd um stöðu og framtíð sveitarstjórnarstigsins skili sinni niðurstöðu. Verkefnahópnum yrði ætlað að skoða frekari leiðir til að stuðla að sameiningu sveitarfélaga, meðal annars  með hliðsjón af reynslu liðinna ára.

Smári

Auglýsing

Þaulreyndur eldisstjóri til Arctic

Jóhan Hansen.

Arctic Fish hefur fengið til liðs við sig þaulreyndan stjórnanda í seiðaeldi. Johan Hansen, er 62 ára Færeyingur sem hefur reynslu af seiðaeldi sem spannar um 35 ár. Johan verður seiðaeldisstjóri í fyrirtækinu Arctic Smolt sem er í eigu Arctic Fish. Hann verður búsettur á Tálknafirði og hefur nú þegar flutt á Tálknafjörð og hóf í gær formlega störf hjá félaginu.

Á starfsferli sínum þá hefur Johan verið í eigin seiðaeldisrekstri í Fjardara/Nordsmolt í Færeyjum , síðar vann  hann hjá Bakkafrost í Færeyjum við uppbyggingu á nýrri seiðaeldisstöð. Frá Færeyjum fluttist Johan til Noregs þar sem hann byggði upp seiðaeldisstöð fyrir Sundsfjord Smolt og nú síðast vann hann við uppbyggingu á seiðaeldisstöð fyrir Helgeland Smolt. Hann hefur borið ábyrgð á hönnun, byggingarframkvæmdum og stjórnun stöðvanna sem hann hefur starfað í .

Arctic Smolt er nú að byggja eina stærstu seiðaeldisstöð landsins sem verður með endurnýtingarkerfi á vatni. Stöðin verður líklega stærsta mannvirkið á Vestfjörðum og er áætlað að afkastagetan stöðvarinnar sem er í þremur einingum verði um 6 milljónir seiða.  Afkastagetan í fjölda seiða er þó tengd hversu stór seiði eru framleidd og það er verið að meta möguleika þess að framleiða stór sjógönguseiði til þess að stytta framleiðslutímann í sjó.

Arctic Smolt er hjartað í starfsemi Arctic Fish fyrirtækjanna og á grunni stöðvarinnar byggjast framleiðsluáætlanir fyrirtækisins. Árið 2018 er áætlað að framleiða rúmlega 2 milljónir seiða og 2019 rúmlega 3 milljónir seiða. Nú þegar er ein framleiðslueining að hluta virk og eftir þvi hvernig gengur að byggja upp framleiðsluna er stefnt er á að setja hálfa til eina milljón seiða út í sumar. Hjá Arctic Smolt starfa í dag 8 starfsmenn í seiðaeldi og um 25 starfsmenn starfa við byggingu stöðvarinnar.

Smári

Auglýsing

Skemmtiferðaskip á réttri leið?

Á mánudag og þriðjudag verður haldin á Ísafirði ráðstefna undir yfirskriftinni „Skemmtiferðaskip á réttri leið?“ Það er Háskólasetur Vestfjarða sem stendur fyrir ráðstefnunni í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ferðamálasamtök Vestfjarða, Markaðsstofu Vestfjarða, Ísafjarðarbæ, og Vesturferðir og er henni ætlað að varpa ljósi á þessa ört vaxandi ferðaþjónustugrein á Íslandi og fjalla um hana frá ýmsum hliðum. Lögð er áhersla á hvernig byggja megi greinina upp til framtíðar með sjálfbærni að leiðarljósi. Fjölmargir koma að borðinu og erindi flytja fyrirlesarar úr röðum fræðimanna og sérfræðinga sem og hagsmunaaðila, sveitarstjórna og íbúa. Aðalfyrirlesari er Frigg Jörgensen sem er framkvæmdastjóri AECO sem eru hagsmunasamtök útgerða könnunar- og skemmtiferðaskipa á Norðurslóðum. Frigg hefur einnig víðtæka reynslu af ferðaþjónustu á Svalbarða. Hún flytur fyrirlestur sinn á ensku en aðrir liðið ráðstefnunnar fara fram á íslensku. Á eftir hverri fyrirlestralotu er síðan tími til umræðna.

Talsverð umræða hefur verið um komur skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar, en skipakomum hefur fjölgað gífurlega undanfarin ár og eru þær skráðar 100 í sumar. Birna Lárusdóttir, verkefnastjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða sem vinnur að skipulagningu ráðstefnunnar segir hana hugsaða sem samráðsvettvang fyrir alla þá sem hafa hagsmuna að gæta og þá gildir einu hvort það séu íbúar á stöðum sem skemmtiferðaskip sækja eða aðilar úr ferðaþjónustunni og hvetur hún íbúa á svæðinu eindregið til að mæta.

Eftir hádegi á þriðjudag verður verður Ísafjörður í brennidepli og taka þá til máls Guðmundur M. Kristjánsson hafnastjóri sem fjallar um stefnumótun Ísafjarðarbæjar í ferðaþjónustu, Kolbrún Sverrisdóttir ræðir sjónarmið íbúans og Halldóra Björk Norðdahl sjónarmið verslunareigandans, þá mun Daníel Jakobsson tala fyrir hönd Ferðamálasamtaka Vestfjarða og framkvæmdastjóri Vesturferða Ásgeir Höskuldsson sem þjónustar flest þau skip sem til Ísafjarðar koma um ferðir. Þá verður gefinn rúmur tími til umræðna þar sem allir geta lagt til málanna og komið með spurningar. Verið er að vinna að stefnumótun í ferðamálum á Vestfjörðum og verða þeir sem að þeirri vinnu koma á ráðstefnunni til að sjá og heyra mismunandi sjónarmið sem veganesti inn í stefnumótunina.

Sigríður Kristjánsdóttir og Jón Páll Hreinsson stýra ráðstefnunni sem verður sett á mánudagsmorgun klukkan 09:30 af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra ferðamála. Ráðstefnan stendur sem áður segir í tvo daga og segir Birna að ráðstefnugjaldi hafi verið haldið í lágmarki svo að sem flestir ættu kost á þátttöku, en gjaldið er 5000 krónur og má skrá þátttöku á heimasíðu Háskólaseturs Vestfjarða, þar sem einnig má skoða dagskrána. Sækja má hluta ráðstefnunnar eigi gestir ekki kost á því að sitja hana í heild sinni.

annska@bb.is

Auglýsing

Bærinn skaffi húsnæði fyrir landamærastöð

Landamærastöð Matvælastofnunar er í Vestrahúsinu á Ísafiðri.

Matvælastofnun vill að Ísafjarðarbær greiði húsaleigu eða útvegi húsnæði undir landamærastöð stofnunarinnar á Ísafirði. Að öðrum kosti verður landamærastöðin líklega lögð niður. Stöðin er til húsa í Vestrahúsinu á Ísafirði. Landamærastöðin er rekin í samræmi við reglur EES sem kveða á um að slík stöð skuli vera til staðar þar sem innflutningur á dýraafurðum frá ríkjum utan EES fer fram. Stöðin á Ísafirði hefur verið rekin síðan 1999, fyrst af Fiskistofu og síðustu 10 árin af Matvælastofnun. Í bréfi Matvælastofnunar til Ísafjarðarbæjar kemur fram að leigusamningur við Vestra renni út í lok apríl og leigusali hafi boðið stofnuninni nýjan samning með talsverðri hækkun á leigu. Með hliðsjón af þeim fáu sendingum sem hafa borist á stöðina, en sum ár hafa engar sendingar borist, telur Matvælastofnun ekki grundvöll til að reka landamærastöð á Ísafirði. Á það er bent að hafnaryfirvöld á Akureyri og í Þorlákshöfn skaffa húsnæði undir sínar stöðvar án endurgjalds. Í bréfinu er tekið fram að ef landamærastöðinni verður lokað geti tekið u.þ.b. 2-3 ár að opna stöðina aftur.

Bæjarstjóra hefur verið falið afla upplýsinga um hvernig húsnæði Matvælastofnun er að leita eftir og hvers vegna sveitarfélög en ekki ríki eigi að standa undir kostnaðinum við rekstur landamærastöðvar.

Smári

Auglýsing

Nýjustu fréttir