Mánudagur 21. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2321

Vestfirðingar sigursælir í svæðiskeppni Nótunnar

Mariann Rähni ásamt kennara sínum Tuuli Rähni

Svæðistónleikar Nótunnar uppskeruhátíð tónlistarskólanna í landinu fór fram á Akranesi á laugardag og kepptu þar nemendur í tónlistarskólum á Vestfjörðum og Vesturlandi um sæti á lokahátíð keppninnar sem fram fer í Hörpu í byrjun næsta mánaðar. Vestfirskir tónlistarnemar voru sigursælir á hátíðinni þar sem tvö af þeim þremur atriðum sem áfram komust voru Vestfirsk. Það var 11 ára gamall píanónemandi Tuuli Rähni frá Tónlistarskóla Bolungarvíkur, Mariann Rähni sem fór með sigur af hólmi, en hún lék Vals í e-moll eftir Frederic Chopin. Í öðru sæti var Aron Ottó Jóhannsson söngnemandi Ingunnar Óskar Sturludóttur frá Tónlistarskóla Ísafjaðrar sem söng við undirleik annars nemanda skólans Péturs Ernis Svavarssonar. Í þriðja sæti voru nemendur frá Tónlistarskóla Akraness.

Aron Ottó ásamt Pétri Erni sem sá um undirleik. Mynd af Fésbókarsíðu TÍ.

Þetta er í áttunda sinn sem Nótan er haldin og hafa vestfirskir tónlistarnemar oftar en ekki gert þar góða keppni. Í þetta sinn voru send í svæðiskeppnina 24 atriði frá 8 tónlistarskólum. Mariann var eini keppandinn frá TB, en fyrir hönd TÍ kepptu 6 nemendur sem voru með fjögur atriði, auk þeirra Arons Ottós voru það Heiður Hallgrímsdóttir og Matilda Mäekalle sem spiluðu fjórhent á píanó, Rebekka Skarphéðinsdóttir og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir spiluðu einnig fjórhent á píanó og Nikodem Júlíus Frach sem lék á fiðlu.

Nótan er samstarfsverkefni Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) og Samtaka tónlistarskólastjóra (STS). Uppskeruhátíðin er opin öllum tónlistarnemendum og hefur engin aldursmörk. Þátttakendum er skipað í flokka eftir áfangaskiptingu aðalnámskrár tónlistarskóla, þ.e. í grunnnám, miðnám og framhaldsnám, einnig er keppt í opnum flokki. Þrjú atriði sem þykja skara fram úr í svæðiskeppni Vestfjarða og Vesturlands fara í lokakeppnina, en úr öðrum svæðiskeppnum eru sjö atriði valin.

Lokahátíð Nótunnar felur í sér tvenna tónleika og viðurkenningaathöfn og fer hún fram í Eldborgarsal Hörpu, sunnudaginn 2. apríl.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Pálmar hlaut menningarverðlaun DV

Þingeyringurinn Pálmar Kristmundsson og samstarfsfólk hans hjá PKdM arkitektum hlutu á dögunum menningarverðlaun DV í byggingarlist fyrir hátækniverksmiðju Alvogen í Vatnsmýrinni. Er þetta annað árið í röð sem stofan hlýtur verðlaunin, en Pálmar er margverðlaunaður fyrir verk sín. Pálmar ólst upp á Þingeyri og flutti hann nýverið aftur í fjörðinn fagra þar sem hann hefur útbúið sér heimili í gömlu steypustöðinni að Söndum, en hann á og rekur PKdM arkitekta í Reykjavík.

Að mati dómnefndar menningarverðlauna DV er nýbygging Alvotech, sem er hluti af skipulagi Vísindagarða í Vatnsmýrinni, einstaklega fallegt dæmi um velheppnaða samvinnu og metnað allra þeirra aðila sem komu að verkinu, bæði á hönnunar- og framkvæmdatíma, sem skilaði af sér vönduðu og fagmannlegu handverki.

Hér má lesa umfjöllun dómnefndar í heild sinni.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Umhleypingasamt þegar líður á vikuna

Í dag verður norðaustan 8-13 m/s á Vestfjörðum, skýjað með köflum og stöku él, einkum á svæðinu norðanverðu. Á morgun má búast við hægari austanátt og björtu að mestu, en dálítil él verða annað kvöld er fram kemur í veðurspá Veðurstofu Íslands. Hiti verður um og undir frostmarki í dag, en kólnar til morguns er frost verður að 5 stigum. Hiti verður undir frostmarki fram á fimmtudag er hlýna tekur í veðri og má búast við umhleypingasöm veðri undi vikulokin.

Hálka eða snjóþekja er á flestum leiðum á Vestfjörðum.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Auka öryggi raforkuflutningskefisins

Gangamunni Dýrafjarðarganga við Rauðsstaði í Arnarfirði.

Til að auka öryggi flutningskerfisins á Vestfjörðum á að leggja 132 kV jarðstreng í Dýrafjarðargöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Áformað er að reka strenginn fyrst um sinn á 66 kV spennu.

Jarðstrengurinn mun leysa af hólmi hluta Breiðadalslínu 1, 66 kV loftlínu milli Mjólkár og Breiðadals, þar sem línan liggur yfir Flatsfjall í allt að 750 metra hæð yfir sjávarmáli og aðstæður eru erfiðar til viðhalds og viðgerða.

Lagning strengsins er áformuð samhliða jarðgangagerðinni og verður hann tæplega 13 km langur, frá tengivirki við Mjólká að fyrstu stæðu í Dýrafirði þar sem hann verður tengdur inn á Breiðadalslínu 1.

Með lagningu 132 kV strengs verður með einföldum hætti hægt að spennuhækka Breiðadalslínu 1 og eyða þannig mögulegum flöskuhálsi í flutningsgetu línunnar.

Umhverfisáhrif jarðstrengsins eru metin óveruleg þar sem hann fylgir mannvirkjabelti samgangna og er ekki að valda nýju raski.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Framkvæmdaleyfi vegna Dýrafjarðarganga gefið út

Snið af göngunum.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt útgáfu framkvæmdaleyfis til Vegagerðarinnar vegna jarð- ganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar í Ísafjarðarbæ. Auglýsing um útgáfu leyfisins birtist í Lögbirtingablaðinu fyrir helgi. Tilboð í verkið voru opnuð hjá Vegagerðinni 26. janúar síðastliðinn. Lægsta tilboðið áttu tékkneska verktakafyrirtækið Metrosta í samvinnu við Suðurverk. Tilboðið hljóðaði upp á tæplega 8,7 milljarða króna, 93% af áætlun um verktakakostnað.

Samkvæmt áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum frá 17. maí 2013 eru ekki sett skilyrði fyrir framkvæmdaleyfinu. Hins vegar telur Skipulagsstofnun að áhrif framkvæmdarinnar á fornleifar verði nokkuð neikvæð m.a. þar sem fyrir liggur að ekki verði hjá því komist að raska slíkum minjum. Stofnunin leggur áherslu á að farið verði í hvívetna eftir ábendingum Minjastofnunar Ísland.

Ísafjarðarbær setur fram eftirfarandi skilyrði fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis: Vegna framkvæmda innan hverfisverndarsvæða H1 sbr. deiliskipulag og Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar 2008-2020 skal leitast við að varðveita sérkenni svæðanna, þ.e. menningar og náttúruminjar á afskekktum svæðum og hálendi.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Hækkun á styrk til Act Alone

Frá hátíðinni 2016

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hækkaði styrk til einleikjahjátíðarinnar Act Alone um 200.000 á fundi sínum í síðustu viku og bæjarstjóra falið að endurnýja samning vegna hátíðarinnar. Hátíðin hefur fengið 500.000 styrk á ári undanfarin tvö ár en fær núna 700.000 kr.

Í febrúar var fjallað um hátíðina og fjármögnun hennar en Elfar Logi forsprakki hennar segir reksturinn í járnum og leggist af ef ekki úr rætist. Elfar er ósáttur við við bakland atvinnulistar á landsbyggðinni og hún njóti ekki skilnings né stuðnings af hálfu hins opinbera, til dæmis hafi Menningarmálaráðuneytið einungis styrkt hátíðina einu sinni.

Á facebook síðu hátíðarinnar kemur fram að hátíðin verði haldin 10. – 12. ágúst á Suðureyri.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Umbúðalína Fisherman tilnefnd til FÍT-verðlaunanna

Skjáskot af vefverslun Fisherman

Ný umbúðalína Fisherman er tilnefnd til FÍT-verðlaunanna sem veitt verða í vikunni. Fisherman sem er ferðaþjónustufyrirtæki á Suðureyri, er einnig með vefverslun þar sem hægt er að panta sér harðfisk, þorskalifur, söl og sjávarsalt yfir internetið. Það er Jóhanna Svala Rafnsdóttir hjá Kapli sem hannaði umbúðalínuna fyrir Fisherman.

FÍT, eða félag íslenskra teiknara, hefur um árabil veitt verðlaun fyrir það sem skarar fram úr í grafískri hönnun og myndskreytingum á Íslandi ár hvert. Tilnefnt er til verðlauna í 19 flokkum sem ná yfir helstu undirflokka grafískrar hönnunar og einnig eru veitt ein aðalverðlaun fyrir það sem þykir bera höfuð og herðar yfir önnur verk, þvert á flokka.

Aldrei hafa borist fleiri tilnefningar til verka en nú er um 300 tilnefningar bárust og voru 82 þeirra tilnefnd. Verkin sem vinna til verðlauna og viðurkenninga verða sýnd á veglegri sýningu sem undanfarin ár hefur verið haldin í tengslum við HönnunarMars. Verðlaunaafhendingin fer fram í Tjarnarbíó 22.mars klukkan 18:30.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Tónleikar til styrktar orgelsjóði Hólskirkju

Hólskirkja

Á sunnudaginn verða stórtónleikar haldnir í Hallgrímskirkju til styrktar orgelsjóði Hólskirkju í Bolungarvík og hefjast þeir klukkan 16:00.  Á vefnum vikari.is kemur fram að í langan tíma hafi staðið til að endurnýja orgelið í Hólskirkju enda sé það komið til ára sinna. Bolvíkingar og aðrir velunnarar kirkjunnar hafa um nokkurt skeið safnað fyrir nýju orgeli og vonir standa til að með tónleikunum á sunnudaginn verði komist nær því að ljúka fjármögnun á nýju orgeli.

Fjölbreytt efnisskrá er á tónleikunum, þar munu til dæmis koma fram Karlakórinn Esja, Anna Þuríður, Bjarmar Gunnlaugsson og María Ólafsdóttir.

Sóknarprestur Hólskirkju, séra Ásta Ingibjörg Pétursdóttir mun ávarpa samkomuna en dagskráin í heild sinni lítur svona út:

Birgir Olgeirsson, söngur og gítar
Margrét Hannesdóttir, sópran
Saga Matthildur, söngur / Halldór Gunnar Pálsson, gítar
Anna Þuríður, söngur / Bergrós Halla Gunnarsdóttir, gítar
Björn Thoroddssen, heimsklassagítarleikari
Feðginin Benni Sig og Karolína Sif
Karlakórinn Esja
Gissur Páll Gissurarson, tenór
María Ólafsdóttir, söngkona og Eurovisionfari
Bjartmar Guðlaugsson
Þorgils Hlynur Þorbergsson fer með stutta bæn

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Samningur um Blábanka á Þingeyri samþykktur

Blábankinn á Þingeyri

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum síðast liðinn fimmtudag, samning um uppbyggingu samfélagsmiðstöðvarinnar Blábanka á Þingeyri. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að stofnun samfélagsmiðstöðvar á Þingeyri, með það að markmiði að veita og laða að þjónustu sem nýtast mun nærsamfélaginu og gestum þess.

Í fréttatilkynningu frá Ísafjarðarbæ kemur fram að þjónusta á Þingeyri hafi minnkað undanfarin ár. Í kjölfar þess að Pósturinn og Landsbankinn drógu úr sinni þjónustu á Þingeyri árið 2015 hafði Nýsköpunarmiðstöð samband við Ísafjarðarbæ og lagði til að þróaður yrði þjónustukjarni eða samfélagsmiðstöð á Þingeyri sem gæti verið fyrirmynd samskonar kjarna í öðrum þorpum á landsbyggðinni. Um er að ræða tilraunaverkefni sem getur orðið brautryðjandi verkefni í byggðamálum á Íslandi.

Kynningarfundir verða haldnir á næstu vikum.

 

Fréttatilkynning Ísafjarðarbæjar:

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í gær, 16. mars 2017, samning um uppbyggingu samfélagsmiðstöðvarinnar Blábanka á Þingeyri, sem er byltingarkennt þróunarverkefni í byggðamálum á Íslandi. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að stofnun samfélagsmiðstöðvar á Þingeyri, með það að markmiði að veita og laða að þjónustu sem nýtast mun nærsamfélaginu og gestum þess. Nafn verkefnisins, Blábanki, er dregið af lit Landsbankahússins í miðbæ Þingeyrar, en er jafnframt tilvísun í bláa hagkerfið.

Þjónusta á Þingeyri hefur minnkað undanfarin ár. Í kjölfar þess að Pósturinn og Landsbankinn drógu úr sinni þjónustu á Þingeyri árið 2015 hafði Nýsköpunarmiðstöð samband við Ísafjarðarbæ og lagði til að þróaður yrði þjónustukjarni eða samfélagsmiðstöð á Þingeyri sem gæti verið fyrirmynd samskonar kjarna í öðrum þorpum á landsbyggðinni. Um er að ræða tilraunaverkefni sem getur orðið brautryðjandi verkefni í byggðamálum á Íslandi.

Leitast verður við að þróa þjónustuna í Blábankanum í samvinnu einkaaðila, opinberra aðila og íbúa á Þingeyri, þannig að þarfir Íslendinga nútímans fyrir þjónustu verði hægt að uppfylla á Þingeyri.  Ísafjarðarbær mun m.a. leggja áherslu á að gera opinbera þjónustu aðgengilegri, samskipti milli íbúa og opinberra stofnana skilvirkari, sem og að skapa grundvöll að félags- og efnahagslegri nýsköpun. Vinnan er nú vel á veg komin.

Árið 2020 verður Þingeyri við Dýrafjörð orðinn miðpunktur Vestfjarða, m.t.t. samgangna, þegar Dýrafjarðargöng verða opnuð. Aðstandendur verkefnisins telja nauðsynlegt að nota tækifærið og gera þorpið að þjónustumiðstöð þar sem ýmis atvinnustarfsemi, ferðamannaiðnaður, menning og mannlíf geta stutt hvað annað og að laða að þjónustu sem nýst getur nærsamfélagi og gestum.

Aðstandendur verkefnisins eru Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ísafjarðarbær, innanríkisráðuneytið, Landsbankinn, Simbahöllin og Vestinvest. Verkefnið var hluti af Vestfjarðaskýrslunni og var ákveðið að veita verkefninu stofnframlag og rekstrarframlag næstu þrjú árin frá ráðuneytinu. Stofnuð verður sjálfseignarstofnun utan um verkefnið og verður auglýst eftir stofnfélögum frá 13. apríl til 1. september nk. Blábankaverkefnið verður ekki rekið út frá hagnaðarsjónarmiði, heldur verður eingöngu leitast við að ná inn tekjum fyrir kostnaði.

Starfsemi Blábankans verður margvísleg, en verkefnið er unnið í samræmi við niðurstöður úr samtölum við íbúa, um þá þætti sem þeim þykja mikilvægir fyrir Þingeyri. Má þar helst nefna póst- og bankaþjónustu, námskeið, fræðslufundi og dægradvöl fyrir börn að loknum skóladegi. Í Blábankanum verður nútíma útgáfa af bókasafni, með hefðbundnu bókaláni, en einnig aðstaða og aðstoð í tölvum. Í Blábankanum verður opið og sveigjanlegt vinnurými, þar sem hægt er að leigja vinnuaðstöðu til lengri eða skemmri tíma. Leitast verður við að hafa aðstöðuna hlýlega með góðri nettengingu, kaffiaðstöðu, nútímalegri fundaraðstöðu með fjarfundarbúnaði, auk stakra vinnustöðva. Blábankanum er ekki ætlað að hýsa veitingastaði, gistirými eða matvöruverslun. Sköpunarþorpið Þingeyri er einnig framtíðarsýn sem aðstandendur verkefnisins vilja innleiða, m.a. með því að setja upp sjálfstætt FabLab í Blábanka með stuðningi Nýsköpunarmiðstöðvar og samstarfi við Vélsmiðjuna á Þingeyri. Vonast er til að starfsemi Blábankans muni gefa fólki tækifæri til að hittast, læra hvert af öðru og stofna til samstarfs, t.d. listamannabúða og skapandi námskeiða.

 Auglýst verður eftir starfsmönnum í tvö 50% stöðugildi, annars vegar starf forstöðumanns, sem hefur umsjón með starfsemi, rekstri og markaðsstarfi miðstöðvarinnar, og hins vegar í starf staðgengils forstöðumanns, sem hefur umsjón með vinnurými, sinnir almennri afgreiðslu og þjónustu.

Kynningarfundir verða haldnir á næstu vikum, m.a. fimmtudaginn 13. apríl kl. 18:00 á Þingeyri.

Auglýsing
Auglýsing

Stórauka stuðning við Safetravel

Öryggismál ferðamanna hafa verið í brennidepli síðustu misseri.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, og Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, skrifuðu í gær undir samstarfssamning við Slysavarnafélagið Landsbjörg sem felur í sér stóraukinn stuðning við verkefnið Safetravel. Samningurinn er til þriggja ára og hljóðar upp á 35 milljónir króna á ári, til viðbótar við framlag Slysavarnafélagsins Landsbjargar í formi fjármuna og vinnu af hálfu sjálfboðaliða félagsins.  Ráðuneyti ferðamála leggur fram 25 milljónir króna á ári en lagði til samanburðar fram 16 milljónir á liðnu ári. Samtök ferðaþjónustunnar auka sitt framlag úr 6 milljónum árið 2016 í 10 milljónir á ári. Auk þess styður Icelandair Group verkefnið myndarlega.

Samningurinn markar tímamót og skapar forsendur til að auka verulega við Safetravel verkefnið sem Slysavarnafélagið Landsbjörg sinnir varðandi slysavarnir og öryggismál ferðamanna og hefur félagið þó unnið mikið og gott starf á þessu sviði um árabil. Verkefni sem stefnt er að því að efla á grundvelli þessa samnings eru meðal annars: Hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar, skjáupplýsingakerfi ferðamanna og  vefurinn Safetravel.is, m.a. með þýðingu á akstursefni vefsins á kínversku.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir