Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2320

Fara í opinbera heimsókn til Færeyja

Þórshöfn í Færeyjum.

Ísafjarðarbær og Súðavíkurhreppur ætla í opinbera heimsókn til Færeyja aðra vikuna í maí. Í ferðinni verður afhent gjöf frá frá sveitarfélögunum sem þakklætisvott fyrir hlýhug færeysku þjóðarinnar fyrir rúmum 20 árum í kjölfar snjóflóðanna í Súðavík og Flateyri. Eftir að snjóflóðin féllu stóðu Færeyingar fyrir fjársöfnun sem skilaði meiru en Íslendingar söfnuðu sjálfir, sé miðað við höfðatölu. Í dag standa meðal annars tveir leikskólar á Flateyri og í Súðavík sem reistir voru fyrir söfnunarfé Færeyinga. Gjöfin er minnisvarði eftir ísfirska listamanninn Jón Sigurpálsson og verður hann reistur í Þórshöfn, höfuðstað Færeyja.

Í heimsókninni ætla bæjarfulltrúar í Ísafjarðarbæ að kynna sér laxeldi í Færeyjum sem er í dag ein mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar. „Við getum lært mikið af reynslu Færeyinga af laxeldi og við förum í þessa heimsókn svo við getum verið betur í stakk búin fyrir það sem er í vændum hér á næstu árum. Það er ljóst að sveitarfélögin þurfa að vera vel undirbúin,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Aftur vatnslaust í Mánagötu

Frá 10:30 – 12:00 í dag verður vatnið tekið af Mánagötu og hluta af Fjarðarstræti vegna viðgerða á heimtaugakrana.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Alþjóðlegi Downs-dagurinn í dag

Í dag er alþjóðlega Downs-deginum fagnað hér á landi sem annarsstaðar og af því tilefni klæðist fólk um allan heim mislitum sokkum til að fagna og sýna samstöðu með fjölbreytileikanum. Sameinuðu þjóðirnar lýstu því formlega yfir árið 2011 að 21. mars væri alþjóðadagur Downs-heilkennis og með það að markmiði að auka vitund og minnka aðgreiningu. Dagsetningin 21.03. er táknræn að þar sem hún vísar til þess að Downs-heilkenni er orsakað af auka litning í litningi 21, að er þrjú eintök af litning 21.

Félag áhugafólks um Downs-heilkennið á Íslandi hvetur alla til að fagna fjölbreytileikanum í dag með mislitum sokkum og smella af því myndum sem deila má á Instagram með merkinu #downsfelag og #downsdagurinn. Félagið fagnar deginum með samkomu í veislusal Þróttar, þar sem glaðst verður saman yfir stórum og smáum sigrum, ásamt því að njóta góðrar skemmtunar þar sem til dæmis tónlistarmaðurinn Jón Jónsson kemur fram. Í veislunni verður stór skjár þar sem myndirnar birtar sem settar eru inn á Instagram.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Fólki fjölgar nema á Vestfjörðum

Hinn 1. janúar 2017 voru landsmenn 338.349 og hafði þá fjölgað um 5.820 frá sama tíma árið áður eða 1,8%. Konum og körlum fjölgaði nokkuð jafnt en karlar eru eigi að síður 3.717 fleiri en konur. Mikil fólksfjölgun varð á Suðurnesjum (6,6%) en einnig fjölgaði íbúum nokkuð í öðrum landshlutum að Vestfjörðum undanskildum (-0,2%). Fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu (1,5%) var undir landsmeðaltali í fyrsta sinn frá árinu 2007.

Einnig fjölgaði íbúum á Suðurlandi (2,1%), Norðurlandi eystra (1,1%) og Vesturlandi (1%), en minna á Norðurlandi vestra (0,4%) og Austurlandi (0,4%).

Alls 74 sveitarfélög voru á landinu á áramótum, en það er óbreyttur fjöldi frá því í fyrra. Sveitarfélögin eru misstór. Alls var íbúatala sex sveitarfélaga undir 100 en undir 1.000 í 40 sveitarfélögum. Einungis níu sveitarfélög höfðu yfir 5.000 íbúa.

Hinn 1. janúar síðastliðinn voru 60 þéttbýlisstaðir á landinu með 200 íbúa eða fleiri og fækkaði um einn milli ára. Auk þeirra voru 36 smærri staðir með 50–199 íbúa sem er fjölgun um einn frá fyrra ári. Í þéttbýli bjuggu 316.904 og fjölgaði um 5.054 milli ára. Í dreifbýli og smærri byggðakjörnum bjuggu 21.455 manns hinn 1. janúar síðastliðinn.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Óska eftir að forstjóri taki á samskiptavanda

Heilbrigðisstofnun Vestfjarðar bíður enn svara frá ráðuneytinu varðandi ráðningu nýs forstjóra.

Hjúkrunarfræðingar við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði hafa sent Kristínu B. Albertsdóttur forstjóra HVEST bréf þar sem kallað er eftir því að forstjóri taki á samskiptavanda innan stofnunarinnar. Undir bréfið rita yfir tuttugu manns og staðfestir Kristín í samtali við blaðamann Bæjarins besta að bréfið hafi borist henni, án þess að vilja greina nákvæmlega frá innihaldi þess en segir að bréfið sé ákall um að forstjóri taki á þeim samskiptavanda sem búinn er að fá að viðgangast innan stofnunarinnar alltof lengi.“

Kristín segist hafa átt marga fundi og viðtöl með starfsmönnum vegna vandans frá því er hún hóf störf síðla síðasta árs: „Mælirinn er fullur hjá mörgum og þetta er gamall vandi sem taka þarf á“ segir Kristín og bætir við að það sé ekki einfalt að takast á við svo flókin og erfið mál á stórum vinnustað í litlu samfélagi. Fyrstu skrefin séu fólgin í að lesa í alla þræði og greina vandann og segist hún auðvitað hlusta á starfsmenn sem eru langþreyttir orðnir á ástandinu.

Enginn mannauðsstjóri starfar við stofnunina, en fyrir nokkrum árum stóð til að ráða slíkan og var umsóknarferli langt á veg komið þegar hætt var við ráðningu. Kristín segir það vera nauðslegt skref hjá stofnuninni að ráða mannauðsstjóra og vonast til að það megi verða í náinni framtíð þrátt fyrir erfiðan rekstur, en stofnunin hefur glímt við viðvarandi hallarekstur undanfarin ár.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Tangverslun og líkkistusmiðjan fá sinn sess í Hæstakaupstað

Bræðurnir Úlfur og Gísli við vegginn sem prýðir mynd af verslun Leo

Það er búið að vera mikið um að vera í gamla verslunarhúsinu í Hæstakaupstað á Ísafirði er þeir Hamraborgarbræður Úlfur Þór og Gísli Elís Úlfarssynir, sem nú eiga húsið, hafa ásamt vöskum iðnaðarmönnum umbreytt rýminu á jarðhæðinni í íbúð. Það eitt og sér er kannski ekki í frásögur færandi, nema að haldið er í heiðri hluta þeirrar starfsemi sem verið hefur í húsinu fram til þessa.

Örn Smári undirbýr myndina fyrir upphengingu

Í síðustu viku var þar að störfum Örn Smári Gíslason hjá Fánasmiðjunni á Ísafirði við að setja á einn vegginn risastóra útprentaða ljósmynd sem tekin var í kringum aldamótin 1900, á dögum verslunar stórkaupmannsins Leonhards Tang sem tók við Hæstakaupstaðarverslun árið 1890 af Hans. A Clausen. Verslun Tangs var öflug og var hann einnig bæði útgerðarmaður og frumkvöðull, en um tíma framleiddi hann bæði gosdrykki og sælgæti á Ísafirði. Árið 1918 seldi Tang verslunina, en hún hélt áfram í svipaðri mynd næsta áratuginn. Er Nathan & Olsen hættu verslun árið 1928 lagðist Hæstakaupstaðarverslun af sem slík.

Kristinn á verkstæði sínu

Fleiri hafa komið við sögu þessa fallega húss sem byggt var árið 1873. Meðal þeirra sem höfðu aðsetur í þeim enda hússins sem nú er verið að vinna í, er smiðurinn Kristinn Leví Jónsson sem rak þar verkstæði frá 1958, fyrst í samstarfi við félaga sinn Sigurð H. Bjarnason, en eftir andlát hans árið 1985 var Kristinn þar einn og fékkst hann aðallega við líkkistusmíði og einnig gerði hann upp gömul húsgögn. Enn má oft heyra í daglegu tali fólks vísað til hússins sem líkkistusmiðjunnar, en Kristinn var með rekstur sinn þar allt til ársins 2002, er líkamleg heilsa leyfði ekki meir. Kristinn og verkstæðið hans fá einnig sinn sess í íbúðinni þar sem gerður hefur verið útstillingargluggi sem hefur að geyma verkfæri Kristins, vinnusvuntu, líkkistunagla, ljósmyndir og ýmsa smámuni.

Minningaveggurinn um Kristinn og verkstæði hans

Húsið, sem stendur við Austurvöll, var komið í mikla niðurníðslu en hefur undanfarin ár smátt og smátt verið að snúa til fyrri glæsileika og eru nú í því tvær íbúðir á jarðhæð og hefur ytra byrði hússins verið tekið í gegn, en efri hæðirnar tvær bíða þess að ganga í endurnýjun lífdaga.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

6.500 undirskriftir komnar

Óskaleið Vegagerðarinnar er í gegnum Teigsskóg, hér merkt með rauðu.

Undirbúningshópur íbúa í vegamálum hyggst afhenda ákall sitt í vegamálum á Alþingi um miðja þessa viku. Vonast er til að Jón Gunnarsson samgönguráðherra verði viðstaddur afhendinguna og fulltrúarnir fái fund með honum í leiðinni. Nú hafa um 6.500 manns skrifað undir ákall til stjórnvalda um að hætta ekki við vegaframkvæmdir í Gufudalssveit sem lengi hefur verið beðið eftir, eða í rúman áratug. Í Morgunblaðinu er greint frá að undirbúningshópur undirskriftasöfnunarinnar skipuleggi að halda tónleika í næstu viku. Haukur Már Sigurðsson, úr undirbúningshópnum, segir að það ráðist af þróun mála hvort tónleikarnir verði uppskerutónleikar eða baráttutónleikar. Ef Skipulagsstofnun skili jákvæðu áliti um umhverfisskýrslu um lagningu vegar samkvæmt óskaleið Vegagerðarinnar verði því fagnað á tónleikunum enda hafi ráðherra sagst ætla að bjóða verkið út þegar niðurstaða fáist í þetta ferli. Ef álit Skipulagsstofnunar verði neikvætt þurfi baráttan að halda áfram og það muni endurspeglast á baráttutónleikum.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Starfsmannafélag ÁTVR eindregið á móti frumvarpinu

Starfsmannafélag ÁTVR leggst eindregið gegn því að einkaréttur ÁTVR á því að selja áfengi verði afnuminn, eins og lagt er til í frumvarpi sem liggur nú fyrir Alþingi en þar eru lagðar til breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Í umsögn sem starfsmannafélagið hefur skilað inn til Alþingis segir að starfsmenn ÁTVR „séu langþreyttir á umræðu um afnám einkaréttarins, sem ítrekað hefur skapað óöryggi og valdið streitu.“

Þá segir í umsögninni að ljóst sé að stórum hluta af þeim 450 manns sem starfa hjá ÁTVR verði sagt upp nái frumvarpið fram að ganga „enda væri áfengissala ríkisins þar með úr sögunni. Það sem starfsfólki ÁTVR gremst þó einna helst eru eilífar rangfærslur í umræðunni og vanþekking og virðingarleysi gagnvart því mikilvæga starfi sem það vinnur í þágu lýðheilsu í landinu.“

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Lítilsháttar fólksfækkun á Vestfjörðum

Tálknafjörður.

Íbúar Vestfjarða voru 6.870 þann 1. janúar 2017 og hafði fækkað um 13 manns frá 1. janúar 2016. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands um fólksfjölda.

Fólkfjölgun var í öllum sveitarfélögum á Vestfjörðum nema í Ísafjarðarbæ, Tálknafjarðarhreppi og Árneshreppi. Mesta fólksfækkunin var á Tálknafirði, en á tímabilinu fór íbúatalan úr 267 í 236, eða um 11 prósent. Hlufallslega var meiri fólksfækkun í Árneshreppi, en þar fækkaði fólki um 16 prósent, fór úr 55 íbúum í 46. Um áramótin bjuggu 3.608 í Ísafjarðarbæ og hafði fækkað um 15 manns á einu ári.

Mesta fólksfjölgunin varð í Vesturbyggð, um 17 manns, og í Reykhólahreppi, um 15 manns.

Íbúafjöldi á  Vestfjörðum eftir sveitarfélögum.

Ár                                      2016                      2017

Bolungarvík                        904                         908

Ísafjarðarbær                    3623                      3608

Reykhólahreppur                 267                        282

Tálknafjarðarhreppur           267                        236

Súðavíkurhreppur                184                        186

Kaldrananeshreppur             103                        106

Árneshreppur                        55                           46

Strandabyggð                      467                        468

Vesturbyggð                      1013                       1030

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Mokað tvisvar í viku

Mokstur í Árneshreppi. Mynd úr safni.

Frá og með morgundeginum verður vegurinn norður í Árneshrepp opnaður tvisvar í viku.  Fréttvefurinn Litlihjalli hefur eftir Jóni herði Elíassyni, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Hólmavík, að mokað verði á þriðjudögum og föstudögum ef veður og snjóalög leyfa. Snjólétt hefur verið á Ströndum í vetur eins og annars staðar á landinu og vegurinn norður hefur mikið til verið jeppafær. Vegna lítilla snjóalaga hefur Vegagerðin sent moksturstæki norður nokkrum sinnum í vetur þrátt fyrir mokstursregluna sem kveður á um að ekki sé mokað fyrr en eftir 20. mars.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir