Mánudagur 28. október 2024
Síða 232

Hvalveiðibannið átt sér ekki nægi­lega skýra stoð í lög­um

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið athugun sinni vegna kvörtunar Hvals hf. um frestun upphafs hvalveiða síðastliðið sumar og látið í ljós álit sitt vegna málsins.

Í álitinu kemur m.a. fram að reglugerð um frestun upphafs hvalveiða hafi ekki átt sér nægilega skýra stoð í lögum um hvalveiðar og að eins og atvikum var háttað hafi útgáfa og undirbúningur reglugerðarinnar ekki samrýmst kröfum um meðalhóf.

Umboðsmaður beinir ekki sérstökum tilmælum til ráðuneytisins um úrbætur. Hann beinir því hins vegar til ráðuneytisins að hafa þau sjónarmið sem fram koma í álitinu í huga til framtíðar.

Teitur Björn Einarsson alþingismaður segir í viðtali við Ríkisútvarpið að þetta sé mjög alvarlegt brot hjá ráðherra. „Það er alvarlegt þegar brotið er með jafn skýrum hætti gegn grundvallarmannréttindum og ráðherra veldur tjóni hjá fjölda fólks sem stundaði þessa atvinnu.“ Hann segir ekki loku fyrir það skotið að þetta baki ríkinu skaðabótaábyrgð. „Það eitt og sér setur málið í alvarlegan búning.“

Teitur segist vænta þess að fljótlega komi þingflokkur Sjálfstæðisflokksins saman til að ræða þetta mál. Hann segir ráðherra verða að gera upp við sig hvort hann segi af sér eða ekki. „Það er ekki endilega það sem er undir hér heldur traust og trúverðugleiki ráðherra til að fara með þau málefni sem ríkisstjórnin hefur komið sér saman um.“ Hann hafi þó sagt það frá upphafi að framganga ráðherra í þessu máli væri mikill álitshnekkur fyrir hana.

Svandís Svarsdóttir matvælaráðherra segir á facebooksíðu sinni : „Ég tek þessa niðurstöðu umboðsmanns alvarlega og þrátt fyrir að umboðsmaður beini ekki sérstökum tilmælum til mín þá hyggst ég beita mér fyrir breytingum þannig að þessi úreltu lög séu færð til nútímans.“

Nýskráningar fólksbíla árið 2023 voru 17.549

Nýskráningar fólksbíla árið 2023 reyndust 5,1% meiri en árið 2022.

Nýskráningar voru alls 17.549 árið 2023 en voru 16.690 árið þar á undan að því er fram kemur í tölum frá Bilgreinasambandinu.

Rúmlega helmingur nýskráninga var í rafbílum. Alls 8.784 bílar sem nemur 50,1% hlutdeild á markaðnum. Hybrid-bílar voru í öðru sæti, alls 2.891 bílar og 16,5% hlutdeild. Í þriðja sæti koma dísilbílar, alls 2.280 bílar. Nýskráningar í bensínbílum voru 1.834 og í tengilvinnbílum 1.756.

Nýskráningar voru flestar í Tesla þegar sala á einstökum bílategundum eru skoðaðar. Tesla seldist alls í 3.547 eintökum og Toyota kemur í öðru sæti með 3.001 bíla og Kia er í þriðja sæti með alls 1.959 bíla.

Bílar til almennra notkunar námu alls 59,6% í heildarnýskráningum fólksbifreiða og til ökutækjaleiga 39,7%.

Veiðigjaldið af þorski 26,66 kr/kg

Veiðigjald fyrir 2024 fyrir þorsk er 26,66 kr/ kg af óslægðum fiski samkvæmt svörum Matvælaráðuneytisins. Það hækkar frá síðasta ári þegar það var 19,17 kr/kg. Hækkunin er 39%. Fyrir ýsu er gjaldið 22,28 kr/kr en var 19,82 kr/kg. Hækkunin er 12,4%. Ráðuneytið segir að veiðigjöldin fyrir yfirstandandi ár hafi verið auglýst 30. nóv. sl.

Súðavík: sterkur fjárhagur, framkvæmdir og stöðug íbúabyggð

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík segir í áramótakveðju á vef sveitarfélagsins að ýmislegt sé á góðum vegi í sveitarfélaginu. „Hér eru framkvæmdir og nokkuð stöðug íbúabyggð, fjárhagur sveitarfélagsins sterkur í samanburði á landsvísu. Framkvæmdum við Langeyri miðar vel og verður næsta ár komandi nokkur vendipunktur varðandi útlit og ásýnd. Upphafið að nýjum hafnarframkvæmdum sem gefa góða möguleika á atvinnusköpun okkur öllum til heilla. Flest hefur fallið með okkur þó auðvitað megi alltaf gera betur og gera meiri kröfur til okkar sjálfra. Og það er fæst vegna utanaðkomandi aðstoðar.“

Þá sé langt komið með að tengja allt í ljósleiðara í sveitarfélaginu og fyrstu áföngum að ljúka með tengingu þrífasa rafmagns.  

Þá víkur Bragi að samgöngumálum og segir að Súðavíkurhlíðin hafi minnt á sig og „gerði jólahald hér með öðru sniði rétt um aðfangadag og jóladag. En á sama tíma er verið að vinna verðmætt efni úr hlíðinni til uppbyggingar á athafnasvæði við Langeyri. Vonandi verður það táknrænt varðandi þennan veg. Súðavíkurhöfn hefur gengið í gegnum nokkra endurnýjun með bættri aðstöðu og nokkuð tíð umferð hefur verið stærri skipa þar um með uppskipun á laxafóðri og búnaði til fiskeldis. En vonandi berum við gæfu til þess að landa þar um fiski til frambúðar.“

Helst séu  blikur og kólguský á lofti „sem verða ekki síst til á Alþingi í garð sveitarfélags af þeirri stærðargráðu sem við byggjum“ segir sveitarstjórinn og á þar við þá miklu áherslu sem stjórnvöld leggja á að sveitarfélög með færri íbúa en 1.000 sameinist öðrum og sendir þeim þessa pillu:

„Og á sama tíma er verið að endurskipa innan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þar sem við ásamt nokkrum öðrum teljumst hafa notið ofjöfnunar framlaga úr sjóðnum. Þetta er kaldhæðnislegt meðan á sama tíma er verið að loka síðustu opinberu stofnunum sem hér hafa verið s.s. póstþjónustu. Er það sveitarstjóra umhugsunarefni til hvers Jöfnunarsjóður er í raun ef ekki til þess að mæta slíku. Hér er ekki kvóti í neinu formi sem varðar sjávarútveg og trauðla hefur gengið að nýta þann byggðakvóta sem Súðavík er markaður.“

  

Tálknafjörður: 2.607 tonn af bolfiski á síðasta ári

Ta´lknafjarðarhöfn síðastliðið sumar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í síðasta mánuði bárust 192 tonn af afla á land í Tálknafjarðarhöfn. Línubáturinn Indriði Kristins BA var með 154 tonn og Sæli BA , sem einnig var á línuveiðum landaði 37 tonnum. Þriðji báturinn sem landaði í desember var Garri BA sem var á handfærum. Hann landaði 447 kg.

Á árinu 2023 varð heildaraflinn 2.607 tonn sem landað var í Tálknafjarðarhöfn.

Strandveiðiaflinn var um 400 tonn á síðasta sumri, sem gerði Tálknafjörð að 9. hæstu löndunarhöfninni á landinu.

Einn netabátur var á veiðum Birta BA og landaði hann 21 tonni af bolfiski.

Að öðru leyti voru það línubátar sem komu með afla að landi. Það voru Indriði Kristins BA og Sæli BA sem báru uppi línuaflann, sem losaði 2000 tonn.

Arctic Fish: hefur brugðist við athugasemdum Mast

Kvíar í Dýrafirði. Mynd: Arctic Fish.

Arctic Fish bregðst við eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar um strok laxa úr kví í Patreksfirði í ágúst með því að segja að fyrirtækið taki athugasemdum Mast alvarlega og frá því að strokið átti sér stað í ágúst, hafi Arctic Fish lagt í mikla vinnu við að endurskoða vinnulag með það að markmiði að lágmarka áhættu á stroki.

Í skýrslu Mast er gerð grein fyrir tveimur alvarlegum frávikum í eldi félagsins.Annars vegar vegna ljósastýringa og hinsvegar vegna eftirlits.

Annars hefur Arctic Fish ákveðið að hætta að nota þá tegund af fóðurdreifurum sem ollu gatinu.“ Við erum að innleiða nýtt rafrænt gæðakerfi og viðhaldskerfi sem bætir vinnubrögð. Aukin áhersla verður á þjálfun starfsfólks og farið hefur verið yfir framkvæmd ljósastýringa.“

Hins vegar hefur verið búið til nýtt starf í fyrirtækinu, starf framkvæmdastjóra eldis og í það starf var ráðinn John Gunnar Grindskar sem hefur áratuga reynslu úr fiskeldi hjá móðurfyrirtæki Arctic Fish í Noregi.

Veiðigjald fyrir 2024 hefur ekki verið ákveðið

Svndís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.

Matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir hefur ekk enn birt auglýsingu um veiðigjald í sjávarútvegi fyrir 2024.

Samkvæmt lögum um veiðigjald frá 2018 gerir ríkisskattstjóri tillögu um fjárhæð veiðigjalds hvers nytjastofns fyrir komandi veiðigjaldsár til þess ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál eigi síðar en 1. desember. Skal tillagan vera um að veiðigjaldið nemi 33% af reiknistofni hvers nytjastofns skv. 5. gr. laganna. Ráðherra auglýsir gjaldið sem krónur á kílógramm landaðs óslægðs afla fyrir áramót. Veiðigjaldsár er almanaksár.

Síðast auglýsti ráðherra 2. desember 2022 veiðigjald fyrir 2023 og þar kemur fram að auglýsingin sé sett að fenginni tillögu embættis ríkisskattstjóra.

Veiðigjaldið fyrir þorsk var 19,17 kr/kg af óslægðum fiski.

Ekki hafa komið fram skýringar á því hvers vegna veiðigjaldið hefur ekki verið ákveðið og beðið er svara Matvælaráðuneytisins við fyrirspurn Bæjarins besta.

Falur Jakobsson bátasmiður

Jakob Falsson,Mildríður Falsdóttir,Falur Jakobsson og Sigmundur Falsson

Falur Jakobsson var fæddur í Þaralátursfirði á Hornströndum árið 1872. Hann bjó með konu sinni Júdit Kristjánsdóttur í Barðsvík á Hornströndum 1894 – 1906 og stundaði þar búskap og bátasmíðar. Júdit lést af barnsförum 1906. Falur lést árið 1936.

Árin 1906 til 1907 var Falur húsmaður á Horni en flutti þá til Bolungarvíkur við Ísafjarðadjúp og stundaði þar smíðar enda maðurinn völundur á tré og járn.

Ekki hefur tekist að finna nöfn báta, sem Falur smíðaði í Barðsvík og er það að vonum því að um nafnlausar skektur og árabáta hefur verið að ræða. Eftir Mildfríði dóttur hans er haft í „Grunnvíkingabók“ l bindi bls. 260 að Fransmenn hafi stundum hleypt skútum sínum að landi í Barðsvík og keypt skektur sem faðir hennar hafði smíðað.

Óljóst er með öllu hve marga báta Falur smíðaði á meðan hann var í Barðsvík en gera má ráð fyrir að umtalsverð hafi sú smíði verið fyrst Fransmenn gerðu sér ferð inn á Barðsvíkina til bátakaupa af honum.

Ljóst er af þessu að Falur Jakobsson hefur verið þekktur langt út fyrir landsteinana og vel má hugsa sér Fal sem fyrsta Íslendinginn sem framleiddi báta til útflutnings.

Eftir komuna til Bolungarvíkur þá smíðaði Falur fjölda báta. Starfaði hann í fyrstu með Jóhanni Bjarnasyni bátasmiði en þegar sjógangur skolaði í burtu verkstæði Jóhanns þá byggði Falur sitt eigið verkstæði árið 1912.

Falshús í Bolungarvík byggt árið 1932

Seinna naut Falur aðstoðar sona sinna Jakobs og Sigmundar við smíðarnar.

Haft hefur verið fyrir satt að enginn ófaglærður skipasmiður hér á landi hafi smíðað fleiri vélbáta en Falur og þótti lán fylgja fleytum hans. Á örðum og þriðja áratug síðustu aldar má segja að mest allur vélbátafloti Bolvíkinga hafi verið smíðaður af honum og sonum hans.

Bátar Fals þóttu afbragðs sjóskip, léttbyggðir og fallegir. Í bátum hans voru bönd grönn en styrkleikinn náðist með því að hafa skemmra á milli þeirra en almennt tíðkaðist. Lögun og gerð bátanna var miðuð við að hægt væri að taka þá á þurrt eftir hvern róður sem var nauðsynlegt við hafnlausa ströndina.

Burðargeta báta Fals var meiri en ætla mátti við fyrstu sýn því þeir voru botnmiklir og léttbyggðir.

Eftir því sem best er vitað þá var Falur eini bátasmiðurinn í Bolungarvík, á öðrum, þriðja og fram á fjórða áratug síðustu aldar, sem smíðaði þar þilfarsbáta.

Af vefsíðunni aba.is

100 ára og eldri

Þjóðskrá hefur tekið saman upplýsingar um elstu íbúa landsins. Í dag eru 41 einstaklingar 100 ára og eldri og þrír þeirra eiga maka á lífi.

Elsti núlifandi einstaklingurinn búsettur á Íslandi er kona fædd árið 1917 og er því 106 ára. Hún er búsett á Suðurlandi.  

Konur eru í meirihluta þeirra sem hafa náð 100 ára aldri eða alls 31 á meðan það eru 10 karlar sem eru 100 ára og eldri. Alls eru 17 einstaklingar 100 ára, þar af 14 konur og 3 karlar. 

Þeir einstaklingar sem eru yfir 100 ára eru alls 17 konur en 7 karlar. Ef við skoðum sérstaklega hvert ár þá eru 10 konur og 6 karlar 101 árs, 1 kona er 102 ára og 3 konur 103 ára. Þá eru 2 konur 104 ára, 1 karl 105 ára og ein kona er 106 ára.

Breyting á aðalskipulagi Tálknafjarðarhrepps

Skipulagsstofnun staðfesti 3. janúar 2024 breytingu á Aðalskipulagi Tálknafjarðarhrepps 2006-2018 sem samþykkt var í sveitarstjórn 29. nóvember 2023.

Í breytingunni felst að áformað er að framleiðsla seiðaeldisstöðvar á Gileyri verði aukin í allt að 1.000 tonna hámarkslífmassa og áætlað að eldisrými verði um 19.600 m3.

Hægt verður að nálgast aðalskipulagsbreytinguna á Skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar og í Skipulagsgátt þegar breytingin hefur öðlast gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Nýjustu fréttir