Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2318

Umfjöllun um Bræðratungu í Kastljósi í kvöld

Í Kastljósi kvöldsins á RÚV mun verða rætt við Guðmund Halldórsson skipstjóra um veru Halldóru dóttur hans á vistheimilinu Bræðratungu á Ísafirði. Halldóra sem er með Downs heilkennið dvaldi þar um árabil og segir Guðmundur að hún hafi þar verið beitt ofbeldi og þvingunum.

Vistheimilinu Bræðratungu var lokað haustið 2004 en hafði þá verið í rekstri í um 20 ár. Áherslur í umönnun og aðbúnaði fatlaðra hafði þá breyst og færst frá því að safna fötluðum saman á einn stað, oft í sparnaðarskyni, yfir í að gera þeim kleift að lifa sjálfstætt og innan um annað fólk.

Frá því að meðferð á drengjunum sem vistaðir voru í Breiðuvík komst í hámæli hefur hver stofnunin á fætur annarri sætt rannsókn, nú síðast Kópavogshæli þar sem upplýst hefur verið um gróft ofbeldi.

Haft var eftir Jóni Þorsteini Sigurðssyni, réttargæslumanni fatlaðra á Vesturlandi og Vestfjörðum, í blaðinu Vestfirðir á dögunum að hann hefði fengið fjölda ábendinga um illa meðferð fatlaðra einstaklinga á Bræðratungu. Jón segist hafa fengið nákvæmar lýsingar sem bendi til þess að íbúar hafi verið beittir nauðung, þvingunum og refsingum. Hann telur eðlilegt að rekstur Bræðratungu verði rannsakaður og hafi eitthvað misjafnt átt sér stað eigi vistmenn Bræðratungu rétt á sanngirnisbótum, rétt eins og íbúar á Kópavogshæli.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Ljósleiðaravæðing í Reykhólahreppi

Reykhólar.

Á dögunum boðaði sveitarstjórn Reykhólahrepps til íbúafundar þar sem áform um ljósleiðaravæðingu hreppsins var kynnt. Til stendur að leggja tæpa 74 km af ljósleiðara og tengja hann á tæpum 80 stöðum og hljóðar kostnaðaráætlun upp á 80 milljónir króna. Hreppurinn hefur fengið framlag vegna framkvæmdanna frá verkefninu Ísland ljóstengt og til viðbótar sérstakan byggðastyrk en kostnaður sveitarfélagsins er áætlaður 35 milljónir. Þetta kemur fram á vef Reykhólahrepps.

Reiknað er með að ljúka verkinu á þessu ári.

Ísland ljóstengt er opinbert átaksverkefni um byltingu í bættum fjarskiptum og markmiðið er að 99,9% heimila og fyrirtækja á landinu hafi innan fárra ára aðgengi að 100 Mb/s þráðbundinni tengingu.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Íbúasamráð í Ísafjarðarbæ

Stjórnsýsluhús Ísafjarðarbæjar

Á laugardaginn efnir Ísafjarðabær til málþings um íbúasamráð, það er haldið í Edinborgarhúsinu og er öllum opið. Fyrsta mál á dagskrá er erindi bæjarstjórans Gísla Halldórs Halldórssonar þar sem hann fjallar um aðkomu íbúa og tilgreinir sérstaklega sundhallir og reiðskemmur. Í ljósi undangenginna umræðna og að frétt um vinningstillögu vegna breytinga á Sundhöll Ísafjarðar er mest lesna fréttin á vef bb.is frá áramótum má reikna með að mikil áhugi sé á erindinu.

Á þinginu munu fulltrúar úr hverfisráðum sveitarfélagsins lýsa reynslu sinni af þessu nýja fyrirkomulagi. Anna Björnsdóttir sérfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga fer yfir hvers vegna og hvernig best sé að haga íbúasamráði og Nicole Leigh Musty, formaður Hverfisráðs Breiðholts segir frá íbúalýðræði í Reykjavík.

Að loknu hádegishléi verða svo vinnustofur þar sem verkefnið er að finna leiðir til að bæta íbúasamráð og styrkja hverfisráðin.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Aðalfundur skátafélagsins í kvöld

Skátafélagið Einherjar/Valkyrjan á Ísafirði heldur aðalfund sinn í skátaheimilinu að Mjallargötu klukkan 20 í kvöld, miðvikudag. Eru allir yngri sem eldri skátar velkomnir til fundarins sem og velunnarar skátahreyfingarinnar.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Neita sér um heilbrigðisþjónustu sökum kostnaðar

Konur eru líklegri en karlar til að neita sér um heilbrigðisþjónustu sökum kostnaðar er fram kemur í frétt á vef Hagstofu Íslands um niðurstöður evrópskrar heilsufarsrannsóknar sem sýna meðal annars að um 60% fólks telji sig þurfa á læknisþjónustu að halda, tannlæknaþjónustu eða lyfseðilskyldum lyfjum. Rúm 19% þeirra sem þurftu tannlæknaþjónustu neituðu sér hins vegar um hana sökum kostnaðar, 9,5% um lyfseðilskyld lyf og um 8% um læknisþjónustu. Tæp 22% töldu sig þurfa geðheilbrigðisþjónustu en rúm 33% þeirra töldu sig ekki hafa ráð á henni.

Ekkert samband er á milli tekna og þarfarinnar fyrir tiltekna heilbrigðisþjónustu að geðheilbrigðisþjónustu undaskilinni. Hlutfall þeirra sem töldu sig þurfa geðheilbrigðisþjónustu lækkaði eftir því sem tekjurnar voru hærri. Skýrt samband er hins vegar á milli tekna og þess að neita sér um tiltekna þjónustu sökum kostnaðar. Því lægri sem tekjurnar voru, því fleiri neituðu sér um þjónustu sem þeir töldu sig þurfa. Í neðsta tekjubilinu neituðu rúm 17% sér um læknisþjónustu, tæp 33% um tannlæknaþjónustu, tæp 17% um lyfseðilskyld lyf og um 45% um geðheilbrigðisþjónustu. Í efsta tekjubilinu neituðu tæp 3% sér um læknisþjónustu, tæp 8% um tannlæknaþjónustu, 3% um lyfseðilskyld lyf og um 21% um geðheilbrigðisþjónustu.

Evrópska heilsufarsrannsóknin er samræmd rannsókn á heilsufari og heilsutengdri hegðun sem hagstofur á Evrópska efnahagssvæðinu framkvæma. Rannsóknin var gerð á Íslandi haustið 2015. Í úrtaki voru 5.700 einstaklingar sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. Af þeim svaraði 70,2% þátttakenda eða 4.001 einstaklingur.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Lentu í snjóflóði í Botnsdal

Flóðið sem féll í Botnsdal í gær var nokkrir tugir að breidd. Mynd: Rúnar Óli Karlsson.

Fjórir fjallaskíðamenn lentu í snjóflóði í Botnsdal á áttunda tímanum í gærkvöldi. Þrír mannanna lentu í flóðinu sem var tugir metra á breidd, en sá fjórði náði að skíða niður á undan flóðinu. Mennirnir þrír bárust niður hlíðina með flóðinu mislanga vegu, en enginn lenti undir flóðinu að öllu. Einn mannanna slasaðist á fæti og þurfti hann aðstoð við að komast úr flóðinu og var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði í framhaldinu þar sem hann gisti í nótt. Flóðið varð norðanmegin í dalnum í 350-400m hæð rétt ofan við gangnamunna Vestfjarðaganga, en mennirnir sem eru allir vanir fjallaskíðamenn voru að ljúka stuttri skíðaferð þegar að flóðið kom.

Flóðið sem féll í Botnsdal í gær var nokkrir tugir að breidd. Mynd: Rúnar Óli Karlsson.

Rúnar Óli Karlsson er einn þeirra sem sem þarna var á ferð og segir hann flóðið hafa verið þurrt flekaflóð, talsvert breitt, en þunnt: „Svona flóð fara hratt og það þarf ekki mikið til að kippa fótunum undan mönnum. Það brotnaði fyrir ofan okkur á tveimur stöðum.“

Gott veður var er ferðin hófst en á þeim tíma sem flóðið féll hafði sól gengið til viðar og skyggni lítið. Rúnar Óli segir að þeir hafi gert mistök, þar sem þeir fóru niður í talsverðum bratta, en segir ólíklegt að flóð hefði orðið hefðu þeir valið að skíða niður innar í dalnum í minni halla. Hann segir þá hafa vanmetið aðstæður. Þeim hafi verið kunnugt um veikleika í Kistufelli sem er ofan Skutulsfjarðar eftir að gryfja var tekin þar á föstudag af starfsmönnum Snjóflóðasetursins, en þeir hafi ekki endilega talið að sama ætti við í Súgandafirði.

„Við skíðum mikið þarna og kannski er maður orðinn full heimavanur, en ég hef sjaldan séð náttúrulegt flóð þarna á þessum stað þegar við höfum verið að skíða, þó þetta sé mjög þekktur snjóflóðastaður. Við gerðum klárlega mistök og þetta fer í reynslubankann.“ Segir Rúnar Óli sem er flestum hnútum kunnugur í fjallaskíðamennsku og segir hann ekkert hafa bent til þess að flóð gæti fallið er þeir gengu upp fjallið. Mennirnir voru allir vel búnir og með snjóflóðaýlur á sér. Aðspurður um hvort skapa þurfi meira aðhald utan um umferð fólks til fjalla að vetrarlagi svarar hann að upplýsingagjöf til ferðamanna sé ábótavant hér á landi, en fjallamennska, þá aðallega fjallaskíðaiðkun hefur orðið vinsælli með hverju árinu sem líður. Rúnar Óli segir upplýsingargjöf þó hafa batnað mjög mikið á síðustu árum með snjóflóðaspá Veðurstofunnar: „En auðvitað ferðast maður í fjalllendi á eigin ábyrgð og þarf að taka mið af aðstæðum hverju sinni.“

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Ómskoðað í Árneshreppi

Guðbrandur Þorkelsson við fósturtalningar. Mynd: Litlihjalli.it.is

Í gær var verið að ómskoða fé hjá bændum á fjórum bæjum í Árneshreppi: Melum, Steinstúni, Árnesi og í Litlu-Ávík. Í ómskoðuninni eru taldir fósturvísar í ám til að vita hversu mörg lömb eru í hverri eða hvort þær kunni að vera geldar. Þessi vinna auðveldar bændum vinnu við sauðburðinn í vor. Það var Guðbrandur  Þorkelsson bóndi  að Skörðum í Dalasýslu sá um talninguna og vinnur hann mikið við þetta í sinni heimasveit og víðar. Frá þessu er greint á vef Litlahjalla og þar segir tæknin auðveldi þeim bændum sem nýti sér hana verkin. Þá séu augljósustu nýtingamöguleikar hennar skipulagning fóðrunar á síðari hluta meðgöngutíma ánna auk þess sem að vitneskjan geti skapað mikla möguleika til að skipuleggja alla vinnu á sauðburði. Þetta er sjöunda árið í röð sem bændur í Árneshreppi láta ómskoða til að telja fósturvísa.

annska@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Slydda og snjókoma

Spámenn Veðurstofunnar boða hæga vestlæga átt og léttskýjað í dag en að hann snúist í suðvestan 8-13 m/s í kvöld. Á morgun aftur á móti verð‘ann að sunnan með slyddu og snjókomu en gangi í suðvestan 15-20 með rigningu eða slyddu annað kvöld. Frost verði 2 – 8 stig í dag en hiti 0-3 stig á morgun.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Sirrý aflahæst í Bolungarvík

Sirrý ÍS 36

Skuttogarinn Sirrý ÍS 36 var aflahæsta skipið sem landaði í Bolungarvíkurhöfn á síðasta ári. Afli skipsins var rúmlega 3.700 tonn. Jakob Valgeir ehf. gerir Sirrý út og var togarinn keyptur í fyrra. Hafa ber í hug að Sirrý hóf ekki veiðar fyrr en í lok febrúar þannig að aflinn náðist á 10 mánuðum. Fréttvefurinn vikari.is greinir frá að dragnótarbáturinn Ásdís ÍS-2 landaði næstmest í Bolungarvík, eða rúmlega 1.900 tonnum en þar á eftir komu línubátarnir Fríða Dagmar ÍS-103 með 1.743 tonn og Jónína Brynja ÍS-55 með 1.731 tonn. Þá var dragnótarbáturinn Finnbjörn ÍS-68 með 1.512 tonna afla á síðasta ári.

Aðrir bátar sem náðu yfir 1.000 tonna afla árið 2016 voru línubátarnir Einar Hálfdáns ÍS-11 með 1.156 tonn, Otur II ÍS-173 með 1.079 tonn og Guðmundur Einarsson ÍS-155 með 1.027.

Samtals voru þessi 8 skip með tæplega 14.000 tonna afla eða rúmlega 70% af öllum lönduðum afla í Bolungarvík árið 2016 en heildaraflinn var rúmlega 19.000 tonn.

Auglýsing
Auglýsing

Systkinin unnu Strompaskautið

Gísli Einar og Katrín með farandbikarana.

Ísfirsku systkinin Gísli Einar og Katrín Árnabörn sigruðu í göngumótinu Strompaskauti sem skíðagöngufélagið Ullur hélt í Bláfjöllum á laugardaginn. Í kvennaflokki voru gengnir 15 km og Katrín kom fyrst í mark á tímanum 58:18. Í karlaflokki voru gengnir 30 km sem Gísli Einar gekk á 1:30:37. Katrín er búsett í Reykjavík og keppir fyrir Ull en Gísli Einar býr á Akureyri og keppir fyrir Skíðafélag Akureyrar.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir