Miðvikudagur 7. maí 2025
Heim Blogg Síða 2318

Bjóða upp á myndlistarnámskeið fyrir unglinga

Mynd úr safni frá Degi myndlistar í Edinborg .

Listaskóli Rögnvaldar Ólafssona stendur fyrir myndlistanámskeiði fyrir börn og unglinga á aldrinum 12 – 16 ára í Menningarmiðstöðinni Edinborg, námskeiðið stendur í rúman mánuð og verður kennt einu sinni í viku tvo tíma í senn. Kennari á námskeiðinu er myndlistarkonan Solveig Edda Vilhjálmsdóttir sem segir námskeiðið vera hvatningu fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á listum til að njóta eigin hæfileika og fá kost á að þjálfa þá.

Solveig hefur víðtæka reynslu af myndlist, bæði hefur hún verið iðin við eigin myndlist og hélt síðast einkasýningu í Bryggjusal Edinborgarhússins síðasta haust og einnig hefur hún talsvert fengist við að myndlistarkennslu og segir hún yndislegt að fá að sjá nemendur vakna og finna listamanninn í sér. Að þessu sinni segir Solveig áherslurnar vera á klassískar aðferðir í teikningu, litameðferð og málun.

Solveig Edda vinnur nú að næstu einkasýningu sem verður utan landssteinanna og einnig er hún í samstarfi við finnsku listakonurnar Hennu-Riikku Nurmi, Marjo Laathi og Johanna Hyytinen að sýningu sem nefnist Undir yfirborði og verður frumsýnd í haust.

Myndlistarnámskeiðið hefst 21.apríl og er skráning á listaskóli@edinborg.is og í síma 4565444.

annska@bb.is

Auglýsing

Rýmka kosti húsnæðisamvinnufélaga

Félags- og húsnæðismálaráðherra með nýtt frumvarp um húsnæðissamvinnufélög. Mynd: mbl.is /Eggert

Þorsteinn Víglundsson félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög sem hefur það markmið að rýmka kosti þeirra til fjármögnunar og stuðla þannig betur að sjálfbærum rekstri þeirra.

Samkvæmt gildandi lögum er fjármögnun húsnæðissamvinnufélaga bundin við lántökur hjá fjármálafyrirtækjum og lánastofnunum. Ákvæði laganna hvað þetta varðar hafa þótt binda hendur húsnæðissamvinnufélaga um of og koma í veg fyrir að þau geti fjármagnað sig með öðrum hætti sem kann að henta betur og vera hagstæðari fyrir félögin.

Með frumvarpi ráðherra er lagt til að þessar heimildir verið rýmkaðar þannig að félögunum verði heimilt að taka lán á almennum markaði og einnig að fjármagna sig með útgáfu skuldabréfa.

Markmið þeirrar lagabreytingar sem nú er fyrirhugað er að stuðla enn frekar að sjálfbærum rekstri húsnæðissamvinnufélaga. Þannig geti húsnæðissamvinnufélög kosið þá fjármögnun sem er hagstæðust og hentar best hverju sinni með hagsmuni félagsmanna í fyrirrúmi, að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem fylgir fjármögnuninni.

smari@bb.is

 

 

Auglýsing

Landsbankinn skuli vera í eigu allra Íslendinga

Auðkúluhreppur var hreppur norðan Arnarfjarðar í Vestur-Ísafjarðarsýslu, kenndur við bæinn Auðkúlu. Hreppurinn var sameinaður Þingeyrarhreppi 1. apríl 1990. Mynd: Mats Wibe Lund.

Búnaðarfélag Auðkúluhrepps kom saman til aðalfundar á laugardag og að vanda fóru umræður þar fram á hreinni vestfirsku. Á fundinum var samhljóða samþykkt sú tillaga að Landsbankinn skyldi vera að öllu leiti í eigu allra Íslendinga:

„Aðalfundur Búnaðarfélags Auðkúluhrepps krefst þess af Alþingi og ríkisstjórn að ekki verði seldur fimmeyringur í Landsbankanum. Fundurinn telur að alls ekki megi hleypa erlendum fjárglæframönnum og vogunarsjóðum með krumlurnar í sjóði hans. Það er álit fundarins að Landsbankinn eigi að vera 100% í eigu allra Íslendinga. Viðskiptabanki fyrir venjulegt fólk. Alveg eins og sparisjóðirnir voru. Það þarf að lýsa þessu yfir í eitt skipti fyrir öll fyrir hönd eigendanna. Bankinn á ekki að standa í neinu peningaþvætti.“

Þá spöruðu félagsmenn heldur ekki stóru orðin þegar málefni útgerðanna bar á góma: „Aðalfundur Búnaðarfélags Auðkúluhrepps ályktar að það sé algjörlega óásættanlegt að útgerðarmenn, að þeim ólöstuðum, ráði því hvar byggð skuli haldast í sjávarplássum á Íslandi. Fiskvinnslufólkið og íbúar byggðarlaga vítt og breitt um landið á sinn rétt engu síður en stórútgerðirnar.“

Þá var einnig skráð á fundinum brýning til ríkisstjórnar og Alþingis varðandi málefni Hrafnseyrar við Arnarfjörð um hvort ásættanlegt væri að fæðingarstaður Jón Sigurðssonar væri mannlaus eyðistaður 8 mánuði á ári.

annska@bb.is

Auglýsing

Hvalárvirkjun: Umfangsmikil skerðing á óbyggðu víðerni

Hvalárgljúfur og fossinn Drynjandi.

Skipulagsstofnun telur að helstu umhverfisáhrif Hvalárvirkjunar felist í umfangsmikilli skerðingu óbyggðs víðernis og breyttri ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis og landslagi þess, þar sem náttúrulegt umhverfi verður manngert á stóru svæði. Álit Skipulagsstofnunar á umhverfismati Hvalárvirkjunnar var birt í dag.

Það er fyrirtækið VesturVerk ehf. á Ísafirði sem vinnur að undirbúningi virkjunar Hvalár. Virkjunin er í  er í rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu orkuauðlinda Íslands. Áætluð stærð Hvalárvirkjunar er um 55 MW í uppsettu afli með 5818 klst. nýtingartíma á ári og orkugetu  upp á 320 Gwh á ári. Vesturverk í er í meirihlutaeigu HS Orku.

Mikið inngrip í vatnafar

Í áliti Skipulagsstofnunar segir að inngrip í vatnafar svæðisins verður mikið með tilkomu Hvalárvirkjunar og mun rennsli í Hvalá, Rjúkanda og Eyvindarfjarðará minnka verulega og hafa áhrif á ásýnd vatnsfallanna, meðal annars fossins Drynjanda í Hvalárgljúfrum, fossaraðar í Eyvindarfjarðará,  Hvalárfoss og Rjúkandafoss. Samlegð með áhrifum fyrirhugaðrar háspennulínu yfir Ófeigsfjarðarheiði og mögulegrar Austurgilsvirkjunar á Langadalsströnd eykur enn á áhrif Hvalárvirkjunar á landslag og víðerni.

Verulega neikvæð áhrif á landslag og víðerni

Skipulagsstofnun telur að áhrif Hvalárvirkjunar á ásýnd, landslag og víðerni verði verulega neikvæð þrátt fyrir mótvægisaðgerðir. Áhrif Hvalárvirkjunar á ferðaþjónustu og útivist ráðast fyrst og fremst af áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda á ásýnd og landslag. Sjónræn áhrif framkvæmdanna munu hafa bein áhrif á upplifun fólks á svæðinu og eru að mati Skipulagsstofnunar líkleg til að hafa talsverð til veruleg neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist. Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á jarðmyndanir og gróður verða talsvert neikvæð þar sem umfangsmikið svæði verður fyrir raski. Að mati stofnunarinnar er óvissa um áhrif framkvæmdanna á fuglalíf, vatnalíf í stöðuvötnum á Ófeigsfjarðarheiði og á menningarminjar sem krefst frekari athugana áður en til leyfisveitinga kemur.

 Leyfisveiting virkjunar og raflínu verði samhliða

Rekstur virkjunarinnar er háður því að lögð verði raflína frá virkjuninni að fyrirhuguðu tengivirki á Langadalsströnd við Ísafjarðardjúp. Lagning raflínunnar er á vegum annars framkvæmdaraðila og hefur ekki gengið í gegnum málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Því hefur á þessu stigi ekki verið lagt mat á umhverfisáhrif hennar og þeirra kosta sem til greina koma varðandi legu og útfærslu. Raflínan kemur til með að liggja um tvö sveitarfélög, Árneshrepp og Strandabyggð, en Hvalárvirkjun er öll innan Árneshrepps. Skipulagsstofnun telur æskilegt að leyfisveitingar til þessara framkvæmda sem háðar eru hvor annarri, þ.e. virkjunarinnar og raflínunnar, fari fram samhliða.

smari@bb.is

 

 

Auglýsing

„Það sem Bandaríkin, hafið og öll hin löndin kenndu mér“

Edward Huijbens er prófessor við Háskólann á Akureyri.

Háskólasetur Vestfjarða býður upp á skemmtilegan hádegisfyrirlestur miðvikudaginn  5. apríl þar sem Edward H. Huijbens, prófessor við Háskólann á Akureyri, mun segja ferðasögu sína og fjölskyldu sinnar haustið 2016, en þau dvöldu eina námsönn á farþegaskipi sem er einskonar fljótandi háskólasamfélag. Fyrirlesturinn nefnid Edward Á sjó … Það sem Bandaríkin, hafið og öll hin löndin kenndu mér.

Fjölskyldan lagði 18.000 sjómílur að baki, heimsótti 12 lönd og fimm af heimshöfunum sjö í 24.000 tonna skipi sem Institute of Shipborne Education rekur í Bandaríkjunum. Með í för voru um 600 háskólanemar og úr varð fljótandi háskóli sem margt má læra af. Erindið mun þætta saman við ferðasöguna pælingar um ferðamál, persónulegan lærdóm Edwards og hvað háskólasamfélagið getur lært af fljótandi háskóla hafanna.

Erindi Edwards er í léttum dúr og öllum aðgengilegt og eru allir þeir sem áhuga hafa, hvattir til að mæta. Að vanda fara hádegisfyrirlestrar Háskólaseturs fram í kaffistofu setursins. Erindið er flutt á íslensku og stendur frá 12.10-13.00.

Auglýsing

Samið við Kubb um gerð aurvarnargarðs

Núverandi flóðafarvegur ofan Hjallavegs.

Eitt tilboð barst í gerð aurvarnargarðs ofan Hjallavegs á Ísafirði og var það frá Kubbi ehf. á Ísafirði. Tilboðið hljóðaði upp á 63 milljónir króna. Tilboðið reyndist hærra en kostnaðaráætlun Framkvæmdasýslu ríkisins sem hljóðar upp 56 milljónir króna. Ákvörðun hefur verið tekin að ganga til samningar við Kubb.

Auvarnargarðurinn verður 650 m langur. Í fyrri áfanga, árið 2011, var nyrðri hluti garðsins formaður og eru nú um 170 m eftir af gerð hans. Þó á enn eftir að gera stóran hluta af farveginum í nyrðri hlutanum. Í verkinu felst einnig að leggja um 570 m langan vegslóða eftir botni flóðafarvegar og meðfram vegslóðanum skal gera lækjarfarveg. Jafnframt lagning um 170 m af göngustígum sem eftir er að leggja, mótun skeringa flóðmegin við garða og frágangur. Aurvarnargarðurinn gegnir því hlutverki að stöðva grjót og verður um 5 m á hæð þ.e. frá botni í flóðafarvegi og upp á topp garðs. Garðurinn er 1,5 m breiður í toppinn og breidd flóðafarvegar í botninn er um 4 m. Í garðinn þarf nú um 7 þús. m3 efnis. Magnið sem kemur upp úr farveginum er hins vegar um 23 þús. m3. Umframefni skal ekið á tipp í Grænagarðsnámu um vegslóða ofan varnargarða sem þegar hafa verið byggðir ofan byggðar á Ísafirði, neðan Gleiðarhjalla. Verkinu skal vera að fullu lokið eigi síðar en 31. október 2017.

Auglýsing

Tónleikar til heiðurs Cohen

Svokallaðir tribute- eða heiðurstónleikar hafa verið að ryðja sér til rúms í auknum mæli hin síðustu ár og taka tónlistarmenn sig þá til og heiðra listamenn lífs eða liðna með flutningi á verkum þeirra. Nú fer um landið hljómsveit sem minnist söngvarans og söngvaskáldsins Leonards Cohen á tónleikum sem kallast Leonard Cohen: A Memorial Tribute og mun hljómsveitin spila á tónleikum í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á laugardagskvöldið.

Kanadíski söngvarinn og skáldið Leonard Cohen lést á síðasta ári, þá 82ja ára að aldri og skilur hann eftir sig mikið af tónlist, sem hann gaf út á tæplega 50 ára ferli sínum sem tónlistarmaður og ber þar sennilega hæst lag hans Hallelujah, sem hefur fengið að hljóma í ófáum söng- og hæfileikakeppnum svo einhver dæmi séu tekin.

Heiðurshljómsveitina sem spilar í Edinborgarhúsinu skipa þau: Daníel Hjálmtýsson sem sér um söng og gítarleik, Benjamín Náttmörður Árnason, sem einnig spilar á gítar og sér um bakraddir, Magnús Jóhann Ragnarsson sem spilar á hljómborð, hljóðgervla og orgel, Pétur Daníel Pétursson sem sér um trommur og slagverk, Snorri Örn Arnarsson sem spilar á bassa, Ísold Wilberg Antonsdóttir og Guðrún Ýr Eyfjörð sem sjá um söng og bakraddir.

Tónleikaröð sveitarinnar hófst með beinni útsendingu úr Stúdíó 12 á Rás 2 og tónleikum á Græna Hattinum þann 3.febrúar sl. Seldist í kjölfarið upp á tónleika sveitarinnar á Café Rosenberg sem haldnir voru í febrúar og einnig verða þau að spila þar á föstudagskvöldið og er þegar uppselt á þá tónleika. Tónleikarnir verða sem áður segir á laugardagskvöldið og hefjast þeir klukkan 22, miðasala fer fram á miðasöluvefnum tix.is

annska@bb.is

Auglýsing

Afla­verðmæti ekki minna síðan 2010

Aflaverðmæti íslenskra skipa á öllum veiðisvæðum nam 133 milljörðum króna í fyrra og dróst saman um 12,1% frá fyrra ári. Samdráttinn má að langmestu leyti skrifa á gengisþróun krónunnar en gengisvísitala krónunnar lækkaði um 10,6% milli ára. Aflaverðmætið hefur ekki mælst jafn lágt síðan árið 2010 þegar það nam tæpum 133 milljörðum.  Frá þessu er greint í Hagsjá Landsbankans. Af einstökum tegundum hafði loðnubrestur mjög mikil áhrif á breytingu heildaraflaverðmætis milli ára en aflaverðmæti loðnu lækkaði úr tæpum 10 milljörðum niður í 2,7 milljarða. Næstmestu áhrifin voru í aflaverðmæti þorsks en það dróst saman um 3 milljarða króna.

Þar á eftir komu karfi með 2,3 milljarða samdrátt og aflaverðmæti ýsu lækkaði um 2,2 milljarða króna. Af þeim tegundum þar sem aflaverðmætið jókst milli ára voru makríll og norsk-íslensk síld með sitthvorn hálfan milljarð króna. Samdráttur loðnu skýrist fyrst og fremst af minni veiðum en þær drógust saman um 71% milli ára. Af öllum þeim tegundum sem veiddar eru af íslenskum skipum er loðnan sá fiskistofn sem skýrir mest af breytileikanum í aflaverðmæti á árabilinu 2005- 2016 og er þar í sérflokki. Þar á eftir kemur makríll og síðan þorskur.

Það sem þó dró úr samdrætti aflaverðmætis milli ára var að veiði á ýmsum botnfisktegundum jókst á milli ára. Þannig jókst þorskaflinn um 8,3%. Aflamagn ufsa jókst um 3%, karfa um 9,4% en einnig var meiri veiði í steinbít, úthafskarfa og hlýra. Ýsuaflinn minnkaði um 5,5 prósent.

smari@bb.is

 

Auglýsing

Heimiliskettir á Ísafirði drápust vegna eitrunar

Heimiliskettir á Ísafirði drápust vegna eitrunar

Tveir kettir hafa drepist á Ísafirði af því er virðist úr frostlagareitrun. Báðir kettirnir voru heimiliskettir við Urðarveg. Komið var með fyrri köttinn sem veiktist til dýralæknis á Ísafirði á miðvikudag og þurfti að aflífa hann síðar um daginn. Seinni kötturinn veiktist á fimmtudag og var farið með hann suður á Dýraspítalann í Garðabæ á föstudag eftir að hann hafði fengið mótefni hjá dýralækni á Ísafirði, en eftir að búið var að gera allt sem hægt var að gera fyrir hann á Dýraspítalanum þurfti í gær að aflífa hann vegna lifrarbilunar sem kötturinn fékk í kjölfar eitrunarinnar.

Ekki er vitað hvernig kettirnir komust í tæri við frostlöginn, en mögulegt er að þeir hafi komist í fötu sem notuð er til músaveiða, þar sem frostlegi er gjarnan blandað saman við vatn til að það frjósi ekki. Sigríður Inga Sigurjónsdóttir dýralæknir á Ísafirði segir slíkar gildrur afar varasamar þar sem önnur dýr geta komist í þær og þurfi helst að verða vitni að dýrunum komast í eitrið svo megi bjarga þeim, sem sé erfiðara í tilfelli katta en hunda til að mynda, þar sem kettir fara um á eigin vegum án eigenda sinna og því oft erfitt að bregðast fljótt við.

Frostlögur inniheldur ethylen glýkól sem er mjög eitrað fyrir dýr og menn. Innbyrði dýr frostlög þurfa þau að komast til dýralæknis innan þriggja tíma til að eiga möguleika á að lifa eitrunina af. Í desember síðastliðnum drápust kettir í Hafnarfirði eftir að hafa komist í frostlög og var þá sagt í frétt á Fésbókarsíðu Dýraspítalans í Garðabæ að kettir kæmust oftast í frostlög þegar hann hefur náð að leka í polla eða inni í bílskúrum og þar sem frostlögurinn er sætur á bragðið þá þætti dýrum hann ekki vondur og þannig gerðist það stundum að illvirkjar veldu þessa leið til að eitra fyrir dýrum.

Þar segir jafnframt um einkenni eitrunarinnar að þau komi fram allt frá hálfri klukkustund að tólf tímum eftir inntöku en oftast sé ferlið mjög hratt og kvalarfullt. Innan tveggja tíma eftir inntöku eitursins byrjar kettinum að líða mjög illa, slefar og verður niðurdreginn. Seinna eða daginn eftir hættir hann að éta, kastar upp ítrekað og á erfitt með að anda. Hann verður mjög máttfarinn, fær lömunareinkenni í útlimi og fellur í dá áður en hann deyr.

Birgitta Rós Guðbjartsdóttir er ein þeirra sem misstu köttinn sinn vegna eitrunarinnar á Ísafirði og segir hún að samkvæmt starfsfólki Dýraspítalans í Garðabæ, þangað sem kötturinn var sendur til meðferðar, allar líkur á að um eitrun af völdum frostlagar hafi verið að ræða. Matvælastofnun hefur tekið dýrið til krufningar og er niðurstaðna að vænta eftir páska. MAST biður þá sem grunar að kötturinn sinn hafi fengið samskonar eitrun að tilkynna það til þeirra.

annska@bb.is

Auglýsing

Þrefalt fleiri ferðamenn fá heilbrigðisþjónustu

Um þrefalt fleiri fleiri ferðamenn fengu heilbrigðisþjónustu hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða í fyrra samborið við árið 2009. Alls komu 109 erlendir ferðamenn á stofnunina árið 2009 en í fyrra voru þeir 309 talsins. Þetta er meðal þess sem lesa má úr svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Hönnu Katrínar Friðriksson, þingmanns Viðreisnar. Sé horft á landið allt voru komur erlendra ferðamanna á heilbrigðisstofnanir tæplega þrefalt fleiri, fóru úr 5.914 komum árið 2009 í 14.453 árið 2016.

Á tímabilinu má sjá að aukningin er mest á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þangað leituðu 3.256 ferðamenn í fyrra samanborið við 398 árið 2009. Fjöldi ferðamanna á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Norðurlands ríflega þrefaldaðist á tímabilinu. Heildargreiðslur erlendra ferðamanna fjórfölduðust á tímabilinu, námu rúmum 778 milljónum í fyrra samanborið við tæpar 177 milljónir 2009.

smari@bb.is

 

 

Auglýsing

Nýjustu fréttir