Mánudagur 5. maí 2025
Heim Blogg Síða 2317

Mótmæla áformum Arnarlax

Veiði- og stangveiðifélög við Eyjafjörð, átta talsins, mótmæla harðlega áætlun Arnarlax ehf. á Bíldudal um framleiðslu á 10.000 tonnum af frjóum eldislaxi af norsku kyni í Eyjafirði, en Arnarlax gaf nýlega út drög tillögu að matsáætlun sjókvíaeldis í firðinum. Nái hún fram að ganga gætu orðið að jafnaði fimm milljónir frjórra laxa í sjókvíum í Eyjafirði. Augljós hætta stafar af slíku eldi fyrir veiðiár í Eyjafirði sem og náttúruna í heild, segir í tilkynningu félaganna. Þar segir jafnframt að viðurkennt sé að einn lax sleppi fyrir hvert tonn af laxi sem framleitt er. Samkvæmt því munu um 10.000 laxar sleppa úr kvíum Arnarlax í Eyjafirði á hverju ári sem er tíu til tuttugufalt fleiri laxar en ganga í Fnjóská á hverju ári. Líkurnar á því að laxastofninn í Fnjóská þoli slíkt álag frá framandi stofni eru engar. „Þá stefnir þetta eldi einnig öðrum ám í verulega hættu. Má þar nefna Laxá í Aðaldal, Skjálfandafljót, Fljótaá, Blöndu, Vatnsdalsá og Víðidalsá.“ Veiði- og stangveiðifélögin í Eyjafirði hvetja stjórnvöld til að hafna þessum áformum. Jafnframt hvetja þau sveitarfélög, veiðifélög, smábátasjómenn, veiðimenn og náttúruunnendur til að mótmæla þessum áformum á öllum stigum. „Fram undan er hörð barátta til verndar náttúrunni í Eyjafirði,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar.

Auglýsing

Keyrði undir áhrifum fíkniefna

Einn ökumaður var kærður í vikunni fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Sá var í akstri á Patreksfirði um miðjan dag þann 29. mars. Þetta kemu fram í yfirliti lögreglunnar á Vestfjörðum um verkefni síðustu viku. Þrír ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur. Þeir voru allir í akstri í Strandasýslu.

Númeraplötur voru teknar af einu ökutæki á Ísafirði. En vanrækt hafði verið að færa það til reglulegrar skoðunar.

Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma meðan á akstri stóð, án þess að nota handfrjálsan búnað. Einn þessara ökumanna var ekki með öryggisbelti spennt. Þá voru aðrir tveir ökumenn kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti. Þessir ökumenn voru í akstri á Ísafirði, Bolungarvík og í Súðavík.

Lögreglan mun áfram gefa þessum öryggisþáttum sérstakan gaum. Ástæða er til að hvetja ökumenn til að einbeita sér að akstrinum og ef nota þarf farsíma meðan á akstri stendur, nota þá handfrjálsan búnað. Þá eru ökumenn og ekki síður farþegar hvattir til að nota öryggisbeltin eins og lög kveða á um.

Auglýsing

Má vera berbrjósta í sundi

Bikini, burkini eða bara skýla

Ekki er lagalegur grundvöllur fyrir því að sveitarfélög setji sundlaugargestum skorður varðandi klæðaburð. Þetta er álit Unnars Steins Bjarndals hæstaréttarlögmanns en íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar fékk hann til að fjalla um þetta mál. Ráðið tók undir niðurstöðu Unnars á fundi þess í febrúar og lagði til við bæjarstjórn Reykjanesbæjar að ekki verði farið gegn álitinu. Tilefni álitsgerðarinnar var mikil umræða um það í samfélaginu hvort fyrir hendi séu reglur, skráðar eða óskráðar, sem gilda um klæðaburð sundlaugargesta. Fyrr á árinu kom upp atvik þar sem berbrjósta konu var vísað upp úr Jaðarsbakkalaug á Akranesi. Haft var eftir forstöðumanni íþróttamannvirkja á Akranesi að engar starfsreglur lægju fyrir um hvernig bregðast skyldi við slíkum atvikum. Í gildi væri óskráð meginregla í sveitarfélaginu um að konur þyrftu að klæðast bikinítopp. Þetta kemur fram í frétt á ruv.is í gær.

Ekki liggur fyrir hvað reglur gilda í Sundlaugum Ísafjarðarbæjar eða Bolungarvíkur hvað þetta varðar. Engu að síður virðist aðgerðarhópur vestfirskra kvenna hafa fjölmennt í Sundhöll Ísafjarðar berar að ofan og haft var eftir ábyrgðarkonu aðgerðanna að karlmönnum yrði tekið fagnandi. Þetta kom fram á bb.is þann 1. apríl 2015

bryndis@bb.is

 

Auglýsing

Þjóðaratkvæði um framtíð Reykjavíkurflugvallar

Átján þingmenn úr fjórum flokkum, Sjálfstæðisflokknum, Pírötum, Framsóknarflokknum og Vinstri grænum, hafa lagt fram þingsályktunartillögu um framtíð Reykjavíkurflugvallar en staðsetning flugvallarins í Vatnsmýrinni hefur lengi verið umdeild.
Lagt er til að eftirfarandi spurning verði borin upp:

„Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík?” og svarmöguleikar gefnir „já“ eða „nei“.

Þingsályktunartillagan er endurflutt frá síðasta löggjafarþingi en flutningsmenn voru þá Ögmundur Jónasson ásamt fleirum. Fjórir þingmenn Norðvesturkjördæmis eru meðal flutningsmanna tillögunnar nú, þau Lilja Rafney Magnúsdóttir, Haraldur Benediktsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Ela Lára Arnardótttir.

Samkvæmt greinargerð með þingsályktunartillögunni er markmið hennar að þjóðin fái að hafa áhrif á staðsetningu miðstöðvar innanlands- og sjúkraflugs í náinni framtíð. Þar er einnig sagt ljóst að flugvöllurinn og staðsetning hans gegni mikilvægu öryggishlutverki fyrir almenning.

smari@bb.is

 

Auglýsing

Gull í boðgöngu

Anna María Daníelsdóttir í brautinni á Landsmóti.

Mæðgurn­ar Hólmfriður Vala Svavars­dótt­ir og Anna María Daní­els­dótt­ir voru í sveit Skíðafé­lags Ísfirðinga sem sigraði í boðgöngu á Skíðamóti Íslands á Ak­ur­eyri í gær. Sól­veig María Asp­e­lund skipaði sveit­ina ásamt mæðgun­um.

Tími Ísfirðinga var 0:33:09 en Ak­ur­eyr­ing­ar urðu í öðru sæti á 0:36:48. Í þeirri sveit voru Bryn­dís Inda Stef­áns­dótt­ir, Gígja Björns­dótt­ir og Veronika Lag­un.

Sveit Akureyringa sigraði einnig í karlaflokki, ellefta árið í röð. Sveit­ina skipuðu Ólymp­íufar­inn Brynj­ar Leó Krist­ins­son, Vadim Gusev og Gísli Ein­ar Árna­son. Tími þeirra var  1:09:16.

Sveit Ísfirðinga varð önn­ur á 1:10:30 en hana skipuðu þeir Daní­el Jak­obs­son, Dag­ur Bene­dikts­son og Al­bert Jóns­son.

Auglýsing

Kólnar í dag

Í gær kom hlýtt loft yfir landið úr suðri með tilheyrandi rigningarsudda. Hlýja loftið víkur í dag, því kuldaskil fara yfir landið. Áður en dagurinn er liðinn munu allir landshlutar hafa fengið úrkomu og það verður ýmist rigning, slydda eða snjókoma. Veðurstofan spáir sunnan 5-10 m/s á Vestfjörðum í dag og 4-8 stiga hita. Snýr sér í vestlægari átt um hádegi með slyddu snjókomu og kólnandi veðri. Vaxandi norðanátt seint annað kvöld með snjókomu.

Auglýsing

Ný Ásdís komin heim

Útgerðarmennirnir Jón Þorgeir (t.v.) og Guðmundur Einarssynir.

Á föstudaginn kom Ásdís ÍS til heimahafnar í Bolungarvík. Ásdís er glæsilegur dragnótarbátur í sem útgerðarfélagið Mýrarholt ehf. festi kaup á fyrr í vetur. Báturinn kemur í stað minni dragnótarbáts með sama nafni sem Mýrarholt hefur gert út í þrjú ár með eftirtektarverðum árangri. Gamla Ásdísin fiskaði heil 1.900 tonn á síðasta ári og var aflahæst dragnótarbáta á landinu. Þá hefur Ásdís einnig verið á rækjuveiðum í Ísafjarðardjúpi og svo verður einnig um nýja bátinn.

Nýja Ásdísin er smíðuð í Póllandi árið 1999 og er hönnuð og sérútbúin til dragnótarveiða og hét áður Örn GK. Hún er mun stærri en fyrirrennari hennar og munar mestu um að báturinn er átta metra breiður, þremur metrum breiðari en gamla Ásdísin. Mýrarholt er í eigu bræðranna Guðmundar og Jóns Þorgeirs Einarssona og fjölskyldna þeirra. Skipstjóri á Ásdísi er Einar Guðmundsson.

smari@bb.is

 

Auglýsing

Vestfirskur sigur í Músiktilraunum

Katla Vigdís Vernharðsdóttir frá Suðureyri og Ásrós Helga Guðmundsdóttir fá Núpi í Dýrafirði sigruðu Músíktilraunir 2017 en úrslitakvöldið fór fram á laugardagskvöld. Dúettinn kalla þær Between Mountains. Þær voru einnig valdar söngvarar Músíktilrauna. Hljómsveitin er ekki gömul, einungis stofnuð fyrir mánuði síðan til að taka þátt í Samvest, undankeppni Samfés söngvakeppninni. Næsta skref hjá þeim stöllum er að spila á Aldei fór ég suður tónlistarhátíðinni, en síðustu ár hefur sigurvegari Músiktilrauna átt fast sæti á hátíðinni.

Katla Vigdís er dóttir Svövu Ránar Valgeirsdóttur og Vernharðs Jósefssonar og Ásrós dóttir Guðmundar Ásvaldssons og Unnar Bjarnadóttur.

Til gamans má geta að bræður Kötlu Vigdísar sigruðu í Músíktilraunum fyrir tveimur árum með hljómsveitinni Rythmatik.

smari@bb.is

 

Auglýsing

Endurbætur á Sundlaug Flateyrar

Framkvæmdir á Flateyri Mynd: Marzellíus Sveinbjörnsson

Sundlaugin á Flateyri hefur nú verið lokuð í nokkra daga og verður væntanlega lokuð bróðurpartinn af næstu viku. Ástæðan er viðhald og endurbætur á húsnæði og pottum. Galli reyndist vera í efni á hliðum og botni nýju útipottana og hefur það verið fjarlægt af hliðum og vonast er til að það dugi. Bláa mjúka kurlið reyndist gefa frá sér mikinn lit og þar að auki var full mikil flótti í því sem ekki er mjög hollt fyrir frárennsli frá pottunum. Rennihurðin út á útisvæðið var sömuleiðis frekar til vandræða og nú á að ráða bót á því.

Lagfæring á útipottum. Mynd: Marzellíus Sveinbjörnsson
Nýr 12 manna pottur. Mynd: Marzellíus Sveinbjörnsson

Fjárfest hefur verið í 12 manna innipotti í stað þess gamla sem var orðinn ónýtur.

Til stendur að ljúka framkvæmdum fyrir páska enda gestkvæmt á Flateyri eins og annarsstaðar yfir hátíðarnar.

 

PÁSKAOPNUN 2017 Á Flateyri

Þriðjudagur 11. apríl 13:00 – 19:00

Miðvikudagur 12. apríl 13:00 – 19:00

Skírdagur 13. apríl 13:00 – 19:00

Föstudagur 14. apríl 13:00 – 19:00

Laugardagur 15. apríl 13:00 – 19:00

Páskadagur 16. apríl 11:00 – 17:00

Mánudagur 17. apríl LOKAÐ

 

Bryndís

 

Auglýsing

Halli á vöruviðskiptum

Á tveimur fyrstu mánuðum ársins nam halli á vöruviðskiptum við útlönd 21,4 milljörðum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni. Verðmæti vöruútflutnings var 19.3 milljörðum króna lægra en á sama tíma í fyrra, miðað við gengi hvors árs, að stórum hluta til vegna samdráttar í verðmæti útfluttra sjávarafurða. Verðmæti þeirra dróst saman um ríflega 40 prósent milli ára vegna verðlækkunar, auk þess sem reikna má með að áhrifa af verkfalli sjómanna gæti enn í þessum tölum, segir í tilkynningu Hagstofunnar.

Smári

Auglýsing

Nýjustu fréttir