Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2317

10% aflasamdráttur á fyrstu sex mánuðunum

Heildarafli íslenska flotans á fyrri helmingi fiskveiðiársins, frá 1. september 2016 til loka febrúar 2017, var um 48 þúsund tonnum minni en á sama tímabili fiskiveiðiárið á undan. Aflinn nam tæpum 425 þúsund tonnum upp úr sjó á yfirstandandi fiskveiðiári, en var á sama tímabili í fyrra 472 þúsund tonn, sem er um 10% samdráttur. Meginskýringin á þessu er sjómannaverkfallið sem stóð í um 8 vikur. Mun meira eftir af aflamarki Á fyrri helmingi yfirstandandi fiskveiðiárs veiddu íslensk skip tæplega 31 þúsund tonni minna af þorski úr sjó en á fyrra ári. Samdráttur í ýsuafla var um 7,5 þúsund tonn. Heildaraflinn í botnfiski er á fyrri helmingi fiskveiðiársins tæp 176 þúsund tonn upp úr sjó en var 240 þúsund tonn á sama tímabili í fyrra. Þetta er um 27% samdráttur. Á fyrri helmingi fiskveiðiársins nam uppsjávarafli íslenskra skipa 246 þúsund tonnum. Milli ára varð talsverð aukning í makríl og loðnu en samdráttur í kolmunna.

Á miðju fiskveiðiári 2016/2017 höfðu aflamarksskip einungis nýtt um 42% af aflaheimildum sínum í þorski (er þá tekið tillit til flutnings heimilda frá fyrra fiskveiðiári, sérstakra úthlutana auk almennrar úthlutunar á grundvelli aflahlutdeildar). Á fyrra fiskveiðiári var þetta hlutfall 58% þannig að þarna eru áhrif verkfallsins augljós, segir á vef Fiskistofu. Þegar litið er til aflamarks í ýsu á sama tímabili þá hafa aflamarksskip veitt nýtt 30% ýsukvótans en 33% á fyrra ári. Í heildina þá hafa aflamarksbátar notað 35% af heildaraflamarki sínu fyrir yfirstandandi fiskveiðiár en 47% á fyrra ári.

Í heildina hafa krókaaflamarksbátar notað 48,9% af heildaraflamarki sínu fyrir yfirstandandi fiskveiðiár en 50,8% á fyrra ári. Krókaaflamarksaflinn og kvótastað- an eru því í góðu jafnvægi sem bendir til að verkfallið hafði þar minni áhrif eins og búast mátti við.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Grásleppan á uppleið

Verð fyrir grásleppu fer nú smám saman hækkandi.  Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir í samtali við fréttastofu RÚV að verðið nálgist 180 krónur fyrir kílóið, en 110 krónur voru boðnar í fyrstu. Þetta auki bjartsýni grásleppusjómanna enda þýði þessi hækkun vel á annað hundrað milljónir króna í aukin aflaverðmæti miðað við sömu veiði og á síðustu vertíð. Þá greiddu kaupendur 155 krónur fyrir kílóið af grásleppu.

Grásleppuveiðar á Vestfjörðum hefjast þann 1. apríl, nema á Ströndum þar sem fyrstu net máttu fara í sjó 20. mars.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

3,2% atvinnuleysi

At­vinnu­leysi í fe­brú­ar var 3,2% sam­kvæmt vinnu­markaðsrann­sókn Hag­stofu Íslands. Að jafnaði voru 199.300 manns á aldr­in­um 16–74 ára á vinnu­markaði þann mánuð, sem jafn­gild­ir 82,8% at­vinnuþátt­töku. Af þeim voru 192.900 starf­andi og 6.500 án vinnu og í at­vinnu­leit.

Hlut­fall starf­andi af mann­fjölda var 80,1% og hlut­fall at­vinnu­lausra af vinnu­afli var 3,2% að því er seg­ir í frétta­til­kynn­ingu Hag­stofu. Þá sýn­ir sam­an­b­urður mæl­inga fyr­ir fe­brú­ar í fyrra að at­vinnuþátt­taka jókst um 0,7 pró­sentu­stig.

Fjöldi starf­andi jókst um 7.800 manns og at­vinnu­laus­um fækkaði um 600 manns.

Íslensk­ur vinnu­markaður sveifl­ast reglu­lega milli mánaða vegna árstíðabund­inna þátta, en þegar horft er til síðustu sex mánaða þá sýn­ir leitni vinnu­aflstalna að at­vinnu­leysi hef­ur nán­ast staðið í stað. Á síðustu tólf mánuðum hef­ur það hins veg­ar lækkað lít­il­lega eða um 0,2 pró­sentu­stig.

Hlut­fall starf­andi síðustu sex mánuði hef­ur einnig lækkað lít­il­lega eða um 0,2 stig, en aft­ur á móti auk­ist um 0,6 stig þegar horft er til þró­un­ar síðustu tólf mánaða.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Eitt stærsta verkefni ferðaþjónustunnar

Frá undirritun samninganna.

Ferðamálastofa hefur gengið til samninga um gerð stefnumarkandi stjórnunaráætlana (e. Destination Management Plan) í öllum landshlutum. Þetta er eitt stærsta verkefni á sviði ferðaþjónustu sem ráðist hefur verið í hér á landi. Samið verður við markaðsstofur landshlutanna og Höfuðborgarstofu um að leiða vinnuna í hverjum landshluta en Ferðamálastofa og Stjórnstöð ferðamála hafa átt samvinnu um verkefnið, ásamt markaðsstofum landshlutanna.

„Þetta er eitt stærsta samhæfða þróunarverkefnið sem ráðist hefur verið í hér á landi. Í gerð stefnumótandi stjórnunaráætlana felst heildstætt ferli þar sem litið er til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á hverju svæði. Þá horfum við til þarfa heimamanna, fyrirtækja og umhverfisþátta jafnt sem gesta,“ segir Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri í tilkynningu.

Afurð verkefnisins felur í sér sameiginlega stefnuyfirlýsingu sem hefur það að markmiði að stýra uppbyggingu og þróun svæðis yfir ákveðinn tíma, skilgreina hlutverk hagsmunaaðila, tiltaka beinar aðgerðir sem hver og einn hagsmunaaðila ber ábyrgð á og hvaða bjargir/auðlindir þeir hyggjast nýta við þá vinnu. Gert er ráð fyrir til að áætlanagerðinni sjálfri ljúki á árinu 2018. „Niðurstöðurnar munu stuðla að markvissri þróun ferðaþjónustu í hverjum landshluta og auðvelda opinbera ákvarðanatöku sem snýr til dæmis að skipulagsmálum, uppbyggingu þjónustu, aðgangsstýringu og markaðsáherslum,“ segir Ólöf.

Svæðisbundin þróun hefur verið eitt af áherslusviðum Ferðamálastofu undanfarin misseri og hefur þetta metnaðarfulla verkefni verið í undirbúningi hjá stofnuninni síðan í upphafi árs 2015. Þetta er eitt af þeim forgangsverkefnum, sem skilgreind voru í Vegvísi fyrir ferðaþjónustuna, sem birtur var í lok árs 2015, en Ferðamálastofa og Stjórnstöð ferðamála hafa átt samvinnu um gangsetningu verkefnisins, sem fyrr segir.

Stjórnstöð ferðamála leiddi saman hagsmunaaðila og hefur samhæft undirbúning og innleiðingu verkfæra og aðferðafræði, en Ferðamálastofa fjármagnar verkefnið og heldur utan um framkvæmd þess. Stofnunin mun þannig beina 100 milljónum kr. af verkefnafé sínu til framkvæmdar verkefnisins á næstu 12 mánuðum.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Ísafjarðarbær og Viðlagatrygging semja um bætur

Það fór allt á flot á Ísafirði í dæmalausri rigningu og asahláku í febrúar 2015.

Niðurstaða er komin í bótakröfu Ísafjarðarbæjar á hendur Viðlagatryggingu Íslands vegna tjóns sem hlaust á eigum bæjarins í vatnsflóðunum 8. febrúar 2015. Viðlagatrygging greiðir bænum 23 milljónir kr. og koma þær til viðbótar 13 milljónum kr. sem ákveðnar voru á fjárlögum 2015. Um er að ræða samkomulagsbætur og með greiðslu þeirra telst málið endanlega lokið af hálfu beggja aðila.

Íþróttamannvirkin á Torfnesi voru ekki tryggð og njóta því ekki tryggingaverndar frá Viðlagatryggingu Íslands. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðbæjar, segir að niðurstað málsins sé viðunandi, sé horft fram hjá tjóni á fótboltavöllunum.

Skömmu eftir flóðin hafnaði stjórn Viðlagatryggingar bótakröfunni á þeim forsendum að tjónið félli ekki undir bótasvið Viðlagatryggingar. Ísafjarðarbær kærði úrskurðinn og  fyrir ári síðan felldi úrskurðarnefnd Viðlagatryggingar ákvörðunina úr gildi vegna mikilla annmarka á úrskurðinum.

Samkvæmt samkomulaginu lýsir Ísafjarðarbær því yfir að fallið er frá öllum kröfum, hvaða nafni sem þær nefnast, á hendur Viðlagatryggingu Íslands vegna vatnsflóðanna á Ísafirði og á Suðureyri.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Ferðamenn versla lítið í Ríkinu

Áfeng­isneysla ferðamanna fer fyrst og fremst fram á vín­veit­inga­stöðum. Þannig námu út­gjöld ferðamanna á bör­um hér á landi um 2,5 millj­örðum króna á síðasta ári sem ger­ir um 1.400 krón­ur á hvern ferðamann. Þetta sam­svar­ar því að hver ferðamaður hafi að meðaltali keypt sér rúm­lega einn bjór á bar hér á landi á síðasta ári. Þetta kem­ur fram í nýrri grein­ingu Hag­fræðideild­ar Lands­bank­ans á versl­un og þjón­ustu sem greint er frá í Morgunblaðinu

Til sam­an­b­urðar var korta­notk­un er­lendra ferðamanna í ÁTVR um 829 millj­ón­ir króna eða þriðjung­ur af neysl­unni á bör­um. Tölu­verður hluti áfeng­isneyslu fer einnig fram á veit­inga­stöðum og er hluti ÁTVR því enn minni en ætla má af of­an­greindu. Ef gert er ráð fyr­ir að um 30% af reikn­ingi á veit­inga­hús­um sé áfengi fer hlut­fall þess áfeng­is sem ferðamenn kaupa í gegn­um ÁTVR niður í 11,6%.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Ráðherra veldur vonbrigðum

Guðjón Brjánsson

Skyldur og ábyrgð velferðarráðuneytisins um forvarnir fellur undir ábyrgðasvið heilbrigðisráðherra og hann sem slíkur ber ábyrgð á forvörnum og lýðheilsu samkvæmt forsetaúrskurði. Með lýðheilsu er átt við aðgerðir hins opinbera og annarra sem miða að því að viðhalda og bæta heilbrigði, líðan og aðstæður einstaklinga, þjóðfélagshópa og þjóðarinnar í heild. Unnið er að þessu með heilsueflingu, forvörnum og heilbrigðisþjónustu og markmiðið er að efla og bæta lýðheilsu.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um að leyfa sölu áfengis (bjór, léttvíns og sterks víns) í venjulegum matvöruverslunum. Þetta er forgangsmál Sjálfstæðisflokksins á þingi og flutningsmaður er Teitur Björn Einarsson, þingmaður Norðvesturkjördæmis. Í umræðu um áfengisfrumvarpið var ráðherra spurður beint út, hvort hann styddi frumvarpið. Ráðherra svaraði því til að hann óskaði eftir að frumvarpið fengi þinglega meðferð, fengi umsagnir frá almenningu, heilbrigðis- og félagsþjónustu, aðilum í verslun og þjónustu og að hann vildi sjá hvernig frumvarpinu reiddi af áður en hann gæfi upp sína endanlega afstöðu. Í umræðunni vitnaði ráðherra í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar sem sérstök áhersla er lögð á að draga skuli úr beinum og óbeinum samfélagskostnaði með því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu. Hann bætti við að í mótun sé heilbrigðisstefna sem samhæfir og treystir heilbrigðisþjónustuna, bætir lýðheilsu og stuðlar að heilbrigði landsmanna. Hann drap líka á að stóraukið aðgengi að áfengi geti ekki samræmst stefnu um lýðheilsu.

Ráðherra tók ekki beina afstöðu gegn frumvarpinu í umræðunni. Þar með gengur hann gegn öllum þeim sem starfa að lýðheilsu og forvörnum í landinu. Með afstöðu sinni styður hann ekki þá aðila sem berjast gegn frumvarpinu. Þetta eru kaldar kveðjur til fjölda fólks sem telur að með samþykkt frumvarpsins muni áfengisneysla aukast með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Verra er að ráðherra skuli ekki geta staðið af festu í báða fæturna í þessu máli, sem er að viðhalda og bæta heilbrigði. Væntingar til heilbrigðisráðherra eru þær að hann taki skýra afstöðu gegn áhrifaöflum sem berjast fyrir aukinni óheilsu og verra heilsufari þjóðarinnar.

Það er haft á orði að ráðherra eigi erfitt með að taka ákvarðanir. Í þessu mikilvæga máli á að vera auðvelt að taka af skarið og standa af einurð með viðleitni okkar sem bæta vilja heilsu almennings.

 Guðjón S. Brjánsson alþingismaður

Auglýsing
Auglýsing

Djassveisla á Húsinu

Tríóin sem troða upp á Húsinu í kvöld.

Það verður sannkölluð djassveisla á Húsinu á Ísafirði í kvöld þegar hljómsveitirnar Equally Stupid og Tríó Alex Jønsson troða upp. Hljómsveitin Equally Stupid er tríó stofnað af Sigurði Rögnvaldssyni gítarleikara og saxófónleikaranum Pauli Lyytinen. Tónlist þeirra er kraftmikil og oft hröð en jafnframt melódísk.

Equally Stupid gáfu út sína aðra plötu, Escape from the Unhappy Society, núna í janúarog fylgdu plötunni eftir með tveggja vikna tónleikaferð um Finnland. Núna eru þeir á ferð um Norðurlöndin til að kynna nýju plötuna. Hljómsveitina skipa Sigurður Rögnvaldsson á gítar, Pauli Lyytinen á saxófón og David Meier á trommur og hafa þeir verið virkir bæði í norrænu djasssenunni og víðar í Evrópu.

Ár 2013 var Alex Jønsson tilnefndur sem „besti nýliði í djassi“á dönsku tónlistarverðlaununum. Nýlega stofnaði hann sitt eigið tríó ásamt bassaleikaranum Jens Mikkel og trommuleikaranum Andreas Skamby. Alex skapar ljúft andrúmsloft með tónlist sinni sem byggir á fallegum laglínum og spuna. Eftir að hafa gefið út plötuna „Spy on Your Friends“ ár 2015 þá hefur tríóið spilað víða um Danmörku, í Norðurlöndunum og Eystrarsaltsríkjunum.

Tónleikarnir hefjast kl. 21.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Bæjarins besta 12. tbl, 34. árgangur

12. tbl. 2017

Auglýsing
Auglýsing

Grágæsin komin

Grágæsir á túni á Höfða í Dýrafirði. Mynd: Náttúrustofa Vestfjarða / Cristian Gallo.

Grágæsin er komin til Vestfjarða. Á vef Náttúrustofu Vestfjarða segir að í síðustu viku hafi Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum við Steingrímsfjörð séð átta gæsir á Þröskuldum í norðan hríðarhraglanda. Í þessari viku sá starfsmaður Náttúrustofunnar 40 grágæsir við Höfða í Dýrafirði og 18 fugla í Önundarfirði.

Grágæs (Anser anser) er farfugl sem dvelur á Bretlandseyjum yfir vetrartímann en kemur til Íslands til að dvelja hér frá mars til október. Grágæsin er stærst þeirra gæsa sem verpa og dvelja hérlendis en hún er 75-90 cm að stærð og vegur um 3,5 kg. Hún verpur í maí og þá alltaf nálægt vatni, í mýrum, hólmum, grónum eyjum, á vatnsbökkum eða í lyngmóum. Grágæsir halda sig oftast í hópum utan varptíma og fara þá um í svokölluðu oddaflugi en þær halda sig þá oft á ræktuðu landi, á ökrum, í votlendi og á túnum.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir