Mánudagur 28. október 2024
Síða 231

Suðureyri: 4.110 tonna afli á síðasta ári

Einar Guðnason ÍS. Mynd: Suðureyrarhöfn.

Alls bárust 4.110 tonn af botnfiski að landi í Suðureyrarhöfn á síðasta ári samkvæmt yfirliti Fiskistofu. Athyglisvert að eingöngu var um veiðar með öngli að ræða, línuveiðar, handfæri og sjóstangveiði.

Fjórir bátar voru á línuveiðum. Aflahæstir þeirra voru Einar Guðnason ÍS sem landaði 2.250 tonn á árinu og Hrefna ÍS aflaði 877 tonnum.

Strandveiðibátar á handfærum lönduðu nærri 400 tonnum í Suðureyrarhöfn í sumar.

Ísafjarðarbær: fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði hækkar um 67% á þremur árum

Frá Ísafirði.

Tekjur Ísafjarðarbæjar af fasteignaskatti á íbúðarhúsnæði er samkvæmt fjárhagsáætlun 2024 talinn skila 330 m.kr. í tekjur. Skatturinn var árið 2021 197 m.kr. og hefur hækkað um 67% á þessum þremur árum. Álagningarprósentur er nánast þær sömu á þessum tíma, þó hefur álagning á íbúðarhúsnæði lækkað úr 0,56% í 0,54% af fasteignamati. Fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði er 1,65% öll árin og 1,32% af öðru húsnæði.

Heildartekjur af fasteignaskatti hækka úr 375 m.kr. árið 2021 í 565 m.kr. í ár eða um 190 m.kr.

Meginskýringin á hækkuðum tekjum af fasteignaskattinum er hækkun fasteignamatsins. Frá árinu 2020 til 2024 hefur fasteignamat í Ísafjarðarbæ hækkað um samtals 81% og frá árinu 2021 til 2024 er hækkunin 63%.

Fasteignaskatturinn af öllum fasteignum hækkar um 11% frá fyrra ári. Tekjurnar eru áætlaðar verða 565 m.kr. á þessu ári en voru 515 m.kr. á því síðasta. Hækkunin er heldur meiri á íbúðarhúnæði en öðru húsnæði eða nærri 12%.

úr greinargerð með fjárhagsáætlun.

Vestfirðir: Aukin hætta á krapaflóðum og grjóthruni

Veðurstofa Íslands vekur athygli á því að frostlaust hafi verið til fjalla síðan á miðnætti, aðfaranótt sunnudags. Spáð er áframhaldandi hlýindum næstu daga og er spáð rigningu í kvöld og nótt, mestri á sunnanverðum Vestfjörðum, Snæfellsnesi og suðvestanverðu landinu. Leysingin eykst með rigningunni og er spáð mikilli leysingu í kvöld og nótt. Jafnframt eykst hætta á krapaflóðum og grjóthruni.

Ekki er mikill snjór ofan við byggð á svæðinu og því ekki búist við stórum krapaflóðum. En vegfarendur og ferðafólk er hvatt til að sýna aðgæslu nærri vatnsfarvegum þar sem krapaspýjur geta borist niður. Íbúar í húsum nærri farvegum með sögu um krapaflóð eru hvattir til þess að sýna aðgæslu og ekki dvelja að óþörfu nálægt farvegunum.

Í fyrramálið dregur úr úrkomu, segir í tilkynningu Veðurstofunnar, og þá jafnframt úr hættu á krapaflóðum.

7.476 íbúar á Vestfjörðum um áramótin

Súðavík. Þar eru hlutfallslega flestir erlendir ríkisborgarará Vestfjörðum. Mynd: Þorsteinn Haukur.

Þjóðskrá hefur birt íbúatölur í einstökum sveitarfélögum um síðustu áramót. Á Vestfjörðum voru 7.476 manns með lögheimili í fjórðungnum. Íbúum hefur fjölgað frá 1. desember 2020 þegar þeir voru aðeins 7.099 manns um 5,3%. Til samanburðar þá voru um áramótin á Norðurlandi vestra 7.494 manns eða eins 18 manns fleiri en á Vestfjörðum. Fyrir rúmum þremur árum, 1. desember 2020 voru íbúarnir 7.412. Sáralítil fjölgun hefur orðið á Norðurlandi vestra síðustu 3 ár eða aðeins 0,9%. Virðist stutt í að Vestfirðir taki fram úr Norðurlandi vestra hvað íbúafjölda varðar og lyfti sér upp úr því að vera fámennasta landssvæðið.

Litlar breytingar urðu í desember á Vestfjörðum. Í Ísafjarðarbæ fjölgaði um 5 manns og um fjóra í Súðavík. Í Vesturbyggð og Reykhólahreppi fækkaði um fimm manns í hvoru sveitarfélagi um sig.

Í byrjun ársins 2024 voru 3.940 íbúar í Ísafjarðarbæ, 1.190 manns í Vesturbyggð og 1.018 í Bolungavík.

Hærra gjald til ríkisins af laxi en þorski

Kvíar í Arnarfirði. Fiskeldið greiðir hærra gjald í ríkissjóð en greitt er af þorski.

Fiskeldisgjald af eldislaxi er á þessu ári 13,7% hærra en veiðigjald af þorski.

Fiskeldisgjaldið er á þessu ári 37,80 kr/kg af slægðum laxi og veiðigjaldið fyrir þorsk er 26,66 kr/kg af óslægðum fiski. Sé það umreiknað yfir í slægðan þorsk er veiðigjaldið 33,25 kr/kg. Það er sambærilegt við fiskeldisgjaldið af eldislaxinum 37,80 kr/kg.

Gjaldið í ríkissjóð fyrir eldislaxinn er því 4,55 kr/ kg hærra en fyrir þorskinn sem er 13,7%.

59% hærra gjald á fiskeldinu

Þá á eftir að taka tillit til þess að tvær áfangahækkanir, sem þegar hafa verið lögfestar, eiga eftir að koma til framkvæmda. Önnur hækkunin verður á næsta ári og sú seinni á árinu 2026. Þá má ætla að fiskeldisgjaldið verði orðið 52,92 kr/kg af slægðum eldislaxi miðað við þær forsendur sem gilda um útreiknings gjaldsins fyrir 2024. Veiðigjald af veiðum á villtum fiski í sjó er ákveðið samkvæmt sérstökum lögum og eru ekki í þeim nein ákvæði um frekari hækkun gjaldsins heldur er það tengt afkomu í sjávarútvegi og getur hækkað eða lækkað samkvæmt því. Fiskeldisgjaldið er algerlega ótengt afkomu í eldinu.

Því verður fiskeldisgjaldið fyrir 2026 að óbreyttum lögum 59% hærra en veiðigjald fyrir þorsk að óbreyttri afkomu í sjávarútvegi, mikilvægustu fisktegund landsmanna eða 52,92 kr/kg á móti 33,25 kr/kg. Munurinn verður þá 19,67 kr/kg.

Árneshreppur hluti af gefum íslensku séns -íslenskuvænt samfélag

Skynja má aukinn hljómgrunn fyrir því starfi sem Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag hefir innt af hendi. Í október síðastliðinn hlaut átakið til að mynda Evrópumerkið. Árið 2022 hlaut svo átakið viðurkenningu íslenskrar málnefndar.

Það er allt gott og blessað. En meira er þó um vert þó þegar aðilar ákveða að leggja átakinu lið, eða gerast beinir þátttakendur. Góðu heilli hefir fjöldi móðurmálshafa og þeirra sem kunna mjög góð skil á íslensku og leggja sit lóð á vogarskálina farið fjölgandi. Mjög jákvæð þróun. Einnig telst jákvætt þegar sveitarfélög gerast beinn aðili að átakinu. Hingað til hafa tvö sveitarfélög verið aðilar að átakinu. Súðavík og Ísafjarðarbær. 30. nóvember bættist svo Árneshreppur í hópinn þegar þátttökuaðild var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á sveitarstjónarfundi. Það verður að teljast einkar ánægjulegt.

Í októbermánuði síðasta árs var haldinn kynningarfundur á átakinu sem bar þennan ávöxt. Líklegt verður að teljast að Árneshreppur muni í kjölfarið standa að viðburðum til að auk vitund fólks fyrir máltileinkun íslensku sem annars máls þótt einnig sé óhætt að halda fram að þar séu þessi mál í fínum farvegi nú þegar. Það má samt alltaf á sig blómum bæta.

Er og vonandi að fleiri aðilar, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar, gerist aðilar að átakinu. Vert er að minnast á að sé áhugi fyrir hendi að fá átakskynningu fer best á því að senda línu á islenska(hja)uw.is. Kynning er auðsótt mál.

Þess má svo geta að 8. janúar er Þriðja rýmið í Bókasafninu á Ísafirði og 10. Janúar er hraðíslenska á Bryggjukaffi á Flateyri. Dropinn holar steininn.

Með íslenskuvænum kveðjum,

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

Fjölnir ÍS 7

Fjölnir var smíðaður í Selby 1922 og var 123 rúmlestir að stærð, eign h.f. Fjölnis á Þingeyri.

Fjölnir var á leið frá Vestmannaeyjum hlaðinn fiski. Var þetta fyrsta ferð hans út á árinu, þar sem hann var nýkominn úr langri viðgerð. Ferðin hafði gengið að óskum og skipið farið að nálgast land þegar slysið vildi til, um kl. 11 að kvöldi þess 9. apríl 1945.

Breskt skip, Larids Growe(?) frá Glasgow, um 2000 tonna flutningaskip, sigldi á Fjölni framanverðan, í myrkri. Fjölnir lagðist þegar á hliðina og sökk á þrem mínútum, eftir því, sem skipverjum á Larids Growe taldist til.

Skipverjarnir á Fjölni sáu engin ljós á Larids Growe, en Fjölnir var með fullum ljósum. Skipstjóri, ásamt tveimur hásetum, var í brúnni er áreksturinn varð. Gat skipstjóri stokkið út á síðuna og komið sér í sjóinn. Annar þeirra, sem var í brúnni með skipstjóra, komst af, en hinn týndist.

Skipstjóri telur, að allir skipverjar, að einum undanskildum, hafi komist frá skipinu. Björgunarflekanum skaut upp þegar skipið var sokkið og komust fjórir skipverjanna, er voru syndir, upp á hann af eigin rammleik. Stýrimanninum, Steinþóri Benjamínssyni var bjargað upp á flekann, en hann var ósyndur. Svo var dimmt að varla sá út úr augunum, en á flekanum var ljós, svo auðvelt var að finna hann.

Breska skipið mun hafa staðnæmst eftir áreksturinn varð, því að þegar skipbrotsmennirnir fimm komu upp á flekann, sást það rétt hjá þeim, og eftir nokkra stund kom bátur frá því og tók þá um borð. Flutti skipið þá síðan til Londonderry á Íslandi. Þar fengu þeir hina bestu aðhlynningu á sjómannaheimili, m.a. ný föt, yst sem innst.

Af tíu manna áhöfn, fórust fimm. 

Af vefsíðunni legstadaleit.com

Fékk hluta úr breskri sprengju í trollið

Logi Þórðarson skoðar sprengjubrotið/ myndir: Áhöfnin á Björgu EA

Hluti úr breskri sprengju sem notuð var í seinni heimsstyrjöldinni kom í veiðarfæri ísfisktogarans Bjargar EA 7 í í fyrradag er skipið var við veiðar á Rifsbanka, norður af Melrakkasléttu. Þetta kemur fram í frétt á vef Samherja

Haft var samband við Landhelgisgæsluna sem staðfesti að brotið væri hluti af MARK XVII sprengju.

Árni Rúnar Jóhannesson skipstjóri segir að Hreinn Birkisson stýrimaður hafi orðið var við að torkennilegur hlutur væri kominn í trollið og því ákveðið að hífa inn veiðarfærin.

„Við áttuðum okkur fljótlega á því að þetta væri hluti úr sprengju og settum okkur því í samband við Landhelgisgæsluna, sem ber að gera við slíkar aðstæður. Sérfræðingar þar úrskurðuðu strax að um væri að ræða hluta af MARK XVIII sprengju sem breski herinn beitti í síðari heimsstyrjöldinni. Við sendum Landhelgisgæslunni myndir af sprengjubrotinu og nákvæma staðsetningu á því hvar það kom í veiðarfærin,“ segir Árni Rúnar.

„Það er annars ekkert grín að fá þessar gömlu sprengjur í veiðarfærin og um borð, lykilatriðið er hreyfa alls ekkert við þeim og allra síst að skila þeim aftur í hafið. Sem betur fer var þetta einungis hluti úr sprengju og engin hætta á ferðum. Við þurfum með öðrum orðum ekki að stíma í land, sem þarf að gera ef um er að ræða ósprungnar sprengjur.“

Hvalveiðibannið átt sér ekki nægi­lega skýra stoð í lög­um

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið athugun sinni vegna kvörtunar Hvals hf. um frestun upphafs hvalveiða síðastliðið sumar og látið í ljós álit sitt vegna málsins.

Í álitinu kemur m.a. fram að reglugerð um frestun upphafs hvalveiða hafi ekki átt sér nægilega skýra stoð í lögum um hvalveiðar og að eins og atvikum var háttað hafi útgáfa og undirbúningur reglugerðarinnar ekki samrýmst kröfum um meðalhóf.

Umboðsmaður beinir ekki sérstökum tilmælum til ráðuneytisins um úrbætur. Hann beinir því hins vegar til ráðuneytisins að hafa þau sjónarmið sem fram koma í álitinu í huga til framtíðar.

Teitur Björn Einarsson alþingismaður segir í viðtali við Ríkisútvarpið að þetta sé mjög alvarlegt brot hjá ráðherra. „Það er alvarlegt þegar brotið er með jafn skýrum hætti gegn grundvallarmannréttindum og ráðherra veldur tjóni hjá fjölda fólks sem stundaði þessa atvinnu.“ Hann segir ekki loku fyrir það skotið að þetta baki ríkinu skaðabótaábyrgð. „Það eitt og sér setur málið í alvarlegan búning.“

Teitur segist vænta þess að fljótlega komi þingflokkur Sjálfstæðisflokksins saman til að ræða þetta mál. Hann segir ráðherra verða að gera upp við sig hvort hann segi af sér eða ekki. „Það er ekki endilega það sem er undir hér heldur traust og trúverðugleiki ráðherra til að fara með þau málefni sem ríkisstjórnin hefur komið sér saman um.“ Hann hafi þó sagt það frá upphafi að framganga ráðherra í þessu máli væri mikill álitshnekkur fyrir hana.

Svandís Svarsdóttir matvælaráðherra segir á facebooksíðu sinni : „Ég tek þessa niðurstöðu umboðsmanns alvarlega og þrátt fyrir að umboðsmaður beini ekki sérstökum tilmælum til mín þá hyggst ég beita mér fyrir breytingum þannig að þessi úreltu lög séu færð til nútímans.“

Nýskráningar fólksbíla árið 2023 voru 17.549

Nýskráningar fólksbíla árið 2023 reyndust 5,1% meiri en árið 2022.

Nýskráningar voru alls 17.549 árið 2023 en voru 16.690 árið þar á undan að því er fram kemur í tölum frá Bilgreinasambandinu.

Rúmlega helmingur nýskráninga var í rafbílum. Alls 8.784 bílar sem nemur 50,1% hlutdeild á markaðnum. Hybrid-bílar voru í öðru sæti, alls 2.891 bílar og 16,5% hlutdeild. Í þriðja sæti koma dísilbílar, alls 2.280 bílar. Nýskráningar í bensínbílum voru 1.834 og í tengilvinnbílum 1.756.

Nýskráningar voru flestar í Tesla þegar sala á einstökum bílategundum eru skoðaðar. Tesla seldist alls í 3.547 eintökum og Toyota kemur í öðru sæti með 3.001 bíla og Kia er í þriðja sæti með alls 1.959 bíla.

Bílar til almennra notkunar námu alls 59,6% í heildarnýskráningum fólksbifreiða og til ökutækjaleiga 39,7%.

Nýjustu fréttir