Mánudagur 2. september 2024
Síða 23

Vestfirski fornminjadagurinn:

laugardaginn 10. ágúst kl. 10:00-12:00 við skála Hallvarðs í botni Súgandafjarðar

*Saga Hallvarðs súganda og skálinn hans

Eyþór Eðvarðsson frá Fornminjafélagi Súgandafjarðar fer yfir nýjar upplýsingar frá Noregi um hver hann var, hvaðan hann kom og hvers vegna hann kom til Íslands. Sagt verður frá sögunni á bak við skálann, sem er byggður eftir fornleifarannsókn á skála sem var við Hrafnseyri við landnám.

  • Áhugaverðustu fornleifarannsóknir Vestfjarða

Margrét H. Hallmundsdóttir fornleifafræðingur mun segja frá mjög áhugaverðum fornleifarannsóknum á Vestfjörðum, m.a. stórmerkilegu og mjög sjaldgæfu bátskumli sem fannst í Hringsdal.

  • Baskavígin á Fjallaskaga

Elfar Logi listamaður mun segja frá Baskavígunum og fara sérstaklega yfir það sem gerðist á Fjallaskaga í Dýrafirði. Hörmuleg saga sem of lítið hefur verið fjallað um.

  • Vopn og vopnaburður á landnámsöld

Atli Freyr Guðmundsson fornleifafræðingur og áhugamaður um skylmingar verður með erindi um vopn og vopnaburð landnámsmanna. Hann mætir með alvæpni.

  • Fornleifar við sjávarsíðuna

Lísebet Guðmundsdóttir fornleifafræðingur og minjavörður okkar Vestfirðinga mun segja frá fornleifarannsóknum á Ströndum sem hún vann að og þýðingu þeirra.

  • Saga muna á Byggðasafni Vestfjarða

Jóna Símona Bjarnadóttir forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða mun sýna og segja frá nokkrum áhugaverðum hlutum í eigu Byggðasafnsins.  Allir munir eiga sögu, sumir mjög áhugaverða.

  • Söngur við langeldinn

Hægt verður að mæta fyrr til að skoða skálann og fá leiðsögn. Fjölmargir mæta í fatnaði frá landnámsöld og öll sem geta eru hvött til að gera það líka .

Öll velkomin inn á meðan húsrúm leyfir.

Vestfirski fornminjadagurinn er í góðu samstarfi við Act alone hátíðina sem er á Suðureyri á sama tíma.

Kertafleyting: aldrei aftur Hirosima og Nagasaki

Frá kertafleytingu á Ísafirði árið 2019.

Fyrir 79 árum, 6. og 9. ágúst 1945, vörpuðu Bandaríkjamenn kjarnorkusprengjum á borgirnar Hírósíma og Nagasaki í Japan. Frá árinu 1985 hafa Íslendingar minnst fórnarlamba þessara skelfilegu árása með kertafleytingu og áréttað kröfuna um heim án kjarnorkuvopna.

Vestfirðir eru þar engin undantekning og verður fórnarlambanna minnst á Ísafirði klukkan 22:30 á Nagasaki-daginn 9. ágúst.
Komið verður saman á Ísafirði við Neðstakaupstað á Suðurtanga þar sem Eiríkur Örn Norðdalh flytur ávarp. Mun fólk sameinast í yfirlýsingunni Aldrei aftur Hirósíma og Nagasaki!

-Nánar tiltekið hittumst við í fjörunni við Suðurtanga 2 (sirka hér: https://www.google.com/…/data=!3m7!1e1!3m5…

Kerti verður til sölu á staðnum og rennur féið til Samstarfshóps friðarhreyfinga. Borga má í reiðufé á staðnum en einnig verður millifærsla möguleg.

Vonast er til að sjá sem flesta segir í tilkynningu frá aðstandendum kertafleytingarinnar.

Kristinn E Hrafnsson: ÚTHVERFT Á HVOLFI 9.8 – 1.9 2024

Kristinn E. Hrafnsson.

Föstudaginn 9. ágúst kl. 16 verður opnuð sýning á verkum Kristins E Hrafnssonar í Úthverfu á Ísafirði. Sýningin ber heitið ÚTHVERFT Á HVOLFI og stendur til sunnudagsins 1. september. Listamaðurinn verður viðstaddur opnun sýningarinnar þar sem boðið verður uppá léttar veitingar og spjall. 

Um þessa sýningu, ÚTHVERFT Á HVOLFI, segir Kristinn: Sýningarstaður sem heitir jafn inspírererandi nafni og ÚTHVERFA hlýtur að hafa áhrif á það hvernig maður vinnur og raðar hlutunum saman. Titil sýningarinnar má rekja til staðarins, en við vinnslu hennar rifjuðust upp ævagömlum verk um speglun hluta og hugmynda sem kalla má umsnúninga. Þetta eru verk um rýmið og staðinn á réttunni og röngunni, samhverfuna og speglunina og auðvitað pósitívuna og negatívuna. Ég er í raun enn að gera þetta, þó með öðrum hætti sé og ekki endilega sem úthverfu, heldur sem sjónarhorn, en í ákveðnu samhengi má segja að það sé eitt og hið sama. Sjónarhornin ráða því hvernig við sjáum og upplifum hlutina. Heimurinn úthverfur á hvolfi er jafn raunverulegur heimur og hinn – það er bara eitt sjónarhorn af mörgum.

Kristinn mun flytja stuttan performans við opnun sýningarinnar.

KRISTINN E. HRAFNSSON fæddist árið 1960 á Ólafsfirði. Hann stundaði myndlistarnám í Myndlistaskólanum á Akureyri, við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og framhaldsnámi lauk hann frá Akademie der Bildenden Künste í München í Þýskalandi árið 1990. Kristinn hefur verið virkur við sýningarhald í áratugi og er verk hans að finna í öllum helstu listasöfnum á Íslandi, sem og í opinberum stofnunum og einkasöfnum. Í verkum Kristins má greina heimspekilegan þráð og vangaveltur um rúm og tíma, hreyfingu, afstæði og tungumál. List hans fjallar um manninn og skilning hans á umhverfi sínu og hvernig náttúran mótar sýn hans og samskipti. Samband listaverksins við vettvanginn er mikilvægur þáttur í verkum hans, en á ferli sínum hefur Kristinn gert fjölda umhverfisverka, ýmist einn eða í samvinnu með arkitektum.

Kristinn sýndi síðast í Úthverfu (þá Slunkaríki) árið 1996.

Ísafjörður: þrjú skemmtiferðaskip í gær

Skemmtiferðaskipin gnæfa yfir mannvirki á eyrinni og togarinn Páll Pálsson ÍS eða sanddæluskipið virðast ekki stór í samanburðinum. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í gær voru bókuð fimm skemmtiferðaskip til Ísafjarðar, en vegna veðurs hættu tvö skipanna við að koma.

Skipstjórar Viking Venus og Volendam voru að koma í fyrsta sinn og fengu afhenta Ísafjarðarplatta í tilefni þess. Þriðja skipið sem átti að fá platta, Azamara One, hætti við komuna vegna veðurs.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Hilmar Lyngmo hafnarstjóra og hinn hollenska skipstjóra á Volendam innsigla samband skips og hafnar með plattaskiptum. Skipstjórinn þurfti að sigla býsna brattan sjó til að komast hingað, en sagði að bæði honum og farþegunum hefði þótt það algerlega þess virði. Samt virtist hann lítið eitt vonsvikinn yfir því að komast ekki á skauta á ísi lögðum firðinum segir í færslu Ísafjarðarhafnar.

Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Í dag, þriðjudaginn 6. ágúst kemur ekkert skemmtiferðaskip til Ísafjarðar.

Afleiðingar kóvid: var óvinnufær í 2 ár

Í nýútkomnu ársriti Virk er viðtal við Jóhann Áskel Gunnarsson, sundlaugarvörð í Bolungavík sem fékk kovid í fyrstu bylgunni og veiktist illa. Hann veiktist í mars 2020 og var fluttur fáveikur í sjúkravél til Akureyrar og svo til Reykjavíkur.

„Ég var í öndunarvél í átta og hálfan sólarhring. Ég var rosalega mikið veikur og á tímabili var mér varla hugað líf,“ segir Jóhann Áskell í viðtalinu.

Jóhann var fimm vikur á spítalanum og síðan tók við endurhæfing sem tók á að hans sögn.

„Þessi veikindi tóku gríðarlega á andlega sem líkamlega og ekki síður á fjölskyldu mína sem á tímabili beið milli vonar og ótta um hvernig þetta færi. Ég á konu og fimm börn. Áhyggjurnar hjá mér komu ekki fyrr en eftir á. Ég gerði mér í fyrstu ekki almennilega grein fyrir hve veikindi mín voru mikil. Svo á ég eitt barnabarn sem fæddist í nóvember 2020 og annað á leiðinni. Ég fékk að vita þegar ég vaknaði upp á Landspítalanum að ég væri að verða afi, það lífgaði mikið upp á tilveruna á þessum erfiða tíma.“

Jóhann var óvinnufær í tvö ár og gat ekki snúið aftur til fyrri starfa hjá mjólkurfélaginu Örnu. Í gegnum Virk á Vestfjörðum fór hann í starfsendurhæfingu og komst að hjá sjúkraþjálfara. Í mars 2022 fékk hann vinnu í sundlauginni í Bolungavík og er þar í 70% starfi.

Enn vantar mikið upp á þrekið og segist Jóhann vera viðkvæmur fyrir kvefpestum. Hann segir þjónustu Virk hafa reynst honum best.

„Þjónusta VIRK skipti mig höfuðmáli, að geta hitt fólk og fengið andlega og líkamlega aðstoð. Reykjalundur var einnig mjög mikilvægur, auk endurhæfingarinnar hitti maður þar fólk sem svipað var ástatt fyrir og gat þá rætt um sameiginlega glímu við afleiðingar af slæmum kovidveikindum. Bæði þar og hjá VIRK eignaðist maður góða vini sem ég hef samband við enn í dag. Úrræðin sem komu mér best voru göngu-ferðir úti og námskeiðin sem ég sótti á vegum VIRK. Einnig vinna sem ég stundaði sem úrræði hjá VIRK, til dæmis í gróðurhúsi. Sálfræðiþjónustan reyndist mér líka vel.“

„Veikindin höfðu þó ekki áhrif á búsetu fjölskyldunnar, við höfum búið í Bolungarvík síðan við fluttum vestur í ágúst 2013. Við eru bæði hjónin ættuð af Ströndum. Það er fínt að búa hér fyrir vestan, maður hefur allt til alls hér.“

Aftakaveður við norðanvert Djúp

Indriði Aðalsteinsson. Skjaldfönn í baksýn.

Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn í Skjaldfannardal sagði um hádegisbilið að í dag hafi verið stormur og úrhelli auk vaxandi lofthita, því séu forsendur fyrir hamfaraflóði frá Drangajökli eins og í sepember í haust.

Í kvöld segir Indriði í færslu á facebook að nú þegar séu tún „tugur hektara að flatarmáli horfinn undir leirburðarþykkan jökulflauminn í Selá og verða ekki heyjuð á þessu sumri og nokkuð líklegt að ef þessi úrkoma verður til morguns mun Mórilla í Kaldalóni rjúfa þar veg og varnargarða eins og í haust og Snæfjallastrendingar lokaðir inni svo og ferðafólk.“

Hvetur hann Vegagerðina til þess að til að fylgjast með í Kaldalóni svo ekki fari illa fyrir vegfarendum því mest afrennsli jökulsins í svona kringumstæðum falli þangað.

Skjaldfönn í Skjaldfannardal.

Ferðafélag Ísfirðinga: Sporhamarsfjall á laugardaginn

Sporhamarsfjall  — 2 skór —
Laugardaginn 10. ágúst

Skráning óþörf, bara mæta, ókeypis í ferðina.

Fararstjórn: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir og Steinþór Bjarni Kristjánsson.
Mæting kl. 9.00 við Bónus á Ísafirði og 9.30 við Kirkjuból í Valþjófsdal.
Gengið upp á Sporhamarsfjall og meðfram brún þess. Þaðan blasir Önundarfjörður við. Leiðin er brött á kafla en þó er ekkert klifur.

Vegalengd: um 10 km, göngutími: 6-7 klst., hækkun: 650 m.

Veiðileysukleif: fært öllum bílum, en spáin ekki góð

Veiðileysukleif.

Vegagerðin hefur unnið hörðum höndum að viðgerð á veginum í Veiðileysifirði og yfir hálsinn svo og í Reykjafirði. Gunnar Númi Hjartarson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Hólmavík sagði í samtali við Bæjarins besta að viðgerðinni væri svo gott sem lokið og vegurinn væri fær öllum bílum.

Vegurinn er grófur þar sem skemmdir urðu, sem eru við Burstafell í Veiðileysufirði og svo við Kýrvíkurbrekkuna í Reykjafirði við Sætrakleif innan til við Kjörvogshlíð.

En vegurinn væri blautur í Veiðileysukleifinni og spáð væri úrkomu og vindi, svo útlitið gæti verið betra. Hins vegar er Vegagerðin á vaktinni og mun bregðast við ef þörf krefur sagði Gunnar Númi.

Veiðileysukleif.

Úr Veiðileysukleifinni. Skemmdirnar sjást betur.

Myndir: Gunnar Númi Hjartarson.

Act alone 20 ára

Act alone leiklistar- og listahátíðin verður haldin 20 árið í röð dagana 7. – 10. ágúst á Suðureyri. Já, hin einstaka hátíð Act alone er orðin tveggja áratuga gömul og hefur allt frá upphafi verið haldin á Vestfjörðum. Það verður því alveg einstök dagskrá í boði á afmælisárinu hvar boðið verður upp á yfir 20 einstaka viðburði. Að vanda verður ókeypis á alla viðburði Actsins og fjölbreytileikinn verður í aðalhlutverki. Leiksýningar, dans, tónleikar, myndlist, ritlist og alls konar list. Einstaklega vegleg dagskrá verður fyrir æskuna og verður m.a. boðið upp á trúðanámskeið og loftbelgjasmiðju. Act alone verður einnig alþjóðleg því boðið verður upp á leiksýningu á pólsku og franska trúðasýningu. Meðal listamanna ársins má nefna Mugison, Gugusar, Jón Víðis, Þórey Birgisdóttur, Rúnar Helga Vignisson, Salóme Katrínu og Sigrúnu Waage. Það er næsta víst að allir munu finna eitthvað við sitt hæfi á Act alone á Suðureyri hið einstaka afmælisár 2024. Það verður ekki bara ókeypis á hátíðina heldur verður einnig hægt að fara ókeypis á Actið með langferðabifreið Actsins sem gengur daglega millum Ísafjarðar og einleikjaþorpsins alla hátíðar dagana. Dagskrá Act alone í heild sinni má finna á heimasíðu hátíðarinnar www.actalone.net

Leikið hér og að handan

Í tilefni af 20 ára afmæli Act alone hefur hátíðin verið lengd um einn dag og stendur því hið einstaka stuð yfir í fjóra daga. Í tilefni tímamótana munu fjölmargir vestfirskir listamenn koma fram. Sómi Vestfjarða Mugison gefur tónin með sérstökum afmælistónleikum Actsins sem verða haldnir í Staðarkirkju. Af öðrum vestfirskum listamönnum má nefna Drífu Kristjónu Garðarsdóttur, Skúla mennska, Salóme Katrínu, Ólínu Þorvarðardóttur og Rúnar Helga Vignisson. Einnig mun vestfirski leikarinn Gunnar Jóhannesson flytja einleik sinn Félagsskapur með sjálfum mér. Af öðrum einleikjum má nefna Ef ég gleymi er fjallar um hinn miskunarlausa hvergi sjúkdóm, alsæmer. Frá Póllandi fáum við einleikinn Dramaternity eftir og með Magdalena Bochan-Jachimek og belgísk/franska leikkonan Fransoise Simon flytur trúðaeinleik sinn Headinig North. Einnig mun Simon vera með trúðanámskeið fyrir krakka.

Actið verður þó eigi bara í þessum heimi heldur verður einnig kikkað yfir í handanheima. Hin vestfirska Anna Birta Lionaraki stýrir handan stundinni en hún hefur haldið fjölda marga opna handan fundi í borginni og nú loksins verður skyggnast yfir um hér vestra. Við munum einnig skyggnast í komandi einleik því haldin verður opin æfing á erlendum einleik Ífígenía í Ásbrú (Iphigenia in Splott). Þetta er verðlaunaverk sem hefur farið sigurför um heiminn. Leikritið fjallar um Ífí, stelpuna sem þú tekur sveig framhjá þegar þú mætir henni hauslausri fyrir hádegi. En það sem þú veist ekki er að þú stendur í ævilangri þakkarskuld við hana. Og nú er komið að skuldadögum. Leikari er Þórey Birgisdóttir.

Eitthvað fyrir alla

Að vanda verður vegleg barnadagskrá á Act alone. Auk trúðanámskeiðs og loftbelgjasmiðju verður Jón Víðis með töfrasýningu og Mark Blashford sýnir brúðuleikinn Búkolla. Tónleikar verða með vestfirska tónlistarfólkinu Salóme Katrínu og Skúla er kallaður er hinn mennski. Vestfirsku skáldin Ólína Þorvarðardóttir, Eiríkur Örn Norðdahl og Rúnar Helgi Vignisson lesa og segja frá verkum sínum. Drífa Kristjóna Garðardóttir myndlistarkona frá Bíldudal verður með sýningu á verkum sínum sem sannlega eru einstök. Síðast en ekki síst má geta þess að hinn árlegi Vestfirski fornminjadagur verður á sínum stað á Act alone. Verður hann haldin á laugardagsmorgninum 10. ágúst í hinum hinum nýbyggða Landnámsskála Hallvarðs Súganda.

Einsog áður var getið þá er aðgangur að öllum viðburðum á Act alone ókeypis. Þannig hefur það verið allt frá upphafi en alls hefur verið boðið upp á 337 ókeypis viðburði á Actinu og í ár bætast 23 ókeypis viðburðir í þann góða viðburðapott. Það ætti engin að verða einmanna né að leiðast á Act alone. Svo nú er fátt annað í stöðunni en að skunda á Suðureyri á Act alone 7. – 10. ágúst því það kostar ekkert.

Heimsókn í Haukadal í Dýrafirði

Kómedíuleikhúsið í Haukadal.

Þriðjudaginn 6. ágúst stendur átakið Gefum íslenskunni sjens fyrir ferð í Haukadal.

Farið verður á söguslóðir Gísla sögu í Haukadal og gengin Gíslaganga ásamt fleiru. Elfar Logi Hannesson tekur á móti hópnum og fylgir honum um Haukadal. Og svo er sögustund eftir gönguna.

Þetta er auðvitað í góðu samstarfi við Kómedíuleikhúsið.

Lagt verður af stað frá Háskólasetri Vestfjarða klukkan 12:15.
Heimkoma um klukkan 17:00.

Það verður að tilkynna komu sína í gegnum islenska(at)uw.is.
Það verður að skrá sig!
Ef þú skráir þig á helginni verður þú að hringja í 8920799.

Auðvitað er einnig líka hægt að mæta á staðinn um klukkan 13:00.

Nýjustu fréttir