Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 23

Skíðaþing var haldið á Ísafirði

75. ársþing Skíðasambands Íslands (SKÍ) var haldið á Ísafirði, dagana 20. til 21. september sl.

Þingið var haldið í Stjórnsýsluhúsinu í boði Skíðafélags Ísfirðinga og var fjölsótt.

Skýrsla stjórnar og ársreikningar voru lagðir fyrir þingið til samþykktar.

Undir önnur mál voru eftirtaldin atriði, þ.e. samþykktir eða ákvarðanir á þinginu:
1. Að skíðaskotfimi var samþykkt sem keppnisgrein innan sambandsins og var jafnframt samþykkt ný reglugerð um bikarmót og Íslandsmót í skíðaskotfimi.
2. Að ný nefnd var stofnuð, skíðaskotfiminefnd. Formaður hennar var kjörin Veronika Gustev og tekur hún sæti í stjórn SKÍ skv. lagabreytingu sem einnig var samþykkt.
3. Þá voru afgreiddar minnihátta reglugerðabreytingar fyrir mót og keppnir hreyfingarinnar. 
4. Samþykkt var ályktun um aðstöðumál skíðahreyfingarinnar.

Þá var sérstök málstofa á þinginu á laugardagsmorgninum með Vésteini Hafsteinssyni, afreksstjóra ÍSÍ, um framtíðarfyrirkomulag almennings- og afreksíþrótta í landinu.

Viðurkenningar voru veittar ellefu einstaklingum en þeir voru heiðraðir fyrir vel unnin störf í þágu hreyfingarinnar og var það formaður SKÍ sem afhenti heiðursmerkin.

Á myndinni má sjá eftirtalda einstakinga:

Birna Jónasdóttir, SFÍ
Guðmundur Agnarsson, SFÍ
Jóhanna Oddsdóttir, SFÍ
Jóna Lind Kristinsdóttir, SFÍ
Sigríður Laufey Sigurðardóttir, SFÍ
Sigurður Erlingsson, SFÍ
Þórunn Pálsdóttir, SFÍ
Davíð Höskuldsson, SFÍ
Guðjón Höskuldsson, SFÍ
Þorlákur Baxter, SFÍ
Hafsteinn Sigurðsson, SFÍ, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands í alpagreinum og formaður Skíðaráðs Ísafjarðar um árabil sem hlaut heiðurskröss SKÍ.

Styrktahlaup Riddara Rósu fyrir Katrínu Björk

Riddarar Rósu boða til styrktarhlaups til stuðnings Katrínu Björk Guðjónsdóttur fimmtudaginn 10. október kl. 16:30.

Mæting er á Stjórnsýsluhúsplaninu á Ísafirði.

Hvetjum alla til að taka þátt í þessum skemmtileg viðburði hlaupandi eða gangandi og styrkja frábæra manneskju í leiðinni.

Fyrirkomulag á rjúpnaveiða 2024 hefur verið ákveðið

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur staðfest veiðitímabil rjúpu í ár.

Heimilt verður að veiða rjúpu frá og með föstudögum til og með þriðjudögum á tímabili sem ákveðið er sérstaklega innan hvers veiðisvæðis:

Austurland                  25. október – 22. desember

Norðausturland          25. október – 19. nóvember

Norðvesturland          25. október – 19. nóvember

Suðurland                   25. október – 19. nóvember

Vesturland                  25. október – 19. nóvember

Vestfirðir                     25. október – 26. nóvember

Ítrekað er að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra.

Ráðherra undirritað í september stjórnunar- og verndaráætlun fyrir rjúpu og er það í fyrsta skipti sem slík áætlun er gefin út fyrir dýrastofn á Íslandi. Áætlunin felur í sér nýtt kerfi veiðistjórnunar þar sem landinu er skipt í sex hluta og veiðistjórnunin er svæðisbundin. Einnig hafa verið þróuð ný stofnlíkön sem munu reikna út ákjósanlega lengd veiðitímabils á hverju svæði.

Stjórnunar- og verndarætlunin er afrakstur samstarfs Umhverfisstofnunar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, Náttúrufræðistofnunar, SKOTVÍS og Fuglaverndar. Þá naut samstarfshópurinn aðstoðar frá Dr. Fred A. Johnson, bandarískum sérfræðingi í veiðistjórnun og stofnlíkanagerð.

Veiðimönnum bent á að kynna sér takmarkanir á veiðum á friðlýstum svæðum og  stunda hóflega veiði til eigin neyslu.

Ráðgjöf vegna rækju í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi

Hafrannsóknastofnun leggur til, í samræmi við varúðarsjónarmið, að afli rækju í Arnarfirði fiskveiðiárið 2024/2025 verði ekki meira en 169 tonn og að rækjuveiðar verði ekki heimilaðar í Ísafjarðardjúpi.

Stofnvísitala rækju í Arnarfirði hefur verið nokkuð stöðug frá árinu 2018. Mikið var af ýsu á svæðinu en árin 2020-2024 voru vísitölur ýsu þær hæstu frá árinu 2011. Vísitala þorsks var sú þriðja hæsta sem mælst hefur frá árinu 1994.

Stofnvísitala rækju í Ísafjarðardjúpi mældist lág og var hún undir skilgreindum viðmiðunarmörkum. Vísitölur ýsu hafa verið háar frá árinu 2004 og frá árinu 2020 hafa þær verið mjög háar í sögulegu samhengi.

Ísafjörður: ný bók kom út á laugardaginn

Laugardaginn  5. október kom út ný bók eftir Guðlaugu Jónsdóttur – Diddu. Bókin ber nafnið Baukað og brallað í Skollavík, en aðalsögusviðið er í ókunnri vík í eyðibyggðum Hornstranda. Árið 2021 gáfu Guðlaug og Karl Ásgeirsson eiginmaður hennar út bókina Í huganum heim, sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Boðið vestur – bók um mat og matarmenningu á Vestfjörðum unnu þau hjónin í sameiningu en hún kom fyrst út árið 2012 en var endurútgefin nú í vor á öllum tungumálunum þremur – íslensku, ensku og þýsku.

Þau hjón buðu vinum og velunnurum í útgáfuhóf í Bryggjusal Edinborgarhússins á útgáfudaginn. Þar mættu gestir á öllum aldri til að fagna útgáfunni, hlustuðu á höfund lesa upp úr bókinni og þáðu veitingar.

Bókafélagið gefur út Baukað og brallað og sá einnig um endurútgáfu Boðið vestur.

Byggðasafn Vestfjarða: fékk góðar gjafir á föstudaginn

Frændurinir við Byggðasafnið : f.v. Einar Kárason, Einar Karl Kristjánsson og Einar S. Einarsson.

Frændurnir Einar Karl Kristjánsson, Einar Kárason og  Einar S. Einarsson frá Ísafirði komu vestur færandi hendi á fösudaginn og gáfu Byggðasafni Vestfjarða góðar gjafir sem voru myndir og gamlir munir sem voru í fórum forfeða þeirra.

Í bréfi þeirra til Byggðasafnsins segir:

„Það er okkur undirrituðum, frændum og nöfnum, sérstök ánægja að færa safninu til eignar og varðveislu fornan kúfisksting úr fórum fjölskyldunnar,  sem afi og  langafi okkar í móðurætt Valdimar Sigurðsson, f.7. apríl 1861 að Látrum í Mjóafirði,  d. 27. mars 1935 á Ísafirði, beitti við skelveiðar snemma á öldinni sem leið. Hann var vegna dugnaðar og leikni sinnar við þá iðju stundum kallaður kúfiskkóngur og notaði þennan sting við þær veiðar. Stingurinn er með löngu skafti (ca. 170 cm) og er vafalítið vel yfir 100 ára gamall.“

Kúfiskstingurinn.

Einnig færum við safninu sjóferðabók, Einars Kr. Þorbergssonar, (1891- 1985) frá árunum 1916-1928,  sem segir sína sögu um gamla tíð og sjómannslíf við Djúp, sem og nokkrar 100 ára gamlar portrettmyndir úr smiðju Björns Pálssonar og M. Simsen, lika ljósmyndir  úr eigin ranni frá miðri síðustu öld á Ísafirði og loks teikningar af merku og minnisstæðu húsi sem var.     

Það er von okkar að þetta einfalda en samt sögulega verk- og veiðarfæri muni vekja athygli og forvitni fróðleiksfúsra safngesta um forna atvinnuhætti og annað það sem hér fylgir með sé þess virði að verða haldið til haga til að varpa ljósi liðna tíð fyrir framtíðarkynslóðir.“

                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                             

Strandabyggð: vantraust lagt fram á oddvitann

Matthías Lýðsson, bóndi Húsavík í Tungusveit í Strandabyggð.

Matthías Lýðsson, sveitarstjórnarmaður í Strandabyggð hefur lagt fram tillögu um vantraust á Þorgeir Pálsson, oddvita Strandabyggðar. Tillagan er á dagskrá fundar á morgun, þriðjudag, og verður þá tekin til umræðu og afgreiðslu.

Matthías segir að tilefni vantrauststillögunnar séu ummæli Þorgeirs í Bæjarins besta á fimmtudaginn þar sem hann bregst við minnisblaði KPMG vegna greiðslna til Jóns Jónssonar og tengdum stofnunum/fyrirtækjum. Þar sagði Þorgeir Pálsson, oddviti og sveitarstjóri að styrkveitingar til Jóns Jónssonar fyrrv. sveitarstjórnarmanns á 20 ára tímabili hefðu numið 61 m.kr. og vísaði til upplýsingar sem fram komu á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar í ágúst 2021.

Matthías bendir á að í minnisblaði KPMG komi skýrt fram að  „Ekki er annað að sjá en greiðslur til Jóns Jónssonar, kt. 050468-4969 svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetur, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e á árunum 2010-2014 og 2019-2022 hafi verið í samræmi við samninga og samþykktir sveitarstjórnar.

Einnig er ekki annað að sjá en Jón hafi gætt þess sem fulltrúi í sveitarstjórn að víkja sæti þegar framangreindir samningar voru til umfjöllunar.“

Með þessu sé Jón Jónsson hreinsaður af ásökunum um að misnota aðstöðu sína sér til ávinnings. Viðbrögð oddvita séu að ítreka ásakanirnar þrátt fyrir niðurstöðu KPMG. Við það sé ekki hægt að búa.

Andrea K. Jónsdóttir, fyrrv. sveitarstjóri hefur bent á að umræddar greiðslur séu til Galdrasýningar á Ströndum, m.a. vegna reksturs upplýsingarmiðstöðvar ferðamála og til Sauðfjárseturs á Ströndum en ekki til Jóns Jónssonar.

Þröstur Jóhannesson tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna

Þröstur Jóhannesson.

Á laugardaginn, á alþjóðadegi kennara, voru kynntar tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna sem veitt verða veitt á Bessastöðum 5. nóvember. Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum, auk sérstakra hvatningarverðlauna.

Í flokknum Iðn- eða verkmenntun er Þröstur Jóhannesson kennari við Menntaskólann á Ísafirði tilnefndur fyrir þróun vandaðs verknáms með áherslu á nútímatækni og sjálfbærni.

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari segi að „við í MÍ erum ákaflega stolt af því að eiga í hópnum einn kennara, Þröst Jóhannesson húsasmíðakennara, sem tilnefndur er í flokki iðn- og verkemenntunar en flokkurinn tekur til kennara, námsefnishöfunda, skóla- eða menntastofnunar fyrir framúrskarandi starf, verk eða annað framlag til iðn- eða verkmenntunar. Við óskum Þresti innilega til hamingju með tilnefninguna og öllum kennurum til hamingju með alþjóðadag kennara.“

Þröstur lauk námi til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands 2008 en áður hafði hann lokið meistaranámi í húsasmíði. Þröstur hefur kennt við Menntaskólann á Ísafirði frá 1987 og lengst af verið kennari  í húsasmiðagreinum. Undanfarin ár hefur hann verið sviðsstjóri starfs- og verknáms auk þess að sitja í verkefnastjórn vegna byggingar nýs verknámshúss. 

Í húsasmíðakennslunni hefur Þröstur verið óhræddur við að leita nýrra leiða. Hann hefur til dæmis nýtt sér samlegðaráhrif við Fab lab-smiðjuna í skólanum í kennslu og náð góðum árangri í að tengja húsasmíði við tæknina sem þar er til staðar. Hann hefur komið á breytingum í teikniáföngum svo þeir séu betur tengdir nútímatækni og þeim veruleika sem bíður nemenda eftir útskrift. Hann hefur lagt mikla áherslu á umhverfismál í störfum sínum, t.d. þegar hugað er að nýtingu á efni í húsasmíðakennslunni.  

Þröstur hefur lagt mikla áherslu á öryggismál og er umhugað um að nemendur tileinki sér góð vinnubrögð, meðal annars með tilliti til öryggisatriða. Þresti hefur lagt áherslu á að haga kennslunni þannig að hún búi nemendur sem best undir húsasmíðastörf í framtíðinni. Allan sinn kennsluferil hefur hann verið í mjög góðum samskiptum við atvinnulífið sem hefur skilað sér vel inn í kennsluna.  

Þröstur hefur fengist við félagsstörf tengt íþróttum og kennt skíðagöngu. Hann keppti fyrir Íslands hönd í skíðagöngu á vetrarólympíuleikunum 1980. 

Úr umsögn sem fylgdi tillögu að tilnefningu Þrastar: „Þröstur er mjög lausnamiðaður, bæði í kennslu sinni og störfum. Hann hefur t.d. búið við frekar slaka kennsluaðstöðu í húsasmíðagreinum við skólann en hann hefur aldrei látið það hafa áhrif á kennsluna heldur unnið með aðstöðuna og verið mjög lausnamiðaður í að nýta rýmið sem best til kennslu. 

Þröstur er þekktur fyrir einstaka prúðmennsku  bæði meðal nemenda og starfsmanna og það er óhætt að segja að Þröstur búi yfir stóískri ró sem hefur mjög góð áhrif á þau sem eru í kringum hann.  

Nemendur Þrastar hafa í gegnum tíðina bundist honum tryggðarböndum og vil ég vitna beint í einn nemanda hans sem sagði mér á dögunum að Þröstur væri svo mikil GOAT eða Greatest Of All Times. Það er líklega ekki hægt að fá betri meðmæli sem kennari.  

Þröstur hefur allan sinn tíma sýnt mikla hollustu við húsasmíðakennsluna og skólann. Hann er einstök fyrirmynd, bæði fyrir nemendur og starfsfólk og framúrskarandi kennari.“ 

Vestri vann Fram og Andri Rúnar með þrennu

Andri Rúnar fagnar fyrsta marki sínu gegn Fram í gær.

Knattspyrnulið Vestra í Bestu deild karla gerði góða ferð í Úlfársdalinn í gær í keppni liða í neðri hluta deildarinnar og vann öruggan sigur með fjórum mörkum gegn tveimur. Framherjinn Andri Rúnar Bjarnason sýndi sínar bestu hliðar og skoraði þrjú mörk.

Búnar eru þrjár umferðir af fimm í þessari sérstöku keppni neðri huta deildarinnar og hefur Vestri unnið tvo af þeim og gert eitt jafntefli. Samtals hafa þessir þrír leikir gefið sjö stig og Andri Rúnar hefur gert fimm mörk í leikjunum þremur.

Liðin keppa um að forðast fall úr deildinni, en tvö neðstu liðin munu falla niður í Lengjudeildina. Þegar Bestu deildinni lauk eftir 22 umferðir var Vestri í fallsæti og hefði fallið ef keppninni hefði lokið þá.

En nú er staðan orðin mun vænlegri fyrir Vestra. Liðið er komið upp úr fallsæti og er með 25 stig.

HK og Fylkir eru í fallsætunum og er Fylkir þegar fallið eftir úrslit gærdagsins þrátt fyrir að tvær umferðir séu enn eftir.

Vestri hefur þrjú stig umfram HK og dugar að vinna annan leikinn sem eftir til þess að halda sæti sínu í deildinni.

KA, Fram og KR hafa tryggt sæti sitt í Bestu deildinni og eftir stendur að baráttan stendur á milli HK og Vestra um að forðast fallið.

Vestri leikur á Akureyri við KA eftir tvær vikur og fær svo Fylki í heimsókn viku seinna til Ísafjarðar í lokaumferðinni.

Eftir gott gengi Vestra í síðustu þremur leikjum er útlitið orðið vænlegt fyrir Vestra.

Um óboðlegt sleifarlag og samgöngusáttmála Vestfjarða

Teitur Björn Einarsson, alþm.

Það er ögn flókið að lýsa stöðu samgöngumála á Vestfjörðum í stuttu máli. Sumpart er staðan góð. Stórar framkvæmdir eru í gangi á mikilvægum leiðum eða nýlokið og ýmislegt hefur áunnist á liðnum árum. En það dugar ekki til og víða er staðan með öllu óboðleg. Ókláraði vegkaflinn á Dynjandisheiði er sláandi dæmi um það og er algjör vitleysa.

Staðan

Tafir og frestun á þverun fjarðanna í Gufudalssveit, þvert á margítrekuð loforð, er enn fremur með öllu óviðunandi. Framkvæmdin er þess eðlis að íbúar njóta hennar ekki fyrr en brýrnar verða kláraðar. Því er það með öllu óboðlegt sleifarlag að draga framkvæmdatímann á langinn um heil þrjú ár, til ársins 2027, miðað við það sem áður hafði verið ákveðið í samgönguáætlun af hálfu Alþingis. Á sama tíma er framkvæmdum á suðausturhorninu, sem ekki höfðu verið settar í forgang með sama hætti, kippt fram fyrir röðina án fjárheimilda. Frestun á framkvæmdum á Strandavegi er aftur á móti orðið þaulæft stef hjá samgönguyfirvöldum, með mismunandi tilbrigðum þó. 

Þá er lítið að frétta af vinnu stjórnvalda um að efla vetrarþjónustu í fjórðungnum þrátt fyrir skýrt ákall Vestfjarðastofu og fleiri aðila um að breyta verði viðmiðunum svo Vestfirðingar njóti sama opnunartíma og aðrir landshlutar. Rútubruninn fyrir skömmu rétt neðan við Breiðadalsgöng dregur það svo fram að áskoranirnar í öryggismálum vegfaranda eru mun meira aðkallandi en áður hafði verið talið.

Stærsta áskorunin til lengri tíma litið eru svo hugmyndir samgönguyfirvalda um forgangsröðun jarðganga. Klettháls er í næstsíðasta sæti á listanum þrátt fyrir að vera oftast og lengst lokaður af öllum þeim 22 farartálmum sem skoðaðir voru við röðun á listann. Álftafjarðargöng eru númer fimm á listanum en ættu hið minnsta að vera samsíða Siglufjarðargöngum ef öryggi vegfarenda og sama áhættumat er lagt til grundvallar. Fleiri jarðgangakostir eru auðvitað brýnir á Vestfjörðum en samantekið þá draga þessar hugmyndir að forgangsröðun það fram að alltof langt er í viðunandi úrlausnir í jarðgangagerð á Vestfjörðum að óbreyttu og afleiðingin er lakari lífsgæði og verulega skert samkeppnisstaða.

Lausnir

Verkefnið er stórt og margþætt og raunhæfar lausnir eru litaðar af því. Sumar eru einfaldar á meðan aðrar krefjast undirbúnings og tíma. Strax mun reyna á mikilvæg úrlausnaratriði þegar samgönguáætlun verður lögð fram á þingi nú í október. Ef áætlunin verður lögð fram í sama eða svipuðum búningi og sú sem lögð var fram á síðasta þingi þá er ljóst að gera verður nokkuð róttækar breytingar áður en hægt verður að samþykkja áætlunina.

Aðalatriðið er að standa verður við það sem áður hefur verið ákveðið. Til að mynda verður að klára Dynjandisheiði strax á næsta ári og koma Bíldudalsvegi aftur á þann stað sem hann er á í gildandi áætlun. Eins er augljóst að hraða verður verklokum í Gufudalssveit eins og kostur er úr því sem komið er. Þá verður að rýna mun betur hugmyndir Vegagerðarinnar um forgangsröðun í jarðgangaáætlun og kalla eftir uppfærðri og sjálfstæðri ábatagreiningu, eins og gert var við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Ennfremur þarf að bera kostina saman og meta útfrá umferðaröryggi, tengingu svæða og byggðaþróun. Að öðrum kosti er ekki hægt að taka afstöðu til röðunar forgangslistans.

Breytt forgangsröðun er eitt. Flýting á framkvæmdum er annað og vakna þá spurning um hvernig hægt er að finna nýjar leiðir til fjármögnunar umfram það sem þegar hefur verið ákveðið. Aðkoma ríkisins að samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins getur hér verið leiðarvísir fyrir önnur svæði sem og það frumkvæði sem Innviðafélag Vestfjarða hefur sýnt.

Eftir forskrift samgöngusáttmálans er það eðlileg krafa nú að ríkið komi að sáttmála um flýtingu á uppbyggingu innviða á Vestfjörðum með sveitarfélögum og einkaaðilum eftir atvikum og leggi fram ríkiseignir á svæðinu eins og gert var með Keldnalandið. Eignir ríkisins geta verið margs konar. Til að mynda þau verðmæti sem felast í útboði á framleiðsluheimildum í fiskeldi á Vestfjörðum sem eftir er að ráðstafa eða tiltekið hlutfall af veiðigjöldum sem falla til á svæðinu til næstu 16 ára. Hvað sem útfærslunni líður þá er ljóst að um töluvert fjármagn væri að ræða og fordæmið liggur fyrir í samgöngusáttmálanum.

Innviðaskuld ríkisins á Vestfjörðum er há og hana verður að greiða. Með breyttu viðhorfi og nálgun er hægt að flýta framkvæmdum, finna nýjar leiðir til fjármögnunar og forgangsraða með sanngjörnum hætti. Uppbygging samgönguinnviða setur stóraukinn kraft í alls konar verðmætasköpun á Vestfjörðum landsmönnum öllum til heilla og bætir lífsgæði íbúa til muna.

Teitur Björn Einarsson, alþm.

Nýjustu fréttir