Á laugardaginn, á alþjóðadegi kennara, voru kynntar tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna sem veitt verða veitt á Bessastöðum 5. nóvember. Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum, auk sérstakra hvatningarverðlauna.
Í flokknum Iðn- eða verkmenntun er Þröstur Jóhannesson kennari við Menntaskólann á Ísafirði tilnefndur fyrir þróun vandaðs verknáms með áherslu á nútímatækni og sjálfbærni.
Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari segi að „við í MÍ erum ákaflega stolt af því að eiga í hópnum einn kennara, Þröst Jóhannesson húsasmíðakennara, sem tilnefndur er í flokki iðn- og verkemenntunar en flokkurinn tekur til kennara, námsefnishöfunda, skóla- eða menntastofnunar fyrir framúrskarandi starf, verk eða annað framlag til iðn- eða verkmenntunar. Við óskum Þresti innilega til hamingju með tilnefninguna og öllum kennurum til hamingju með alþjóðadag kennara.“
Þröstur lauk námi til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands 2008 en áður hafði hann lokið meistaranámi í húsasmíði. Þröstur hefur kennt við Menntaskólann á Ísafirði frá 1987 og lengst af verið kennari í húsasmiðagreinum. Undanfarin ár hefur hann verið sviðsstjóri starfs- og verknáms auk þess að sitja í verkefnastjórn vegna byggingar nýs verknámshúss.
Í húsasmíðakennslunni hefur Þröstur verið óhræddur við að leita nýrra leiða. Hann hefur til dæmis nýtt sér samlegðaráhrif við Fab lab-smiðjuna í skólanum í kennslu og náð góðum árangri í að tengja húsasmíði við tæknina sem þar er til staðar. Hann hefur komið á breytingum í teikniáföngum svo þeir séu betur tengdir nútímatækni og þeim veruleika sem bíður nemenda eftir útskrift. Hann hefur lagt mikla áherslu á umhverfismál í störfum sínum, t.d. þegar hugað er að nýtingu á efni í húsasmíðakennslunni.
Þröstur hefur lagt mikla áherslu á öryggismál og er umhugað um að nemendur tileinki sér góð vinnubrögð, meðal annars með tilliti til öryggisatriða. Þresti hefur lagt áherslu á að haga kennslunni þannig að hún búi nemendur sem best undir húsasmíðastörf í framtíðinni. Allan sinn kennsluferil hefur hann verið í mjög góðum samskiptum við atvinnulífið sem hefur skilað sér vel inn í kennsluna.
Þröstur hefur fengist við félagsstörf tengt íþróttum og kennt skíðagöngu. Hann keppti fyrir Íslands hönd í skíðagöngu á vetrarólympíuleikunum 1980.
Úr umsögn sem fylgdi tillögu að tilnefningu Þrastar: „Þröstur er mjög lausnamiðaður, bæði í kennslu sinni og störfum. Hann hefur t.d. búið við frekar slaka kennsluaðstöðu í húsasmíðagreinum við skólann en hann hefur aldrei látið það hafa áhrif á kennsluna heldur unnið með aðstöðuna og verið mjög lausnamiðaður í að nýta rýmið sem best til kennslu.
Þröstur er þekktur fyrir einstaka prúðmennsku bæði meðal nemenda og starfsmanna og það er óhætt að segja að Þröstur búi yfir stóískri ró sem hefur mjög góð áhrif á þau sem eru í kringum hann.
Nemendur Þrastar hafa í gegnum tíðina bundist honum tryggðarböndum og vil ég vitna beint í einn nemanda hans sem sagði mér á dögunum að Þröstur væri svo mikil GOAT eða Greatest Of All Times. Það er líklega ekki hægt að fá betri meðmæli sem kennari.
Þröstur hefur allan sinn tíma sýnt mikla hollustu við húsasmíðakennsluna og skólann. Hann er einstök fyrirmynd, bæði fyrir nemendur og starfsfólk og framúrskarandi kennari.“