Síða 23

Suðurtangi: 7 umsóknir um 4 lóðir

Teikning af lóðunum fjórum sem eru samliggjandi á Suðurtanga.

Fimm umsóknir bárust um fjórar lóðir á Suðurtanga og auk þess fer Eimskip fram á að tvær lóðanna verði teknar að lista yfir lausar lóðir vegna hagsmuna fyrirtækisins sem þurfi stærra svæði en það hefur nú. Auglýstar voru lóðirnar Hrafnatangi 4 og 6 og Æðartangi 9 og 11.

Bendir Eimskip á að vikulegar skipaviðkomur eru á vegum fyrirtækisins á Ísafirði og að þeirri starfsemi fylgja þung og fyrirferðarmikil tæki. „Með öryggissjónarmið fyrirtækisins í huga er rökrétt að horfa í nálægð við fyrirhugað gámasvæði á syðsta hluta tangans“ segir í bréfi Eimskips til bæjaryfirvald sem vill að lóðirnar Hrafnatangi 6 og Æðartangi 11 verði ekki úthlutað.

Gatnagerðargjöld fyrir lóðirnar eru frá 41 m.kr. upp í 70 m.kr. eða samtals 220 m.kr. fyrir allar lóðirnar fjórar.

Umsóknir bárust frá þremur fyrirtækjum. Ísinn ehf sótti um tvær lóðir, Hrafnatanga 4 og Hrafnatanga 6. Nora Seafood ehf sótti um Hrafnatanga 6 og Vestfirskir verktakar ehf sóttu um lóðirnar Æðartangi 9 og Æðartangi 11.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fól bæjarstjóra að vera í sambandi við Eimskip en að öðru leyti voru umsókninar lagðar fram til kynningar.

Scale AQ: nýtt þjónustufyrirtæki á Ísafirði

Magnús Þó Heimisson. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Scale AQ Iceland er nýtt fyrirtæki sem hefur hafið starfsemi á Vestfjörðum. Það selur fóðurpramma og búnað til fiskeldis og þjónustar laxeldisfyrirtækin í fjórðungnum.

Frá áramótum er Magnús Þór Heimisson starfsmaður fyrirtækisins á Vestfjörðum. Auk þess er Scale AQ með starfsemi á Austfjörðum og í Reykjavík.

Magnús Þór segir að Scale AQ hafi einmitt selt á dögunum til Arctic Fish nýjan fóðurpramma og annan búnað til eldisins í Tálknafirði. Það er fjárfesting sem nemur um 1,3 milljarði króna. Á Vestfjörðum séu 7 fóðurpramma frá Scale AQ.

Hann var áður verkstjóri hjá vélsmiðjunni Þrym og þar áður yfirvélstjóri á Stefnir IS. Að sögn Magnúsar Þórs hefur verið meira en í nógu að snúast síðan hann hóf störf og ekki gefist tími til þess að koma sé almennilega fyrir í aðstöðu fyrirtækisins á Ísafirði. Í dag er ferðinni heitið vestur í Arnarfjörð til þess að fylgjast með og yfirfara búnað.

Scale AQ er norskt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Þrándheimi en stofnað var sérstakt félag á Íslandi um stafsemina hér á landi.

Frá Noregi.

Orkuáætlun með þátttöku almennings til að byggja upp seiglu á Vestfjörðum

Brianna Cunliffe útskrifaðist úr umhverfisfræði og stjórnmálafræði frá Bowdoin háskólanum árið 2022.

Brianna Marie Cunliffe, meistaranemi á fyrsta ári í Sjávarbyggðafræði hjá Háskólasetri Vestfjarða hefur hlotið 350.000 kr. rannsóknarstyrk frá Byggðastofnun fyrir lokaverkefnið sitt sem heitir “Orkuáætlun með þátttöku almennings til að byggja upp seiglu á Vestfjörðum”

Rannsókn hennar snýst um að þróa byggðamiðaðar lausnir varðandi seiglu í orkumálum. Hún segir að þátttaka almennings sé mikilvæg í þessu samhengi og getur hún leitt til áhrifaríkra og framsýnna lausna og komið í veg fyrir kostnaðarsamar tafir eða árekstra. Markmið rannsóknarinnar er að tengja saman gildi, forgangsröðun og þekkingu hagsmunaaðila á Vestfjörðum með aðferðum sem byggja á þátttöku þeirra. Með því að þróa stefnumótandi framtíðarsýn sem almenningur tekur þátt í mun Brianna kanna kosti þess að færa umræðu og ákvarðanatöku í orkumálum nær samfélaginu.

Brianna vill vinna náið með heimamönnum og mun skipuleggja vinnustofur með hagsmunaaðilum. Í þeim verða kannaðar mismunandi leiðir í orkumálum og fjallað um helstu áskoranir sem svæðið stendur frammi fyrir.

Hún leggur áherslu á að vinna verkefnið á Vestfjörðum: „Þessi styrkur skiptir mig miklu máli þar sem hann gefur mér betri möguleika á að einbeita mér að verkefninu. Hann gerir mér kleift að skapa hlýlegt og opið umhverfi fyrir þátttakendur, draga úr hindrunum fyrir þátttöku og að ég get unnið þetta verkefni á Vestfjörðum.” – segir Brianna. Hún nefnir einnig að það að vera á staðnum í persónu er grundvallaratriði til að byggja upp traust og öðlast heildrænan skilning og að það opni líka dyr að frekari tengslum við starfsemi Byggðastofnunar og samstarfsaðila hennar víða um svæðið. Það stuðli í kjölfarið að því að verkefnið nýtist samfélaginu enn betur.

“Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að vinna með Byggðastofnun strax á fyrstu stigum rannsóknarinnar, svo hægt sé að tryggja að verkefnið mætir þörfum samfélagsins.“ – bætir Brianna við.

Ástand djúpkarfa á Íslandsmiðum

Nýliðun karfastofna í heimshöfunum er mjög sveiflugjörn og gjarnan langt milli þess sem sterkir árgangar sjást. Jafnframt eru karfategundir hægvaxta og seinkynþroska. Því er mikilvægt að veiðihlutfall sé lágt því þannig má draga úr sveiflum í veiðum og halda hrygningarstofni yfir varúðarmörkum.

Djúpkarfastofninn við Ísland er metinn undir varúðarmörkum og að það eru orðin meira en 15 ár síðan vart var við þokkalega nýliðun í djúpkarfastofninum. Mælingar Hafrannsóknastofnunar sýna því langvarandi brest í nýliðun sem á komandi árum mun leiða til enn frekari minnkunar hrygningarstofns djúpkarfa. Mun það ástand vara þar til nýliðun batnar. Allar veiðar munu því hafa neikvæð áhrif á stofninn.

Þann 21. nóvember 2024 gaf þáverandi matvælaráðherra út 3.800 tonna aflamark fyrir djúpkarfa fyrir fiskveiðiárið 2024/2025 en í júlí 2024 hafði þáverandi matvælaráðherra farið að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og ekki úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2024/2025.

Ástæða fyrir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um ekkert aflamark (0 tonna ráðgjöf) fiskveiðiárin 2023/2024 og 2024/2025 er slæmt ástand stofnsins sem er metinn undir varúðarmörkum og nýliðun síðustu 15 ár eða svo hefur verið lítil sem engin.

Þetta er staðfest bæði með gögnum úr stofnmælingum og úr afla fiskiskipa.

Matvælastofnun fær margar ábendingar varðandi dýravelferð

Matvælastofnun vill árétta að almenningi gefst kostur á að koma ábendingum og fyrirspurnum til stofnunarinnar eftir margvíslegum leiðum svo sem með símtölum, samtölum, tölvupósti eða í gegnum þar til gert form á vef Matvælastofnunar.

Í ábendingahnappi, sem finna má á áberandi stað á heimasíðu Matvælastofnunar, er handhægt að senda ábendingar með myndefni sem ekki er unnt að koma til skila í gegnum síma eða samtöl. Slíkt myndefni getur reynst afar dýrmætt við úrvinnslu þeirra mála sem koma inn á borð stofnunarinnar og hraðað viðbragði og afgreiðslu.

Það sem af er ári hefur Matvælastofnun borist 802 erindi í gegnum ábendingakerfi stofnunarinnar. Árið 2024 voru þau 3.392. Um síðustu áramót hafði stofnunin unnið úr og lokað 88% þeirra erinda sem bárust. Önnur erindi voru annað hvort í ferli innan stofnunarinnar eða bárust seint innan ársins.

Vestri fær bakvörð frá Svíþjóð og markvörð frá Hollandi

Vestri var að styrkja hópinn sinn með sænskum vinstri bakverði sem er með reynslu úr úrvalsdeildunum í Noregi og Svíþjóð.
Sá heitir Anton Kralj og er 26 ára gamall. Hann var lykilmaður í yngri landsliðum Svía þar sem hann spilaði 35 leiki í heildina en tók aldrei stökkið upp í A-landsliðið.

Anton lék á láni hjá GIF Sundsvall í sænsku B-deildinni á síðustu leiktíð og kemur til Vestra á frjálsri sölu frá Hammarby.

Anton á leiki að baki fyrir Hammarby og Degerfors í efstu deild sænska boltans auk þess að hafa spilað fyrir Sandefjord í Noregi.

Anton er sókndjarfur bakvörður og getur einnig spilað á vinstri kanti.

Fyrr í mánuðinum gekk Hollenski markvörðurinn Guy Smit í raðir Vestra og mun verja mark félagsins í sumar.

Hann er 29 ára og kom fyrst til Íslands árið 2020 og lék með Leikni R. í fyrstu deild. Guy var á þeim tíma langbesti markvörður landsins og var það svo að hann gekk til liðs við Val. Hann hefur síðan einnig spilað með ÍBV á láni frá Val og á síðustu leiktíð lék hann með KR. Guy átti erfitt uppdráttar framan af móti eins og allt KR liðið en með þjálfarabreytingum fór KR liðið að spila betur og var Guy frábær seinni hluta mótsins.

Súðavík: 50 tonna byggðakvóti til frístundaveiða

Súðavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Súðavíkur hefur skipt 90 tonna byggðakvóta sveitarfélagsins. Fimmtíu tonn fara til frístundaveiðibáta. Krókaaflabáta fá 21 tonn og skip og báta stærri en 100 tonn fá 19 tonn.

Gert er áð fyrir að löndunarskylda verði á aflanum í Súðavík. Sérreglur taki mið af úthlutun ársins 2024 að teknu tilliti til ábendinga Fiskistofu og ráðuneytis.

Ísafjarðarhöfn: 730 tonna afli í janúar

Páll Pálsspn ÍS við bryggju á Ísafirði um helgina. Mynd: Kistinn H. Gunnarsson.

Alls var landað 730 tonnum af bolfiski í Ísafjaðarhöfn í janúarmánuði. Aðeins tveir togarar komu með afla að landi. Páll Pálsson ÍS landaði 600 tonnum eftir 8 veiðiferðir og Júlíus Geirmundsson ÍS landaði einu sinni og var með 130 tonn af fiskafurðum.

Patreksfjörður 703 tonn

Landað var 703 tonnum af botnfiski í Patrekshöfn í janúar. Togarinn Vestri BA var með 303 tonn eftir 7 veiðiferðir. Tveir línubátar voru að veiðum í mánuðinum. Núpur BA landaði 395 tonn ú 7 veiðiferðum og Sindri BA var með 6 tonn eftir þrjá róðra.

Suðureyri 421 tonn

Gerði voru út fjórir línubátar auk þess sem einn bátur var á handfæraveiðum. Einar Guðnason ÍS fór 18 róðra og landaði 250 tonnum af bolfiski. Hrefna ÍS kom með 106 tonn að landi úr 11 róðrum. Eyrarröst ÍS aflaði 33 tonn í 8 róðrum og Gjafar ÍS va með 16 tonn eftir 3 róðra. Loks var handfærabáturinn Straumnes ÍS með 7 tonn í 8 róðrum.

Vilja virkja húsnefnd Birkimels

Birkimelur á Barðaströnd.

Heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps hittist í síðustu viku. Meðal mála sem þa var tekið fyrir voru málefni félagsheimila.

Valgerður María Þorsteinsdóttir menningar- og ferðamálafulltrúi Vesturbyggðar og Silja Ísafoldardóttir umsjónarmaður Birkimels, sátu fundinn undir þessum lið. Þær fóru yfir fyrirkomulag reksturs, reglur fyrir félagsheimilin, gjaldskrá og athugasemdir við húsnæðið frá eldvarnareftirliti og heilbrigðiseftirliti.


Heimastjórnin bókaði að hún hvetur til þess að húsnefnd/eigendafélag félagsheimilisins Birkimels verði virkjað sem fyrst.

Vegagerðin: hækkar ásþunga aftur í 10 tonn

Gilsfjörður, vegur og brú vígsludaginn 30. okt. 1998. Mynd: Vegagerðin.

Vegagerðin hefur hækkað að nýju ásþunga upp í 10 tonn á Vestfjarðavegi 60 frá Búðardal að Djúpvegi 61 við Þröskulda. Breytingin tók gildi kl.10:00 í dag mánudaginn 17. febrúar 2025.

Áfram er í gildi takmörkun við 7 tonn á Vestfjarðavegi 60 frá Hringvegi 1 við Dalsmynni (Bröttubrekku) að Snæfellsnesvegi 54 við Skógstagl.

Nýjustu fréttir