Á síðasta bæjarráðsfundi hjá Ísafjarðarbæ kynntu þau Dagný Arnalds, Ívar Kristjánsson og Runólfur Ágústsson fyrir bæjarráði hugmynd stýrihóps sem vinnur að þróun starfs lýðháskóla á Flateyri. Lýðháskólar eru einskonar lífsleikniskólar þar sem nemendur geta valið sér nám úr fjölda ólíkra námsgreina þar sem ekki er lögð áhersla á próf heldur fremur þátttöku og að nemendur læri eitthvað gagnlegt og skemmtilegt.
Í kynningu hópsins segir að margir þættir geri Flateyri að sterkum bæ fyrir lýðháskóla, umhverfið, árstíðirnar, friðsældin í náttúrunni og menningarlíf Flateyrar.
Runólfur Ágústsson er verkefnastjóri stýrihópsins: „Þessi hugmynd er búin að vera á floti á svæðinu býsna lengi og við tókum þetta upp síðsumars og fórum að skoða þetta af alvöru. Hugmyndin gæti virst fólki pínu langsótt en þegar við fórum að greina lýðháskólahugmyndina og skoða fordæmi á Norðurlöndum, þar sem fólk er að fara að mennta sig menntunar vegna en ekki til að fá gráðu, þá sáum við margt jákvætt og framkvæmanlegt í hugmyndinni.“
Runólfur segir Flateyri hafa marga styrkleika til að hýsa lýðháskóla: „Við fórum að greina Flateyri út frá þessari hugmyndafræði og sáum fullt af góðum kostum. Þetta er öflugt, lítið og þétt samfélag sem er ákveðinn styrkleiki sem hefur sýnt sig á Norðurlöndunum að nýtast vel. Svo er Önundarfjörður einstakt umhverfi.“
Þær námsleiðir sem hópurinn leggur til að kenndar yrðu við lýðháskóla á Flateyri eru kvikmyndagerð, tónlist, umhverfisfræði og fjallamennska. „Tveir grundvallar styrkleikar Flateyrar eru vissulega kvikmyndir og tónlist. Þar viljum við byggja á styrkleika þess stóra hóps kvikmyndagerðarfólks sem á tengsl við Flateyri og kemur hingað reglulega, svo er auðvitað sterk tónlistarhefð á svæðinu öllu. Svo stingum við upp á umhverfistengdu nám sem yrði kennt á ensku og þar byggjum við á reynslu Háskólaseturs Vestfjarða.“
Hugmyndin hefur verið kynnt fyrir bæjarráði og segir Runólfur næsta skref vera að stofna félag utan um hugmyndina.
brynja@bb.is