Þriðjudagur 12. nóvember 2024
Síða 2275

Af ákveðinni ástæðu …

Björn Davíðsson

Sl. föstudag fór fram á Ísafirði málþing í tilefni þess að nú er lokið lagningu ljósleiðara um Ísafjarðardjúp ásamt því að á verulegum hluta leiðarinnar var jafnframt lagður nýr jarðstrengur Orkubúsins sem eykur verulega afhendingaröryggi rafmagns í Djúpinu og býður upp á þrífösun sem skiptir ábúendur mjög miklu máli. Reiknað er með að tengivinnu við ljósleiðarann verði lokið fyrir áramót og næst þá langþráður áfangi með hringtengingu ljósleiðara á Vestfjörðum með því aukna afhendingaröryggi sem slíku fylgir.

Á málþinginu kom fram í máli Jóns Ríkharðs Kristjánssonar, framkvæmdastjóra Mílu, að Míla telur að rekstraraðilar í fjarskiptastarfsemi þurfi og eigi að viðhafa meira samstarf en verið hefur hingað til. Því ber að fagna en Snerpa hefur frá fyrsta degi ávallt leitað eftir slíku samstarfi. Það verður þó að segjast eins og er að því frumkvæði, sem Snerpa hefur tekið, hefur verið fálega tekið af Símanum og Mílu. Við höfum hins vegar átt mjög gott samstarf við Orkubú Vestfjarða sem hefur orðið til þess að mun meira hefur verið framkvæmt í ljósleiðaramálum á Vestfjörðum en ella. Þannig hefur OV t.d. tekið þá ákvörðun að alls staðar þar sem rafstrengur er grafinn í jörð, er lagt með rör fyrir ljósleiðara og einnig hefur verið hægt að koma fyrir rörum eða strengjum samhliða framkvæmdum við hitaveitu.

Ég tók eftir því í máli Jóns að hann hafði á orði að ,,af ákveðinni ástæðu er Ljósnetið lélegra á Ísafirði en annars staðar.“ Án þess að tími gæfist til að fara nánar út í þá sálma. Þar sem ég þekki vel til um þessa ,,ástæðu“, vil ég gera grein fyrir henni og hvað hún felur í sér. Ástæðan er sú að vegna þeirrar stefnu Snerpu að fjárfesta í fjarskiptainnviðum, hefur Míla tekið ákvarðanir í kjölfarið sem einmitt ekki hafa verið í samstarfi við Snerpu. Það hefur leitt af sér verri þjónustu fyrir hluta af notendum á Ljósnetinu.

Ljósnetið og Smartnetið

Þegar VDSL-tæknin tók við af ADSL fékk hún nafnið Ljósnet hjá Símanum en þar sem um skrásett vörumerki var að ræða var ekki annað í boði en að Snerpa tæki upp sitt eigið vörumerki fyrir sömu þjónustu og var valið nafnið Smartnet. Síðar tók Míla upp nafnið Ljósveita um sömu þjónustu á aðgangskerfi sínu eftir að Samkeppniseftirlitið fyrirskipaði árið 2013 að rekstur Ljósnetsins yrði fluttur frá Símanum til Mílu.

VDSL var í boði hjá Snerpu frá árinu 2009 í neðri bænum á Ísafirði. Vorið 2011 ákvað Snerpa að taka svo af skarið því að ADSL-tengingar þær sem Síminn bauð íbúum í þéttbýli á Vestfjörðum höfðu ekki verið uppfærðar í VDSL. Gerð var áætlun um að setja upp Smartnet einnig á þéttbýlisstöðum utan Ísafjarðar þar sem þjónustan var lélegust og setti Snerpa í framhaldinu upp Smartnet á Þingeyri, Flateyri og á Suðureyri og Bíldudalur bættist svo við um haustið eftir að Vesturbyggð óskaði eftir aðstoð Snerpu við að bæta úr þjónustu þar. Réði þar mestu að þörf grunnskólanna á þessum stöðum var meiri en þjónustuframboð Mílu bauð upp á.

Biðin eftir betra sambandi

Árið 2009 starfrækti Síminn einungis ADSL-þjónustu á Vestfjörðum, þar með talið Ísafirði. Um ADSL-þjónustuna voru í boði allt að 15 sjónvarpsrásir, sem Síminn nefndi Topp en á höfuðborgarsvæðinu og víðar höfðu þá verið í nokkurn tíma í boði um eða yfir 60 rásir. Snerpa bauð Símanum strax árið 2009 þegar búnaður var settur upp í símstöðinni á Ísafirði að veita sjónvarpsþjónustu á Smartnetinu með fullu úrvali sem var mögulegt um VDSL en Síminn afþakkaði. Snerpa bauð einnig Vodafone aðgang undir sjónvarpsþjónustu sína sem var tekið og voru þá í boði yfir 60 sjónvarpsrásir á Smartnetinu, bæði á Ísafirði og í þorpunum í kring.

Þegar Síminn kynnti til sögunnar Ljósnet á Ísafirði á árinu 2013 náði það einungis til þess svæðis sem Snerpa bauð þá þegar Smartnet á. Fljótlega eftir það uppfærði Síminn svo búnað sinn á þeim stöðum sem Smartnet var í boði einnig í Ljósnet. Aðrir staðir, eins og Patreksfjörður, Bolungarvík, Súðavík og Hólmavík sátu þó eftir um tíma og enn lengur biðu Holtahverfið, Hnífsdalur og efri bærinn á Ísafirði. Þá virtist sem Síminn legði einungis áherslur á Ljósnetið þar sem Snerpa hafði boðið Smartnetið. Snerpa bætti þá í og setti upp Smartnet í Hnífsdal. Síminn kom einnig þar með Ljósnet en aðhafðist ekki frekar.

Framkvæmdir Snerpu

Vegna aðgerðaleysis Símans ákvað Snerpa að fara í frekari uppbyggingu og vorið 2013 var haldinn sérstakur fundur með Símanum þar sem áform Snerpu voru kynnt, sérstaklega að til stæði að setja upp Smartnet í efri bænum á Ísafirði með því að setja upp búnað við götuskáp efst í Bæjarbrekkunni en þessi skápur þjónaði heimtaugum í mestöllum efri bænum. Einnig voru kynnt áform um að bjóða Smartnet í Holtahverfinu og var Símanum jafnframt boðið samstarf um framkvæmdirnar þannig að ekki yrði um tvífjárfestingu að ræða ef Síminn kæmi strax á eftir með Ljósnetið eins og hafði áður gerst. Þá var Símanum aftur boðinn aðgangur að dreifingu sjónvarpsþjónustu. Einnig var sérstaklega farið yfir samkeppnisaðstæður og hvernig yrði tryggt jafnræði milli fjarskiptafélaga en í boði var að og er enn að Smartnetið væri sk. opið net sem öllum fjarskiptafyrirtæki geta selt þjónustu sína á. Enn sem komið er hefur þó einungis Vodafone nýtt sér það. Árangurinn af þessum fundi var enginn og Síminn afþakkaði allt samstarf.

Míla tekur við Ljósnetinu

Árið 2013 var svo rekstur Ljósnetsins fluttur til Mílu sem var hluti af sátt Símans við Samkeppniseftirlitið þar sem fram kom að Síminn hafði að mati þess framið mjög viðamikil brot gagnvart samkeppnisaðilum og sektaði Símann jafnframt um 300 milljónir króna fyrir þau brot. Rétt er að geta þess að yfirmaður reksturs á Ljósnetinu, fluttist með því yfir til Mílu og hafði hann setið umræddan fund og var því fullkunnugt um áform Snerpu.

Snerpa ákvað að fara í framkvæmdirnar í efri bænum á Ísafirði sumarið 2013 og í Holtahverfinu árið 2014. Framkvæmdir í Holtahverfinu hófust með því að í ágúst 2014 var settur upp búnaður í símstöðinni í Holtahverfi og pantaður ljósleiðari frá Mílu að Vegagerðinni á Dagverðardal og síðan lagði Snerpa ljósleiðara frá Vegagerðinni niður í hverfið en enginn ljósleiðari var tiltækur hjá Mílu. Svo virðist sem Míla hafi þá tekið þá ákvörðun að fara í snatri í Ljósnetsvæðingu í Holtahverfinu auk þess sem vísvitandi var reynt að tefja fyrir framkvæmdum Snerpu m.a. með því að láta að því liggja að koparstrengur sem Snerpa hafði leitað eftir kaupum á hjá Mílu væri til, en afhendingu frestað og svo að lokum hafnað. Varð Snerpa þá að verða sér úti um efni eftir öðrum leiðum en sem betur fer tókst það. Leiknum var þó ekki lokið, heldur hafnaði Míla því einnig að Snerpa fengi að nota heimtaugar Mílu í hverfinu, nokkuð sem kvöð er á Mílu um að veita. Bar Míla því við að þeir þyrftu sjálfir að nota heimtaugarnar undir Ljósnetið og neyddist Snerpa til að leita liðsinnis hjá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) sem er eftirlitsaðili með því að þessum og öðrum leikreglum sé fylgt.

Kærumál um koparheimtaugar

PFS tók sér frá september fram í desember árið 2014 að leysa úr kvörtun Snerpu, en á meðan lagði Snerpa eigin strengi í fjölbýlishúsin í Stórholti og hóf að veita þjónustuna á einum götuskáp sem Míla neyddist til að veita aðgang að. Á tímabilinu setti Míla svo upp tvo götuskápa til viðbótar í hverfinu. Þegar úrskurður PFS var gefinn út í desember 2014 kom í ljós að Mílu bar ,,að tilkynna um framkvæmdir sínar við VDSL væðingu umrædds hverfis með a.m.k. 6 mánaða fyrirvara og veita Snerpu í upphafi allar nauðsynlegar upplýsingar sem félagið hefði þurft vegna VDSL uppbyggingar sinnar á heimtaugum Mílu í hverfinu.“ Einnig kom fram í úrskurðinum að: ,,Míla braut gegn jafnræðiskvöð þeirri sem á félaginu hvílir á heimtaugamarkaði […]“. Þá kvað PFS á um að Mílu væri óheimilt að hefja VDSL þjónustu í hverfinu. Það skyldi einnig gilda um VDSL væðingu Mílu í efri bænum á Ísafirði því þar hafði Míla einnig unnið á sama hátt. Þá lagði PFS Mílu þá skyldu á herðar, bæði í Holtahverfi og í efri bænum á Ísafirði að Mílu væri ,,óheimilt að hefja veitingu VDSL þjónustu sinnar í umræddu hverfi, sem og öðrum hverfum sem háttar til með hliðstæðum hætti, fyrr en Snerpa og önnur áhugasöm fjarskiptafyrirtæki hafa fengið fullnægjandi sýndaraðgang (VULA) […]

Fljótlega kom í ljós að Míla hafði flutt tengingar frá símstöðinni í Holtahverfi í götuskápa á tímabilinu fram í desember 2014. Taldi Snerpa að þetta væri með vitund PFS en þegar í ljós kom að svo var ekki efndi Snerpa til annars kærumáls til að fá úr því skorið enda hafði Míla ekki boðið Snerpu umræddan sýndaraðgang að heimtaugum (VULA). PFS úrskurðaði síðan að þar sem tengingarnar höfðu átt sér stað áður en úrskurðurinn féll og þar sem PFS var ekki kunnugt um þær fyrr en eftir á, að þá hefði Míla verið í rétti til að framkvæma þær.

VULA

VULA er úrræði sem Míla getur boðið aðilum eins og Snerpu, sem vilja nýta heimtaugar Mílu en Míla vill af tæknilegum ástæðum ekki veita beina tengingu við heimtaug. VULA átti Míla að hafa í boði í síðasta lagi 13. nóvember 2014, tæpum mánuði áður en ofangreindur úrskurður féll. Mílu tókst hinsvegar ekki að standa við það og ennþá er VULA ekki í boði. Það er ástæðan fyrir því að ,,Ljósnetið er lélegra á Ísafirði en annars staðar“. Mílu er óheimilt að hefja frekari veitingu á þjónustunni í þessum tveimur hverfum þar til VULA er í boði. Snerpa getur hins vegar boðið Smartnet mun víðar þar sem þessar kvaðir hvíldu ekki á Snerpu. Snerpa hefur ítrekað sent bæði Mílu og PFS athugasemdir og tillögur að skilmálum en því miður er ekki séð fyrir endann á því ennþá. Vonir standa til þess að þeirri vinnu ljúki í febrúar skv. upplýsingum frá PFS.

Ljósleiðarinn

Dæmin sem nefnd eru að ofan eru ekki eini ásteytingarsteinninn í tilraunum Snerpu til að eiga samstarf við Mílu um uppbyggingu á þjónustu. Fyrir utan hús næst símstöðinni í Bolungarvík virtist vera að Míla hafði ekki áhuga á Ljósnetsvæðingu nema þar sem Snerpa var búin að vera á undan. Snerpa pantaði ljósleiðara í Súðavík 11. maí sl. með það að markmiði að opna Smartnetið þar. Þann 2. júní tilkynnti Míla að til stæði að uppfæra ADSL í Súðavík upp í Ljósnet. Við töldum þetta ekki vera tilviljun og drógum pöntunina til baka. Míla lauk þó við tilkynnta uppfærslu og nú er Ljósnet í boði í Súðavík. Snerpa í samstarfi við Vodafone athugaði í sumar möguleika á að nýta ljósleiðara í Bolungarvík til að bjóða Smartnet þar. Míla svaraði því til að ljósleiðari væri ekki í boði þangað. Að undangengnum ýmsum athugunum á valkostum þar ákvað Snerpa í haust að leggja nýjan ljósleiðara inn í bæinn, um 1,5 km sem á vantaði til að veita betri þjónustu og er reiknað með að hann verði kominn í gagnið fyrir jól. Míla tilkynnti 15. nóvember sl. um framkvæmdir í Bolungarvík sem miða að því að efri hluti bæjarins fái Ljósnetsþjónustu ekki síðar en 15. febrúar 2017. Tilviljun? Í öllu falli er hægt að fagna öllu því sem miðar að bættri fjarskiptaþjónustu á Vestfjörðum. Það er sama hvaðan gott kemur er það ekki?

Villandi svör frá Símanum

Eftir þessa reynslu af samstarfi við Mílu um koparheimtauganetið og Ljósnetið hefur Snerpa ákveðið að frekari uppbygging í Smartnetinu verði með þeim hætti að ljósleiðari verði í boði beint til heimila. Þar sem fjárfestingagetan er takmörkuð hefur ekki mikið borið á þessu en má þó nefna að í sumar tengdum við yfir 30 ný heimili í Stakkaneshverfinu við ljósleiðara en það hefur verið afskipt og verið með lélegra samband á Internetið en margir aðrir vegna línulengdar frá símstöð. Eru nú yfir 100 heimili í heildina sem eiga kost á ljósleiðaratengingu Snerpu á Ísafirði án þess þó að allt sé upp talið.

Símanum var, strax í mars 2013 boðinn aðgangur að Smartnetinu. Slíku hefði fylgt að Símanum hefði boðist að veita sjónvarpsþjónustu sína um Smartnetið. Rétt er að geta þess að skv. 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga er Símanum sem fjölmiðlaveitu beinlínis óheimilt að beina viðskiptum viðskiptamanna að tengdu fjarskiptafyrirtæki en Síminn er móðurfélag Mílu. Síminn hefði því átt að fagna þessari ákvörðun Snerpu um að opinn aðgangur væri að Smartnetinu og þar með möguleiki að sýna fram á að viðskiptavinum Sjónvarps Símans væri ekki beint eingöngu til Mílu. Snerpa gæti í samræmi við 47. gr. sömu laga krafist þess að Síminn bjóði sjónvarpsþjónustu á Smartnetinu en hefur ekki talið farsælt að þvinga aðila í viðskipti og því látið kyrrt liggja.

Undanfarið hafa þeir sem hafa áhuga á að tengjast á ljósleiðara Snerpu en vilja notast áfram við Sjónvarp Símans haft samband við Símann til að forvitnast um hvenær slíkt verði mögulegt. Okkur hafa borist spurnir af því að svör þar um hafi verið mjög villandi og beinlínis ósannindi. Allt frá því að Snerpa meini Símanum að bjóða þjónustu á ljósleiðaranum upp í að viðkomandi þurfi ekkert betra samband miðað við mælingar á ADSL tengingu viðkomandi sem sé bara fín. Einnig hafa komið þær skýringar að Snerpa sé að skemma fyrir uppbyggingu á Ljósnetinu með því að banna Mílu að taka í notkun götuskápa sem hafi verið tilbúnir í tvö ár. Eins og lesa má úr langri sögu hér að ofan er slíkt fjarri öllum sannleika.

Undanfarið hefur líka komið fram að Ljósnet og ljósleiðari eru ekki það sama. Ég læt staðar numið hér en það bíður síðari tíma að gera athugasemdir um villandi framsetningu Símans um Ljósnetið.

Ég vil í lokin biðjast velvirðingar á því að Snerpa hefur ekki verið nægilega iðin við að koma upplýsingum um þetta mál til almennings. Það er því miður flókið og ekki gott að gera grein fyrir því í stuttu máli.

f.h. Snerpu ehf.

Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri.

Vesalingarnir – Sjónarmið 45. tbl

Kristinn H. Gunnarsson

Nú stendur yfir enn ein áróðurhrinan hjá stórútgerðinni. LÍÚ berst um á hæl og hnakka gegn hugmyndum um innleiðingu á samkeppni í sjávarútvegi þar sem öllum fyrirtækjum yrði gert að starfa á sama grundvelli. Kjarninn í breytingartillögunum er að innkalla veiðiheimildir og setja almennar reglur um ráðstöfun þeirra.  Í markaðshagkerfi er samkeppnin lykilatriðið og það er meginreglan í íslensku samkeppnislöggjöfinni. Bæði hérlendis og erlendis er löng reynsla af því að samkeppni bætir hag neytenda. Skortur á samkeppni leiðir til fákeppni og jafnvel einokunar sem bitnar á almenningi og neytendum með misnotkun valds. Íslenska ríkið hefur frá 2002 haft þá opinberu stefnu, sérstaklega hvað varðar eigin innkaup, að efla samkeppni á markaði.  Almennt útboð er leiðin sem farin er og hefur gefist það vel að engar hugmyndir eru um að víkja frá henni.  Frekar hefur verið farið yfir útboðsskilmála og þeir endurbættir ef markmiðin hafa ekki náðst sem skyldi. Útboð veiðiheimilda er hin eðlilega og rökrétta niðurstaða sem samræmist stefnu ríkisins í öðrum atvinnugreinum.

Sérákvæði um sjávarútveg

Aðeins tvær atvinnugreinar eru undanþegnar ákvæðum samkeppnislaga, landbúnaður og sjávarútvegur. Hvað sjávarútveginn varðar þá hafa verið sett lagaákvæði til þess að takmarka samþjöppun en að öðru leyti er útgerðin meðhöndluð sem vesalingar sem þurfa sérstaka vernd ríkisins til þess að geta rekið fyrirtæki sín. Handhafa veiðiréttarins fá ótímabundna úthlutun. Þeir hafa öryggi um aldur og ævi og þurfa ekki að óttast samkeppni um veiðiheimildirnar. Þeir þurfa ekki að hagnýta veiðiréttinn sjálfir og mega láta aðra veiða en hirða sjálfir afraksturinn. Útgerðin  greiðir ríkinu brot af markaðsverði réttindanna sem hún lætur aðra greiða sér. Í þorskveiðiréttindunum fær handhafi réttindanna 93% af markaðsvirðinu en ríkið 7%. Ríkið sjálft býr til  stórkostlegan efnahagslega mismun milli fyrirtækja. Þetta nefnist ríkisstuðningur, og er í öðrum atvinnugreinum andstæður EES samningnum og eru þungar refsingar við slíkum brotum. Þar sem samkeppnishvatinn er tekinn út verður ekki endurnýjun á markaðslegum forsendum sem hverri atvinnugrein er nauðsynlegt. Afleiðingin verður stöðnun og síðan afturför.

Ofverndaðir útgerðarmenn

Sjálft kerfið, það er langtímayfirráð réttindanna, breytir valdahlutföllum í samskiptum atvinnurekenda og launþega á þann hátt að  útgerðin hefur tögl og haldir, hún ræður algerlega ferðinni og setur sjómönnum reglurnar.  Annaðhvort gera sjómenn eins og þeim er sagt eða þeir geta farið annað eða þá að þeim er beinlínis hótað brottrekstri. Útgerðin hefur gengið á lagið og ákveður leikreglurnar sér í vil. Lítum á nokkur atriði:

20% afsláttur – Nýundirritaðir kjarasamningar færa útgerð sem jafnframt er fiskkaupandi fiskinn með 20% afslætti frá markaðsverðinu. Þetta þýðir miðað við 2015 að verðið á fiski sem seldur er í beinum viðskiptum er með 11 milljarða króna afslætti. Það lækkar laun sjómanna að sama skapi. Eru útgerðarmenn svo miklir vesalingar að þeir þurfa að fá 20% frá markaðsverði til þess að geta rekið fyrirtæki sín? Geta þeir ekki keppt við aðra fiskkaupendur?

nýsmíðaálag – þrátt fyrir hástemmdar lýsingar á arðsemi íslensks sjávarútvegs og yfirburðafærni núverandi kvótahafa verða þeir að sækja hluta af kaupverði  nýrra skipa í vasa sjómanna. Nýsmíðaálagið lækkar laun sjómanna um allt að 10%. Eru útgerðarmenn slíkir vesalingar að þeir geta ekki í besta fiskveiðikerfi í heimi greitt skipin sín án þess að seilast ofan í vasa áhafnarinnar?

olíukostnaður – fyrir rúmum 30 árum voru aðstæður þannig að olíukostnaður tók nærri 30% af tekjum útgerðarinnar. Þá voru sett lög sem heimiluðu útgerðinni að draga 30% af tekjunum frá óskiptu. Um allmörg ár hefur staðan verði mun betri og síðustu árin er olíukostnaðurinn um 11% af tekjunum. Engu að síður er útgerðin enn að fá 30% af tekjunum framhjá skiptum til sjómanna. Sjómenn greiða allan olíukostnaðinn, ekki einu sinni heldur þrisvar sinnum. Eru útvegsmenn slíkir vesalingar að í myljandi arðbærum atvinnurekstri þar sem framlegðin er um 30% og 70 – 75 milljarðar króna á hverju ári þurfi að velta olíukostnaðinum að fullu yfir á sjómenn?

sjómannafsláttur – um áratugaskeið niðurgreiddi ríkið launakostnað útgerðarinnar með sjómannaafslættinum. Fyrir fáum árum var því hætt og útgerðin talin geta borið sjálf þennan kostnað. Aðstæður í útgerð hafa líka verið með besta móti. En það var ekki við því komandi að útgerðin greiddi þennan 1,5 milljarð króna. Kjör sjómanna rýrnuðu sem þessu nemur. Eru útgerðarmenn slíkir vesalingar að þeir geta ekki greitt laun sjómanna í bestu afkomu um áratugaskeið?

Afleiðing einokunar – þessar aðstæður þekkjast ekki í öðrum atvinnugreinum. Þar verða atvinnurekendur að standa sig. Þeir eru í samkeppni við önnur fyrirtæki og geta ekki bannað nýjum aðilum að hasla sér völl. Samkeppnin nær ekki bara til framleiðslunnar heldur einnig til vinnuaflsins. Aðstæður í sjávarútveginum er afleiðing einokunar. Útvegsmenn eru ekki vesalingar. Þeir geta vel rekið fyrirtæki sín við eðlileg samkeppnisskilyrði. En einokunaraðstaða þeirra og óeðlileg völd er afleiðing af lagaumgjörðinni. Sjómenn og íbúar sjávarbyggðanna eru í meira og minna gíslingu fárra eigenda sjávarútvegsfyrirtækja sem bera engar lagalegar skyldur um hag þeirra.

LÍÚ vill viðhalda einokunaraðstöðunni, þeir eru á móti því að þjóðin eigi veiðiheimildirnar, þeir eru á móti innköllun þeirra, þeir eru á móti samkeppni um þær, þeir eru á móti því að greiða markaðsverð fyrir fiskinn, þeir eru á móti því að greiða markaðsverð fyrir veiðiheimildirnar til ríkisins, þeir eru á móti byggðatengingu veiðiheimildanna. Þeir vilja óbreytt ástand. Það færir fáum mikið. En margir tapa og þjóðin mestu.

Kristinn H. Gunnarsson

Draumabarnið – Sjónarmið 45. tbl

Ásthildur Sturludóttir

Þegar þetta er skrifað er ég á 7. viku fæðingarorlofs og nýt hverrar mínútu. Draumabarnið komið í heiminn eftir áralanga bið. Hamingjan er mikil og okkur fjölskyldunni líður eins og við höfum verið bænheyrð. Það er ekki sjálfgefið að fá að eignast barn og sérstaklega ekki þegar maður er nú “hniginn að aldri” eins og segir í Biblíunni. En við gáfumst ekki upp og Lilja kom í heiminn 5. október sl. Litla stúlkan okkar var hins vegar að flýta sér og kom í heiminn 8 vikum fyrir tímann. Ég áttaði mig á því að við stjórnum fáu þegar kemur að því að koma nýju lífi í þennan heim. Þetta átti nefnilega ekki að vera svona. Ég ætlaði að vinna fram á síðasta dag og allt átti auðvitað að vera fullkomið þegar litli unginn fæddist. Það breyttist, náði ekki einu sinni að taka til á skrifborðinu á skrifstofu bæjarstjóra og henda ruslinu! Tyggjóklessan var því enn í fötunni og óhreinir kaffibollar á borðinu þegar ég fór. Og heimferðardressið hennar Lilju var allt, allt of stórt.

Við mæðgur vorum rúman mánuð á Landspítalanum við einstakt atlæti. Það verður seint fullþakkað. Fyrstu vikurnar var ég á sængurlegudeild en síðan í fjölskylduherbergi við Vökudeildina og ég var mjög heppin að fá að dvelja þar. Við erum enn í bænum og höfum ekki enn fengið heimferðarleyfi vestur á Patreksfjörð. Það verður vonandi fyrir jól. Þá verð ég búin að vera hér síðan í lok september. Blessunarlega höfum við aðgang að góðri aðstöðu hér í bænum eftir að við komum út af spítalanum. Slíku er ekki fyrir að dreifa hjá öllum. Við erum því mjög heppnar. Landsbyggðarfólk er nefnilega í misgóðri aðstöðu þegar kemur að þessum málum. Það er fátt verra en að vera fjarri heimili sínu og á hrakhólum, fárveik af meðgöngukvillum nú eða kasólétt á 10. mánuði, rétt nýstigin af sæng eða verandi barn á vökudeild. Tala nú ekki um þegar fleiri börn eru á heimilinu. Konur geta verið í þessari stöðu svo vikum skiptir. Þessu er nauðsynlegt að breyta og ættu að vera sjálfsögð réttindi foreldra utan að landi sem hefðu átt að vera í boði fyrir löngu eða um leið og það varð “hættulegt” að fæða börn út á landi.

Húsnæðisvandi sjúklinga utan að landi er eitt. Almenn sjálfsögð réttindi er annað. Til dæmis eru réttindi foreldra sem eignast barn fyrir tímann mjög takmörkuð. Aukið fæðingarorlof fæst aðeins fyrir þá daga sem barn liggur inni á Vökudeild, ekki aðra daga fram að settum fæðingardag, jafnvel þó að ekki fáist heimild fyrir heimferð frá Reykjavík, barnið komi á göngudeild tvisvar sinnum í viku og sé í raun ekki útskrifað. Það ferli getur tekið margar vikur. Við mæðgur erum t.d. búnar að vera utan Vökudeildar í tæpar fjórar vikur en komumst ekki heim til okkar. Þessi tími dregst af fæðingarorlofinu. Í okkar tilfelli hefur eiginmaður minn ekki átt tök á að vera með okkur allan tímann vegna vinnu fyrir vestan en hann hefur komið suður allar helgar með tilheyrandi kostnaði. Ferðakostnaður er í þessum tilfellum einungis greiddur meðan barn er inniliggjandi á Vökudeild. Ekki er hægt að fá stuðning fyrir þann tíma þegar barnið er komið út af spítalanum en fær ekki heimild fyrir heimferð sem er að öllu leyti óeðlilegt. Það er örugglega margt fleira sem hægt væri að tína til sem snýr að ósanngirni tryggingakerfisins þegar kemur að fjölskyldum fyrirbura utan að landi en hér eru aðeins augljós dæmi nefnd.

Það gera fáar konur ráð fyrir því í upphafi meðgöngu að eignast barn fyrir tímann, að veikjast sjálfar á meðgöngunni nú eða eignast veikt barn. Þetta eru málefni sem fáir huga að sem sitja á Alþingi en ætti að vera einfalt að breyta. Svona nokkuð getur orðið til þess að ungt fólk hrökklist í burtu því það er einfaldlega of dýrt að ferðast á milli landsbyggða og Reykjavíkur með veikt barn eða dvelja fjarri heimili svo vikum skipti í tengslum við fæðingu barna.

Ég skora á nýkjörna þingmenn kjördæmisins að skoða þessi mál og standa fyrir leiðréttingu á þeim.

Ásthildur Sturludóttir

Dýrafjarðagöng ekki á fjárlögum

Dýrafjarðargöng

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 sem nú er til umræðu virðist ekki vera gert ráð fyrir Dýrafjarðargöngum segir G. Pétur Matthíasson forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar. Aðeins séu 300 milljónir eyrnamerktar undirbúningi jarðgangagerðar en Dýrafjarðargöng hafa þegar verið boðin út og sjö verktakar vinna nú að tilboðsgerð.

Hann segir að framlög til Vegagerðarinnar hafi lækkað um 100 milljónir króna milli árana 2016 og 2017 sé miðað við fjárlög. En ef miðað er við nýsamþykkta samgönguáætlun, sem vel að merkja var samþykkt einróma á Alþingi, þá vantar rúma 13 milljarða til framkvæmda hjá Vegagerðarinni.

bryndis@bb.is

Feita mamma frumsýnd í G.Í.

Nemendur á efsta stigi við Grunnskólann á Ísafirði frumsýna í dag leikritið Feita mamma eftir Auði Jónsdóttur á fullveldisfagnaði 10.bekkjar. Sýningin í dag verður fyrir nemendur í 8.10.bekk G.Í. og nágrannaskóla og eftir sýninguna verður slegið upp balli í skólanum. Á morgun laugardag, klukkan 14, verður svo sýning öllum opin í sal grunnskólans.

Feita mamma segir af því er Álfur platar mömmu sína til að taka þátt í fáránlegri keppni um hver eigi feitustu mömmuna, í tilefni þess að það er verið að frumsýna kvikmyndina Feita mamma 3. Honum hugkvæmdist þetta fyrir áeggjan félaga sinna, sem eru þarna líka ásamt mæðrum sínum, en í ljós kemur að það sem raunverulega knýr hann áfram er söknuður eftir mömmunni, sem berst við þunglyndi eftir skilnað, höfnun sem hann hefur upplifað við að pabbi hans tók saman við nýja konu með börn – og þráin eftir viðurkenningu Ástu, stelpunnar sem hann er skotinn í.

Það eru tveir valhópar við Grunnskólann á Ísafirði sem standa að baki sýningunni. Leiklistarvalið, sem hefur það að markmiði að setja upp sýningu fyrir fullveldishátíð skólans. Það er margt sem komið er inn á í áfanganum, líkt og: Leikhústækni, framsögn, hreyfing, tjáning, þolinmæði, áræðni, þrautseigja, samvinna, sjálfsstyrking, tjáningarþor, leikmyndargerð, leikmunagerð og búningahönnun. Það er Ása Einarsdóttir sem kennir í leiklistarvali og telur áfanginn um 80 klukkustundir, sem hún segir algjört lágmarks vinnuframlag hvers og eins þegar setja á upp stórkostlega sýningu.

Hinn hópurinn sem kemur að sýningunni er tækniráðið sem er í umsjón Evu Friðþjófsdóttur. Markmið með þeim valáfanga er að nemendur læri helstu þætti ljósa- og hljóðvinnu og gert er ráð fyrir að nemendur í tækniráði sjái um tæknimál á viðburðum  skólans.

annska@bb.is

OV auglýsir samfélagsstyrki

Orkubú Vestfjarða auglýsir eftir umsóknum um samfélagsstyrki 2016, en úthlutun samfélagsstyrkja er árlegur viðburður hjá fyrirtækinu. Við styrkúthlutun er leitast við að styrkja verkefni vítt og breitt um Vestfirði og miðað við að einstakar styrkveitingar geti verið á bilinu 50.000 til 500.000.- þúsund krónur. Við síðustu úthlutun hlutu hæstu styrkina Björgunarsveitin Blakkur á Patreksfirði sem fékk 300.000.- króna styrk og Björgunarsveitin Tálkni á Tálknafirði sem fékk 200.000. – vegna kaupa á tetrastöðvum.

Í fréttatilkynningu vegna styrkjanna segir að með þeim vilji OV sýna stuðning í verki við þá aðila og félög sem sinna ýmsum samfélagsmálum á Vestfjörðum. Þar geti verið um að ræða ýmiskonar starfsemi eða félagasamtök, s.s. björgunarsveitir, íþrótta- og æskulýðsstarf, menningarstarfsemi og listir eða einhver önnur áhugaverð verkefni sem skipta máli fyrir vestfirskt samfélag.

Verkefnin þurfa að uppfylla þau skilyrði að þau séu til eflingar vestfirsku samfélagi, en að öðru leyti er umsækjendum gefnar nokkuð frjálsar hendur varðandi verkefni.  Umsóknum skal skilað rafrænt með því að fylla út rafrænt eyðublað á heimasíðu OV. Umsóknarfrestur er til og með 16. desember.

annska@bb.is

Vestrakrakkar gera það gott í blakinu

Katla Vigdís Vernharðsdóttir, Hafsteinn Már Sigurðsson og Gísli Steinn Njálsson

Ungir blakiðkendur hjá Vestra hafa verið að gera góða hluti að undanförnu og hafa tveir drengir verið valdir í drengjalandsliðið, þeir Hafsteinn Már Sigurðsson og Gísli Steinn Njálsson og er Katla Vigdís Vernharðsdóttir komin í 15 manna úrtak fyrir stelpnalandsliðið, en um næstu helgi verður valið í 12 manna hóp. Blaksamband Íslands sendir stelpna- og drengjalandslið á Evrópumót í Danmörku sem haldið verður dagana 19.-21. desember. Hjá stelpunum er um að ræða landslið þar sem elstu stelpurnar eru fæddar 2002 og hjá strákunum eru þeir elstu fæddir árið 2001 og er þetta í fyrsta sinn sem Ísland er með í verkefnum fyrir svo ung blaklandslið.

Þau Hafsteinn, Gísli og Katla bætast því í sístækkandi hóp leikmanna Vestra sem valin hafa verið í unglingalandslið í blaki og má því með sanni segja að Ísafjarðarbær sé búinn að stimpla sig inn sem blakbær.

annska@bb.is

Kindur hrella ökumenn í skammdeginu

Lömbin sækja í að kúra í vegköntunum. Það getur orðið þeim að aldurtila.

Tíðin það sem af er vetri hefur verið sérlega góð á Vestfjörðum. Margir fagna að þurfa ekki að ösla skaflana eða glíma við ófærð á vegum, aðrir fagna minna. Þó enn sé snjólétt á vegum í fjórðungnum þá er ýmislegt sem ber að varast, til að mynda hefur mikil hálka verið þessa vikuna og einnig er enn eitthvað um að hinir seinþreyttu sumargestir á þjóðvegum landsins – íslenska sauðkindin, séu enn á vappi á og við vegi í umdæmi Lögreglunnar á Vestfjörðum. Segir á vef Lögreglunnar mikilvægt að bændur reyni allt sem hægt er til að tryggja að fé sé ekki við þjóðvegina, ekki síst í ljósi þess að erfitt er fyrir ökumenn að sjá kindur í myrkrinu í skammdeginu sem nú ríkir og eru ökumenn jafnframt hvattir til að vera á verði gagnvart þessu.

annska@bb.is

Sofnaði undir stýri

Um nýliðna helgi var einum gesti vínveitingastaðar á Ísafirði vísað út þar sem hann hafði ekki aldur til að dvelja þar. Gerðar voru athugasemdir við rekstraraðila að slíkur gestur væri inni á veitingastaðnum enda er það hlutverk dyravarða að tryggja að svo sé ekki. Þetta kemur fram á vef Lögreglunnar á Vestfjörðum þar sem fjallað er um helstu verkefni liðinnar viku, en þar má einnig sjá að sex ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Flestir þessara ökumanna voru stöðvaðir í Strandasýslu og á Djúpvegi. Sá sem hraðast ók mældist á 121 km hraða, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km.

Tilkynningar bárust um tvö umferðaróhöpp í liðinni viku. Annað þeirra varð í Þorskafirði um miðjan dag þann 23. nóvember en þá virðist ökumaður hafa misst stjórn á bifreiðinni sem rann út af veginum og valt. Hálka var á veginum þegar atvikið varð. Ökumann, sem var einn í bifreiðinni, sakaði ekki. Hitt óhappið varð í Álftafirði síðdegis þann 27. nóvember. En þá var fólksbifreið ekið utan í vegrið sem er við veginn. Bifreiðin rann hvorki út af veginum né valt við áreksturinn en skemmdist töluvert. Hvorki ökumann eða farþega sakaði. Svo virðist sem ástæða óhappsins sé sú að ökumaður hafi sofnað við stýrið.

annska@bb.is

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi – Sjónarmið 44. tbl

Finnbogi Hermannsson

Um miðja síðustu viku gerðist sá hversdagslegi atburður að dálkahöfundur þessi þurfti að fara á kamarinn heima hjá sér á Bakkavegi 11 í Hnífsdal. Með því að dimmt var yfir og degi tekið að halla var það augljóst mál að kveikja rafmagnsljós á klósettinu. Það gerðist í sömu svipan og hann snerti slökkvarann að rafmagni sló út upp á punkt og prik.  Ævinlega fyrsta hugsunin að rafmagnsleysið sé hjá manni sjálfum. Hugsanlega farið hranalega að slökkvaranum,  peran sprungið af þeim völdum og lekaleiðararofinn slegið út.  Reynsla er fyrir því. Konan varð vitni að þessu og taldi sig hafa heyrt peruna springa. Nú varð ekki hjá því komist að paufast niður í kjallara og slá inn. En þá voru allir rofarnir uppi, alveg bísperrtir. Nú, það voru líklega stofnöryggin. Hafði lent í því að stofnöryggi færu. Þau eru tvö að mig minnir. Í þessum svifum kallaði konan og sagðir mér að gá hvort ljós væri í Hrauni. Þar væri alltaf ljós á hlaðinu. Ég skreiddist aftur upp stigann og út í dyr og það var ekkert ljós í Hrauni. Gáði svo kringum mig í Hnífsdal og sá hvergi glætu. En fólk var auðvitað í vinnu og skildi ekki eftir ljós heima hjá sér.

Svo leið og beið og ekkert kom rafmagnið.  Undir klukkan þrjú kom rafmagnið skyndilega eins og hland úr fötu og hafði þá verið rafmagnslaust í um hálftíma.  Þykir langur tími á tölvuöld. Peran á klósettinu glotti nú framan í mig eins og tungl í fyllingu svo og önnur rafmagnstól á heimilinu. Ekkert hafði slegið út og stofnöryggin strýheil í kjallaranum. Þakkaði guði fyrir miskunnsemi hans.

Ég hugsaði með mér fullur sektarkenndar að svona geti gerst, fari maður ekki vel að slökkvurum, einkum á klósettum. Var enn þá viss um að rafmagnsleysið væri mér að kenna. Gat ekki verið nein tilviljun að öllu slægi út akkúrat þegar ég kveikti á ljósinu á náðhúsinu.  Eins gott að það kæmist ekki upp hvernig í öllu lá.

Þegar leið á daginn tóku að berast fréttir af því að helstu rafmagnslínur landsins hefðu rofnað svo sem strengurinn úr sjálfri  Búrfellsvirkjun og Hrauneyjarfossvirkjun og ég veit ekki hvað. Meira segja varð straumlaust norður í landi. Og auðvitað kom ekkert rafmagn inn á vandræðaskepnuna Vesturlínu fremur en fyrri daginn.  Ekki batnaði sálarástand mitt við þessi tíðindi og aðgát skal höfð í nærveru slökkvara .

Skammt er síðan að varaaflsstöð var reist í landi Bolungarvíkur. Sú stöð býr yfir þeirri náttúru að fara þegar í stað í gang, slái út veiturafmagni á svæðinu og veitir mannfólkinu þá birtu og yl. Stöð þessi er  ofurmannvirki og gott ef hún sést ekki frá tunglinu eins og Kínamúrinn og Flóaáveitan. Kostaði  bygging hennar fimmtánhundruð milljónir. Þótti ástæða til að rafmagnsráðherrann kæmi vestur við vígslu stöðvarinnar ásamt fleira stórmenni og allir með tvöfalda hjálma á höfði. Stöðin var nefnilega reist í miðju kríuvarpi á Sandinum  og krían ágeng þarna. Sérstakt net var ofið til að setja stöðina í gang og heitir Snjallnet með stórum staf. Í síðustu viku virkaði Snjallnetið ágætlega en stöðin dýra neitaði að fara í gang nema eftir dúk og disk og tilfæringar. Síðast þegar rafmagn fór af Vestfjörðum, neitaði þessi fimmtánhundraðmilljóna varaaflsstöð að snúast. Snjallnetinu var ekki um að kenna, heldur mannlegum mistökum skv. upplýsingum frá Orkubúi Vestfjarða. Rétt er að halda til haga að fyrirtækið Landsnet, ein afæta orkukerfisins, á stöðina ásamt olíubirgðum en Orkubúið manúerar hana þegar hún hrekkur ekki sjálf í gang.

Hluti af sjálfsmynd Vestfirðinga er rafmagnsleysi. Fáir taka það illa upp þótt rafmagnið fari. Við erum líka svo þakklátir Vestfirðingar þegar það kemur aftur. Jafnvel í mestu sumarblíðum fer rafmagnið eins og hendi sé veifað. Þá er yfirleitt bjart af degi og fer lítið fyrir rafmagnsleysinu nema á vinnustöðum og þá fá menn sér bara kalt kaffi og taka í nefið á meðan þeir bíða eftir rafmagninu. Þetta eykur á félagslega samheldni á vinnustað og eitthvað til að tala um.

Svona er nú það.

Annað sem styrkir sjálfsmynd Vestfirðinga, til eða frá, er að þeir eru orðnir afgangsstærð í fluginu, ekki bara innanlands heldur einnig á Grænlandi. Er þá orðið alllangt seilst. Nú er það ekki lengur háð flugskilyrðum fyrir norðan og austan hvort púsluspil daglegs flug gengur upp hjá Flugfélaginu, heldur hefur Núkk bæst við og gott ef ekki Kúlúsukk. Hvort flogið verði til Ísafjarðar þann daginn. Flugvallarvinir fyrir sunnan boða að innanlandsflugið leggist af, verði Reykjavíkurflugvöllur fluttur. Sjáum vér ekki betur en Flugfélagið sjálft stefni að því að leggja flug innanlands niður með því að kaupa sífellt lengri og lengri flugvélar sem geta svo hvergi lent nema á brautum Flugvallarvina í Vatnsmýrinni eða í Keflavík.

Það er margt skrýtið í kýrhausnum.

Rekið saman í Hnífsdal við rafmagnstýru frá Orkubúinu og Landsneti

Finnbogi Hermannsson

Nýjustu fréttir