Sóley Eiríksdóttir kynnir og les upp úr bók sinni „Nóttin sem öllu breytti“ á Bókasafninu á Ísafirði á laugardag klukkan 14. Sóley skrifar bókina í samstarfi við Helgu Guðrúnu Johnson og segir hún þar frá snjóflóðinu mikla sem féll á Flateyri árið 1995. Sóley segir sína eigin sögu en hún var aðeins 11 ára gömul er hún lenti í flóðinu og var henni bjargað eftir hafa verið grafin undir snjónum í 9 klukkustundir. Systir Sóleyjar, Svana, var ein þeirra tuttugu Flateyringa sem létu lífið þessa köldu nótt.
Í bókinni ræðir Sóley við fleiri sem upplifðu flóðið og er óhætt að segja að þarna sé uppgjör á ferðum hjá mörgum þeirra er byggðu Flateyri á þeim tíma er þessar miklu hörmungar dundu yfir, sem og mikilvæg skrásetning þessarar sögu sem hafði djúp áhrif á alla þjóðina. Jafnframt er bókin saga byggðarinnar á Flateyri fyrir og eftir flóð, átakanleg en um leið lærdómsrík.
Zontaklúbburinn Fjörgyn á Ísafirði fagnaði 20 ára afmæli síðasta föstudag og komu Zontakonur saman af því tilefni og gerðu sér glaðan dag, ásamt gestum.
Dagskráin hófst í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði með myndasýningu þar sem stiklað var á stóru í starfi klúbbsins undanfarna tvo áratugi. Þá var hlýtt á tónlistarflutning Péturs Ernis Svavarssonar og Önnu Annikku J. Guðmundsdóttur áður en haldið var á veitingastaðinn Við Pollinn í hátíðarkvöldverð.
Zonta eru heimssamtök kvenna með það fremst að leiðarljósi að bæta laga- og stjórnmálalega stöðu kvenna og auka réttindi þeim til handa á sviði menntunar og heilbrigðis og til að standa vörð um starfsréttindi þeirra hvar sem er í heiminum. Samtökin voru stofnuð í borginni Buffalo í New York fylki árið 1919, en hvatinn að stofnun þeirra var aukin þátttaka kvenna á atvinnumarkaðnum að lokinni fyrri heimsstyrjöldinni. Fyrirmyndin voru karlasambönd eins og Rotaryhreyfingin, en markmiðið með Zonta var þó fyrst og fremst það að styrkja samstöðu kvenna sem og stöðu þeirra á atvinnumarkaðnum.
Frá upphafi hafa Zontasamtökin stutt hjálparstarf til handa konum og börnum bæði á heimavelli en ekki síður á alþjóðlegum vettvangi, í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar og hjálparsamtök. Árlega beina Zontasamtökin sjónum sínum að sérstökum verkefnum og í ár styrkja þau fræðslu og meðferð gegn Endómetróíósis (legslímuflakk) sem er krónískur móðurlífssjúkdómur.
Ísland var sjöunda landið til að ganga í hreyfinguna en í dag eru um 70 lönd í hreyfingunni með um 1200 klúbba þar af eru átta klúbbar á Íslandi. Klúbburinn Fjörgyn sem starfar á norðanverðum Vestfjörðum hefur styrkt margar ungar konur úr heimabyggð til náms eða starfa auk þess að koma að ýmsum alþjóðlegum verkefnum. Þá hefur klúbburinn einnig styrkt samtök og hjálparstörf í heimabyggð.
Stjórn Fjörgynjar 2016-2017 skipa Una Þóra Magnúsdóttir formaður, Jóhanna Hafsteinsdóttir varaformaður, Helga Þ. Magnúsdóttir gjaldkeri, Thelma Hjaltadóttir ritari og Áslaug Jóhanna Jensdóttir stallari.
Rauði krossinn hér á landi og þar með taldar deildir á norðanverðum Vestfjörðum hefur um árabil veitt aðstoð í formi fataúthlutunar, matar- og fjárhagsaðstoðar til einstaklinga og fjölskyldna fyrir jólin. Þó jólin kunni að vera gleðilegur tími þá getur sá tími sem reynist erfiður fyrir marga, sérstaklega barnafjölskyldur sem eiga erfitt með að láta enda ná saman.
Rauðakrossdeildirnar á Norðanverðum Vestfjörðum taka nú í samvinnu á móti umsóknum og úthluta til þeirra sem á þurfa að halda. Stofnaður hefur verið sérstakur sjóður sem veitt er úr og því er leitað eftir bakhjörlum og styrkjum frá fyrirtækjum, félögum og einstaklingum sem gætu látið fé af hendi rakna til sjóðsins. Reikningsnúmer sjóðsins er 174-05-401270 kt. 6207802789
Umsóknir í sjóðinn er hægt að senda á netfangið vestfirdir@redcross.is eða hafa samband í síma 864-6754
Karlakórinn Ernir heldur um þessar mundir árlega aðventutónleika sína á norðanverðum Vestfjörðum. Frá því er þeir félagarnir byrjuðu að hefja upp raust sína í þessum tilgangi hafa tónleikarnir notið mikilla vinsælda meðal heimafólks og iðulega þétt setinn bekkurinn. Í gær voru tvennir tónleikar bæði á Ísafirði og í Bolungarvík, en óþarfi er að örvænta ef tónleikarnir fóru framhjá ykkur því þeir félagar endurtaka leikinn í kvöld í Félagsheimilinu á Þingeyri þar sem tónleikar hefjast klukkan 20.
Stjórnandi kórsins er Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir og undirleikari Pétur Ernir Svavarsson. Á tónleikunum syngja einsöng Aron Ottó Jóhannsson, Pétur Ernir Svavarsson, Sindri Sveinbjörnsson og Vilhelm Stanley Steinþórsson. Á gítar leikur, Jón Gunnar Biering Margeirsson og á fiðlu, Henný Þrastardóttir. Án þess að ætla að spilla spennunni fyrir tónleikunum má geta þess að þar er flutt nýtt lag eftir Jón Hallfreð Engilbertsson sem ber titilinn Sól í húmi sefur.
Þorsteinn Haukur Þorsteinsson og Lilja Kjartansdóttir í Súðavík senda nú frá sér nýja hljóðbók um Sigfús Músason, Fjólu konu hans og músaungana þeirra, en þau voru fyrst kynnt til sögunnar í Músasögum sem komu út fyrir jólin 2014. Líkt og áður þá dúkka mýsnar upp á hinum ýmsu stöðum í Súðavík og á hinni nýju hljóðbók er að finna sögurnar: Músasaga í kirkjunni og Músasaga á Melrakkasetrinu. Líkt og nöfnin gefa til kynna, segja sögurnar af fjölskyldunni í Súðavíkurkirkju og á Melrakkasetrinu eða gamla Eyrardalsbænum, sem er Lilju vel kunnur þar sem hún ólst þar upp.
Haukur og Lilja semja sögurnar í sameiningu með þeim hætti að Haukur setur þær fyrst niður líkt og þær birtast honum og svo tekur Lilja við þeim og þróar þær áfram í endanlegan búning. Það er Lilja sem ljær sögunum svo rödd á hljóðbókunum og Haukur gerir tónlistina. Káputeikning er svo í höndum annars Súðvíkings, Dagbjartar Hjaltadóttur.
Á morgun verður blásið til útgáfugleði í Kaupfélaginu í Súðavík klukkan 20, lesið verður úr Músasögum og flutt lifandi tónlist, á meðan að gestir geta fengið sér kaffisopa, smákökur og konfekt og notið þess að eiga huggulega kvöldstund.
Í janúar og febrúar á nýju ári verður boðið upp á námskeið í útvarpsþáttagerð á Ísafirði undir yfirskriftinni „Útvarp sem skapandi miðill – þættir af mannabyggð og snortinni náttúru.“ Námskeiðið verður haldið við Fræðslumiðstöð Vestfjarða og er það Kol og salt í samstarfi við Prófessorsembætti Jón Sigurðssonar sem standa fyrir því. Kennarar eru margreynt fjölmiðlafólk og verða helstu kennarar og umsjónarmenn útvarpskonurnar Elísabet Indra Ragnarsdóttir og Þorgerður E Sigurðardóttir, og gestakennarar meðal annars: Eiríkur Guðmundsson, Eiríkur Örn Norðdahl, Finnbogi Hermannsson, Halla Ólafsdóttir, Pétur Grétarsson og Vera Illugadóttir.
Á námskeiðinu fá nemendur þjálfun og innsýn í allt sem viðkemur þáttagerð fyrir útvarp og læra að búa til 30 mínútna langa útvarpsþætti. Í lok námskeiðsins sem stendur í heildina yfir mánaðarlangt tímabil eiga nemendur að hafa lokið við að gera einn þátt. Námskeiðið er ætlað fólki á Vestfjörðum og þeim sem tengjast svæðinu sterkum böndum og leitað verður til þátttakenda sem ljúka námskeiðinu um áframhaldandi þáttagerð fyrir útvarp.
Tilgangurinn með verkefninu er að segja sögur eða fjalla um efni þar sem leitað er fanga í hugarheimi fólks sem býr, hefur eða mun búa í þessum landshluta og byggja jafnframt upp þekkingu og reynslu af þáttagerð innan svæðisins.
Skráningar á námskeiðið hefjast hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða þann 12. desember og er hámarksfjöldi þátttakenda 12 manns. Nánar um námskeiðið má finna hér.
Stuttmyndin Skuggsjá sem tekin var upp á Hvilft í Önundarfirði á fyrr á þessu ári er nú komin í sýningar á kvikmyndahátíðum og fer sú för hennar vel af stað. Myndin vann á dögunum til verðlauna á tveimur íslenskum kvikmyndahátíðum, á Gullmolanum, stuttmyndahátíð Kópavogs og á alþjóðlegu hryllingsmyndahátíðinni Frostbiter, sem haldin var á Akranesi í nóvember.
Skuggsjá er útskriftarmynd Magnúsar Ingvars Bjarnasonar frá Kvikmyndaskóla Íslands og sá hann um tökur myndarinnar. Flateyringurinn Eyþór Jóvinsson sá hinsvegar um leikstjórn og einnig skrifaði hann handritið, sem byggir á sögu Magnúsar. Leikarar eru þau: Guðrún Bjarnadóttir, Ársæll Níelsson og Víkingur Kristjánsson.
Skuggsjá er hrollvekjandi spennumynd með gamansömu ívafi. Hún segir af tveimur félögum sem ákveða að heimsækja heimili nýlátins afa annars þeirra. Þar komast þeir að því að í lífi hans leyndist fiskur undir steini.
Stöllurnar Kolbrún Fjóla Arnarsdóttir og Karen Gísladóttir standa fyrir liðakeppni undir yfirskriftinni „Gerum gagn“ í Stúdíó Dan á Ísafirði þann 10. desember næstkomandi. Keppnin er bæði til gamans gerð, jafnframt því sem hún er fjáröflun fyrir Töniu Ciulwik og fjölskyldu hennar. Tania litla, sem fjallað hefur verið um á vef Bæjarins besta, fæddist þann 1.júní síðastliðinn, er hún var í móðurkviði kom í ljós að hún væri með Downs heilkenni og alvarlegan hjartagalla, svonefndan lokuvísagalla. Þegar litla daman kom svo í heiminn 6 vikum fyrir tímann kom einnig í ljós hjartagallinn Fallot.
Foreldrar Tönju eru þau Elizabeta Mazur (Ella) og Miroslaw Ciulwik. Ella vinnur á sjúkrahúsinu á Ísafirði en Miroslaw vinnur hjá HG í Hnífsdal. Fyrir áttu þau dæturnar Nadiu sem er 5 ára og Sonju sem er 17 ára. Frá því Tania fæddist hafa foreldrar hennar ekki getað stundað vinnu og hefur fjölskyldan þurft að dvelja í Reykjavík vegna veikinda litlu dömunnar. Síðasta mánuðinn hafa þau svo dvalið í Svíþjóð þar sem Tania fór í fyrstu aðgerðina af þeim mörgu sem fyrir henni liggja, hún var talsvert mikið lasin eftir aðgerðina, en fjölskyldan fékk svo þær gleðifréttir í vikunni að daman hefði braggast nógu vel til að hún gæti farið aftur til Íslands.
Kolbrún segir að hún og Karen hafi verið að ræða um nokkurt skeið að hafa einskonar „góðverkadag“ í Stúdíó Dan að fyrirmynd Hressleikanna sem líkamsræktarstöðin Hress í Hafnarfirði hefur staðið fyrir. Hún segir að hún hafi fengið að fylgjast með því kraftaverki sem Tania litla er í gegnum móðursystur hennar Ögu, sem er vinkona hennar og þeim hafi langað til að létta undir með fjölskyldunni og í gegnum Stúdíóið gefa þeim góða jólagjöf.
„Gerum gagn“ er liðakeppni, 6 eru í hverju liði og segja þær engar áhyggjur ef ekki tekst að fullmanna liðin, þá verði því reddað. Vilja þær endilega hvetja keppendur til að mæta í skemmtilegum búningum og finna gott nafn á liðið. Fyrsta liðið fer af stað klukkan 10 og það næsta 15 mínútum síðar og þannig heldur þetta áfram koll af kolli þar til allir eru komnir af stað. Þræða liðin svo áfram í gegnum átta stöðvar með mismunandi verkefnum.
Þátttakendur geta í raun slegið tvær flugur í sama högginu með því að efla samheldni innan vina- eða vinnustaðahópa og styrkt gott málefni í leiðinni. Skora þær Kolbrún Fjóla og Karen á fyrirtæki í bænum að senda inn lið í keppnina. Þátttökugjald er 2.500 krónur á mann og einnig verður tekið við frjálsum framlögum. Hægt er að skrá sig til leiks hjá Kolbrúnu Fjólu á netfanginu kfa81@hotmail.com
Á sunnudag er annað dagur aðventu og eru nú þegnar þessa lands teknir til við að koma sér í jólagírinn með ýmsu móti, jafnframt því sem hátíðarundirbúningur er hafinn á mörgum heimilum. Tendrun ljósa á jólatrjám í flestum byggðum bólum er löngu orðið að föstum lið og er það oft tíminn er börnin fá augum að líta fyrsta sinn á aðventunni hina rauðklæddu Grýlusyni, sem nota gjarnan tækifærið til að sýna sig og sjá aðra.
Á Ísafirði verða jólaljósin tendruð á Silfurtorgi á laugardag, hefst dagskrá klukkan 15:30 með Jólatorgsölu Tónlistarskóla Ísafjarðar, stundarfjórðungi seinna stígur Lúðrasveit T.Í. á stokk og 16:10 flytur Gunnhildur Elíasdóttir bæjarfulltrúi hugvekju, í framhaldi af því verður söngatriði frá Barnakór Tónlistarskólans.
Á Suðureyri verða ljósin tendruð á sunnudag klukkan 16. Þar flytur hugvekju Arna Lára Jónsdóttir, formaður bæjarráðs. Kvenfélagið verður með kakósölu og fer þar fram söngur lagvissra Súgfirðinga, er segir í tilkynningu frá Ísafjarðarbæ.
Á báðum stöðum er Grýla með í ráðum og sendir hún syni sína til byggða til að gleðja börn og fullorðna með sögum og söng.
Kennarar við Tónlistarskólann á Ísafirði sýndu á fundi sínum á mánudag eindreginn vilja til að koma ekki að tendrun jólaljósanna á Silfurtorgi með nokkrum hætti, en Lúðrasveit skólans og barnakór hafa í gegnum tíðina glatt bæjarbúa með tónlistarflutningi sínum við þetta tilefni. Einnig er hefð fyrir því að T.Í. og velunnarar skólans haldi vinsæla torgsölu sína við tendrunina. Í hugum margra eru þessir tveir viðburðir líkt og hanski og hönd sem falla fullkomlega að hvoru öðru og þætti algjört óráð að hrófla við einhverju sem hefur gefist svo vel.
Ástæða þess að kennarar vildu ekki koma að skemmtuninni þessu sinni er að þeir vildu vekja athygli á því að tónlistarkennarar hafa nú verið samningslausir í tæpa 13 mánuði. Segja þau að hvorki virðist ganga né reka í samningaviðræðum Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og samninganefndar sveitarfélaganna, þar sem kennarar krefjast þess að störf þeirra verði metin til jafns við störf kennara í öðrum skólagerðum. Tónlistarkennarar eru að jafnaði með 10-15% lægri laun en grunnskólakennarar og gera má ráð fyrir að munurinn verði jafnvel enn meiri eftir nýgerða kjarasamninga við FG. Segir frá þessu í færslu um Torgsöluna á Fésbókarsíðu skólans.
Aðventan er mikill álagstími hjá tónlistarkennurum og tónlistarfólki því tónlistin er ómissandi hluti hennar rétt eins og jólaljósin. Segja kennarar að þeir finni ávallt velvilja bæjarbúa en hann verði þó ekki látinn í launaumslagið, því var þetta örþrifaráð íhugað af kostgæfni, en eftir mikla umhugsun ákváðu stjórnendur skólans í samráði við kennara að Tónlistarskólinn taki sem fyrr þátt í þessari gleðistund bæjarbúa þrátt fyrir allt. Við þá ákvörðun vó þyngst samfélagsleg ábyrgð og að gefa börnunum kost á að rækta þá tilfinningu.
Er því á ný leitað til foreldra nemenda skólans og forráðamanna, um að gefa varning á torgsöluna, tertur, smákökur, jólasælgæti, jólasíld, föndur eða annan skemmtilegan varning, sem tekið verður á móti í anddyri Grunnskólans á laugardaginn frá kl 14-15.