Mánudagur 21. október 2024
Síða 2250

50 manns á fiskvinnslunámskeiði

Rúmlega 50 manns hafa í síðustu viku og þessari setið fiskvinnslunámskeið í Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Námskeiðið er liður í viðbrögðum Hraðfrystihússins Gunnvarar við hráefnisskorti vegna verkfalls sjómanna.

Hraðfrystihúsið Gunnvör ætlar ekki að grípa til þess að taka fólk af launaskrá, en fram kom í fréttum í morgun að Oddi á Patreksfirði og Íslenskt sjávarfang á Þingeyri hefði gripið til þess vegna hráefnisskorts.

Á námskeiðinu hefur verið kennd námsskrá sem var sérstaklega skrifuð fyrir fiskvinnslufólk og gefur að lokinni starfsþjálfun starfsheitið sérhæfður fiskvinnslumaður. Allir þátttakendur í náminu hafa unnið það lengi í fiskvinnslu að þeir teljast hafa lokið starfsþjálfuninni.

Í náminu er farið í sjálfstyrkingu, samskipti, fjölmenningu, öryggismál, kjarasamninga, gefin yfirsýn yfir greina sem og markaðsmál og síðast en ekki síst er farið ítarlega í gæðamál og meðferð matvæla.

Meirihluti kennara eru heimamenn, en starfólk úr Fisktækniskóla Íslands kenndi 4 námsþætti. Vegna samgönguerfiðleika komu þau ekki vestur heldur kenndu úr Fisktækniskólanum í Grundavík í gegn um samskiptaforritið GoToMeeting. Stefna Fræðslumiðstöðvarinnar hefur verið að þjálfa heimafólk í að kenna þetta nám, en þó er mjög mikilvægt að halda tengslum við Fisktækniskólann, bæði vegna þeirra þekkingar sem þar er og ekki síður vegna samskipta við það ágæta fólk sem þar starfar.

Í fiskvinnslunáminu eru 50 manns frá Hraðfrystihúsinu Gunnvör, auk þriggja frá fyrirtækinu Vestfiski sem tóku hluta námsins sem þau áttu ólokið.

brynja@bb.is

100 manns teknir af launaskrá

Finnbogi Sveinbjörnsson

Verkalýðsfélagi Vestfirðinga hafa borist tvær tilkynningar um uppsagnir vegna hráefnisskorts sem hefur myndast vegna verkfalls sjómanna. Oddi á Patreksfirði og Íslenskst Sjávarfang á Þingeyri hafa gripið til þess að nýta sér þá heimild að taka starfsfólk af launaskrá vegna hráefnisskorts. Verkfall sjómanna hefur nú staðið síðan 14. desember og hefur hráefnisskortur gert vart við sig í fiskvinnslum víða um land.

Um er að ræða heimildarákvæði sem Vinnumálastofnun gaf tilkynningu um 19. desember að fyrirtæki gætu nýtt sér. Heimildin gefur fyrirtækjunum leyfi til að taka fólk af launaskrá og fólk sækir þá um atvinnuleysisbætur í framhaldi af því.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, segir þetta vera neyðarúrræði: „Þessi leið er mun harðari en halda fólki á launaskrá, en þetta er neyðarúrræði sem fyrirtækin hafa í þeirri stöðu sem er, það er ekkert hráefni og fyrirtæki sjá ekki fram á að halda fullri vinnslu. Þarna eru fyrirtækin að taka þá áhættu að starfsfólkið nýti sér þann rétt að það geti tilkynnt að það fari að vinna annars staðar ef stoppið verður lengra en 5 vikur.“

Um er að ræða um 35 manns á Þingeyri og tæplega 60 manns hjá Odda á Patreksfirði. Uppsagnirnar ná því til hátt í 100 manns „Þetta er gríðarlegur fjöldi fólks og mjög alvarleg staða sem komin er upp. Það er bæði mikil ábyrgð fyrir okkur í stéttarfélögunum og útgerðafélögin að klára samning við sjómenn og ná að afstýra frekari tjóni. Báðir aðilar verða að koma að samningaborðinu og finna lausn á þessari deilu,“ segir Finnbogi.

Í kjarasamingi starfsfólksins segir að þegar vinnslustöðvun vegna hráefnisskorts hafi staðið lengur en 5 vikur samfellt, sé starfsmanni heimilt að slíta ráðningasamingi við fyrirtækið og tilkynna með viku fyrirvara að hann ætli að leita að vinnu annars staðar. Finnbogi segir hins vegar ekki auðvelt fyrir fiskvinnslufólk að finna vinnu: „Það er ekki hlaupið að því að finna vinnu fyrir 100 manns á svæðinu. Þó svo að þjónustufyrirtæki og ríkisstofnanir séu fyrirferðamiklar þá byggjum við á sjávarútvegi fyrst og fremst.“

brynja@bb.is

Arna hækkar ekki verð á mjólk

Arna ehf mjólkurframleiðandi ætlar ekki að hækka verð á sínum vörum þrátt fyrir hækkanir á mjólkurmarkaði. Frá því var greint í gær að verðlagsnefnd búvara hafi tekið samhljóða ákvörðun um að heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum hækki um 1,7% 1. janúar. Hækkunin þýðir að heildsöluverð á mjólk hækkar um tvær krónur og 75 aura.

Í svörum við fyrirspurnum blaðamanns sagði: „Arna hefur ekki hækkað verð síðan framleiðsla á laktósafríum mjólkurvörum hófst árið 2013 og stefna ekki á verðhækkun þrátt fyrir hækkun heildsöluverðs.“

Í júlí 2015 hækkaði Verðlagsnefnd mjólkurvörur en Arna hækkaði ekki verð til neytenda á sinni framleiðslu, Hálfdán Óskarsson sagði þá í samtali við bb: „Á sama tíma og við lýsum yfir efasemdum með þessa ákvörðun Verðlagsnefndar búvara höfum við hjá Örnu ákveðið að velta þessari hækkun ekki út í heildsöluverðið á okkar vörum. Okkar von er sú að hækkunin verði endurskoðuð og leiðrétt. Þangað til viljum við koma til móts við okkar neytendur og munum við því ekki hækka verð á okkar vörum.“

brynja@bb.is

Stefna Arnarlaxi, MAST og UST

Í frétt á mbl.is er greint frá því að Málsóknarfélagið Náttúruvernd 1 hafi birt Arnarlaxi hf., Matvælastofnun og Umhverfisstofnun stefnu þar sem krafist er ógildingar rekstrar- og starfsleyfa sem gefin voru út á þessu ári vegna sjókvíaeldis á norskættuðum laxi í Arnarfirði. Málsókn hefur verið í undirbúningi um hríð en fjallað var um hana í október.

Að Náttúruvernd 1 standa meðal annars eigendur veiðiréttinda í lax- og silungsveiðiám. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. janúar. Frekar um málsóknina má lesa hér.

Í dag kynnir Arctic Sea Farm hf, áður Dýrfiskur, tillögu sína að matsáætlun fyrir framleiðsluaukningu á laxi í Ísafjarðardjúpi. Fyrirtækið hefur leyfi fyrir 4.000 tonna eldi á silungi en sækir nú um breytingu á því leyfi yfir í lax og bætir um betur með aukningu upp í um það bil 8.000 tonna laxeldi samtals.

Leiða má að því líkum að lyktir máls hvað varðar Málsóknarfélagið Náttúruvernd 1 gagnvart Arnarlaxi, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun muni vera fordæmisgefandi og annað hvort festa atvinnugreinina í sessi eða hindra framgang hennar.

bb@bb.is

Jólablak hjá Vestra

Íþróttafélagið Vestri ætlar að hafa svokallað jólablak í kvöld, fimmtudag 29. desember. Ef nægur fjöldi fæst verður spilað á þremur völlum og dregið í lið eftir hvern leik. Verðlaun verða fyrri stigahæstu einstaklingana.

Á Facebook-viðburði segir að þetta sé tilvalið tækifæri til að hrista af sér jólaspikið og koma í blak.
Spilað verður frá lukkan 19-22 og eru allir 12 ára og eldri velkomnir.

brynja@bb.is

Súðavíkurhreppur með lægsta útsvarið

Öll sveitarfélög á Vestfjörðum nema Súðavíkurhreppur leggja á hámarskútsvar á komandi skattári. Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga er þeim heimilt að ákveða útsvar á bilinu 12,44% til 14,52%. Í 8 af 9 sveitarfélögum er 14,52% útsvar lagt á, en í Súðavíkuhreppi er 14,48% útsvar lagt á íbúa hreppsins. Þetta kemur fram á vef Fjármálaráðuneytisins.

Af 74 sveitarfélögum á Íslandi leggja 55 á hámarksútsvar. Eitt þeirra, Reykjanesbær, nýtir að auki sérstakt álag og verður útsvarshlutfall þess 15,05%. Þrjú sveitarfélög leggja á lágmarksútsvar, Ásahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur og Skorradalshreppur.

brynja@bb.is

Stútur við stýri

Aðfaranótt 22. desember var ökumaður á Hólmavík kærður vegna gruns um að vera undir áhrifum fíkniefna. Annar ökumaður sem var á ferð um Hnífsdal í síðastliðna nótt var kærður fyrir að vera undir áhrifum áfengis. Þetta kemur fram í helstu verkefnum Lögreglunnar á Vestfjörðum í liðinni viku. Höfð voru afskipti af ökumanni fólksbifreiðar í vikunni vegna blárra pera í aðalljósum, en slíkt er bannað lögum samkvæmt og ökumanninum gert að skipta um perur strax. Tveir ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Báðir voru þeir í akstri á Djúpvegi. Þá var ökumaður á Patreksfirði í vikunni kærður fyrir að tala í farsíma án handfrjáls búnaðar.

Meðal annarra verkefna lögreglunnar má nefna útkall að morgni 20. desember er lögregla og slökkvilið kallað að íbúð í fjölbýlishúsi á Patreksfirði vegna elds sem hafði brotist þar út. Slökkvilið var fljótt að slökkva eldinn, sem var í einu rými íbúðarinnar. Einn íbúi var fluttur á sjúkrahúsið á Patreksfirði til skoðunar vegna gruns um reykeitrun. Tjón var óverulegt og íbúinn fljótur að jafna sig. Tildrög þessa eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

annska@bb.is

Heimildarmynd um Fjallabræður

Fjallabræður syngja

Í kvöld verður sýnd heimildarmynd um Vestfirska kallakórinn Fjallabræður. Myndin verður sýnd í Háskólabíó klukkan 18:30. Fjallabræður fóru til London í haust og tóku upp nýjustu plötu sína í hinu fornfræga hljóðveri Abbey Road. Framleiðslufyrirtækið Republik var með í för og er heimildarmyndin, Þess vegna erum við hér í kvöld, um þessa frægðarför þessa einstaka hóps.

„Hugmyndin kviknaði þegar við hjá Republik heyrðum af því að til stæði að kórinn tæki upp í Abbey Road. Jón Þór, stóri bróðir Fjallabræðra, hefur unnið með okkur og komið inn í verkefni – hann sagði okkur frá hugmyndinni að fara í Abbey Road. Við bitum strax á agnið og hugmyndin of góð til að taka ekki þátt á einhvern hátt,“ segir Hannes Friðbjarnarson framleiðandi myndarinnar.

„ Við byrjuðum að fylgjast með þeim síðasta sumar, elta þá á æfingar og tónleika, taka viðtöl við meðlimi kórsins, mynda þá og fórum svo með þeim út í haust. Myndin er um Abbey Road ferðina sem slíka, inn í það blandast saga kórsins, hvaða týpur eru í kórnum og hvað það þýðir að vera Fjallabróðir,“ bætir Hannes við.

Myndin verður sem fyrr sagði sýnd í Háskólabíó í Reykjavík. Aðspurður hvort myndin verði sýnd á Vestfjörðum segir Hannes það vera stefnuna: „Okkur langar auðvitað mjög að sýna hana fyrir vestan. Bróðurparturinn af kórnum er frá Vestfjörðum og stefnan er að byrja að vinna í því strax eftir áramót að finna út úr sýningartíma og stað, væntanlega á Ísafirði.“

brynja@bb.is

Foráttuhvasst á fjallvegum

Djúp lægð gengur yfir landið í dag, með öflugum hitaskilum. Þeim fylgir ofsaveður á vestur og norðvesturlandi frá því um klukkan tíu til klukkan tvö í dag. Búist er við sunnanstormi eða -roki í dag með talsverðri rigningu og asahláku. Á Vestfjörðum verður í dag, þriðjudag, sunnan 20-28 metrar á sekúndu og talsverð rigning. Hiti 4 til 10 stig. Þegar líða tekur á daginn breytist áttin í suðvestan 15-23 metra á sekúndu og él undir kvöld þegar kólnar.

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að foráttuhvasst verði á fjallvegum vestanlands, svo sem á Bröttubrekku, Holtavörðuheiði, Laxárdalsheiði, Steingrímsfjarðarheiði og á sunnanverðum Vestfjörðum.

Á Vestfjörðum er nú hálka á flestum leiðum þessa stundina en þæfingsfærð á Steingrímsfjarðarheiði og krapi á Mikladal og Hálfdán. Flughálka er á nokkrum köflum svo sem á Kollafirði á Barðaströnd, Ísafjarðardjúpi, í Steingrímsfirði og á Innstrandavegi.

Fólk er hvatt til að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón. Í og við fjalllendi er hætt við vatnsaga og krapa- og aurflóðum úr giljum og rásum.

brynja@bb.is

Atvinnutekjur drógust saman um 8,2%

Atvinnutekjur á Vestfjörðum námu 20 milljörðum krónum á árinu 2015 og höfðu lækkað um ríflega 440 milljónir frá árinu 2008. Þetta gerir samdrátt upp á 2,2%. Í Ísafjarðarbæ drógust atvinnutekjur saman um 8,2%. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Byggðastofnun um atvinnutekjur á Íslandi á tímabilinu 2008-2015. Í skýrslunni kemur fram að atvinnutekjur hækkuðu mest á Suðurnesjum en drógust saman á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi.

Í Ísafjarðarbæ fækkaði íbúum um 8,9% og atvinnutekjur drógust saman um 8,2%. Utan Ísafjarðarbæjar fækkaði fólki lítillega á tímabilinu en atvinnutekjur jukust um 5,9%.

Atvinnutekjur á landinu í heild jukust um 1,2% á milli áranna 2008 og 2015, úr 968 milljörðum króna. í 979,6 milljarða króna. Á saman tíma fjölgaði íbúum á landinu um rúmlega 5,4%. Atvinnutekjur á hvern íbúa eru því enn nokkuð lægri en þær voru árið 2008, fyrir hrun.

Á Vestfjörðum varð samdráttur í Ísafjarðarbæ en aukning í heildina utan hans.

brynja@bb.is

Nýjustu fréttir