Mánudagur 21. október 2024
Síða 2248

Engin undanþága frá verkfalli sjómanna

Sjómannasamband Íslands hefur hafnað ósk Hafrannsóknastofnunar um undanþágu frá sjómannaverkfalli til að fara í loðnuleit á fimm skipum. Útlit er fyrir að aðeins tvö rannsóknarskip stofnunarinnar og grænlenskt skip fari til leitar.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag að HB Grandi hafi ákveðið að sækja ekki um undanþágu vegna leitarinnar. Tvö aflaskip áttu að gera forkönnun áður en tvö rannsóknarskip Hafrannsóknastofnunar, grænlenska skipið Polar Amaroq og tvö önnur íslensk skip færu í sjálfa leitina. Stofnunin sótti um undanþágu en því var hafnað í morgun.

„Það var fjallað um málið í samninganefnd Sjómannasambandsins núna fyrir hátíðar og síðast í morgun. Það var niðurstaðan að veita ekki þessa undanþágu, frá verkfallinu,“ segir Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri Sjómannasambands Íslands.

brynja@bb.is

Skoða opnun flugbrautar á ný

Flugbrautir á Reykjavíkurflugvelli.

Unnið er að því að skoða hvort hægt sé að opna flugbraut á Keflavíkurflugvelli sem hefur hliðstæða stefnu og svokölluð neyðarbraut á Reykjavíkurflugvelli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Innanríkisráðuneytinu í kjölfar fjölmiðlaumfjallana um lokun neyðarbrautar og mögulega notkun hennar til sjúkraflugs.

Í tilkynningunni segir að flugbraut 06-24 á Reykjavíkurflugvelli hafi verið lokað í kjölfar dóms Hæstaréttar um að brautinni skyldi lokað en dómurinn féll vegna málshöfðunar Reykjavíkurborgar á hendur ríkinu þar sem lokunar var krafist.
„Flugbraut með hliðstæða stefnu á Keflavíkurflugvelli, 07-25, hefur verið lokuð undanfarin ár en nú er til skoðunar hvort unnt verður að opna hana á ný. Vilji innanríkisráðherra til þess að opna þá flugbraut í stað hinnar lokuðu brautar á Reykjavíkurflugvelli er skýr,“ segir í tilkynningunni.

Að ósk ráðuneytisins setti Isavia ohf. fram í haust áætlun um kostnað við að opna flugbaut 07-25 á Keflavíkurflugvelli og setti fram þrjá kosti. Í ráðuneytinu er nú farið yfir þessa möguleika og metið hvort og hvaða leið unnt er að fara með tilliti til kostnaðar og mögulegra fjárveitinga til verkefnisins.

brynja@bb.is

Júlíus með yfir 4 þúsund tonn

Júlís Geirmundsson ÍS, frystitogari Hraðfrystihússins Gunnvarar í Hnífsdal veiddi 4.634 tonn á árinu 2016. Þetta kemur fram á vef Aflafrétta. Júlís landaði 13 sinnum á árinu og var mesti aflinn í einni löndun 415 tonn. Um er að ræða 672 tonnum minni afla en árið 2015 og eru flestir frystitogarar með minni afla árið 2016 en 2015. Auk þessa landaði Júlíus 1445 tonn af markíl á fiskveiðiárinu 2016.

brynja@bb.is

Ráðið hjá Arnarlaxi

Gengið hefur verið frá ráðningu tveggja starfsmanna sem koma til starfa í byrjun janúar.
Sigurbjörg Kristjánsdóttir hefur verið ráðin sem aðalbókari félagsins og mun bera ábyrgð á bókhaldi félagsins.

Jónas Heiðar Birgisson hefur verið ráðin sem sérfræðingur á fjármálasviði og mun sinna ýmsum tilfallandi störfum, þar á meðal kostnaðargreiningu, innleiðingu vinnuferla, arðsemisútreikningum og öðrum tilfallandi verkefnum.

Hagvangur aðstoðaði við ráðningar og sóttu 11 manns um stöðu sérfræðings á fjármálasviði og var enginn umsækjandi búsettur á Vestfjörðum.

Arnarlax fjárfesti síðastliðið sumar í húsnæði við höfnina á Bíldudal sem síðustu ár hefur verið nýtt sem gistiheimili en var upphaflega í eigu Kaupfélagsins á staðnum. Síðustu mánuði hefur verið unnið að því að breyta húsnæðinu sem hér eftir hýsir aðalskrifstofur Arnarlax en fram að þessu hefur skrifstofa félagsins verið í vinnsluhúsnæði félagsins og var fyrir löngu orðið alltof lítið.

Kaupin á þessu húsnæði eru forsenda þess að fjölga starfsfólki á skrifstofu félagsins og taka bókhald aftur inná skrifstofu félagsins.

brynja@bb.is

Brotnir staurar í Hrafnseyrarlínu

Mynd: Orkubú Vestfjarða

Á gamlársdag fóru línumenn OV eldsnemma til viðgerða á Hrafnseyrarlínu, Vitað var um einn staur brotinn en þegar komið var á staðinn reyndist annar vera brotinn líka. Gert var við þá tvo og varaafl keyrt á meðan. Á leið til byggða aftur kom í ljós að vír var slitinn úr upphengju á Hrafnseyrarheiði og var því kippt í lag.

Mynd: Orkubú Vestfjarða

 

 

 

 

 

 

 

bryndis@bb.is

Flugi aflýst í dag

Búið er að aflýsa flugi á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar í dag. Óhagstæð vindátt er á Ísafirði, suðvestan 12-18 metrar á sekúndu. Samkvæmt upplýsingum frá Flugfélagi Íslands verður boðið upp á rútuferð til Ísafjarðar frá Reykjavík.

brynja@bb.is

Farsímasamband á vegum landsins

Póst og fjarskiptastofnun (PFS) hefur framkvæmt mælingar á fjarskiptasambandi á helstu vegum í vegakerfinu á Íslandi. Verkefnið var unnið að ósk Fjarskiptasjóðs og fór þannig fram að starfsmenn PFS óku eftir þeim vegum sem mældir voru með tilheyrandi mælitæki. Mælingarnar stóðu yfir frá haustinu 2015 til haustsins 2016 og þar sem hröð uppbygging á fjarskiptakerfinu er sífellt í gangi geta niðurstöður sýnt lakari dreifingu en raun er orðin síðan mælingarnar voru gerðar. Þá er einnig rétt að hafa í huga að loftnet símtækja geta verið mismunandi að gæðum og því ekki alltaf víst að ferðalangar um vegi landsins fái sömu upplifun varðandi styrk merkja og kortin gefa til kynna.
Innan PFS hafa verið unnin gagnvirk vefkort þar sem hægt er að skoða niðurstöður mælinganna fyrir öll fjarskiptakerfin, GSM, 3G og 4G. Hægt er að þysja mjög nákvæmlega inn á einstaka staði og sjá hvar mælingapunktarnir liggja og hver staðan er.

Samkvæmt kortinu ætti farsímaband milli Hólmavíkur og Ísafjarðar að vera meira og minna sæmilegt. Vegir með góðu farsímasambandi er merkt með grænu en miðlungsgott er merkt með gulu. Skilgreining á gulu er að sambandi sé sæmilegt en gæti slitnað. Talsvert langir kaflar eru á þessari leið merktir gulu og ef þysjað er inn má sjá að inn á milli eru rauðir punktar en rautt þýðir að ekkert farsímasamband næst.

Ástand farsímasambands á suðurfjörðum Vestfjarða og á Barðaströnd er með svipuðum hætti og augljóst að bæta þarf verulega úr á leiðinni milli Ísafjarðar og suðurfjarða þegar Dýrafjarðargöng opna.

Um verkefnið

Eftir að Fjarskiptasjóður óskaði eftir því á seinni hluta ársins 2015 að PFS framkvæmdi mælingar á gæðum fjarskiptamerkja á öllum helstu vegum landsins var gerður samningur um verkefnið. Samkvæmt honum var gert ráð fyrir því að PFS myndi skila niðurstöðum fyrir öll fjarskiptafélög sameiginlega og öll farnetskerfi, þ.e. GSM, UMTS (3G) og LTE (4G) á kortavefsjá á vef PFS, ásamt samantekt á niðurstöðum í skýrslu. Með því að birta niðurstöðurnar fyrir öll fjarskiptafélögin sameiginlega er auðveldara að gera sér grein fyrir því hvar næst í það minnsta samband fyrir neyðarsímtöl (112).

Verkefninu var skipt í tvo áfanga þar sem fyrri áfanganum hefur verið lokið. Þar er um að ræða stærsta hluta vegakerfisins, þ.e. sem hægt er að aka venjulegum fólksbílum að öllu jöfnu. Ekki hefur verið tekin ákvörðun varðandi seinni áfanga verkefnisins, hálendis- og háfjallavegi, en gera má ráð fyrir því að ákvörðun verði tekin fljótlega á árinu 2017. Á gagnvirka kortinu sem hægt er að nálgast hér fyrir ofan er útbreiðslan á þessum vegum byggð á spálíkani sem PFS hefur gert, þ.e. ekki er um eiginlegar mælingar að ræða á þeim vegaköflum.

Umhleypingar næstu daga

Veðurspá fyrir Vestfirði í dag kveður á um suðvestan 13-20 m/s og súld eða rigningu. Það dregur úr úrkomu og vindi og í kvöld má búast við vestan 10-18 m/s og þurru veðri. Hiti 1 til 6 stig. Á vef Veðurstofu Íslands má sjá að umhleypingar verði á landinu næstu daga. Hlýindi í dag, frost á morgun, hita ofan við frostmaki og rigningu á miðvikudag, en frosti aftur á fimmtudag.

Á Vestfjörðum er hálka eða á mörgum leiðum. Snjóþekja er á Þröskuldum.

annska@bb.is

Færeyingar og Íslendingar eru frændur

Grænigarður á Flateyri.

Hafin er söfnun til aðstoðar Færeyingum vegna aftakaveðurs og mikils tjóns sem varð í Færeyjum í desember. Aðstandendur fésbókarsíðunnar „Færeyingar: Við biðjumst afsökunar“ sendu ríkisstjórn Íslands bréf þann 27. desember þar sem vakin var athygli á þessum hamförum og hvatt til þess að íslenska ríkið lét fé af hendi rakna til nágranna okkar. Engin svör við þessari beiðni hafði borist tveim dögum seinna og þá var hafin landssöfnun undir yfirskriftinni Færeyingar og Íslendingar eru frændur og á fésbókarsíðu hennar má nálgast allar upplýsingar.

Í fréttatilkynningu frá hópnum kemur fram að Ásmundur Friðriksson er eini þingmaðurinn sem virt hefur hópinn viðlits en forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson hvatti landsmenn í fésbókarfærslu sinni á gamlársdag til að sýna samhug í verki og leggja til í söfnunina.

Í gær höfðu safnast tæpar þrjár milljónir en söfnunin mun standa að minnsta kosti út þessa viku.

Við hér á Vestfjörðum höfum svo sannarlega notið vinaþels Færeyinga og á Flateyri og í Súðavík standa minnisvarðar þess, tákn örlætis og vinsemdar.

Reikningsnúmer söfnunarinnar er 1161-26-6000 og kennitalan 170961-7819

bryndis@bb.is

Reiknar með að ráða í janúar

Smári Haraldsson, forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, segist reikna með að ráðning í stöðu forstöðumanns ráðist í janúar. Staðan var auglýst fyrr í vetur en Smári lætur af störfum 1. mars næstkomandi.

Samkvæmt Smára kom stjórn Fræðslumiðstöðvarinnar saman rétt fyrir jól, ræddi málin og fór yfir umsóknir. „Við hittust næst 10. janúar, þá veljum við væntanlega úr umsækjendahópnum sem við bjóðum svo í viðtal,” segir Smári.

Hann segir ekki vera búið að festa hvenær nýr forstöðumaður tæki við: „Það hefur engin dagsetning verið nefnd en ég hætti 1. mars og þá væri eðlilegast að nýr forstöðumaður taki til við þá en það yrði samkomulagsatriði.“

Eins og áður hefur komið fram sóttu 12 um starfið. Einn dró umsókn sína baka vegna þess að hann hafði ráðið sig í annað starf og einn óskaði eftir að nafn hans yrði ekki opinberað að svo stöddu.

Hinir 10 eru:

Andri Ragnar Guðjohnsen meistari í alþjóðaviðskiptum.

Dagbjört Agnarsdóttir, verkefnastjóri.

Hilmar Þór Hafsteinsson, kennari.

Margrét Björk Arnardóttir, náms- og starfsráðgjafi.

Marthen Elvar Veigarsson Olsen, meistaranemi.

Óli Örn Atlason, frístunda- og forvarnarfulltrúi.

Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, myndlistarmaður.

Sigurður Pétursson, sagnfræðingur.

Sædís María Jónatansdóttir, deildarstjóri.

Valgeir Ægir Ingólfsson, verkefnastjóri.

brynja@bb.is

Nýjustu fréttir