Mánudagur 21. október 2024
Síða 2247

Helstu verkefni lögreglu í liðinni viku

Skemmtanahald í umdæmi Lögreglunnar á Vestfjörðum yfir jól og áramót fór vel fram, er fram kemur í helstu verkefnum hennar í síðustu viku. Komust lögreglumenn að því er þeir gerðu athugasemdir við ökumann sem notaði stefnuljós ekki með viðeigandi hætti að ökutækið reyndist ótryggt og voru númer þess tekin af og það tekið úr umferð. Í vikunni hafði lögreglan afskipti af ökumanni sem var að flytja farm á vörubílspalli og hafði ekki fest farminn nægjanlega vel. Þá voru tveir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í Arnkötludal, annar ók á 112 km hraða en hinn á 105 km hraða, en hámarkshraði þar er 90 km.

Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp í vikunni, þann 30. desember þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í hálku og nýföllnum snjó á Súgandafjarðarvegi, skammt fyrir utan gangamunnann í botni fjarðarins og rann bíllinn út af veginum og valt. Ökumaður, sem var einsamall í bílnum, var í bílbelti og hlaut ekki alvarleg meiðsl. Hann var þó fluttur til skoðunar á sjúkrahúsið á Ísafirði.

Um miðjan dag gamlársdags óskaði lögreglan á Vestfjörðum eftir aðstoð björgunarsveita á Ísafirði og nágrenni við leit að manni sem hafði farið í göngutúr heiman frá sér fyrr sama dag og óttast var um. Maðurinn fannst látinn skömmu eftir að leit hófst.

annska@bb.is

Litlihjalli vakinn til lífs á ný

Fyrir rétt um ári síðan ákvað Jón Guðbjörn Guðjónsson, veðurathugunarmaður og ritstjóri í Litlu-Ávík í Árneshreppi á Ströndum að hætta með fréttavefinn Litlahjalla.is sem hann hafði starfrækt allt frá árinu 2003, fyrst í formi bloggsíðu en seinna sem fréttasíða Árneshrepps. Jón segir að sér hafi bókstaflega liðið illa síðasta ár yfir því að vera ekki lengur með vefinn:

„Mig kitlar allaf í fingurna að djöflast á lyklaborðinu og reyna að segja einhverjar fréttir frá Árneshreppi, þótt ég hafi gert það á RÚV og á MBL, að einhverju leyti á liðnu ári, eftir að ég hætti með Litlahjalla, en það eru þá bara yfirleitt stórfréttir eða sérstakar fréttir úr hreppnum. Mér finnst einhvern vegin ekki nóg að skrifa bara á Fésbókina okkar, sem er ágætur samkjaftamiðill og svona vinamiðill. Ég mun því reyna að halda áfram með fréttir frá og úr Árneshreppi og honum tengdum og sitthvað fleira sem fellur til.“

Jón segist viss um að eitthvað týnist til fréttnæmt úr sveitinni, í það minnsta sé alltaf hægt að gera veðrinu skil og segist hann þakklátur fyrir að þeir sem áður auglýstu hjá honum velji að gera það áfram. Ekki er hægt að halda síðunni úti undir gamla léninu þar sem það var keypt af erlendum aðila í millitíðinni. Síðan er hin sama en nú undir slóðinni http://litlihjalli.it.is/

annska@bb.is

Fleiri örnámskeið vegna Uppbyggingarsjóðsumsókna

Háskólasetur Vestfjarða er staðsett í Vestrahúsinu.

Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur bætt við tveimur örnámskeiðum í umsóknagerð til Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða, en á mánudag sögðum við frá örnámskeiðahrinu þeirra sem nú stendur yfir. Þeir sem áhugasamir eru um að sækja um í sjóðinn eru hvattir til að mæta, en umsóknarfrestur rennur út 9.janúar. Í hann er hægt er að sækja um verkefnastyrki til menningarmála, styrki til atvinnu- og nýsköpunarverkefna, og stofn- og rekstrarstyrki til menningarstofnana.

Það eru þeir Skúli Gautason, menningarfulltrúi Vestfjarða og Valgeir Ægir Ingólfsson, atvinnumálafulltrúi sem kenna á flestum námskeiðanna. Í kjölfarið bjóða þeir upp á viðtöl og ráðgjöf fyrir þá sem eftir því óska, á Ísafirði er það Magnea Garðarsdóttir hjá AtVest sem mun leiða þátttakendur í sannleikann um hvernig umsóknum skal best háttað. Til viðbótar við þá staði sem áður var sagt frá verða þeir á Bókasafninu á Reykhólum á morgun, miðvikudag klukkan 17 og í sal Þróunarseturs Vestfjarða í Vestrahúsinu á Ísafirði á fimmtudag, klukkan 14.

annska@bb.is

Fiskvinnslur í þrot dragist verkfall áfram

Jón Steinn Elíasson, formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda segir stöðuna í fiskútflutningi mjög slæma. Hann segir verkfall sjómanna koma sér illa fyrir fiskvinnslur án útgerðar og minni fyrirtæki í sjávarútvegi um allt land „Síðasta ár var auðvitað mjög erfitt út af genginu. Svo kemur þetta verkfall ofan í það þannig að staðan er mjög erfið,“ segir Jón Steinn, í samtali við Vísir.

Frá því var greint í síðustu viku að Oddi á Patreksfirði og Íslenskt sjávarfang á Þingeyri hefðu tekið saman tæplega 100 manns af launaskrá hjá sér vegna vinnslustöðvunar.

„Það er skelfilegt að láta tvær heilar vikur falla dauðar niður. Það segir manni það að þeir ætla ekkert að semja heldur bíða bara eftir að ríkisstjórnin setji á þetta lög. Ég get ekki lesið annað út úr þessu. Ég ætla bara að vona að menn grípi ekki til slíkra aðgerða nema að á samninga verði reynt fyrir alvöru áður,“ segir Jón Steinn við blaðamann Vísis.

Næst verður fundað í deilu sjómanna og útgerðarmanna 5. janúar, en verkfall sjómanna hefur staðið síðan 14. desember síðast liðinn.

brynja@bb.is

Leita eftir stuðningsfjölskyldum

Félagsþjónustan við Djúp, sem er félagsþjónusta Bolungarvíkur og Súðavíkur, óskar eftir að ráða stuðningsfjölskylda sem fyrst. Stuðningsfjölskylda þýðir að barn sé tekið til móttöku eða dvalar á heimili stuðningsfjölskyldu með það að markmiði að draga úr álagi á heimili barna, styðja foreldra barnsins í forsjárhlutverki, veita börnum tilbreytingu og stuðning auk þess að gefa þeim kost á auknum félagslegum tengslum.

Um er að ræða eina helgi í mánuði þar sem börnin dvelja á heimili stuðningsfjölskyldunnar. Á Vísindavefnum er grein sem útskýrir hvað það er að vera stuðningsfjölskylda.

brynja@bb.is

Segir hækkanir OV þynna út orkujöfnun

Pétur G. Markan.

Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segir gjaldskrárhækkanir Orkubús Vestfjarða sem tóku gildi 1. janúar síðast liðinn vinna gegn niðurgreiðslu ríkisins vegna húshitunarkostnaðar.
„Auðvitað er það sárt þegar að niðurgreiðsla vegna húshitunarkostnaðar hækkar þurfi OV að hækka sína gjaldskrá á móti, sem er auðvitað ekkert annað en bein aðgerð til að taka hluta af ívilnun sem á að skila sér til íbúa svæðisins til sín. Á götumálinu myndi þetta heita að taka vont „cut“ af greiðslu ríkisins til íbúa svæðisns.“

Gjaldskrá fyrir dreifingu raforku hækkuðu um 7% og fyrir sölu um 4%. Í tilkynningu frá Orkubúinu segir að áhrif hækkunarinnar á heildarorkukostnað heimila verði minnst hjá heimilum í þéttbýli sem nota fjarvarma til upphitunar, eða 2,1%, en hækkun hjá þeim sem nota rafmagn til upphitunar verður 4,5% í þéttbýli en 5% í dreifbýli.

Pétur segir Orkubúið mismuna fólki með gjaldskránni: „Þessi hækkun minnir líka á að íbúar Súðavíkur, sem svo sannanlega búa í þéttbýli, borga dreifbýlisgjald fyrir sína húshitun, sem hækkar um 5% á meðan aðrir íbúar í þéttbýli þurfa að taka á sig 4,5% hækkun. Hvers vegna OV sér ástæðu til að mismuna fólki svona er sjálfsagt verkefni fyrir fleiri fagmenn en bara viðskipta – og verkfræðinga til að útskýra.“

Hann segist vona að Orkubú Vestfjarða taki þessi mál til endurskoðunar á árinu: „Þetta er algjörlega óskiljanlegt og skömm af fyrir OV. Ég er viss um að OV eigi eftir að endurskoða þessa afstöðu þegar líður á árið 2017. Nýtt ár er tækifæri til að vinda ofan af allskonar vitleysu. Hef fulla trú á stjórnendum OV til að gera það.“

brynja@bb.is

Hæg breytileg átt og greiðfært

Það spáir hægri breytilegri átt á Vestfjörðum í dag og skýjað með köflum. Frost 0 til 5 stig. Sunnan 8-13 metrar á sekúndu og dálítil slydda á morgun. Hiti 0 til 4 stig. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er greiðfært nánast alla leið frá Ísafirði til Reykjavíkur, en hálkublettir á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum.

brynja@bb.is

Eldur kom upp á Tálknafirði

Eldur kom upp í vélarrúmi 40 brúttótonna fiskibáts, Nonna Hebba BAm, sem þá var um tvær sjómílur frá Tálknafjarðarhöfn. Þrír voru í bátnum. Frá þessu er greint ávef Ríkisútvarpsins.

Björgunarsveitin og slökkviliðið á Tálknafirði voru ræst út, sem og og björgunarskipið Vörður á Patreksfirði. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar einnig kölluð út.

Áhöfn bátsins tilkynnti skömmu síðar að reykurinn virtist fara minnkandi eftir að þeim hefði tekist að loka rýminu sem eldurinn var í. Þá var þyrlan afturkölluð en björgunarskipið Vörður hélt áfram í átt að bátnum.

Tæpum hálftíma eftir að tilkynningin um eldinn barst, lagði Nonni Hebba að bryggju á Tálknafirði þar sem slökkvilið beið. Áhöfnin slapp ómeidd og þykir hafa sýnt snarræði og rétt viðbrögð.

brynja@bb.is

10 ár frá stofnun Matís

Matvælarannsóknir Íslands – Matís varð 10 ára þann 1. janúar. Árið 2007 tók Matís formlega til starfa er rannsóknastofa Umhverfisstofnunar, Rannsóknarstofnun landbúnaðarins (RALA), Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (RF) og líftæknifyrirtækið Prokaria, sameinuðust undir einum hatti. Þar var þá kominn sameiginlegur vettvangur til rannsókna á matvælum og í líftækni. Hjá hinu nýstofnaða fyrirtæki var áhersla lögð á að auka verðmætasköpun í íslenskri matvælaframleiðslu, matvælaöryggi og lýðheilsu.

Matís hefur vaxið fiskur um hrygg þau 10 ár sem fyrirtækið hefur starfað í þessari mynd og er í dag þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttu rannsókna- þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði. Matís veitir ráðgjöf og þjónustu til fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði, sem og íslenska ríkinu. Sem dæmi kemur Matís að þróun á nýjum vörum og ferlum fyrir fyrirtæki og hefur mikilvægu hlutverki að gegna varðandi gæði og öryggi matvæla, en fyrirtækið gegnir þó ekki eftirlitshlutverki líkt og fjallað var um í tengslum við Brúneggjamálið síðla á síðasta ári.

Fyrirtækið er með 6 starfsstöðvar á Íslandi þar á meðal á Ísafirði og Patreksfirði þar sem lögð er áhersla á þróun vinnsluferla í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu. Þar er almennri tækniráðgjöf fyrir viðskiptavini Matís sinnt, í formi hönnunar og tæknivinnu. Einnig er lögð áhersla rannsókna- og þróunarstarf, sem og á fiskeldi, einkum þorskeldi í sjó. Gunnar Þórðarson hjá Matís á Ísafirði hlaut í nóvemberlok Svifölduna ásamt og Alberti Högnasyni hjá 3X Technology. Svifaldan er veitt fyrir framúrstefnuhugmynd ársins og eru verðlaunin veitt á Sjávarútvegsráðstefnunni. Hugmynd þeirra var um ofurkælingu á botnfiski.

Á heimasíðu fyrirtækisins er nú að finna ársskýrslu síðasta árs, þar sem jafnframt er stiklað á stóru í starfssemi Matís í einskonar smásagnaformi og segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu að innihaldið sýni svo ekki verði um villst að stofnun Matís var rökrétt og mikið framfaraskref á sínum tíma. Skýrsluna má sjá hér.

annska@bb.is

460 milljarðar í fasteignakaup

Heildarviðskipti með fasteignir námu tæplega 460 milljörðum króna á árinu sem var að líða. Um 12.400 kaupsamningum var þinglýst á árinu. Meðalupphæð á hvern samning var um 37 milljónir króna.

Þar er bent á til samanburðar að árið 2015 hafi veltan verið rúmlega 370 milljarðar, kaupsamningar 11.298 og meðalupphæð hvers samnings um 33 milljónir króna. Heildarvelta fasteignaviðskipta hafi því aukist um rúmlega 24% frá árinu 2015 og kaupsamningum fjölgað um tæplega 10%.

Frá þessu er sagt í markaðsfréttum Þjóðskrár Íslands.

Heildarupphæð þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2015 var 285 milljarðar króna og fjöldi kaupsamninga var 7.369. Meðalupphæð samninga árið 2015 var um 38,6 milljónir króna. Heildarvelta á höfuðborgarsvæðinu hefur því aukist um tæplega 23% og fjöldi kaupsamninga hefur aukist um tæplega 8%, að því er fram kemur í markaðsfréttunum.

brynja@bb.is

Nýjustu fréttir